Fornir rostungshausar

Ábúendur í Langholti ásamt vísindamönnunum: Frá vinstri:

Ábúendur á Ytri-Görðum ásamt vísindamönnunum: Frá vinstri: Dr. Jan Heinemeier, dr. Hilmar J. Malmquist, dr.  Hreggviður Norðdahl, Svava Svandís Guðmundsdóttir, bóndi, dr. Árný Erla Sveinbjörnsdóttir og Símon Sigurmonsson bóndi.

Föstudaginn 25. september s.l. fór hópur vísindamanna frá Náttúruminjasafninu og Háskóla Íslands vestur á Snæfellsnes til að taka sýni úr hauskúpu af rostungi sem fannst Garðafjöru í lok ágúst. Í hópnum voru auk forstöðumanns Náttúruminjasafnsins, Hilmars J. Malmquists, Árný Erla Sveinbjörnsdóttir og Hreggviður Norðdahl jarðfræðingar við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og Jan Heinemeier, eðlisfræðingur frá Árósarháskóla.

 

Þó talsvert sé til af beinaleifum rostunga sem fundist hafa í jarðlögum á Íslandi, bæði smíðisgripum og náttúrulegum beinum, hafa munirnir nær ekkert verið rannsakaðir með óyggjandi hætti m.t.t. aldurs þeirra. Beinaleifar úr aðeins fimm rostungum hafa verið aldursgreindar til þessa með geislakolsaðferð (C-14), þ.e. nýverið í rannsókn Náttúruminjasafnsins og samstarfsaðila á beinum fjögurra rostunga frá Barðastöðum á Snæfellsnesi, og í rannsókn Páls Imslands jarðfræðings á rostungstönn sem fannst fyrir liðlega tíu árum í jökulurð við Hoffellssand á suðausturhorni landsins.

Samstarf um rannsóknirnar

Forsagan að ferðinni í Garðafjöru er að á árinu 2008 rak þrjá vel tennta rostungshausa og nokkrar stakar skögultennur upp í fjöru við Barðastaði í Staðarsveit. Einn hausinn rataði til Náttúruminjasafns Íslands þegar Guðmundur G. Þórarinsson færði safninu hann að gjöf. Varð það kveikjan að samstarfi Náttúruminjasafnsins við vísindamenn og –stofnanir um rannsókn á fornlíffræði rostunga hér við land. Markmiðið með rannsóknunum er að grafast fyrir um aldur og kyn dýranna, skyldleika við aðra rostungsstofna í norðanverðu Atlantshafi og ástæður þessara beinafunda á sunnanverðu Snæfellsnesi. Að rannsókninni standa auk Náttúruminjasafnsins, Líffræðistofa Háskóla Íslands, Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Fornleifafræðistofan. Með rannsóknunum er vonast til að varpa ljósi á fornvistfræði dýranna og kringumstæður í náttúru landsins til forna, sem og að skýra þátt rostunga í menningarsögulegu samhengi fyrir þjóðina fyrr á öldum. Fundurinn við Barðastaði er talinn renna stoðum undir kenningar um að rostungar hafi haft hér fasta viðveru áður fyrr og jafnvel haft látur og kæpt. Til rannsóknar eru einnig leifar um 50 annarra rostunga sem fundist hafa hér við land allt frá 1884 og varðveittar eru hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

(more…)

Flóran í Safnahúsinu

Eggert vid Florumyndina

Eggert Pétursson listmálari við mynd sína frá 1985: Flóra Íslands.

Í Safnahúsinu við Hverfisgötu getur nú að líta frummynd Eggerts Péturssonar, listmálara, af FLÓRU ÍSLANDS, sem Hið íslenska náttúrufræðifélag gaf fyrst út á veggspjaldi 1985. Veggspjaldið er nú komið út á ný, í fjórða sinn, enda fyrri útgáfur löngu uppseldar.

Myndina, sem sýnir 63 tegundir íslenskra blómplantna, málaði Eggert með vatnslitum (gvass) á árinu 1985 að beiðni stjórnar Hins íslenska náttúrufræðifélags en hann hafði áður myndskreytt bókina Íslensk flóra með litmyndum eftir Ágúst H. Bjarnason grasafræðing sem kom út árið 1983. 1989 sýndi Eggert í fyrsta sinn olíumálverk þar sem myndefnið var sótt í jurtaríkið.  Hann er nú meðal dáðustu listamanna þjóðarinnar – ekki síst fyrir einstaka túlkun á hinu smáa og fíngerða í íslenskri náttúru.

