Auðnutittlingur

Auðnutittlingur

Auðnutittlingur (Carduelis flammea)


Útlit og atferli

Auðnutittlingur er lítill og grábrúnn stélstuttur spörfugl af finkuætt. Rauður blettur á enni og svartur á kverk eru einkennandi. Hann hefur dökkar rákir á síðum, dauf vængbelti og grunnsýlt stél. Síðla vetrar og á vorin verður karlfuglinn bleikur eða rauðleitur á bringu og gumpi. Ungfuglar eru í fyrstu brúnflikróttir, án rauða blettsins á enni, en fá fullan búning í ágúst. Goggur er keilulaga, stuttur og gulur finkugoggur með svartan brodd. Fætur eru dökkbrúnir og augu brún.

Auðnutittlingur flýgur í léttum bylgjum. Hann er kvikur og fimur þegar hann leitar sér ætis í trjám og öðrum gróðri. Er oftast í litlum hópum utan varptíma en þeir geta þó orðið allstórir. Gefur frá sér gjallandi kvein eða dillandi, langdreginn söng.

 

Lífshættir

Auðnutittlingur er frææta, sem byggir tilveru sína á birkifræi. Hann tekur einnig fræ njóla, baldursbrár og fleiri villijurta. Auðnutittlingurinn hefur nýlega komist uppá lag með að ná fræi úr greni- og furukönglum, hann gæti hafa lært það af krossnefnum? Auðnutittlingur fæðir ungana í hreiðrinu og fyrst eftir að þeir yfirgefa það á dýrafæðu; skordýrum og köngulóm. Auðnutittlingar eru algengir á fóðurbrettum í görðum þar sem fræ er gefið og er sólblómafræ eitt besta fóðrið fyrir þá.

 

Auðnutittlingur á Selfossi

Auðnutittlingur etur birkifræ á Selfossi.

Auðnutittlingur etur birkifræ á Selfossi.

Auðnutittlingar á fóðrara á Selfossi. Fóðrið er sólblómafræ með hýði.

Auðnutittlingar á fóðrara í Seljahverfi. Fóðrið er hýðislaust sólblómafræ.

Kjörlendi er birkiskógar og kjarr, auk þess ræktað skóglendi og garðar. Hann gerir sér hreiður í trjám og runnum. Það er lítil, vönduð karfa úr sinu og öðrum gróðri, fóðruð með hárum og fiðri. Urptin er 4–6 egg, þau klekjast á 10–12 dögum og ungarnir verða fleygir á 10–14 dögum. Verpur venjulega nokkrum sinnum á sumri.

 

Eitt af undrum náttúrunnar er, hvernig spörfuglar halda hreiðrinu hreinu, meðan ungarnir eru að vaxa úr grasi. Ungarnir æla dritinu í hvítum pokum, sem kallast dritsekkir. Foreldrarnir annaðhvort éta þá eða fljúga með þá burt.

Auðnutittlingshreiður í Lambhagahverfi, R. Kvenfuglinn með dritsekk.

Útbreiðsla og ferðir

Auðnutittlingurinn er staðfugl. Auðnutittlingsstofninn sveiflast nokkuð eftir árferði og því, hvernig birkifræ þroskast. Í góðu árferði er talið að hann sé um 30.000 pör. Hann hefur breiðst út í kjölfar aukinnar skógræktar, áður fyrr var hann bundinn við birkiskóga og var eini íslenski fuglinn sem varp undantekningalaust í trjám. Grænlenskir auðnutittlingar fara hér um vor og haust og hafa ef til vill vetursetu. Heimkynnin eru á breiðu belti um allt norðurhvelið.

 

Þjóðtrú og sagnir

Lítil þjóðtrú fylgir auðnutittlingnum. Þegar hann kom heim að bæjum í hópum var það fyrir slæmu veðri. Nafnið hefur líklega verið auðnatittlingur samkvæmt danskri frumútgáfu Ferðabókar Eggerts og Bjarna frá 1772, en hans er lítið getið í eldri heimildum.

Skyldar tegundir

Hrímtittlingur (Carduelis hornemanni) er varpfugl í nyrstu héruðum Evrópu, Norður-Ameríku og NV-Grænland. Grænlensku fuglarnir eru taldir vera sérstök undirtegund. – Hrímtittlingar hafa verið fremur sjaldséðir hér á landi, en mjög líklegt er að þeir komi hingað reglulega en þeir eru mjög líkir auðnutittlingum og er örugg greining torveld. Hann er þó mun ljósari; gumpur, undirstélþökur og síður nær hvít og lítið sem ekkert rákótt.

Hrímtittlingur á Selfossi í apríl.

Nýfleygur auðnutittlingsungi í Þrastaskógi.

Auðnutittlingskarl á Selfossi.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Hreindýr Rangifer tarandus

Hreindýr Rangifer tarandus

Hreindýr Rangifer tarandus

Vissir þú að orðið tarandus á latínu merkir sá sem ber horn? Andstætt öðrum hjartardýrum bera bæði kynin horn en fella þau á mismunandi tíma ár hvert. Horn hreindýra er stöðutákn og tarfarnir beita þeim í bardaga um kýrnar. Kelfdar kýr (kálffullar) halda lengst í hornin og geta notað þau til að reka önnur dýr frá stöðum þar sem fæðu er að finna. 

Ljósmyndir: Gaukur Hjartarson. 

Áhrif loftslagsbreytinga á safnastarf

Áhrif loftslagsbreytinga á safnastarf

Áhrif loftslagsbreytinga á safnastarf

Þjóðaminjasafn Íslands og Háskóli Íslands standa fyrir áhugaverðu málþingi miðvikudaginn 25. nóvember frá kl. 11.00-16.30 um áhrif loftlagsbreytinga á safnastarf og þeim áskorunum og tækifærum sem söfn standa frammi fyrir tengdum þessari yfirvofandi vá.

Rætt verður hvernig söfn geti tekist á við samfélagslega kröfu um aukna sjálfbærni og jafnframt stuðlað að upplýstri umræðu um loftlagsbreytingar og afleiðingar þeirra.

Málþinginu verður streymt í gegnum fundakerfi Teams en hægt er að taka þátt og hlusta á fyrirlestra með því að smella á meðfylgjandi link. Gestir eru beðnir um að stilla hljóðnema sína á hljóðlaust.

 

Dagskrá / Program

11.00 – 11.05: Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður

11.05– 11.15: Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands / rektor ved Islands Universitet / Rector of the University of Iceland

Ávarp / Indledningstale / Address

11.15 – 12.30: Sanne Houby-Nielsen, safnstjóri / Museumsdirektør / Museum Director og Lotten Gustafsson Reinius rannsóknastjóri / leder af forskning / Research LeaderNordiska Museet: The Artic – While the Ice is Melting / Arktis – Medan isen smälter

Norræna safnið í Stokkhólmi / Nordiska Museet i Stockholm / the Nordic Museum in Stockholm

12.30 – 13.00: Hádegi / Frokost / Lunch

13.00 – 13.25: Hilmar Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafn Íslands / direktør for Islands Naturhistoriske Museum / Director of the Icelandic Museum of Natural History

Náttúrufræðisöfn og loftslagsbreytingar: Áskoranir, tækifæri og skyldur/ Natural History Museums and Climate Change – Natural History Museums and Climate Change: Challenges, Opportunities and Duties

13.30 – 13.55: Bergsveinn Þórsson, nýdoktor í safnafræðum frá Oslo University / doktor i museologi fra Oslo Universitet / PhD in Museum Studies from Oslo University

Vegvísir: Handbók um aðgerðir í loftslagsmálum fyrir söfn, setur og sýningar / Signpost: A Climate Action Manual for Museums, Culture Centers and Exhibitions

14:00 – 14.25: Sigurjón B. Hafsteinsson og Tinna Grétarsdóttir

Sjálfbærni: lærdómur af torfhúsum / Sustainability: Lessons from the Turf House

Kaffihlé / Kaffe / Coffee

14.40 – 15.05: Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands / direktør for Islands Nationalgalleri / Director of the National Gallery of Iceland

Solstalgia: Viðbættur sýndarveruleiki / Solstalgia: An Immersive Installation

15.10 – 15.35: Aníta Elefsen, safnstjóri Síldarminjasafnsins / direktør for Sildehistoriks museum / Director of the Herring Era Museum

Salthúsið, endurnýting og sjálfbærni / Salthúsið, Recycling and Sustainability

15.40 – 16.05: Guðný Dóra Gestsdóttir, safnstjóri Gljúfrasteins og formaður Íslandsdeildar ICOM / direktør for Gljúfrasteinn-Laxness museum og formand for ICOMs Islandsafdeling / Director of Gljúfrasteinn – Laxness Museum and President of ICOM Iceland

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Samvinna OECD og ICOM um mikilvægi safna / The OECD-ICOM Guide for Local Governments, Communities and Museums

16.05 – 16:20: Umræður og spurningar / Diskussion / Discussion

16.20 – 16.30: Þakkir og lokaorð Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður

Farvel og tak / Closing Remarks by Margrét Hallgrímsdóttir, Director of the National Museum of Iceland

Fundarstjórn / ordstyrer / moderator: Heiða Björk Árnadóttir

Grímsvötn

Grímsvötn

Horft í suðaustur yfir Víti og Öskjuvatn.

Grímsvötn. Ljósm. Magnús Tumi Guðmundsson.

Grímsvötn

Grímsvötn er megineldstöð sem er staðsett vestan við miðju Vatnajökuls og er að mestu hulin jökli. Eldstöðvakerfi Grímsvatna samanstendur af megineldstöðinni og sprungusveimi, og er um 100 km að lengd og 20 km að breidd. Kerfið er hluti af Austurgosbeltinu og teygir sig til suðvesturs með Lakagígum. Eldstöðin er sú virkasta á landinu og er vitað um rúmlega 60 gos frá henni á sögulegum tíma, en Grímsvötn eru einnig eitt öflugasta jarðhitasvæði landsins. Í toppi megineldstöðvarinnar er askja og undir íshellunni er stöðuvatn sem tæmist og endurnýjast með reglubundnum hætti vegna jarðhita, eldgosa og jökulhlaupa. Síðast gaus í Grímsvötnum 2011.

Askja í Dyngjufjöllum í Ódáðahrauni er merkt með rauðum punkti á kortið.

Grímsvötn eru merkt með rauðum punkti á kortið.

Askja í Dyngjufjöllum. Öskjuvatn fyllir yngstu öskjuna og má sjá móta fyrir hinum eldri. Suðurbotnar eru merktir með gulum punkti. (Gervitunglamynd frá NASA).

Grímsvötn í Vatnajökli. Úr lofti má sjá öskjuna í toppi Grímsvatna ásamt skörpum suður barminum sem er Grímsfjall. (Gervitunglamynd frá USGS og NASA).

Horft í suður yfir Öskjuvatn.

Askjan í toppi Grímsvatna eftir að gosi lauk í maí 2011. Ljósm. Magnús Tumi Guðmundsson.

Eldstöðvakerfi Grímsvatna liggur að mestu undir Vatnajökli en hluti þess nær út fyrir jökulinn til suðvesturs, með Austurgosbeltinu í átt að Mýrdalsjökli. Eldvirkni kerfisins sem liggur undir jökli einkennist af basískum sprengigosum, þar sem viðkoma bráðins jökulíss við kviku sem kemur upp ýtir undir sprengivirkni og framleiðslu á gjósku. Aftur á móti einkennist eldvirkni kerfisins utan við jökulinn af basískum flæðigosum.

Jökulhlaup eru algeng samfara eldgosum úr Grímsvötnum þar sem mikið magn jökulíss getur bráðnað og fyllt öskjuna af vatni. Ef þrýstingurinn verður nægilega mikill lyftist íshellan yfir öskjunni sem veldur því að gríðarlegt magn af vatni brýst skyndilega fram. Af þessari ástæðu er stöðugt eftirlit með öskjunni og eldstöðinni í Grímsvötnum. Á Grímsfjalli er vefmyndavél sem beinist að öskjunni og einnig er GPS mælir á íshellunni. Vatnshæð og rafleiðni eru mæld í Gígjukvísl.

 

Ár Gerð eldgoss
2011 Sprengigos
2004 Sprengigos
1998 Sprengigos
1996 Sprengigos á sprungu utan aðalöskjunnar (Gjálp)
1984 Sennilega smágos
1983 Sprengigos
1938 Sprengigos á sprungu utan aðalöskjunnar
1934 Sprengigos
1933 Smágos
1922 Sprengigos
1902 Sprengigos

 

Eitt frægasta eldgos úr Grímsvatnakerfinu eru Skaftáreldar, en í þeim mynduðust Lakagígar. Eldgosið stóð yfir í átta mánuði, það hófst 8. júní 1783 og lauk því 7. febrúar 1784. Þetta gos er annað stærsta flæðigos á sögulegum tíma á eftir Eldgjárgosinu 934–940. Hraunið sem myndaðist í Skaftáreldum er um 14,7 km3 að rúmmáli, til samanburðar er Holuhraun 1,4 km3 að rúmmáli. Skaftáreldar hófust með stuttu sprengigosi á lítilli sprungu sem olli því að hraun fór að renna í Skaftá. Fjórum dögum seinna náði hraunið niður á láglendið, 35 km í burtu. Hraunið hélt áfram að renna þangað til eldgosinu lauk og fór allt að 65 km frá upptökum. Gígaröðin sem myndaðist í Skaftáreldum er 27 km löng og liggur norðaustan og suðvestan við móbergsfjallið Laka, sem hún er kennd við. Sjálft fjallið Laki er þó miklu eldra en Lakagígar.

 

Skaftáreldum fylgdi hörmungartíð sem er þekkt sem móðuharðindin, mestu náttúruhamfarir Íslandssögunnar. „Móðan“ stafaði af mikilli framleiðslu á brennisteinsgufu frá eldgosinu en sú mengun leiddi til hungursneyðar og uppskerubrests um allt land sem og á meginlandi Evrópu og víðar um heim. Agnir úr eldgosinu hindruðu sólarljósi á leið til jarðar, veðurfar kólnaði og var veturinn eftir Skaftárelda einn sá harðasti sem hefur verið skráður í Evrópu og Norður-Ameríku. Loftslagsáhrifin frá Skaftáreldum stóðu yfir í 2–3 ár.

Síðast gaus í Grímsvötnum 21.–28. maí 2011. Um var að ræða sprengigos í öskju Grímsvatna undir Vatnajökli, þar sem megineldstöð kerfisins er. Þetta gos var öflugra en eldgosið í Grímsvötnum 2004 og í Eyjafjallajökli 2010. Gosmökkurinn náði mest 20 km hæð og sendi fíngerða ösku út í andrúmsloftið. Askan raskaði flugumferð en þar sem hún var grófari en fínasta askan úr Eyjafjallajökli, hafði hún ekki eins mikil áhrif.

Virkni íslenskra eldstöðva er táknuð með litakóða sem segir til um líkurnar á eldgosi í þeirri tilteknu eldstöð. Grímsvötn er eina eldstöðin sem er nú merkt með gulum lit, en það merkir að virkni hennar sé meiri en telst venjulegt. Algengast er að eldstöðvar séu merktar með grænum lit en þá bendir ekkert til þess að eldgos sé í vændum. Í maí 2020 voru vísbendingar um að Grímsvötn væru að búa sig undir eldgos þar sem aflögunarmælingar bentu til þess að kvika hefði safnast fyrir og þrýstingur í kvikuhólfinu væri að aukast.

Horft í suður yfir Öskjuvatn.

Gosmökkurinn við eldgosið í Grímsvötnum 2011 var umfangsmikill og náði mest 20 km hæð. Ljósm. Þórdís Högnadóttir.

Nú þegar komið er fram í nóvember hefur þó ekkert gerst í Grímsvötnum ennþá en algengt er að það líði 5–10 ár á milli eldgosa í eldstöðinni. Í september á þessu ári var litakóðinn færður yfir á gult þar sem virknin hefur verið að stigmagnast. Því aukast sífellt líkurnar á að Grímsvötn gjósi á næstu mánuðum eða árum.

Brotsár eftir berghlaup í Suðurbotnum í júlí 2014.

Grímsvatnagosið 2011 var öflugt og truflaði flugumferð um tíma. Ljósm. Þórdís Högnadóttir.

Brotsár eftir berghlaup í Suðurbotnum í júlí 2014.

Gosmökkurinn frá eldgosinu í Grímsvötnum 2004. Ljósm. Magnús Tumi Guðmundsson.

Ítarefni

Magnús T. Guðmundsson & Guðrún Larsen. 2019. Grímsvötn. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 26. október 2020 af http://islenskeldfjoll.is/?volcano=GRV#.

Magnús T. Guðmundsson, Guðrún Larsen & Þorvaldur Þórðarson. 2013. Grímsvötn. Bls. 235–251 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Magnús T. Guðmundsson & Helgi Björnsson. 1991. Eruptions in Grímsvötn, Vatnajökull, Iceland, 1934–1991. Jökull 41. 21–45.

Veðurstofa Íslands. 2020. Eldfjöll – litakóði. Sótt 10. nóvember 2020 af https://www.vedur.is/skjalftar-og-eldgos/eldgos/.

Veðurstofa Íslands. 2011. Gos í Grímsvötnum: Fylgst með stöðu mála. Sótt 4. nóvember 2020 af https://www.vedur.is/skjalftar-og-eldgos/frodleikur/greinar/nr/2179.

Þorvaldur Þórðarson & Self, S. 1993. The Laki (Skaftár Fires) and Grímsvötn eruptions in 1783–1785. Bulletin of Volcanology 55. 233–263.

Þorvaldur Þórðarson & Self, S. 2003. Atmospheric and environmental effects of the 1783–1784 Laki eruption: A review and reassessment. Journal of Geophysical Research 108. 1–29.

Hreindýr

Hreindýr

Hreindýr (Rangifer tarandus)


Vissir þú að við lok síðustu ísaldar voru hreindýr útbreidd um alla Evrópu en fluttu sig smám saman nær norðurskautinu eftir því sem jökullinn hopaði? Hreindýr eru einstaklega vel aðlöguð að kulda og frosti og þola vel frost niður í -40°C. Skýringarinnar er að leita í feldi dýranna sem er þrefalt þéttari en feldur annarra hjartardýra. Hárin eru tvenns konar; utar eru lengri þekjuhár en styttri þelhár nær húðinni. Þelhárin eru loftfyllt að hluta en það eykur einangrun og veitir gott flot á sundi.  

Ljósmyndir Gaukur Hjartarson.