by Snæbjörn Guðmundson | 31.07.2018 | Fugl mánaðarins
Haförn
(Haliaeetus albicilla)
Haförninn er af ættbálki haukfugla (Accipitriformes) og af haukaætt (Accipitridae). Hann er eini fulltrúi ættbálksins hér á landi.
Útlit og atferli
Haförn er stærsti og sjaldgæfasti ránfugl landsins, með yfir 2 m vænghaf, oft nefndur konungur fuglanna. Aðallitur er brúnn. Fullorðinn örn er gulur eða ljósbrúnn á höfði, aftur á bak og niður á bringu en fjaðrajaðrar ljósir á baki og yfirvæng (hann er „hreistraður“). Fleyglaga stélið er hvítt. Ungfugl er allur dekkri, mógul- og rauðbrúnflikróttur að ofan, ljósari að neðan, sérstaklega á bringu. Hann lýsist smám saman með aldrinum, stél á undan höfði, og verður fulltíða sex ára. Kvenfuglinn, assan, er töluvert stærri en karlfuglinn, arinn. Goggurinn er stór, krókboginn og gulur en dökkur á ungfugli. Fætur eru gulir og klærnar dökkar. Augu eru rauðgul á fullorðnum erni, dökkgrá á ungfugli.
Örninn er auðgreindur á stærð og lögun og ferhyrndum vængjunum með ystu handflugfjaðrir vel aðskildar (fingraðar). Svífur gjarnan en er þunglamalegur í flugtaki. Oft má sjá úr mikilli fjarlægð hvar örninn svífur á þöndum vængjum yfir landi eða hafi og leitar að bráð, eða hvar hann situr langtímum saman kyrr á sama útsýnisstaðnum. Venjulega er hann styggur og friðsamur en getur verið ágengur við hreiður. Ernir eru oftast stakir, í pörum eða smáhópum (ungfuglar).
Hljóð arnarins eru hrjúft gelt eða hlakk, assan er dimmraddaðri.
Fullorðinn haförn steypir sér.
Fullorðinn örn við Breiðafjörð.
Fullorðinn örn við Breiðafjörð.
Ungur örn við Breiðafjörð. Fuglinn er merktur með númeruðum fóthringjum, svo fylgjast megi með ferðum hans.
Lífshættir
Örninn veiðir sér til matar og er aðalbráðin fýll sem hann tekur á flugi, en æðarfugl tekur hann á sjó og fisk (hrognkelsi, laxfiskar) grípur hann við yfirborð. Lundi og máfar eru einnig teknir. Hann etur gjarnan hræ og rænir stundum æti frá öðrum fuglum.
Kjörlendi hafarnar er strendur með miklu útfiri, einnig fiskauðugar ár og vötn. Hann verpur í hólmum, á klettasyllum, stöpum í bröttum hlíðum eða hraunum. Hreiðrið er stundum allmikill birkilaupur en oftast lauslega samsett dyngja úr þangi, hvannnjólum og grasi. Eggin eru 1-3, en þrír ungar komast sjaldan á legg. Útungunartíminn er 5-6 vikur og ungarnir verða fleygir á 10-11 vikum.
Arnarhjón við Breiðafjörð.
Arnartvíburar í hreiðri við Faxaflóa.
Arnarhjón við hreiður með einum unga.
Útbreiðsla og stofnstærð
Haförninn er staðfugl. Hann var áður dreifður um land allt en höfuðstöðvarnar hafa ávallt verið á Vesturlandi. Þar hélt hann velli þrátt fyrir skefjalausar ofsóknir undir lok 19. aldar. Hann var alfriðaður 1913 en var þrátt fyrir það nærri útdauður um 1960, þá voru aðeins um 20 hjón í stofninum. Árið 1963 var Fuglaverndarfélag Íslands stofnað til verndar erninum. Síðan þá hefur stofninn er rækilega vaktaður í samstarfi Fuglaverndar og Náttúrufræðistofnunnar.
Ernir „klóast“ í loftinu. Í Faxaflóa.
Á síðustu áratugum hefur erninum fjölgað hægt en örugglega og var stofninn 75 pör, 200-250 fuglar, árið 2016. Þar af verpa 63% við Breiðafjörð, en afgangurinn við Faxaflóa, á Vestfjörðum og við Húnaflóa. Sennilega á örninn eftir að nema land í öðrum landshlutum að nýju. Hann hefur reynt varp á Suðurlandi á síðustu árum, en ekki komið upp ungum. Þeir leita aftur á gamla varpstaði, sem hafa ekki verið notaðir í áratugi. Á veturna má búast við þeim hvar sem er. Annars staðar verpa hafernir frá Vestur-Grænlandi austur um Evrópu og Asíu að Kyrrahafi.
Ekki má nálgast hreiður arna á varptíma, nema með sérstöku leyfi frá Umhverfisstofnun. Allar hreiðurmyndir sem fylgja pistlinum eru teknar með leyfi stofnunarinnar.
Fullorðinn örn hefur sig til flugs.
Örn á flugi í Breiðafirði að vetrarlagi.
Hrafnar gera at í ungum erni. Í Faxaflóa.
Þjóðtrú og sagnir
Eins og eðlilegt má teljast, fylgja ófár sagnir og mikil þjóðtrú erninum. Það er alþekkt þjóðtrú, að ernir taki börn. En börn urðu minnug af að drekka mjólk gegnum arnarfjöðurstaf. Til að sjá hulda hluti skal maður bera á sér arnarauga eða maka því í kringum augu sér. Ef gull er látið í arnarhreiður, skapast óskasteinn og úr ófrjóu eggi brýst sá mikli ránfugl, sem flugdreki nefnist.
Kveðskapur
Örninn flýgur fugla hæst
Örninn flýgur fugla hæst um forsal vinda.
Hinir það sér láta lynda,
leika, kvaka, fljúga og synda.
Þjóðvísa.
Að vestan
Yst á Hornströndum heitir
Hornbjarg og Kópatjörn.
Þeir vita það fyrir vestan,
þar verpur hvítur örn.
…
Eftir Theodóru Thoroddsen.
…
Klógulir ernir yfir veiði hlakka;
því fiskar vaka þar í öllum ám.
Blikar í laufi birkiþrastasveimur
og skógar glymja, skreyttir reynitrjám.
…
Úr Gunnarshólma eftir Jónas Hallgrímsson.
Haförn
Fagur er fuglinn
er flýgur hér hjá.
Frjálsborinn er hann
og hafið hann á.
Flýgur yfir Esjuna
haförninn sá.
Gyllir í sól
við sjávarrönd.
Ferjumaðurinn.
Fullvaxinn arnarungi. Í Faxaflóa.
Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson
by Snæbjörn Guðmundson | 1.07.2018 | Fugl mánaðarins
Lóuþræll (Calidris alpina)
Lóuþræll í Eyrarbakkafjöru.
Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Einkenni margra vaðfugla eru langur goggur, langir fætur og langur háls. Þeir eru dýraætur sem éta alls konar hryggleysingja og langur goggurinn er hentugur til að grafa eftir æti í leirum, tjarnarbotnum og jarðvegi. Vaðfuglar helga sér óðul og verpa pörin stök. Ungarnir eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið strax og þeir eru orðnir þurrir. Hjá flestum vaðfuglum ala báðir foreldrarnir önn fyrir ungunum. Kynjamunur er lítill hjá vaðfuglum, karlfuglinn er þó oft aðeins skærlitari og ívið minni en kvenfuglinn. Þessu er þó öfugt farið hjá sundhönum (óðinshanar og þórshanar hér á landi). Sjáist hjón saman má oft aðgreina kynin.
Útlit og atferli
Lóuþrællinn er smávaxinn vaðfugl, einkennisfugl í mýrum og hálfdeigjum. Á sumrin er hann gulbrúnn og svartflikróttur að ofan en ljósari að neðan með stóran, svartan blett eða svuntu neðarlega á bringunni og aftur á kvið. Á flugi má sjá mjó hvít vængbelti. Gumpur er hvítur með dökkri rák í miðju og stél grátt, einnig með svartri miðrák. Á veturna missir hann svörtu svuntuna. Ungfugl er svuntulaus, með áberandi rákótta bringu. Goggurinn er fremur langur, svartleitur og örlítið niðursveigður. Fæturnir eru einnig svartir og augun dökk.
