Útbreiðsla, stofnstærð og ferðir
Rauðbrystingur er hánorrænn varpfugl og skiptist í nokkra vel aðgreinda stofna. Sá stærsti, undirtegundin Calidris canutus islandica notar „bensínstöðina Ísland“ á leið sinni milli varpstöðva á Grænlandi og íshafseyjum Kanada og vetrarstöðva í Vestur-Evrópu og Vestur-Afríku. Aðalviðkomustaðirnir eru við Faxaflóa og Breiðafjörð, en nokkuð kemur einnig við á Eyrum og sunnanverðum Reykjanesskaga, í Arnarfirði, Dýrafirði, við Húnaflóa, á NA-landi frá Skjálfanda í Vopnafjörð og á SA-landi kringum Hornafjörð. Fyrstu farfuglarnir sjást venjulega viku af apríl, en vorfarið er þó aðallega í maí. Haustfarið dreifist yfir lengri tíma og hóparnir eru þá minni, fullorðnu fuglarnir koma fyrst, frá miðjum júlí, en ungarnir seinna og dvelja sumir fram í september. Talið er að vorstofninn sé um 270.000 fuglar. Slæðingur af geldfugli dvelur hér mestallt sumarið og fáeinir fuglar dvelja í fjörum á Suðvesturlandi allan veturinn.
Þjóðtrú og sagnir
Rauðbrystingurinn skipar ekki háan sess í þjóðtrúnni, fremur en aðrir umferðarfuglar eða fargestir sem koma hér við á ferðum sínum. Áður en fólk gerði sér grein fyrir fari fugla voru ýmsar furðuskýringar á því hvað varð um þá, sérstaklega á haustin, til dæmis að þeir svæfu vetrarsvefni í holum og gjótum niðri í jörðinni með laufblað í gogginum.
Ekki má rugla rauðbrystingi saman við glóbrysting eins og henti þýðanda fyrstu bókarinnar sem kom út á íslensku um Harry Hole eftir Jo Nesbø. Á norsku heitir glóbrystingur rødstrupe, en rauðbrystingur heitir polarsnipe.