Dílaskarfur

Dílaskarfur

Dilaskarfur15at

Útlit og atferli

Skarfar eru stórir dökkir sjófuglar. Hérlendis eru tvær skarfategundir, dílaskarfur (Phalacrocorax carbo) og toppskarfur ( P.aristotelis). Þeir eru báðir staðfuglar og er varpútbreiðsla beggja að mestu bundin við Faxaflóa og Breiðafjörð. Dílaskarfurinn er stóri bróðir toppskarfsins. Fullorðinn dílaskarfur í varpbúningi, frá janúar til júní, er með hvíta kverk og vanga. Hann er oft með hvíta fjaðrajaðra annars staðar á hausnum og ýfðar hnakkafjaðrir, þannig að höfuðið virðist kantað að aftan. Dílaskarfur fær nafnið af stórum, hvítum díl, sem hann ber á lærunum í varpskrúðanum. Aðrir hlutar fuglsins eru blásvartir og glansandi. Í vetrarbúningi, frá júlí fram í desember, er hann allur litdaufari og tapar hvíta litnum, nema á kverk. Ungfugl á fyrsta ári er brúnn að ofan og ljós að neðan, frá höfði og niður á kvið, dökknar síðan smátt og smátt og fær fullorðinsbúning á þriðja ári. Goggurinn er dökkur, en gulur við ræturnar, krókboginn í oddinn, gulur fiðurlaus blettur er við goggrót. Fætur eru svartir, augu blágræn.

Dilaskarfur05at

Dílaskarfur flýgur nokkuð hratt og er háfleygari en toppskarfur. Torvelt getur reynst að greina skarfana að á færi. Dílaskarfur teygir hálsinn fram á flugi og veit höfuðið lítið eitt upp á við. Þegar hann syndir eða situr veit goggurinn upp. Situr oft með þanda vængi eftir ætisleit og blakar þeim í sífellu til að þurrka þá, „messar“. Dílaskarfur styggur og var um sig á varpstöðvum og er hann alger andstæða „litla bróður“, toppskarfsins.

Hópar fljúga venjulega oddaflug. Oft má sjá skarfa á leið til eða frá náttstað í eyjunum í Kollafirði og fæðuslóða í Hafnarfirði og á Álftanesi fljúga yfir Seltjarnarnes eða Vesturbæ Reykjavíkur kvölds og morgna á veturna.

Skarfar tilheyra ættbálki árfætla eða pelíkanfugla og eru skyldir súlum, pelíkönum, spírum, skutlum og freigátufuglum.

Dilaskarfur18at

Dílaskarfar, ársgamall (t.v.), tveggja ára og fullorðinn.

Lífshættir

Dílaskarfur lifir á fiski og er slyngur kafari, fangar helst botnfisk líkt og kola og marhnút, einnig smáufsa, smáþorsk, hrognkelsi o.fl. Kafar með því að nota fæturna, etur stærri fisk á yfirborði en smærri fisk í kafi.

Dilaskarfur32v

Ungur dílaskarfur með sandkola.

Dílaskarfur verpur í byggðum, aðallega á flötum, gróðursnauðum skerjum, stundum á stöpum. Hreiðrið er hraukur úr þangi, fóðrað með fjöðrum og grasi. Dvelur á veturna með ströndum fram en leitar stundum upp á ferskvatn, ár og vötn og skarfar sjást jafnvel á vötnum á hálendinu. Nokkrir tugir halda oft til á Þingvallavatni. Toppskarfurinn er aftur á megin eindreginn sjófugl.

Heimkynni

Aðalvarpstöðvar dílaskarfs er norðanverður Faxaflói og Breiðafjörður. Áður varp hann allvíða á Norðurlandi og jafnvel víðar. Varpútbreiðslan dróst saman snemma á síðustu öld, hann hvarf þá frá Norðurlandi og öðrum landshlutum nema Vesturlandi. Lágmark var í stofninum 1993, en eftir það hefur honum fjölgað jafnt og þétt. Hann er nú farinn að verpa á Ströndum og fyrir skömmu fannst varp í eyju í Djúpavogshreppi. Eftir varptímann dreifast skarfarnir um land allt.

Bourgas_skarfar02a

Skarfabyggð í háspennumastri í Bourgas, Búlgaríu.

Dílaskarfur er algengur varpfugl víða um heim, bæði á norður- og suðurhveli jarðar. Erlendis verpur hann gjarnan í trjám og jafnvel gömlum háspennumöstrum, nærri fiskiríkum vötnum inntil landsins.

Þjóðtrú og sagnir

Lítil þjóðtrú fylgir dílaskarfinum, þó þótti fuglinn gefa mönnum vísbendingu um fisk í sjó. Hann var líka veðurviti og réðu menn í veður af flugi hans eða hátterni.

Á flæðiskeri (lokaerindi)

Yfir skerið skella bárur, skrokkur titrar.
Hátt mót vindi kría kallar:
“Krí nú skolast bjargir allar”

Dílaskarfur skeri framhjá skríður öldu.
Kallar: “vinur komdu fljótur
köfum saman – gamli þrjótur”.

Nú syndir hjá hin sæmilega síldartorfa
Sælt er líf og fengsæll flóinn.
Ég flaksa vængjum – stekk í sjóinn.

Höskuldur Búi Jónsson.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.
Blesgæs

Blesgæs

Ljósmyndin af blesgæsinni er eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Ljósmyndin af blesgæsinni er eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Útlit og atferli

Blesgæs (Anser albifrons) er umferðarfugl eða fargestur hér á landi. Hún er dekkst gráu gæsanna svokölluðu, hinar eru grágæs og heiðagæs. Blesgæsin er grábrún, með ljósum rákum að ofan og dökkum rákum á síðum. Dökkir framvængir eru einkennandi á flugi. Fullorðin blesgæs er meira eða minna með svartar þverrákir og díla á kviði og er hann stundum næstum alsvartur. Hvít blesa er ofan goggrótar. Ungfugl er án dökku rákanna á kviði og blesunnar. Goggur er gulbleikur, daufari á ungfugli, fætur rauðgulir og augu dökk.

Blesgæs hegðar sér svipað og aðrar gráar gæsir, en er sneggri í uppflugi, sýnist grennri og er liprari á flugi, hópamyndun er losaralegri. Er lipur sundfugl eins og aðrar gæsir og ávallt félagslynd. Röddin er hærra stemmd, meira syngjandi og þvaðrandi en hjá öðrum gæsum og lætur blesgæsin meira í sér heyra á flugi.

Lífshættir

Blesgæs er grasbítur, á vorin sækir hún í ræktarland, en á haustin í votlendi og úthaga, ef jarðbönn hamla ekki. Etur m.a. forðarætur kornsúru, elftingar og starir. Á haustin etur hún mest votlendisgróður, en fer einnig í berjamó og tún.

Blesgaes33e

Heimkynni og ferðir

Sú undirtegund blesgæsar sem fer um Ísland vor og haust, heitir Anser albifrons flavirostris. Hún verpur á Vestur-Grænlandi, en hefur vetursetu á Írlandi og Skotlandi. Hún er stundum kölluð grænlandsblesa. Útbreiðslusvæði blesgæsar á Íslandi er á Vesturlandi um Borgarfjarðarhérað og Hnappadal, til suðurs um Kjós og Hvalfjörð. Á Suðurlandi halda blesgæsir til á láglendi Árnes- og Rangárvallasýslu, austur undir Eyjafjöll, en sjást þó stundum austar.

Á vorin hefur hún viðkomu frá aprílbyrjun fram undir miðjan maí, en á haustin hefur hún viðkomu frá byrjun september fram í byrjun nóvember. Það fer nokkuð eftir árferði hversu lengi gæsirnar dvelja á landinu. Á vorin fljúga gæsirnar rakleitt yfir Grænlandsjökul og á varpstöðvarnar um miðbik Vestur-Grænlands, höfuðvígið er Diskóeyja og nágrenni, en þær verpa þó dreift frá Upernavik í norðri suður til Nuuk. Varpkjörlendið er ekki ósvipað og hjá heiðagæsinni hér á landi, flár og freðmýrar. Það er því afar mikilvægt að fuglarnir geti fitað sig upp hér, áður en þær leggja í hið erfiða farflug. Jafnframt þarf kvenfuglinn sérstaklega á aukaforða að halda til fyrir varpið, vegna þess hve seint vorar á varpstöðvunum.