Dagur íslenskrar náttúru í Safnahúsinu: Bryndís Marteinsdóttir, stjórnarmaður HÍN, Kristín Svavarsdóttir fyrrverandi formaður HÍN, Rannveig Magnúsdóttir, í ritstjórn Náttúrufræðingsins, Kristján B. Magnússon, Crymogeu, Eggert Pétursson, listmálari og Hilmar Malmquist, forstjóri Náttúruminjasafnsins.

Dagur íslenskrar náttúru í Safnahúsinu: Bryndís Marteinsdóttir, stjórnarmaður HÍN, Kristín Svavarsdóttir fyrrverandi formaður HÍN, Rannveig Magnúsdóttir, í ritstjórn Náttúrufræðingsins, Kristján B. Magnússon, Crymogeu, Eggert Pétursson, listmálari og Hilmar Malmquist, forstjóri Náttúruminjasafnsins.

Eggert var viðstaddur þegar endurútgáfu veggspjaldsins FLÓRU ÍSLANDS var fagnað á Degi íslenskrar náttúru 16. september s.l. í Safnahúsinu við Hverfisgötu.

CRYMOGEA /FOLDA annaðist nýja prenthönnun verksins og sá um útgáfuna fyrir Náttúruminjasafnið og Hið íslenska náttúrufræðifélag.

Veggspjaldið er 70×50 sm á stærð. Það fæst í Safnabúð Safnahússins, í verslunum Eymundssonar, Bókaverslun Máls og menningar og Minju og kostar 2.990 kr.

Hægt er að panta veggspjaldið og fá það heimsent með því að senda póst á netfangið: crymogea@crymogea.is

 

Flóra Íslands á Degi íslenskrar náttúru

Margir kannast efalaust við Flóru Íslands, vatnslitamyndina sem Eggert Pétursson listmálari málaði að beiðni Hins íslenska náttúrufræðifélags og gefin var út á veggspjaldi 1985. Nú að  30 árum liðnum hefur Náttúruminjasafn Íslands haft forgöngu um að gefa veggspjaldið út í fjórða sinn, en frummyndin sem er í eigu HÍN, er í vörslu safnsins.

Flóra Íslands 70x50 cm, útgefandi CRYMOGEA / FOLDA.

Nýja veggspjaldið, Flóra Íslands er 70×50 cm að stærð, útgefandi er CRYMOGEA/FOLDA.

Veggspjaldið prýða 63 tegundir íslenskra háplantna sem lætur nærri að vera um 15% af öllum tegundum villtra háplantna sem vaxa á Íslandi. Tegundunum á myndfleti Flóru Íslands er skipt í fjóra hópa með hliðsjón af því við hvaða skilyrði þær lifa: 1) Holta- og melagróður (14 tegundir), 2) móa- og graslendisgróður (27 tegundir), 3) votlendisgróður (9 tegundir) og 4) blómlendisgróður (12 tegundir). Til hliðar við myndina eru íslensk, ensk og latnesk tegundarheiti.

Frumgerð Eggerts er nú sýnd opinberlega í fyrsta sinn á sýningunni Sjónarhorn í Safnahúsinu við Hverfisgötu og er gerð skil í sýningarskrá á bls. 67. Í tilefni af Degi íslenskrar náttúru, miðvikudaginn 16. september verður kynning á spjaldinu í Lestrarsal Safnahússins kl. 12 á hádegi. Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur í sjötta sinn og er að vinna sér fastan sess í haustdagskrá landans, eins og sjá má af því að margir viðburðir eru í boði að þessu sinni.

Veggspjaldið er til sölu í Safnabúð Safnahússins, í verslunum Eymundssonar, Bókaverslun Máls og menningar og Minju og kostar 2.990 kr. Hægt er að panta veggspjaldið og fá það heimsent með því að senda póst á netfangið: crymogea@crymogea.is

 

 

Fjársvelt höfuðsafn

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður NMSÍ

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður NMSÍ

„Fjárlagafrumvarpið veldur miklum vonbrigðum. Enn eitt árið, það níunda í röð frá því að safnið var stofnað, virðist ríkisvaldið ætla að bregðast skyldu sinni gagnvart Náttúruminjasafni Íslands. Það er þó ekki öll nótt úti enn, því umræður á Alþingi um fjárlögin eru eftir og ég vænti þess að þær breyti stöðunni.“  

 3% lækkun frá 2014

Þetta segir Hilmar J. Malmquist, forstöðurmaður Náttúruminjasafnsins en safnið fær slæma útreið í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í gær. Höfuðsafni þjóðarinnar í náttúrufræðum eru ætlaðar 25,7 m.kr. til starfseminnar á næsta ári sem er um 3% lækkun miðað reikning ársins 2014 (26,4 m.kr.). Framlög til annarra safna sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið hækka hins vegar á bilinu 9–18% miðað við ríkisreikning 2014. Þær hækkanir eru nær allar umfram launa- og verðlagshækkanir og taka flestar til þess að bæta við stöðugildum og styrkja rekstrarstöðu safnanna. Sem dæmi má taka að fjárveiting til Listasafns Íslands, sem er eitt þriggja höfuðsafna landsins, hækkar um 13% miðað við reikning ársins 2014 (206,1 m.kr.) og um 11% miðað við fjárlög 2015 (210.2 m.kr.). Framlag til þriðja höfuðsafnsins, Þjóðminjasafns Íslands sem heyrir undir forsætisráðuneytið, hækkar um 25% miðað við reikning ársins 2014 (533 m.kr.) og um 5% miðað við fjárlög 2015 (635,8 m.kr.).

Hilmar bendir á að skv. frumvarpinu sé beiðni um að styrkja starfsemi Náttúruminjasafnsins hafnað, en óskað var eftir fjölgun um eitt stöðugildi, starf sérfræðings sem m.a. ætlað að halda utan um rafræn gagnaskrármál, varðveislusamninga og útlán á safngripum. Auk forstöðumanns hefur til þessa ekki verið svigrúm nema fyrir einn starfsmann í 25% stafshlutfalli. Sá starfsmaður gegnir starfi ritstjóra tímaritsins Náttúrufræðingsins sem Náttúruminjasafnið gefur út í samstarfi við Hið íslenska náttúrufræðifélagi. Félagið greiðir helming launa ritstjórans til móts við Náttúruminjasafnið. 

Framlagið hefur rýrnað um nær helming á starfstíma safnsins

„Fjárheimildir Náttúruminjasafnsins hafa frá stofnun safnsins árið 2007 verið í skötulíki og hamlað mjög allri starfsemi,“ segir Hilmar. „Árlegt rekstrarfé síðastliðin níu ár hefur að jafnaði numið um 25 m.kr. – á verðlagi hvers árs, en á sama tíma hafa launavísitala, neysluvísitala og byggingavísiala hækkað um 4552%.  Þetta jafngildir nær helmings raunlækkun á fjárveitingum! Öllum óskum um hækkun fjárheimilda í grunnrekstrarlíkani safnsins, hvort sem er vegna nýrra stöðugilda, tækjakaupa, hækkun á húsaleigu eða þátttöku í sýningum, hefur verið hafnað.“ 

Ríkisendurskoðun hefur í tvígang, fyrst árið 2012 og aftur í maí s.l., fjallað um málefni Náttúruminjasafnsins og bent Alþingi á að fjárheimildir til höfuðsafnsins séu óásættanlegar og hindri safnið í að uppfylla lögbundar skyldur sínar.

Skýrslur Ríkisendurskoðunar eru aðgengilegar hér:

Natturuminjasafn Íslands. Skýrsla til Alþingis. Ríkisendurskoðun. 2012.

Náttúruminjasafn Íslands. Eftirfylgniskýrsla. Ríkisendurskoðun. 2015.

Nýr Náttúrufræðingur kominn út

forsida_Nfr_85_1-2_bigÚt er komið 1.–2. hefti Náttúrufræðingsins, 85. árgangs. Í heftinu, sem er 92 bls., eru tíu fræðandi greinar um náttúru landsins og fjölbreyttar rannsóknir á hinum ýmsu þáttum hennar.

Forsíðugreinin fjallar um framandi sjávarlífverur við Ísland sem margar hverjar teljast ágengar tegundir í nágrannalöndum og spurning hver þróunin verður við Ísland, m.a. hvað varðar flundru, sem fyrst fannst hér 1999 og grjótkrabba sem fyrst varð vart í Hvalfirði 2006. Höfundar eru Karl Gunnarsson, Guðrún G. Þórarinsdóttir og Óskar Sindri Gíslason.

Skúli Skúlason ritar leiðara um Verðmæti hálendisins en aðrir höfundar greina eru: Árni Kristmundsson og Ragnhildur Þ. Magnúsdóttir; Agnes-Katharina Kreiling, Matthías Alfreðsson og Erling Ólafsson; Stefán Óli Steingrímsson, Tyler Douglas Tunney og Guðmundur Smári Gunnarsson; Halldór Þormar; Guðrún Nína Petersen og Einar Sveinbjörnsson; Árni Hjartarson; Þór Jakobsson; Þorleifur Eiríksson, Böðvar Þórisson og Guðmundur Víðir Helgason.

Náttúrufræðingurinn er félagsrit Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Ritstjóri Náttúrufræðingsins er Álfheiður Ingadóttir.

Hér má fá ítarlegri upplýsingar um efni heftisins.