Kjói

Kjói

Kjói (Stercorarius parasiticus)

Ljós (skjóttur kjói) í Friðlandi Fuglaverndar í Flóa.

Kjóinn er af kjóaætt og af ættbálki strandfugla, eins og vaðfuglar, máfar, þernur, svartfuglar og fleiri fuglar. Þrír nánir ættingjar hans halda sig hér, skúmur (Catharacta skua) er varpfugl, fjallkjói (Stercorarius longicaudus) er umferðarfugl og sjaldgæfur varpfugl og ískjói (Stercorarius pomarinus) er umferðarfugl eða fargestur.

Útlit og atferli

Kjóinn er mun minni en skúmurinn. Langar oddhvassar miðfjaðrir sem skaga 5−10 cm aftur úr stélinu eru einkennandi. Tvö litarafbrigði eru af kjóa, dökkt og ljóst, en ýmis millistig eru þekkt. Dökkur kjói er að mestu móbrúnn, með svartleita kollhettu, vængi og stél. Ystu handflugfjaðrir eru með hvítum stöfum sem mynda hvítar skellur utarlega á væng og eru meira áberandi á undirvæng. Ljós eða skjóttur kjói er ljós á vöngum, hnakka, bringu og kviði, dökk kollhetta áberandi, oft með dökku bringubelti. Vængir og stél eru eins og á dökkum fugli. Dökkir kjóar eru algengari, en ljósir kjóar hlutfallslega algengari norðanlands en sunnan. Ungfuglar eru mismunandi, venjulega brúnflikróttir, með stuttar miðfjaðrir stéls. Goggur er svartur, ljósari við rót og fætur svartir, augun dökk.

Dökkur og ljós kjói í Friðlandinu í Flóa.

Dökkur kjói á flugi yfir Friðlandi Fuglaverndar í Flóa.. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Ljós (skjóttur) kjói. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Ljós og dökkur kjói á tjörn í Öræfum. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Dökkur kjói í dæmigerðu búsvæði á Brunasandi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Kjóinn gefur frá sér vælandi nefhljóð sem minnir á ritu. Vængir hans eru langir og hann er rennilegur og flugfimur fugl. Hann ver hreiður sitt og unga af mikilli ákefð.

Lífshættir

Kjóinn eltir uppi aðra fugla, einkum kríu, ritu, lunda og fýl, þreytir þá og neyðir til að sleppa eða æla æti sínu, sem oft er sandsíli og loðna. Er hann þá snöggur að grípa fenginn á lofti.  Lifir einnig á skordýrum, fuglsungum og eggjum.

Hann verpur í margs konar kjörlendi frá fjöru til fjalls, mýrum, móum, hálendisvinjum og jafnvel jökulskerjum. Getur myndað dreifðar byggðir á söndum og aurum jökuláa. Hreiðrið er lítilfjörleg dæld í mosa eða annan gróður. Eggin eru tvö, álegutíminn er um fjórar vikur og unginn verður fleygur á mánuði.

Kjóahreiður í mosaþembu á Brunasandi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Nýfleygur kjóaungi í Friðlandinu í Flóa. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Kjói reynir að stela æti frá kríu yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Kjóinn og spóinn

Fjandvinirnir kjói og spói eru hvergi algengari en á grónum söndum með lágum gróðri og mosaþembum, með rekju inná milli, eins og víða er á t.d. Suðurlandi. Þeir eiga í stöðugum erjum á varpstöðvunum. Kjóinn er þekktur eggjaræningi og spóinn ver sitt, en kjóinn á líka til að ráðast á spóann. Einhvern hag hljóta báðir að hafa af því að búa í þessu nábýli.

Spói ræðst á kjóa á Brunasandi.

Fjallkjói

Þessi náfrændi kjóans hefur verið að þreifa fyrir sér með landnám á undanförnum árum. Fjallkjói er árviss fargestur hér á leið til og frá varpstöðvum á norrænum slóðum, á freðmýrabeltinu kringum Norðurskautið og vetrarstöðvum í sunnanverðu Atlantshafi. Næst okkur verpa fjallkjóar á Grænlandi og upp til fjalla í Skandinavíu og lifa aðallega á læmingjum. Fjallkjóar hafa orpið á Norðurlandi frá 2003, þó rökstuddur grunur sé um varp talsvert fyrr. Fjallkjói líkist ljósum kjóa (dökka litarafbrigðið er fátítt), en er minni og nettari, með afar langar miðfjaðrir í stéli. Ískjói er aftur á móti stærri og þreknari en kjói, með langar, undnar stélfjaðrir, ljósa litarabrigðið er mun algengari en það dökka.

Fjallkjói á varpstað á Norðurlandi.

Ískjói á flugi við Hafnarberg hjá Þorlákshöfn.

