Morse-kóði utan á Loftskeytastöðinni

Morse-kóði utan á Loftskeytastöðinni

Á skrifstofuhúsnæði Náttúruminjasafnsins, gömlu Loftskeytastöðinni við Brynjólfsgötu, má sjá ljósaseríu með óhefðbundnu sniði en á þakkanti hússins hefur verið komið fyrir listaverkinu K (Með ósk um svar) eftir Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur. Verkið, sem samanstendur af ljósaperum sem stafa með Morse-kóða tegundaheiti tveggja hvalategunda af válista spendýra: Eubalaena glacialis (íslandssléttbakur) og Balaenoptera musculus (steypireyður), er hluti af sýningu listamannsins í Safnaðarheimili Neskirkju sem stendur til 23. febrúar.

Loftskeytastöðin hluti af sýningu

Loftskeytastöðin hluti af sýningu

​Sunnudaginn 10. nóvember kl. 12 opnar einkasýning Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur Ég hef misst sjónar af þér í Safnaðarheimili Neskirkju. Hluti sýningarinnar teygir anga sína yfir til gömlu Loftskeytastöðvarinnar á Brynjólfsgötu, skrifstofuhúsnæði Náttúruminjasafns Íslands, þar sem eitt verkanna er sýnt á þakkanti hússins.

Á sýningunni gerir Anna Júlía samband manns og náttúru að viðfangsefni sínu og sækir efnivið í andstæða póla; annarsvegar í hinn tilbúna, manngerða heim, og hins vegar í náttúrulegt lífríki sjávar. Sýningin ber með sér áríðandi en þögul skilaboð um stöðu sjávarspendýra á válista og vekur til umhugsunar þá firringu eða fjarlægð sem orðið hefur milli manns og náttúru. Verkin byggja á Morse-kóða, sem notaður er í alþjóðlega stöðluð kallmerki, og birtist m.a. í ljósaseríum í gluggum og utanhúss. Þannig seilist sýningin út í almannarýmið og tengir saman tvær opinberar stofnanir í næsta nágrenni við hvor aðra: Safnaðarheimili Neskirkju (miðstöð hins andlega), og Náttúruminjasafn Íslands (varðveislustofnun hins náttúrulega).

Nánar um sýninguna:

Frá örófi alda hefur maðurinn þróað með sér leiðir til að ná áttum, ýmist í landfræðilegum eða andlegum skilningi. Allt frá því  að siglingar yfir úthöf urðu mögulegar hefur siglingafræðin verið einn aðal drifkraftur slíkrar þróunar, og með auknum hreyfanleika og fjarlægðum þróuðust leiðir til fjarskipta, eins og Morse-kóðinn. En hreyfanleiki mannsins og allar þær tækniframfarir sem honum fylgdu fólu einnig í sér myrkari afleiðingar. Andstæðuparið “við og hinir” varð að varanlegu valdatæki nýlenduvæðingarinnar, sem á dramatískan hátt riðlaði jafnvægi ekki eingöngu milli ólíkra hópa fólks heldur einnig milli manns og náttúru.

Síðan Morse-kóðinn var tekinn í notkun á fyrri hluta 19. aldar hefur hann leikið lykilhlutverk í samskiptum varðandi sjávarháska, hernað og annan voða. Kóðinn er eins konar stafróf þar sem bókstafir eru myndaðir með stuttum og löngum einingum og má segja að sé undanfari að því tvíundarkerfi sem forritunarmál tölvunarfræðinnar byggir á í dag. Til að einfalda samskipti við sjó- og loftför enn frekar hefur maðurinn þróað sérstakt kallmerkjakerfi, einskonar tungumál sem nær yfir takmörk allra annarra tungumála. Kerfið er byggt upp af merkjum sem tákna ýmisskonar tæknilegar skipanir eða spurningar, sem gilda í fyrirframgefnum sviðsmyndum. Merkin er hægt að tákna með ólíkum leiðum, s.s. hljóði, ljósi eða reyk. Merkin eru stöðluð og gefin út í Alþjóðlegri handbók merkjasendinga (International Code of Signals), en þekktast þeirra er neyðarmerkið SOS.

Á þessari sýningu gerir Anna Júlía samband manns og náttúru að viðfangsefni sínu, eða öllu heldur sambandsleysi. Efniviðurinn er sóttur í andstæða póla, þar sem manngerðu efni er teflt saman við hinn lífræna heim svo úr verður áhugavert samspil milli ólíkra lífheima og tímabila. Fundið efni, eins og Morse-kóðinn og valin kallmerki mynda efnivið sýningarinnar og eru sett í óvænt samhengi. Í Safnaðarheimili Neskirkju er sérvöldum kallmerkjum varpað fram, skilaboðum sem fylgja nákvæmum reglum í tilbúnu samskiptakerfi. Kallmerkin „EP“ (“Ég hef misst sjónar af þér”) og „FC2“ (“Gefðu upp stöðu þína með sjónrænu merki”) eru tjáð með ljósaseríum í gluggum sýningarrýmisins, og lesast utan frá. Þau má túlka sem ákall mannsins til náttúrunnar, sem svarar til baka með kallmerkjum eins og „QL“ (“Snúið við”) eða „NC“ (“Ég er í hættu og þarfnast tafarlausrar hjálpar”). Köll náttúrunnar eru stöfuð á steintöflur með skeljum, þangi, kóral, eða hvalstönnum, og minna á steingervinga eða forngripi á safni.

Hluti sýningarinnar teygir anga sína til gömlu Loftskeytastöðvarinnar við Brynjólfsgötu, sem í dag hýsir starfsemi Náttúruminjasafns Íslands. Þegar stöðin var tekin í notkun árið 1918 komust á þráðlaus fjarskipti við umheiminn, en loftskeyti voru send og móttekin í Morse-kóða með útvarpsbylgjum. Á þakkanti hússins er verkið „K“ („Með ósk um svar“). Verkið samanstendur af ljósaperum sem stafa tegundaheiti tveggja hvalategunda af válista spendýra: “Eubalaena glacialis” (Íslandssléttbakur) og “Balaenoptera musculus” (Steypireyður).

Sem heild tengir sýningin saman tvær opinberar stofnanir í næsta nágrenni við hvor aðra: Safnaðarheimili Neskirkju (miðstöð hins andlega), og Náttúruminjasafn Íslands (varðveislustofnun hins náttúrulega). Báðar stofnanir ávarpa náttúruna með því að senda köll út í óræðar víddir, ýmist í vísindalegum eða heimspekilegum skilningi.

Í tóni sumra kallmerkjanna má greina eftirsjá og jafnvel ótta. Maðurinn virðist hafa misst sjónar af náttúrunni og biður hana um að gefa sér merki; einhverskonar vegvísi svo hann geti ratað rétta leið, náð áttum á ný. Náttúran svarar með neyðarkalli og varar við óræðri en aðsteðjandi hættu. Þessi varnaðarorð hljóma kunnuglega í orðræðu samtímans, en virðast þó ekki hafa tilskilin áhrif. Sýningin vekur upp áleitnar spurningar um tungumálið og tengsl manns og náttúru. Er tungumálið ef til vill ekki lengur merkingarbært? Þarf ef til vill aðra miðla til að skilaboðin komist í gegn, eða annan miðunarbúnað til að sigla eftir?

 

Sagnalistin vistrýnd í Reykholti

Sagnalistin vistrýnd í Reykholti

Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur flytur erindi í Bókhlöðu Snorrstofu í Reykholti n.k.þriðjudag 1. október kl. 20. Fyrirlesturinn nefnist: Náttúrulaus sagnalist eða lifandi gróður og lífrænir ávextir? 

Umhverfishugvísindi og vistrýni er fræðasvið sem vaxið hefur ásmegin samfara vaxandi umhverfisvá. Umhverfisváin kallar á djúpstæðar breytingar á sambúð manna við umhverfið og á svipaðan hátt hafa ofangreind fræðasvið rutt nýjar leiðir í greiningu og túlkun bókmennta.

Viðar sem er sérfræðingur við Náttúruminjasafn Íslands og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar mun í erindi sínu viðra leiðir til að kanna fornsögur sem lífrænar menningarafurðir með stuðningi vistrýni, fornrar náttúrusýnar og nýrrar textafræði.

Kaffiveitingar og almennar umræður. Aðgangur kr. 1000.

 

 

 

 

 

 

Kaffiveitingar og umræður aðgangur kr. 1000.

Beinin heim!

Beinin heim!

 

Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur í dag, 16. september, tileinkaður náttúru Íslands og mikilvægi þess að vernda hana og umgangast á skynsamlegan hátt.

Hér má sjá hryggjarliði dýranna í kjallara Dýrafræðisafns Danmerkur í Kaupamannahöfn. Ljósm.: HJM

Fátt hefur mótað íslenska þjóð og menningu í jafn miklum mæli og náttúran. Lífsviðurværi þjóðarinnar er að verulegu leyti undir ríkulegum gjöfum náttúrunnar komið. Fáar þjóðir reiða sig í sama mæli á beina nýtingu auðæfa náttúrunnar – einkum veiðar á villtum fiskistofnum, virkjun vatnsafls og jarðvarma, sauðfjárbeit á afréttum og náttúrutengda ferðaþjónustu. Skynsamleg nýting  náttúruauðlinda hlýtur að grundvallast á langtímasýn, þekkingu og skilningi á náttúrunni, ella er hætt við að illa fari. Menntun og fræðsla eru hér lykilatriði og einn þátturinn snýr að náttúrusögu landsins.

Í kjallara Dýrafræðisafns Danmerkur (Zoologisk Museum) í Kaupmannahöfn leynast tvær beinagrindur íslandssléttbaka (Eubalaena glacialis) sem veiddir voru við Ísland 1891 og 1904. Íslandssléttbakurinn var algengur í norðanverðu Atlantshafi á öldum áður en vegna veiða gekk hratt á stofninn og strax á 18. öld var tegundin orðin fágæt. Íslandssléttbakarnir tveir í Kaupmannahöfn eru líklega meðal síðustu dýra af þessari tegund sem voru veidd. Þrátt fyrir friðun tegundarinnar um og upp úr 1930 eru sléttbakar í útrýmingarhættu í dag og telur stofninn aðeins um 500 dýr hið mesta. Þeir hafast ekki lengur við hér við land en eitt og eitt dýr flækist hingað örsjaldan, líklega frá austurströnd Ameríku þar sem þeir eru flestir. Framtíðarhorfur sléttbakanna eru því miður fremur dökkar, aðallega vegna affalla í kjölfar ásiglinga, ánetjunar og breytinga í sjávarlífríkinu vegna hlýnunar.

Danskir samstarfsmenn Náttúruminjasafns Íslands virða fyrir sér rifbein hvalsins. Ljósm.: HJM

Íslandssléttbakarnir í Kaupmannahöfn eru mikið fágæti. Afar fá söfn eiga heil eintök af beinagrind tegundarinnar og hér á landi er ekki til neitt eintak. Það er miður því íslandssléttbakar eru sannarlega hluti af íslenskum náttúru- og menningararfi. Íslandssléttbakar, sem um tíma gegndu fræðiheitinu Balaena islandica, höfðust við hér við land og voru veiddir einkum af Böskum framan af öldum og síðar Norðmönnum. Jón lærði Guðmundsson (1574–1658) var einna fyrstur manna í Evrópu til að gera náttúru sléttbakanna skil í máli og myndum og nýlegar rannsóknir á fornleifum benda til að sléttbakar hafi verið veiddir og unnir í meira mæli við Ísland en áður hefur verið talið.

Mikill akkur væri í því að fá hingað heim aðra beinagrind íslandssléttbaksins sem hvílt hefur í kjallarageymslu í Kaupmannahöfn í rúm 100 ár. Náttúruminjasafn Íslands hefur bent á að tilkall Íslendinga til þessara merku náttúruminja er sterkt. Langtímalán á gripnum og varðveisla hans á Íslandi gegnir margvíslegum tilgangi, vísindalegum, kennslufræðilegum og menningarsögulegum. Nútímatækni býður auðveldlega upp á að varðveita gripinn og vernda hann samtímis því að hafa hann til sýnis og aðgengilegan fyrir almenning. Kjöraðstæður eru fyrir hendi til þessa verkefnis hér á landi. Beinin heim!

 

Hilmar J. Malmquist

Höfundur er forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands

Séríslenskur rostungsstofn hvarf við landnám

Séríslenskur rostungsstofn hvarf við landnám

Hópur vísindamanna frá Íslandi, Danmörku og Hollandi hefur í fyrsta skipti staðfest með erfðarannsóknum og aldursgreiningum á beinaleifum rostunga að á Íslandi lifði sérstakur íslenskur rostungsstofn sem varð útdauður um landnám fyrir um 1100 árum.
Vísindagrein með þessum niðurstöðum birtist í dag í Molecular Biology and Evolution.
Fjórir íslenskir vísindamenn eru meðal höfunda greinarinnar: Snæbjörn Pálsson stofnlíffræðingur, Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur, Ævar Petersen, dýrafræðingur og Hilmar J. Malmquist. Greinin nefnist: Disappearance of Icelandic walruses coincided with Norse settlement.

Var ásókn í rostunga kveikjan að landnámi Íslands?
„Staðfest er að hér var sérstakur íslenskur stofn og að hann leið undir lok skömmu um eða upp úr landnáminu, líklega fyrst og fremst af völdum ofveiða,“ segir Hilmar J. Malmquist líffræðingur og forstöðumaður Náttúruminjasafnsins, einn höfunda greinarinnar. „Þessar niðurstöður renna stoðum undir kenningar Bergsveins Birgissonar, Bjarna F. Einarssonar og fleiri, um að ásókn í rostunga og fleiri sjávardýr kunni að hafa verið aðaldrifkrafturinn að baki landnámi Íslands og að landnám hafi hafist fyrr en almennt hefur verið talið.“

Beinaleifar rostunga finnast aðallega á Suðvesturlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum. Einn algengasti fundarstaðurinn er á Snæfellsnesi þar sem þessi mynd er tekin. Rostungshausinn á myndinni reyndist vera um 1300 ára gamall og nær 12 kg. Ljósmynd: H.J. Malmquist.

Niðurstaðan er fengin með DNA-rannsókn á hvatberum úr 34 tönnum, beinum og hauskúpum rostunga, fundnum á Íslandi, aðallega á Vesturlandi og Vestfjörðum. Þeir reyndust óskyldir stofnum núlifandi rostunga í N-Atlantshafi. Ekki er að efa að þessi niðurstaða kyndir undir kenningar um að upphaflega hafi landnám Íslands tengst veiðum á rostungum – að landið hafi verið e.k. útstöð eða verstöð til veiðanna jafnvel í langan tíma áður en menn settust hér endanlega að. Útdauði íslenska rostungsstofnsins gæti þannig verið elsta dæmið um útdauða af völdum ofveiði, en tennur, húðir og lýsi rostunga voru verðmæt verslunarvara á Víkingaöld.

 230  fundarstaðir 

Rostungshaus úr fjöru á Ytri-Görðum, Snæfellsnesi. Sýni nr. W-27. Fundinn í ágúst 2015. Aldur (ár): 1313 ± 27 (C-14 leiðrétt, BP=1950). Heildarþyngd ca. 12 kg, þar af lengri skögultönn 1,7 kg og 57 cm og sú syttri 1,5 kg og 53 cm. Ljósmynd: Vigfús Birgisson.

Beinin úr 34 einstaklingum koma frá 230 fundarstöðum á landinu og reyndust 800–9000 ára gömul. Staðfest er að íslenski rostungurinn hafi verið hér við land frá því um 7000 f.kr. og fram til um 1200, þegar landið var fullsetið. „Safnkostur sem hefur að geyma merkar náttúruminjar felur jafnan í sér áhugaverð tækifæri til rannsókna og með nútímatækni má varpa nýju ljósi á náttúruna og samspil manns og náttúru,“ segir Hilmar.
„Í þessu tilfelli er um að ræða 800 til
9000 ára gamlar beinaleifar rostunga sem fundist hafa hér á landi, sýni úr alls 34 rostungum, auk upplýsinga um 230 fundarstaði beinaleifa, aðallega á Vesturlandi og Vestfjörðum. Í rannsókninni er einnig stuðst við upplýsingar um rostunga í fornritum, í Konungsskuggsjá, Landnámu og Íslendingasögum.“

Hér má nálgast fréttatilkynningu um rannsóknina á íslensku og ensku.

 

Myndina tók Jóhann Óli Hilmarsson 2015. Hún sýnir rostungskýr í látri á Svalbarða.

 

 

 

Nýr Náttúrufræðingur 1.-2. hefti 2019

Nýr Náttúrufræðingur 1.-2. hefti 2019

Berghlaupið í Öskju 2014, sandauðnir á Íslandi og sjófuglatalningar með dróna eru meðal áhugaverðs efnis í 1.–2. hefti 89. árgangs Náttúrufræðingsins sem kominn er út.

Flóðbylgjan sem fylgdi berghlaupinu í Öskju, 21. júlí 2014 náði 20–40 m hæð og er talin hafa borist yfir vatnið á einungis 1–2 mínútum. Hlaupið var eitt hið mesta sem orðið hefur á Íslandi á sögulegum tíma, um 20 milljónir rúmmetra. Það er jafnframt fyrsta berghlaup af þessari stærðargráðu sem rannsakað hefur verið ítarlega með nákvæmum mælingum og líkanagerð með samanburði gagna fyrir og eftir hlaupið. Mikið hefur verið ritað um hlaupið í erlend vísindarit en hér birtist í fyrsta sinn á íslensku yfirlit yfir rannsóknirnar ásamt fjölda ljósmynda og skýringarmynda.

Sandauðnir þekja rúmlega 20.000 km2landsins og hafa verið kallaðar „eyðimerkur Íslands“. Þær hafa víðtæk áhrif á vistkerfi landsins vegna áfoks sem frá þeim kemur. Um áratugaskeið hefur verið reynt að hefta áfok og framrás sandsins sem getur borist langar leiðir frá upprunastað og myndað „sandleiðir“ sem eru tugir kílómetra á lengd. Hér er fjallað um sanda og fok en síðar á árinu birtist grein um stærstu uppsprettur uppfoks á landinu og áfok.

Drottning Norður-Atlantshafsins hefur súlan verið kölluð. Ljósm. Sindri Óskarsson.

Hvað eru súlurnar í Eldey margar?
Drónar njóta vaxandi vinsælda, m.a. til rannsókna. Hér segir frá því hvernig nýta má dróna við talningar í sjófuglabyggðum og birtar niðurstöður talningar á súlu, ritu, fýl og selum sem héldu til á Eldey í júní 2017.

Errol Fuller er sjálfmenntaður fuglafræðingur og listmálari, en einnig ástríðufullur safnari. Ljósm. Gísli Pálsson.

Tvö geirfuglsegg í skúffunni
Rithöfundurinn og málarinn Errol Fuller sem er þekktur fyrir bók sína Geirfuglinn, er ástríðufullur safnari. Á heimili hans eru hundruð náttúrugripa frá öllum heimshornum, þar á meðal tvö geirfuglsegg! Í greininni Furðukames Fullerssegir frá heimsókn til Fullers og birtar ljósmyndir af óvenjulegu safni hans.

Af öðru efni í ritinu má nefna grein um vatnaþörunginn lækjagörn, leiðara um loftslagsvandann og aðgerðir íslenskra stjórnvalda, skýrslu stjórnar Hins íslenska náttúrufræðifélags og reikninga fyrir árið 2018 og umfjöllun um nýtt stórvirki í bókaútgáfu á Íslandi, ritið Flóra Íslands, eftir Hörð Kristinsson, Þóru Ellen Þórhallsdóttur og Jón Baldur Hlíðberg.

Þetta er 1.–2. hefti 89. árgangs Náttúrufræðingsins sem hóf göngu sína 1931 og er félagsrit Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Heftið er 72 bls. að stærð. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir líffræðingur. Að jafnaði eru gefin út fjögur hefti á ári. Félagsgjald og innifalin áskrift kostar 5.800 kr. og er veittur afsláttur fyrir stúdenta og hjón.

Efnisyfirlit 1.–2. heftis Náttúrufræðingsins 89. árgangs.