Straumönd

Straumönd

Straumönd (Histrionicus histrionicus)

Heimkynni straumandar eru straumharðar lindár og brimasamar strendur. Hún er smávaxin, hálsstutt og dökk kafönd með hátt enni og fleyglaga stél. Steggurinn er afar skrautlegur. Grunnliturinn er dökkblár og er hann alsettur hvítum, svartjöðruðum rákum. Síður og kollhliðar eru rauðbrúnar, vængir dökkir með lítt áberandi, stuttum, hvítum vængreitum, axlafjaðrir með hvítum langrákum. Steggur í felubúningi og ungfugl eru móskulegri en þó vottar fyrir litamynstri í þeim. Kolla er öll svarbrún, með hvíta bletti á hlustarþökum og milli augna og goggs, ljós á kviði. Goggur er stuttur, blýgrár, fætur grábláir (steggur) eða grænleitir (kolla). Augu eru brún.

Straumandarpar í iðukasti á Laxá í Mývatnssveit.
Straumandarsteggur við Laxá í Laxárdal.
Straumönd flýgur hratt með hröðum vængjatökum og veltum lágt yfir vatnsfleti. Hún flýgur sjaldan yfir land en fylgir ám og þræðir þá hverja bugðu árinnar og fer jafnvel undir brýr. Straumöndin er mjög fimur sundfugl og getur synt bæði í hörðum straumi og brimi og kafað eftir æti í hvítfyssandi iðuna. Skrautbúningur steggjanna fellur oft ágætlega inn í umhverfið, svo að erfitt getur verið að koma auga á endurnar. Straumöndin sperrir oft stélið á sundi og rykkir til höfðinu. Hún er spök og félagslynd, er utan varptíma oftast í litlum þéttum hópum. Kollan sér um útungun og uppeldi unga, meðan steggurinn fer til sjávar til að fella flugfjaðrir, oftast upp úr miðjum júní.

Steggur gefur frá sér lágt blístur en kolla hrjúft garg, er þó yfirleitt þögul.

Straumandarsteggur við Laxá í Laxárdal.
Straumönd stingur sér á kaf í iðukasti.
Straumandarpar á góðri stundu á Laxá í Mývatnssveit.

Lífshættir

Straumöndin er dýraæta. Sumarfæða hennar er fyrst og fremst bitmýslirfur og púpur, sem hún kafar eftir í straumvatni, einnig rykmýs- og vorflugulirfur. Á sjó er fæðan ýmis smádýr: þanglýs, marflær, kuðungar og skerar.

Straumönd heldur sig á sumrin við straumharðar lindár og útföll úr stöðuvötnum þar sem nóg er af bitmýi. Hreiðrið er á árbökkum eða í hólmum, vel falið milli steina eða í gróðri. Hún verpur 4–8 eggjum í dúnklætt hreiður, útungun tekur um 4 vikur og ungarnir eru lengi á ánni, þeir verða fleygir á 9–10 vikum. Utan varptímans dvelur straumöndin við brimasamar klettastrendur (brimdúfa).

Straumendur við Tunguós á Snæfellsnesi.

Straumandarkolla með hálfstálpaða unga á Laxá í Mývatnssveit.
Ungi fær salibunu með mútter á Laxá í Mývatnssveit.
Straumandarpar við Laxá í Laxárdal.

Útbreiðsla og stofnstærð

Straumöndin er staðfugl. Einu varpstöðvar hennar í Evrópu eru hér á landi en hún finnst annars austast í Síberíu, á Grænlandi og við norðanverða vestur- og austurströnd N-Ameríku. Hér finnst hún um allt land þar sem búsvæði hennar er að finna, lífríkar lindár. Oft gerir hún sér að góðu væna læki ef þar þrífst bitmý. Stöku sinnum sjást straumendur á lífríkum ám á veturna, eins og á Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu og Sogi. Varpstofninn er talinn vera 3000–5000 pör og vetrarstofninn um 14.000 fuglar.

„Brimdúfur“ við Hafnir á Suðurnesjum.

Þjóðtrú og sagnir

Líkt og á við um aðrar endur “Líkt og á við um aðrar endur kemur straumöndin ekki oft fyrir í íslenskri þjóðtrú þrátt fyrir skrautlegt yfirbragð og sérkennilega lífsháttu. Ef þú hefur þurrkað höfuð af straumandarstegg í fórum þínum á það að verja þig „öllu illu eðli og ónáttúru“. Þekkt er sagan af spurningu á prófi í barnaskóla nokkrum um miðja síðustu öld, þar sem spurt var hver væri fallegasti fuglinn. „Rétta“ svarið var straumönd og rangt var gefið fyrir önnur svör. Árið 1817 fórst áttæringur sem hét Straumönd með 12 manns innanborðs á leið frá Grímsey til lands. Nokkuð hefur verið skrifað og ort um þann atburð.

