by Snæbjörn Guðmundson | 2.12.2016 | Fugl mánaðarins
Fjölmóður eða sendlingur (Calidris maritima)

Sendlingur í vetrarskrúða.
Sendlingur, sem Jón lærði Guðmundsson kallar fjölmóð, er af snípuætt og ættkvíslinni Calidris, en henni tilheyra m.a. lóuþræll, rauðbrystingur og sanderla, auk þess títur sem flækjast hingað. Dæmi um títur sem sjást hér nokkuð reglulega eru spóatíta, veimiltíta, vaðlatíta og rákatíta.
Útlit og atferli
Sendlingur er lágfættur og kubbslegur, með stuttan háls og fremur stuttan gogg. Hann er dekkstur litlu vaðfuglanna og líka einn af þeim minnstu, litlu stærri en sandlóa og lóuþræll. Á sumrin er hann grá- og brúnflikróttur að ofan, á höfði og bringu, en hvítur á kviði. Á flugi sjást mjó, ljós vængbelti og svört miðrák í hvítum gumpi. Á vetrum er sendlingur allur grárri. Litur ungfugla á haustin er mitt á milli litar sumar- og vetrarfiðurs fullorðinna. Dökkur, lítið eitt niðursveigður goggur er gulur við rætur. Fætur eru gulleitir. Ljósir hringir eru um dökkbrún augun.

Sendlingur í sumarskrúða.

Sendlingur í sumarskrúða.
Sendlingur flýgur lágt og beint og syndir auðveldlega. Á varpstöðvunum er hann oftast lítið áberandi og laumulegur, nema kannski helst þegar tilhugalífið stendur sem hæst á vorin. Þá stunda karlarnir söngflug af mikilli elju, jafnframt sem þeir lyfta öðrum vængnum til að sýna sig fyrir dömunum. Karlarnir sjá um uppeldi unganna, á varptíma reyna þeir að afvegaleiða óvelkomna gesti með því að hlaupa um úfnir eða þykjast vera vængbrotnir. Taki maður sendlingsunga í lófa sér, eiga karlarnir það jafnvel til að setjast á ungana í lófanum.

Hin einkennandi vænglyfta karlsendlings í tilhugalífinu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Sendlingur er félagslyndur utan varpstöðvanna og oft í stórum hópum. Hópar á flugi sýna til skiptis dökkt bak og ljósan kvið. Sendlingurinn er dagfarsprúður fugl, með gott lundarfar og spakur og flýgur oft ekki upp fyrr en komið er alveg að honum. Oft má sjá hann sitja á bátum og bryggjum á veturna. Sendlingur gefur frá sér stutt og lágt tíst og á varpstöðvum dillandi vell.
Lífshættir
Fæðan á varptíma er skordýr, köngulær og aðrir hryggleysingjar. Þangdoppur, smágerðar samlokur, burstaormar, krabbadýr og þangflugulirfur eru aðalfæðan í fjörum.

Hópur sendlinga í fjöru í Sandgerði. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sendlingur að vetri í fjöru. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Sendlingur verpur aðallega til fjalla en einnig á annesjum og hrjóstrum á láglendi. Kjörlendið er margs konar; berangur, mosabreiður, lyngmóar og melar, venjulega nærri vatni. Hreiðrið er grunn laut á berangri, oft upp við steina eða grasþúfu, lítilfjörlega fóðrað að innan. Eftir klak yfirgefur kerlan fjölskylduna, en karlinn sér um uppeldi unganna. Utan varptíma er sendlingurinn helst í grýttum fjörum og á leirum.

Sendlingur á hreiðri við Veiðivötn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Nýklakinn sendlingsungi. Við Skálasnagabjarg, Snæfellsnesi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Urptin er fjögur egg, eins og hjá flestum vaðfuglum. Varptíminn er frá miðjum maí og síðustu ungar verða fleygir um miðjan ágúst. Álegan tekur um þrjár vikur og ungarnir verða fleygir á svipuðum tíma.

