by Snæbjörn Guðmundson | 4.11.2014 | Fréttir
Safnaráð stendur fyrir málþingi um rannsóknir safna í Þjóðminjasafninu þann 6. nóvember. Rannsóknir eiga að vera mikilvægur hluti af safnastarfi og ein af forsendum þess að safnastarf sé í takt við tímann. Safnaráð vill kanna og meta vægi rannsókna í starfi safna og finna leiðir til að styrkja þátt rannsókna í safnastarfi. Athyglinni verður beint að hlutverki rannsókna í starfi safna og að þætti safna í að efla skilning á þróun og stöðu menningar, lista, náttúru og vísinda með rannsóknum sínum og miðlun þeirra. Skoðað verður hvað einkennir safnarannsóknir og hverjar væntingar fræðasamfélagsins séu til safna sem rannsóknarstofnana.
Málþingið er haldið í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins og hefst kl. 09:00. Nánar má lesa um dagskrá málþings hér á heimsíðu Safnaráðs.
by Snæbjörn Guðmundson | 23.10.2014 | Fréttir
Næsta fræðsluerindi Hins íslenska náttúrufræðifélags verður haldið mánudaginn 27. október 2014 í sal 101 í Lögbergi, húsi félagsvísindadeildar Háskóla Íslands, og hefst erindið kl. 17:15. Athugið nýja staðsetningu!
Það er umhverfisfræðingurinn Þorsteinn Jóhannsson sem flytur erindi sem hann nefnir Loftmengun frá eldgosinu í Holuhrauni.

Ágrip af erindi Þorsteins Jóhannssonar, haldið mánudaginn 27. október 2014.
„Í fyrirlestrinum verður fjallað um loftmengun frá eldgosinu í Holuhrauni. Mikið magn brennisteinsdíoxíðs hefur komið frá eldstöðvunum í Holuhrauni. Fjallað verður um magn losunar, það sett í samhengi við mannlegar athafnir og losun frá öðrum eldgosum. Fjallað verður um hvaða ráðstafanir yfirvöld gripu til vegna loftmengunar frá gosinu og hvað almenningur getur gert til að lágmarka útsetningu frá mengunarefnum.“
Þorsteinn Jóhannsson er fæddur árið 1963. Hann lauk BS prófi í jarðfræði frá HÍ árið 1988 og MS prófi í umhverfisfræði frá sama skóla 2007. Hann starfaði við efnagreiningar á Rannsóknastofnun Landbúnaðarins frá 1988 og frá 1995 vann hann á Iðntæknistofnun við ýmsar mælingar tengdar umhverfismálum eins og t.d. útblástursmælingar hjá stóriðjufyrirtækjum. Þorsteinn hefur starfað á Umhverfisstofnun frá 2007 og er teymisstjóri loftmengunarteymis.
by Snæbjörn Guðmundson | 13.09.2014 | Fréttir
Dagur íslenskrar náttúru er í ár haldinn hátíðlegur þriðjudaginn 16. september. Af því tilefni verða skrifstofur Náttúruminjasafns Íslands í gömlu Loftskeytastöðinni að Brynjólfsgötu 5 opnar almenningi milli kl. 14 og 17. Þá býðst gestum að skoða þetta tæprar aldargamla og glæsilega hús og forstöðumaður stofnunarinnar, dr. Hilmar J. Malmquist, spjallar við gesti um forsögu og framtíðarhorfur höfuðsafns þjóðarinnar á sviði náttúrufræða.

Ljósmynd: Kristján Jónasson
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið heldur utan dagskrá í tilefni dagsins. Að þessu sinni beinir ráðuneytið athyglinni sérstaklega að mikilvægi þess að bera virðingu fyrir náttúrunni.
Um Dag íslenskrar náttúru má fræðast almennt hér.
by Snæbjörn Guðmundson | 4.09.2014 | Fréttir