Lóuþræll í Friðlandinu í Flóa.
Syngjandi lóuþræll við Heiðarhöfn á Langanesi.
Lóuþræll sýnir vald sitt í Eyrarbakkafjöru.
Lóuþrællinn flýgur hratt. Í hópum á flugi bregður til skiptis fyrir ljósum kviðnum og brúnu bakinu. Hann stendur fremur hokinn. Er félagslyndur utan varpstöðva. Sést oft í fylgd með lóum á vorin og dregur af því nafn sitt, ásamt því að bera svipaðan fjaðurham og lóan. Þaðan fær hann nafn sitt. Hann gefur frá sér langdregið vell á varpstöðvum og stutt og hvellt, bírrandi nefhljóð.
Lífshættir
Lóuþrællinn er dýraæta, tekur skordýr, m.a. mýrlirfur, smá skeldýr, snigla og burstaorma. Leitar ætis í hópum utan varpstöðva, oftast í fjörum.
Verpur í margs konar mýrlendi, forblautu jafnt sem hálfdeigu, en einnig í þurrara graslendi og móum og þéttasta varpið er talið vera á Suðurlandsundirlendinu. Hreiðrið er dæld í gróður, fóðrað með sinu, venjulega vel falið. Eggin eru fjögur, útungun tekur um þrjár vikur og ungarnir verða fleygir á öðrum þremur. Utan varptíma er hann oft í stórum hópum á leirum og söndum með öðrum vaðfuglum, en sést einnig í votlendi inn til landsins.
FlóaLóuþrælshreiður í Friðlandinu í Flóa.
Lítið er lunga í lóuþrælsunga … Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Lóuþræll með unga barmar sér og reynir að afvegaleiða ljósmyndarann. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Útbreiðsla og stofnstærð
Lóuþræll er farfugl. Vetrarstöðvar íslenskra fugla eru aðallega í Vestur-Afríku, en hluti þeirra dvelur á vestanverðum Pýreneaskaga á veturna. Grænlenskir lóuþrælar fara hér um vor og haust, sumir þeirra eru ljósari en þeir íslensku. Örfáir fuglar sjást stundum í fjörum á Suðvesturlandi á veturna. Lóuþræll verpur allt í kringum Norður-Íshafið og suður til Englands og Póllands.
Ungur lóuþræll í Eyrarbakkafjöru.
Lóuþrælar í vetrarbúningi á Eyrarbakka.
Hópur af lóuþrælum í Andakíl.Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Þjóðtrú, sagnir og kvæði
Lítið er um lóuþrælinn í þjóðtrúnni, það helsta tengist sambandi hans við lóuna, eins og nafnið bendir til. Hann á meðal annars að aðstoða hana í makavali.
Kveðskapur
Nafnlaus vísa
Gamli vinur, Gísli sæll,
gott er frá að heyra,
í lofti kvakar lóuþræll
ljúft við kalið eyra.
…
Eftir Högna Egilsson.
Lóuljóð
Við kveðum um lóunnar ljóðin
en látum þær syngja óðinn
þó mishátt sé gengið og gróðinn
er gatan í sömu átt.
Kvöldhúmið stígur hljóðan dans
hörpuna blærinn slær
þær ferðast í líki freistarans
þó feti nær vaknar þú litli lóuþræll
og leitar í hverjum mó
en tilvera þín er tjörn í lágum skó
þær gefa þér allt sem þær eiga
oftast nær fleira en þær mega.
Já lóan er fim þessi fleyga
þó flugið sé stundum lágt.
Eftir Guðmund Árna Valgeirsson.
Heiðlóan syngjandi frá okkur flaug
Heiðlóan syngjandi frá okkur flaug
með fegurstan sönginn og bestan.
Í Kinninni er farið að taka í taug
tittlingasöngur að vestan.
Eftir Baldur Baldvinsson á Ófeigsstöðum.
Kristján frá Djúpalæl svararði:
Barst til okkar angurvæl austan úr ríki klaka.
Ofurlítinn lóuþræl langaði til að kvaka.
.
Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson.
by Snæbjörn Guðmundson | 1.06.2018 | Fugl mánaðarins
Hettumáfur (Larus ridibundus)
Hettumáfshjón í varpi á Stokkseyri.
Fullorðinn hettumáfur á flugi í Borgarfirði.
Máfar, kjóar og þernur eru af sama ættbálki og vaðfuglar og svartfuglar og teljast til strandfugla (Charadriiformes). Fuglarnir hafa sundfit, flestir máfar og kjóar eru með sterklegan gogg sem er krókboginn í endann. Þeir eru leiknir flugfuglar. Kynin eru eins útlits, en karlfuglinn er oftast heldur stærri. Máfar, kjóar og þernur verpa yfirleitt í byggðum. Ungar þeirra eru bráðgerir. Máfum er oft skipt í tvo hópa til hægðarauka, stóra máfa (svartbakur, hvítmáfur, sílamáfur o.fl.) og litla (t.d. hettumáfur, rita og stormmáfur).
Hettumáfar kljást. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Hettumáfur í júlí á Stokkseyri, aðeins byrjaður að fella hettuna.
Útlit og atferli
Hettumáfur er algengur votlendisfugl og minnsti máfurinn sem verpur hér á landi að staðaldri. Hann er oftast auðþekktur, ljósari, minni og léttari á flugi en rita og stormmáfur. Í sumarbúningi er fullorðinn fugl ljósgrár á baki og vængjum en annars hvítur að mestu. Dökkbrún hetta nær niður á háls, vængbroddar eru svartir. Hettumáfur er hettulaus í vetrarbúningi, frá ágúst og fram í mars, með svartar kámur aftan augna. Nýfleygir ungar eru brúnflikróttir að ofan en lýsast á haustin. Fugl á fyrsta vetri er hvítur á höfði, hálsi og að neðan, vængir brún- og svartflikróttir að ofan, stéljaðar svartur. Fær fullan búning á öðru hausti. Mjósleginn goggur og fætur eru hárauðir á fullorðnum hettumáfi, en ungfugl er með bleiklita fætur og gogg með dökkum broddi. Augu eru dökk og augnhringur er hvítur.
Hettumáfur er ekki eins mikill sjófugl og rita. Hann sést oft við fæðuleit í fjörum, á leirum og við skólpræsi. Er félagslyndur og fremur spakur. Gefur frá sér hávært garg, sérstaklega um varptímann.
Hettumáfur með hreiðurefni í varpi í tjarnarstör á Stokkseyri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Hettumáfshreiður. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Hettumáfsungi á Stokkseyri.
Hettumáfur með þrjá fullvaxna unga á við Þrísteinaflóð, Stokkseyri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Nýfleygur hettumáfsungi á Akureyri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Ársgamall hettumáfur í vetrarbúningi við Reykjavíkurtjörn.
Lífshættir
Aðalfæða hettumáfs er úr dýraríkinu, svo sem skordýr, sniglar, ormar og aðrir hryggleysingjar. Hann sækir einnig í smáfisk, ber og úrgang og leitar ætis fljúgandi, syndandi og gangandi. Stundum eltir hann sláttuvélar eða plóga og hremmir smádýr sem koma í ljós í slægjunni eða plógfarinu.
Verpur í byggðum í margs konar kjörlendi á láglendi, bæði blautu og þurru, en er hændastur að votlendi, við strendur, á söndum, í mýrlendi og við vötn og tjarnir girtar ljósastör, stundum í nábýli við kríu. Hreiðrið er dyngja úr þurrum gróðri, getur orðið stórt um sig í votlendi. Eggin eru oftast þrjú, álegan tekur 23-26 daga, og ungarnir verða fleygir á um fimm vikum. Hettumáfur nam hér land á 20. öld. Líkt og krían er hann harðfylginn og ver vörp sín gegn óboðnum gestum og sækjast endur og vaðfuglar eftir því að verpa innan um hettumáfa. Hann er því lykiltegund.
Hettumáfshjón í varpi á Stokkseyri.
Útbreiðsla og stofnstærð
Hettumáfur er að mestu farfugl, þó fáein þúsund hafi hér vetursetu, aðallega á Suðvesturlandi, en í minna mæli á norðanverðu landinu. Hann er útbreiddur um land allt, en stærstu byggðirnar eru á Suðurlandi, við sunnanverðan Faxaflóa og um miðbik Norðurlands. Byggðirnar geta verið óstöðugar og eru dæmi þess að stærstu vörp hafa flutt sig um set, stundum tímabundið. Vetursetufuglar halda til í höfnum og við þéttbýli, en farfuglar fara til Vestur-Evrópu en einnig til SV-Grænlands, Nýfundnalands og víðar um Norður-Ameríku, þar sem hann er nýfarinn að verpa. Er annars varpfugl um mestalla Evrópu og austur um norðanverða Asíu. Varpstofninn hér er talinn vera 25.000-30.000 pör.
Skildar tegundir
Litli frændi hettumáfsins, dvergmáfur, hefur verið að þreifa fyrir sér með landnám hér á síðustu árum, hreiður hans hafa fundist í hettumáfsvörpum á Norðurlandi. Trjámáfur er systurtegund hettumáfs í Norður-Ameríku, og hefur hann einu sinni orpið hérlendis.
Dvergmáfur við Bakkatjörn á Seltjarnarnesi.
Trjámáfur á Rauðasandi.
Þjóðtrú, sagnir og kvæði
Þar sem hettumáfurinn er svo nýr borgari í náttúru Íslands er ekkert um hann að finna í íslenskri þjóðtrú. Enginn virðist hafa fundið sig knúinn til að yrkja um hann. Hettumáfur er stundum nefndur dagblaðskría, en það gerðist ítrekað hér á árum áður, að blöðin birtu mynd af hettumáfi á forsíðu og sögðu að krían væri komin. Blöðin í dag hafa tekið sig á í fuglagreiningu.
Texti og myndir: Jóhann Óli Hilmarsson.
by Snæbjörn Guðmundson | 1.05.2018 | Fugl mánaðarins
Teista (Cepphus grylle)
Teista í Flatey á Breiðafirði. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Teista telst til svartfugla, þeir tilheyra ættbálki strandfugla (Charadriiformes) og allir sömu ættinni, svartfuglaættinni. Svartfuglar afla fæðu sinnar úr sjó, verpa við sjó og ala allan sinn aldur á sjó, nema þegar þeir koma á land til að verpa. Þetta eru langlífir fuglar sem verða seint kynþroska. Svartfuglar sýna maka tryggð, verpa í byggðum og þeir verpa einu eggi nema teista.
Útlit og atferli
Teista er eini íslenski svartfuglinn sem er svartur á kviði. Á sumrin er teistan alsvört, nema með hvítan blett á vængþökum og ljósa, svartbrydda undirvængi. Á veturna er hún ljósari en aðrir svartfuglar, svart- eða grárákótt að ofan, ljósleit að neðan, með svart stél og vængreitirnir minna áberandi. Ungfugl er dekkri, með rákótta vængreiti og dökkan koll. Goggurinn er svartur, mjór og oddhvass, kok og tunga rauð. Fætur eru hárauðir á sumrin en gulir á veturna, augu dökkbrún.
Vængir teistunnar eru fremur stuttir og breiðir, hún flýgur oftast lágt yfir haffleti með hröðum vængjatökum og eru vængreitir þá áberandi. Hegðun svipar til langvíu en teista er hreyfanlegri á landi. Teistur sjást venjulega stakar eða í litlum hópum.
Gefur frá sér hást, sérkennilegt tíst, sem getur verið mjög skerandi. Nafnið er væntanlega komið af þessu tísti.
Teista í Flatey á Breiðafirði.
Teista í Flatey á Breiðafirði. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Lífshættir
Aðalfæðan er sprettfiskur (skerjasteinbítur), sem hún tekur á grunnsævi. Hún tekur einnig annan smáfisk, eins og sandsíli og marhnút, og hryggleysingja, svo sem krabbadýr, burstaorma og kuðunga.
Teistan heldur sig við strendur og á grunnsævi og leitar sjaldan út á rúmsjó. Verpur stök eða í litlum byggðum í eyjum, höfðum og urðum undir fuglabjörgum. Hreiður eru í klettaskorum, sprungum, undir steinum eða á syllum í hellum. Eggin eru tvö og er útungunartíminn um mánuður, Ungarnir verða fleygir á sex vikum og yfirgefa þeir hreiðurholuna fullvaxta.
Teistuhreiður á Steingrímsfirði. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Teista með sprettfisk í Flatey á Breiðafirði.
Ung teista í Þorlákshöfn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Útbreiðsla og stofnstærð
Töluvert af íslenskum fuglum, aðallega ungfuglar, hafa vetursetu við Grænland, annars er teistan staðfugl að stórum hluta. Eitthvað af norrænum teistum hefur hér vetrardvöl. Heimkynni teistu eru á norðurslóðum, umhverfis norðurhvel.
Friðun teistu
Í maí fyrir ári skoraði Fuglavernd, Skotvís og Vistfræðifélagið á umhverfisráðherra, að friða teistuna. Teistustofninn er lítill og hefur verið áætlaður 10.000-15.000 varppör, sem samsvarar 51.000-77.000 einstaklingum. Teistum hefur fækkað verulega víða um land og er talið líklegt að þessi stofnstærðartala sé í raun mun lægri. Til dæmis hefur teistu fækkað um 80% í Strandasýslu frá 1959, en einnig í Flateyjum á Breiðafirði og á Skjálfanda. Tölur yfir veidda fugla hafa dregist saman um þriðjung síðastliðna tvo áratugi: úr 4.129 fuglum að meðaltali árin 1995-2002 í 2.740 fugla að meðaltali á ári 2004-2013 skv. veiðitölum.
Leiddar hafa verið líkur að því að fækkun teistu tengist:
1. breytingum á fæðuframboði;
2. ágangi minks í landvörp; og
3. meðafla í grásleppunetum.
Fuglavernd hóf rannsókn á meðafla í grásleppunetum 2015 og sýna frumniðurstöður að teistur ánetjast mest fuglategunda eða allt að 6.700 fuglar árlega. Veiðar á teistu eru ekki sjálfbærar. Umhverfisráðherra, Björt Ólafsdóttir, tók vel í þessa beiðni félaganna og tók friðun teistu gildi 1. september 2017.
Teistur í Steingrímsfirði. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Teista í vetrarbúningi á Ólafsfirði.
Teista með hrognkelsaseiði í Flatey á Breiðafirði. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Þjóðtrú
Þjóðtrúin er fremur fáskiptin um teistuna. Þó segir Snorri á Húsafelli að þegar stormur er í nánd, fljúgi hún með tísti kringum skip. Einnig varaði hún við illhvelum með því að setjast á borðstokk skipa og fljúga síðan til lands. Víða taldist ólánsmerki að drepa fullorðna teistu.
Kveðskapur
Teistur í urðum tísta ótt,
telst það furða hvað þær geta.
Við ætisburð að ungum fljótt,
og ekki er þurrð á hvað þær eta.
Eftir Þorstein Díómedesson.
Út um grundir graðhestar,
geitur, hundar, urriðar,
teistur, lundar, tittlingar,
taka undir stemmurnar.
Eftir Þórarinn M. Baldursson.
Myndir og texti: Jóhann Óla Hilmarsson.
by Snæbjörn Guðmundson | 5.04.2018 | Fugl mánaðarins
Sandlóa (Charadrius hiaticula)
Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Þó einkenni margra þeirra sé langur goggur, háls og langir fætur, eru nokkrir með stutta fætur og gogg, þar á meðal fuglar sem tilheyra lóuættinni, sem hér á landi eru sandlóa og heiðlóa. Þeir sækja meira í þurrlendi heldur en margir vaðfuglar með lengri gogg. Vaðfuglar helga sér óðul og verpa pörin stök. Ungarnir eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið strax og þeir eru orðnir þurrir. Hjá flestum vaðfuglum ala báðir foreldrarnir önn fyrir ungunum.