Fullvaxinn og fleygur sendlingsungi. Í Flatey á Skjálfanda. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Útbreiðsla og ferðir
Sendlingur er allalgengur en fremur strjáll varpfugl. Hann er algengasti vaðfuglinn hérlendis á veturna og sá eini sem sést reglulega á Norður- og Austurlandi. Sendlingar frá norðlægari slóðum, kanadísku heimskautaeyjunum og ef til vill Grænlandi, koma hér við vor og haust á leið sinni milli varpstöðvanna og vetrarstöðva á Bretlandseyjum og V-Evrópu og einhverjir hafa hér vetrardvöl. Sendlingur er hánorrænn fugl, varpstöðvarnar eru við Atlantshafshluta N-Íshafsins, á Grænlandi og eyjum við Norður-Íshafið, svo og á Norðurlöndum.
Íslendingar bera mikla ábyrgð á þessari tegund vegna þess að áætlað hefur verið að hér séu 30-40% af sendlingum heimsins, en talið er að íslenski varpstofninn sé um 30.000 pör. Þar sem sendlingar eru norrænir fuglar þá má búast við að hlýnandi loftslag sé slæmt fyrir þá.

Sendlingar á flóðsetri í Reykjavíkurhöfn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sendlingahópur á flugi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Þjóðtrú og sagnir
Íslensk þjóðtrú á ekki margt um sendlinginn. Jón Guðmundsson lærði segir þetta í riti sínu Íslands aðskiljanlegar náttúrur: „Fjölmóðurinn, eður selningurinn. Sumir halda sitthvorn, en eins stærð, lit og eðli hafa þeir; halda sig við ystu fjörur á veturna, en verpur við fremstu fjalla jökla á sumarið; hann er fugla meinlausastur, en óttast þó of margt. Einnig það, þegar fjörur eru, að sjórinn muni mega svo um síðir allur upp þorna… Eru því fullir og kátir um flæðurnar”.
Önnur skemmtileg nöfn, fyrir utan fjölmóð og selning, eru fjallafæla, fjörumús, heiðalæpa, heiðarotta og flóðsvala.

Sendlingar við Reykjavíkurhöfn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Kveðskapur
Tíðara Sörli en sendlingur á leiru
sinastælta bar í gljúfrum leggi,
glumruðu Skúla skeifurnar um eyrum,
skóf af klettunum í hófahreggi.
Úr Skúlaskeiði eftir Grím Thomsen.
Fimir krabbafætur
fyrstir vildu sparka
spor í sand,
en sendlingurinn saumaði
sólskinið, með flónni,
fast við land.
Úr Vordegi á Eyrarbakka eftir Friðrik Erlingsson.
Þúsund ár, hefur skarfurinn þurrkað sinn væng
Og þvaðrað við Sendling og Tjald sem í þaranum tifa
Selurinn blundað á sinni votu sæng
Í sólskini þegar öllum finnst gaman að lifa.
Úr Kolbeinshaus eftir Þórhall Gauta Bárðarson.
Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.
by Snæbjörn Guðmundson | 17.11.2016 | Fréttir
Út er komin bókin Jón lærði og náttúrur náttúrunnar eftir Viðar Hreinsson bókmenntafræðing og samstarfsmann Náttúruminjasafnsins. Það er Lesstofan sem gefur bókina út í samstarfi við Náttúruminjasafn Íslands. Áhugamenn um íslenskan menningararf og náttúrusögu hafa ærið tilefni til að fagna þessu merka verki Viðars.

Kápa bókarinnar Jón lærði og náttúrur náttúrunnar.
Jón lærði Guðmundsson (1574-1658) var skáld, læknir, náttúrufræðingur, listaskrifari, málari, tannsmiður og sjálflærður andófsmaður og fyrstur til að skrifa rit á íslensku um náttúru Íslands, hið merka verk „Ein stutt undirrétting um Íslands aðskiljanlegar náttúrur“. Jón lærði tók einnig saman náttúrulækningaritið „Um nokkrar grasanáttúrur.“
Bókin er mikil að vöxtum, 760 bls., ríkulega myndskreytt og afrakstur um sex ára rannsóknastarfs Viðars. Í bókinni birtist náttúruskyn 17. aldar í gegnum hugarheim Jóns lærða. Ævi Jóns myndar söguþráð bókarinnar en grunntónn verksins er samband Jóns og samtíðar við náttúruna í víðu hugmyndafræðilegu samhengi, m.a. í tengslum við samtímamenn í Evrópu á sviði náttúrufræða.
Viðar hefur unnið að verkinu um Jón lærða Guðmundsson frá árinu 2011, fyrst undir merkjum ReykjavíkurAkademíunnar, en síðar í samstarfi við Náttúruminjasafnið þar sem Viðar hefur haft vinnuaðstöðu sl. tvö ár. Mikill fengur er að þessu samstarfi fyrir Náttúruminjasafnið.
Í tilefni af útgáfu bókarinnar standa Lesstofan og Náttúruminjasafnið að hófi föstudaginn 25. nóvember kl. 17 í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Höfundur les úr bókinni og tónlist innblásin af Jóni lærða og verkum hans verður frumflutt. Léttar veitingar verða á boðstólum og eru allir velkomnir.
by Snæbjörn Guðmundson | 1.11.2016 | Fugl mánaðarins
Bjartmáfur (Larus glaucoides)

Bjartmáfur á 1. vetri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Útlit og atferli
Bjartmáfur er vetrargestur sem líkist mjög hvítmáfi (Larus hyperboreus) en er minni, fíngerðari, með hnöttóttara höfuð og brattara enni, frábrugðið flötu höfði hvítmáfs. Búningar og búningaskipti fullorðinna og ungra bjartmáfa eru svipuð og hjá öðrum stórum máfum. Skiptin, frá því að þeir skrýðast fyrsta ungfuglabúning uns kynþroska er náð, eru afar flókinn og er greining ungra máfa eitt erfiðasta verkefnið sem fuglaskoðarar standa frammi fyrir. Máfar skipta að hluta um fjaðurham á fyrsta hausti. Þá fella þeir höfuð- og bolfjaðrir. Eftir það skipta þeir um fjaðrir tvisvar á ári, á haustin (ágúst−október) fella þeir allt fiður, en höfuð- og bolfiður síðla vetrar (febrúar−apríl).
Fullorðinn bjartmáfur er að mestu hvítur, ljósgrár á baki og ofan á vængjum með hvíta vængbrodda. Á veturna er hann brúnflikróttur á höfði. Ungfugl á fyrsta ári er allur ljósbrúnflikróttur, aðeins brúnni að ofan og án dökks jaðars á stéli. Hann lýsist smám saman, getur á öðru ári verið alhvítur og er að mestu kominn í fullan búning á þriðja ári, en er þó með eitthvað af brúnum flikrum á vængjum og stéli. Það einkennir fullorðinn bjartmáf að hvergi sést dökkur litur í búningi hans, en fullorðinn silfurmáfur (Larus argentatus) hefur hvítt og svart mynstur á vængendum. Hinn alíslenski hvítmáfur er mjög líkur bjartmáfi. Hann dvelur hér allt árið og varpstöðvarnar eru á Vesturlandi og Vestfjörðum. Hvítmáfur er með kraftmeiri gogg, flatara enni og vængir ná ekki eins langt aftur fyrir stél á sitjandi fugli og hjá bjartmáfi. Vængir eru einnig hlutfallslega breiðari.

Bjartmáfur á 1. vetri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Bjartmáfur á 2. vori. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Bjartmáfur á 2. vetri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Bjartmáfur á 3. vori. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Goggur er gulur með rauðum bletti framarlega á neðra skolti á fullorðnum fugli, mun styttri og grennri en á hvítmáfi, en bleikur með dökkan brodd á ungfugli. Fætur eru grábleikir–rauðbleikir, styttri og skærlitari en á hvítmáfi. Á sumrin eru fullorðnir fuglar með rauðlitan augnhring.
Vængir bjartmáfs eru lengri og mjórri en hvítmáfs og ná lengra aftur fyrir stélið, hann virðist léttari og fimari á flugi. Er mun léttari á sundi en hvítmáfur, minnir á fýl (Fulmarus glacialis), afturhlutinn vísar á ská upp á við en á hvítmáfi virðist hann láréttur. Gefur frá sér svipuð hljóð og aðrir máfar.

