Heimsókn frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu

Heimsókn frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu

Heimsókn frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu

Á dögunum tókum við hjá Náttúruminjasafni Íslands á móti góðum gestum þegar fulltrúar menningar- og viðskiptaráðuneytisins sóttu okkur heim. Sigrún Brynja Einarsdóttir ráðuneytisstjóri, skrifstofustjórarnir Arna Kristín Einarsdóttir og Guðrún Gunnarsdóttir, sem og tengiliður safnsins við ráðuneytið, Vilhelmína Jónsdóttir, komu til að kynna sér starfsemi safnsins betur.

Hilmar J. Malmquist forstöðumaður leiddi heimsóknina með greinagóðri kynningu á margvíslegum verkefnum safnsins og framtíðarhorfum. Framundan eru spennandi tímar hjá Náttúruminjasafninu en vinna við hönnun nýrrar grunnsýningar í Náttúruhúsi í Nesi er í fullum gangi. Sýningin mun hverfast um hafið og lífríki þess með áherslu á mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni. Heimsókninni lauk úti á Seltjarnarnesi þar sem hinar fallegu framtíðarhöfuðstöðvar voru skoðaðar.

Við þökkum ráðuneytiskonum kærlega fyrir komuna.

Starfsmenn Náttúruminjasafnsins ásamt fulltrúum menningar- og viðskiptaráðuneytisins.

Hilmar J. Malmquist kynnir starfsemi Náttúruminjasafnsins fyrir gestum.

Frá vinstri: Sigrún Brynja Einarsdóttir, ráðuneytisstjóri MVF, Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður NMSÍ, Anna Katrín Guðmundsdóttir, verkefnastjóri NMSÍ, Arna Kristín Einarsdóttir, skrifstofustjóri MVF, Ragnhildur Guðmundsdóttir, líffræðingur NMSÍ og Vilhelmína Jónsdóttir, sérfræðingur MVF.

Samstarf við Grasagarðinn í Reykjavík

Samstarf við Grasagarðinn í Reykjavík

Samstarf við Grasagarðinn í Reykjavík

Á sýningu Náttúruminjasafns Íslands, Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni, fræðumst við um margs konar birtingarmyndir ferksvatns á Íslandi. Vatnið er mikilvægt öllum lífverum, í lindum og ám, þar á meðal plöntum sem reiða sig á vatnið eins og aðrar lífverur. Þá leikur vatn um berg og jarðveg og tekur með því stóran þátt í að móta landið.

Á sýningunni má finna lifandi plöntur sem finnast í íslenskri náttúru í sérstökum gróðurkúlum. Lögð er áhersla á að skipta gróðrinum út eftir árstíðum til að sýna fjölbreytt úrval plantna sem er í blóma á hverjum tíma.

Síðastliðið haust gerðu Náttúruminjasafnið og Grasagarðurinn í Reykjavík með sér óformlegan samning um samstarf og kemur allur gróður á sýningunni frá Grasagarðinum. Fleira er á döfinni, þar með talið sameiginlegt viðburðahald og munu stofnanirnar halda saman viðburð á Degi hinna villtu blóma þann 16. júní.

Opnunarviðburður Hátíðar líffræðilegrar fjölbreytni

Opnunarviðburður Hátíðar líffræðilegrar fjölbreytni

Opnunarviðburður Hátíðar líffræðilegrar fjölbreytni

Í gær, þann 23. febrúar, tók Náttúruminjasafnið þátt í opnunarviðburði Hátíðar líffræðilegrar fjölbreytni sem fram fór í Safnahúsinu að viðstöddu fjölmenni í gær, en í salnum voru á annað hundrað manns og um sextíu fylgdust með á beinu streymi. Greinilegt er að málefnið brennur á fjölmörgum enda afar brýnt og áskoranirnar margar.

Hátíðardagskrána má nálgast hér: https://biodice.is/hatid2023/. Næsti viðburður verður mánudaginn 27. febrúar í húsi Náttúrufræðistofnunar í Urriðaholti.

Upptökurnar af viðburðinum verða gerðar aðgengilegar fljótlega.

Fjölmenni sótti fundinn.

Í pallborði voru Eydís Líndal Finnbogadóttir forstjóri Náttúrufræðistofnunar Íslands, Sigrún Ágústsdóttir forstjóri Umhverfisstofnunar, Helga Hvanndal Björnsdóttir fulltrúi Ungra umhverfissinna,Sigríður Svana Helgadóttir skrifstofustjóri Skrifstofu eftirfylgni og fjármála, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu, Freydís Vigfúsdóttir sérfræðingur Skrifstofu sjálfbærni hjá matvælaráðuneytinu, Þórdís Björt Sigþórsdóttir teymisstjóri Umhverfisstofnun, Snorri Sigurðsson sviðstjóri náttúruverndar Náttúrufræðistofnun Íslands. Umræðum stýrði Guðrún Sóley Gestsdóttir.

 

Landsvala

Landsvala (Hirundo rustica)

og bæjasvala (Delichon urbicum)

Í þessum síðasta þætti um fugl mánaðarins verður í annað sinn vikið frá þeirri venju að fjalla aðeins um eina fuglategund. Þær frænkur landsvala og bæjasvala eru líkar um margt, koma oft saman til landsins og því viðeigandi að fjalla um þær saman. Þær eru spörfuglar og tilheyra hinum eiginlegu svölum, eru alls óskildar hinum smávöxnu sjófuglum sjóvölu og stormsvölu, sem fjallað var um saman í september 2017.

Bæjasvala safnar leðju til hreiðurgerðar í Extremadura á Spáni.

Landsvala á vír í Búlgaríu.

Útlit og atferli

Svölurnar eru báðar algengir vor- og sumargestir og koma þær oft samtímis til landsins. Landsvalan eru þó öllu algengari. Þær eru báðar blásvartar og gljáandi að ofan og á efri hluta höfuðs, landsvala er með svart bringuband, rauð á kverk og í framan. Vængir eru langir og stél djúpklofið með löngum stélfjörðum, stélfjaðrir eru styttri á ungfuglum. Kviður og bringa eru ljósgul.

Bæjasvalan en hvít að neðan. Hvítur gumpur og sýlt stél með styttri stélfjöðrum greina hana frá landsvölu.

Raddir svalanna eru ýmis konar tíst og kvak. Þær fljúga hratt og léttilega og taka smádýr á flugi. Þær svífa gjarnan inn á milli fluglota. Svölurnar tylla sér oft á víra, loftnet og þess háttar. Þær eru félagslindar utan varptíma.

Lífshættir

Landsvala gerir sér oftast hreiður inni í útihúsum og á öðrum mannvirkjum, meðan bæjasvalan gerir sér hreiður undir þakskeggjum eða á syllum utan á húsum. Hreiður beggja er gert úr leðju eða leir, sem fuglarnir taka í gogginn á völdum stöðum, leðjan er oft blönduð stráum. Það er síðan fóðrað með fínum stráum, hárum og fiðri. Hreiður landsvölu er opið meðan hreiður bæjasvölu er hálfkúlulaga með opi efst. Urptin er oftast 4-5 egg, það fer nokkuð eftir stærð hreiðra hversu urptin er stór, getur orðið 7 egg hjá landsvölu. Útungunartíminn er tvær vikur og ungarnir verða fleygir á þremur vikum, jafnvel fjórum vikum eða meira hjá bæjasvölu. Tvö vörp yfir sumarið eru þekkt hjá báðum tegundum.

Nýfleygur landsvöluungi í Extremadura á Spáni.

Landsvala á flugi á Stokkseyri.

:Bæjasvala við hreiður í Vík í Mýrdal.

Bæjasvala á flugi í A-Anglíu á Englandi.

Útbreiðsla og varpsaga

Landsvalan hefur orpið hér alloft. Fuglar sýndu nokkrum sinnum varptilburði, fyrst í Hafnarfirði 1820 svo kunnugt sé, þangað til þeir komu fyrst upp ungum í Gaulverjabæ í Flóa 1911. Síðan eru mörg varptilvik þekkt víða um land og jafnvel tvö ár í röð á sama stað. Bæjasvalan hefur orpið sjaldnar, fyrsta kunna varpið er úr Vestmannaeyjum 1959 og önnur varptilvik hafa öll verið á sunnanverðu landinu. En þær frænkur hafa ekki enn náð hér fótfestu og gæti óstöðugt veðurfar átt sinn þátt í því.

Landsvala verpur í Evrópu, Norður-Afríku, Asíu og Norður-Ameríku, vetrarstöðvar evrópskra fugla eru í sunnanverðri Afríku. Bæjasvala verpur um alla Evrópu, Norður-Afríku og austur um Asíu. Vetrarstöðvar evrópskra fugla eru í Afríku sunnan Sahara.

Þetta er síðasti pistillinn um fugl mánaðarins. Fjallað var um helstu fugla íslensku fánunnar, pistlarnir eru nú orðnir rúmlega 90 og hafa verið birtir mánaðarlega í næstum 8 ár. Lesendum eru þökkuð góð viðbrögð við þeim og Náttúruminjasafninu samstarfið.

Bæjasvölupar á góðri stundu í Extremadura á Spáni.

Bæjasvöluvarp í Extremadura á Spáni.

Landsvala á varpstað á Stapa í Nesjum.

Landsvölur á Stokkseyri.

Landsvala á hreiðri í Coto Doñana á Spáni.

Landsvölur í rigningu við Þvottá í Álftafirði.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson
Fjöruspói

Fjöruspói

Fjöruspói (Numenius arquata)

Útlit og atferli

Fjöruspói er líkur spóa en töluvert stærri, goggurinn er lengri og höfuðrákirnar vantar. Gumpur er hvítur eins og á spóa. Ungfuglar þekkjast á styttra goggi og hreinni búningi. Kvenfuglar eru með ívið lengri gogg en karlfuglar. Fluglag og hljóð minna á máfa og hann er venjulega styggari en spói.

Ungur fjöruspói í Garði á Rosmhvalanesi.

Fullorðinn fjöruspói í Óman.

Lífshættir

Fjöruspói verpur í barrskógabeltinu í opnu landi, mýrum og ræktarlandi með ám, einnig við sjávarsíðuna, bæði í votu og fremur þurru landi. Hann verpur 4 eggjum í opið hreiður, útungunin tekur um 4 vikur og ungarnir verða fleygir á 5 vikum. Hér sést fjöruspói aðallega í þangfjörum en einnig á leirum.

Útbreiðsla, landnám og stofnstærð

Vetrargestur og strjáll varpfugl. Fjöruspói er vetrargestur á Rosmhvalanesi og þá aðallega í Sandgerði, í Skarðsfirði í Nesjum og við Höfn, á Eyrum og í Grunnafirði, þó hann sjáist víðar. Þetta eru oft 10-20 fugla hópar, en færri á Eyrum. Varp var fyrst staðfest á Melrakkasléttu árið 1987. Fjöruspói hefur síðan fundist verpandi í Nesjum, á Rosmhvalanesi og fuglar með varpatferli hafa sést við Eyrarbakka, Reykhóla á Barðaströnd og víðar. Hugsanlega tilheyra vetrarhóparnir innlendum varpstofni, sem sennilega verpa í sitthvorum landshlutanum. Tíminn mun leiða það í ljós. Fjöruspói er á válista sem tegund í bráðri hættu (CR). Hann er algengur varpfugl í opnu landi um stóran hluta Norður- og Mið-Evrópu og austur um Asíu. 

Fullorðinn fjöruspói á varpstöðvum á SA-landi.

Fullorðinn fjöruspói á varpstöðvum á SA-landi.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson