Niðurstöður í hönnunarsamkeppni Náttúruminjasafns Íslands

Niðurstöður í hönnunarsamkeppni Náttúruminjasafns Íslands

 

 Niðurstöður í hönnunarsamkeppni Náttúruminjasafns Íslands    

 

Úrslit hafa verið birt í hönnunarsamkeppni Náttúruminjasafns Íslands um grunnsýningu í nýjum höfuðstöðvum safnsins á Seltjarnarnesi, Náttúruhúsi í Nesi. Sigurvegari samkeppninnar er hollenska sýningarfyrirtækið Kossmanndejong. Tíu hönnunarteymi sóttu um þátttökurétt í lokaðri samkeppni þar sem þrjú teymi komust áfram og skiluðu inn framúrskarandi tillögum um hönnun og útlit nýju sýningarinnar. Lokatillögurnar þrjár verða settar upp í anddyri sýningar Náttúruminjasafnsins á 2. hæð í Perlunni á næstunni.

Tillaga að útliti aðalsalar hinnar nýju grunnsýningar í Náttúruhúsi í Nesi, úr vinningstillögu Kossmanndejong.

Úrslit hafa verið birt í hönnunarsamkeppni Náttúruminjasafns Íslands um grunnsýningu í nýjum höfuðstöðvum safnsins á Seltjarnarnesi, Náttúruhúsi í Nesi. Sigurvegari samkeppninnar er hollenska sýningarfyrirtækið Kossmanndejong og óskar Náttúruminjasafnið því innilega til hamingju með fyrsta sætið í keppninni. Jafnframt vill safnið þakka öllum teymunum er þátt tóku fyrir þann mikla áhuga sem safninu hefur verið sýndur en hann birtist í metnaðarfullum tillögum og umsóknum um þátttöku í samkeppninni.

Hönnunarsamkeppnin var í tveimur þrepum þar sem þrjú teymi voru valin í forvali til að vinna að og leggja fram lokatillögur undir nafnleynd að hönnun og uppsetningu grunnsýningarinnar. Alls tóku tíu afar frambærileg hönnunarteymi, fimm innlend og fimm erlend, þátt í forvalinu sem auglýst var á Evrópska efnahagssvæðinu í nóvember 2022. Miðstöð hönnunar og arkitektúrs var ráðgefandi aðili samkeppninnar en Ríkiskaup sáu um framkvæmd hennar. Tvær fimm manna dómnefndir voru skipaðar fyrir sitt hvort þrep keppninnar, með þremur dómnefndarmönnum völdum af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og tveimur af Náttúruminjasafni Íslands. Af þeim þremur teymum sem valin voru í forvalinu voru tvö íslensk og eitt erlent. Lokatillögur teymanna þriggja þóttu allar framúrskarandi og mjótt var á munum í mati dómnefndar en tillaga Kossmanndejong varð að lokum hlutskörpust. Veggspjöld með tillögunum þremur verða innan tíðar sett upp til sýnis í anddyri sýningar Náttúruminjasafnsins Vatnið í náttúru Íslands á 2. hæð í Perlunni.

Sigurvegari keppninnar, Kossmanndejong, hefur hannað, framleitt og sett upp yfirgripsmiklar og rómaðar sýningar um allan heim. Á meðal þeirra má nefna tvær af níu grunnsýningum Naturalis Biodiversity Center í Leiden í Hollandi, sem hlaut Evrópsku safnaverðlaunin árið 2021. Kossmanndejong hannaði einnig grunnsýningu Sjóminjasafnsins í Reykjavík, Fiskur & fólk – sjósókn í 150 ár sem opnuð var árið 2018.

Geirfuglinn verður til sýnis á nýrri sýningu Náttúruminjasafnsins. Úr vinningstillögu Kossmanndejong.

Hér er um mikilvæg og merk tímamót að ræða í náttúrufræðimiðlun fyrir land og þjóð. Höfuðsafn Íslendinga í náttúrufræðum hefur að endingu á langri vegferð sinni og forverum þess eignast glæsilegt húsnæði og sýningaraðstöðu í faðmi náttúrunnar yst á Seltjarnarnesi. Hin nýja grunnsýning mun hverfast um hafið og lífríki þess, með áherslu á framtíðina, mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni og áhrif loftslagsbreytinga. Sýningin verður nútímaleg, fræðandi og skemmtileg – fléttuð saman með gripum úr ranni náttúrunnar og áhugaverðri gagnvirkri margmiðlun.

