Sanderla

Sanderla

Sanderla (Calidris alba)


Útlit og atferli

Sanderla er lítill, kvikur og ljósleitur vaðfugl. Í sumarfiðri, sem hún fær þegar vel er liðið á vorið, er sanderlan rauðbrún á höfði, hálsi og bringu, á baki eru fjaðrirnar ljós- og dökkjaðraðar. Vængþökur eru gráar, bringa og kviður hvít. Vetrarbúningurinn er mjög ljós, fuglinn er þá hvítur á höfði, hálsi og að neðan, grár á kolli og að ofan. Hvít vængbelti eru áberandi og dökkur framjaðar vængja áberandi á flugi. Gumpur og stél eru grá með hvítum jöðrum. Svartur goggur er stuttur og beinn. Fætur eru svartir og augu dökkbrún.

Sanderlan er svipuð lóuþræl í vetrarfiðri, en ljósari, ögn stærri og þreknari, með styttri gogg. Hún er mjög kvik og á sífelldu iði. Hún er félagslynd og sést hér oftast í litlum hópum. Sanderla gefur frá sér stutt og hvellt hljóð.

Sanderlur að hausti á Eyrarbakka.

Sanderla að vori á Eyrarbakka.

Lífshættir

Sanderla leitar oftast ætis með því að hlaupa til og frá í sandfjörum, elta öldusogið og tína úr því fæðuna, sem eru burstaormar, samlokur, marflær og skordýr.

Kjörlendi sanderlu er sandfjörur og leirur.

Sanderla í vorbúningi á Eyrarbakka.

Sanderlur og tildra á flugi að vori á Eyrarbakka.

Útbreiðsla, stofnstærð og ferðir

Sanderlan er svonefndur umferðarfarfugl eða fargestur hér á landi. Helstu viðkomustaðir hér eru frá Rosmhvalanesi norður eftir Faxaflóa, norður á Löngufjörur, við Breiðafjörð, eitthvað á Vestfjörðum, á Melrakkasléttu, við Djúpavog og á Eyrum. Fáeinar sanderlur sjást stundum utan fartíma. Grænlenskir fuglar, sem hafa vetursetu á Atlantshafsströnd Evrópu og Afríku allt suður til Namibíu, fara hér um vor og haust, einkum Vesturland eins og fyrr er sagt og í auknum mæli að því er virðist um Melrakkasléttu í seinni tíð. Þessi stofn var metinn um 120 þúsund fuglar milli 1990 og 2000, en nú um 200 þúsund fuglar enda hefur þeim fjölgað um 4% á ári um skeið. Hæstu tölur sem þekktar eru héðan eru 8000 fuglar, en fuglarnir stoppa stutt og er umsetning mikil. Hugsanlegt er að fuglar sem verpa í NA-Kanada fari hér eitthvað um, því sumir þeirra virðast notað A-Atlantshafsfarleiðina. Auk Grænlands og nyrstu eyja Kanada verpur sanderlan í Síberíu og lítið eitt á Svalbarða og nyrst í Alaska..

Engin þjóðtrú fylgir sanderlunni hér á landi.

Sanderla í fullum sumarskrúða á Eyrarbakka.

Ung sanderla í Sandgerði.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Duggönd

Duggönd

Duggönd (Aythya marila)


Útlit og atferli

Duggöndin er meðalstór kafönd og svipar til skúfandar. Í fjarska virðist karlfuglinn, steggurinn, dökkur að framan og aftan en ljós þess á milli. Höfuðið er svart og grængljáandi, bringan svört, síður og kviður hvít. Bak, axlafjaðrir og framvængir eru gráyrjótt, vængbelti hvít, gumpur og undirstélþökur svört, stél grábrúnt. Í felubúningi er steggur grár á síðum og móskulegur. Kvenfuglinn, kollan, er dökkbrún á höfði, hálsi, bringu, baki og axlafjöðrum, oft með gráum yrjum. Afturendinn er dökkgrár, síður gulbrúnflikróttar, kviður hvítur. Hvít vængbelti eru á dökkbrúnum yfirvæng, hvít blesa við goggrót. Á varptíma er einnig ljós blettur á hlustarþökum. Ungfugli svipar til kollu en er jafndekkri og með ljósari vanga. Bæði kyn hafa ljósa undirvængi.

Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Andasteggir skipta um bolfiður áður en þeir fella flugfjaðrir og fá þá svonefndan felubúning, sem er oft svipaður búningi kollunnar. Felubúningurinn er því eins konar sumarbúningur þeirra. Þeir skarta síðan skrúðbúningi um haustið, eftir að þeir verða fleygir að nýju.

Goggur beggja kynja er blágrár með svartri nögl, fætur einnig blágráir með dekkri fitjum. Augu fullorðinna eru skærgul en brún á ungfugli. Duggöndin gefur frá sér lágt kurr en er oftast þögul.

Duggönd er félagslynd á öllum árstímum. Hún flýgur hratt með hröðum vængjatökum, er djúpsynd og fimur kafari en þung til flugs og hleypur á vatni í flugtaki eins og aðrar kafendur. Hún er best greind frá skúfönd á stærð og hnöttóttara höfði, steggur á ljósu baki, kolla á ljósari lit og stærri og ljósari flekkjum á höfði.

Duggandarkolla með stóra dúnunga á Laxá í Mývatnssveit.

Duggandarhreiður við Reykjavíkurtjörn.

Lífshættir

Duggönd er dýraæta sem kafar til botns eftir smádýrum, t.d. mýlirfum, krabbadýrum, vatnabobbum og ertuskeljum. Lifir jafnframt nokkuð á grænþörungum og nykrum, sem og hornsílum.

Hún heldur sig við vötn og tjarnir bæði á hálendi og láglendi. Duggönd velur sér hreiðurstæði nærri vatni, stundum í dreifðum byggðum og oft innan um hettumáf og kríu. Hreiðrið er vel falið í stör, runnum og öðrum gróðri. Urptin er 7-11 egg, eggin klekjast á um 4 vikum og ungarnir verða fleygir á um 6 vikum. Á veturna er hún helst á lygnum, lífríkum vogum eða sæmilega stórum vötnum nærri sjó.

Duggandarkolla með litla dúnunga á Mývatni.

Duggandarpar á Mývatni.

Útbreiðsla, stofnstærð 

Duggönd er algengust við lífrík vötn á Norður-, Norðaustur- og Austurlandi, líka allalgeng sums staðar í miðhálendinu, en sjaldgæfust á Vestfjörðum. Stór hluti hans stofnsins er við Mývatn og sáust þar lengi um 2.000 steggir að vori og var hún þar algengust anda. Duggönd hefur fækkað mikið á Mývatni á síðustu árum og steggirnir aðeins verið 400−1.000 frá árinu 2010. Á móti hefur skúfönd fjölgað mikið á Mývatni og er þar nú algengasta öndin. Duggönd hefur fækkað á vetrarstöðvum í Evrópu og er þar á válista sem tegund í nokkurri hættu (VU), en á íslenska válistanum er hún talin í hættu (EN). Stofninn gæti verið að hámarki 3000 varppör. Vetrarstöðvarnar íslenskra fugla eru einkum með ströndum Írlands, Bretlands og Hollands, sem og víðar með ströndum meginlands Evrópu. Nokkur hundruð vetursetufugla halda til á Suðvesturlandi og jafnframt er hópur í Berufirði. Varpstöðvar eru á túndrubeltinu á norðurhveli jarðar.

Þjóðtrú og sagnir

Líkt og um flestar aðrar endur, fjallar íslensk þjóðtrú ekki mikið um duggöndina. Víða eru endur taldar veðurvitar og jafnvel að þær finni á sér eldsumbrot eða jarðhræringar. Þessu tóku menn eftir hjá Mývatnsöndum í Kröflueldum 1975-84.

Duggandarsteggir á flugi við Mývatn.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Evrópsku safnaverðlaunin 2022.

Evrópsku safnaverðlaunin 2022.

Evrópsku safnaverðlaunin 2022

Covid heimsfaraldurinn hefur sett mark sitt á safnastarf alls staðar í heiminum og víða hafa söfn þurft að loka tímabundið. Evrópsku safnaverðlaunin, EMYA (European Museum of the Year Awards), hafa ekki farið varhluta af faraldrinum og verðaunaafhendingum frestað og breytt í streymisviðburð á netinu. Nú hillir undir betri tíð þar sem faraldurinn er í rénun og í vikunni heimsótti Christophe Dufour, einn af dómnefndarmönnum verðlaunanna, Náttúruminjasafnið og sýningu þess, Vatnið í Náttúru Íslands.  Sýning Náttúruminjasafnsins er meðal nær 50 keppenda um Evrópsku safnaverðalunin í ár og munu úrslit verða kunngerð í byrjun árs 2022.

