Kvikuhólf

Kvikuhólf

Vissir þú að hægt er að skoða forn kvikuhólf á Íslandi?  Forn kvikuhólf geta gefið vísbendingar um hegðun kviku. Hér má t.d. sjá að súr kvika – sem er ljós, og basísk kvika – sem er dekkri, blandast illa saman. Mynd frá Hvalsnesi.  

Vetrarsteinbrjótur

Vetrarsteinbrjótur

Vetrarsteinbrjótur, öðru nafni vetrarblóm, blómgast fyrst allra plantna í apríl eða byrjun maí. Blómin eru lítil en áberandi rauðfjólublá. Vetrarsteinbrjótur er mjög harðgerð planta sem vex um allt land og hefur fundist í ríflega 1600 m hæð.

Hornsíli

Hornsíli

Hornsíli eru algengustu fiskar í fersku vatni á Íslandi. Þau er nær alls staðar að finna, í tjörnum, ám en líka í sjó. Hornsílin eru aðeins 4–6 sm löng. Bak- og kviðuggar hafa umbreyst í gadda og í stað hreisturs eru hornsíli með brynplötur til varnar. Hornsíli hrygna á vorin og fram á sumar. Þá breyta hængarnir um lit og verða skærrauðir á kviði. Þeir helga sér óðul og gera sér kúlulaga hreiður sem er opið í báða enda. Hængurinn lokkar til sín hrygnur sem hrygna í hreiðrið, hann sprautar sæði yfir eggin og frjógvar þau. Hrygnan kemur ekki nálægt umönnun hrogna eða seiða en hængurinn ver hreiðrið og reynir að laða þangað fleiri hrygnur 

Hrossagaukur

Hrossagaukur

Hrossagaukurinn helgar sér svæði, svokallað óðal, í kringum hreiður sitt. Hann ver óðalið með sérstöku hringflugi og hneggi sem myndast þegar hann steypir sér í loftköstum niður á flugi. Með hröðum stuttum vængjatökum klýfur hann loftstrauminn og leikur á útglenntar stélfjaðrirnar eins og hljóðfæri. Um þessar mundir má heyra þessi skemmtilegu hnegg hrossagauks. 

Flórgoði

Flórgoði

Flórgoði er eini goðinn sem verpir á Íslandi. Hann býr ungum sínum hreiður sem flýtur á vatni, svokallað flothreiður. Gamalt heiti flórgoða er sefönd, áður fyrr hélt fólk að hann væri önd.

Farfuglar

Farfuglar

Apríl er mánuður farfuglanna og vorkomunnar? Farfuglar færa sig á milli staða eftir árstíðum, leita á vorin eftir ákjósanlegu varpsvæði á norðlægum slóðum en leita aftur á suðlægar slóðir þegar kólnar í veðri. Á vorin er mikið líf og fjör, sumir farfuglarnir dvelja hér sumarlangt en aðrir hafa einungis stutta viðkomu áður en þeir halda lengra, til Grænlands eða Kanada. Heiðlóan er einn af vorboðunum okkar, hún kemur snemma í apríl og fer seint. Söngur lóunnar er eitt af einkennishljóðum íslenska sumarsins.