Eldur, ís og mjúkur mosi

Eldur, ís og mjúkur mosi

Eldur, ís og mjúkur mosi

Á Alþjóðlegum degi barna í gær kynntum við þróunar- og samstarfsverkefnið Eldur, ís og mjúkur mosi.

Verkefnið vinna Vatnajökulsþjóðgarður og Náttúruminjasafn Íslands í samstarfi við átta grunn- og leikskóla í nágrenni við þjóðgarðinn ásamt einum á höfuðborgarsvæðinu og breiðum hóp listafólks og hönnuða í heimabyggð skólanna. Markmið verkefnisins er að skapa tengingar milli barna og náttúru Vatnajökulsþjóðgarðs sem er verndaður sem sameign þjóðarinnar og þau ýmist búa í nálægð við eða þekkja til. Börnin vinna því fjölbreytt verkefni þar sem þau segja frá honum og túlka náttúru, verndargildi og sögu í gegnum list og skapandi ferli.

Smiðjur innblásnar af fjölbreyttri náttúru og sögu eru þegar farnar af stað í flestum skólunum og nemendur munu í vetur þróa listaverk sem koma svo öll saman á samsýningu skólanna í sýningarrými Náttúruminjasafnsins á 2. hæð Perlunnar á Barnamenningarhátíð í vor.

Auk samsýningarinnar verða sýningar og viðburðir í heimabyggðum skólanna, í gestastofum þjóðgarðsins og menningarhúsum.

Áhersla er lögð á að nemendur vinni út frá sínu áhugasviði, endurnýtingu og með spennandi efni og aðferðir.

Verkefnið er styrkt af Barnamenningarsjóði Íslands.

Geimfarar við æfingar í Öskju, eftir nemendur í Reykjahlíðarskóla í Mývatnssveit.

Þökkum komuna á Vísindavöku

Þökkum komuna á Vísindavöku

Þökkum komuna á Vísindavöku

Á laugardaginn var Vísindavaka Rannís haldin með pompi og prakt.

Systurstofnanirnar Náttúruminjasafn Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands sameinuðu krafta sína ásamt Biodice í stórum og veglegum bási þar sem kenndi margra grasa.

Aðaláherslan þetta árið var á líffræðilega fjölbreytni í sinni smæstu og stærstu mynd og fengu áhugasamir og upprennandi gestir Vísindavökunnar meðal annars að kynnast grösum og fléttum í litla móanum okkar og víðsjám.

Við þökkum öllum sem heimsóttu okkur kærlega fyrir komuna og sjáumst aftur að ári!

Bás Náttúruminjasafnsins og Náttúrufræðistofnunar

Þóra fræðir gesti um plöntur í litlu móspildunni okkar

Ragga sýnir áhugasömum fléttur og skófir í víðsjám

Frábær þátttaka í málþingi um vistkerfisnálgun

Frábær þátttaka í málþingi um vistkerfisnálgun

Frábær þátttaka í málþingi um vistkerfisnálgun

Matvælaráðuneytið og BIODICE stóðu fyrir málþingi um vistkerfisnálgun í umgengni við og nýtingu náttúru Íslands þann 21. september síðastliðinn.

Málþingið var haldið á Hilton Reykjavík Nordica og mættu um 60 manns á staðinn en tæplega 300 fylgdust með í streymi. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra ávarpaði málþingið í upphafi en á eftir fylgdu erindi, fyrst frá fagaðilum BIODICE um hugtakið vistkerfisnálgun og svo frá hagaðilum þar sem staða vistkerfisnálgunar var metin fyrir landbúnað, sjávarútveg og náttúruvernd.

Hægt er að nálgast upptöku af viðburðinum hér: https://vimeo.com/event/3710420 og hægt er að skoða dagskrána nánar á https://biodice.is/2023/09/20/malthing-um-vistkerfisnalgun-i-umgengni-vid-og-nytingu-natturu-islands/

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra

Markmið málþingsins var að vekja athygli á hugtakinu vistkerfisnálgun, og hlutverki þess í stefnumörkun matvælaráðuneytisins. Efni málþingsins mun nýtast í aðgerðaáætlunum ráðuneytisins en samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni til 2030 er gert ráð fyrir að stefna um aðgerðir verði innleidd hjá aðildarríkjum samningsins með vistkerfisnálgun.

Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs var fundarstjóri

Í kjölfar málþingsins mun BIODICE taka saman skýrslu fyrir ráðuneytið þar sem staða málaflokkanna og helstu áskoranir varðandi innleiðinguna munu verðar reifaðar. Svo raddir sem flestra hagaðila heyrist verður hægt að senda inn svör við tveimur spurningum er varðar málið inná www.nmsi.is/malthing fram til 2. október. 

Spurningarnar tvær sem um ræðir eru:

1) Hver eru sjónarmið þín til vistkerfisnálgunar á auðlindanýtingu lands og sjávar?

2) Hvað þarf til að ná árangri í þessu málaflokki til framtíðar?

Aðrar athugasemdir og ábendingar er hægt að senda á biodice@nmsi.is.

Málþing um vistkerfisnálgun í umgengni við og nýtingu náttúru Íslands

Málþing um vistkerfisnálgun í umgengni við og nýtingu náttúru Íslands

Málþing um vistkerfisnálgun í umgengni við og nýtingu náttúru Íslands

Matvælaráðuneytið og BIODICE munu standa fyrir málþingi um vistkerfisnálgun við nýtingu auðlinda 21. september nk. á Hilton Nordica frá kl. 9.00 til 12.30.

Markmið málþingsins er að vekja athygli á hugtakinu vistkerfisnálgun, og hlutverki þess í stefnumörkun matvælaráðuneytisins. Efni málþingsins mun nýtast í aðgerðaáætlunum ráðuneytisins.

Í samningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni til 2030 eru skilgreind fjögur meginmarkmið til ársins 2050 og 23 markmið til ársins 2030. Til að ná þessum markmiðum er gert ráð fyrir að stefnan verði innleidd hjá aðildarríkjum samningsins með vistkerfisnálgun.

Á málþinginu verður vistkerfisnálgun sett í samhengi við auðlindanýtingu og verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Lagt verður mat á stöðuna á Íslandi gagnvart innleiðingu vistkerfisnálgunar við auðlindanýtingu lands og sjávar þ.m.t. landbúnaður, landgræðsla, skógrækt, sjávarútvegur og lagareldi. Sérfræðingar stofnana og hagaðilar munu fara yfir hvaða lausnir hafa reynst vel og hvernig má vinna að vistkerfisnálgun við nýtingu.

Málþingið er öllum opið og verður aðgengilegt í streymi. Þegar málþingið hefst verður hægt verður að nálgast hlekkinn á streymið bæði á facebook-viðburðinum sem og hér: https://vimeo.com/event/3710420.

Dagskrá

Húsið opnað kl. 8.30. Fundarstjóri: Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs

9.00-9.10 Ávarp og setning: Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra
9.10-10.30 Yfirlitserindi fagaðila BIODICE um vistkerfislega nálgun: Hugtök, saga, alþjóðlegt og íslenskt samhengi og stöðumat. Höfundar: Sérfræðingateymi BIODICE. Flytjendur: Skúli Skúlason, Háskólinn á Hólum og Náttúruminjasafn Íslands, Snorri Sigurðsson, Náttúrufræðistofnun Íslands, Bryndís Marteinsdóttir Landgræðslan, Edda Sigurdís Oddsdóttir Skógræktin, Hrönn Egilsdóttir Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafastofnun hafs og vatna.

Umræður

10.30-10.50 Kaffihlé

10.50-12.10 Erindi (10 mín. hvert): Reynsla hagaðila af auðlindanýtingu í sátt við náttúruna og vistkerfisnálgun.
• Fulltrúar Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins og Bændasamtaka Íslands – Sigurður Torfi Sigurðsson, ráðunautur í umhverfis- og landnýtingarmálum RML, og Valur Klemensson, sérfræðingur í umhverfismálum BÍ
• Fulltrúi bændasamfélagsins – Oddný Steina Valsdóttir, bóndi Butru
• Fulltrúi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi – Lísa Anne Libungan, fiskifræðingur
• Fulltrúar fyrirtækis í sjávarútvegi – Sveinn Margeirsson, framkvæmdastjóri nýsköpunar og loftslagsmála, og Kristján Þórarinsson, fagstjóri fiskimála, Brimi
• Fulltrúi sveitarfélaga/skipulagsaðila – Björg Ágústsdóttir, bæjarstjóri í Grundarfirði
• Fulltrúi náttúruverndarsamtaka – Sæunn Júlía Sigurjónsdóttir, líffræðingur og náttúruverndarfulltrúi Ungra umhverfissinna

Umræður

12.10-12.30 Samantekt og lokaorð – málþingsslit: BIODICE og MAR

BIODICE er samstarfsvettvangur einstaklinga, stofnana og fyrirtækja sem hefur að markmiði að efla þekkingu og skilning á líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi. Innan BIODICE er sameinuð mikil sérfræðiþekking sem getur nýst til að ramma betur inn hvernig megi móta og fylgja eftir þeirri framtíðarsýn og áherslum sem sett hafa verið fram í stefnumörkun stjórnvalda um líffræðilega fjölbreytni.
Ný grein um landnám sindraskeljar við Ísland

Ný grein um landnám sindraskeljar við Ísland

 

Ný grein um landnám sindraskeljar við Ísland

 

Fyrir um þremur árum greindum við á heimasíðu Náttúruminjasafnsins frá fundi hnífskelja í Hvalfirði, þ.e. samlokutegund sem ekki hafði áður fundist við Ísland ef frá er skilin fundur náskyldrar tegundar árið 1957 austur í Lónsfirði. Nýlega birtist grein eftir okkur samstarfsfélagana með rannsóknaniðurstöðum um fund hnífskeljanna í vísindaritinu BioInvasion Records og ber greinin heitið Mollusc on the move; First record of the Newfoundland’s razor clam, Ensis terranovensis Vierna & Martínez-Lage, 2012 (Mollusca; Pharidae) outside its native range.

Vísindagreinin segir frá fyrstu staðfestu eintökum af tegundinni sindraskel (Ensis terranovensis) hér við land. Fundurinn er um margt áhugaverður því tegundin hefur hingað til aðeins fundist við austurströnd N-Ameríku, en þar var henni fyrst lýst við Nýfundnaland árið 2012. Hér er því um fyrsta fund samlokunnar að ræða utan náttúrulegra heimkynna tegundarinnar.

Um er að ræða samstarfsverkefni Hafrannsóknastofnunar, Náttúruminjasafns Íslands, Matís og Náttúrustofu Suðvesturlands. Náttúrustofa Suðvesturlands hefur umsjón með vöktun og rannsóknum sindraskelja við Ísland og má lesa betur um verkefnið á vef Náttúrustofu Suðvesturlands.

Greinina í BioInvasion Records má nálgast á https://www.reabic.net/journals/bir/2023/3/BIR_2023_Gunnarsson_etal.pdf.

Sindraskel, Ensis terranovensis. Mælistika: 2 cm.