Öræfajökull

Öræfajökull

Horft í suðaustur yfir Víti og Öskjuvatn.
Hvannadalshnjúkur. Ljósm. Anna Soffía Óskarsdóttir.

Öræfajökull

Öræfajökull er syðsti hluti Vatnajökuls og undir jökulhettunni er eldkeila sem er jafnframt stærsta eldstöð Íslands. Öræfajökull er einnig önnur stærsta eldkeila Evrópu, en sú stærsta er Etna á Sikiley. Hvannadalshnjúkur (2.110 m), er hæsti tindur Öræfajökuls og jafnframt hæsti tindur landsins. Allmargir skriðjöklar ganga út frá Öræfajökli, þar má nefna Skaftafellsjökul, Svínafellsjökul, Kvíárjökul og Fjallsjökul.
Askja í Dyngjufjöllum í Ódáðahrauni er merkt með rauðum punkti á kortið.

Öræfajökull er merktur með rauðum punkti á kortið (kortagrunnur frá Landmælingum Íslands).

Askja í Dyngjufjöllum. Öskjuvatn fyllir yngstu öskjuna og má sjá móta fyrir hinum eldri. Suðurbotnar eru merktir með gulum punkti. (Gervitunglamynd frá NASA).

Askjan í toppi fjallsins sést vel þegar horft er á jökulinn úr lofti. (Sentinel-2 gervitunglamynd frá COPERNICUS EU).

Horft í suður yfir Öskjuvatn.

Svínafellsjökull er einn af skriðjöklum Öræfajökuls. Ljósm. Anna Soffía Óskarsdóttir.

Megineldstöð Öræfajökuls er um 20 km í þvermál og í toppi hennar er askja, um 4–5 km að þvermáli. Askjan er um 500 m djúp og ísfyllt. Eldstöðvakerfi Öræfajökuls liggur á samnefndu gosbelti, Öræfajökulsbeltinu, sem er, ásamt Esjufjöllum og Snæfelli, fyrir utan megingosbelti landsins. Öræfajökull er eitt af fáum eldstöðvakerfum á landinu sem er megineldstöð án sprungusveims. Aldur Öræfajökuls og berggrunnsins undir honum er ekki nákvæmlega þekktur, elstu berglög frá eldstöðinni eru um 800 þúsund ára gömul, en talið er að fjallið hafi hlaðist upp ofan á nokkurra milljón ára gamalli jarðskorpu.

 

Þó svo að Öræfajökull sé stærsta eldstöð landsins er hann ekki sú virkasta. Á sögulegum tíma hefur einungis gosið tvisvar sinnum í Öræfajökli, á árunum 1362 og 1727. Eldgosið árið 1362 var súrt sprengigos þar sem upp kom um 10 km3 af gjósku og er þetta gos því stærsta sprengigos á sögulegum tíma á Íslandi. Eldgosið er einnig annað stærsta sprengigosið í Evrópu á eftir gosinu í Vesúvíusi á Ítalíu árið 79.

Snemma í gosinu 1362 féllu mikil gjóskuflóð og gusthlaup. Gjóskuflóð verða þegar gosstrókur fellur og loftborin gosefni (gjóska og gös) hlaupa fram með jörðu í miklu magni. Hlaupin geta náð tugi kílómetra frá upptökum þar sem þau fylgja landslagi. Þau geta náð allt að 500 km hraða á klukkustund og htinn verið allt frá 100°C upp í 800°C.

Gusthlaup er annað form gjóskustrauma en þau geta myndast samhliða gjóskuflóðum eða ein og sér. Gusthlaup eru gasríkari og innihalda minna magn af föstum efnum og því er hegðun þeirra ólík gjóskuflóðum. Þau geta ferðast upp hæðir og hóla en ná ekki eins langt frá upptökum og flóðin. Gusthlaup geta þó náð nokkra kílómetra frá upptökum.

Brotsár eftir berghlaup í Suðurbotnum í júlí 2014.

Vesturhlið Öræfajökuls séð frá suðurströndinni.

Magn gosefna úr gosinu 1362 olli því að byggð við rætur Öræfajökuls, sem nefndist Litla-Hérað, lagðist í algjöra eyði. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær byggð hófst að nýju á svæðinu og þá undir öðru nafni, Öræfi eða Öræfasveit. Tilgátur hafa komið fram um að allt að 250 til 400 manns hafi farist í gosinu 1362 og er gosið því líklega með mannskæðustu gosum Íslands, ásamt stóru flæðigosunum í Lakagígum og ef til vill í Eldgjá.

Fjallað er um gosið 1362 í Oddverjaannál sem segir: „Eldsuppkoma í Litla-Héraði og eyddi allt héraðið. Höfðu þar áður verið 70 bæir. Lifði engin kvik kind eftir utan ein öldruð kona og kapall.“ Í þessari heimild kemur skýrt fram hve mikil manntjónið og eyðileggingin var því aðeins tvær lifandi verur lifðu af; gömul kona og hryssa.

Þar sem Öræfajökull er megineldstöð undir jökli má reina með að jökulhlaup fylgi eldgosunum. Almannavarnir meta það svo að hætta vegna jökulhlaupa frá Öræfajökli sé mikil á um 340 km2 svæði. Það tæki að lágmarki 35–40 mínútur að rýma svæðið til fulls, en framrásartími hlaupa frá jöklinum er þó mögulega ekki nema um 20–30 mínútur. Vöktun við Öræfajökul hefur verið bætt undanfarin ár, einkum eftir að skjálftavirkni jókst í eldstöðinni 2017, viðbragðsáætlanir liggja fyrir en mestu skiptir að allir fyrirboðar um gos séu greindir rétt svo unnt verði að rýma svæðið áður en gos hæfist í Öræfajökli.
Jarðlagaopna eftir flóðbylgjuna í Öskjuvatni í júlí 2014.

Öræfajökull er talinn með tignarlegri fjöllum landsins. Ljósm. Hugi Ólafsson.

Sethólar eftir flóðbylgjuna í Öskjuvatni í júlí 2014.

Algengt er að ský hylji Öræfajökul og hæstu tindana. Ljósm. Hugi Ólafsson.

Ítarefni

Almannavarnir. 2017. Öræfajökull. Sótt 27. ágúst 2020 af https://www.almannavarnir.is/forsidubox/oraefajokull/?fbclid=IwAR3ipOkQy0uP2nSEfZO6a9YmmItjNAVITdtD3wd5uCvpzs5-5FevVMOiKbQ

Ármann Höskuldsson. 2013. Gjóskustraumar. Bls. 144–146 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Viðlagatrygging Íslands, Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Ármann Höskuldsson. 2019. Öræfajökull. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 25. ágúst 2020 af http://www.islenskeldfjoll.is/?volcano=ORA#

Magnús T. Guðmundsson, Guðrún Larsen, Ármann Höskuldsson & Ágúst Gunnar Gylfason. 2008. Volcanic hazards in Iceland. Jökull 58. 251–268.

Magnús T. Guðmundsson, Þorvaldur Þórðarson, Guðrún Larsen, Páll Einarsson, Ármann Höskuldsson & Páll Imsland. 2013. Undir Vatnajökli. Bls. 263–277 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Viðlagatrygging Íslands, Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Sigurður Þórarinsson. 1958. The Öræfajökull eruption of 1362. Acta Naturalia Islandica II(2). Sótt 25. ágúst 2020 af http://utgafa.ni.is/Acta-Naturalia-Islandica/Acta-Naturalia-Islandica-II-2.pdf

Krafla

Krafla

Krafla

Megineldstöðin Krafla er staðsett norður af Mývatni og hefur hún mótað landslagið við vatnið og norður af því. Eldstöðvakerfi Kröflu er hluti af Norðurgosbeltinu og er það um 100 km langt. Hæsti tindur kerfisins nær 818 m yfir sjávarmál, kerfið inniheldur sprungusveim og í því miðju er 8-10 km víð askja. Á Kröflusvæðinu er einnig háhitasvæði sem er nýtt af jarðvarmavirkjun sem hóf starfsemi sína árið 1977.

Krafla er merkt með rauðum punkti á kortið.

Horft norðaustur yfir Mývatn í átt að Reykjahlíð og Kröflusvæðinu. Ljósm. Hugi Ólafsson.

.

Víti í Kröflu er gígur sem staðsettur er nálægt hæsta tindi Kröflusvæðisins. Ljósm. Hugi Ólafsson.

Elsta bergið frá megineldstöð Kröflu er um 300.000 ára en askjan myndaðist fyrir um 110.000 árum. Kröflusvæðið hefur verið mjög virkt á nútíma og einkennist gosvirkni þess einkum af eldgosahrinum eða „eldum“ sem hafa staðið yfir um nokkurra ára skeið í einu. Á síðustu 12.000 árum má skipta gosvirkni kerfisins í þrjú gosskeið, fyrsta skeiðinu lauk fyrir 8.000 árum, annað skeiðið var fyrir 8.000-2.800 árum síðan og þriðja skeiðið markar síðustu 2.800 árin. Minnst er vitað um eldvirkni elsta skeiðsins en eftir því sem nær dregur okkur í tíma eru meiri upplýsingar til staðar, til að mynda hafa alls sex eldar orðið á síðasta skeiðinu.
Hverfjall er staðsett austan við Mývatn og er það gjóskugígur sem myndaðist í sprengigosi úr Kröflukerfinu fyrir um 2.800 árum síðan. Við gosið hefur Mývatn líklegast náð þangað sem Hverfjall er núna og komst vatn í snertingu við basaltkviku sem olli gufusprengingum. Vegna gufusprenginga tætist kvikan og verður að gjósku sem hleðst upp í kringum gosopið.

Hverfjall er vinsælt kennileiti fyrir Mývatnssvæðið. Ljósm. Hugi Ólafsson.

Umfangsmesta nútímahraun á Mývatnssvæðinu er Laxárhraun yngra sem á uppruna sinn úr tveimur gígaröðum, Lúdentsborgum og Þrengslaborgum, sem eru staðsettar sunnan við Hverfjall. Hraunið úr gígaröðunum rann fyrir um 2.300 árum síðan og er um 220 km2 að flatarmáli. Þetta hraun rann yfir stóran hluta Mývatnssvæðisins og við það mótaðist Mývatn í núverandi mynd. Það fór niður Laxárdal og Aðaldal og náði út í sjó við Skjálfanda. Við hraunrennslið mynduðust bæði margir gervigígar við Mývatn þegar hraun rann út í og yfir vatnið, sem og Dimmuborgir.

Samtals eru gígaraðirnar Lúdentsborgir og Þrengslaborgir 12 km langar. Ljósm. Gunnar Baldursson.

Ár Atburður
1975-1984 Kröflueldar
1724-1729 Mývatnseldar
Fyrir 1.100 árum Eldar
Fyrir 2.200 árum Eldar
Fyrir 2.500 árum Eldar
Fyrir 2.800 árum Sprengigos (Hverfjall)
Fyrir 5.000 árum Basískt flæðigos og sprengigos
Fyrir 12.000-8.000 árum Dyngjugos og basísk flæðigos

Gígar Þrengslaborgar. Ljósm. Gunnar Baldursson.

Eldsumbrot sem innihalda tvö eða fleiri eldgos og vara í mánuði eða áraraðir kallast eldar. Slík umbrot urðu í Kröflu á árunum 1975-1984 og kallast Kröflueldar. Þessi eldsumbrot voru þau umfangsmestu á Íslandi á síðustu öld. Í Kröflueldum urðu alls níu basísk flæðigos með heildarrúmmál 0,25 km3 og eru ummerki sjáanleg á um 70 km löngu svæði sem nær frá Hverfjalli og út í sjó í Öxarfirði. Á sama tíma og eldsumbrotin voru að hefjast árið 1975 voru framkvæmdir að hefjast á jarðvarmavirkjun á Kröflusvæðinu. Eldarnir ollu því að framkvæmdum seinkaði þar sem mikil virkni var í gangi á því svæði sem núverandi Kröfluvirkjun er staðsett.

Jarðhitasvæðið í Námaskarði tilheyrir Kröflusvæðinu. Ljósm. Hugi Ólafsson.

Ítarefni:

Kristján Sæmundsson. 1991. Jarðfræði Kröflukerfisins. Bls. 25–95 í: Náttúra Mývatns (ritstj. Arnþór Garðarsson & Árni Einarsson). Hið íslenska náttúrufræðifélag, Reykjavík.

Kristján Sæmundsson. 2019. Krafla. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 3.6.2020 af http://www.islenskeldfjoll.is/?volcano=KRA.

Kristján Sæmundsson & Freysteinn Sigmundsson. 2013. Norðurgosbelti. Bls. 319–357 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Ólafur Jónsson. 1946. Frá Kröflu. Náttúrufræðingurinn 16. 152–157.

Páll Einarsson. 1991. Umbrotin við Kröflu 1975-89. Bls. 97–139 í: Náttúra Mývatns (ritstj. Arnþór Garðarsson & Árni Einarsson). Hið íslenska náttúrufræðifélag, Reykjavík.

Páll Imsland. 1989. Um Kröfluelda. Náttúrufræðingurinn 59. 57–58.

Snæfellsjökull

Snæfellsjökull

Snæfellsjökull

Vestast á Snæfellsnesi er Snæfellsjökull, lítill jökull, sem sést þó víða að. Undir ísbreiðunni er eldstöðSnæfellsjökull kom fyrir í frægri sögu Jules Verne, Ferðin að miðju jarðaren í henni er fjallið inngangurinn sem leiðir sögupersónurnar niður í gegnum jörðina og upp um ítalska eldfjallið StromboliÍ Bárðar sögu Snæfellsáss segir frá hollvættinum Bárði sem er af ætt bergbúa. Í enda sögunnar gengur Bárður í jökulinn og gerist verndarvættur fólksins í héraðinu.

Minnisvarði um Bárð Snæfellsás er staðsettur á Arnarstapa á Snæfellsnesi.

Eldstöðvarkerfi Snæfellsjökuls er 30 km langt og 20 km breitt. Megineldstöðin er í laginu eins og dæmigerð eldkeila og hefur byggst upp af hraunum og móbergi. Hún rís hæst 1.446 m yfir sjávarmál og er 15–20 km í þvermál. Í toppnum er 2,5 km víður gígur eða askja sem jökullinn hylur.  

Snæfellsjökull er merktur með rauðum punkti á kortið.

Snæfellsjökull. Jökulhettan, lituð ljósblá, sést vel úr lofti. (Gervitunglamynd frá NASA og USGS). 

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Austurhlið Snæfellsjökuls er sú sem flestir þekkja enda er hún sýnileg frá höfuðborgarsvæðinu á heiðskírum dögum. LjósmHugi Ólafsson 

Snæfellsjökull í góðu skyggni á júlíkvöldi. Ljósm. Hugi Ólafsson 

Elsta bergið í eldstöðvarkerfi Snæfellsjökuls er yfir 800.000 ára gamalt og er eldfjallið sjálft talið um 700.000–800.000 ára gamalt. Engin eldgos hafa átt sér stað í eldstöðvarkerfinu eftir landnám, en á nútíma (síðustu ~10.000 ár) hafa orðið 20–25 gosþar af um 20 flæðigos. Síðast gaus í Snæfellsjökli fyrir 1750 árum en þar áður fyrir tæpum 4 þúsund árum.  

 

Eins og aðrir jöklar á Íslandi hefur Snæfellsjökull hopað með hlýnandi loftslagi og nær flatarmál hans nú ekki 10 km2. Mest var útbreiðsla jökulsins á sögulegum tíma á litlu ísöld (1300–1900), en þá var jökullinn um 22 km2 að flatarmáli. Núna er jökullinn að jafnaði aðeins um 30 m þykkur og er talið að hann verði að mestu horfinn um árið 2050 ef svo heldur fram sem horfir. 

 

Eldgosið sem varð í Snæfellsjökli fyrir um 1750 árum síðan er stærsta gosið á nútíma. Gosið hófst sem sprengigos og spúði fjallið súrri ösku og vikri. Líklegt er að sprengivirknin hafi aðeins varað í nokkrar klukkustundir en í kjölfarið breyttist eldvirknin í flæðigos þar sem hraun rann frá fjallinu. Umfang og framvinda eldgosa í eldstöðinni er hins vegar ekki nægilega vel þekkt, þar sem einungis þrjú gjóskulög frá Snæfellsjökli hafa fundist og verið kortlögð. 

 

 

Þó svo að Snæfellsjökull hafi ekki gosið á sögulegum tíma útilokar það ekki eldgos í framtíðinni. Eldstöðin í jöklinum er talin virk, en skilgreiningin á virku eldfjalli er eldfjall sem hefur gosið að minnsta kosti einu sinni á síðustu 10.000 árum. Ómögulegt er að segja til um hvenær eldgos verður næst í fjallinu, en með vöktun er hægt að mæla tiltekna fyrirboða sem algengt er að eldfjöll gefi frá sér, m.a. aukna skjálftavirkni í eldstöðinni og þenslu í fjallinu af völdum kvikuhreyfinga. Í nágrenni við Snæfellsjökul er byggð sem gæti verið í hættu ef virkni eykst á svæðinu. Einnig gætu jökulhlaup valdið flóðbylgju tsunami sem gæti jafnvel haft áhrif þvert yfir Faxaflóa á höfuðborgarsvæðið.

Sunnan við Snæfellsjökul má sjá víðáttumikil hraun sem eiga uppruna sinn í eldstöðinni. LjósmHugi Ólafsson 

Sól slær silfri á voga, / sjáðu jökulinn loga. LjósmHugi Ólafsson

Ítarefni

Evans, D.J.A., Ewertowski, M., Orton, C., Harris, C. & Snævarr Guðmundsson. 2016. Snæfellsjökull volcano-centered ice cap landsystem, West Iceland. Journal of Maps 12(5). 1128–1137. DOI: 10.1080/17445647.2015.1135301.

Haukur Jóhannesson. 2019. Snæfellsjökull. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 25.5.2020 af http://www.islenskeldfjoll.is/?volcano=SNJ#.

Haukur Jóhannesson. 2013. Snæfellsnes. Bls. 367–377 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Viðlagatrygging Íslands, Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Haukur Jóhannesson, Flores, R.M. & Jón Jónsson. 1981. A short account of the Holocene tephrochronology of the Snæfellsjökull central volcano, Western Iceland. Jökull 31. 23–30. Sótt 25.5.2020 af https://timarit.is/page/6576740#page/n23/mode/2up.

Sigurður Steinþórsson. 1968. Tvær nýjar C14-aldursákvarðanir á öskulögum úr Snæfellsjökli. Náttúrufræðingurinn 37. 236–238. Sótt 25.5.2020 af https://timarit.is/page/4269706#page/n123/mode/2up.

Snerpa. 1994. Bárðar saga Snæfellsáss. Sótt 2.6.2020 af https://www.snerpa.is/net/isl/b-snae.htm.

Veðurstofa Íslands. 2019. Vetrarafkoma á Snæfellsjökli mæld í fyrsta sinn. Sótt 25.5.2020 af https://www.vedur.is/um-vi/frettir/vetrarafkoma-a-snaefellsjokli-maeld-i-fyrsta-sinn.

Hekla

Hekla

Hekla

Hekla

Hekla er eitt virkasta og þekktasta eldfjall á Íslandi. Fyrr á tímum var Hekla talin dyrnar að helvíti og jafnvel að þar væri helvíti sjálft að finna. Hekla er um 1.500 metra há megineldstöð í samnefndu eldstöðvakerfi. Megineldstöðin sjálf er um 20 km löng og 10 km breið, en eldstöðvakerfi Heklu er mun umfangsmeira og um 60 km langt.

Hekla er svokallaður eldhryggur og er auðþekkjanleg í landslaginu þar sem hún er í laginu eins og bátur á hvolfi. Hekla hefur orðið til í síendurteknum eldgosum í Heklugjá, en svo nefnist gossprungan sem liggur eftir hryggnum endilöngum.

 Íslandskort Guðbrands biskups Þorlákssonar frá árinu 1590, þar sem Hekla er teiknuð eins og dyr að helvíti. (Sótt á vef Íslandskorts).

 Íslandskort Guðbrands biskups Þorlákssonar frá árinu 1590, þar sem Hekla er teiknuð eins og dyr að helvíti. (Sótt á vef Íslandskorts). 

 Hekla í Rangárvallasýslu er merkt með rauðum punkti á kortið.

Hekla í Rangárvallasýslu er merkt með rauðum punkti á kortið (kortagrunnur frá Landmælingum Íslands). 

 Hekla. Úr lofti sést hryggjarlag fjallsins vel og liggur það með sömu stefnu og sprungur á svæðinu. (Gervitunglamynd frá NASA og USGS).

 Hekla. Úr lofti sést hryggjarlag fjallsins vel og liggur það með sömu stefnu og sprungur á svæðinu. (Gervitunglamynd frá NASA og USGS). 

Hekla séð úr Þjórsárdal. Frá þessu sjónarhorni er hún eins og bátur á hvolfi.

Hekla séð úr Þjórsárdal. Frá þessu sjónarhorni er hún eins og bátur á hvolfi. 

Eldgos í Heklu eru nokkuð tíð og eru oftast svokölluð blandgos en þá hefst gos á sprengigosi með öskufalli og endar í flæðigosi með hraunflæði. Blandgos og sprengigos koma aðallega úr megineldstöð Heklu en flæðigosin úr Heklukerfinu sem er sprungurein eldstöðvakerfisins. Efnasamsetning gosefna í Heklugosum er allt frá því að vera basísk til súr.
Í stórum, súrum sprengigosum í Heklu hefur orðið til mikið magn af gjósku sem leiddi til þess að þykk gjóskulög lögðust yfir landið með tilheyrandi gróðureyðingu. Sem dæmi má nefna að Hekla-3 gjóskan var um 12 km3 að rúmmáli og er gosið talið eitt af þeim stærstu á síðastliðnum 10.000 árum. Til samanburðar var rúmmál gjóskunnar frá Eyjafjallajökli 2010 einungis 0,27 km³.

Gossaga Heklu frá árinu 1104. Mörg eldri gos eru þekkt.

Ár Gerð eldgoss   Ár Gerð eldgoss
2000 Blandgos   1636 Blandgos
1991 Blandgos   1597 Blandgos
1980-1981 Blandgos   1554 Flæðigos*
1970 Blandgos   1510 Blandgos
1947-1948 Blandgos   1389 Blandgos
1913 Flæðigos*   1341 Blandgos
1878 Flæðigos*   1300 Blandgos
1845 Blandgos   1222 Blandgos
1766-1768 Blandgos   1206 Blandgos
1725 Flæðigos*   1158 Blandgos
1693 Blandgos   1104 Sprengigos

*Úr Heklukerfi

Jarðvegssnið þar sem sjá má fjögur algeng leiðarlög. Ljósu gjóskulögin eru Hekla-4 og Hekla-3, þau dökku og yngri eru Katla (1.150 ára gamalt) og Landnámslagið úr Bárðarbungu-Veiðivatnakerfinu (1.079 ára).

Jarðvegssnið þar sem sjá má fjögur algeng leiðarlög. Ljósu gjóskulögin eru Hekla-4 og Hekla-3, þau dökku og yngri eru Katla (1.150 ára gamalt) og Landnámslagið úr Bárðarbungu-Veiðivatnakerfinu (1.079 ára). 

Í sprengigosum framleiðir Hekla mikið af gjósku. Víða um land má finna gjóskulög frá nútíma, þ.e. frá síðustu ~10.000 árum, sem komið hafa frá Heklu og er meirihluti súrra gjóskulaga hér á landi úr Heklugosum. Gjóskulögin eru mikilvæg í gjóskulagafræði eða gjóskutímatali þar sem skilgreind eru svokölluð leiðarlög eða gjóskulög sem finnast víða um land og eru auðþekkjanleg. Dæmi um mikilvæg leiðarlög frá Heklu eru gjóskulögin Hekla-5 (7.000 ára gamalt), Hekla-4 (4.260 ára) og Hekla-3 (3.000 ára) en þessi gjóskulög finnast í jarðvegi víða um land og eru súr og því ljós að lit. Út frá leiðarlögunum eru jarðlagasnið og atburðir eins og eldgos tímasettir. Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur (1912–1983) var frumkvöðull í gjóskulagafræði og sýndi fram á mikilvægi hennar við vísindalegar rannsóknir. Í dag er gjóskulagafræði notuð í ýmsum fræðigreinum, t.d. jarðfræði, loftslagsfræði og fornleifafræði.

 Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur á Heklutindi árið 1948.

Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur á Heklutindi árið 1948. 

Aukin þekking og vöktun á virkum eldfjöllum auðveldar vísindamönnum að segja til um upphaf eldgosa með einhverjum fyrirvara. Heklugosið árið 2000 var með fyrstu gosum sem spáð var fyrir um. Ríkisútvarpið tilkynnti í fréttum kl. 18 þann 29. febrúar 2000 að Heklugos væri yfirvofandi og rúmlega fimmtán mínútum síðar hófst gosÞessi atburður leiddi í ljós hve mikilvægt það er að vakta virk eldfjöll í því skyni að koma skilaboðum fljótt áleiðis til almennings, en um það sjá Veðurstofa Íslands og Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. 

Hekla séð frá Búrfelli. Algengt er að toppurinn á Heklu sé hulin skýjum.

Hekla séð frá Búrfelli. Algengt er að toppurinn á Heklu sé hulin skýjum. 

Ítarefni

Guðrún Larsen & Jón Eiríksson 2008. Holocene tephra archives and tephrochronology in Iceland – a brief overview. Jökull 58. 229–250.

Guðrún Larsen & Sigurður Þórarinsson 1977. H4 and other acid Hekla layers. Jökull 27. 29–46.

Guðrún Larsen & Þorvaldur Þórðarson 2019. Hekla. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 1.4.2020 af http://www.islenskeldfjoll.is/?volcano=HEK#.

Morgunblaðið 2000. Viðvörun um Heklugos. Sótt 1.4.2020 af https://www.mbl.is/greinasafn/grein/521461/

Sigurður Þórarinsson 1971. Aldur ljósu gjóskulaganna úr Heklu samkvæmt leiðréttu geislakolstímatali. Náttúrufræðingurinn 41. 99–105.

Sigurður Þórarinsson 1968. Heklueldar. Prentsmiðja Jóns Helgasonar, Reykjavík.

 

Askja

Askja

Horft í suðaustur yfir Víti og Öskjuvatn.

Askja

Norðan við Vatnajökul er eldstöðin Askja sem er sigketill í miðjum Dyngjufjöllum. Öskjur í eldfjöllum draga nafn sitt af eldstöðinni Öskju, en lengi vel var hún eina þekkta askjan eða sigketillinn á Íslandi. Öskjurnar í Dyngjufjöllum eru fjórar og í þeirri yngstu má finna Öskjuvatn sem er annað dýpsta vatn landsins, 220 m djúpt.
Askja í Dyngjufjöllum í Ódáðahrauni er merkt með rauðum punkti á kortið.

Askja í Dyngjufjöllum í Ódáðahrauni er merkt með rauðum punkti á kortið (kortagrunnur frá Landmælingum Íslands).

Askja í Dyngjufjöllum. Öskjuvatn fyllir yngstu öskjuna og má sjá móta fyrir hinum eldri. Suðurbotnar eru merktir með gulum punkti. (Gervitunglamynd frá NASA).

Askja í Dyngjufjöllum. Öskjuvatn fyllir yngstu öskjuna og má sjá móta fyrir hinum eldri. Suðurbotnar eru merktir með gulum punkti. (Gervitunglamynd frá USGS og NASA).

Horft í suður yfir Öskjuvatn.

Horft í suður yfir Öskjuvatn.

Dyngjufjöll eru hluti af eldstöðvakerfi Öskju og ná allt að 1.510 metra yfir sjávarmál og rísa 700 metra yfir næsta nágrenni. Dyngjufjöll eru að mestu úr móbergi og hafa því myndast við eldgos undir jökli.

Eldstöðvakerfi Öskju er talið hafa verið virkt í a.m.k. 200.000 ár. Yfir 200 basísk hraungos hafa orðið í Öskju á síðustu 7.000 árum og 40 þeirra á síðastliðnum 1.100 árum. Einnig eru þekkt þrjú basísk tætigos. Af súrum gosum eru a.m.k. fjögur þekkt gos á síðastliðnum 11.000 árum.

 

Síðustu eldgos í Öskju

Ár Gerð eldgoss
1961 Basískt flæðigos
1921–1929 Basísk flæðigos, eldar með a.m.k. 5–6 eldgosum
1875 Basískt og súrt sprengigos

Stórt sprengigos varð í Öskju dagana 28.–29. mars 1875. Gosið átti sér nokkurn aðdraganda; vart varð við jarðskjálftahrinur frá eldstöðinni árið 1874 og einnig gufusprengingar og lítið eldgos í byrjun árs 1875. Sprengigosið er þriðja öflugasta gos sinnar tegundar sem orðið hefur á Íslandi á sögulegum tíma og þá myndaðist Öskjuvatn. Gosefnin úr sprengigosinu voru bæði basísk og súr, en það bendir til kvikublöndunar sem einnig hefur aukið kraftinn í gosinu. Mikill gosmökkur fylgdi gosinu og lagðist ljós aska og vikur yfir Austurland, frá Héraði til Berufjarðar. Á Jökuldal mældist vikurlagið allt að 20 cm þykkt. Askan frá eldgosinu barst víða og hefur fundist í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Þetta mikla öskufall olli búsifjum á Austurlandi og hafði áhrif á það hversu margir fluttu þaðan til Vesturheims.

Brotsár eftir berghlaup í Suðurbotnum í júlí 2014.

Brotsár eftir berghlaup í Suðurbotnum í júlí 2014.

Nærmynd af brotsárinu eftir berghlaupið í Suðurbotnum í júlí 2014.

Nærmynd af brotsárinu eftir berghlaupið í Suðurbotnum í júlí 2014.

Stórt berghlaup féll í júlí 2014 úr Suðurbotnum en svo nefnist fjallshlíðin suðaustan við Öskjuvatn. Berghlaupið féll í Öskjuvatn og myndaði flóðbylgju sem talin er hafa náð 20–40 metra hæð. Töluverðar breytingar urðu á landslagi í kjölfar flóðbylgjunnar. Merki um berghlaupið komu fram á jarðskjálftamælum og er það eitt stærsta berghlaup á sögulegum tíma á Íslandi, en talið er að rúmmál þess hafi verið um 20 milljónir m3.
Jarðlagaopna eftir flóðbylgjuna í Öskjuvatni í júlí 2014.

Jarðlagaopna eftir flóðbylgjuna í Öskjuvatni í júlí 2014.

Sethólar eftir flóðbylgjuna í Öskjuvatni í júlí 2014.

Sethólar eftir flóðbylgjuna í Öskjuvatni í júlí 2014.

Ítarefni

Carey, R.J., Houghton, B. & Thordarsson, T. 2010. Tephra dispersal and eruption dynamics of wet and dry phases of the 1875 eruption of Askja volcano, Iceland. Bulletin of volcanology 72. 259–278.

Jón Kristinn Helgason, Sigríður Sif Gylfadóttir, Sveinn Brynjólfsson, Harpa Grímsdóttir, Ármann Höskuldsson, Þorsteinn Sæmundsson, Ásta Rut Hjartardóttir, Freysteinn Sigmundsson & Tómas Jóhannesson 2019. Berghlaupið í Öskju 21. júlí 2014. Náttúrufræðingurinn 89. 5–21.

Kristján Sæmundsson & Freysteinn Sigmundsson 2013. Norðurgosbelti. Bls. 343–353 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Thordarson, T. & Larsen, G. 2007. Volcanism in Iceland in historical time: Volcano types, eruption styles and eruptive history. Journal of Geodynamics 43. 118–152.

Þorvaldur Þórðarson & Hartley, M. 2019. Askja. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 3.4.2020 af http://www.islenskeldfjoll.is/?volcano=ASK#.