by Snæbjörn Guðmundson | 1.10.2016 | Fugl mánaðarins
Himbrimi (Gavia immer)
Himbrimi á hreiðri.
Himbrimi er af ættbálki brúsa (Gaviiformes) en þeim ættbálki tilheyra aðeins fimm tegundir og tvær þeirra lifa hér á landi. Lómurinn er hinn brúsinn sem hér á heima.
Himbrimi gólar!
Útlit og atferli
Himbrimi er stór, sterklegur og rennilegur vatnafugl, einn af einkennisfuglum íslenskra heiðavatna. Á sumrin er hann með gljásvart höfuð og háls, á hálsi er ljós kragi með svörtum langrákum og sama litamynstur á bringuhliðum. Hann er svartur að ofan, alsettur hvítum tíglum eða dílum sem eru mest áberandi á axlafjöðrum. Bringa og kviður eru hvít, vængir dökkir að ofan en hvítir að neðan. Á veturna er hann grábrúnn að ofan, með dekkri koll og afturháls, hvítur á vöngum, framhálsi og að neðan. Ungfugl er svipaður en ljósari fjaðrajaðrar mynda daufa tígla að ofan. Kynin eru eins. Goggurinn er svartur og gildur og minnir á rýting. Hann lýsist á vetrum. Fætur eru dökkbrúnir og augu dökkrauð.
Himbrimi er svipaður lómi á veturna en dekkri, stærri og þreknari en hann, með breiðari gogg sem veit beint fram; þeir frændur minna jafnframt nokkuð á skarfa og fiskiendur á sundi.
Hljóð himbrimans eru langdregin vein og köll. Hann er hávær á varptíma, sérstaklega á nóttunni, en þögull ella.
Himbrimi á flugi.
Himbrimi magalendir.
Himbriminn flýgur með kraftmiklum vængjatökum. Á flugi er hálsinn niðursveigður og fæturnir skaga aftur fyrir stélið. Hann er fimur sundfugl, mikill kafari og fremur djúpsyndur, þungur til flugs og lendir á maganum en ber ekki fæturna fyrir sig eins og flestir fuglar. Brúsar geta ekki gengið vegna þess hve fæturnir eru aftarlega á búknum. Þeir koma ekki á land nema til að verpa og skríða þá á maganum til og frá hreiðrinu. Eru venjulega stakir, í pörum eða litlum hópum.
Lífshættir
Himbrimi er fiskiæta. Á ferskvatni er silungur aðalfæðan en litlir ungar fá hornsíli. Á sjó veiðir hann m.a. marhnút, ufsa, þorsk, skera og trjónukrabba.
Hann verpur við vötn og tjarnir með silungi, frá sjávarmáli upp í 600 m hæð. Hreiðrið er stór en grunn laut á vatnsbakka eða í litlum hólma og myndast vel troðin slóð milli hreiðurs og vatns. Ungarnir fara á vatn um leið og þeir verða þurrir. Foreldrarnir fæða þá þangað til þeir geta farið að veiða sjálfir. Himbrimi er mjög heimaríkur og líður ekki önnur himbrimahreiður nærri sínu. Það er aðeins á stærstu vötnum, sem finna má fleira en eitt par. Á Þingvallavatni eru oftast 4-5 pör og 1-2 á Úlfljótsvatni.
Himbrimapar með nýklakinn unga.
Nýklakinn ungir mataður.
Himbrimi með unga á baki.
Himbrimapar með hálfstálpaða unga.
Á haustin safnast þeir stundum í hópa og er hópurinn á Þingvallavatni þekktastur, þar hafa sést yfir 200 himbrimar í október. Fuglar geta dvalið fram yfir áramót, en vatnið leggur venjulega í janúar.
Himbrimar dvelja annars á veturna við strendur og geldfugl er aðallega á sjó á sumrin.
Útbreiðsla og ferðir
Himbriminn er að nokkru farfugl. Staðfuglar hafa vetursetu við ströndina en farfuglar eru við Bretlandseyjar og Vestur-Evrópu. Ísland er eini varpstaður þessa vesturheimsfugls í Evrópu en hann er algengur á meginlandi Norður-Ameríku og á Grænlandi.
Himbrimi í vertrarklæðum.
Þjóðtrú og sagnir
Himbrimans er helst getið í þjóðtrúnni sem veðurspáfugls:
„Brúsinn eða himbriminn, er einhver með allra fegurstu og stærstu sundfuglum hér og hefur þótt góður spáfugl. Hann hefur og fagra rödd og mikla. Þegar hann gólar á vatni segja menn, að hann „taki í löppina“, og þyki það vita á vætu. En fljúgi hann um loftið með miklum gólum, veit hann veður og vind í stél sér. “
Íslenskar þjóðsögur og –sagnir. Sigfús Sigfússon.
Sömuleiðis nefnir Jónas Jónasson frá Hrafnagili himbrimann sem veðurspáfugl.
Kveðskapur
Himbrimi
á djúpu
vatni
fjallsins
bláa
fjarlægur
söngur
dimmur
fagur
sumar
nætur
hljóðar
lofar
lífið
góða
snertir
landið
hreina
eina
Eftir Ferdinand Jónsson, úr ljóðabókinni Innsævi.
Himbrimi stígur dans á Kaldbakstjörn við Húsavík.
…
Himbriminn kallast
á við kyrrðina og kveðst
á við sólina
…
Úr ljóðinu Myndir af Melrakkasléttu eftir Andra Snæ Magnason.
…
Og vinur minn himbrimi af vatninu til mín kallar:
Velkominn hingað í bláheima, drengur minn!
Ég svara af bragði: Ég veit hvar frúsla þín verpir,
og vandlega skal ég þegja um bústað þinn!
Úr ljóðinu Að Skálabrekku eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson.
Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.
by Snæbjörn Guðmundson | 1.09.2016 | Fugl mánaðarins
Helsingi (Branta leucopsis)
Helsingjahjón, kvenfuglinn (t.h.) safnar kviðfitu sem orku fyrir farflug og varp.
Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Útlit og atferli
Helsinginn er önnur tveggja „svartra“ gæsa sem fara um landið, hin er margæs. Þó hefur í auknum mæli orðið vart við ættingja þeirra, kanadagæsina, á síðustu árum.
Helsingi er meðalstór gæs, á stærð við heiðagæs og blesgæs. Hann verður best greindur á áberandi skörpum skilum dökka litarins að ofan og hvíta litarins að neðan, svo og hvítu andliti, kverkum og vanga. Hann hefur misáberandi svarta augnrák, er svartur á kolli, hnakka, hálsi og bringu, og bak og yfirvængir eru blágrá með hvítjöðruðum svörtum þverrákum. Vængir virðast gráir að ofan á flugi, dökkir að neðanverðu. Fuglinn er ljósgrár að neðan, með hvítar stélþökur og svart stél. Fullorðinn helsingi og ungfugl eru mjög líkir. Kynin eru eins, en karlfuglinn ívið stærri. Goggurinn er stuttur og svartur, fætur svartir og augu brún. Gefur frá sér hvellt gjamm sem minnir á hundgá.
Helsingjar við Jökulsárlón. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Helsingjar á flugi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Helsingi flýgur sjaldnar í oddaflugi en aðrar gæsir, sem sjást hér reglulega, en er oft í óskipulegum, þéttum hópum eða löngum reinum. Er stærri en margæs og með hægari vængjatök.
Lífshættir
Helsinginn er grasbítur, hann sækir talsvert í tún á vorin, en einnig í úthaga og votlendi. Varpfuglar ala unga sína við ár og jökullón. Fæða þeirra er væntanlega kornsúra, starir og sef. Ber eru mikilvæg fæða á haustin ásamt kornsúrurótum og stararfræjum. Helsingi nýtir sér mýrar og tún nærri ströndinni á vorin, auk þess gróið land á hálendinu og lyngmóa á haustin.
Helsingjar að vorlagi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Helsingjahópur í Langadal. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Gæsir parast til langframa, kvenfuglinn ungar út eggjunum meðan karlinn stendur vörð og hjónin sjá saman um að ala önn fyrir ungunum. Ungar andfugla eru bráðgerir, þeir yfirgefa hreiðrið strax og þeir verða fleygir. Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Flugfjaðrir í vexti (líka nefndar blóðfjaðrir) eru mjög blóðríkar og blæðir úr þeim ef fuglarnir verða fyrir einhverju hnjaski. Því er talað um að fuglarnir séu í sárum eða særist á þessum tíma. Fullorðnu fuglarnir verða oft fleygir að nýju um svipað leyti og ungarnir verða fleygir.
Helsingjahjón með unga í Austur-Skaftafellssýslu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Helsingjahjón með unga í Austur-Skaftafellssýslu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Helsingjahjón með unga í Austur-Skaftafellssýslu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Útbreiðsla og far
Helsingjar eru fyrst og fremst fargestir hér á landi. Varpstofn í Norðaustur-Grænlandi. hefur viðkomu hér á ferð sinni til og frá vetrarstöðvum á Bretlandseyjum. Helstu viðkomustaðirnir á vorin eru í Húnavatnssýslum og Skagafirði, þar sem hátt í 70% af Austur-Grænlandsstofninum dvelur í 3-4 vikur. Á haustin staldra helsingjarnir aftur á móti við á sunnanverðu miðhálendinu og í Skaftafellssýslum. Utan Grænlands verpa helsingjar á Svalbarða og Novaja Zemlja. Á þessum norðlægu slóðum verpa helsingjarnir aðallega í klettum.
Helsingjar á Jökulsárlóni. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Fyrsta bókfærða varp helsingja hér á landi var í Hörgárdal 1927. Reglulegt varp hófst í Breiðafirði árið 1964. Helsingjar urpu þar í eyjum um 20 ára skeið. Árið 1988 fundust helsingjar á hreiðrum í hólmum á jökullóni í Austur-Skaftafellssýslu. Síðan hefur þetta varp vaxið og dafnað og helsingjar numið land á nokkrum öðrum stöðum í Skaftafellssýslum, m.a. við Hólmsá í Vestursýslunni, þar sem þeir urpu fyrst 1999. Helsingjar hafa orpið í Seley við Reyðarfjörð undanfarin ár, á Snæfellsnesi um þriggja ára skeið og víðar um land. Sumarið 2014 var talið að stofninn teldi rúmlega 700 varppör og á annað þúsund gelfugla. Heildarstærð íslenska varpstofnsins að hausti, með ungum, gæti því verið 4-5000 fuglar.
Helsingjar síðsumars á Hestgerðislóni í Austur-Skaftafellssýslu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Þetta landnám helsingja er sérstakt og vöxtur stofnsins hraður. Helsingjar hafa væntanlega komið hér við í þúsundir ára á ferðum sínum milli varp- og vetrarstöðva, en afhverju hefja þeir varp nú? Afhverju hafa ekki fleiri umferðarfuglar eða fargestir farið að verpa hér, eins og margæs og blesgæs, svo og vaðfuglarnir rauðbrystingur, sanderla og sérstaklega tildra. Eini fargesturinn fyrir utan helsingja, sem hefur numið land, er fjallkjói. Báðir þessir fuglar verpa á norðlægum slóðum og fara því í „öfuga átt”, miðað við hlýnun jarðar.
Nákvæmlega er fylgst með stofnstærð gæsa og álftar á vetrarstöðvum þeirra á Bretlandseyjum og hérlendis, eftir því sem við á. Því eru stofnstærðir og stofnsveiflur þessara fugla betur þekkt en margra annarra. Talningar eru einnig gerðar á meginlandi Evrópu. Stofn helsingja hefur stækkað, allt frá sjöunda áratuginum, þó með smá niðursveiflu á þeim áttunda. Árið 1959 var stofninn 8300 fuglar, en árið 2013 var hann 80.700 fuglar, árunum 2008 til 2013 var heildaraukningin 14%. Þessi aukning er talin eiga rætur í lægri dánartíðni m.a. vegna þess að veiðum hefur verið hætt á Grænlandi, fremur en því að varpárangur hafi batnað.
Helsingjafjölskylda við Jökulsárlón, ungarnir eru fullvaxnir. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Þjóðtrú og sagnir
Forðum vissu íslendingar ekki hvað varð af helsingjanum á milli þess sem hann kom við á vorin og síðan aftur á haustin. Þá varð til sú þjóðsaga að helsinginn dveldi þess á milli í sjónum. Hrúðurkarlategund, sem ber heitið helsingjanef (Lepas anatifera), ber þjóðtrúnni vitni. Helsingjanef er frábrugðið fjörukörlum, hinum hefðbundnu hrúðurkörlum. Ólíkt þeim festa þau sig við undirlagið með nokkurs konar stilki. Skelin er einnig nokkuð frábrugðin en hún minnir á fuglsgogg. Algengast er að helsingjanef komi sér fyrir á talsverðu dýpi, en það þekkist þó að þau festi sig á einhverju rekaldi og geta þá borist með því langar leiðir og upp í fjöru.
Helsingjanef á netakúlu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.
by Snæbjörn Guðmundson | 17.08.2016 | Fréttir
Að vanda verður líf og fjör víða í Reykjavík á Menningarnótt næstkomandi laugardag. Náttúruminjasafnið tekur þátt í sérstakri dagskrá sem verður í boði í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Þar stendur yfir grunnsýningin Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim, sem er samsýning sex safnastofnana landsins, þar á meðal Náttúruminjasafnsins.
Safnahúsið verður opið frá kl. 10 til 22 og er aðgangur ókeypis.
Dagskrá Safnahússins á Menningarnótt 20. ágúst 2016, sem Þjóðminjasafn Íslands heldur utan um, er eftirfarandi:
Kl. 11: A Guided tour in English. Points of View – a journey through the visual world of Iceland.
Kl. 13: Dj Óli Dóri hitar upp fyrir gesti og gangandi.
Kl. 14: Ljúfir tónar. Sigríður Thorlacius og Guðmundur Óskar spila fyrir gesti á útisvæði Kaffitárs.
Kl. 14: Leiðsögn á íslensku. Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim.
Kl. 15 – 17: Geirfuglagrímur og fleira spennandi. Listasmiðja fyrir alla fjölskylduna, Ásdís Kalman leiðbeinir.
Kl. 17: Ólöf Nordal myndlistarmaður og Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur spjalla um sýninguna Geirfugl †Pinguinus impennis. Aldauði tegundar – síðustu sýnin.
Augu síðustu geirfuglanna tveggja sem drepnir voru í Eldey 1844. Ljósmynd: Ólöf Nordal.
Vakin er sérstök athygli á síðustu tveimur dagskrárliðunum þar sem geirfuglinn kemur við sögu, en hann er í Safnahúsinu á vegum Náttúruminjasafnsins.
Ólöf Nordal myndlistarmaður og Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur munu taka á móti gestum kl. 17 og spjalla um sýninguna Geirfugl †Pinguinus impennis. Aldauði tegundar – síðustu sýnin, sem er sérsýning í Safnahúsinu og samstarfsverkefni Náttúruminjasafns Íslands og Ólafar Nordal myndlistarmanns í samvinnu við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Náttúrufræðistofnun Íslands.
Á sérsýningunni gefur m.a. að líta geirfuglinn sem þjóðin eignaðist árið 1971, uppdrátt af Geirfuglaskeri frá því um 1770, ljósmyndaröð af innyflum síðustu geirfuglanna tveggja sem drepnir voru í Eldey árið 1844 og myndskeið af fuglaveiðum í Vestmannaeyjum. Ólöf og Jóhann Óli leiða gesti um sýninguna og spjalla um ýmis málefni sem leita á hugann í tengslum við efnið.
Verið velkomin!
by Snæbjörn Guðmundson | 1.08.2016 | Fugl mánaðarins
Rauðhöfðaönd (Anas penelope)
Útlit og atferli
Rauðhöfðaönd er meðalstór önd, nokkru minni en stokkönd, með hnöttótt höfuð, stuttan háls, lítinn gogg, fleyglaga stél og langa, mjóa vængi.
Karlfuglinn, steggurinn, er með rauðbrúnt höfuð og rjómagula blesu frá goggrótum aftur á kollinn og grængljáandi rák aftan augna. Hann er rauðbleikur á bringu, gráyrjóttur að ofan og á síðum, stél svart með gráum jöðrum, áberandi hvítur blettur milli stéls og síðu. Axlafjaðrir eru svartar með hvítum bryddingum. Fullorðinn steggur er með hvítan áberandi blett á framvæng, sem myndar hvítt band meðfram síðum á aðfelldum væng. Ársgamall steggur er án þessa einkennis.
Rauðhöfðasteggir. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Rauðhöfðapar.
Í felubúningi er steggurinn dekkri en kolla, oft rauðbrúnni og vængbletturinn sjáanlegur. Andasteggir skipta um bolfiður áður en þeir fella flugfjaðrir og fá svonefndan felubúning sem er oft svipaður búningi kollunnar. Felubúningurinn er því eins konar sumarbúningur þeirra. Þeir skarta síðan skrúðbúningi eftir að þeir verða fleygir að nýju.
Kvenfuglinn, kollan, er grá eða dökkrauðbrún, flikrótt að ofan með jafnlitari síður og bringu. Framhluti vængs er grár. Bæði kyn hafa hvítan kvið og dökkgræna vængspegla, steggirnir eru með svarta jaðra en á kollunum eru speglarnir dauflitari og með hvíta jaðra. Goggurinn er mjór og blágrár með svörtum broddi, fætur blágráir eða brúnir með dekkri fitjum, augu brún.
Rauðhöfðapar nærri Stokkseyri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Rauðhöfðaönd flýgur hratt með örum vængjatökum. Hún virðist fremur framþung og er oft með inndreginn háls á sundi. Sést oft á beit á landi. Hún er félagslynd utan varpstöðva og mynda steggir í felli oft stóra hópa. Hljóð fuglsins eru blístur hjá steggnum en lágt malandi urr hjá kollunni.
Lífshættir
Rauðhöfðinn er mestur grasbítur meðal anda, bítur jafnt í vatni sem á landi. Þráðnykra, mýrelfting og gras eru mikilvægar fæðutegundir. Hann notfærir sér gróður sem álftir og kafendur róta upp á yfirborðið. Etur grænþörunga og marhálm í sjávarfjörum.
Á sumrin og á fartíma er kjörlendið grunn lífrík vötn og tjarnir, óshólmar og stararflóð. Fuglinn verpur í mýrum og móum; hreiður er vel falið milli þúfna, í lyngi eða runnum, fóðrað með dúni. Staðfuglar dvelja á lygnum víkum og vogum og lítils háttar á auðum vötnum, tjörnum og ám inn til landsins.
Rauðhöfðasteggir í felli. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Útbreiðsla og ferðir
Rauðhöfði verpur á láglendi um land allt en er algengastur á N- og NA-landi. Stærstur hluti stofnsins hefur vetursetu á Bretlandseyjum, aðallega í Skotlandi. Íslenskir rauðhöfðar flakka þó víða, nokkrir hafa fundist í N-Ameríku, austur í Síberíu og suður að Miðjarðarhafi. Kollur sem hafa vetursetu í N-Ameríku parast stundum þarlendum ljóshöfðasteggjum og fylgja steggirnir kollunum hingað á varpstöðvarnar. Eftir varp rofna paratengslin. Sumir steggjana dvelja hér langdvölum á sama svæðinu.
Rauðhöfðahreiður í friðlandi í Flóa. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Rauðhöfðakolla með unga.
Nýfleygur rauðhöfðaungi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Milli 2000 og 4000 fuglar hafa hér vetursetu og sjást þeir um land allt, þó mest á S- og SV-landi. Varpheimkynnin eru um norðanverða Evrópu og Asíu austur að Kyrrahafi.
Þjóðtrú og sagnir
Afar lítið er um rauðhöfðann í íslenskri þjóðtrú og á hann það sammerkt með öðrum öndum. Yfirleitt er talað um endur sem heild í þjóðtrú annarra landa.
Rauðhöfðar á Opnum í Ölfusi að vetri.
Hópur rauðhöfða að vetri við Stokkseyri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Þú bíður
Ég veit þú bíður mín
handan við dyrnar
hljóður og þungbúinn
en ég er að hlusta
á söng sumargesta minna
úr tjarnarsefinu.
Þeir spegla sig í lygnunni
engin vindhviða gárar vatnið
og sólin gengur seint til viðar,
rauðhöfðaönd og álft
óðinshani og lómur
og duggöndin fagra
segja mér drauma sína.
Hví skyldi ég haska mér
um dyr þínar?
Ég veit að haustið kemur
með myrkur í fanginu
en þangað til hlusta ég á sönginn
á nið árinnar,
tala við sólina og hafið
um tímann
og það sem er handan við dyrnar.
Eftir Rögnvald Finnbogason.
Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.
by Snæbjörn Guðmundson | 1.07.2016 | Fugl mánaðarins
Þúfutittlingur (Anthus pratensis)
Þúfutittlingur. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Útlit og atferli
Þúfutittlingur er algengasti spörfugl landsins. Hann er stundum nefndur grátittlingur eða jafnvel götutittlingur. Hann er einn af okkar bestu söngfuglum og minnir söngflug hans á hinn rómaða lævirkja.
Þúfutittlingur er minni en snjótittlingur, hálsstuttur, með breiða, stutta vængi og fremur kubbslegur. Hann er einkennasnauður fugl, grágrænn, grábrúnn eða gulbrúnn að ofan. Hann er svartrákóttur að ofan, á bringu og síðum, ljósari á kverk og að neðan. Á höfði er hann með ljósa brúnarák og skeggrák og dauf vængbelti, hvítir stéljaðrar eru greinilegir á flugi. Á haustin eru ungfugl og fullorðinn fugl rákóttari að ofan og gulari á síðum.
Goggur er dökkur, grannur og stuttur. Fætur ljósir, bleikbrúnir og augu dökkbrún. Fótur spörfugla er svonefndur setfótur, en goggurinn er lagaður að fæðunni. Skordýraætur (t.d. maríuerla, þúfutittlingur, músarrindill og þrestir) hafa grannan gogg. Fræætur (t.d. snjótittlingur og auðnutittlingur) eru keilunefir, með stuttan og þykkan gogg.
Fljúgandi þúfutittlingur. Söngflug þúfutittlinga minnir á söngflug lævirkja. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Flug þúfutittlings er reikult og flöktandi. Hann flýgur stundum beint upp í loftið, lætur sig falla niður aftur á svifflugi og syngur um leið hraðan, dillandi söng. Gefur annars frá sér mjóróma tíst. Hann flögrar mikið um og tyllir sér á þúfur eða í tré þess á milli, er félagslyndur utan varptíma.
Lífshættir
Þúfutittlingur er dýraæta, etur margs kyns smádýr, bæði fullvaxin og á lirfu- og púpustigi. Etur stundum fræ og smávaxin skeldýr.
Þúfutittlingur í Hofi í Öræfum. Þúfutittlingar eru skordýraætur. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Varpkjörlendið er margvíslegt; mýrar, lyngheiðar, grasmóar, kjarr- og skóglendi, gróin hraun o.fl. á láglendi og sums staðar á hálendinu. Hann gerir sér vandaða hreiðurkörfu, vel falda utan í þúfu eða öðrum gróðri. Verpur oft tvisvar á sumri. Hann sækir í fjörur, mýrar og jafnvel húsagarða utan varptíma.
Hreiður þúfutittlings. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Útbreiðsla og ferðir
Þúfutittlingurinn er alger farfugl og útbreiddur um land allt, þar sem búsvæði hans er að finna, og er hann talinn algengasti landfuglinn okkar, með stofnstærð á milli 500.000 og 1.000.000 varppör. Stöku sinnum sjást fuglar hér að vetrarlagi. Hann hefur vetursetu frá SA-Englandi, suður um Vestur-Frakkland og Spán, suður til NV-Afríku. Þúfutittlingur er annars algengur varpfugl í Evrópu og austur til Síberíu.
Þjóðtrú og sagnir
Í íslenskri þjóðtrú þótti það vísa á gott ef smáfugl hljóp á veginum á undan lestarmanni, eins og siður er þúfutittlinga. Þó var ekki öll þjóðtrú jafn jákvæð í garð þúfutittlingsins. Hann hefur þótt valda undirflogum (júgurmeinum) af líkum orsökum og steindepill. Hann er sagður fljúga aftan í örninn og bíta sig þar fastan. Sumir sögðu hann flygi út um munninn og dræpi báða (Íslenskar þjóðsögur og sagnir VI, Sigfús Sigfússon).
Þúfutittlingur. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Grátittlingurinn
…
Kalinn drengur í kælu
á kalt svell, og ljúft fellur,
lagðist niður og lagði
lítinn munn á væng þunnan.
Þíddi allvel og eyddi
illum dróma með stilli
sem að frostnóttin fyrsta
festi með væng á gesti.
…
Lítill fugl skaust úr lautu,
lofaði guð mér ofar,
sjálfur sat eg í lautu
sárglaður og með tárum.
Felldur em eg við foldu
frosinn og má ei losast;
andi guðs á mig andi,
ugglaust mun eg þá huggast.
Jónas Hallgrímsson
Tittlingur í mýri
Tittlingar í mýri
tína strá og ber,
lifa og leika sér
og eignast ævintýri.
…
Bærinn hola í barði.
Búskapurinn vex,
eggin urðu sex,
líkust lambasparði.
…
Tittlingur í mýri
tínir berin blá,
kemur hann heim á kvöldin
og kúrir mér hjá.
Örn Arnarson
Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.