Blesgæs 18

Stofnsveiflur og vernd

Stofninn náði hámarki á árunum 1999-2000, um 35.000 einstaklingar og var það reyndar sögulegt hámark stofnsins á 20 öld. Eftir það fækkaði fuglunum mjög ört, í rauninni svo ört að grænlandsblesan fór á válista, samanber viðmið Alþjóða náttúruverndarsamtakanna, IUCN.

Fuglavernd hefur um árabil tekið þátt í samvinnuverkefni um rannsóknir og vernd blesgæsarinnar, milli þeirra landa sem hún dvelur í, eða Grænlands, Íslands, Írlands og Skotlands. Að frumkvæði Fuglaverndar og í samvinnu við Skotveiðifélag Íslands og fleiri aðila, var blesgæsin friðuð hér sumarið 2006 vegna fækkunarinnar í stofninum. Það er slakur varpárangur sem veldur því að nýliðun er ekki nægileg, til að standa undir afföllum vegna skotveiða. Veiðarnar eru þar af leiðandi ósjálfbærar. Orsök afkomubrestsins er óþekkt. Enn er stofninn á niðurleið, svo ekkert bendir til að þeirri friðun verði aflétt í bráð. Því miður er þó enn nokkuð skotið af blesgæs hér á landi, bæði viljandi og óviljandi. Sumir þekkja gæsirnar ekki nógu vel í sundur og aðrir láta friðunina sem vind um eyrun þjóta. Í fyrri hópnum eru byrjendur, sem er kannski vorkunn, en í seinni hópnum eru atvinnuskyttur og magnveiðimenn, sem hafa það eitt að markmiði, að drepa sem flesta fugla.

Blesgaes38a

Blesgæsin er alfriðuð í öllum löndunum þar sem hún hefur viðkomu og víða hefur verið komið á fót friðlöndum fyrir gæsina. Kunnust þeirra eru Wexford Slobs á Suðaustur-Írlandi og Islay, ein af Innri-Suðureyjum við Skotland og þekkt fyrir wiskýgerð. Hérlendis er friðland á Hvanneyri fyrir blesgæsina, sem jafnframt er eitt af fáum Ramsar-svæðum á Íslandi. Önnur friðlönd sem gagnast blesgæsinni eru Pollengi og Oddaflóð á Suðurlandsundirlendinu. Á tveimur síðastnefndu stöðunum er eftirliti þó mjög ábótavant.

Fullorðin blesgæs til hægri og ung til vinstri.

Fullorðin blesgæs til hægri og ung til vinstri.

Þjóðtrú og sagnir

Engin þjóðtrú tengist blesgæsinni beint, en það var mönnum ráðgáta hér áður fyrr hvað varð um farfuglana. Þá trúðu menn að helsingjar (Branta leucopsis) kæmu úr helsingjanefjum, en það eru krabbadýr af ættbálki skelskúfa (Cirripedia) sem eru náskyld hrúðurkörlum. Lögun og litur þessa krabbadýrs minnir um margt á nef helsingjagæsanna, sem koma hér við vor og haust eins og blesgæsir.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Góður gestur í Loftskeytastöðinni

Rektor Háskóla Íslands, dr. Jón Atli Benediktsson, heimsótti skrifstofur Náttúruminjasafns Íslands í Loftskeytastöðinni á dögunum og heilsaði upp á mannskapinn. Húsaleigusamningur milli Náttúruminjasafnsins og Háskólans var undirritaður í júlí s.l. en Háskólinn tók við rekstri og ábyrgð hússins úr hendi Þjóðminjasafns Íslands í mars sem leið. Náttúruminjasafnið hefur haft afnot af Loftskeytstöðinni síðan í mars 2010.

Rektor og HJM_1

Dr. Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands (t.h. ) og dr. Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands. Heimsókn rektors til Náttúruminjasafnsins í Loftskeytastöðina 26. ágúst 2015.

Í heimsókn rektors var m.a. rætt um samstarf milli stofnananna, en á milli þeirra liggur gamalgróinn og sterkur þráður. Hugmyndir um formlegt samstarf og tengsl Háskóla Íslands og Náttúruminjasafn Íslands og forvera safnsins hafa lengi verið til umræðu, allt frá öndverðri 20. öld. Auk Háskólans og Náttúruminjasafnsins hefur Reykjavíkurborg verið aðili að málinu í ófá skipti. Um sögu þessara samskipta má lesa í eilítilli samantekt hér: Saga HI og NMSI_HJM_29.05.2015.

Margvísleg rök hníga að nánu samstarfi milli Háskóla Íslands og Náttúruminjasafns Íslands:

  • Í Háskólanum eru stundaðar grunnrannsóknir á náttúru Íslands og í safnafræðum á breiðum grundvelli sem aðrar rannsóknastofnanir sinna ekki. Þessar rannsóknir eru nauðsynlegar fyrir starfsemi Náttúruminjasafnsins. Þá býr Náttúruminjasafnið yfir mannauði og safnkosti sem gagnlegur er fyrir rannsóknir og kennslu í Háskólanum.
  • Náið samstarf við Háskólann er æskilegt fyrir Náttúruminjasafnið vegna mikilvægis akademískrar nálgunar í efnistökum sýningarhalds og við miðlun á fróðleik og þekkingu um náttúruna.
  • Bæði Háskólinn og Náttúruminjasafnið hafa ríkum skyldum að gegna við miðlun á fróðleik um náttúru, en með ólíkum hætti þó. Upplýsingamiðlun Náttúruminja-safnsins byggist í meira mæli á sýningahaldi og almenningsmiðari upplýsingaveitu en Háskólinn beinir kröftum sínum á þessu sviði meira að hinu akademíska fræðasamfélagi.

Þegar hefur verið efnt til samstarfs milli Háskólans og Náttúruminjasafnsins og er mikilvægt að halda þeim tengslum og auka við þau. Gerður hefur verið samstarfssamningur við Líffræðistofu um rannsóknir á forndýrafræði rostunga (Samkomulag um rannsóknir á rostungum. 23.01.2015) og nýlega var undiritaður samstarfssamningur við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands um samstarf á sviði safnfræða í Félags- og mannvísindadeild (Samkomulag NMSI $ Felagsvisindasvids_08.06.2015).

Steindepill

Steindepill

Steindepill16vSPÖR

Þá ertu hérna
eyðimarkafari.
Þér ber ég kveðju.

En vel er mér ljóst
að aldrei
þarfnast þú okkar
sem eigum þó allt
undir farnaði þínum og gleði.

Þér ber ég kveðju . .
hún er frá kvöldroðastúlku.

Steindepill, steindepill
á þessari stundu
þolir bringa mín engan söng
nema þinn.

Stefán Hörður Grímsson

Steindepill19at

Útlit og atferli

Steindepillinn (Oenanthe oenanthe) er litli frændi þrastanna. Þessi kviki spörfugl, sem er algengur í grýttu og lítt grónu landi, er ívið stærri og þreknari en þúfutittlingur. Karlfugl í sumarbúningi er blágrár á kolli, afturhálsi og baki, vængir svartir. Svört gríma er um augu og brúnarák hvít. Hann er ljósbrúnn á framhálsi, gulari á bringu og kviði. Síðsumars fer hann að líkast kvenfugli æ meir. Kvenfugl er dauflitari en karlfugl, mógrá á baki og að mestu án litamynsturs á höfði. Ungfugl og kvenfugl að vetri eru ljósari að ofan. Steindepill er ávallt með einkennandi stélmynstur, gumpur og stél eru hvít en svartur stélsendi og stutt, svört stélrák mynda öfugt „T“ aftast á stélinu. Goggurinn er grannur og svartur, fætur svartir, augu dökkbrún.

Steindepill25a

Steindepillinn er kvikur og eirðarlaus, flýgur lágt og tyllir sér oft með rykkjum og hneigingum og sveiflar vængjum og stéli. Er venjulega einfari eða í smáum hópum.

Lífshættir

Steindepill hleypur og skoppar eftir skordýrum og áttfætlum í opnu landi, stekkur jafnframt eftir flugum.  Á fartíma taka þeir þangflugur og fleira í fjörum, sækja eitthvað í ber og fræ.

