Sagnalistin vistrýnd í Reykholti

Sagnalistin vistrýnd í Reykholti

Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur flytur erindi í Bókhlöðu Snorrstofu í Reykholti n.k.þriðjudag 1. október kl. 20. Fyrirlesturinn nefnist: Náttúrulaus sagnalist eða lifandi gróður og lífrænir ávextir? 

Umhverfishugvísindi og vistrýni er fræðasvið sem vaxið hefur ásmegin samfara vaxandi umhverfisvá. Umhverfisváin kallar á djúpstæðar breytingar á sambúð manna við umhverfið og á svipaðan hátt hafa ofangreind fræðasvið rutt nýjar leiðir í greiningu og túlkun bókmennta.

Viðar sem er sérfræðingur við Náttúruminjasafn Íslands og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar mun í erindi sínu viðra leiðir til að kanna fornsögur sem lífrænar menningarafurðir með stuðningi vistrýni, fornrar náttúrusýnar og nýrrar textafræði.

Kaffiveitingar og almennar umræður. Aðgangur kr. 1000.

 

 

 

 

 

 

Kaffiveitingar og umræður aðgangur kr. 1000.

Beinin heim!

Beinin heim!

 

Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur í dag, 16. september, tileinkaður náttúru Íslands og mikilvægi þess að vernda hana og umgangast á skynsamlegan hátt.

Hér má sjá hryggjarliði dýranna í kjallara Dýrafræðisafns Danmerkur í Kaupamannahöfn. Ljósm.: HJM

Fátt hefur mótað íslenska þjóð og menningu í jafn miklum mæli og náttúran. Lífsviðurværi þjóðarinnar er að verulegu leyti undir ríkulegum gjöfum náttúrunnar komið. Fáar þjóðir reiða sig í sama mæli á beina nýtingu auðæfa náttúrunnar – einkum veiðar á villtum fiskistofnum, virkjun vatnsafls og jarðvarma, sauðfjárbeit á afréttum og náttúrutengda ferðaþjónustu. Skynsamleg nýting  náttúruauðlinda hlýtur að grundvallast á langtímasýn, þekkingu og skilningi á náttúrunni, ella er hætt við að illa fari. Menntun og fræðsla eru hér lykilatriði og einn þátturinn snýr að náttúrusögu landsins.

Í kjallara Dýrafræðisafns Danmerkur (Zoologisk Museum) í Kaupmannahöfn leynast tvær beinagrindur íslandssléttbaka (Eubalaena glacialis) sem veiddir voru við Ísland 1891 og 1904. Íslandssléttbakurinn var algengur í norðanverðu Atlantshafi á öldum áður en vegna veiða gekk hratt á stofninn og strax á 18. öld var tegundin orðin fágæt. Íslandssléttbakarnir tveir í Kaupmannahöfn eru líklega meðal síðustu dýra af þessari tegund sem voru veidd. Þrátt fyrir friðun tegundarinnar um og upp úr 1930 eru sléttbakar í útrýmingarhættu í dag og telur stofninn aðeins um 500 dýr hið mesta. Þeir hafast ekki lengur við hér við land en eitt og eitt dýr flækist hingað örsjaldan, líklega frá austurströnd Ameríku þar sem þeir eru flestir. Framtíðarhorfur sléttbakanna eru því miður fremur dökkar, aðallega vegna affalla í kjölfar ásiglinga, ánetjunar og breytinga í sjávarlífríkinu vegna hlýnunar.

Danskir samstarfsmenn Náttúruminjasafns Íslands virða fyrir sér rifbein hvalsins. Ljósm.: HJM

Íslandssléttbakarnir í Kaupmannahöfn eru mikið fágæti. Afar fá söfn eiga heil eintök af beinagrind tegundarinnar og hér á landi er ekki til neitt eintak. Það er miður því íslandssléttbakar eru sannarlega hluti af íslenskum náttúru- og menningararfi. Íslandssléttbakar, sem um tíma gegndu fræðiheitinu Balaena islandica, höfðust við hér við land og voru veiddir einkum af Böskum framan af öldum og síðar Norðmönnum. Jón lærði Guðmundsson (1574–1658) var einna fyrstur manna í Evrópu til að gera náttúru sléttbakanna skil í máli og myndum og nýlegar rannsóknir á fornleifum benda til að sléttbakar hafi verið veiddir og unnir í meira mæli við Ísland en áður hefur verið talið.

Mikill akkur væri í því að fá hingað heim aðra beinagrind íslandssléttbaksins sem hvílt hefur í kjallarageymslu í Kaupmannahöfn í rúm 100 ár. Náttúruminjasafn Íslands hefur bent á að tilkall Íslendinga til þessara merku náttúruminja er sterkt. Langtímalán á gripnum og varðveisla hans á Íslandi gegnir margvíslegum tilgangi, vísindalegum, kennslufræðilegum og menningarsögulegum. Nútímatækni býður auðveldlega upp á að varðveita gripinn og vernda hann samtímis því að hafa hann til sýnis og aðgengilegan fyrir almenning. Kjöraðstæður eru fyrir hendi til þessa verkefnis hér á landi. Beinin heim!

 

Hilmar J. Malmquist

Höfundur er forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands

Séríslenskur rostungsstofn hvarf við landnám

Séríslenskur rostungsstofn hvarf við landnám

Hópur vísindamanna frá Íslandi, Danmörku og Hollandi hefur í fyrsta skipti staðfest með erfðarannsóknum og aldursgreiningum á beinaleifum rostunga að á Íslandi lifði sérstakur íslenskur rostungsstofn sem varð útdauður um landnám fyrir um 1100 árum.
Vísindagrein með þessum niðurstöðum birtist í dag í Molecular Biology and Evolution.
Fjórir íslenskir vísindamenn eru meðal höfunda greinarinnar: Snæbjörn Pálsson stofnlíffræðingur, Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur, Ævar Petersen, dýrafræðingur og Hilmar J. Malmquist. Greinin nefnist: Disappearance of Icelandic walruses coincided with Norse settlement.

Var ásókn í rostunga kveikjan að landnámi Íslands?
„Staðfest er að hér var sérstakur íslenskur stofn og að hann leið undir lok skömmu um eða upp úr landnáminu, líklega fyrst og fremst af völdum ofveiða,“ segir Hilmar J. Malmquist líffræðingur og forstöðumaður Náttúruminjasafnsins, einn höfunda greinarinnar. „Þessar niðurstöður renna stoðum undir kenningar Bergsveins Birgissonar, Bjarna F. Einarssonar og fleiri, um að ásókn í rostunga og fleiri sjávardýr kunni að hafa verið aðaldrifkrafturinn að baki landnámi Íslands og að landnám hafi hafist fyrr en almennt hefur verið talið.“

Beinaleifar rostunga finnast aðallega á Suðvesturlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum. Einn algengasti fundarstaðurinn er á Snæfellsnesi þar sem þessi mynd er tekin. Rostungshausinn á myndinni reyndist vera um 1300 ára gamall og nær 12 kg. Ljósmynd: H.J. Malmquist.

Niðurstaðan er fengin með DNA-rannsókn á hvatberum úr 34 tönnum, beinum og hauskúpum rostunga, fundnum á Íslandi, aðallega á Vesturlandi og Vestfjörðum. Þeir reyndust óskyldir stofnum núlifandi rostunga í N-Atlantshafi. Ekki er að efa að þessi niðurstaða kyndir undir kenningar um að upphaflega hafi landnám Íslands tengst veiðum á rostungum – að landið hafi verið e.k. útstöð eða verstöð til veiðanna jafnvel í langan tíma áður en menn settust hér endanlega að. Útdauði íslenska rostungsstofnsins gæti þannig verið elsta dæmið um útdauða af völdum ofveiði, en tennur, húðir og lýsi rostunga voru verðmæt verslunarvara á Víkingaöld.

 230  fundarstaðir 

Rostungshaus úr fjöru á Ytri-Görðum, Snæfellsnesi. Sýni nr. W-27. Fundinn í ágúst 2015. Aldur (ár): 1313 ± 27 (C-14 leiðrétt, BP=1950). Heildarþyngd ca. 12 kg, þar af lengri skögultönn 1,7 kg og 57 cm og sú syttri 1,5 kg og 53 cm. Ljósmynd: Vigfús Birgisson.

Beinin úr 34 einstaklingum koma frá 230 fundarstöðum á landinu og reyndust 800–9000 ára gömul. Staðfest er að íslenski rostungurinn hafi verið hér við land frá því um 7000 f.kr. og fram til um 1200, þegar landið var fullsetið. „Safnkostur sem hefur að geyma merkar náttúruminjar felur jafnan í sér áhugaverð tækifæri til rannsókna og með nútímatækni má varpa nýju ljósi á náttúruna og samspil manns og náttúru,“ segir Hilmar.
„Í þessu tilfelli er um að ræða 800 til
9000 ára gamlar beinaleifar rostunga sem fundist hafa hér á landi, sýni úr alls 34 rostungum, auk upplýsinga um 230 fundarstaði beinaleifa, aðallega á Vesturlandi og Vestfjörðum. Í rannsókninni er einnig stuðst við upplýsingar um rostunga í fornritum, í Konungsskuggsjá, Landnámu og Íslendingasögum.“

Hér má nálgast fréttatilkynningu um rannsóknina á íslensku og ensku.

 

Myndina tók Jóhann Óli Hilmarsson 2015. Hún sýnir rostungskýr í látri á Svalbarða.

 

 

 

Nýr Náttúrufræðingur 1.-2. hefti 2019

Nýr Náttúrufræðingur 1.-2. hefti 2019

Berghlaupið í Öskju 2014, sandauðnir á Íslandi og sjófuglatalningar með dróna eru meðal áhugaverðs efnis í 1.–2. hefti 89. árgangs Náttúrufræðingsins sem kominn er út.

Flóðbylgjan sem fylgdi berghlaupinu í Öskju, 21. júlí 2014 náði 20–40 m hæð og er talin hafa borist yfir vatnið á einungis 1–2 mínútum. Hlaupið var eitt hið mesta sem orðið hefur á Íslandi á sögulegum tíma, um 20 milljónir rúmmetra. Það er jafnframt fyrsta berghlaup af þessari stærðargráðu sem rannsakað hefur verið ítarlega með nákvæmum mælingum og líkanagerð með samanburði gagna fyrir og eftir hlaupið. Mikið hefur verið ritað um hlaupið í erlend vísindarit en hér birtist í fyrsta sinn á íslensku yfirlit yfir rannsóknirnar ásamt fjölda ljósmynda og skýringarmynda.

Sandauðnir þekja rúmlega 20.000 km2landsins og hafa verið kallaðar „eyðimerkur Íslands“. Þær hafa víðtæk áhrif á vistkerfi landsins vegna áfoks sem frá þeim kemur. Um áratugaskeið hefur verið reynt að hefta áfok og framrás sandsins sem getur borist langar leiðir frá upprunastað og myndað „sandleiðir“ sem eru tugir kílómetra á lengd. Hér er fjallað um sanda og fok en síðar á árinu birtist grein um stærstu uppsprettur uppfoks á landinu og áfok.

Drottning Norður-Atlantshafsins hefur súlan verið kölluð. Ljósm. Sindri Óskarsson.

Hvað eru súlurnar í Eldey margar?
Drónar njóta vaxandi vinsælda, m.a. til rannsókna. Hér segir frá því hvernig nýta má dróna við talningar í sjófuglabyggðum og birtar niðurstöður talningar á súlu, ritu, fýl og selum sem héldu til á Eldey í júní 2017.

Errol Fuller er sjálfmenntaður fuglafræðingur og listmálari, en einnig ástríðufullur safnari. Ljósm. Gísli Pálsson.

Tvö geirfuglsegg í skúffunni
Rithöfundurinn og málarinn Errol Fuller sem er þekktur fyrir bók sína Geirfuglinn, er ástríðufullur safnari. Á heimili hans eru hundruð náttúrugripa frá öllum heimshornum, þar á meðal tvö geirfuglsegg! Í greininni Furðukames Fullerssegir frá heimsókn til Fullers og birtar ljósmyndir af óvenjulegu safni hans.

Af öðru efni í ritinu má nefna grein um vatnaþörunginn lækjagörn, leiðara um loftslagsvandann og aðgerðir íslenskra stjórnvalda, skýrslu stjórnar Hins íslenska náttúrufræðifélags og reikninga fyrir árið 2018 og umfjöllun um nýtt stórvirki í bókaútgáfu á Íslandi, ritið Flóra Íslands, eftir Hörð Kristinsson, Þóru Ellen Þórhallsdóttur og Jón Baldur Hlíðberg.

Þetta er 1.–2. hefti 89. árgangs Náttúrufræðingsins sem hóf göngu sína 1931 og er félagsrit Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Heftið er 72 bls. að stærð. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir líffræðingur. Að jafnaði eru gefin út fjögur hefti á ári. Félagsgjald og innifalin áskrift kostar 5.800 kr. og er veittur afsláttur fyrir stúdenta og hjón.

Efnisyfirlit 1.–2. heftis Náttúrufræðingsins 89. árgangs.

Vatnið í Náttúru Íslands, hlýtur Red Dot verðlaunin

Vatnið í Náttúru Íslands, hlýtur Red Dot verðlaunin

Margmiðlunarfyrirtækið Gagarín hlýtur í ár hin eftirsóttu alþjóðlegu Red Dot hönnunarverðlaun fyrir hönnun og framleiðslu á þremur gagnvirkum atriðum á sýningu Náttúruminjasafns Íslands, Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni.

Verðlaunin heita  „Best of the best“ í flokknum „viðmótshönnun og notendaupplifun“ og eru veitt fyrir þrjár gagnvirkar margmiðlunarstöðvar sem Gagarín hannaði fyrir sýninguna.

Margmiðlunarstöðvarnar eru ólíkar og veita einstaka upplifun og sýn inn í þessa mikilvægu auðlind, vatnið, sem er undirstaða alls lífs á jörðinni.

Atriðin sem hlutu verðlaun eru:

  • Fossar – Myndrænn hljóðskúlptúr þar sem 773 fossanöfn á Íslandi steypast niður í háum fossi.
  • Rennslismælar – Gagnvirk stöð sem sýnir rauntímarennsli í 18 mismunandi ám á Íslandi sem Veðurstofa Íslands vaktar.
  • Vistrýnir – Gagnvirk stöð þar sem gestir geta kannað lífríki í níu ólíkum gerðum votlendis á Íslandi.

Yfirhönnuður sýningarinnar er Þórunn S. Þorgrímsdóttir og voru margmiðlunaratriðin unnin í samstarfi við hana og starfsfólk Náttúruminjasafnsins. Sýningin var opnuð í Perlunni 1. desember 2018.

Eins og nafnið ber með sér fjallar sýningin um gerð og eðli vatnsauðlindarinnar, hlutverk vatns við mótun lands og uppbyggingu og fjölbreytileikann í vatnalífríkinu. Ein af forsendunum við gerð sýningarinnar var að beita nýjustu tækni í miðlun svo að gestir gætu á gagnvirkan og eftirminnilegan hátt fræðst og upplifað fjölbreytileika vatnsins. Það er því sérstaklega ánægjulegt að Gagarín og Náttúruminjasafnið fái þessi  verðlaun sem eru ein þau virtustu á sviði hönnunar og nýsköpunar.

Verðlaunin verða afhent í Berlín 1. nóvember næstkomandi.

Nýjar þörungategundir á Íslandi

Nýjar þörungategundir á Íslandi

Fyrir skömmu kom út fræðigrein um kransþörunga á Íslandi í tímaritinu Nordic journal of botany. Greinin heitir New finds of charophytes in Iceland with an update on the distribution of the charophyte flora og má nálgast hér. Greint er frá fundi fjögurra nýrra tegunda kransþörunga á Íslandi, auk þess sem birt eru útbreiðslukort fyrir þær átta tegundir kransþörunga sem nú finnast hérlendis.

Kransþörungar (Charophyceae) eru í hópi grænþörunga (Chlorophyta) og ljóstillífa líkt og háplöntur. Þeir eru stærstir allra þörunga í ferskvatni og geta sumar tegundir orðið allt að metri að lengd. Kransþörungar draga nafn sitt af greinakrönsum sem sitja með reglulegu millibili á grönnum stöngli. Þeir eru algengir í tjörnum og stöðuvötnum þar sem þeir vaxa á kafi í vatni og mynda oft stórar breiður á botninum.

Kransþörungurinn tjarnanál (Nitella opaca) myndar iðulega þykkt teppi langra þörungaþráða á botni stöðuvatna. Myndin er tekin í Stíflisdalsvatni í Kjós, sjá má langnykru (Potamogeton praelongus) í bakgrunni. Mynd: Erlendur Bogason, 2018.

Nýju tegundirnar fjórar fundust í viðamikilli rannsókn á tegundasamsetningu og útbreiðslu vatnagróðurs í landinu, sem jafnframt var fyrsta skipulega rannsóknin af því tagi hér á landi. Rannsóknin var liður í lýsingu og kortlagningu vistgerða landsins á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands, en veg og vanda af sýnatöku og úrvinnslu hafði Náttúrufræðistofa Kópavogs. Gróður var kannaður á árunum 2012–2013 í 72 stöðuvötnum og 16 straumvötnum víðs vegar á landinu.

Kransþörungar hafa fundist á 126 stöðum á Íslandi (Þóra Hrafnsdóttir o.fl. 2019).

Höfundar greinarinnar eru Þóra Hrafnsdóttir og Hilmar J. Malmquist hjá Náttúruminjasafni Íslands, Finnur Ingimarsson, Haraldur R. Ingvason og Stefán Már Stefánsson hjá Náttúrufræðistofu Kópavogs, Eva G. Þorvaldsdóttir grasafræðingur og Anders Langangen sem er einn helsti sérfræðingur Norðurlanda í kransþörungum.

Myndskeiðið hér að neðan er tekið í Stíflisdalsvatni í Kjós og sýnir breiður af kransþörungnum tjarnanál. Myndataka og köfun: Erlendur Bogason, 2018.