Silfurmáfur

Silfurmáfur

Silfurmáfur (Larus argentatus)


Máfar, kjóar og þernur eru af sama ættbálki og vaðfuglar og svartfuglar og teljast til strandfugla (Charadriiformes). Fuglarnir hafa sundfit, flestir máfar og kjóar eru með sterklegan gogg sem er krókboginn í endann. Þeir eru leiknir flugfuglar. Kynin eru eins útlits, en karlfuglinn er oftast heldur stærri. Máfar, kjóar og þernur verpa yfirleitt í byggðum. Máfum er oft skipt í tvo hópa til hægðarauka, stóra máfa (svartbakur, hvítmáfur, silfurmáfur o.fl.) og litla máfa (t.d. hettumáfur, rita og stormmáfur). Búningaskipti máfa, frá því að þeir skrýðast fyrsta ungfuglabúningi og uns kynþroska er náð, eru flókin og er greining ungra máfa eitt erfiðasta verkefnið sem fuglaskoðarar standa frammi fyrir. Þeir skipta að hluta um fjaðurham á fyrsta hausti. Þá fella þeir höfuð- og bolfjaðrir. Eftir það skipta þeir um fjaðrir tvisvar á ári, á haustin fella þeir allt fiður (ágúst−október), en höfuð- og bolfiður síðla vetrar (febrúar−apríl).

Fyrsta árs silfurmáfur í Þorlákshöfn.

Fullorðinn silfurmáfur í Garði.

Silfurmáfspar í Þorlákshöfn, karlinn til vinstri.

Silfurmáfur á þriðja vetri í Þorlákshöfn.

Útlit og atferli

Silfurmáfur er stærsti máfurinn með grátt bak og svarta vængbrodda. Hann er nokkru minni en hvítmáfur og eilítið stærri en sílamáfur, sterklega vaxinn með hlutfallslega stutta, breiða vængi. Fullorðinn fugl er hvítur á höfði og að neðan, en ljósgrár á baki og yfirvængjum. Vængbroddar eru svartir með hvítum dílum. Ungfuglar á fyrsta ári eru, líkt og sílamáfar á sama aldri, dekkstir ungra máfa. Þeir þekkjast frá sílamáfum á ljósara yfirbragði, ljósu svæði á innanverðum framvæng og fjaðrajaðrar á stórþökum eru ljósari. Svartur bekkur er á stéli. Á öðru ári verða bak og yfirvængir grá og kviður og bringa ljós. Á þriðja ári lýsast fuglarnir enn, en þó vottar fyrir svarta stélbandinu og þeir fá fullan skrúða á fjórða ári.

Goggur er gulur með rauðan blett á neðra skolti á fullorðnum fugli. Fætur eru ljósbleikir. Á ungfugli er goggur dökkbrúnn og fætur brúnir, hvorutveggja lýsist með aldrinum. Augu eru brún á ungfugli en ljósgul með rauðan augnhring á fullorðnum. Röddin líkist rödd hvítmáfs en tónhæð er meiri.

Fluglag og hegðun er svipuð og hjá öðrum stórum máfum. Silfurmáfur er félagslyndur og er oft í félagsskap annarra máfa.

Að ofan og niður: silfurmáfur á 2. ári, fullorðinn og á 1. ári í Þorlákshöfn.

Silfurmáfshreiður í Krossanesborgum.

Silfurmáfshjón í tilhugalífinu í Þorlákshöfn.

Silfurmáfur fæðir fullvaxta unga á Þórshöfn.

Lífshættir

Silfurmáfurinn lifir á fjölbreyttri fæðu, svo sem fiski, krabbadýrum, skeldýrum, skordýrum, hræjum og úrgangi, sem hann tekur á sjó, í fjörum eða af landi.

Hann verpur í byggðum í grasbrekkum, klettum, eyjum og jafnvel á söndum nærri sjó, stundum innan um aðra stóra máfa. Hreiðrið er allvönduð dyngja úr þurrum gróðri, sprekum og þangi. Eggin eru oftast þrjú og er álegutíminn rétt rúmar fjórar vikur. Ungarnir verða fleygir á 5–6 vikum.

Silfurmáfur hóf varp hér á landi upp úr 1930 og hefur alla tíð verið algengastur á

Austfjörðum. Hann verpur nú um land allt nema við Breiðafjörð og á Vestfjörðum en þar er veldi hvítmáfsins. Þessir tveir máfar blandast og eru kynblendingarnir frjóir. Stofninn er talinn vera 5.000–10.000 pör. Hann er á válista en er samt ófriðaður!

Silfurmáfur er að nokkru leyti farfugl en það eru aðallega ungfuglar sem fara til Bretlandseyja á veturna. Honum hefur fækkað töluvert í Evrópu og er hann nú á válista. Hér á landi benda vetrarfuglavísitölur 1985–2014 til samfelldrar fækkunar frá 1990.

Þjóðtrú og sagnir

Þar sem silfurmáfur er nýlegur landnemi, er ekkert í þjóðtrúnni tengt honum beint. En hjá nágrannaþjóðunum skipar hann stærri sess, þar sem hann hefur verið algengasti stóri máfurinn um aldir. Hann og aðrir máfar eru oft tengdir margs konar þjóðtrú um veðurfar og afla og jafnvel líf og heilsu sjómanna.

Tveggja ára silfurmáfur í Keflavík.

Texti og myndir: Jóhann Óli Hilmarsson

Spennandi sunnudagur á nýju ári

Spennandi sunnudagur á nýju ári

Hinir mánaðarlegu viðburðir á sýningu Náttúruminjasafns Íslands í Perlunni hefjast á nýju ári næstkomandi sunnudag, 5. janúar kl. 14. Að þessu sinni munu kennarar safnsins fræða gesti um hvernig hægt er að þekkja og greina steina sem við finnum úti í náttúrunni. Gestir fá verkefni til að vinna og læra þannig að greina steina á útlitinu þar sem stuðst er við einkenni eins og lögun, lit, stiklit, gljáa og hörku.

Aðgangur á viðburðinn er ókeypis. Tilvalin skemmtun og fróðleikur fyrir alla fjölskylduna.

Straumönd

Straumönd

Straumönd (Histrionicus histrionicus)

Heimkynni straumandar eru straumharðar lindár og brimasamar strendur. Hún er smávaxin, hálsstutt og dökk kafönd með hátt enni og fleyglaga stél. Steggurinn er afar skrautlegur. Grunnliturinn er dökkblár og er hann alsettur hvítum, svartjöðruðum rákum. Síður og kollhliðar eru rauðbrúnar, vængir dökkir með lítt áberandi, stuttum, hvítum vængreitum, axlafjaðrir með hvítum langrákum. Steggur í felubúningi og ungfugl eru móskulegri en þó vottar fyrir litamynstri í þeim. Kolla er öll svarbrún, með hvíta bletti á hlustarþökum og milli augna og goggs, ljós á kviði. Goggur er stuttur, blýgrár, fætur grábláir (steggur) eða grænleitir (kolla). Augu eru brún.

Straumandarpar í iðukasti á Laxá í Mývatnssveit.
Straumandarsteggur við Laxá í Laxárdal.
Straumönd flýgur hratt með hröðum vængjatökum og veltum lágt yfir vatnsfleti. Hún flýgur sjaldan yfir land en fylgir ám og þræðir þá hverja bugðu árinnar og fer jafnvel undir brýr. Straumöndin er mjög fimur sundfugl og getur synt bæði í hörðum straumi og brimi og kafað eftir æti í hvítfyssandi iðuna. Skrautbúningur steggjanna fellur oft ágætlega inn í umhverfið, svo að erfitt getur verið að koma auga á endurnar. Straumöndin sperrir oft stélið á sundi og rykkir til höfðinu. Hún er spök og félagslynd, er utan varptíma oftast í litlum þéttum hópum. Kollan sér um útungun og uppeldi unga, meðan steggurinn fer til sjávar til að fella flugfjaðrir, oftast upp úr miðjum júní.

Steggur gefur frá sér lágt blístur en kolla hrjúft garg, er þó yfirleitt þögul.

Straumandarsteggur við Laxá í Laxárdal.
Straumönd stingur sér á kaf í iðukasti.
Straumandarpar á góðri stundu á Laxá í Mývatnssveit.

Lífshættir

Straumöndin er dýraæta. Sumarfæða hennar er fyrst og fremst bitmýslirfur og púpur, sem hún kafar eftir í straumvatni, einnig rykmýs- og vorflugulirfur. Á sjó er fæðan ýmis smádýr: þanglýs, marflær, kuðungar og skerar.

Straumönd heldur sig á sumrin við straumharðar lindár og útföll úr stöðuvötnum þar sem nóg er af bitmýi. Hreiðrið er á árbökkum eða í hólmum, vel falið milli steina eða í gróðri. Hún verpur 4–8 eggjum í dúnklætt hreiður, útungun tekur um 4 vikur og ungarnir eru lengi á ánni, þeir verða fleygir á 9–10 vikum. Utan varptímans dvelur straumöndin við brimasamar klettastrendur (brimdúfa).

Straumendur við Tunguós á Snæfellsnesi.

Straumandarkolla með hálfstálpaða unga á Laxá í Mývatnssveit.
Ungi fær salibunu með mútter á Laxá í Mývatnssveit.
Straumandarpar við Laxá í Laxárdal.

Útbreiðsla og stofnstærð

Straumöndin er staðfugl. Einu varpstöðvar hennar í Evrópu eru hér á landi en hún finnst annars austast í Síberíu, á Grænlandi og við norðanverða vestur- og austurströnd N-Ameríku. Hér finnst hún um allt land þar sem búsvæði hennar er að finna, lífríkar lindár. Oft gerir hún sér að góðu væna læki ef þar þrífst bitmý. Stöku sinnum sjást straumendur á lífríkum ám á veturna, eins og á Laxá í Suður-Þingeyjarsýslu og Sogi. Varpstofninn er talinn vera 3000–5000 pör og vetrarstofninn um 14.000 fuglar.

„Brimdúfur“ við Hafnir á Suðurnesjum.

Þjóðtrú og sagnir

Líkt og á við um aðrar endur “Líkt og á við um aðrar endur kemur straumöndin ekki oft fyrir í íslenskri þjóðtrú þrátt fyrir skrautlegt yfirbragð og sérkennilega lífsháttu. Ef þú hefur þurrkað höfuð af straumandarstegg í fórum þínum á það að verja þig „öllu illu eðli og ónáttúru“. Þekkt er sagan af spurningu á prófi í barnaskóla nokkrum um miðja síðustu öld, þar sem spurt var hver væri fallegasti fuglinn. „Rétta“ svarið var straumönd og rangt var gefið fyrir önnur svör. Árið 1817 fórst áttæringur sem hét Straumönd með 12 manns innanborðs á leið frá Grímsey til lands. Nokkuð hefur verið skrifað og ort um þann atburð.

Straumönd þrautfleyg áir á,
uppheims brautum norðar.
Setin laut og sundfær á,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.söngla í skauti storðar.

Úr Hörpu eftir Stephan G. Stehansson

Texti og myndir: Jóhann Óli Hilmarsson
Vel heppnaður afmælisdagur

Vel heppnaður afmælisdagur

Það var vel mætt á eins árs afmæli sýningarinnar Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni sunnudaginn 1. desember. Ný stuttmynd frá BBC um uppruna vatnsins var sýnd í Stjörnuverinu og Sævar Helgi Bragason, Stjörnu Sævar og Vísindasmiðja Háskóla Íslands með Ara Ólafsson eðlisfræðing í farabroddi buðu gestum upp á fróðlega vatnagaldra. Áhuginn skein úr andlitum gesta og ekki vantaði viljann til að taka þátt í verklegum þáttum atriðanna sem í boði voru. Frábær og vel heppnaður dagur í alla staði.
Vatnið í náttúru Íslands eins árs!

Vatnið í náttúru Íslands eins árs!

Sýning Náttúruminjasafns Íslands, Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni verður eins árs 1. desember n.k.
Í tilefni af eins árs afmælinu verður mikið um að vera á sýningunni frá kl. 13:30 – 16:00.
Aðgangur ókeypis!

Kl. 13:30 Stjörnuver (1. hæð)
Ný stuttmynd frá BBC um hringrás vatns frumsýnd en einnig býðst gestum að sjá norðurljósamyndina sem þar er í sýningu.

Kl. 14:00 – 16:00 – Vísindasmiðja Háskóla íslands (2. hæð)
Vísindamenn frá Háskóla Íslands ásamt Sævari Helga Bragasyni, Stjörnu-Sævari sýna og kynna undraverða eiginleika vatnsins með tilraunum sem gestir fá að taka þátt

Sjáumst í Perlunni.