Fullorðinn hvítmáfur á Melrakkaey í Grundarfirði, Snæfellsnesi. Til samanburðar á bjartmáfi.
Lífshættir
Fæða bjartmáfa er fiskur, t.d. sandsíli og loðna, svo og fiskúrgangur. Einnig þangflugur, krabbar og skeldýr. Bjartmáfur aflar sér aðallega fæðu á sundi, hleypur stundum eftir yfirborðinu með blakandi vængi og tínir upp agnir.

Fullorðinn bjartmáfur dansar á vatnsborðinu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Bjartmáfur heldur sig mest með ströndum fram, oft með öðrum máfum. Sést sjaldan á landi, þó stundum á tjörnum og sjávarlónum og þá helst síðla vetrar eða snemma vors. Best er að skoða hann í höfnum eða við ræsi, hann er víða algengasti eða einn algengasti máfurinn á slíkum stöðum á veturna. Meðfylgjandi myndir eru flestar teknar í Þorlákshöfn, en tvær á Ólafsfirði og ein á Stokkseyri.

Bjartmáfahópur í Þorlákshöfn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Útbreiðsla og ferðir
Bjartmáfurinn er vetrargestur frá varpstöðvum á Grænlandi, Baffinslandi og nálægum eyjum, oft í stórum hópum. Fyrstu fuglarnir koma til landsins upp úr miðjum september og hann er sennilega alkominn í október. Fullorðnir fuglar halda fyrr frá landinu á útmánuðum, eru að mestu farnir í marslok, en ungfuglar sjást áfram fram eftir maí. Sést stöku sinnum á sumrin. Talið er að hér dvelji 15−20 þúsund fuglar á hverjum vetri, sem er nálægt því að vera 5−8% af áætluðum heimsstofni. Sú tala er þó sennilega of lág. Í árlegum talningum á fuglum í svartasta skammdeginu, sem eru kallaðar vetrarfugla- eða jólatalningar, hafa sést 2800–5000 bjartmáfar ár hvert síðastliðin 5 ár og hafa þeir fundist á um helmingi talningarsvæða (af 150–180 alls). Enska nafn fuglsins er Iceland Gull, sem er skondið vegna þess að hann verpur ekki hér. Hann er alfriðaður.
Þjóðtrú og sagnir
Engin íslensk þjóðtrú tengist bjartmáfi sérstaklega, enda vafasamt að fólk hafi greint hann frá hvítmáfi fyrr á öldum. Þjóðtrú um máfa er yfirleitt tengd sjó og sjósókn. Máfar vísa á fiskitorfur. Víða í evrópskri þjóðtrú eru máfar taldir sálir þeirra sem hafa farist á sjó.
Kveðskapur
Eftir endalaus skammdegiskvöldin
Saltur sjór sem skvettist
endalaus dægur haustsins
þegar dimman lengist – dagurinn styttist.
Hvítur mávur sem flögrar
sest á bryggjusporð, mastur skips
meðan fólkið þyngist á brún – dagurinn styttist.
Seinna – löngu seinna
eftir endalaus skammdegiskvöldin
takast sólin og himinninn í hendur
og lita veröldina bláa.
Lita veröldina bláa
og dagurinn lengist á ný.
Eftir Elísabetu Þorgeirsdóttur
Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.
by Snæbjörn Guðmundson | 1.10.2016 | Fugl mánaðarins
Himbrimi (Gavia immer)

Himbrimi á hreiðri.
Himbrimi er af ættbálki brúsa (Gaviiformes) en þeim ættbálki tilheyra aðeins fimm tegundir og tvær þeirra lifa hér á landi. Lómurinn er hinn brúsinn sem hér á heima.

