SAF og PN leggja fram kvörtun
Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) ásamt Perlu Norðursins hf. (PN), rekstraraðila Perlunnar, lögðu fram kvörtun til Samkeppniseftirlitsins í janúar þar sem farið er fram á að Samkeppniseftirlitið rannsaki á grundvelli samkeppnislaga fyrirhugaða starfsemi Náttúruminjasafnsins í nýjum höfuðstöðvum safnsins, Náttúruhúsi í Nesi, á Seltjarnarnesi. SAF og PN telja að sýning Náttúruminjasafnsins, sem mun snúast um hafið og líffræðilega fjölbreytni, beinist gegn sýningu PN í Perlunni og að Náttúruminjasafnið, sem opinber stofnun og rekin fyrir almannafé, muni skekkja samkeppnisstöðu á markaði, einkaaðilum í óhag. SAF og PN líta svo á að ríkisframlag til sýningarhalds á vegum Náttúruminjasafnsins feli í sér „ólögmæta ríkisaðstoð“ og að skilja beri fjárhagslegan rekstur sýningar frá öðrum rekstrarþáttum í starfseminni.
En kvörtun SAF og PN beinist ekki einvörðungu að Náttúruminjasafninu heldur er nánast allur opinberi safnageirinn í landinu undir, þ.e. að farið er fram á að Samkeppniseftirlitið rannsaki „þau söfn og þær sýningar sem reknar eru af opinberum aðilum og eru í beinni samkeppni við einkaaðila.“
Fjölmargar rangfærslur í furðulegri kvörtun
Hilmar segir röksemdafærslu SAF og PN furðulega, eigi sér enga stoð í lögum og að kvörtunin sé uppfull af rangfærslum og uppspuna um starfsemi Náttúruminjasafnsins og fyrirætlanir. Nánar má lesa um þetta í svari Náttúruminjasafnsins við kvörtuninni (sjá tengil hér fyrir neðan).
„Náttúruminjasafnið er eitt þriggja höfuðsafna á Íslandi sem rekið er af hinu opinbera fyrir almannafé og ekki í hagnaðarskyni og gegnir lögbundnum hlutverkum og skyldum á sviði söfnunar, skráningar, varðveislu, rannsókna og miðlunar. Meginmarkmiðið er að tryggja almenningi aðgengi að náttúru- og menningararfi landsins og vernda hann. Náttúruminjasafnið telst til grunnstoða samfélagsins á sviði menningar, mennta og vísinda. Einkaaðilar á borð við PN lúta ekki með lögboðnum hætti framangreindum leikreglum sem Náttúruminjasafnið verður að starfa eftir, heldur er meginmarkmið þeirra að hámarka arð sinn.“
Saman stöndum við, sundruð föllum við
„Það er sérlega miður að SAF, sem samanstendur af fjölda fyrirtækja sem reiða sig á náttúru Íslands og íslenska menningu, leggi stein í götu starfsemi höfuðsafns þjóðarinnar á sviði náttúrufræða líkt og samtökin gera með kvörtuninni,“ segir Hilmar. „Ábyrgð SAF er mikil þar sem þau eru í forsvari fyrir marga einkaaðila. Með kvörtuninni hafa SAF og PN gengið of langt og í raun sagt safnageiranum á Íslandi stríð á hendur. Það er miður því ekkert bendir til annars en að nóg sé til skiptanna og ástæðulaust að láta þekkingar- eða skilningsskort á faglegri og samfélagslegri ábyrgð Náttúruminjasafnsins birgja sér sýn. Mikilvægast er að hlúa að náttúru landsins, vernda líffræðilega og jarðfræðilega fjölbreytni og miðla fróðleik um hana til landsmanna og gesta landsins á vandaðan, áreiðanlegan og fjölbreyttan hátt. Það er höfuðverkefni Náttúruminjasafns Íslands og óskandi að sem flestir aðilar Samtaka ferðaþjónustunnar líti einnig svo á. Saman stöndum við, sundruð föllum við.”
Sjá frétt á visir.is
Kvörtun SF og PN
Svar NMSÍ
Umsögn menningar- og viðskiðtaráðuneytis
Umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytis