Jöklar

Jöklar

Jöklar

Geldingadalir gas

Viðburður: Jöklar á hverfanda hveli

Dagsetning: Sunnudagur 6. apríl 2025

Staðsetning: Perlan, 2. hæð

Tími: kl. 14 – 16

Á Spennandi sunnudegi 6. apríl milli kl. 14 og 16 býður Náttúruminjasafnið uppá skemmtilegan jöklaviðburð í samstarfi við Jöklarannsóknarfélag Íslands og Náttúruverndarstofnun á sýningu safnsins, Vatnið í náttúru íslands á 2. hæð Perlunnar. Tilefnið er að  Sameinuðu þjóðirnar hafa gefið út að árið 2025 er tileinkað jöklum.

Öll velkomin!
Aðgangur er ókeypis.

Náttúruminjasafn Íslands stendur fyrir fjölbreyttum fjölskylduviðburðum fyrsta sunnudag hvers mánaðar, kjörið tækifæri fyrir fjölskyldur til að skemmta sér og tengjast náttúrunni á skemmtilegan hátt.

3,5 milljarða styrkur til að tryggja vatnsgæði á Íslandi!

3,5 milljarða styrkur til að tryggja vatnsgæði á Íslandi!

3,5 milljarða styrkur til að tryggja vatnsgæði á Íslandi!

Náttúruminjasafn Íslands tekur þátt í innleiðingu á vatnaáætlun í verkefninu LIFE ICEWATER. Verkefnastjórn er í höndum Umhverfisstofnunar en að auki taka 21 samstarfsaðilar þátt í verkefninu. Styrkurinn er alls 3,5 milljarða króna og kemur frá Evrópusambandinu en þar af mun Náttúruminjasafnið hljóta 76 milljónir. Verkefnið saman stendur af ýmsum smærri verkefnum sem eiga að flýta fyrir og bæta innleiðingu vatnaáætlunar á Íslandi.

Mynd: Snorri Baldursson.

Markmið verkefnisins er að:

  • Auka þekkingu á notkun, eiginleikum og ástandi vatns á Íslandi
  • Tryggja fumlausa og samhæfða stjórnsýslu þegar kemur að vatnamálum
  • Bæta vatnsgæði, til dæmis með úrbótum í fráveitu og hreinsun á fráveituvatni
  • Fræða almenning og hagaðila um mikilvægi vatns

Með LIFE ICEWATER gefast tækifæri til nýsköpunar í stjórnsýslunni með þverfaglegu samstarfi ýmissa aðila með það fyrir augum að bæta vatnsgæði um allt land, auk þess að hámarka ábata samfélagsins af slíkum aðgerðum.

Styrkurinn fyrir LIFE ICEWATER er einn sá stærsti sem Ísland hefur fengið. Umfang verkefnanna sem samstarfshópurinn hefur sett saman er samtals um 5,8 milljarðar króna. LIFE áætlun Evrópusambandsins styrkir verkefnið um 60% eða samtals um 3,5 milljarða sem dreifast á samstarfshópinn og verða verkefnin unnin á árunum 2025-2030.

Verkefninu er skipt upp í 7 vinnupakka en aðkoma Náttúruminjasafnsins snýst fyrst og fremst um miðlun til almennings og skóla um mikilvægi vatns fyrir náttúruna og samfélag mannanna. Náttúruminjasafnið mun standa fyrir metnaðarfullri fræðsluefnisgerð og sýningum auk þess að vinna að þverfaglegum, skapandi verkefnum í samstarfi við skóla og listafólk. Yfirlit yfir aðgerðir hvers vinnupakka má sjá á myndinni hér fyrir neðan:

Auk Náttúruminjasafnsins eru 22 samstarfsaðilar í verkefninu: Umhverfisstofnun sem leiðir verkefnið, Eimur, Gefn, Grundarfjarðarbær, Hafrannsóknastofnun, Heilbrigðiseftirlit Suðurlands, Hveragerðisbær, Isavia, Ísafjarðarbær, Kópavogsbær, Matvælastofnun, Náttúrufræðistofnun, Orka náttúrunnar, Orkustofnun, Orkuveita Húsavíkur, Orkuveita Reykjavíkur, Reykjavík, Ríkisútvarpið, Samband íslenskra sveitarfélaga, umhverfis,- orku og loftslagsráðuneyti, Veðurstofa Íslands og Veitur, ásamt þremur óbeinum þátttakendum: Sveitarfélagið Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum.

Ráðherraheimsókn í Náttúruhús í Nesi

Ráðherraheimsókn í Náttúruhús í Nesi

Ráðherraheimsókn í Náttúruhús í Nesi

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Lilja D. Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra heimsóttu Náttúruhús í Nesi þann 27. maí síðastliðinn ásamt fulltrúum sinna ráðuneyta. Tilefnið var að nú eru framkvæmdir hafnar við þetta glæsilega hús en til stendur að opna þar nýjar höfuðstöðvar Náttúruminjasafns Íslands. Á staðnum voru einnig fulltrúar Náttúruminjasafnsins, Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna, Byggingarfélagsins E. Sigurðssonar og frá arkitektastofunni Yrki en húsið var teiknað af Ásdísi Helgu Ágústsdóttur og Sólveigu Berg stofnendum Yrkis.

Óhætt er að segja að mikil eftirvænting sé fyrir verkefninu, ekki hvað síst af hálfu Náttúruminjasafnsins þar sem safnið er nú í fyrsta sinn að eignast eiginlegar höfuðstöðvar. Þetta skref mun gjörbreyta allri aðstöðu fyrir móttöku skólahópa og auka tækifæri til náttúrufræðimenntunar fyrir menntakerfið í heild sinni.

Við þökkum öllum kærlega fyrir komuna.

F.v. Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra, Óskar Jósefsson, forstjóri FSRE, Ásdís H. Ágústsdóttir, arkitekt, Sólveig Berg, arkitekt og Ragnhildur Guðmundsdóttir, staðgengill forstöðumanns Náttúruminjasafns Íslands.

Arkitektarnir Sólveig Berg og Ásdís H. Ágústsdóttir sögðu frá hönnun hússins.

Heimsókn forsetahjónanna í Náttúruhús í Nesi

Heimsókn forsetahjónanna í Náttúruhús í Nesi

Heimsókn forsetahjónanna í Náttúruhús í Nesi

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Eliza Reid, forsetafrú, heimsóttu framtíðar höfuðstöðvar Náttúruminjasafns Íslands í Náttúruhúsi í Nesi í síðustu viku.  Tilefnið var 50 ára kaupstaðarafmæli Seltjarnarnesbæjar þann 9. apríl síðastliðinn.

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður safnsins, tók á móti forsetahjónunum og föruneyti þeirra og sagði frá fyrirhuguðum framkvæmdum við húsið og sýningargerðinni sem nú er í fullum gangi.  Jafnframt fylgdu Ragnhildur Guðmundsdóttir, líffræðingur og Snæbjörn Guðmundsson, jarðfræðingur forsetahjónunum út í Gróttu og ræddu jarðfræði Seltjarnarness og lífríkið í fjörunni en það er einmitt hluti af efnistökum nýju grunnsýningar safnsins sem mun hverfast um hafið og lífríki þess, með áherslu á framtíðina, mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni og áhrif loftslagsbreytinga.

Við þökkum forsetahjónunum kærlega fyrir komuna og óskum Seltjarnarnesbæ innilega til hamingju með kaupstaðarafmælið.

Ljósmyndir: Silla Páls fyrir Seltjarnarnesbæ

Hilmar J. Malmquist tók á móti forseta Íslands

Forsetahjónin skoðuðu aðal sýningarsal Náttúruhússins þar sem beinagreind íslandssléttbaks mun hanga uppi. Frá vinstri, Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri, Eliza Reid, forsetafrú, Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands og Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður.

Snæbjörn Guðmundsson, jarðfræðingur segir forsetahjónunum frá áhugaverðri jarðfræði Seltjarnarness

Samstarf Háskólans á Hólum og Náttúruminjasafns Íslands

Samstarf Háskólans á Hólum og Náttúruminjasafns Íslands

Samstarf Háskólans á Hólum og Náttúruminjasafns Íslands

Hólmfríður Sveinsdóttir rektor Háskólans á Hólum og Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands undirrituðu 31. janúar síðastliðinn rammasamkomulag um samstarf stofnananna um rannsóknir og miðlun á sviði náttúrufræða. Markmið samkomulagsins er að efla samstarf fræðimanna og nemenda á vegum stofnananna um rannsóknir og miðlun á fræðasviðum sínum.

Stofnanirnar hafa átt í nánu og gjöfulu samstarfi um árabil, en fyrri samstarfssamningur stofnanna var undirritaður haustið 2014. Það var jafnframt fyrsti samstarfssamningurinn sem Náttúruminjasafnið stóð að við aðra rannsókna- og menntastofnun síðan safnið var sett á laggirnar árið 2007.

Í viðauka með nýja rammasamkomulaginu er að finna nánari útfærslu á fyrirkomulagi og efnistökum í sérstöku samstarfsverkefni sem stofnanirnar hafa unnið að undanfarin ár.

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, og Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum, undirrita rammasamkomulagið.

Þar er um að ræða rannsóknir á líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi og nýtingu afraksturs þeirra rannsókna til miðlunar, jafnt til almennings, fræðasamfélagsins og stjórnsýslunnar. Fyrir þessum rannsóknunum fer dr. Skúli Skúlason prófessor við Háskólann á Hólum og sérfræðingur hjá Náttúruminjasafninu og deila stofnanirnar tvær með sér til helminga launa- og skrifstofukostnaði vegna starfa Skúla.

Á meðal afurða verkefnisins um líffræðilega fjölbreytni er uppbygging samráðsvettvangsins BIODICE (biodice.is), sem er vettvangur á fjórða hundrað einstaklinga, stofnana og fyrirtækja sem láta sig varða málefni líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi. Meginmarkmið BIODICE vettvangsins er að efla þekkingu og skilning á líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi.

Rannsóknir, verndun og miðlun á líffræðilegri fjölbreytni eru með brýnustu viðfangsefna mannkyns nú á tímum og varðar sjálfbæra framtíð og farsæld komandi kynslóða. Viðfangsefnið fellur vel að starfsemi og  stefnum Háskólans á Hólum og Náttúruminjasafnsins og við báðar stofnanir starfa sérfræðingar sem búa yfir yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu á sviði líffræðilegrar fjölbreytni, jafnt hvað varðar rannsóknir sem miðlun.

„Þetta rammasamkomulag við Háskólann á Hólum er afar ánægjulegt og mjög mikilvægt fyrir Náttúruminjasafnið, ekki síst með hliðsjón af starfsemi safnsins og framtíðaraðstöðu í nýju höfuðstöðvunum á Seltjarnarnesi, Náttúruhúsinu i Nesi, sem stefnt er að opna haustið 2025.“ segir Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins. „Meginþema grunnsýningarinnar í Náttúruhúsinu mun snúast um hafið þar sem líffræðileg fjölbreytni sjávarlífríkis verður í aðalhlutverki. Í Náttúruhúsinu verður öll aðstaða til að miðla og fræða um fjölbreytileika náttúru Íslands með því besta sem völ er á. Þar með rætist einn þátturinn í stefnu stjórnvalda um líffræðilega fjölbreytni, nefnilega sá að Náttúruminjasafn Íslands skuli gegna lykilhlutverki í fræðslu um lífríki landsins þegar safnið eignast eigin aðstöðu og húsnæði undir starfsemi sína.“ segir Hilmar J. Malmquist.

Hólmfríður Sveinsdóttir, rektor Háskólans á Hólum tekur í sama streng og segir “Rammasamkomulagið er afar mikilvægt fyrir Háskólann á Hólum. Skólinn fer fyrir verkefni þar sem markmiðið er að þróa nám og rannsóknir í sjálfbæru lagareldi á háskólastigi og verður  m.a. líffræðilegur fjölbreytileiki eitt af áhersluþáttum í bæði náminu og rannsóknunum. Ásamt opinberu háskólunum, Háskólasetri Vestfjarða, Matís og Hafró er Náttúruminjasafn Íslands einn af samstarfsaðilum í verkefninu”. Í undirbúningi er uppbygging á hátækni kennslu- og rannsóknahúsnæði í lagareldi við Háskólann á Hólum. „Í þessu nýja húsnæði verður miðlun rannsókna tengd sjávar- og vatnalíffræði ásamt lagareldi gerð góð skil í sérstöku sýningarrými og í því sambandi mun samstarfið við Náttúruminjasafnið vera afar verðmætt.” segir Hólmfríður.