Ný sýn á þróun lífs

Ný sýn á þróun lífs

Skúli Skúlason prófessor við Háskólann á Hólum og sérfræðingur á Náttúruminjasafni Íslands birti nýlega yfirlitsgrein ásamt samstarfsfélögum sínum í tímaritinu Biological Reviews þar sem fjallað er um nýja sýn á þróun lífvera. Greinin ber heitið A way forward with eco evo devo: an extended theory of resource polymorphism with postglacial fishes as model systems og má lesa hér.

Skúli Skúlason o.fl. 2019

Í ágripi greinarinnar kemur fram að meginmarkmið líffræðilegrar þróunarfræði er að skilja og skýra hvernig fjölbreytileiki lífvera (líffræðileg fjölbreytni, e. biodiversity) verður til og hvernig lífverur breytast í tímans rás. Þó þekking á þessu hafi aukist mikið á undanförnum árum er mörgum spurningum enn ósvarað um orsakir breytileika í svipfari lífvera, hvernig hann verður til og á hvaða hátt hann mótast af náttúrulegu vali.

Höfundar hvetja til þess að takast á við viðfangsefnið með því að skoða í samhengi vist-, þróunar- og þroskunarfræðilega þætti (kallað á ensku eco, evo, devo). Þannig er tekið mið af því annars vegar að hið vistfræðilega umhverfi (eco) mótar þroskun svipgerða (devo), samhliða því að leggja grunn að náttúrlegu vali þeirra (eco – evo); og hins vegar að lífverur geta haft mótandi áhrif á umhverfið sem þær þroskast og þróast í (eco – evo og eco – devo feedbacks). Gagnsemi eco – evo – devo nálgunarinnar kemur vel fram þegar hún er tengd við kenningu um þróun fjölbrigðni innan tegunda (e. theory of resource polymorphism) og er þróun ólíkra afbrigða hjá mörgum tegundum ferskvatnsfiska á norðurslóðum, t.d. bleikjuafbrigða í Þingvallavatni, sérstaklega áhugaverð í þessu sambandi. Rannsóknir sýna að þróun þessara afbrigða er hröð og stafar af: 1) fjölbreyttu umhverfi sem veldur rjúfandi vali (þar sem aðskilin afbrigði myndast) innan stofna og tegunda; 2) þroskunarferlum sem eru næmir fyrir áhrifum umhverfis- og erfðaþátta; og 3) eco–evo og eco–devo áhrifum fiskanna á umhverfi sitt sem geta mótað hvernig náttúrlegu vali, sem og sveigjanleika svipgerða, er háttað. Sagt er frá viðeigandi dæmum þessu til stuðning, sett fram líkan um tilurð fjölbrigðni sem samþættir eco – evo – devo nálgun, og bent á mikilvægar rannsóknarspurningar og tilgátur sem þarfnast skoðunar.

Hvert er mikilvægi straumvatna fyrir lífríkið, fiska og menn? Árnar eru lífæðar landsins

Hvert er mikilvægi straumvatna fyrir lífríkið, fiska og menn? Árnar eru lífæðar landsins

Þriðjudaginn 4. júní nk. mun Kurt Fausch prófessor emeritus við Department of Fish, Wildlife, and Conservation Biology, Colorado State University halda fyrirlestur með titlinum:

What is essential about rivers for fish, and humans? Lessons on connectivity and connections from four decades.

Kurt er heimsþekktur vísindamaður sem hefur helgað líf sitt rannsóknum og miðlun þekkingar um vistfræði vatnakerfa, með sérstakri áherslu á ár og fiskana í þeim, þ.m.t. laxfiska. Hann er baráttumaður fyrir skynsamlegri umgengni og nýtingu straumvatna og bendir á að árnar eru lífæð mannkyns sem ber að varðveita og umgangast af virðingu. Hann er m.a. höfundur bókarinnar For the Love of Rivers: A Scientist’s Journey, sem kom út 2015.

Hérlendis er mikil umræða um umgengni og verndun vatna og áa og fiskistofna, sem m.a. tengist loftslagsbreytingum, virkjanamálum og fiskeldi. Fyrirlestur Kurts er kærkomið innlegg í þessa umræðu og til þess fallið að auka skilning okkar á mikilvægi rennandi vatns í lífkeðju landsins.

Fyrirlesturinn verður í sal 130 í Öskju Háskóla Íslands, og hefst kl. 12.30

Sjá nánar/ENGLISH

Heimsókn Kurt til Íslands er á vegum Háskólans á Hólum, Hafrannsóknastofnunar, Háskóla Íslands og Náttúruminjasafns Íslands

Allir velkomnir!

Hátíð hafsins hjá Náttúruminjasafninu um helgina

Hátíð hafsins verður haldin nú um helgina 1.-2. júní og fjölmagir áhugaverðir viðburðir í boði um allt land fyrir gesti og gangandi. Náttúruminjasafnið tekur þátt í hátíðarhöldunum og býður upp á tvo viðburði. Á hafnardeginum, laugardaginn 1. júní kl. 13, flytur Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins erindi í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins, sem hann kallar „Af íslandssléttbökum í Kaupmannahöfn: íslenskur náttúruarfur eða danskur menningararfur.“ Á sjómannadeginum sunnudaginn 2. júní, býður Náttúruminjasafnið krökkum og fjölskyldufólki í Perluna til að kynnast forvitnilegum sjávardýrum – lifandi steinbítum, brimbútum, kross- og sogfiskum, Safnkennarar verða til taks og fræða krakkana um dýrin milli kl. 13 og 16. Ókeypis aðgangur verður að þessu tilefni inn á sýningu safnsins, Vatnið í náttúru Íslands, á 2 hæð í Perlunnai milli kl. 13 og 16.

 

Nánar um íslandssléttbakaerindið

Hilmar mun segja frá verkefni sem Náttúruminjasafn Íslands og Náttúrufræðisafn Danmerkur (Statens Naturhistoriske Museum, Zoologisk Museum) vinna að og fjallar um rannsókn á beinagrindum tveggja sléttbaka (Eubalaena glacialis) sem veiddust við Ísland 1891 og 1904 og eru varðveittar í Kaupmannahöfn. Sléttbakar, öðru nafni Íslandssléttbakar voru eitt sinn algengir í norðanverðu Atlantshafi en eru nú í mikilli útrýmingarhættu. Greint verður frá náttúrusögu tegundarinnar, heimildavinnu um hvalina tvo í Kaupmannahöfn, vikið að merku og nýuppgötvuðu framlagi Jóns lærða Guðmundssonar í tengslum við hvalina og sagt frá nýlokinni háskerpu þrívíddarskönnun á annarri beinagrindinni. Þá verður vikið að vinnu Náttúruminjasafnsins við að sannfæra Dani um að afhenda Íslendingum til langs tíma aðra beinagrindina, enda um náttúruarf að ræða sem tilheyrir Íslandi.

Íslandssléttbakur kominn á land á hvalstöð Victorsfélagsins á Höfðaodda (Framnesi) í Dýrafirði. Myndin er tekin 1891, sama ár og annar sléttbakurinn sem er í Kaupmannahöfn var veiddur. Ljósmynd: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Að mennta börn í söfnum – barnamenning

Að mennta börn í söfnum – barnamenning

Höfuðsöfnin þrjú – Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands og Náttúruminjasafn Íslands – boða til árlegs vorfundar mánudaginn 29. apríl n.k. Fundurinn verður haldinn í Safnahúsinu við Hverfisgötu undir yfirskriftinni: Að mennta börn í söfnum – barnamenning.

Vorfundurinn hefst kl. 9 með ávarpi f.h. mennta- og menningarmálaráðherra og erindi dr. Christian Gether, safnstjóra Arken í Danmörku, sem nefnist: ARKEN, a Part of Society´s Enlighetenment Project towards its Citizens. Ideas and Practices. 

Síðan verður fjallað um verkefni á sviði barnamenningar hjá höfuðsöfnunum og rannsóknir og þekkingarsköpun í safnastarfi. Eftir hádegið verða sýningar og höfuðsöfn heimsótt. Við lok dagskrár kl. 16:30 heldur Safnaráð úthlutunarboð í Listasafni Íslands við Fríkirkjuveg.

Vissirðu að vatn getur líka flogið?

Vatnskötturinn er vinsælt myndefni. Ljósm. IRI.

Sýning Náttúruminjasafnsins í Perlunni er sniðin að börnum. Vatnskötturinn tekur á móti börnunum og leiðir þau um sýninguna, en vatnsköttur er þeirri náttúru gæddur að geta flogið á einu lífsstigi sínu, þegar hann er orðinn að fjallaklukku!

Sigrún Þórarinsdóttir, safnakennari við Náttúruminjasafnið segir frá sýningu Náttúruminjasafnsins á vorfundinum kl. 10:55. Erindi hennar nefnist: Vissirðu að vatn getur líka flogið? Börnin og vatnið í náttúru Íslands. Heimsókn með leiðsögn og kynningu á sýningunni verður svo kl. 14:30. Óskað er eftir að fólk skrái sig í heimsóknina.

Dagskrá vorfundar 2019

Skráning fer fram hér  og stendur til og með 23. apríl.

 

Sambúð manns og náttúru í Svartárkoti

Sambúð manns og náttúru í Svartárkoti

Umsóknarfrestur um þátttöku í námskeiði sumarsins í Svartárkoti hefur verið framlengdur til 15. apríl n.k. Viðar Hreinsson, bókmenntafræðingur og framkvæmdastjóri verkefnisins Svartárkot, menning náttúra segir að námskeiðið sem nefnist „Human Ecology and Culture at Lake Mývatn 1700–2000: Dimensions of Environmental and Cultural Change” verði sem fyrr haldið á grunni íslenskra og alþjóðlegra rannsóknaverkefna sem tengst hafa Svartárkoti á undanförnum árum.

Þátttakendur og hluti kennara á sumarnámskeiði í ágúst 2018 stilla sér upp við Hrafnabjargafossa.

Verkefninu Svartárkot – menning náttúra – var hleypt af stokkunum árið 2006 af ábúendum í Svartárkoti í Bárðardal og félögum í Reykjavíkur Akademíunni undir forystu Viðars til þess að byggja upp alþjóðlegt kennslusetur um íslenska menningu og náttúru sem kennt væri við Svartárkot.

Verkefnið komst á laggirnar og lifði af hrunið 2008. Á alþjóðlegum námskeiðum sem fram fara á ensku er menningarsögu sem drýpur af hverju strái í Þingeyjarsýslum fléttað við hrikalega náttúru allt um kring. Setrið tengir afskekkta byggð við alþjóðlegt háskólasamfélag og vinnur markvisst að samræðu hins staðbundna og hnattræna. Sambúð manns og náttúru er sérstakt rannsóknasvið en meginmarkmið verkefnisins eru að efla umhverfishugvísindi á Íslandi, auka atvinnusköpun í heimabyggð og leiða saman fræðimenn og heimamenn. Með rannsóknarverkefnum vex þekking á menningu og náttúrufari svæðisins sem rennir traustum stoðum undir menningartengda ferðaþjónustu og aðra atvinnustarfsemi.

Notuð er aðstaða samkomuhússins og ferðaþjónustunnar á Kiðagili en stefnt að því að með tímanum verði byggð upp nýstárleg aðstaða til fyrirlestra í Svartárkoti.

Handskrifað sveitarblað úr Mývatnssveit, varðveitt á Héraðsskjalasafni Þingeyinga á Húsavík.

Smám saman hafa mótast þrenns konar meginverkefni:

1. Hin eiginlegu akademísku Svartárkotsnámskeið, sem mótuð eru af félaginu sjálfu.

2. Þjónustunámskeið, þ.e. skipulagning og þjónusta við erlenda háskóla sem koma til landsins með stúdentahópa. Þá fer drjúgur hluti námskeiðanna fram í Bárðardal.

3. Unnið er að því að þróa menntaferðir, þ.e. 5–7 daga gönguferðir þar blandað er saman náttúruupplifunum, menningarsögu og þeirri þekkingu sem annars er miðlað á akademísku námskeiðunum.

Um námskeiðin og rannsóknaverkefnin má fræðast nánar á heimasíðu Svartárkots, menningar náttúru.

Um Íslandssléttbak í Kaupmannahöfn og stafræna varðveislu hans

Um Íslandssléttbak í Kaupmannahöfn og stafræna varðveislu hans

Miðvikudaginn 20. mars n.k. verður haldin málstofa í Þjóðminjasafninu undir heitinu Stafrænar lausnir fyrir söfn og setur ‒ MMEx. Hér er á ferð mjög áhugvert tækifæri til að kynna sér það nýjasta sem er að gerast á sviði stafrænna lausna í tengslum við miðlun og varðveislu á menningar- og náttúruminjum.

Náttúruminjasafn Íslands tekur þátt í málstofunni og mun Aleksandr Jakovlev framkvæmdastjóri tæknifyrirtækisins Rigsters í Kaupmannahöfn greina frá verkefni sem lauk nýverið og Rigsters vann fyrir Náttúruminjasafnið – hágæða þrívíddarskönnun á beinagrind Íslandssléttbaks (Eubalaena glacialis). Dagskrá málstofunnar má lesa hér.

 

Íslandssléttbakur (Eubalaena glacialis). Einnig nefndur höddunefur, hafurkitti og sléttbakur (litli- og stóri-sléttbakur segir Jón lærði Guðmundsson). Á dönsku kallast hann nordkaper, enskir kalla hann North Atlantic right whale og þýskir glattwahl.

 

Ekki er til eintak á Íslandi af tegundinni og aðeins örfá söfn erlendis eiga heila beinagrind tegundarinnar. Meginmarkmiðið með skönnunarverkefninu á Íslandssléttbakinum, sem er skilgreindur sem hluti af íslenskum náttúruarfi, er stafræn varðveisla á beinagrind af afar fágætri hvalategund sem áður var algeng við Ísland en er nú í útrýmingarhættu. Öðrum þræði er skönnunin hugsuð til margs konar miðlunar á upplýsingum og fróðleik um tegundina, og jafnvel til að búa til eftirgerð af beinagrindinna með því að fræsa hana út eða prenta í þrívídd að hluta eða öllu leyti.

Skönnun beinagreindarinnar hjá Rigsters var all umfangsmikið verk og til þess beitt vél- og hugbúnaði sem starfsmenn þróuðu sjálfir að verulegu leyti. Hér má fylgjast með framvindu verkefnsins í kjallara Zoologisk Museum og hérna má velta fyrir sér einfaldri útgáfu af samsettri beinagrindinni.

Íslandssléttbakurinn sem Náttúruminjasafnið lét skanna á sér mjög áhugaverða sögu. Hann var veiddur hér við land árið 1891 út af Vestfjörðum og unninn í hvalstöð Victorsfélagsins norska á Höfðaodda við Dýrafjörð. Um haustið var siglt með beinagrindina til Kaupmannahafnar, til umsjónar og vörslu Dýrafræðisafns Danmerkur, Zoologisk Museum. Þar hefur beinagrindin verið í geymslu, fyrst í kjallara í miðborginni þar sem Hafnarháskóli hafði aðsetur, en síðar í kjallara við Universitetsparken í Nørrebro þar sem Zoologisk Museum er nú til staðar. Í aðfangabók Zoologisk Museum dags. 13. september 1891 er fært að beinagrindin sé komin og að hún hafi mælst 13,7 m á lengd, þar af haus 4,2 m og hryggur 9,5 m. Dýrið var með öðrum orðum fullvaxið þegar það var veitt.

Íslandssléttbakur kominn á land í hvalstöð Victorsfélagsins á Höfðaodda (Framnesi) í Dýrafirði. Myndin er tekin 1891, sama ár og hvalurinn sem Náttúruminjasafnið hefur látið skanna. Er þetta sá hvalur? Myndin er fengin úr bók Smára Geirssonar, Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915, sem kom út 2015.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Íslandsslétttbakurinn umræddi í kjallara Zoologisk Museum. Merktur ZMUC-CN2 í aðfangaskrá. Ljósmynd: NMSÍ.

 

Hryggjarsúlur tveggja Íslandssléttbaka (í hillu) í kjallara Zoologisk Museum. Veiddir 1891 og 1904. Ljósmynd: NMSÍ.

Og þeir eru fleiri Íslandssléttbakarnir sem leynast í kjallara Zoologisk Museum. Þar eru tvær beinagrindur til viðbótar af þessari tegund, þar af önnur, sú stærri (11,5 m) af hval sem einnig var veiddur við Ísland, árið 1904 af norskum hvalföngurum. Hin beinagrindin er af ungviði sem drapst við strendur Spánar árið 1854.

Með sanni má segja að Íslandssléttbakarnir tveir sem voru veiddir hér við land séu hluti af náttúruarfi Íslands. Hvalirnir héldu til við Ísland og voru veiddir þar. Margt bendir til að þessi tvö dýr séu meðal þeirra allra síðustu af þessari tegund sem yfir höfuð voru veiddir í Atlantshafi. Tegundin var all algeng í norðanverðu Atlantshafi á öldum áður, bæði við austurströnd Ameríku og vesturströnd Evrópu. Baskar veiddu að líkindum Íslandssléttbaka hér við land undir lok miðalda. Þeim fór hratt fækkandi vegna ofveiði og strax um miðja 19. öld höfðu menn áhyggjur af stórfelldri fækkun tegundarinnar.

Tegundin er afar fáliðuð og er heildarstofninn álitinn vera aðeins 400‒500 dýr, þar af líklega einungis um 100 dýr við vestanverða strönd Evrópu og N-Afríku. Tegundin hefur verið alfriðuð síðan 1930 samkvæmt ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) og samkvæmt hættuflokkun Alþjóðanáttúruverndarsambandsins (IUCN) telst tegundin vera „Í hættu“ (e. Endangered – EN) og mjög miklar líkur á að hún verði útdauð í náttúrunni í fyrirsjáanlegri framtíð. Vandinn sem steðjar að tegundinni í dag eru einkum ásiglingar, ánetjun og hlýnun sjávar með tilheyrandi breytingum í sjávarlífríkinu, þ.m.t. í fæðu hvalanna.

Málstofan um stafrænu lausnirnar verður í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands miðvikudaginn 20. mars og hefst kl. 9:00 og stendur til kl. 17:00 og fer fram á ensku. Sætaframboð er takmarkað og skráning bindandi og fer fram á heimasíðu FÍSOS hér. Að málstofunni standa Borgarsögusafn Reykjavíkur, Þjóðminjasafn Íslands og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) í samstarfi við danska fyrirtækið MMEx. Safnaráð styrkir málstofuna.