by Snæbjörn Guðmundson | 23.06.2014 | Fréttir
Náttúruminjasafn Íslands undirritaði nýlega svokallaða Bouchoutyfirlýsingu sem lesa má um hér. Megintilgangur yfirlýsingarinnar er að stuðla að auknu aðgengi að stafrænum upplýsingum um líffræðilega fjölbreytni. Bouchoutyfirlýsingin fellur mjög vel að lögboðnu hlutverki Náttúruminjasafnsins um miðlun upplýsinga um náttúru Íslands og samræmist vel þeim siðareglum sem stofnunin starfar eftir í anda Alþjóðasafnaráðsins, bæði almennum siðareglum safna og siðareglum náttúrufræðisafna.
Bouchoutyfirlýsingin samræmist einnig vel þeirri hugmyndafræði sem liggur að baki þingsályktunartillögu um varðveislu menningararfleifðar á stafrænu formi sem lögð var fram á síðasta löggjafarþingi nr. 143, 2013‒2014 (Þingskjal 244 – 196. mál.).
Náttúruminjasafn Íslands skal lögum samkvæmt vinna að skráningu og varðveislu á náttúrufræðilegum gögnum á stafrænu sniði og miðla upplýsingum um náttúru landsins á veraldarvefnum. Um er að ræða gögn og upplýsingar sem taka m.a. til einstakra náttúrumuna, samfélög lífvera og vistkerfa, gagnasafna, ritaðra heimilda (bækur, tímarit, stakar vísindagreinar) og ljósmynda. Verið er að athuga fýsileika þess að skrá upplýsingar af þessu tagi í gagnagrunn Sarps, en til þessa hefur engin samræmd skráning farið fram í landinu á náttúrufræðilegum upplýsingum og gögnum sem hin ýmsu söfn og safnadeildir búa yfir.
Náttúruminjasafnið vinnur einnig að því að auka aðgengi að upplýsingum um náttúru Íslands með því að taka þátt í samstarfsverkefnum. Eitt slíkt verkefni er Nordic LifeWatch Consortium, sem Náttúruminjasafnið tekur þátt í ásamt Náttúrufræðistofnun Íslands. Um er að ræða norrænt samstarf sem snýst um samræmingu á gerð og eðli rafrænna gagnagrunna á sviði líffræðilegrar fjölbreytni.
by Snæbjörn Guðmundson | 22.05.2014 | Fréttir
Íslenski geirfuglinn og egg hans. Ljósm. Erling Ólafsson.
Veiðifélag Bjarnareyjar í Vestmannaeyjum hefur fært Náttúruminjasafni Íslands að gjöf forláta eftirlíkingu af geirfuglseggi sem félagið kostaði og breskir sérfræðingar hafa útbúið af miklu listfengi. Af þessu titlefni var efnt til móttköku í Loftskeytastöðinni þar sem viðstaddir voru stjórnarmenn úr veiðifélaginu ásamt Bretanum Stewart Smith, fuglaáhugamanni og eggjakarli í Eyjum sem átti drjúgan þátt í gerð eggsins.
Gjöfin er þegin með þökkum og kemur sér mjög vel fyrir Náttúruminjasanið. Til stendur að nota eggið í sýningahaldi Náttúruminjasafnsins, m.a. á sýningu sem opnuð verður í Safnahúsinu í lok ágúst næstkomandi og í Perlunni þar sem stefnt er að sýningahaldi innan tíðar.
Frá afhendingu geirfuglseggsins fimmtudaginn 22. maí 2014 í Loftskeytastöðinni. Ljósm. NMSÍ
Gísli I. Þorsteinsson Bjarnareyingur afhendir Hilmari J. Malmquist forstöðumanni Náttúruminjasafnsins geirfuglseggið.
Gjöf Veiðifélags Bjarnareyjar, forláta eftirlíking af eina raunverulega geirfuglsegginu sem til er hér á landi. Mesta lengd 11,79 cm, mesta breidd 7,60 cm. Ljósm. NMSÍ
Eggið sem veiðifélagið gefur er nákvæm eftirlíking af eina raunverulega geirfuglsegginu sem til er hér á landi og varðveitt er á Náttúrufræðistofnunun Íslands, eins og sjálfur geirfuglinn. Rætur gjafarinnar liggja til Bretans Stewart Smith, fuglaáhugamanns, eggjakarls í Eyjum og „Íslandsvinar“. Stewart hefur komið á hverju vori til Eyja í rúm 15 ár og farið með veiðifélaginu út í Bjarnarey. Hann er mikill áhugamaður um allt sem viðkemur geirfugli og sú hugmynd kviknaði að búa til nákvæma eftirlíkingu af íslenska geirfuglsegginu. Haft var samband við Tony Ladd, breskan listamann sem hefur sérhæft sig í nákvæmri endurgerð fuglseggja. Þorvaldur Björnsson, hamskeri og starfsmaður Náttúrufræðistofnunar, var veiðifélaginu einnig innan handar með verkið sem og Erling Ólafsson líffræðingur á Náttúrufræðistofnun.