Himbrimi gólar!
Útlit og atferli
Himbrimi er stór, sterklegur og rennilegur vatnafugl, einn af einkennisfuglum íslenskra heiðavatna. Á sumrin er hann með gljásvart höfuð og háls, á hálsi er ljós kragi með svörtum langrákum og sama litamynstur á bringuhliðum. Hann er svartur að ofan, alsettur hvítum tíglum eða dílum sem eru mest áberandi á axlafjöðrum. Bringa og kviður eru hvít, vængir dökkir að ofan en hvítir að neðan. Á veturna er hann grábrúnn að ofan, með dekkri koll og afturháls, hvítur á vöngum, framhálsi og að neðan. Ungfugl er svipaður en ljósari fjaðrajaðrar mynda daufa tígla að ofan. Kynin eru eins. Goggurinn er svartur og gildur og minnir á rýting. Hann lýsist á vetrum. Fætur eru dökkbrúnir og augu dökkrauð.
Himbrimi er svipaður lómi á veturna en dekkri, stærri og þreknari en hann, með breiðari gogg sem veit beint fram; þeir frændur minna jafnframt nokkuð á skarfa og fiskiendur á sundi.
Hljóð himbrimans eru langdregin vein og köll. Hann er hávær á varptíma, sérstaklega á nóttunni, en þögull ella.

Himbrimi á flugi.

Himbrimi magalendir.
Himbriminn flýgur með kraftmiklum vængjatökum. Á flugi er hálsinn niðursveigður og fæturnir skaga aftur fyrir stélið. Hann er fimur sundfugl, mikill kafari og fremur djúpsyndur, þungur til flugs og lendir á maganum en ber ekki fæturna fyrir sig eins og flestir fuglar. Brúsar geta ekki gengið vegna þess hve fæturnir eru aftarlega á búknum. Þeir koma ekki á land nema til að verpa og skríða þá á maganum til og frá hreiðrinu. Eru venjulega stakir, í pörum eða litlum hópum.
Lífshættir
Himbrimi er fiskiæta. Á ferskvatni er silungur aðalfæðan en litlir ungar fá hornsíli. Á sjó veiðir hann m.a. marhnút, ufsa, þorsk, skera og trjónukrabba.
Hann verpur við vötn og tjarnir með silungi, frá sjávarmáli upp í 600 m hæð. Hreiðrið er stór en grunn laut á vatnsbakka eða í litlum hólma og myndast vel troðin slóð milli hreiðurs og vatns. Ungarnir fara á vatn um leið og þeir verða þurrir. Foreldrarnir fæða þá þangað til þeir geta farið að veiða sjálfir. Himbrimi er mjög heimaríkur og líður ekki önnur himbrimahreiður nærri sínu. Það er aðeins á stærstu vötnum, sem finna má fleira en eitt par. Á Þingvallavatni eru oftast 4-5 pör og 1-2 á Úlfljótsvatni.

Himbrimapar með nýklakinn unga.

Nýklakinn ungir mataður.

Himbrimi með unga á baki.

Himbrimapar með hálfstálpaða unga.
Á haustin safnast þeir stundum í hópa og er hópurinn á Þingvallavatni þekktastur, þar hafa sést yfir 200 himbrimar í október. Fuglar geta dvalið fram yfir áramót, en vatnið leggur venjulega í janúar.
Himbrimar dvelja annars á veturna við strendur og geldfugl er aðallega á sjó á sumrin.
Útbreiðsla og ferðir
Himbriminn er að nokkru farfugl. Staðfuglar hafa vetursetu við ströndina en farfuglar eru við Bretlandseyjar og Vestur-Evrópu. Ísland er eini varpstaður þessa vesturheimsfugls í Evrópu en hann er algengur á meginlandi Norður-Ameríku og á Grænlandi.

Himbrimi í vertrarklæðum.
Þjóðtrú og sagnir
Himbrimans er helst getið í þjóðtrúnni sem veðurspáfugls:
„Brúsinn eða himbriminn, er einhver með allra fegurstu og stærstu sundfuglum hér og hefur þótt góður spáfugl. Hann hefur og fagra rödd og mikla. Þegar hann gólar á vatni segja menn, að hann „taki í löppina“, og þyki það vita á vætu. En fljúgi hann um loftið með miklum gólum, veit hann veður og vind í stél sér. “
Íslenskar þjóðsögur og –sagnir. Sigfús Sigfússon.
Sömuleiðis nefnir Jónas Jónasson frá Hrafnagili himbrimann sem veðurspáfugl.
Kveðskapur
Himbrimi
á djúpu
vatni
fjallsins
bláa
fjarlægur
söngur
dimmur
fagur
sumar
nætur
hljóðar
lofar
lífið
góða
snertir
landið
hreina
eina
Eftir Ferdinand Jónsson, úr ljóðabókinni Innsævi.

