Snæugla

Snæugla

Snæugla (Bubo scandiacus)


Uglur eru sérstakur ættbálkur, þær eru óskyldar ránfuglum. Hér á landi er branduglan algengust; eyruglan er að nema land og breiðast út og verpur orðið reglulega á vissum stöðum. Snæuglan er þeirra sjaldgæfust. Fábreytt nagdýrafána er ástæðan fyrir þessum fáu uglum, en nagdýr er aðalfæða þeirra. 

Útlit og atferli

Afar stór, hvít ugla, með um 1,5 m vænghaf, „minnir á hálslausa álft“. Fullorðinn karlfugl er oftast snjóhvítur með fáeinum, dökkum dílum; kvenfugl og ungfugl með dökkbrúnum flikrum og þverrákum, svo mjög að ungfuglar kunna að virðast dökkir tilsýndar. Andlitið er þó alltaf hvítt. Vængir eru breiðir og rúnnaðir. Miklu stærri og með breiðari vængi en brandugla. Goggur og klær dökkgrá eða brúnsvört, fætur fiðraðir fram á klær. Augu stór og gul.

Snæugla er fremur stygg og fer oftast einförum utan varptíma. Hún er oft á ferli á daginn. Hefur sig til flugs með hægum vængjatökum, flýgur lágt og grípur stundum til renniflugs. Fuglinn er venjulega þögull, en lætur í sér heyra um varptímann.

Snæugla, kvenfugl.

Snæugla, kvenfugl/ungfugl.

Snæugla, karlfugl.

Lífshættir

Hér skortir aðalfæðu snæuglunnar, læmingja, þess vegna verður hún að gera sér að góðu að veiða fugla, aðallega rjúpu, gæsarunga og vaðfugla, einnig endur og eitthvað taka þær hagamýs.

Snæuglan verpur á hólum og öðrum mishæðum á bersvæði, þar sem vel sést yfir, hérlendis gjarnan í úfnum hraunum eða á gilbörmum. Hreiðrið er stór, grunn skál, venjulega eitthvað fóðruð með sinu, mosa og fjöðrum. Notar oft sama hreiðurstaðinn ár eftir ár. Eggin eru 3-7, klaktíminn 4-5 vikur og ungarnir verða fleygir á 6-7 vikum. Uglur byrja strax að liggja á og er útungun því ekki samstillt, eins og hjá flestum fuglum. Venjulega fara þeir ekki að liggja á fyrr en öllum eggjum hefur verið orpið og klekjast eggin því nokkurn vegin samtímis. Ungar í hreiðri geta verið mjög misþroska og bitnar það á yngstu ungunum, ef fæða er af skornum skammti.

Snæugla í ljósaskiptunum.

Snæuglukarl á músaveiðum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Snæugla er túndrufugl sem verpur á miðhálendinu og öðrum afskekktum, hálendum landshlutum. Varp var fyrst staðfest 1932, en sagnir um varp eru mun eldri. Nýlegar athuganir benda til að hún verpi eða reyni varp árlega, þó hingað til hafi hún verið talinn óreglulegur varpfugl, og stofnstærðin sé 3-5 pör. Ekki er vitað hvort varpfuglarnir séu staðfuglar, en uglur sjást á öllum tímum árs og má búast við þeim víða, þó helst á miðhálendinu og í jöðrum þess. Snæugla er alfriðuð og er óheimilt að nálgast hreiður hennar nema með leyfi Umhverfisstofnunnar.

Snæugla verpur allt í kringum Norður-Íshafið, m.a. bæði á Austur-Grænlandi og Norður-Skandinavíu. Leitar stundum langt suður fyrir hin eiginlegu heimkynni sín í Íshafslöndunum, sérstaklega í lélegum læmingjaárum. Reglulegar sveiflur eru í læmingjastofninum, sem spanna 3-5 ár. Ef til vill tengist varp hennar hér fæðunni á Grænlandi og niðursveiflu í læmingjastofninum, hún reyni frekar fyrir sér hérlendis þegar stofninn er lítill.

Þjóðtrú og sagnir

Íslensk þjóðtrú geymir lítið um snæugluna. Uglur eru tákn viskunnar og hefur sú trú teygt anga sína inní íslenskar bókmenntir og þjóðtrú.

Snæugla, líklega karlfugl, í hrjóstrugu landi á Miðhálendinu.

Snæugla, kvenfugl.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Sindraskel – nýr landnemi af ætt hnífskelja

Sindraskel – nýr landnemi af ætt hnífskelja

Sindraskel – nýr landnemi af ætt hnífskelja

Á gamlársdag 2020 fundust nokkrar dauðar hnífskeljar (Ensis sp.) í fjöru í Hvalfirði og skömmu síðar fannst lifandi samloka í fjörunni við ósa Hafnarár í mynni Borgarfjarðar. Ljóst er að hér er um nýjan landnema að ræða, en áður höfðu tvö eintök, reyndar annarrar tegundar, fundist dauð í fjöru við Lónsfjörð 1957. Í millitíðinni hefur ekkert til slíkra samloka spurst hér á landi.

