by Snæbjörn Guðmundson | 1.07.2017 | Fugl mánaðarins
Jaðrakan (Limosa limosa)

Jaðrakan með vind í fiðrinu í Friðlandinu í Flóa.
Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Einkenni margra vaðfugla eru langur goggur, langir fætur og langur háls. Þeir eru dýraætur sem eta alls konar hryggleysingja og langur goggurinn er hentugur til að grafa eftir æti í leirum, tjarnarbotnum og jarðvegi. Sumir þeirra sækja í þurrlendi og hafa þá fremur stuttan gogg og fætur eins og sandlóa og heiðlóa. Vaðfuglar helga sér óðul og verpa pörin stök, en stundum er hægt að tala um að þeir verpi í dreifðum byggðum.
Útlit og atferli
Jaðrakan er einn af einkennisfuglum láglendismýra. Hann er háfættur, hálslangur og spengilegur, álíka stór og spói. Á sumrin er hann rauðbrúnn um höfuð, háls og niður á bringu en annars með brúnleitu mynstri, kvenfugl er litdaufari og stærri en karlfugl. Í vetrarbúningi er hann jafnlitur, grábrúnn að ofan og ljós að neðan. Ungfugl er rauðgulbrúnn á höfði, hálsi og bringu og minnir á fullorðna fugla í sumarfiðri. Á flugi sjást áberandi hvít vængbelti, hvítur gumpur og stél með svörtum afturjaðri.

Jaðrakan á varpstað á Stokkseyri.

Ungur jaðrakan í fjöru í Sandgerði. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Jaðrakan lætur í sér heyra í Friðlandinu í Flóa. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Goggur er langur og beinn, gulrauður í rótina með dökkan brodd. Fætur eru langir, svartleitir og skaga langt aftur fyrir stélið á flugi. Augu eru brún og augnhringur ljós.
Fluglag er ákveðið með hröðum vængjatökum. Fuglinn er hávær og órólegur á varpstöðvum. Hann er félagslyndur utan varptíma.

Jaðrakanapar á góðri stund á Djúpavogi. Litar- stærðarmunur kynjanna sést vel. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hreiður jaðrakans. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Lífshættir
Potar með goggnum djúpt í leirur, mýrar eða tjarnarbotna eftir ormum, samlokum, sniglum, lirfum og öðrum hryggleysingjum. Tekur einnig fæðu úr jurtaríkinu, svo sem fræ og ber.
Er eindreginn votlendisfugl, verpur í og við margs konar votlendi á láglendi, t.d. flæðiengi, flóa og hallamýrar, og jafnvel í lyngmóum og kjarrlendi, en aldrei langt frá vatni. Hreiðrið er dæld í gróður, fóðrað með sinu og venjulega vel falið. Eggin eru oftast fjögur. Útungunartíminn er 24 dagar og verða ungarnir fleygir á um fimm vikum. Þeir eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið strax og þeir eru orðnir þurrir. Báðir foreldrarnir ala önn fyrir ungunum. Utan varptíma heldur jaðrakan sig mest í votlendi, á túnum og leirum.

Háfættur jaðrakan leitar ætis í Andakílsá (fyrir umhverfisslys Orku náttúrunnar). Vísindamenn fygljast með ferðum fuglanna m.a. með því að auðkenna þá með litmerkjum. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Jaðrakanar á leiru að vorlagi í Álftafirði, Djúpavosghreppi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Jaðrakanar berjast um æti í fjörunni í Borgarfirði eystra. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Vorhret á Stokkseyri. Undir þannig kringumstæðum kemur sér vel að hafa langan gogg. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Útbreiðsla og stofnstærð
Fyrir 1920 var jaðrakan bundinn við Suðurlandsundirlendið en hefur breiðst mjög út á undanförnum áratugum og verpur nú á láglendi um mestallt land. Íslenskir jaðrakanar hafa vetrardvöl á Bretlandseyjum og með ströndum Vestur-Evrópu, frá Þýsklandi suður til Portúgals og Marokkó, flestir á Írlandi. Íslenski jaðrakaninn (undirtegundin L. l. islandica) er á norður- og vesturmörkum útbreiðslusvæðis tegundarinnar. Þessi undirtegund finnst aðallega hér á landi, en einnig lítils háttar í Færeyjum, á Hjaltlandi og í Noregi. Annars verpur jaðrakan dreift um Vestur- og Mið-Evrópu, aðallega í Hollandi og austur um Rússland.

