Súla

Súla

Súla (Morus bassanus)


Súlan telst til súluættar og var lengi talin til árfætla eða pelíkanfugla (Pelicaniformes), þeir draga nafn sitt af því að fuglarnir hafa sundfit milli allra fjögurra tánna (auk súlu tilheyra díla- og toppskarfur ættbálknum hér á landi). En með nútíma DNA tækni hefur allri flokkunarfræði verið umbylt. Höfundur treystir sér ekki til að fara nánar útí þá sálma hér.

Útlit og atferli

Súla er stór, ljós og rennilegur sjófugl. Fullorðin súla er nær alhvít, með gulleitan haus, sem lýsist á veturna, og svarta vængenda. Vængir eru langir, oddmjóir og stélið fleyglaga. Kynin eru eins. Ungfugl er margbreytilegur að lit en þó alltaf auðþekktur á stærð, lögun og hegðun frá öðrum sjófuglum. Nýfleygir ungar eru aldökkir með ljósum dílum, en lýsast smám saman þangað til þeir skrýðast fullorðinsbúningi fjögurra ára gamlir. Þeir byrja að lýsast að neðan, svo á höfði, hálsi og bringu, síðan á vængjum og síðast armflugfjöðrum og stéli.

Goggur er súlunnar er langur, oddhvass og blágrár að lit. Fætur grásvartir með ljósgrænum langröndum. Augu ljósblágrá með kóbaltbláum augnhring. Fiðurlaus húð er umhverfis augu að goggi.

Súlan er oft nefnd drottning Atlantshafsins vegna þess hve tíguleg hún er. Er venjulega félagslynd og flýgur oft í litlum hópum lágt yfir haffleti. Flugið er kraftmikið með djúpum vængjatökum, brotið upp af svifflugi með lítið eitt aftursveigðum vængjum. Er fremur létt á sundi.

Gefur frá sér rám, geltandi hljóð á varpstöðvum.

Súluhreiður í Skrúðnum.

Súluvarpið í Karli við Skoruvíkurbjarg.

Súlur á flugi við Garð á Rosmhvalanesi, nokkrir fuglar eru í ungfuglabúningi.

Tveggja ára súla við Skoruvíkurbjarg.

Lífshættir

Súlukast er það kallað þegar súlan stingur sér eftir æti með aðfelldum vængjum, lóðrétt úr allt að 40 m hæð, en einnig á ská úr minni hæð á grunnu vatni.  Fæðan er fiskur, eins og síld, loðna, makríll, þorskfiskar, sandsíli o.fl., jafnvel úrgangur frá fiskiskipum.

Súlan er úthafsfugl, sem verpur í þéttum byggðum á sæbröttum eyjum, stöpum eða í björgum. Gerir stóran hreiðurhrauk úr þangi, þara og ýmsu drasli, notar drit og leir til að líma hreiðurefnin saman.

 

Útbreiðsla og stofnstærð

Varpheimkynni súlunnar, auk Íslands, er beggja vegna Atlantsála: í Kanada, Færeyjum, á Bretlandseyjum, stærstu vörpin eru í Skotlandi, í Noregi, Þýskalandi og Frakklandi. Hún er nýfarin að verpa á Kólaskaga í Rússlandi og á Bjarnarey. Vel hefur verið fylgst með súlustofninum á varpstöðvum hennar.  Talningar hafa farið fram í öllum íslenskum byggðum á 5−10 ára fresti frá 1977. Sumar byggðir hafa verið vaktaðar allt frá árinu 1913. Stofninn telur nú um 37.000 pör og hefur vaxið stöðugt um langt skeið, um tæp 2% á ári. Vörpin eru aðeins fimm, ef vörpin í Eyjum eru talin sem eitt. Eldey var löngum langstærsta byggðin en nú hafa vörpin í Vestmannaeyjum náð henni. Alls verpa á þessum tveimur svæðum um sunnanvert landið um 30.000 pör. Hinar þrjár byggðirnar eru á austanverðu landinu: í Skrúði (rúmlega 6.000 pör), Skoruvík á Langanesi (656 pör) og Rauðanúpi á Melrakkasléttu (655 pör). Súlan er eini íslenski sjófuglinn sem ræður við makrílinn og gæti landnám hans, illu heilli, á íslensku hafsvæði, ýtt undir fjölgun hennar.

Súlan er talin farfugl en hún hverfur aðeins frá landinu í stuttan tíma, frá október til desember. Vetrarstöðvar eru í Norður-Atlantshafi. Íslenskar súlur hafa fundist á Grænlandi og með ströndum Vestur-Evrópu suður til Vestur-Afríku.

Súla að lenda í Skoruvíkurbjargi.

Ársgömul súla við Skoruvíkurbjarg.

Súla stingur sér í Kolgrafarfirði.

Súla undirbýr stungu í Kolgrafarfirði.

Þjóðtrú og sagnir

Íslensk þjóðtrú geymir ekki mikið um súluna. Hún var talin boða góðan afla, eins og margir aðrir sjófuglar.

Hægt er að fylgjast með lífi súlunnar í varpi í beinu streymi á vefnum eldey.is.

Hrafnar flugu úr huga okkar frjálsir
Súlur svömluðu
með rótfestu okkar alsetta verndarorðum

Súlur og hrafnar:
Boginn og örvarnar
Tréð og söngur fuglanna
Staðfestan og hugarflugið

úr Ljóðnámuland eftir Sigurð Pálsson

Þar er hafsúla og már,
þar er haftyrðill smár,
þar eru hrafnar, lundar og skarfar.
Þar er æður og örn
þar sín ótalmörg börn
elur svartfugl og skegglurnar þarfar.

Úr Skrúðsbóndanum eftir Ólaf Indriðason

Súlukast í Kolgrafarfirði.

Súla í Skrúðnum.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Ætihvönn til matar, litunar og heilsubótar.  Sumardagskrá í Alviðru.

Ætihvönn til matar, litunar og heilsubótar. Sumardagskrá í Alviðru.

Ætihvönn til matar, litunar og heilsubótar

- sumardagskrá í Alviðru -

Alviðra fræðslusetur Landverndar stendur í sumar fyrir metnaðarfullri og áhugaverðri sumardagskrá fyrir gesti og gangandi. Náttúruminjasafn Íslands skipuleggur þrjá viðburði í sumar. Laugardaginn 14. ágúst milli kl. 14 og 16 mun Eva Þorvaldsdóttir, líffræðingur hjá Náttúruminjasafninu fjalla um og sýna hvernig nota má ætihvönn til matar, litunar og heilsubótar.
 
Ætihvönnin (Angelica archangelica) var áður fyrr mikilvæg matjurt á Íslandi. Hún vex víða í landi Alviðru og þar verða laufblöð og stönglar skornir auk þess sem grafnar verða upp rætur.
 
Ætihvönn er stórvaxin jurt sem getur orðið allt að tveggja metra há. Smágerð blómin standa tuttugu til fimmtíu saman í smásveipum sem eru 1,5–2,5 sm í þvermál og skipa sér saman í kúpta eða hálfkúlulaga stórsveipi ofan á sterklegum og gáruðum stöngli með víðu miðholi.
Ætihvönn vex einkum við vatnsmiklar lindir á hálendinu, meðfram lindalækjum og ám en einnig í áburðaríku gróðurlendi. Hún er nokkuð dreifð um allt land en þolir illa stöðuga beit, sem kann að vera skýringin á því að hana vantar á stórum svæðum og eins hversu oft hún finnst í torfærum klettum og hólmum. Hún hefur lengi verið nýtt á margvíslegan hátt, m.a. til matar, lækninga og litunar og hefur verið áberandi í flóru Íslands þegar landið var numið, en um það vitna örnefni á borð við Hvanndalir, Hvanngil, Hvannalindir og Hvanndalabjörg.
 
Viðburðurinn hefst kl. 14 n.k. laugardag í Alviðru og er aðgangur ókeypis og allir hjartanlega velkomnir!
Alviðra er í Ölfusi undir Ingólfsfjalli, gegnt Þrastalundi.
 
 

Sanderla

Sanderla

Sanderla (Calidris alba)


Útlit og atferli

Sanderla er lítill, kvikur og ljósleitur vaðfugl. Í sumarfiðri, sem hún fær þegar vel er liðið á vorið, er sanderlan rauðbrún á höfði, hálsi og bringu, á baki eru fjaðrirnar ljós- og dökkjaðraðar. Vængþökur eru gráar, bringa og kviður hvít. Vetrarbúningurinn er mjög ljós, fuglinn er þá hvítur á höfði, hálsi og að neðan, grár á kolli og að ofan. Hvít vængbelti eru áberandi og dökkur framjaðar vængja áberandi á flugi. Gumpur og stél eru grá með hvítum jöðrum. Svartur goggur er stuttur og beinn. Fætur eru svartir og augu dökkbrún.

Sanderlan er svipuð lóuþræl í vetrarfiðri, en ljósari, ögn stærri og þreknari, með styttri gogg. Hún er mjög kvik og á sífelldu iði. Hún er félagslynd og sést hér oftast í litlum hópum. Sanderla gefur frá sér stutt og hvellt hljóð.

Sanderlur að hausti á Eyrarbakka.

Sanderla að vori á Eyrarbakka.

Lífshættir

Sanderla leitar oftast ætis með því að hlaupa til og frá í sandfjörum, elta öldusogið og tína úr því fæðuna, sem eru burstaormar, samlokur, marflær og skordýr.

Kjörlendi sanderlu er sandfjörur og leirur.

Sanderla í vorbúningi á Eyrarbakka.

Sanderlur og tildra á flugi að vori á Eyrarbakka.

Útbreiðsla, stofnstærð og ferðir

Sanderlan er svonefndur umferðarfarfugl eða fargestur hér á landi. Helstu viðkomustaðir hér eru frá Rosmhvalanesi norður eftir Faxaflóa, norður á Löngufjörur, við Breiðafjörð, eitthvað á Vestfjörðum, á Melrakkasléttu, við Djúpavog og á Eyrum. Fáeinar sanderlur sjást stundum utan fartíma. Grænlenskir fuglar, sem hafa vetursetu á Atlantshafsströnd Evrópu og Afríku allt suður til Namibíu, fara hér um vor og haust, einkum Vesturland eins og fyrr er sagt og í auknum mæli að því er virðist um Melrakkasléttu í seinni tíð. Þessi stofn var metinn um 120 þúsund fuglar milli 1990 og 2000, en nú um 200 þúsund fuglar enda hefur þeim fjölgað um 4% á ári um skeið. Hæstu tölur sem þekktar eru héðan eru 8000 fuglar, en fuglarnir stoppa stutt og er umsetning mikil. Hugsanlegt er að fuglar sem verpa í NA-Kanada fari hér eitthvað um, því sumir þeirra virðast notað A-Atlantshafsfarleiðina. Auk Grænlands og nyrstu eyja Kanada verpur sanderlan í Síberíu og lítið eitt á Svalbarða og nyrst í Alaska..

Engin þjóðtrú fylgir sanderlunni hér á landi.

Sanderla í fullum sumarskrúða á Eyrarbakka.

Ung sanderla í Sandgerði.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Duggönd

Duggönd

Duggönd (Aythya marila)


Útlit og atferli

Duggöndin er meðalstór kafönd og svipar til skúfandar. Í fjarska virðist karlfuglinn, steggurinn, dökkur að framan og aftan en ljós þess á milli. Höfuðið er svart og grængljáandi, bringan svört, síður og kviður hvít. Bak, axlafjaðrir og framvængir eru gráyrjótt, vængbelti hvít, gumpur og undirstélþökur svört, stél grábrúnt. Í felubúningi er steggur grár á síðum og móskulegur. Kvenfuglinn, kollan, er dökkbrún á höfði, hálsi, bringu, baki og axlafjöðrum, oft með gráum yrjum. Afturendinn er dökkgrár, síður gulbrúnflikróttar, kviður hvítur. Hvít vængbelti eru á dökkbrúnum yfirvæng, hvít blesa við goggrót. Á varptíma er einnig ljós blettur á hlustarþökum. Ungfugli svipar til kollu en er jafndekkri og með ljósari vanga. Bæði kyn hafa ljósa undirvængi.

Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Andasteggir skipta um bolfiður áður en þeir fella flugfjaðrir og fá þá svonefndan felubúning, sem er oft svipaður búningi kollunnar. Felubúningurinn er því eins konar sumarbúningur þeirra. Þeir skarta síðan skrúðbúningi um haustið, eftir að þeir verða fleygir að nýju.

Goggur beggja kynja er blágrár með svartri nögl, fætur einnig blágráir með dekkri fitjum. Augu fullorðinna eru skærgul en brún á ungfugli. Duggöndin gefur frá sér lágt kurr en er oftast þögul.

Duggönd er félagslynd á öllum árstímum. Hún flýgur hratt með hröðum vængjatökum, er djúpsynd og fimur kafari en þung til flugs og hleypur á vatni í flugtaki eins og aðrar kafendur. Hún er best greind frá skúfönd á stærð og hnöttóttara höfði, steggur á ljósu baki, kolla á ljósari lit og stærri og ljósari flekkjum á höfði.

Duggandarkolla með stóra dúnunga á Laxá í Mývatnssveit.

Duggandarhreiður við Reykjavíkurtjörn.

Lífshættir

Duggönd er dýraæta sem kafar til botns eftir smádýrum, t.d. mýlirfum, krabbadýrum, vatnabobbum og ertuskeljum. Lifir jafnframt nokkuð á grænþörungum og nykrum, sem og hornsílum.

Hún heldur sig við vötn og tjarnir bæði á hálendi og láglendi. Duggönd velur sér hreiðurstæði nærri vatni, stundum í dreifðum byggðum og oft innan um hettumáf og kríu. Hreiðrið er vel falið í stör, runnum og öðrum gróðri. Urptin er 7-11 egg, eggin klekjast á um 4 vikum og ungarnir verða fleygir á um 6 vikum. Á veturna er hún helst á lygnum, lífríkum vogum eða sæmilega stórum vötnum nærri sjó.

Duggandarkolla með litla dúnunga á Mývatni.

Duggandarpar á Mývatni.

Útbreiðsla, stofnstærð 

Duggönd er algengust við lífrík vötn á Norður-, Norðaustur- og Austurlandi, líka allalgeng sums staðar í miðhálendinu, en sjaldgæfust á Vestfjörðum. Stór hluti hans stofnsins er við Mývatn og sáust þar lengi um 2.000 steggir að vori og var hún þar algengust anda. Duggönd hefur fækkað mikið á Mývatni á síðustu árum og steggirnir aðeins verið 400−1.000 frá árinu 2010. Á móti hefur skúfönd fjölgað mikið á Mývatni og er þar nú algengasta öndin. Duggönd hefur fækkað á vetrarstöðvum í Evrópu og er þar á válista sem tegund í nokkurri hættu (VU), en á íslenska válistanum er hún talin í hættu (EN). Stofninn gæti verið að hámarki 3000 varppör. Vetrarstöðvarnar íslenskra fugla eru einkum með ströndum Írlands, Bretlands og Hollands, sem og víðar með ströndum meginlands Evrópu. Nokkur hundruð vetursetufugla halda til á Suðvesturlandi og jafnframt er hópur í Berufirði. Varpstöðvar eru á túndrubeltinu á norðurhveli jarðar.

Þjóðtrú og sagnir

Líkt og um flestar aðrar endur, fjallar íslensk þjóðtrú ekki mikið um duggöndina. Víða eru endur taldar veðurvitar og jafnvel að þær finni á sér eldsumbrot eða jarðhræringar. Þessu tóku menn eftir hjá Mývatnsöndum í Kröflueldum 1975-84.

Duggandarsteggir á flugi við Mývatn.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Evrópsku safnaverðlaunin 2022.

Evrópsku safnaverðlaunin 2022.

Evrópsku safnaverðlaunin 2022

Covid heimsfaraldurinn hefur sett mark sitt á safnastarf alls staðar í heiminum og víða hafa söfn þurft að loka tímabundið. Evrópsku safnaverðlaunin, EMYA (European Museum of the Year Awards), hafa ekki farið varhluta af faraldrinum og verðaunaafhendingum frestað og breytt í streymisviðburð á netinu. Nú hillir undir betri tíð þar sem faraldurinn er í rénun og í vikunni heimsótti Christophe Dufour, einn af dómnefndarmönnum verðlaunanna, Náttúruminjasafnið og sýningu þess, Vatnið í Náttúru Íslands.  Sýning Náttúruminjasafnsins er meðal nær 50 keppenda um Evrópsku safnaverðalunin í ár og munu úrslit verða kunngerð í byrjun árs 2022.

Christophe Dufour, dómnefndarmaður EMYA verðlaunanna ásamt starfsfólki Náttúruminjasafns Íslands, Álfheiði Ingadóttur, Önnu Katrínu Guðmundsdóttur og Hilmari Malmquist, forstöðumanni safnsins.

Áhugasamir ungir gestir sýninarinnar, Vatnið í náttúru Íslands fræðast um bleikjuafbrigðin í Þingvallavatni.