Christophe Dufour, dómnefndarmaður EMYA verðlaunanna ásamt starfsfólki Náttúruminjasafns Íslands, Álfheiði Ingadóttur, Önnu Katrínu Guðmundsdóttur og Hilmari Malmquist, forstöðumanni safnsins.

Áhugasamir ungir gestir sýninarinnar, Vatnið í náttúru Íslands fræðast um bleikjuafbrigðin í Þingvallavatni.

Náttúrufræðingurinn kominn út!

Náttúrufræðingurinn kominn út!


Út er komið 1.–2. hefti Náttúrufræðingsins, 91. árgangs. Í heftinu er m.a. sagt frá fari þorsks við Íslandsstrendur og hvaða upplýsingar merkingar í hundrað ár hafa veitt um göngur, atferli og stofngerð íslenska þorsksins. Áfram er fjallað um ferðir yfir Vatnajökul fyrr og nú, sagt frá súlum sem leita á fornar varpslóðir á Hornströndum og lúsflugunni snípuluddu sem leggst á fiðurfé. Loks er fjallað um fuglakóleru sem drap æðarfugl í varpi á Hrauni á Skaga 2018 og 2019, um Gilsárskriðuna í Eyjafirði 2020 og grænþörunginn Ulothrix í ferskvatni á Íslandi.

Heftið er 92 bls. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir, líffræðingur.

Heimakærir þorskar

Þorskur er mikilvægasta tegund botnfiska á Íslandsmiðum. Mestur varð þorskaflinn 1954, tæp 550 þúsund tonn, en hefur verið um 260 þúsund tonn á síðustu árum. Þorskar eru merktir til að greina far, atferli og stofngerð en fyrsti þorskurinn var merktur hér við land 1904. Endurheimt merki sýna m.a. að eftir hrygningu við suðurströndina leitar þorskur aðallega á fæðusvæði norðvestur og austur af landinu og ennfremur að greina má þorskstofninn í tvær atferlisgerðir, grunnfarsþorska  sem halda sig á minna en 200 m dýpi allt árið, og djúpfarsþorska sem halda sig í hitskilum á fæðutíma. Þorskurinn sýnir tryggð við hrygningarsvæðin og þó egg og lirfur berist með straumum frá Íslandi til Grænlands leitar þorskurinn aftur til Íslands til að hrygna þegar kynþroska er náð. Höfundar greinarinnar eru Ingibjörg G. Jónsdóttir, Jón Sólmundsson, Einar Hjörleifsson, Magnús Thorlacius og Hjalti Karlsson.

Súlur sækja á gömul mið

Súlur verpa nú á níu stöðum við Ísland, aðallega við sunnan- og vestanvert landið. Vitað er um fimm aðra staði þar sem súlur hafa orpið en þau vörp eru nú horfin. Talið er að súlur hafi ekki orpið á Hornströndum í tvær aldir en sumarið 2016 sást súla á hreiðri á Langakambi undir Hælavíkurbjargi. Fylgst hefur verið með tilraunum súlna til varps á þessum fornu varpstöðvum frá 2016 og á hverju ári hefur fundist stakur hreiðurhraukur á sama stað. Við athugun á eldri ljósmyndum kom í ljós að súlur höfðu byggt sér hreiður á Langakambi 2014. Því er ljóst að súlur hafa lengi verið að huga að mögulegu varpi á þessum slóðum. Höfundar eru Ævar Petersen, Christian Gallo og Yann Kolbeinsson.

Súla á hreiðri á Langakambi undir Hælavíkurbjargi 2016. Ljósm: Klaus Kiesewetter. 

Yfir þveran Vatnajökul

Hjörleifur Guttormsson hefur ritað þrjár greinar í Náttúrufræðinginn um ferðir yfir Vatnajökul allt frá því land byggðist og fram undir okkar daga. Þriðja og síðasta greinin nefnist Vatnajökull og grennd í tímans rás – Endurvakin kynni en breytt erindi. Hér er fjallað um ástæður þess að ferðir yfir Vatnajökul lögðust af og að hálendið varð flestum lokuð bók í hátt í tvær aldir. Síðla á 18. öld beindust sjónir manna hins vegar á ný að hálendisleiðum, þar á meðal fram með Vatnajökli norðan- og austanverðum. Sérstaklega er fjallað um Grímsvötn fyrr og síðar, en þau eru að líkindum nafngjafi Vatnajökuls.

Kortið sýnir helstu ferðir útlendinga um og yfir Vatnajökul 1875–1956. Uppdráttur: Guðmundur Ó. Ingvarsson.

Fuglakólera í æðarvarpi

Fuglakólera leiddi til fjöldadauða í æðarvarpi á Hrauni á Skaga 2018 og 2019 og var það í fyrsta sinn sem veikin greindist hér á landi. Fuglakólera er bakteríusýking – alls óskyld þeirri sem veldur kóleru í mönnum ­– og er sjúkdómurinn einn af þeim skæðustu sem herjar á villta fugla. Oftast drepst allt að 30% fugla í varpi skyndilega án sýnilegra ytri einkenna og hefur pestin valdið dauðsföllum í æðarvörpum í N-Ameríku síðan um 1960 og í Evrópu síðan 1991. Oftast gengur sjúkdómurinn yfir á nokkrum árum.Þekktar mótvægisaðgerðir eru fáar en brýnast er að hindra að sýktir fuglar beri sjúkdóminn víðar. Höfundur greinarinnar er Jón Einar Jónsson.

Dauðar æðarkollur í varpi á Hrauni á Skaga vorið 2018. Ljósm. Merete Rabelle.

Snípuludda og farþegar hennar

Fiðurmítlar og naglýs eru algeng sníkjudýr á fuglum. Lífsferill þeirra er einfaldur og tíðast að smitleiðin sé á milli fugla sömu tegundar, en lúsflugur geta líka komið við sögu sem smitferjur. Svavar Ö. Guðmundsson, Karl Skírnisson og Ólafur K. Nielsen leituðu svara við því hvaða sníkjudýr nýta sér lúsflugur til dreifingar milli fugla á Íslandi. Niðurstöðurnar sýna að ein lúsflugutegund, snípuludda, er landlæg hér og er lífsferli hennar lýst. Flugunni var safnað á 13 fuglategundum og á henni fundust þrjár tegundir fiðurmítla. Engin tilvik fundust um að naglýs festu sig við snípuluddu.

Lúsmýið snípuludda – kvenfluga með nær fullþroska lirfu innvortis. Ljósm. Svavar Ö. Guðmundsson. 

Auk framangreinds er í 1.–2. hefti Náttúrufræðingsins sagt frá sífrera í Gilsárskriðunni sem féll í Eyjafirði 6. október 2020 – höfundur er Skafti Brynjólfsson; grænþörungnum ullþræði Ulothrix í ferskvatni á Íslandi – höfundur er Helgi Hallgrímsson; ennfremur leiðara sem Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor ritar um Þjóðargersemi á miðhálendi Íslands, eftirmæli um Jakob Jakobsson, fiskifræðing sem lést í október 2020 og ritdóm um stórvirki Örnólfs Thorlacius, Dýraríkið, sem út kom að honum látnum á síðasta ári. Þá er í heftinu skýrsla stjórnar HÍN fyrir árið 2020 og reikningar félagsins fyrir sama ár.

Skriðan féll úr um 850 m hæð niður í Gilsá í Eyjafirði um tveggja km leið. Hún var um 150–200 metrar þar sem hún var breiðust og stöðvaðist rétt ofan við bæjarhúsin á Gilsá. Ljósm. Skafti Brynjólfsson. 
Dagur hinna villtu blóma

Dagur hinna villtu blóma

Plöntuleit og greining í Öskjuhlíðinni

Náttúruminjasafn Íslands tekur þátt í samnorrænum viðburði, Degi hinna villtu blóma, sunnudaginn 20. júní frá kl. 14 til 16. Gengið verður um Öskjuhlíðina, leitað að plöntum og þær greindar en einnig brugðið á leik og leitað að nokkrum algengum plöntutegunum. Gestum verður jafnframt boðið að skoða sýningu safnsins, Vatnið í náttúru Íslands.

Þátttaka er ókeypis, mæting í andyri Perlunnar er kl. 14.

Tilgangur dagsins er að stuðla að áhuga almennings á íslensku flórunni. Gróður í Öskjuhlíðinni hefur tekið miklum breytingum á síðustu áratugum. Stór svæði hafa verið tekin undir skógrækt en enn má finna staði sem gefa vísbendingu um fyrra gróðurfar.