Nýkomnir jaðrakanar á Eyrarbakka seðja hungrið eftir farflugið. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Þreyttir jarðrakanar eftir langflug hvílast við Dyrhólaós. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Hópur jaðrakana síðsumars við Austari-Héraðsvötn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Jaðrakan í vetrarbúningi á Stokkseyri. Þeir sjást sjaldan í þessum skrúða hér á landi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Þjóðtrú og sagnir
Jaðrakan gefur frá sér hrjúft kvak og hvellt nefhljóð á varptíma, einkum á flugi, annars er hann þögull. Þessi hljóð hafa orðið tilefni sagna og þjóðtrúar. Menn þóttust jafnvel greina orð úr hljóðum fuglsins og er til um það ágæt saga. Þannig var að maður kom að á og var á báðum áttum hvort hann ætti að freista þess að vaða yfir eða ekki. Þá kom þar að jaðrakan og sagði: „Vaddúdí, vaddúdí“, sem maðurinn og gerði en blotnaði. Þá heyrðist frá jaðrakaninum: „Vaddu vodu? Vaddu vodu?“ Maðurinn, sem nú var orðinn reiður yfir að hafa látið ginna sig útí, steytti hnefann móti fuglinum og svaraði: „Já, ég varð votur.“ Þá flaug jaðrakaninn burt og heyrðist manninum fuglinn segja í kveðjuskyni: „Vidduþi, vidduþi“ og fór hann að því ráði og tók að vinda föt sín. – Heiti fuglsins er ráðgáta, en ein tilgátan er að þá sé komið úr gelísku.
Kveðskapur
Að Skálabrekku
Hér stend ég aftur á brekkunnar brún og horfi
á blálygnt djúpið með himinhvolf sitt og fjöll.
En jaðraki, stelkur og hrossagaukur hamast
við hljómleika sína í nánd við iðgrænan völl.
…
Eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson.
Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.
by Snæbjörn Guðmundson | 28.06.2017 | Fréttir
Mjög merk tímamót urðu í gær í starfsemi Náttúruminjasafnsins þegar undirritað var samkomulag milli Perlu norðursins ehf. og Náttúruminjasafnsins um þátttöku safnsins í sýningahaldi í Perlunni. Samkomulagið undirrituðu Agnes Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri Perlu norðursins og Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands að viðstöddum Kristjáni Þór Júlíussyni mennta- og menningarmálaráðherra, stjórn Perlu norðursins og fleiri góðum gestum.

Agnes Gunnarsdóttir framkvæmdastjóri Perlu norðursins og Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands undirrita samkomulag um þátttöku safnsins í sýningahaldi í Perlunni. Viðstaddir eru Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra (t.v.) og Finnbogi Jónsson stjórnarformaður Perlu norðursins. Ljósmynd: mbl.is/Kristinn Magnússon
Samkvæmt samkomulaginu fær Náttúruminjasafnið endurgjaldslaust til eigin umráða um 380 fermetra rými á milligólfi á nýrri 2. hæð í aðalrými Perlunnar. Perla norðursins mun jafnframt standa straum af öðrum rekstrarkostnaði vegna sýningar Náttúruminjasafnsins, þ.m.t. vegna hita og rafmagns og starfsmanna sem vinna við sýninguna. Náttúruminjasafnið mun aftur á móti greiða stofnkostnað við hönnun, framleiðslu og uppsetningu sýningarinnar sem og árlegt viðhald hennar.
Þetta er í fyrsta skipti síðan Náttúruminjasafnið var sett á laggirnar árið 2007 að það stefnir í með raunhæfum hætti að safnið fái aðstöðu til eigin sýningahalds. Það eru mjög merk tímamót fyrir höfuðsafnið.
En björninn er ekki að fullu unninn. Fyrsti verkáfangi samkvæmt samkomulaginu felst í frumhönnunarvinnu á vegum Náttúruminjasafnsins þar sem efnistök og innihald sýningarinnar verða ákveðin og gerðar verk-, tíma- og kostnaðaráætlanir um framleiðslu og uppsetningu sýningarinnar. Þessum verkáfanga skal vera lokið um miðjan október n.k. Í kjölfarið kemur til kasta Alþingis sem þarf að samþykkja fjármögnun á stofnkostnaði sýningarinnar. Samþykki Alþingi verkefnið hefst annar áfangi sem felst í fínhönnun sýningarinnar, textagerð, framleiðslu og kaup á sýningamunum og tækjabúnaði og uppsetningu sýningarinnar. Gangi allt eftir er stefnt að opnun sýningarinnar 1. maí 2018 á sama tíma og Perla norðurins mun opna sýningaráfanga númer tvö á sínum vegum.
Verkefnisstjóri hönnunarvinnu Náttúruminjasafnsins í fyrsta áfanga er Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir sýningahönnuður. Þórunn er í verkefnisstjórn sýningarinnar og stýrir hönnunarteymi Náttúruminjasafnsins sem er skipað valinkunnum hönnuðum og fólki með reynslu á sviði náttúrusýninga. Auk Þórunnar eru í verkefnisstjórninni Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins, Skúli Skúlason prófessor, Þóra Ellen Þórhallsdóttir prófessor og Álfheiður Ingadóttir líffræðingur og ritstjóri verkefnisins.
Nánar má lesa um undirritun samkomlagsins hér í fréttatilkynningu Perlu norðursins og Náttúruminjasafnsins.
Umfjöllun Morgunblaðsins um undiritun samkomulagsins.
Umfjöllun RÚV-sjónvarps um undirritun samkomulagsins.
by Snæbjörn Guðmundson | 1.06.2017 | Fugl mánaðarins
Brandugla (Asio flammeus)

Brandugla í Tjarnarbyggð (Síberíu) í Flóa. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Branduglan er eina uglan sem finnst hér á landi í einhverjum mæli. Tvær aðrar tegundir ugla verpa hér sennilega reglulega, en eru sjaldgæfar og tiltölulega lítið er vitað um lífshætti þeirra. Ástæðan fyrir fáum tegundum af ættbálki ugla (Strigiformes) miðað við grannlöndin er fábreytt nagdýrafána, en nagdýr eru alfæða flestra ugla.
Útlit og atferli
Brandugla er eina uglan sem verpur að staðaldri hér á landi. Hún er móbrún að ofan með ljósum dílum, þéttar langrákir eru á bringu og dreifðari rákir á kviði. Hún er með kringlótt, ljóst andlit, dökkar augnumgjarðir og lítil fjaðraeyru sem hún reisir stundum. Vængir eru langir, ljósari að neðan, með dökku mynstri á og við vængbrodda. Stélið er þverrákótt. Hún virðist ljós á flugi. Goggurinn er svartur, stuttur og krókboginn, fætur ljósir og fiðraðir með svörtum, beittum klóm. Augu eru skærgul.
Flug branduglu er nokkuð rykkjótt og vængjatökin silaleg, en þó er hún fimur flugfugl og getur verið snögg. Hún svífur oft með vængina lítið eitt fram- og uppsveigða. Hún er einfari sem sést helst í ljósaskiptunum, en getur þó sést á daginn, sérstaklega á ungatíma. Er venjulega þögul, en á varpstöðvum heyrist stundum hátt væl eða endurtekið, djúpt kurrandi stef. Einnig heyrast vængjasmellir.

Brandugla við Mývatn.

Brandugla með fjaðraeyrun sperrt að vetrarlagi á Stokkseyri.

Brandugla við Mývatn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Lífshættir
Aðalfæða branduglu eru hagamýs, hún flýgur hljóðlaust lágt yfir landi, skurðum eða kjarrlendi þar sem músa er að vænta. Veiðir einnig úr talsverðri hæð, t.d. yfir melgresi. Tekur einnig smáfugla, fullorðna og unga.
Branduglan verpur í lyngmóum, kjarri eða graslendi, oft þar sem blautt er. Hreiðrið er oftast falið í lyngi eða runna. Ungar klekjast ekki samtímis og geta verið mjög misstórir. Eggin eru 4‒8, útungunartíminn er um fjórar vikur og ungarnir verða fleygir á 4‒5 vikum. Branduglan heldur sig á veturna í skóglendi og görðum þar sem hagamýs er að finna.

Brandugla í Friðlandi Fuglaverndar í Flóa.

Branduglupar í Friðlandinu í Flóa. Annar fuglinn er með bráð, sem líklega er óðinshani. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Brandugla með húsamús í snjókomu á Stokkeyri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Kjói ræðst á branduglu með bráð (óðinshana) í Friðlandinu í Flóa. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Brandugluhreiður með þremur ungum og tveimur eggjum í Friðlandi Fuglaverndar í Flóa. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Nýfleygur brandugluungi í Friðlandinu í Flóa. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Útbreiðsla og stofnstærð
Branduglan hóf að verpa hér í upphafi síðustu aldar, að því talið er, og verpur nú dreift á láglendi í öllum landshlutum, síst þó á Vestfjörðum og Suðausturlandi. Hún er algengust frá Eyjafirði austur í Öxarfjörð, á vestanverðu Suðurlandsundirlendi og frá Innnesjum og upp í Borgarfjörð. Branduglu hefur fjölgað á síðustu áratugum og er það rakið til aukinnar kornræktar og fjölgunar hagamúsa, en mýsnar eru miklar kornætur. Þó sveiflast stofninn nokkuð. Á athugunarsvæði í Flóa og Ölfusi er fjöldinn frá fjórum og í átta pör. Varpstofninn er talinn vera um 500 pör.
Brandugla er að mestu farfugl. Vetrarstöðvar farfuglanna eru í Vestur-Evrópu, aðallega á Bretlandseyjum að því talið er. Brandugla er útbreidd og verpur víða um heim.
Eyrugla og snæugla
Eyrugla (Asio otus) er náskyld og mjög lík branduglu. Sérstaklega er erfitt að aðgreina þær á flugi, en þar koma til einkenni eins og litur fjaðra á undirvæng o.fl. Eyrugla hefur verið nær árviss hér á landi, aðallega að haust- og vetrarlagi. Hún er tíðust í nóvember‒desember, en hefur þó sést í öllum mánuðum og um land allt. Hreiður eyruglu fannst á Suðurlandi árið 2003, þar sem hún hafði líklega orpið áður og einnig síðar. Eitt og annað bendir því til að hún sé að nema hér land.
Hún er skógarfugl og mjög lík branduglu, auðgreind á löngum fjaðraeyrum sem sjást þegar fuglinn situr. Andlitið er kringlóttara en á branduglu, fjaðrakransar og augu eru appelsínugul, ekki gul eins og á branduglu. Rákóttir vængbroddar neðan á vængjum (svartir á branduglu) og rákóttur kviður aðgreinir fuglana á flugi. Hún er útbreiddur varpfugl um allt norðurhvel jarðar.

Eyrugla á varpstað á Suðurlandi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson
Snæugla (Bubo scandiacus) hefur orpið á miðhálendinu og öðrum afskekktum, hálendum landshlutum í áratugi. Flest bendir til að hún verpi eða reyni varp árlega hér á landi.
Þjóðtrú og sagnir
Íslensk þjóðtrú geymir ekki margt um brandugluna. En uglur og þá aðallega skógaruglur, eru þekkt minni í margvíslegri þjóðtrú erlendis.
Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.
by Snæbjörn Guðmundson | 19.05.2017 | Fréttir
Miðvikudaginn 17. maí síðastliðinn afhentu 16 félagasamtök á sviði náttúrufræða, útivistar og umhverfismála Kristjáni Þór Júlíussyni mennta- og menningarmálaráðherra áskorun þess efnis að Alþingi og ráðherra tryggi uppbyggingu Náttúruminjasafns Íslands, eins og lofað var á Alþingi á síðasta þingi með samþykkt ályktunar í tengslum við 100 ára fullveldisafmælið árið 2018. Um þessa þingsályktun hefur verið fjallað áður á heimasíðu Náttúruminjasafnsins. Það voru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Landvernd sem fóru fyrir áskoruninni og hana má lesa hér: Ályktun samtaka um eflingu natturugripasafns16.5.2017.

Kristján Þór Júlíusson mennta- og menningarmálaráðherra tekur við áskorun frá 16 félagasamtökum úr hendi Árna Hjartarsonar formanns Hins íslenska náttúrufræðifélags sem fór fyrir áskoruninni ásamt Landvernd.
Ráðherra tók vel á móti hópnum, liðlega tíu manns, og fjölmiðlar sýndu málinu töluverðan áhuga. RÚV gerði málinu m.a. skil í aðalfréttatíma sínum um kvöldið og Fréttablaðið greindi frá atburðinum degi síðar.
Tilefni áskorunar samtakanna er ekki ánægjulegt en í ríksfjármálaáætluninni til næstu fimm ára, 2018-2022, er ekki að finna stafkrók um Náttúruminjasafnið eins og lofað var á Alþingi. Ráðherra lét þó þau orð falla að hann væri …„ekkert úrkula vonar um það að við getum komið málum til betri vegar og hyggst vinna með þeim hætti og svo sjáum við hvað setur.“ Þá greindi ráðherra frá þeim ánægjulegum tíðindum að verið væri að skoða þann möguleika að Náttúruminjasafnið taki þátt í sýningahaldi með Perlu Norðursins ehf. í Perlunni, en það félag hefur gert ríkinu nokkur tilboð um þátttöku Náttúruminjasafnsins. Nú virðist samstarf þessara aðila ætla að verða að veruleika, sem er mjög ánægjulegt, og er vinna þegar hafin að framgangi verkefnisins.
(more…)
by Snæbjörn Guðmundson | 4.05.2017 | Fugl mánaðarins
Kjói (Stercorarius parasiticus)

Ljós (skjóttur kjói) í Friðlandi Fuglaverndar í Flóa.
Kjóinn er af kjóaætt og af ættbálki strandfugla, eins og vaðfuglar, máfar, þernur, svartfuglar og fleiri fuglar. Þrír nánir ættingjar hans halda sig hér, skúmur (Catharacta skua) er varpfugl, fjallkjói (Stercorarius longicaudus) er umferðarfugl og sjaldgæfur varpfugl og ískjói (Stercorarius pomarinus) er umferðarfugl eða fargestur.
Útlit og atferli
Kjóinn er mun minni en skúmurinn. Langar oddhvassar miðfjaðrir sem skaga 5−10 cm aftur úr stélinu eru einkennandi. Tvö litarafbrigði eru af kjóa, dökkt og ljóst, en ýmis millistig eru þekkt. Dökkur kjói er að mestu móbrúnn, með svartleita kollhettu, vængi og stél. Ystu handflugfjaðrir eru með hvítum stöfum sem mynda hvítar skellur utarlega á væng og eru meira áberandi á undirvæng. Ljós eða skjóttur kjói er ljós á vöngum, hnakka, bringu og kviði, dökk kollhetta áberandi, oft með dökku bringubelti. Vængir og stél eru eins og á dökkum fugli. Dökkir kjóar eru algengari, en ljósir kjóar hlutfallslega algengari norðanlands en sunnan. Ungfuglar eru mismunandi, venjulega brúnflikróttir, með stuttar miðfjaðrir stéls. Goggur er svartur, ljósari við rót og fætur svartir, augun dökk.

Dökkur og ljós kjói í Friðlandinu í Flóa.