Lítið eitt um geirfugl (Pinguinus impennis)
Geirfuglinn íslenski sem er í vörslu Náttúrufræðistofnunar Íslands var drepinn árið 1821 við Hólmsberg á Miðnesi. Danski greifinn Raben sló fuglinn niður með bátsár og fuglinn var í eigu Rabenfjölskyldunnar þar til hann var sleginn Finni Guðmundssyni 1971 á uppboði Sothesby´s í London fyrir 9300 GBP (andvirði 3ja herb. íbúðar þá). Fénu var safnað meðal þjóðarinnar í fyrstu almenningssöfnuninni hér á landi sem ekki var til líknar-, góðgerðar- eða íþróttamála. Náttúrufræðistofnunin á auk geirfuglsins beinagrind samsetta úr mörgum geirfuglum, eitt raunverulegt geirfuglsegg og eina eftirlíkingu eggs sem ekki er af íslenska egginu. Raunverulega eggið seldi Harvardháskóli Finni Guðmundssyni fuglafræðingi og starfsmanni Náttúrufræðistofnunar árið 1954 á aðeins 500 USD. Ekki er vitað með vissu um uppruna eggsins, en það mælist 117,9 mm á lengd og 76,0 mm á breidd.
Geirfuglinn (e. Great Auk) tilheyrði hópi svartfugla í norðanverðu Atlantshafi sem í dag telja álku (Alca torda), haftyrðil (Alle alle), langvíu (Uria aalge) og stuttnefju (U. lomvia). Erfðafræðirannsókn staðfestir að geirfuglinn var helst skyldur álku en síst hringvíu og stuttnefju.
Ekki eru til nema um 80 uppsettir geirfuglshamir á jörðunni og um 75 egg. Geirfuglarnir voru eftirsótt bráð vegna þess hve stórir þeir voru og matarmiklir (um 70 cm á hæð og nær 5 kg), ófleygir og hægfara á landi. Þeir voru tiltölulega algengir beggja vegna Atlantshafs allt fram á 16. öld en hratt gekk á stofnana vegna ofveiði og var tegundinni að endingu útrýmt um miðja 19. öld. Síðasta geirfuglaparið á Jörðu er talið hafa verið drepið við Eldey 3. júní 1844. Hamir fuglanna voru seldir til Kaupmannahafnar fyrir fjögur kýrverð og eru fuglarnir varðveittir á Náttúruminjasafni Danmerkur (d. Statens Naturhistoriske Museum).
Ítarefni:
Ævar Petersen 1995. Brot úr sögu geirfuglsins. Náttúrufræðingurinn65: 53–66.
T. Moum, Ú. Árnason & E. Árnason 2002. Mitocondrial DNA sequence evolution and phylogeny of the Atlantic Alcidae, including the extinct Great Auk (Penguinus impennis). – Mol. Biol. Evol. 19(9): 1434-1439.
Heimasíða Veiðifélags Bjarneyjar er www.Bjarnarey.is.
by Snæbjörn Guðmundson | 12.05.2014 | Fréttir
Málþing um stöðu og framtíð safna verður haldið 15. maí 2014 í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands kl. 13-17. Að málþinginu standa Félag íslenskra safna og safnamanna (FíSOS) í samstarfi við Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Safnafræði við Félags- og mannvísindadeild Hskóla Íslands. Meginmarkmið þingsins er að veita upplýsingar og skapa málefnalegan vettvang fyrir umræðu um söfn. Sérstaklega verður fjallað um tilfærslur safna innan stjórnsýslunnar og opinberar styrkveitingar. Hér má fræðast um dagskrá málþingsins.
by Snæbjörn Guðmundson | 22.04.2014 | Fréttir
Íslensku safnaverðlaunin eru veitt annað hvert ár og er ætlað að vekja athygli á því sem vel er gert á íslenskum söfnum. Þeim er jafnframt ætlað að efla faglegan metnað og vera hvatning til að kynna menningu þjóðarinnar á framsækinn og áhugaverðan hátt. Að Safnaverðlaununum standa Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnamanna (FÍSOS).
Safnaverðlaunin í ár verða veitt í níunda sinn á íslenska safnadeginum 13. júlí. Valnefnd tilnefnir þrjú söfn eða verkefni og hlýtur eitt þeirra viðurkenninguna og 1.000.000 krónur að auki.
Verðlaunin eru veitt einu safni sem þykir hafa skarað fram úr og verið til eftirbreytni. Ekki er gerður greinarmunur á tegundum safna og koma því öll söfn á landinu til greina; minja- og byggðasöfn, listasöfn, náttúrugripasöfn og önnur sérsöfn. Óskað er eftir ábendingum frá almenningi, stofnunum og samtökum um söfn eða einstök verkefni á starfssviði safna sem þykja framúrskarandi og til eftirbreytni.
Ábendingum skal skilað í síðasta lagi 20. maí 2014 og sendist til safnaverdlaun2014@icom.is eða Safnaverðlaun 2014, P.O.Box 1489, 121 Reykjavík. Nánar má lesa um verðlaunin hér.
by Snæbjörn Guðmundson | 25.03.2014 | Fréttir
Þessi heimasíða Náttúruminjasafns Íslands sem blasir við augum lesandans er ný af nálinni. Nýr hýsingaraðili heimasíðu stofnunarinnar er Reiknistofnun Háskóla Íslands og bætist sú vefumsjón við kerfisstjórn og aðra tölvuumsjón sem Reiknistofnun hefur veitt Náttúruminjasafninu um árabil.
Heimasíðan verður með tiltölulega einföldu sniði til að byrja með, en henni er ætlað að vaxa og dafna með tíð og tíma eftir því sem efni og aðstæður leyfa.