Niðurstöður í hönnunarsamkeppni Náttúruminjasafns Íslands
Niðurstöður í hönnunarsamkeppni Náttúruminjasafns Íslands
Úrslit hafa verið birt í hönnunarsamkeppni Náttúruminjasafns Íslands um grunnsýningu í nýjum höfuðstöðvum safnsins á Seltjarnarnesi, Náttúruhúsi í Nesi. Sigurvegari samkeppninnar er hollenska sýningarfyrirtækið Kossmanndejong. Tíu hönnunarteymi sóttu um þátttökurétt í lokaðri samkeppni þar sem þrjú teymi komust áfram og skiluðu inn framúrskarandi tillögum um hönnun og útlit nýju sýningarinnar. Lokatillögurnar þrjár verða settar upp í anddyri sýningar Náttúruminjasafnsins á 2. hæð í Perlunni á næstunni.
Tillaga að útliti aðalsalar hinnar nýju grunnsýningar í Náttúruhúsi í Nesi, úr vinningstillögu Kossmanndejong.
Úrslit hafa verið birt í hönnunarsamkeppni Náttúruminjasafns Íslands um grunnsýningu í nýjum höfuðstöðvum safnsins á Seltjarnarnesi, Náttúruhúsi í Nesi. Sigurvegari samkeppninnar er hollenska sýningarfyrirtækið Kossmanndejong og óskar Náttúruminjasafnið því innilega til hamingju með fyrsta sætið í keppninni. Jafnframt vill safnið þakka öllum teymunum er þátt tóku fyrir þann mikla áhuga sem safninu hefur verið sýndur en hann birtist í metnaðarfullum tillögum og umsóknum um þátttöku í samkeppninni.
Hönnunarsamkeppnin var í tveimur þrepum þar sem þrjú teymi voru valin í forvali til að vinna að og leggja fram lokatillögur undir nafnleynd að hönnun og uppsetningu grunnsýningarinnar. Alls tóku tíu afar frambærileg hönnunarteymi, fimm innlend og fimm erlend, þátt í forvalinu sem auglýst var á Evrópska efnahagssvæðinu í nóvember 2022. Miðstöð hönnunar og arkitektúrs var ráðgefandi aðili samkeppninnar en Ríkiskaup sáu um framkvæmd hennar. Tvær fimm manna dómnefndir voru skipaðar fyrir sitt hvort þrep keppninnar, með þremur dómnefndarmönnum völdum af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og tveimur af Náttúruminjasafni Íslands. Af þeim þremur teymum sem valin voru í forvalinu voru tvö íslensk og eitt erlent. Lokatillögur teymanna þriggja þóttu allar framúrskarandi og mjótt var á munum í mati dómnefndar en tillaga Kossmanndejong varð að lokum hlutskörpust. Veggspjöld með tillögunum þremur verða innan tíðar sett upp til sýnis í anddyri sýningar Náttúruminjasafnsins Vatnið í náttúru Íslands á 2. hæð í Perlunni.
Sigurvegari keppninnar, Kossmanndejong, hefur hannað, framleitt og sett upp yfirgripsmiklar og rómaðar sýningar um allan heim. Á meðal þeirra má nefna tvær af níu grunnsýningum Naturalis Biodiversity Center í Leiden í Hollandi, sem hlaut Evrópsku safnaverðlaunin árið 2021. Kossmanndejong hannaði einnig grunnsýningu Sjóminjasafnsins í Reykjavík, Fiskur & fólk – sjósókn í 150 ár sem opnuð var árið 2018.
Hér er um mikilvæg og merk tímamót að ræða í náttúrufræðimiðlun fyrir land og þjóð. Höfuðsafn Íslendinga í náttúrufræðum hefur að endingu á langri vegferð sinni og forverum þess eignast glæsilegt húsnæði og sýningaraðstöðu í faðmi náttúrunnar yst á Seltjarnarnesi. Hin nýja grunnsýning mun hverfast um hafið og lífríki þess, með áherslu á framtíðina, mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni og áhrif loftslagsbreytinga. Sýningin verður nútímaleg, fræðandi og skemmtileg – fléttuð saman með gripum úr ranni náttúrunnar og áhugaverðri gagnvirkri margmiðlun.
Sýningunni er ætlað að höfða til alls almennings en sjónum verður þó sérstaklega beint að yngri kynslóðum. Tveir lykilgripir verða á sýningunni, geirfuglinn margfrægi sem keyptur var á uppboði árið 1971 fyrir samskotafé landsmanna, og fjórtán metra löng beinagrind fullvaxins íslandssléttbaks sem veiddur var út af Vestfjörðum árið 1891, en grindin var flutt til Danmerkur sama ár. Íslandssléttbakurinn var áður fyrr algengur við Íslands strendur en er nú í bráðri útrýmingarhættu. Beinagrindin hefur ekki komið fyrir sjónir almennings áður en Náttúruminjasafn Íslands mun fá hana að láni hjá Náttúrufræðisafni Danmerkur.