Sýningunni er ætlað að höfða til alls almennings en sjónum verður þó sérstaklega beint að yngri kynslóðum. Tveir lykilgripir verða á sýningunni, geirfuglinn margfrægi sem keyptur var á uppboði árið 1971 fyrir samskotafé landsmanna, og fjórtán metra löng beinagrind fullvaxins íslandssléttbaks sem veiddur var út af Vestfjörðum árið 1891, en grindin var flutt til Danmerkur sama ár. Íslandssléttbakurinn var áður fyrr algengur við Íslands strendur en er nú í bráðri útrýmingarhættu. Beinagrindin hefur ekki komið fyrir sjónir almennings áður en Náttúruminjasafn Íslands mun fá hana að láni hjá Náttúrufræðisafni Danmerkur.

Náttúruhús í Nesi, framtíðarhöfuðstöðvar Náttúruminjasafns Íslands á Seltjarnarnesi.
Sumarstörf fyrir námsmenn hjá Náttúruminjasafni Íslands og Háskólanum á Akureyri

Sumarstörf fyrir námsmenn hjá Náttúruminjasafni Íslands og Háskólanum á Akureyri

Sumarstörf fyrir námsmenn hjá Náttúruminjasafni Íslands og Háskólanum á Akureyri

Náttúruminjasafn Íslands og Háskólinn á Akureyri óska eftir sumarstarfsfólki í verkefnið Fjölbreytni örvera á Íslandi í gegnum linsuna. Verkefnið er styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og er annars vegar óskað eftir nema í líffræði/líftækni og skyldum greinum og hins vegar nema í ljósmyndun/myndlist og skyldum greinum. Verkefnið gengur út á að setja fram myndefni og fræðslutexta um örverur í umhverfi okkar en markmiðið er að vekja athygli á þessum smáa en mikilvæga heimi örveranna. Verkefninu lýkur svo með ljósmyndasýningu í ágúst sem sett verður upp í húsakynnum Háskólans á Akureyri en sú sýning er hluti af Hátíð líffræðilegrar fjölbreytni sem BIODICE stendur fyrir. Gert er ráð fyrir að nemendur hefji störf eigi síðar en 1. júní. Nemendum verður gefinn kostur á að taka þátt í vettvangsferð í alþjóðlegu sumarnámskeiði í örveruvistfræði Norðurslóða sem fram fer 5.-10. júní.

Starfstöð verkefnisins er á Akureyri, í húsnæði Háskólans á Akureyri og er verkefnið samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri, BIODICE og Náttúruminjasafns Íslands.

Umsjónarmenn verkefnisins eru Oddur Þór Vilhelmsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, Ragnhildur Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Náttúruminjasafni Íslands og Helga Aradóttir, safnkennari hjá Náttúruminjasafni Íslands.

Umsóknarfrestur er til og með 25. apríl og skulu umsóknir ásamt ferilskrá sendast á ragnhildur.gudmundsdottir@nmsi.is.

Samtök ferðaþjónustunnar á villigötum

Samtök ferðaþjónustunnar á villigötum

Samtök ferðaþjónustunnar á villigötum

„Það er sérlega miður að Samtök ferðaþjónustunnar, sem samanstanda af fjölda fyrirtækja sem reiða sig á náttúru Íslands og íslenska menningu, leggi stein í götu starfsemi höfuðsafns þjóðarinnar á sviði náttúrufræða líkt og gert er með kvörtuninni til Samkeppniseftirlitsins,“ segir Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður NMSÍ.

„Ábyrgð samtakanna er mikil þar sem þau eru í forsvari fyrir marga einkaaðila, en með kvörtuninni hafa þau gengið of langt og í raun sagt safnageiranum á Íslandi stríð á hendur. Það er miður, því ekkert bendir til annars en að nóg sé til skiptanna og ástæðulaust að láta þekkingar- eða skilningsskort á faglegri og samfélagslegri ábyrgð Náttúruminjasafnsins birgja sér sýn.“

 