Sex tegundir hnífskelja hafa fundist í norðanverðu Atlantshafi. Samlokurnar eru langar og mjóar og skelbrúnirnarhnífbeittar. Þær líkjast helst gamaldags rakhnífum og þaðan er enska heitið „razor clams“ einmitt komið. Hnífskeljar geta orðið 20 cm langar, og þykja hnossgæti.

Með erfðagreiningu hefur nú verið staðfest að nýi landneminn tilheyrir tegundinni Ensis terranovensis, sem nefnd hefur verið sindraskel, en þeirri tegund hefur nýlega verið lýst í fyrsta sinn og hefur hún aðeins fundist við Nýfundnaland til þessa.

Flutningur sjávarlífvera af mannavöldum út fyrir náttúruleg heimkynni sín og inn á ný svæði verður sífellt algengari. Oftast berast þær með kjölvatni skipa, með eldisdýrum eða áfastar skipsskrokkum. Á Líffræðiráðstefnunni sem hófst í gær, 14. október, var sagt frá fundi sindraskeljanna á Íslandi, en rannsókn á þeim er samvinnuverkefni Náttúruminjasafns Íslands, Hafrannsóknastofnunar, kanadísku stofnunarinnar Anishinabek/Ontario Fisheries Resource Centre (A/OFRC), Matís og Náttúrustofu Suðvesturlands.

Höfundarnir, Hilmar J. Malmquist, Karl Gunnarsson, Davíð Gíslason, Sindri Gíslason, Joana Micael og Sæmundur Sveinsson leiða líkur að því  að sindraskeljar hafi borist til Íslands með kjölvatni flutningaskipa frá austurströnd Norður-Ameríku, líklega fyrir 5–10 árum. Nái framandi tegundir að festa sig í sessi á nýjum slóðum geta þær í sumum tilfellum valdið skaða á lífríkinu sem fyrir er. Vöktun sindraskeljar eru því mikilvæg.

Ævisaga Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings komin út

Ævisaga Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings komin út

Sigurður Þórarinsson - Mynd af manni I-II

Náttúruminjasafnið kynnir með miklu stolti ritverk Sigrúnar Helgadóttur, ævisögu Sigurðar Þórarinssonar, eins kunnasta vísindamanns Íslendinga fyrr og síðar. Sigurður hlaut alþjóðlega athygli og ekki síst fyrir að þróa sérstaka fræðigrein, öskulagafræði. Hann gjörþekkti landið, eldgosin, jöklana og jarðlögin en líka sögu og menningu og glæddi áhuga og þekkingu þjóðarinnar á náttúru landsins og mikilvægi náttúruverndar. Sigurður var einnig vinsælt söngvaskáld og margir texta hans eru enn sungnir eins og til að mynd Vorkvöld í Reykjavík.

Höfundur bókarinnar er Sigrún Helgadóttir, kennari, líffræðingur og rithöfundur sem sérhæft hefur sig í náttúruvernd og umhverfismennt. Eftir hana liggja bækur um þjóðgarðana í Jökulsárgljúfrum og Þingvöllum auk margra fleiri rita. Náttúruminjasafnið gefur verkið út en hægt verður að kaupa það í öllum helstu bókabúðum landsins sem og í gegnum vefsíðu Pappýrs á pappyr.com.

Sigrún Helgadóttir ávarpaði gesti og sagði frá ritun ævisögunnar. 
Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, afhenti Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, eintak bókarinnar og höfundinum, Sigrúnu Helgadóttur, veglegan blómvönd. 
Sigrún og Lilja ráðherra með öskjuna góðu sem inniheldur tvö bindi ævisögu Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings: Mynd af manni. 
Það var við hæfi að halda útgáfuhófið á Háskólasvæðinu, vöggu jarðfræða á Íslandi – á Háskólatorgi, einmitt á þeim stað sem til stóð að reisa Náttúruminjasafn 1954. 

Skeiðönd

Skeiðönd

Skeiðönd (Spatula clypeata)


Útlit og atferli

Þessi sérkennilega önd, með sinn mikla gogg, er sjaldgæfasta öndin sem verpur reglulega hér á landi. Skeiðönd er buslönd og minni en stokkönd, hún er hálsstutt og fremur kubbsleg. Á steggnum skiptast á dökkir litir og hvítur, hann er með grængljáandi höfuð og háls, hvítur á bringu og teygir hvíti liturinn sig um axlafjaðrir aftur á undirgump. Hann hefur svart bak, gump og svart, ljósjaðrað stél, hvítar og svartar axlafjaðrir og rauðbrúnar síður og kvið. Í felubúningi er steggur svipaður kollu en dekkri að ofan með ljósari reiti á framvængjum. Bæði kyn eru með dökkgrænan spegil og ljósbláan reit á framvæng (vængþökum) og hvíta rák þar á milli. Kollan er svipuð öðrum buslandakollum, verður best greind á miklum goggi, ljósgulbrúnum eða bleikleitum fjaðrajöðrum og vængmynstri, sem er daufara en á steggi.

Goggur skeiðandar er langur, breiður og spaðalaga, dökkgrár á stegg en á kollu er hann gráleitur með rauðgulum skoltröndum. Fætur eru rauðgulir og augu gul eða brún. Skeiðöndin gefur frá sér lágvært kvak en er venjulega þögul.

Vegna hins stóra goggs virðist hún framþung á flugi. Hún er djúpsynd og veit goggurinn niður á sundi. Hún síar æti úr leðju með framrétt höfuð en hálfkafar einnig. Er fremur stygg. Fuglarnir eru venjulega stakir, í pörum eða litlum hópum.

Skeiðandarsteggur á Djúpavogi.

Skeiðandarpar snyrtir sig á Kálfstjörn í Mývatnssveit.

Skeiðandarkolla á flugi við Víkingavatn í Kelduhverfi.

Skeiðandarkolla á Bakkatjörn á Seltjarnarnesi.

Lífshættir

Skeiðönd hefur nokkuð aðra fæðuhætti en aðrar buslendur, notar stórgerðan gogginn til að sía fæðu á grunnu vatni eða úr leðju, hálfkafar einnig.  Fæðan er sviflæg krabbadýr, lítil skeldýr, skordýr og skordýralirfur, fræ og plöntuleifar.

Kjörlendi skeiðandar er lífríkt votlendi og seftjarnir, venjulega nærri ströndinni. Hreiðrið er í háum gróðri, oftast nærri vatni, gert úr grasi og stör og fóðrað með dúni. Urptin er venjulega 9-11 egg, álegan er um 22-23 dagar og ungarnir verða fleygir á um 6 vikum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Skeiðönd er fremur nýr varpfugl hérlendis, hún var áður þekkt sem sjaldgæfur flækingur. Hún er talin hafa orpið í Borgarfirði 1911 og næstu ár, en varp sannaðist fyrst í Aðaldal 1931. Hún verpur á fáeinum lífríkum votlendissvæðum í flestum landshlutum en er algengust á Norður- og Norðausturlandi, t.d. við Mývatn og Víkingavatn. Varpstofninn er talinn vera 50-100 pör. Skeiðendur sjást oft á strandvötnum á Suðvesturlandi á fartíma. Skeiðönd er alfriðuð og á válista sem tegund í nokkurri hættu (VU).

Skeiðönd er farfugl, vetrarstöðvar eru taldar vera á Bretlandseyjum. Heimkynni eru víða um norðurhvel, bæði austanhafs og vestan, næstum hringinn í kringum jörðina nema vantar í austanverðri Norður-Ameríku. Er hér á norðurmörkum útbreiðslu sinnar í Evrópu.

Engin þjóðtrú hefur skapast um svo nýjan og sjaldgæfan varpfugl og að sama skapi hafa skáld sniðgengið hana í verkum sínum.

Skeiðandarhreiður við Víkingavatn.

Skeiðandarpar á Djúpavogi.

Stálpaðir skeiðandarungar á Fýluvogi við Djúpavog.

Skeiðandarpar á Djúpavogi.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Leðurblökur

Leðurblökur

Leðurblökur

Í Síðdegisútvarpinu í RÚV í seinustu viku var fjallað um áhugaverðan fund leðurblöku sem fannst síðastliðinn mánudag dauð við heimili Ólöfu Ástu Skúladóttur í Hvalfirði. Bendir flest til að leðurblakan hafi verið lifandi skömmu áður en hún fannst.  

Fundur leðurblökunnar er mjög áhugaverður að mörgu leyti. Þessi fljúgandi spendýr eru mjög sjaldgæfir flækingar á Íslandi. Á síðustu tvö hundruð árum eða svo, eða síðan fyrsta heimildin um fund leðurblöku á Íslandi var færð til bókar árið 1817, eru þekkt aðeins rúmlega 40 tilfelli, eða að jafnaði um eitt dýr á fimm ára fresti. Tíðni heimsókna þessara dýra virðist hafa aukist á síðustu 10–20 árum, t.d. voru skráð 12 tilfelli á árunum 2000–2009.

Trítilblaka (Pipistrellus nathusii) er algengasti flækingur leðurblaka á Íslandi.

Ekki er vitað með vissu um ástæður fyrir fjölgun heimsókna leðurblakanna loftslagsbreytingar og hlýnun hafa verið nefndar, auk tíðari skipakoma til landsins, en flestir fundir leðurblaka hafa verið á SV-horni landsins, einkanlega um borð í vöruflutningaskipum og gámum í höfnum. Talið er að þær geti einnig borist hingað fljúgandi af eigin rammleik en margar tegundirnar eru mikil fardýr og ferðast árlega langar leiðir milli landshluta.  

Alls er um átta tegundir af leðurblökum að ræða sem fundist hafa á Íslandi (Ævar Petersen o.fl. 2014, nmsi.is). Algengastar eru trítilblaka (Pipistrellus nathusii) og hrímblaka (Lasiurus cinereus). Trítilblaka á heima á meginlandi Evrópu og hún er lítil, búkurinn tæpir 5 cm og vænghafið um 25 cm. Aðalheimkynni hrímblöku eru um miðbik Ameríku þar sem hún er mjög algeng. Hún telst stór, búkurinn er 12-15 cm og vænghafið nær 40 cm. Báðar þessar leðurblökur eru skordýraætur. 

Ekki er enn vitað hvaða tegund leðurblakan sem fannst í Hvalfirði tilheyrir og er verið að rannsaka hana. En fundur leðurblökunnar er athyglisverður í tengslum við kórónuveirufaraldurinn sem hrjáir Íslendinga og alla heimsbyggðina. Leðurblökur eru nefnilega vel þekktir hýslar fyrir óvenjumargar veirutegundir sem valda sjúkdómum í mönnum, þ.m.t. kórónuveirur. Ein flækingstegundin hér á landi (Eptesicus fuscus) er þekktur hýsill SARS-CoV veiru í N-Ameríku (Emerg Infect Dis. 2007 Sep; 13(9): 1295–1300. doi: 10.3201/eid1309.070491). Þessi tegund hefur reyndar aðeins slæðst hingað einu sinni, einstaklingur sem fannst í bananagámi sem kom frá S-Ameríku. Ekki er vitað með vissu um fleiri flækingstegundir leðurblaka hér á landi sem bera með sér kórónuveirusmit. Tegundin Myotis occultus frá N-Ameríku er einnig þekktur hýsill SARS-CoV veiru, en sú tegund hefur ekki fundist hér á landi enda þótt frænkur hennar tvær, M. lucifugus og M. septentrionalis, hafi flækst hingað lifandi með skipi. 

Vegna smithættu ber að forðast beina snertingu við leðurblökur og gera viðeigandi aðilum viðvart, Náttúrufræðistofnun Íslands eða Matvælastofnun Íslands.  

Heimildir/Ítarefni: 

Fróðleikur um fljæugandi spendýr á vef Náttúruminjasafnsins: https://nmsi.is/2014/08/ 

Dr. Hilmar J. Malmquist forstöðumaður. Lifað með veirumNáttúra kórónuveira –veirur í sýningahaldi. Erindi á „HaustVorfundi“ höfuðsafnanna. Safnahúsinu. 17. september 2020. 

Glæra nr. 9 og 10. https://nmsi.is/wp-content/uploads/2020/09/Lifad-med-veirum_Hilmar-J.-Malmquist_NMSI_17.09.2020.pdf 

Grein um flækingsleðurblökur á Íslandi og NE-Atlantshafi. o og norðanverðu  

Ævar Petersen o.fl. 2014. Acta Chiropterologica, 16(1):169-195 (2014). https://doi.org/10.3161/150811014X683381 

A Review of the Occurrence of Bats (Chiroptera) on Islands in the North East Atlantic and on North Sea Installations. Aevar Petersen, Jens-Kjeld Jensen, Paulina Jenkins, Dorete Bloch, Finnur Ingimarsson. 

Grein um leðurblökur og kórónuveirur í N-Ameríku: 

Samuel R. Dominguez, Thomas J. O’Shea, Lauren M. Oko and Kathryn V. Holmes. 2007. Detection of Group 1 Coronaviruses in Bats in North America. 

https://www.ncbi.nlm.nih.gov/pmc/articles/PMC2857301/ 

 Ævar Petersen. 1994. Leðurblökur á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 64: 3–12. 

 Ævar Petersen. 1993. Leðurblökukomur til Íslands. Bls. 347–351. Í: Villt íslensk spendýr (Páll Hersteinsson og Guðmundur Sigbjarnarson ritstjórar). Hið íslenska náttúrufræðifélag og Landvernd, Reykjavík. 

 Finnur Guðmundsson. 1957. Leðurblaka handsömuð í Selvogi. Náttúrufræðingurinn 27: 143–144.