Steindepill verpur í grýttu landi, urðum, hlöðnum veggjum, mólendi, hraunum o.þ.h., mest á láglendi. Hreiðrið er ofin karfa, staðsett í holu eða sprungu milli steina. Verpur stundum tvisvar á sumri. Utan varptíma er hann gjarnan í fjörum, ræktuðu landi og mýrum. Hann er mest áberandi síðsumars, eftir varptímann. Þá geta ungir steindeplar sést á ólíklegum stöðum, eins og húsagörðum og svalahandriðum.

Steindepill 14

Heimkynni og far

Steindepillinn er útbreiddur varpfugl á norðurhveli jarðar, sérstaklega í Evrópu og Asíu, en einnig í Alaska, NA-verðu Kanada og Grænlandi. Steindeplar sem verpa á Grænlandi koma hér við vor og haust. Íslenskir steindeplar hafa vetursetu í V-Afríku, sunnan Sahara. Engir merktir fuglar hafa þó endurheimst þar, svo við vitum ekki nákvæmlega hvar vetrarstöðvarnar eru. Það er talið víst, að steindepill sé sá íslenski spörfugl, sem ásamt maríuerlu flýgur fugla lengst í farflugi.

Steindepill24a

Þjóðtrú og sagnir

Steindepils er að nokkru getið í íslenskri þjóðtrú. Hann gat valdið júgurmeini í ám og kúm, ef þær stigu á hreiður hans. Jafnframt áttu fingur barna að stirðna eða kreppast, ef þau snertu hreiður hans. Þetta er reyndar hæpið, því hann velur hreiðrinu oftast stað á óaðgengilegum stöðum. Skýringin á farflugi steindepils var sú, að hann lægi í dvala frá krossmessu á hausti (14. september) til krossmessu á vori (3. maí). Steinklappa er heiti sem er tilvísun í hljóð fuglsins.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Steypireyðurin fer norður

Greint var frá því í fjölmiðlum í gær, bæði á netmiðli RÚV og Vísis, að fyrir lægi niðurstaða af hálfu Illuga Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra um að beinagrind steypireyðarinnar sem rak á land við Skaga sumarið 2010 verði flutt norður á Húsavík og höfð til sýnis í Hvalasafninu þar.

Ákvörðunin um að flytja beinagrind steypireyðarinnar norður, sem og að umsjón með beinagrindinni og lán gripsins skuli alfarið vera á hendi Náttúrufræðistofnunar Íslands en ekki Náttúruminjasafns Íslands, veldur vonbrigðum og stríðir gegn hagsmunum Náttúruminjasafnsins.

Í umsögn Náttúruminjasafnsins er lagst gegn áformum um flutning, varðveislu og sýningu beinagrindarinnar í Hvalasafninu. Afstaðan er studd faglegum rökum sem lúta að heildarhagsmunum í samfélagslegu samhengi, m.a. er varðar upplýsinga- og kennslugildi þessa merka og fágæta náttúrugrips sem steypireyðurin er, kostnaði við verkefnið og meðferð opinbers fjár og ástand beinagrindarinnar, en brýn þörf er á forvörslu hennar hið fyrsta. Þá er ráðherra hvattur til að bíða hið minnsta með ákvörðun um flutning í ljósi þess að Perlan í Öskjuhlíð, sem hentar vel til sýningar á steypireyðinni, stendur Náttúruminjasafninu til boða af hálfu Reykjavíkurborgar sem framtíðarhúsnæði undir sýningastarfsemi.

Meginrök Náttúruminjasafns Íslands gegn áformum um flutning, varðveislu og sýningu beinagrindar steypireyðarinnar fyrir norðan eru eftirfarandi:

  • Það hillir undir framtíðarhúsnæði Náttúruminjasafnsins hvað varðar sýningahald. Perlan í Öskjuhlíð stendur Náttúruminjasafninu til boða. Reykjavíkurborg er mjög áfram um verkefnið og fjárfestingasjóðurinn Landsbréf ITF I sýnir verkefninu áhuga. Í minnisblaði ríkisstjórnar Íslands (málsnr.: UMH11100114, dags. 25.10.2011) er tekið fram að hugsanleg uppsetning og varðveisla beinagrindar steypireyðarinnar í Hvalasafninu á Húsavík sé þeim skilyrðum bundin að gripurinn verði afhentur Náttúruminjasafni Íslands þegar safnið verði komið í framtíðarhúsnæði. Þetta skilyrði var áréttað af mennta- og menningarmálaráðherra, Illuga Gunnarssyni, í svörum hans við fyrirspurn á Alþingi 3. nóvember 2014 (144. löggjafarþing – 26. fundur. 223. mál. – Þskj. 252.).
  • Nauðsyn á forvörslu og styrkingu beina.
    Í áætlunum um flutning beinagrindarinnar er ekki gert ráð fyrir vinnu við forvörslu og styrkingu beina, en hér er um verulega kostnaðarsaman þátt að ræða. Að mati Náttúrminjasafnsins er brýnt að ráðast sem allra fyrst í að forverja beinin og styrkja þau í því skyni að varðveita sem best og koma í veg fyrir skemmdir á þeim. Óháð sýningarhaldi og flutningum er ekki forsvaranlegt að bíða lengur með þennan verkþátt.
  • Afsteypa af beinagrindinni.
    Ekki er fjallað um þann verkþátt sem snýr að afsteypu beinagrindarinnar, en ákvörðun um flutning norður er því skilyrði háð að frumeintak beinagrindarinnar fer til Náttúruminjasafnsins þegar leyst hefur verið úr húsnæðisvanda þess m.t.t. sýningahalds. Afsteypa af beinagrindinni yrði þá eftir hjá Hvalasafninu. Afsteypan er mjög kostnaðarsöm og að mati Náttúruminjasafnsins er ekki forsvaranlegt annað en að gera strax grein fyrir þessum þætti. Með hliðsjón af varðveislu og verndun beinanna er skynsamlegast að taka afsteypu af beinagrindinni áður en og ef hún verður flutt norður í land.
  • Ófullnægjandi kostnaðaráætlun.
    Í kostnaðaráætlun, sem hljóðar upp á 7,0 m.kr., þar af 1,5 m.kr. vegna aksturs með beinagrindina, er ekki gerð grein fyrir vinnu við uppröðun beina og frágang á sýningarstað. Að mati Náttúruminjasafnsins má ætla að viðbótarkostnaður vegna þessa sé 4-6 m.kr. (um 4 mannmánuðir). Sem fyrr segir er heldur ekki reiknað með kostnaði við forvörslu og styrkingu beina, en hann er mjög mikill. Þá er ekki gerð grein fyrir kostnaði við flutning á beinagrindinni til baka til Náttúruminjasafnsins.
  • Metnaður, virðing og orðstír.
    Að mati Náttúruminjasafnsins endurspegla hugmyndir um að raða ósamsettum beinum steypireyðarinnar á gólf í litlu rými í Hvalasafninu fyrst og fremst að hönnun sýningarinnar er gerð af vanefnum og að húsnæðið er óhentugt undir náttúrugrip af þessu tagi. Uppsetningin er að mati Náttúruminjasafnsins hvorki metnaðarfull né samboðin þeirri virðingu sem ber að auðsýna stærsta dýri jarðar. Í þessu sambandi má minna á metnaðarfull verkefni sem eru á döfinni hjá Náttúrufræðisafninu í London og Náttúrufræðisafni Danmerkur í Kaupmannahöfn um upphengingu steypireyðarbeinagrinda í háreistum salarkynnum, líkt og að hefur verið stefnt með steypireyðina í Perlunni á vegum Náttúruminjasafns Íslands
  • Samvinna við Náttúruminjasafn Íslands.
    Í umsögn Náttúruminjasafnsins er minnt á nauðsyn samvinnu milli Náttúruminjasafnsins og Hvalasafnsins varðandi steypireyðina og sýningarmál almennt, enda heyra málefni Hvalasafnsins undir starfsemi Náttúruminjasafns Íslands skv. Náttúruminjasafnslögum og safnalögum. Varðandi samvinnu bendir Náttúruminjasafnið á að ef til flutnings kemur á beinagrind steypireyðarinnar til Hvalasafnsins á Húsavík, þá er það verkefni Náttúruminjasafns Íslands að gera þar að lútandi varðveislusamning um gripinn við Hvalasafnið (sbr. svar mennta og menningarmálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi 3. nóvember 2014, 144. löggjafarþing – 26. fundur. 223. mál. – Þskj. 252.).

Umsögn Náttúruminjasafnsins í heild má lesa í þessu skjali hér: Umsögn NMSÍ_09.07.2015_MMR15010812.