Lóuþræll

Lóuþræll

Lóuþræll (Calidris alpina)

Lóuþræll í Eyrarbakkafjöru.

Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Einkenni margra vaðfugla eru langur goggur, langir fætur og langur háls. Þeir eru dýraætur sem éta alls konar hryggleysingja og langur goggurinn er hentugur til að grafa eftir æti í leirum, tjarnarbotnum og jarðvegi. Vaðfuglar helga sér óðul og verpa pörin stök. Ungarnir eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið strax og þeir eru orðnir þurrir. Hjá flestum vaðfuglum ala báðir foreldrarnir önn fyrir ungunum.  Kynjamunur er lítill hjá vaðfuglum, karlfuglinn er þó oft aðeins skærlitari og ívið minni en kvenfuglinn. Þessu er þó öfugt farið hjá sundhönum (óðinshanar og þórshanar hér á landi). Sjáist hjón saman má oft aðgreina kynin.

Útlit og atferli

Lóuþrællinn er smávaxinn vaðfugl, einkennisfugl í mýrum og hálfdeigjum. Á sumrin er hann gulbrúnn og svartflikróttur að ofan en ljósari að neðan með stóran, svartan blett eða svuntu neðarlega á bringunni og aftur á kvið. Á flugi má sjá mjó hvít vængbelti. Gumpur er hvítur með dökkri rák í miðju og stél grátt, einnig með svartri miðrák. Á veturna missir hann svörtu svuntuna. Ungfugl er svuntulaus, með áberandi rákótta bringu. Goggurinn er fremur langur, svartleitur og örlítið niðursveigður. Fæturnir eru einnig svartir og augun dökk.

Lóuþræll í Friðlandinu í Flóa.

Syngjandi lóuþræll við Heiðarhöfn á Langanesi.

Lóuþræll sýnir vald sitt í Eyrarbakkafjöru.

Lóuþrællinn flýgur hratt. Í hópum á flugi bregður til skiptis fyrir ljósum kviðnum og brúnu bakinu. Hann stendur fremur hokinn. Er félagslyndur utan varpstöðva. Sést oft í fylgd með lóum á vorin og dregur af því nafn sitt, ásamt því að bera svipaðan fjaðurham og lóan. Þaðan fær hann nafn sitt. Hann gefur frá sér langdregið vell á varpstöðvum og stutt og hvellt, bírrandi nefhljóð.

Lífshættir

Lóuþrællinn er dýraæta, tekur skordýr, m.a. mýrlirfur, smá skeldýr, snigla og burstaorma. Leitar ætis í hópum utan varpstöðva, oftast í fjörum.

Verpur í margs konar mýrlendi, forblautu jafnt sem hálfdeigu, en einnig í þurrara graslendi og móum og þéttasta varpið er talið vera á Suðurlandsundirlendinu. Hreiðrið er dæld í gróður, fóðrað með sinu, venjulega vel falið. Eggin eru fjögur, útungun tekur um þrjár vikur og ungarnir verða fleygir á öðrum þremur. Utan varptíma er hann oft í stórum hópum á leirum og söndum með öðrum vaðfuglum, en sést einnig í votlendi inn til landsins.

FlóaLóuþrælshreiður í Friðlandinu í Flóa.

Lítið er lunga í lóuþrælsunga … Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lóuþræll með unga barmar sér og reynir að afvegaleiða ljósmyndarann. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útbreiðsla og stofnstærð

Lóuþræll er farfugl. Vetrarstöðvar íslenskra fugla eru aðallega í Vestur-Afríku, en hluti þeirra dvelur á vestanverðum Pýreneaskaga á veturna. Grænlenskir lóuþrælar fara hér um vor og haust, sumir þeirra eru ljósari en þeir íslensku. Örfáir fuglar sjást stundum í fjörum á Suðvesturlandi á veturna. Lóuþræll verpur allt í kringum Norður-Íshafið og suður til Englands og Póllands.

Ungur lóuþræll í Eyrarbakkafjöru.

Lóuþrælar í vetrarbúningi á Eyrarbakka.

Hópur af lóuþrælum í Andakíl.Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Þjóðtrú, sagnir og kvæði

Lítið er um lóuþrælinn í þjóðtrúnni, það helsta tengist sambandi hans við lóuna, eins og nafnið bendir til. Hann á meðal annars að aðstoða hana í makavali.

Kveðskapur

Nafnlaus vísa

Gamli vinur, Gísli sæll,
gott er frá að heyra,
í lofti kvakar lóuþræll
ljúft við kalið eyra.

Eftir Högna Egilsson.

Lóuljóð

Við kveðum um lóunnar ljóðin
en látum þær syngja óðinn
þó mishátt sé gengið og gróðinn
er gatan í sömu átt.
Kvöldhúmið stígur hljóðan dans
hörpuna blærinn slær
þær ferðast í líki freistarans
þó feti nær vaknar þú litli lóuþræll
og leitar í hverjum mó
en tilvera þín er tjörn í lágum skó
þær gefa þér allt sem þær eiga
oftast nær fleira en þær mega.
Já lóan er fim þessi fleyga
þó flugið sé stundum lágt.

Eftir Guðmund Árna Valgeirsson.

Heiðlóan syngjandi frá okkur flaug

Heiðlóan syngjandi frá okkur flaug
með fegurstan sönginn og bestan.
Í Kinninni er farið að taka í taug
tittlingasöngur að vestan.

Eftir Baldur Baldvinsson á Ófeigsstöðum.

Kristján frá Djúpalæl svararði:

Barst til okkar angurvæl austan úr ríki klaka.
Ofurlítinn lóuþræl langaði til að kvaka.

.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sandlóa

Sandlóa

Sandlóa (Charadrius hiaticula)

Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Þó einkenni margra þeirra sé langur goggur, háls og langir fætur, eru nokkrir með stutta fætur og gogg, þar á meðal fuglar sem tilheyra lóuættinni, sem hér á landi eru sandlóa og heiðlóa. Þeir sækja meira í þurrlendi heldur en margir vaðfuglar með lengri gogg. Vaðfuglar helga sér óðul og verpa pörin stök. Ungarnir eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið strax og þeir eru orðnir þurrir. Hjá flestum vaðfuglum ala báðir foreldrarnir önn fyrir ungunum.

Útlit og atferli

Sandlóa er með minnstu vaðfuglum hér, álíka stór og sendlingur og lóuþræll, og er hálsstutt og fremur kubbslega vaxin. Hún er grábrún að ofan en hvít að neðan, á sumrin með hvítan kraga um hálsinn og svart belti þar fyrir neðan, einnig svarta grímu um augu en er hvít á enni. Karlinn er ögn litsterkari en kerlan. Sandlóa hefur hvít vængbelti sem sjást vel á flugi. Stél og gumpur eru dökk með hvítum jöðrum. Ungfugl og fullorðin sandlóa í vetrarbúningi eru litdaufari, ungfuglar eru með ljósum fjaðrajöðrum að ofan („hreistraðir“), bæði með grábrúna grímu og bringubelti.

Rauðgulur goggurinn er stuttur og svartur í oddinn, alsvartur á ungfugli. Fætur eru einnig rauðgulir en augun dökk. Röddin er hljómþýð, söngurinn endurtekið vell.

Sandlóuhjón í í Eyrarbakkafjöru, karlinn nær.

Sandlóukarlar í erjum í Eyrarbakkafjöru.

Sandlóuerjur í Eyrarbakkafjöru. Þær eru að slást um besta fæðusvæðið.

Lífshættir

Þessi litli fugl er fjörlegur og kvikur. Hann er vænglangur og flýgur yfirleitt hratt og lágt og með reglulegu vængjablaki. Sé reynt að nálgast hreiður eða unga sandlóunnar, barmar hún sér og þykist vera vængbrotin, til að draga að sér athyglina og lokka óvininn burt. Fremur félagslyndur utan varptíma.

Sandlóa tínir skordýr, krabbadýr, orma og lindýr af jörðinni eða úr fjörum, t.d. þangflugulirfur, doppur, mýlirfur og marflær. Við fæðunám er hún mjög kvik, hleypur um og skimar eftir æti, stoppar, hremmir bráðina og er svo rokin af stað aftur.

Sandlóa heldur sig einkum á sendnu landi og í möl, bæði við sjó og á melum og áreyrum inn til landsins. Hreiðrið er dæld í möl eða sand, óhulið, fóðrað með smásteinum og skeljabrotum. Eggin eru venjulega fjögur eins og hjá flestum vaðfuglum. Útungunartíminn er um 24 dagar og ungarnir eru álíka lengi að verða fleygir. Utan varptíma dvelur sandlóan á leirum og í sandfjörum.

Sandlóa á hreiðri á Stokkseyri.

Sandlóuhreiður á Stokkseyri.

Sandlóa barmar sér við hreiður í Breiðavík.

Sandlóuungi í Kollafirði á Ströndum.

Ung sandlóa í Eyrarbakkafjöru.

Útbreiðsla og stofnstærð

Sandlóa er alger farfugl. Hún verpur dreift um land allt, en er algengust við sjávarsíðuna. Hún er einn útbreiddasti fugl landsins, en er alls staðar fremur strjál. Stórir hópar fugla sem verpa á Grænlandi fara hér um vor og haust. Vetrarstöðvar eru með ströndum fram á Bretlandseyjum, í Vestur og Suðvestur-Evrópu (Frakklandi og Pýreneaskaga) og Vestur-Afríku, frá Marokkó suður til Gambíu. Sandlóan verpur auk þess í N-Evrópu og Síberíu, allt austur að Beringssundi og NA-Kanada. Talið er að um 20-30% af heimsstofni sandlóu verpi hér á landi og er hún því íslensk ábyrgðartegund.

Kveðskapur

Sandló lipur fótafim,
fyrirglepur eggjavörgum.
Hleypur tifur harða rim,
Hennar svipur þekkt er mörgum.

Eftir Þorstein Díómedesson.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Jaðrakan

Jaðrakan

Jaðrakan (Limosa limosa)

Jaðrakan með vind í fiðrinu í Friðlandinu í Flóa.

 

Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Einkenni margra vaðfugla eru langur goggur, langir fætur og langur háls. Þeir eru dýraætur sem eta alls konar hryggleysingja og langur goggurinn er hentugur til að grafa eftir æti í leirum, tjarnarbotnum og jarðvegi. Sumir þeirra sækja í þurrlendi og hafa þá fremur stuttan gogg og fætur eins og sandlóa og heiðlóa. Vaðfuglar helga sér óðul og verpa pörin stök, en stundum er hægt að tala um að þeir verpi í dreifðum byggðum.

Útlit og atferli

Jaðrakan er einn af einkennisfuglum láglendismýra. Hann er háfættur, hálslangur og spengilegur, álíka stór og spói. Á sumrin er hann rauðbrúnn um höfuð, háls og niður á bringu en annars með brúnleitu mynstri, kvenfugl er litdaufari og stærri en karlfugl. Í vetrarbúningi er hann jafnlitur, grábrúnn að ofan og ljós að neðan. Ungfugl er rauðgulbrúnn á höfði, hálsi og bringu og minnir á fullorðna fugla í sumarfiðri. Á flugi sjást áberandi hvít vængbelti, hvítur gumpur og stél með svörtum afturjaðri.

Jaðrakan á varpstað á Stokkseyri.

Ungur jaðrakan í fjöru í Sandgerði. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Jaðrakan lætur í sér heyra í Friðlandinu í Flóa. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Goggur er langur og beinn, gulrauður í rótina með dökkan brodd. Fætur eru langir, svartleitir og skaga langt aftur fyrir stélið á flugi. Augu eru brún og augnhringur ljós.

Fluglag er ákveðið með hröðum vængjatökum. Fuglinn er hávær og órólegur á varpstöðvum. Hann er félagslyndur utan varptíma.

Jaðrakanapar á góðri stund á Djúpavogi. Litar- stærðarmunur kynjanna sést vel. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hreiður jaðrakans. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lífshættir

Potar með goggnum djúpt í leirur, mýrar eða tjarnarbotna eftir ormum, samlokum, sniglum, lirfum og öðrum hryggleysingjum. Tekur einnig fæðu úr jurtaríkinu, svo sem fræ og ber.

Er eindreginn votlendisfugl, verpur í og við margs konar votlendi á láglendi, t.d. flæðiengi, flóa og hallamýrar, og jafnvel í lyngmóum og kjarrlendi, en aldrei langt frá vatni. Hreiðrið er dæld í gróður, fóðrað með sinu og venjulega vel falið. Eggin eru oftast fjögur. Útungunartíminn er 24 dagar og verða ungarnir fleygir á um fimm vikum. Þeir eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið strax og þeir eru orðnir þurrir. Báðir foreldrarnir ala önn fyrir ungunum. Utan varptíma heldur jaðrakan sig mest í votlendi, á túnum og leirum.

Háfættur jaðrakan leitar ætis í Andakílsá (fyrir umhverfisslys Orku náttúrunnar). Vísindamenn fygljast með ferðum fuglanna m.a. með því að auðkenna þá með litmerkjum. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Jaðrakanar á leiru að vorlagi í Álftafirði, Djúpavosghreppi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Jaðrakanar berjast um æti í fjörunni í Borgarfirði eystra. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Vorhret á Stokkseyri. Undir þannig kringumstæðum kemur sér vel að hafa langan gogg. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útbreiðsla og stofnstærð

Fyrir 1920 var jaðrakan bundinn við Suðurlandsundirlendið en hefur breiðst mjög út á undanförnum áratugum og verpur nú á láglendi um mestallt land. Íslenskir jaðrakanar hafa vetrardvöl á Bretlandseyjum og með ströndum Vestur-Evrópu, frá Þýsklandi suður til Portúgals og Marokkó, flestir á Írlandi. Íslenski jaðrakaninn (undirtegundin L. l. islandica) er á norður- og vesturmörkum útbreiðslusvæðis tegundarinnar. Þessi undirtegund finnst aðallega hér á landi, en einnig lítils háttar í Færeyjum, á Hjaltlandi og í Noregi. Annars verpur jaðrakan dreift um Vestur- og Mið-Evrópu, aðallega í Hollandi og austur um Rússland.

Nýkomnir jaðrakanar á Eyrarbakka seðja hungrið eftir farflugið. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Þreyttir jarðrakanar eftir langflug hvílast við Dyrhólaós. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hópur jaðrakana síðsumars við Austari-Héraðsvötn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Jaðrakan í vetrarbúningi á Stokkseyri. Þeir sjást sjaldan í þessum skrúða hér á landi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Þjóðtrú og sagnir

Jaðrakan gefur frá sér hrjúft kvak og hvellt nefhljóð á varptíma, einkum á flugi, annars er hann þögull. Þessi hljóð hafa orðið tilefni sagna og þjóðtrúar. Menn þóttust jafnvel greina orð úr hljóðum fuglsins og er til um það ágæt saga. Þannig var að maður kom að á og var á báðum áttum hvort hann ætti að freista þess að vaða yfir eða ekki. Þá kom þar að jaðrakan og sagði: „Vaddúdí, vaddúdí“, sem maðurinn og gerði en blotnaði. Þá heyrðist frá jaðrakaninum: „Vaddu vodu? Vaddu vodu?“ Maðurinn, sem nú var orðinn reiður yfir að hafa látið ginna sig útí, steytti hnefann móti fuglinum og svaraði: „Já, ég varð votur.“ Þá flaug jaðrakaninn burt og heyrðist manninum fuglinn segja í kveðjuskyni: „Vidduþi, vidduþi“ og fór hann að því ráði og tók að vinda föt sín. – Heiti fuglsins er ráðgáta, en ein tilgátan er að þá sé komið úr gelísku.

Kveðskapur

Að Skálabrekku

Hér stend ég aftur á brekkunnar brún og horfi
á blálygnt djúpið með himinhvolf sitt og fjöll.
En jaðraki, stelkur og hrossagaukur hamast
við hljómleika sína í nánd við iðgrænan völl.

Eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.