Dökkur kjói á flugi yfir Friðlandi Fuglaverndar í Flóa.. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Ljós (skjóttur) kjói. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Ljós og dökkur kjói á tjörn í Öræfum. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Dökkur kjói í dæmigerðu búsvæði á Brunasandi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Kjóinn gefur frá sér vælandi nefhljóð sem minnir á ritu. Vængir hans eru langir og hann er rennilegur og flugfimur fugl. Hann ver hreiður sitt og unga af mikilli ákefð.
Lífshættir
Kjóinn eltir uppi aðra fugla, einkum kríu, ritu, lunda og fýl, þreytir þá og neyðir til að sleppa eða æla æti sínu, sem oft er sandsíli og loðna. Er hann þá snöggur að grípa fenginn á lofti. Lifir einnig á skordýrum, fuglsungum og eggjum.
Hann verpur í margs konar kjörlendi frá fjöru til fjalls, mýrum, móum, hálendisvinjum og jafnvel jökulskerjum. Getur myndað dreifðar byggðir á söndum og aurum jökuláa. Hreiðrið er lítilfjörleg dæld í mosa eða annan gróður. Eggin eru tvö, álegutíminn er um fjórar vikur og unginn verður fleygur á mánuði.

Kjóahreiður í mosaþembu á Brunasandi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Nýfleygur kjóaungi í Friðlandinu í Flóa. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Kjói reynir að stela æti frá kríu yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Kjóinn og spóinn
Fjandvinirnir kjói og spói eru hvergi algengari en á grónum söndum með lágum gróðri og mosaþembum, með rekju inná milli, eins og víða er á t.d. Suðurlandi. Þeir eiga í stöðugum erjum á varpstöðvunum. Kjóinn er þekktur eggjaræningi og spóinn ver sitt, en kjóinn á líka til að ráðast á spóann. Einhvern hag hljóta báðir að hafa af því að búa í þessu nábýli.

Spói ræðst á kjóa á Brunasandi.
Fjallkjói
Þessi náfrændi kjóans hefur verið að þreifa fyrir sér með landnám á undanförnum árum. Fjallkjói er árviss fargestur hér á leið til og frá varpstöðvum á norrænum slóðum, á freðmýrabeltinu kringum Norðurskautið og vetrarstöðvum í sunnanverðu Atlantshafi. Næst okkur verpa fjallkjóar á Grænlandi og upp til fjalla í Skandinavíu og lifa aðallega á læmingjum. Fjallkjóar hafa orpið á Norðurlandi frá 2003, þó rökstuddur grunur sé um varp talsvert fyrr. Fjallkjói líkist ljósum kjóa (dökka litarafbrigðið er fátítt), en er minni og nettari, með afar langar miðfjaðrir í stéli. Ískjói er aftur á móti stærri og þreknari en kjói, með langar, undnar stélfjaðrir, ljósa litarabrigðið er mun algengari en það dökka.

Fjallkjói á varpstað á Norðurlandi.

Ískjói á flugi við Hafnarberg hjá Þorlákshöfn.
Útbreiðsla og stofnstærð
Kjói finnst um land allt upp í 700 m hæð yfir sjó. Hann er farfugl sem eyðir vetrinum á Suður-Atlantshafi, sunnan miðbaugs. Varpheimkynni hans eru allt umhverfis norðurheimskautið og við Norður-Atlantshaf suður til Skotlands. Íslenski varpstofninn er talinn vera um 11.000 varppör.
Þjóðtrú og sagnir
Kjóinn var talinn spáfugl, þegar hann vældi mikið, boðaði það votviðri og var hann þá kallaður vætukjói. Þungaðar konur áttu ekki að leggja sér egg hans til munns sagði Jón lærði Guðmundsson. Ennfremur átti kjóinn að vera hálfbróðir kríunnar.
Kveðskapur
Ingimar og Emilía,
ekki munu þau héðan flýja
þau eru eins og kjói og kría;
kann ég þau ekki sundur stía.
Eftir Jóhannes úr Kötlum.
Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.