Þingvallahefti til heiðurs dr. Pétri M. Jónassyni
Út er komið þemahefti Náttúrufræðingsins um Þingvallavatn. Heftið er gefið út til heiðurs dr. Pétri M. Jónassyni, sem verður eitt hundrað ára gamall n.k. fimmtudag, 18. júní, en Pétur hóf viðamiklar vistfræðirannsóknir á vatninu með 59 vísindamönnum frá mörgum löndum 1974 og stóðu þær fram til ársins 1992, þegar aðrir, margir hverjir nemendur og samstarfsmenn Péturs, tóku við keflinu.
Þingvallaheftið segir einmitt frá nýjustu rannsóknum á þessu stærsta náttúrulega stöðuvatni Íslands, Vatninu bjarta, eins og Hilmar J. Malmquist nefnir það í leiðara. Þar kennir ýmissa grasa enda eru rannsóknir á Þingvallavatni fjölbreyttar m.a. í atferlisfræði, efnafræði, þróunarfræði, þroskunarfræði, tegundagreiningu, hitaferlum og fæðu seiða. Þar er einnig sagt frá vísindarannsóknum Péturs M. Jónassonar, en sjálfur ritar hann grein í heftið.
Fjölbreyttar rannsóknir
Höfundar í Þingvallaheftinu eru margir: Árni Hjartarson og Snorri Zophóníasson skrifa um Öxará; Snæbjörn Pálsson, Ragnhildur Guðmundsdóttir og Bjarni K. Kristjánsson um Líf í grunnvatni í hraunalindum Íslands; Finnur Ingimarsson, Haraldur Rafn Ingvason, Þóra Hrafnsdóttir, Stefán Már Stefánsson og Kristín Harðardóttir greina frá niðurstöðum í Vöktun svifdýra í Þingvallavatni 2007–2016; Gísli Már Gíslason, Hilmar J. Malmquist og Sigurður S. Snorrason segja frá Vatnavistfræðingnum og frumkvöðlinum Pétri M. Jónassyni; Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir segir frá Hreiðurgerð og hrygningaratferli hornsíla í Þingvallavatni; Gunnar Steinn Jónsson og Kesera Anamthawat-Jónsson skrifa um Notkun rafeindasmásjár við tegundagreiningu svifþörunga í Þingvallavatni; Eydís S. Eiríksdóttir og Sigurður Reynir Gíslason um Efnabúskap Þingvallavatns; Hilmar J. Malmquist, Finnur Ingimarsson, Haraldur R. Ingvason, Stefán Már Stefánsson og Þóra Hrafnsdóttir um Hlýnun Þingvallavatns og hitaferla í vatninu; Magnús Jóhannsson og Benóný Jónsson segja frá Fæðu laxfiskaseiða í Sogi; Tryggvi Felixson segir frá baráttu Péturs M. Jónassonar og Landverndar gegn veginum yfir Lyngdalsheiði í greininni Þingvallavatn og baráttan um veginn; Skúli Skúlason og Sigurður S. Snorrason fjalla um Fjölbreytni og þróun bleikjunnar í Þingvallavatni og loks ritar Pétur M. Jónasson grein sem nefnist: Þingvallavatn og Mývatn – gróðurvinjar á flekaskilum.
Náttúrufræðingurinn í 90 ár
Með þessu hefti hefur Náttúrufræðingurinn 90. árgang sinn en heftið hefur komið samfellt út frá 1930. Heftið er 140 bls. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir.
Hér má nálgast efnisyfirlit heftisins.
Hægt er að gerast áskrifandi hér.