Straumönd þrautfleyg áir á,
uppheims brautum norðar.
Setin laut og sundfær á,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.söngla í skauti storðar.

Úr Hörpu eftir Stephan G. Stehansson

Texti og myndir: Jóhann Óli Hilmarsson
Vel heppnaður afmælisdagur

Vel heppnaður afmælisdagur

Það var vel mætt á eins árs afmæli sýningarinnar Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni sunnudaginn 1. desember. Ný stuttmynd frá BBC um uppruna vatnsins var sýnd í Stjörnuverinu og Sævar Helgi Bragason, Stjörnu Sævar og Vísindasmiðja Háskóla Íslands með Ara Ólafsson eðlisfræðing í farabroddi buðu gestum upp á fróðlega vatnagaldra. Áhuginn skein úr andlitum gesta og ekki vantaði viljann til að taka þátt í verklegum þáttum atriðanna sem í boði voru. Frábær og vel heppnaður dagur í alla staði.
Vatnið í náttúru Íslands eins árs!

Vatnið í náttúru Íslands eins árs!

Sýning Náttúruminjasafns Íslands, Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni verður eins árs 1. desember n.k.
Í tilefni af eins árs afmælinu verður mikið um að vera á sýningunni frá kl. 13:30 – 16:00.
Aðgangur ókeypis!

Kl. 13:30 Stjörnuver (1. hæð)
Ný stuttmynd frá BBC um hringrás vatns frumsýnd en einnig býðst gestum að sjá norðurljósamyndina sem þar er í sýningu.

Kl. 14:00 – 16:00 – Vísindasmiðja Háskóla íslands (2. hæð)
Vísindamenn frá Háskóla Íslands ásamt Sævari Helga Bragasyni, Stjörnu-Sævari sýna og kynna undraverða eiginleika vatnsins með tilraunum sem gestir fá að taka þátt

Sjáumst í Perlunni.

Morse-kóði utan á Loftskeytastöðinni

Morse-kóði utan á Loftskeytastöðinni

Morse-kóði utan á Loftskeytastöðinni

Á skrifstofuhúsnæði Náttúruminjasafnsins, gömlu Loftskeytastöðinni við Brynjólfsgötu, má sjá ljósaseríu með óhefðbundnu sniði en á þakkanti hússins hefur verið komið fyrir listaverkinu K (Með ósk um svar) eftir Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur. Verkið, sem samanstendur af ljósaperum sem stafa með Morse-kóða tegundaheiti tveggja hvalategunda af válista spendýra: Eubalaena glacialis (íslandssléttbakur) og Balaenoptera musculus (steypireyður), er hluti af sýningu listamannsins í Safnaðarheimili Neskirkju sem stendur til 23. febrúar.

Tjaldur

Tjaldur

Tjaldur (Haematopus ostralegus)


Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Einkenni margra vaðfugla eru langur goggur, langir fætur og langur háls. Þeir eru dýraætur sem eta alls konar hryggleysingja. Vaðfuglar helga sér óðal og verpa pörin stök. Hjá flestum vaðfuglum ala báðir foreldrarnir önn fyrir ungunum sem yfirleitt eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið strax og þeir eru orðnir þurrir.

Útlit og atferli

Tjaldurinn er auðgreindur á stærð og lit en hann er í hópi stærstu vaðfugla sem verpa á Íslandi. Hann er svartur um bak, höfuð og háls niður á bringu en hvítur að neðan. Á svörtum vængjunum eru hvít belti mjög áberandi. Stélið er hvítt með svörtum bekk og hvítur fleygur frá því upp á bak. Goggurinn er langur og rauðgulur, fætur bleikrauðir og sterkbyggðir. Augu eru hárauð. Á ungfugli er hvítur blettur á kverk, hann er móskulegri á lit en sá fullorðni og goggurinn er dökkur fremst.

Tjaldur við vatnið Þveit í Nesjum, Hoffellsjökull fjær.

Ungur tjaldur í Sandgerðisfjöru.

Tjaldar við Stokkseyri

Tjaldur er hávaðasamur og félagslyndur fugl. Hann er kröftugur flugfugl en vængjatökin eru ekki djúp. Hann flýgur venjulega fremur lágt. Á vorin stíga tjaldar oft á tíðum sérkennilegan dans með miklum hljóðum, stundum kallaður blístursdans og eru þátttakendur í honum gjarnan þrír fuglar. Þetta er oftast nær staðbundið par og aðkomufugl, gjarnan nágranni og er dansinn óðalsbundinn. Tjaldurinn er einn fárra vaðfugla sem matar unga sína, sem gerir það að verkum að hann getur orpið á stöðum þar sem enga fæðu er að hafa, eins og á húsþökum.

Köll tjalds er hvellt og gjallandi blíbb en annars gefur hann frá sér margvísleg hljóð.