Himbrimi stígur dans á Kaldbakstjörn við Húsavík.
…
Himbriminn kallast
á við kyrrðina og kveðst
á við sólina
…
Úr ljóðinu Myndir af Melrakkasléttu eftir Andra Snæ Magnason.
…
Og vinur minn himbrimi af vatninu til mín kallar:
Velkominn hingað í bláheima, drengur minn!
Ég svara af bragði: Ég veit hvar frúsla þín verpir,
og vandlega skal ég þegja um bústað þinn!
Úr ljóðinu Að Skálabrekku eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson.
Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.
by Snæbjörn Guðmundson | 1.09.2016 | Fugl mánaðarins
Helsingi (Branta leucopsis)

Helsingjahjón, kvenfuglinn (t.h.) safnar kviðfitu sem orku fyrir farflug og varp.
Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Útlit og atferli
Helsinginn er önnur tveggja „svartra“ gæsa sem fara um landið, hin er margæs. Þó hefur í auknum mæli orðið vart við ættingja þeirra, kanadagæsina, á síðustu árum.
Helsingi er meðalstór gæs, á stærð við heiðagæs og blesgæs. Hann verður best greindur á áberandi skörpum skilum dökka litarins að ofan og hvíta litarins að neðan, svo og hvítu andliti, kverkum og vanga. Hann hefur misáberandi svarta augnrák, er svartur á kolli, hnakka, hálsi og bringu, og bak og yfirvængir eru blágrá með hvítjöðruðum svörtum þverrákum. Vængir virðast gráir að ofan á flugi, dökkir að neðanverðu. Fuglinn er ljósgrár að neðan, með hvítar stélþökur og svart stél. Fullorðinn helsingi og ungfugl eru mjög líkir. Kynin eru eins, en karlfuglinn ívið stærri. Goggurinn er stuttur og svartur, fætur svartir og augu brún. Gefur frá sér hvellt gjamm sem minnir á hundgá.

Helsingjar við Jökulsárlón. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjar á flugi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Helsingi flýgur sjaldnar í oddaflugi en aðrar gæsir, sem sjást hér reglulega, en er oft í óskipulegum, þéttum hópum eða löngum reinum. Er stærri en margæs og með hægari vængjatök.
Lífshættir
Helsinginn er grasbítur, hann sækir talsvert í tún á vorin, en einnig í úthaga og votlendi. Varpfuglar ala unga sína við ár og jökullón. Fæða þeirra er væntanlega kornsúra, starir og sef. Ber eru mikilvæg fæða á haustin ásamt kornsúrurótum og stararfræjum. Helsingi nýtir sér mýrar og tún nærri ströndinni á vorin, auk þess gróið land á hálendinu og lyngmóa á haustin.

Helsingjar að vorlagi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjahópur í Langadal. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Gæsir parast til langframa, kvenfuglinn ungar út eggjunum meðan karlinn stendur vörð og hjónin sjá saman um að ala önn fyrir ungunum. Ungar andfugla eru bráðgerir, þeir yfirgefa hreiðrið strax og þeir verða fleygir. Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Flugfjaðrir í vexti (líka nefndar blóðfjaðrir) eru mjög blóðríkar og blæðir úr þeim ef fuglarnir verða fyrir einhverju hnjaski. Því er talað um að fuglarnir séu í sárum eða særist á þessum tíma. Fullorðnu fuglarnir verða oft fleygir að nýju um svipað leyti og ungarnir verða fleygir.

Helsingjahjón með unga í Austur-Skaftafellssýslu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjahjón með unga í Austur-Skaftafellssýslu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Helsingjahjón með unga í Austur-Skaftafellssýslu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Útbreiðsla og far
Helsingjar eru fyrst og fremst fargestir hér á landi. Varpstofn í Norðaustur-Grænlandi. hefur viðkomu hér á ferð sinni til og frá vetrarstöðvum á Bretlandseyjum. Helstu viðkomustaðirnir á vorin eru í Húnavatnssýslum og Skagafirði, þar sem hátt í 70% af Austur-Grænlandsstofninum dvelur í 3-4 vikur. Á haustin staldra helsingjarnir aftur á móti við á sunnanverðu miðhálendinu og í Skaftafellssýslum. Utan Grænlands verpa helsingjar á Svalbarða og Novaja Zemlja. Á þessum norðlægu slóðum verpa helsingjarnir aðallega í klettum.

Helsingjar á Jökulsárlóni. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Fyrsta bókfærða varp helsingja hér á landi var í Hörgárdal 1927. Reglulegt varp hófst í Breiðafirði árið 1964. Helsingjar urpu þar í eyjum um 20 ára skeið. Árið 1988 fundust helsingjar á hreiðrum í hólmum á jökullóni í Austur-Skaftafellssýslu. Síðan hefur þetta varp vaxið og dafnað og helsingjar numið land á nokkrum öðrum stöðum í Skaftafellssýslum, m.a. við Hólmsá í Vestursýslunni, þar sem þeir urpu fyrst 1999. Helsingjar hafa orpið í Seley við Reyðarfjörð undanfarin ár, á Snæfellsnesi um þriggja ára skeið og víðar um land. Sumarið 2014 var talið að stofninn teldi rúmlega 700 varppör og á annað þúsund gelfugla. Heildarstærð íslenska varpstofnsins að hausti, með ungum, gæti því verið 4-5000 fuglar.

Helsingjar síðsumars á Hestgerðislóni í Austur-Skaftafellssýslu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Þetta landnám helsingja er sérstakt og vöxtur stofnsins hraður. Helsingjar hafa væntanlega komið hér við í þúsundir ára á ferðum sínum milli varp- og vetrarstöðva, en afhverju hefja þeir varp nú? Afhverju hafa ekki fleiri umferðarfuglar eða fargestir farið að verpa hér, eins og margæs og blesgæs, svo og vaðfuglarnir rauðbrystingur, sanderla og sérstaklega tildra. Eini fargesturinn fyrir utan helsingja, sem hefur numið land, er fjallkjói. Báðir þessir fuglar verpa á norðlægum slóðum og fara því í „öfuga átt”, miðað við hlýnun jarðar.
Nákvæmlega er fylgst með stofnstærð gæsa og álftar á vetrarstöðvum þeirra á Bretlandseyjum og hérlendis, eftir því sem við á. Því eru stofnstærðir og stofnsveiflur þessara fugla betur þekkt en margra annarra. Talningar eru einnig gerðar á meginlandi Evrópu. Stofn helsingja hefur stækkað, allt frá sjöunda áratuginum, þó með smá niðursveiflu á þeim áttunda. Árið 1959 var stofninn 8300 fuglar, en árið 2013 var hann 80.700 fuglar, árunum 2008 til 2013 var heildaraukningin 14%. Þessi aukning er talin eiga rætur í lægri dánartíðni m.a. vegna þess að veiðum hefur verið hætt á Grænlandi, fremur en því að varpárangur hafi batnað.

Helsingjafjölskylda við Jökulsárlón, ungarnir eru fullvaxnir. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Þjóðtrú og sagnir
Forðum vissu íslendingar ekki hvað varð af helsingjanum á milli þess sem hann kom við á vorin og síðan aftur á haustin. Þá varð til sú þjóðsaga að helsinginn dveldi þess á milli í sjónum. Hrúðurkarlategund, sem ber heitið helsingjanef (Lepas anatifera), ber þjóðtrúnni vitni. Helsingjanef er frábrugðið fjörukörlum, hinum hefðbundnu hrúðurkörlum. Ólíkt þeim festa þau sig við undirlagið með nokkurs konar stilki. Skelin er einnig nokkuð frábrugðin en hún minnir á fuglsgogg. Algengast er að helsingjanef komi sér fyrir á talsverðu dýpi, en það þekkist þó að þau festi sig á einhverju rekaldi og geta þá borist með því langar leiðir og upp í fjöru.

Helsingjanef á netakúlu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.