Hilmar J. Malmquist kynnir starfsemi Náttúruminjasafnsins fyrir gestum

SAF og PN leggja fram kvörtun

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) ásamt Perlu Norðursins hf. (PN), rekstraraðila Perlunnar, lögðu fram kvörtun til Samkeppniseftirlitsins í janúar þar sem farið er fram á að Samkeppniseftirlitið rannsaki á grundvelli samkeppnislaga fyrirhugaða starfsemi Náttúruminjasafnsins í nýjum höfuðstöðvum safnsins, Náttúruhúsi í Nesi, á Seltjarnarnesi. SAF og PN telja að sýning Náttúruminjasafnsins, sem mun snúast um hafið og líffræðilega fjölbreytni, beinist gegn sýningu PN í Perlunni og að Náttúruminjasafnið, sem opinber stofnun og rekin fyrir almannafé, muni skekkja samkeppnisstöðu á markaði, einkaaðilum í óhag. SAF og PN líta svo á að ríkisframlag til sýningarhalds á vegum Náttúruminjasafnsins feli í sér „ólögmæta ríkisaðstoð“ og að skilja beri fjárhagslegan rekstur sýningar frá öðrum rekstrarþáttum í starfseminni.

En kvörtun SAF og PN beinist ekki einvörðungu að Náttúruminjasafninu heldur er nánast allur opinberi safnageirinn í landinu undir, þ.e. að farið er fram á að Samkeppniseftirlitið rannsaki „þau söfn og þær sýningar sem reknar eru af opinberum aðilum og eru í beinni samkeppni við einkaaðila.

 

Fjölmargar rangfærslur í furðulegri kvörtun

Hilmar segir röksemdafærslu SAF og PN furðulega, eigi sér enga stoð í lögum og að kvörtunin sé uppfull af rangfærslum og uppspuna um starfsemi Náttúruminjasafnsins og fyrirætlanir. Nánar má lesa um þetta í svari Náttúruminjasafnsins við kvörtuninni (sjá tengil hér fyrir neðan).

„Náttúruminjasafnið er eitt þriggja höfuðsafna á Íslandi sem rekið er af hinu opinbera fyrir almannafé og ekki í hagnaðarskyni og gegnir lögbundnum hlutverkum og skyldum á sviði söfnunar, skráningar, varðveislu, rannsókna og miðlunar. Meginmarkmiðið er að tryggja almenningi aðgengi að náttúru- og menningararfi landsins og vernda hann. Náttúruminjasafnið telst til grunnstoða samfélagsins á sviði menningar, mennta og vísinda. Einkaaðilar á borð við PN lúta ekki með lögboðnum hætti framangreindum leikreglum sem Náttúru­minjasafnið verður að starfa eftir, heldur er meginmarkmið þeirra að hámarka arð sinn.“  

 

Saman stöndum við, sundruð föllum við

„Það er sérlega miður að SAF, sem samanstendur af fjölda fyrirtækja sem reiða sig á náttúru Íslands og íslenska menningu, leggi stein í götu starfsemi höfuðsafns þjóðarinnar á sviði náttúrufræða líkt og samtökin gera með kvörtuninni,“ segir Hilmar. „Ábyrgð SAF er mikil þar sem þau eru í forsvari fyrir marga einkaaðila. Með kvörtuninni hafa SAF og PN gengið of langt og í raun sagt safnageiranum á Íslandi stríð á hendur. Það er miður því ekkert bendir til annars en að nóg sé til skiptanna og ástæðulaust að láta þekkingar- eða skilningsskort á faglegri og samfélagslegri ábyrgð Náttúruminjasafnsins birgja sér sýn. Mikilvægast er að hlúa að náttúru landsins, vernda líffræðilega og jarðfræðilega fjölbreytni og miðla fróðleik um hana til landsmanna og gesta landsins á vandaðan, áreiðanlegan og fjölbreyttan hátt. Það er höfuðverkefni Náttúruminjasafns Íslands og óskandi að sem flestir aðilar Samtaka ferðaþjónustunnar líti einnig svo á. Saman stöndum við, sundruð föllum við.”

 

Sjá frétt á visir.is

Kvörtun SF og PN 

Svar NMSÍ

Umsögn menningar- og viðskiðtaráðuneytis

Umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytis

Nýr vefur Náttúrufræðingsins

Nýr vefur Náttúrufræðingsins

Það er með sannri ánægju sem við segjum frá því að nýtt vefsetur Náttúrufræðingsins sem hefur verið í bígerð um nokkurt skeið hefur nú litið dagsins ljós. Vefinn er að finna á slóðinni natturufraedingurinn.is og eru útgefendur þeir sömu og standa að útgáfu tímaritsins, Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands.

Vefurinn mun þjóna því hlutverki að birta greinar sem birst hafa í Náttúrufræðingnum sem og annað efni sem tengist náttúrufræði almennt. Markmið og tilgangur vefsins er að vekja athygli á tímaritinu og breikka lesendahópinn með því að gera efnið aðgengilegra svo fleiri fái tækifæri til þess að lesa það. Með því vinnur Náttúrufræðingurinn að því að auka áhuga og þekkingu á náttúrufræðum, umhverfisvísindum og umhverfismálum og hafa þannig áhrif á viðhorf til náttúrunnar og verndunar hennar. Til að þjónusta lesendur framtíðarinnar er nauðsynlegt að þetta efni sé til á rafrænu formi sem stenst kröfur um notendavænleika og auðvelt er að nálgast.

Á vefnum er að finna síðustu þrjá árganga tímaritsins en unnið er að því að setja inn eldra efni. Einnig er hægt að skoða öll tölublöð tímaritsins frá 1. árgangi 1931, á timarit.is. Margrét Rósa Jochumsdóttir, sem tók við starfi ritstjóra Náttúrufræðingsins fyrir ári síðan og er jafnframt vefstjóri vefsetursins, hannaði og setti upp vefinn. Ingi Kristján Sigurmarsson grafískur hönnuður, sem sér um útlit og umbrot Náttúrufræðingsins, sá um að samræma útlit vefsins og prentuðu útgáfu Náttúrufræðingsins. Við erum afskaplega ánægð með árangurinn og ritstjóri þiggur með þökkum allar ábendingar og hugmyndir að efni í tölvupósti á netfangið ritstjori@hin.is.

 

 

Fróðleiksbrunnur Náttúruminjasafns Íslands

Fróðleiksbrunnur Náttúruminjasafns Íslands

Fróðleiksbrunnur Náttúruminjasafnsins

Í byrjun febrúar opnuðum við á Náttúruminjasafni Íslands Fróðleiksbrunninn okkar, nýjan fræðsluvef safnsins á slóðinni frodleiksbrunnur.is. Á Fróðleiksbrunninum má finna hvers kyns fræðslu og leiki tengda náttúrunni fyrir fólk á öllum aldri, sérstaklega yngri kynslóðirnar. Efnið hentar alls staðar, bæði sem námsefni í grunn- og leikskólum, en ekkert síður utan skólans – heima, í sumarbústaðnum eða jafnvel í tjaldútilegunni.

Fróðleiksbrunninum er skipt í nokkra hluta. Fyrst er náttúrufræðsla, safn margs konar fræðslutexta um ýmsa þætti íslenskrar náttúru, einkum tengt vatninu, hafinu og lífríki landsins. Með tíð og tíma munu bætast í þennan pott fleiri fjölbreyttir textar tengdir öðrum þáttum í umhverfi okkar og náttúru, svo sem jarðfræði, veðri og samhengi manns í náttúrunni. Í náttúruleit eru myndir og fróðleikur sem leiða gesti Fróðleiksbrunnsins áfram í könnun sinni og rannsókn á umhverfinu, til dæmis mismunandi vistkerfum, landslagi og náttúrufyrirbærum sem við sjáum allt í kringum okkur.

Náttúruteikningar innihalda teikningar af margs konar dýrum sem lifa í náttúru Íslands, ásamt forvitnilegum fróðleik um hvert þeirra. Náttúrutilraunir samanstanda af áhugaverðum tilraunum sem skemmtilegt er að glíma við og framkvæma heima eða í skólanum og náttúruþrautir innihalda orðaleit, völundarhús og stafarugl sem eru spennandi en gagnleg verkefni til að auka orðaforða og brydda upp á umræðum um náttúruna. Sérstakur hluti fróðleiksbrunnsins inniheldur lengri fræðslutexta sem henta kennurum í kennslu um afmarkaða þætti náttúrunnar og íslensks lífríkis.

Vefurinn og efni hans hefur verið í smíðum síðustu tvö árin og við á safninu erum mjög stolt af honum. Við vonum að allir náttúruvinir og gestir safnsins nýti hann sem allra mest, bæði í leik og starfi. Við þiggjum með þökkum allar ábendingar og hugmyndir tengdar Fróðleiksbrunninum í tölvupósti á kennsla@nmsi.is.