Útlit og atferli
Sandlóa er með minnstu vaðfuglum hér, álíka stór og sendlingur og lóuþræll, og er hálsstutt og fremur kubbslega vaxin. Hún er grábrún að ofan en hvít að neðan, á sumrin með hvítan kraga um hálsinn og svart belti þar fyrir neðan, einnig svarta grímu um augu en er hvít á enni. Karlinn er ögn litsterkari en kerlan. Sandlóa hefur hvít vængbelti sem sjást vel á flugi. Stél og gumpur eru dökk með hvítum jöðrum. Ungfugl og fullorðin sandlóa í vetrarbúningi eru litdaufari, ungfuglar eru með ljósum fjaðrajöðrum að ofan („hreistraðir“), bæði með grábrúna grímu og bringubelti.
Rauðgulur goggurinn er stuttur og svartur í oddinn, alsvartur á ungfugli. Fætur eru einnig rauðgulir en augun dökk. Röddin er hljómþýð, söngurinn endurtekið vell.
Sandlóuhjón í í Eyrarbakkafjöru, karlinn nær.
Sandlóukarlar í erjum í Eyrarbakkafjöru.
Sandlóuerjur í Eyrarbakkafjöru. Þær eru að slást um besta fæðusvæðið.
Lífshættir
Þessi litli fugl er fjörlegur og kvikur. Hann er vænglangur og flýgur yfirleitt hratt og lágt og með reglulegu vængjablaki. Sé reynt að nálgast hreiður eða unga sandlóunnar, barmar hún sér og þykist vera vængbrotin, til að draga að sér athyglina og lokka óvininn burt. Fremur félagslyndur utan varptíma.
Sandlóa tínir skordýr, krabbadýr, orma og lindýr af jörðinni eða úr fjörum, t.d. þangflugulirfur, doppur, mýlirfur og marflær. Við fæðunám er hún mjög kvik, hleypur um og skimar eftir æti, stoppar, hremmir bráðina og er svo rokin af stað aftur.
Sandlóa heldur sig einkum á sendnu landi og í möl, bæði við sjó og á melum og áreyrum inn til landsins. Hreiðrið er dæld í möl eða sand, óhulið, fóðrað með smásteinum og skeljabrotum. Eggin eru venjulega fjögur eins og hjá flestum vaðfuglum. Útungunartíminn er um 24 dagar og ungarnir eru álíka lengi að verða fleygir. Utan varptíma dvelur sandlóan á leirum og í sandfjörum.
Sandlóa á hreiðri á Stokkseyri.
Sandlóuhreiður á Stokkseyri.
Sandlóa barmar sér við hreiður í Breiðavík.
Sandlóuungi í Kollafirði á Ströndum.
Ung sandlóa í Eyrarbakkafjöru.
Útbreiðsla og stofnstærð
Sandlóa er alger farfugl. Hún verpur dreift um land allt, en er algengust við sjávarsíðuna. Hún er einn útbreiddasti fugl landsins, en er alls staðar fremur strjál. Stórir hópar fugla sem verpa á Grænlandi fara hér um vor og haust. Vetrarstöðvar eru með ströndum fram á Bretlandseyjum, í Vestur og Suðvestur-Evrópu (Frakklandi og Pýreneaskaga) og Vestur-Afríku, frá Marokkó suður til Gambíu. Sandlóan verpur auk þess í N-Evrópu og Síberíu, allt austur að Beringssundi og NA-Kanada. Talið er að um 20-30% af heimsstofni sandlóu verpi hér á landi og er hún því íslensk ábyrgðartegund.
Kveðskapur
Sandló lipur fótafim,
fyrirglepur eggjavörgum.
Hleypur tifur harða rim,
Hennar svipur þekkt er mörgum.
Eftir Þorstein Díómedesson.
Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson