Rauðbrystingur

Rauðbrystingur

Rauðbrystingur (Calidris canutus)


Útlit og atferli

Rauðbrystingur er meðalstór, hnellinn vaðfugl með stuttan gogg, háls og fætur. Á sumrin er hann rauðbrúnn á höfði, hálsi, bringu og kviði, dökkur að ofan með móleitum dröfnum og með dökkrákóttan koll. Á haustin og veturna er hann að mestu grár með ljósari fjaðrajaðra á baki og virðist hreistraður, ljós að neðan. Ungfugl er svipaður en dekkri að ofan, með meira áberandi „hreistur“ á baki og gulbrúnan blæ á bringu. Rauðbrystingur er alltaf með gráa vængi og hvít vængbelti, ljósgráan, fínrákóttan gump og grátt stél. Kynjamunur er lítill, karlfuglinn er þó aðeins skærlitari og ívið minni en kvenfuglinn. Goggur er svartur, fætur grágrænleitir, augu dökk.

Rauðbrystingur minnir á lóuþræl en er mun stærri, hegðun svipuð en rauðbrystingur er ekki eins kvikur og flugið sterklegra. Félagslyndur fugl og oft í stórum hópum (þúsundir fugla). Flugkvakið er blísturshljóð en annars gefur hann frá sér djúpt, stutt kvak.

Fullorðinn rauðbrystingur í vorbúningi á Patreksfirði.

Ungur rauðbrystingur í Eyrarbakkafjöru.

Lífshættir

Rauðbrystingur finnst hér aðallega í fjörum og tekur þar skordýr, orma, skeldýr og krabbadýr. Sækir eitthvað í mý og mýlirfur inn til landsins.

Kjörlendi er aðallega leirur og þangfjörur með leirublettum. Sést stundum inn til landsins á túnum og ökrum á vorin. Ekki er vitað til þess að rauðbrystingur hafi orpið hér á landi.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Hópur rauðbrystinga í Flóa.

Útbreiðsla, stofnstærð og ferðir

Rauðbrystingur er hánorrænn varpfugl og skiptist í nokkra vel aðgreinda stofna. Sá stærsti, undirtegundin Calidris canutus islandica notar „bensínstöðina Ísland“ á leið sinni milli varpstöðva á Grænlandi og íshafseyjum Kanada og vetrarstöðva í Vestur-Evrópu og Vestur-Afríku. Aðalviðkomustaðirnir eru við Faxaflóa og Breiðafjörð, en nokkuð kemur einnig við á Eyrum og sunnanverðum Reykjanesskaga, í Arnarfirði, Dýrafirði, við Húnaflóa, á NA-landi frá Skjálfanda í Vopnafjörð og á SA-landi kringum Hornafjörð. Fyrstu farfuglarnir sjást venjulega viku af apríl, en vorfarið er þó aðallega í maí. Haustfarið dreifist yfir lengri tíma og hóparnir eru þá minni, fullorðnu fuglarnir koma fyrst, frá miðjum júlí, en ungarnir seinna og dvelja sumir fram í september. Talið er að vorstofninn sé um 270.000 fuglar. Slæðingur af geldfugli dvelur hér mestallt sumarið og fáeinir fuglar dvelja í fjörum á Suðvesturlandi allan veturinn.

Þjóðtrú og sagnir

Rauðbrystingurinn skipar ekki háan sess í þjóðtrúnni, fremur en aðrir umferðarfuglar eða fargestir sem koma hér við á ferðum sínum. Áður en fólk gerði sér grein fyrir fari fugla voru ýmsar furðuskýringar á því hvað varð um þá, sérstaklega á haustin, til dæmis að þeir svæfu vetrarsvefni í holum og gjótum niðri í jörðinni með laufblað í gogginum.

Ekki má rugla rauðbrystingi saman við glóbrysting eins og henti þýðanda fyrstu bókarinnar sem kom út á íslensku um Harry Hole eftir Jo Nesbø. Á norsku heitir glóbrystingur rødstrupe, en rauðbrystingur heitir polarsnipe.

Texti og ljósmyndir: Jóhann Óli Hilmarsson

Melgresi

Melgresi

Vissir þú að melgresi er öflugasta landgræðslujurtin okkar. Hún getur fest rætur í foksandi, bundið hann í melhóla og búið í haginn fyrir aðrar plöntur. Rætur melgresis eru gríðarlegar í samanburði við græna hluta plöntunnar og geta náð í vatn á 6–8 m dýpi í sandinum.

Ský

Ský

Vissir þú að vatn er í eilífri hringrás – það gufar upp af sjó og landi, myndar ský sem berast um allan heim í veðrahvolfinu og senda frá sér rigningu, slyddu eða snjókomu og hagl. Á íslensku eru til ótal orð yfir ský. Á meðal þeirra eru: gefja, gegnsær, geisli, glitský, gluggaþykkni, gráblika og gullský.

Straumvötn

Straumvötn

Vissir þú að lindár, dragár og jökulár hafa hver sín ólíku einkenni. Lindár renna jafnt allt árið, rennsli dragáa fylgir úrkomu og lofthita og jökulárnar bólgna í takt við jökulleysingu á sumrin og hlaupa sumar reglulega vegna eldsumbrota undir jökli.

Opnun nýrrar sérsýningar

Opnun nýrrar sérsýningar

Opnun nýrrar sérsýningar

Náttúruminjasafn Íslands opnar sérsýninguna Rostungurinn 14. mars n.k. í Perlunni. Vegna COVID-19 faraldursins verður ekki boðið til opnunar sýningarinnar sem er opin alla daga milli kl. 9 og 22 og stendur til 8. nóvember 2020.

Nýleg rannsókn, sem Náttúruminjasafn Íslands átti frumkvæði að og vann með Háskóla Íslands, Fornleifafræðistofunni, Ævari Petersen, Háskólanum í Kaupmannahöfn og Háskólanum í Groningen, varpar alveg nýju ljósi á tilvist rostunga til forna við Ísland. Með C-14 aldursgreiningu og erfðagreiningu á beinaleifum rostunga frá Íslandi hefur í fyrsta skipti verið staðfest að hér á landi lifði sérstakur íslenskur rostungsstofn í nokkur þúsund ár, allt fram til 800–1200 e.Kr., þegar hann leið undir lok. Á sýningunni er þessum merkilegu niðurstöðum gerð skil og fléttað saman við umfjöllun um líffræði rostunga almennt og útbreiðslu í dag, sem og við nytjar af rostungum til forna og hugsanlegum þætti þeirra í landnámi Íslands.

Sýningin er unnin í samstarfi við m.a. Bjarna F. Einarsson fornleifafræðing, Bergsvein Birgisson bókmennta- og norrænufræðing og Snæbjörn Pálsson, prófessor og stofnerfðafræðing.  Sýningarhönnun: Visionis, Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir og Ingibjörg Jara Sigurðardóttir. Grafísk hönnun: Ingi Kristján Sigurmarsson.