Tjaldar á farflugi taka land í Mýrdal.

Tjaldspar fóðrar unga á ánamaðki á Seltjarnarnesi.

Tjaldur á hreiðri á Stokkseyri.

Tjaldur með unga á húsþaki í Ármúla, Reykjavík.

Tjaldur á Stokkseyri færir ungum sínum ánamaðk.

Lífshættir

Tjaldurinn grefur eftir sandmaðki í fjörunni, tekur krækling og aðra hryggleysingja og beitir löngum, sterklegum goggnum til þess arna. Inn til landsins eru ánamaðkar aðalfæðan. Hann leitar að fæðu með því að pota goggnum ótt og títt í mjúkt undirlagið.

Tjaldur verpur einkum í möl og sandi nálægt sjó en einnig við ár og vötn inn til landsins, stundum í grónu landi og oft í vegköntum, stöku sinnum á húsþökum. Eggin eru oftast þrjú, útungunartíminn er 24–27 dagar og ungarnir verða fleygir á 28–32 dögum. Hreiðrið er grunn dæld í sendinni jörð eða möl, ávallt á berangri, fóðrað innan með þurrum gróðri, smásteinum og skeljabrotum. Tjaldurinn heldur til í fjöru utan varptíma.

 

Útbreiðsla og stofnstærð

Tjaldur er að mestu farfugl. Hann var áður sjaldgæfur á Norður- og Austurlandi en hefur náð þar fótfestu á síðustu áratugum. Landnámið stendur hugsanlega enn yfir, t.d. á Ströndum, en þar fjölgaði fuglum verulega á árunum 1995 til 2007. Varpstofninn er talinn vera 10.000–20.000 pör. Meirihlutinn heldur til Bretlandseyja á haustin en um 5.000–10.000 fuglar eyða vetrinum í fjörum frá Reykjanesskaga og norður í Breiðafjörð, svo og á Suðausturlandi. Heimkynni tjalds eru annars mjög víða við strendur Evrópu og austur um meginland Asíu, austur að Kyrrahafi.

Þar sem tjaldi hefur fækkað víða, er hann nú á heimsválista sem tegund í yfirvofandi hættu (NT) og á Evrópuválista sem tegund í nokkurri hættu (VU).

 

Þreyttir tjaldar nýkomnir til landsins í Eyrarbakkafjöru.

Tjaldar á fjörusteini í Hafnarfirði.

Þjóðtrú og sagnir

Íslensk þjóðtrú geymir ekki margt um tjaldinn. Í norskri þjóðtrú er hann vorboði og spáfugl um veðurfar komandi sumars. Jafnframt sagði hann fyrir um hjónabönd og barneignir. Hann er þjóðarfugl Færeyinga og tákn um sjálfstæðisbaráttu þeirra. Þar er hann einnig vorboði og miða bæði Færeyingar og Norðmenn við komudaginn 12. mars. Hann er jafnframt vorboði víða hérlendis, þegar tjaldurinn heyrist fyrst kalla að næturlagi í lok mars er vorið í nánd.

Rauðfættur fuglinn í fjörunni,
hann kann ekki að kreppa sig í körinni,
eingan ber hann ótta fyrir örinni,
ekki heldur tekur hann á tjörunni,
svo snillilega sneiðir hann hjá snörunni.

Í hámálinu hreykir hann sér,
heyrast má þar skvaldur,
svartan kufl á baki ber
blóma dreginn faldur.
Nefið rautt við nasaker
nú er þetta tjaldur.
Þulubörnin þakki mér,
að þessu er ég valdur.,

Fuglinn í fjörunni,
hann heitir tjaldur.
Það er svo gott að verja það,
sem maður er ekki valdur.
Fuglinn í fjörunni.

Fuglinn í fjörunni,
fullur er hann með galdur.
Skjóttu’ hann ekki’ á helgum degi,
því hann heitir tjaldur –
þar sem öðlíngar fram ríða.

– Úr Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur. Jón Árnason og Ólafur Davíðsson 1887–1903.

Enginn í eyðidal

Þegar komið er í eyðidal er ekkert.
Aðeins gróður. Gróður upp í háls.

Þegar komið er í eyðidal er ekkert.
Aðeins rústir. Rústir tveggja bæja.

Þegar komið er í eyðidal er ekkert.
Aðeins ein kirkja. Kirkja með krosslausum turni.

Þegar komið er í eyðidal er ekkert.
Aðeins þú. Aðeins þú sjálf
og hundspakur tjaldur við læk.

Þegar komið er í eyðidal er ekkert.
fyrir utan tjaldinn og þig

og tvo menn uppi í kirkjuturni.
Þeir negla kross á kollóttan turninn
og fylla dalinn af höggum.

– Steinunn Sigurðardóttir

Texti og myndir: Jóhann Óli Hilmarsson