Ljósm. Kristján Jónasson
Í dag var kynnt á Hótel Natura heildarúttekt Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) á umhverfismálum á Íslandi árin 2001 – 2013. Ekki kemur á óvart að íslensk náttúra hefur gegnt lykilhlutverki í efnahagsbata landsins, bæði vegna orkuauðlinda hennar sem og aðdráttarafls fyrir erlenda ferðamenn. Við sem gistum þetta land búum við einstaklega gjöfula, fagra og heilnæma náttúru, sem óvíða er að finna annars staðar. En það eru blikur á lofti. Varnaðarorð skýrlsuhöfunda eru þau m.a. að umgengni okkar við náttúruauðlindirnar sé að vissu leyti ábótavant og úrbóta þörf. Hér er vísað bæði til þess að þegar sjáist merki um álag á náttúruperlum vegna ágangs af völdum ferðamanna og að nýting enurnýjanlegra orkugjafa hefur för með sér rask og mengun sem ekki er í öllum tilvikum reiknað með eða gerðar ráðstafanir gegn.
Meginskilaboð skýrsluhöfunda til Íslendinga eru að þeir verða að mæta vexti í orku- og ferðageiranum með því að vernda náttúruna (e. „Iceland must balance growth in power and tourism industries with nature conservation, OECD says“). Sjálfbær nýting náttúrugæða landsins verður að byggjast á því að halda höfuðstólnum óskertum – ella rýrna auðlindirnar og lífskjör versna.
Náttúruminjasafn Íslands hefur mikilvægu hlutverki að gegna í þessu samhengi sem höfuðsafn á sviði náttúrufræða. Helstu hlutverk stofnunarinnar eru lögum samkvæmt að miðla fróðleik, upplýsingum og þekkingu um náttúru landsins, náttúrusögu, nýtingu náttúruauðlinda og náttúruvernd. Þá segir í lögum um stofnunina að miðlunin skuli beinast til skóla, fjölmiðla og almennings, jafnt með sýningahaldi og kynningu af öðru tagi.
Nánar má lesa um kynninguna og skýrlsu OECD hér á heimasíðu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins.
Skýrsla OECD í heild.
Útdráttur úr skýrlsu OECD.
by Snæbjörn Guðmundson | 14.08.2014 | Fréttir
Nýlega birtist í alþjóðlegu fagtímariti, Acta Chiropterologica, yfirlitsgrein um fund leðurblaka á eyjum við Norðaustanvert Atlantshaf og Norðursjó. Ísland er þar á meðal og fyrsti höfundur greinarinnar er Ævar Petersen, helsti sérfræðingur landsins í leðurblökum og fleiri fljúgandi hryggdýrum.

Trítilblaka (Pipistrellus nathusii) er alengasti flækingur leðurblaka á Íslandi.
Fram kemur í greininni að alls hafa átta tegundir af leðurblökum fundist á Íslandi með vissu fram til loka ársins 2012. Ekki eru fundirnir tíðir, um 40 tilfelli, en virðist fara fjölgandi á síðastliðnum þremur áratugum eða svo. Um ástæður fjölgunarinnar er ekki vitað með vissu.
Nær allir fundir leðurblakanna eru á suðvesturhorni landsins, einkum í Reykjavík og þar í kring, sem og á vestanverðu Suðurlandi. Flestir fundirnir eru um borð í vöruflutningaskipum á leið til lands og í höfnum, sem og í gámum og vörugeymslum á landi. Leðurblökurnar virðast því oftast flækjast hingað með aðstoð farartækja.
Leðurblökurnar flokkast sem sárasjaldgæfir flækingar hér á landi enda er Ísland langt utan helstu heimkynna og farleiða þessara spendýra. Meginheimkynni flestra tegunda eru í kringum miðbaug. Nokkrar tegundir eru staðbundnar á meginlandi Evrópu, þar á meðal sú tegund sem oftast hefur flækst hingað, trítilblakan (Pipistrellus nathusii). Hrímblaka (Lasiurus cinereus) er næstalgengsti flækingurinn hér á landi, en aðalheimkynni hennar eru um miðbik Ameríku.
Leðurblökur (Chiroptera) eru sérstakur ættbálkur meðal spendýra og telja um 1000 tegundir alls sem er býsna mikið og um fjórðungur af öllum tegundafjölda spendýra. Þær gegna mikilvægu hlutverki í vistkerfi Jarðar við frjóvgun plantna og át á skordýrum. Þær eru einnig heillandi spendýr um margt og þau einu sem kunna að fljúga. Þær eru annaálaðar fyrir órfríðleika og geysimikla ratvísi í náttmyrkvi.
Frekari fróðleik um leðurblökur á Íslandi má finna hér:
Ævar Petersen. 1994. Leðurblökur á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 64: 3–12.
Ævar Petersen. 1993. Leðurblökukomur til Íslands. Bls. 347–351. Í: Villt íslensk spendýr (Páll Hersteinsson og Guðmundur Sigbjarnarson ritstjórar). Hið íslenska náttúrufræðifélag og Landvernd, Reykjavík.
Finnur Guðmundsson. 1957. Leðurblaka handsömuð í Selvogi. Náttúrufræðingurinn 27: 143–144.