Útbreiðsla og stofnstærð

Kjói finnst um land allt upp í 700 m hæð yfir sjó. Hann er farfugl sem eyðir vetrinum á Suður-Atlantshafi, sunnan miðbaugs. Varpheimkynni hans eru allt umhverfis norðurheimskautið og við Norður-Atlantshaf suður til Skotlands. Íslenski varpstofninn er talinn vera um 11.000 varppör.

Þjóðtrú og sagnir

Kjóinn var talinn spáfugl, þegar hann vældi mikið, boðaði það votviðri og var hann þá kallaður vætukjói. Þungaðar konur áttu ekki að leggja sér egg hans til munns sagði Jón lærði Guðmundsson. Ennfremur átti kjóinn að vera hálfbróðir kríunnar.

Kveðskapur

Ingimar og Emilía,
ekki munu þau héðan flýja
þau eru eins og kjói og kría;
kann ég þau ekki sundur stía.

Eftir Jóhannes úr Kötlum.

 

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Lómur

Lómur

Lómur (Gavia stellata)

Lómur magalendir með síli í gogginum.

Lómurinn er af ættbálki brúsa (Gaviiformes) eins og himbrimi, en aðeins fimm tegundir tilheyra þeim ættbálki og búa þær allar á Norðurhveli.

Útlit og atferli

Lómurinn er straumlínulagaður og svipaður frænda sínum, himbrimanum, en þó mun minni og ávallt auðgreindur frá honum á uppsveigðum, grönnum gogginum. Hann er gráleitur, dökkur að ofan en ljós að neðan, með langa, mjóa vængi. Á sumrin er hann grár á höfði og hálshliðum, langröndóttur á afturhálsi og með dumbrauða skellu á framhálsi. Hann er grábrúnn að ofan, bringa, kviður og undirvængir hvít og síðurnar rákóttar. Á veturna er hann hvítur á höfði og hálsi nema með gráan koll og afturháls, grár á baki með hvítum, smágerðum dílum og hvítur að neðan. Ungfugl er svipaður en brúnni og dekkri á baki, höfði og hálsi.

Goggurinn er grannur, oddhvass og lítið eitt uppsveigður, grásvartur en ljósari á veturna. Fætur eru grásvartir, augu rauð, brúnni á ungfugli.

Lómurinn er þungur á sér og fleytir kerlingar þegar hann hefur sig til flugs.

Lómurinn er þungur á sér og þarf því að taka tilhlaup á vatnsborðinu til að ná fluginu. Hálsinn er niðursveigður á flugi og fæturnir skaga langt aftur fyrir stutt stélið og þeir bera þá ekki fyrir sig í lendingu, bremsa með elegans, eins og andfuglar, heldur ástunda magalendingu með talsverðum buslugangi.

Lómurinn er ófær til gangs þar sem fæturnir eru svo aftarlega á búknum. Þeir nýtast þeim mun betur til að ýta fuglinum áfram í kafi, enda er lómurinn sérhæfður kafari og unir sér best á vatni. Lómurinn er eins og svo margar aðrar fiskiætur, langur og mjór með langan, beittan gogg. Nægir að bera hann saman við himbrima, fiskiendur, skarfa og suma svartfugla til að staðfesta þessa sérhæfni. Þegar lómurinn verður fyrir styggð lætur hann sig síga í vatninu, svo aðeins hausinn stendur uppúr.

Lómar sjást stakir eða í litlum hópum. Lómur vælir ámótlega á sundi, en á flugi gefur hann frá sér hávært gargandi kokhljóð, minnir á hása gæs.

Lífshættir

Lómurinn er fiskiæta, á ferskvatni kafar hann eftir hornsíli og smásilungi. Þar sem lómar verpa við smátjarnir sækja þeir sandsíli til sjávar, silung í vötn eða jafnvel flundru í árósa. Á veturna er aðalfæðan smáfiskur eins og sandsíli, smáufsi og loðna. Eitthvað eta þeir krabbadýr og lindýr.

Lómur færir björg í bú. Fengurinn er síli. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Matartími lóma. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lómurinn verpur við tjarnir, vötn, ár og læki, oftast við eða nærri fiskiauðugum stöðum. Hann myndar sums staðar dreifðar byggðir nærri sjó. Varptíminn er í maí og júní. Hreiðurgerð lómsins er lítilfjörleg, fuglinn verpur tveimur eggjum í grunna skál á tjarnarbakka og skríður hann á maganum að og frá hreiðrinu. Útungunartíminn er um fjórar vikur. Stundum komast báðir ungarnir á legg, en oft bara annar. Þegar ungarnir eru orðnir fleygir, eftir um 6 vikur, fara þeir með foreldrunum til sjávar og læra að afla sér fæðu uppá eigin spýtur. Ungar eru allflestir orðnir fleygir um miðjan ágúst.

Lómshreiður á tjarnarbakka. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lómur á hreiðri á tjarnarbakka í Friðlandinu í Flóa. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lómur með tvo nýklakta unga. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Ungur nemur gamall temur. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lómurinn er harður í horn að taka þegar verja þarf hreiður eða unga. Hann fer ekki í „fuglgreinarálit“, en ræðst jafnt á minni endur sem álftir. Lómar og álftir deila oft varpstöðum og er vissara fyrir álftina, sem venjulega kallar ekki allt ömmu sína, að halda sig á mottunni. Lómurinn kafar oft undir álftirnar eða aðra fugla og kemur upp undir þeim með beittan gogginn að vopni.

Hatrammleg átök lóma. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lómar stíga dans. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útbreiðsla og stofnstærð

Lómurinn verpur um land allt, en er algengastur við sjávarsíðuna, þar sem hann verpur sums staðar í dreifðum byggðum, en annars eru pörin venjulega stök. Stofninn er talinn vera 1500-2000 pör. Hluti stofnsins flýgur til V-Evrópu á haustin en staðfuglar dvelja að mestu við vestanvert landið á veturna. Grænlenskir varpfuglar hafa hér viðdvöl á leið til vetrarstöðva á Norðursjó og mögulega gætu einhverjir haft hér vetrardvöl. Varplönd eru allt umhverfis norðurheimskautið.

Sennilega er meira af lómi hér við land á veturna heldur en áður var talið, en merkingar með svonefndum dægurritum benda til að lómar sem verpa á Mýrum vestur haldi til við vestanvert landið á veturna. Það er í samræmi við niðurstöður vetrafuglatalninga (jólatalninga) í svartasta skammdeginu; að jafnaði sjást 100-300 fuglar í þessum talningum, flestir við SV-land, en einnig talsvert við Vesturland og Vestfirði. Litlir hópar sjást jafnframt stundum við SA-land, í Berufirði og á Hornafirði. Ég tel, að það sé um tíundi hluti vetrarstofnsins, sem sést á talningunum.

Þjóðtrú og sagnir

Lómurinn er þekktur veðurspárfugl, sbr. nafnið þerrikráka. Það má ráða af hljóðum hans hvort það verður þurrkur eða regn. Jónas frá Hrafnagili segir í Íslenskum þjóðháttum: „Fyrir þurrki gaggar hann og segir: þurrka traf, en fyrir óþurrki vælir hann og segir: marvott. Þegar hann vælir, segir fólk, að nú taki lóminn í lærið, og býst þá við illu.“ Snorri á Húsafelli nefnir einnig veðurspárhæfileika lómsins.

Lómurinn í Friðlandinu í Flóa

Allar myndirnar með þessu greinarkorni eru teknar í Friðlandi Fuglaverndar í Flóa, á austurbakka Ölfusár, skammt norður af Eyrarbakka. Lómurinn er afar áberandi í Friðlandinu og má með sanni segja að hann sé einkennisfugl þess. Lómar fara að sjást á Ölfusárósi í endaðan mars og fljótlega eftir það fara þeir að setjast upp í friðlandinu. Frá vori og allt fram eftir ágúst eru köll lómanna áberandi. Þeir eru hávaðasamastir á kvöldin og morgnanna, stundum fljúga þeir saman í litlum hópum með miklum látum.

Lómur með unga í tunglskini í Friðlandinu í Flóa. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lómur verpur við flestar þær tjarnir eða dælir í Friðlandinu, þar sem hann nær að hefja sig til flugs og skipta varppörin tugum. Lómurinn hleypur eftir vatnsfleti til að hefja sig til flugs og þarf því talsverða flugbraut til þess. Lágmarkslengd varptjarnar er sennilega um tíu metrar. Lómar hafa reynt varp við styttri tjarnir, en þeir afræktu allir.

Eftir að Fuglavernd hóf endurheimt votlendis í Friðlandinu með stuðningi Pokasjóðs, hefur lómi fjölgað þar. Fleiri tjarnir eru nú með tæru vatni en áður og álitlegri fyrir lóma og aðra fugla til varps. Þó talsvert sé af hornsílum og smábröndum í tjörnunum, sækja lómarnir aðallega fæðu sína til sjávar, en einnig eitthvað á Ölfusárós. Síli er þeim mikilvæg fæða, eins og svo mörgum íslenskum fuglum.

Aðalhætturnar sem steðja að lómi eru eyðilegging búsvæða, miklir þurrkar, olíuslys á vetrarstöðvum og fæðuskortur. Sílaskorturinn á síðustu árum hefur bitnað á lómunum og hann þurft að snúa sér að fæðu, sem hentar honum illa.

 

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Betur ef satt væri!

Fréttablaðið birtir í dag (24.03.2017) mynd á bls. 2 sem sýnir framkvæmdir inni í glerhvelfingu Perlunnar í Öskjuhlíð og er fyrirsögnin með myndinni „Nýir tímar í Öskjuhlíð“. Í texta með myndinni segir m.a.: „Nú er unnið hörðum höndum að undirbúningi sýningar Náttúruminjasafns Íslands í Perlunni í Reykjavík.“ Betur ef satt væri! Satt er að verið er að vinna af krafti að undirbúningi sýningar í Perlunni. Ósatt er að framkvæmdirnar séu á vegum Náttúruminjasafns Íslands. Það er einkahlutafélagið Perla norðursins sem stendur alfarið að framkvæmdunum. Þessi misskilningur leiðréttist hér með. Rétt er hins vegar að taka fram að Náttúruminjasafnið á í góðu samstarfi við Perlu norðursins um verkefnið í Perlunni og veitir m.a. faglega ráðgjöf þar að lútandi.

 Þá er rétt að benda á að Perla norðursins hefur nýlega endurnýjað tilboð sitt um þátttöku Náttúruminjasafnsins í sýningahaldi félagsins í Perlunni. Það tilboð er á borði mennta- og menningarmálaráðherra, Kristjáns Þórs Júlíussonar. Við þetta má bæta að Náttúruminjasafnið og Safnaráð sendu ráðuneytinu umbeðna umsögn við fyrra tilboð Perlu norðursins frá því í maí 2016 og voru þær samhljóða og á jákvæðum nótum.

Grágæs

Grágæs

Grágæs (Anser anser)

Grágæsin etur mýragróður stuttu fyrir varp. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Svanir, gæsir og endur heyra til andfuglum (Anseriformes), teljast reyndar til sömu ættarinnar, andaættar (Anatidae). Álftin er eini svanurinn sem verpur hér á landi. Gæsirnar eru fimm, þar af eru tvær eingöngu fargestir (blesgæs og margæs) og tvær reglulegir varpfuglar (grágæs og heiðagæs), þriðji fargesturinn, helsingi, er jafnframt nýr varpfugl.

Útlit og atferli

Grágæs er stærst þeirra gæsa sem verpa eða hafa viðdvöl á Íslandi. Hún er ljósari, þéttvaxnari og höfuðstærri en aðrar gæsir. Kynin eru eins að lit en gassinn er sjónarmun stærri. Grágæs er öll grábrún, dökk að ofan og á hálsi, ljós að neðan nema síðurnar eru dökkar, hún er stundum með dökka flekki á bringu og kviði. Grágæs er eins og aðrar gráar gæsir með hvítan undirgump, undirstél- og yfirstélþökur. Ljósgráir framvængir og gumpur eru áberandi á flugi. Fullorðinn fugl og ungfugl eru svipaðir, í návígi sést að sá fullorðni er með ljósa fjaðrajaðra á þverstýfðum vængþökum en vængþökur eru dekkri og yddari á ungfugli. Goggur er stór og rauðgulur, dökk nögl á goggi ungfugls en ljós á fullorðnum, fætur grábleikir. Augu eru dökk með gulrauðan augnhring. Hljóð grágæsar eru breytileg, aðallega hátt og nefkveðið skvaldurhljóð.

Grágæsapar í Friðlandi í Flóa. Gassinn til vinstri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Grágæsir halda sig oftast í hópum nema pör á varptíma. Á flugi raða einstaklingarnir sér upp í v-laga reinar, fljúga oddaflug og skiptast á um að hafa forystu. Flugið er beint og kraftmikið. Þær eru mest á ferli í dögun og rökkurbyrjun. Pörin halda saman árið um kring og annast uppeldi unga í sameiningu, gæsin ungar út meðan gassinn er á verði. Geldfuglar hópa sig nærri varpstöðvum.

Grágæsir í oddaflugi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lífshættir

Grágæs er grasbítur og er fæðan ýmiss grænn gróður, starir og grös yfir sumarið og síðsumars og á haustin taka þær m.a. ber. Etur forðarætur kornsúru á vorin, rífur upp gras til að ná í græna plöntuhluta og sækir í  korn frá fyrra hausti.

Hún verpur aðallega neðan 300 m hæðarlínu, í mýrum, hólmum og grónum eyjum, á ár- og vatnsbökkum eða í kjarri og lyngmóum, oft í dreifðum byggðum, alltaf í nánd við vatn þar sem gæsirnar geta leitað athvarfs með ófleyga unga og þegar þær eru í sárum. Hreiðrið er dæld í gróður, fóðrað með dúni, oft falið í runna eða sinubrúski. Urptin er 4-7 egg sem klekjast á fjórum vikum og eru ungarnir um tvo mánuði að verða fleygir.

Grágæsapar stuttu fyrir varp. Gassinn t.v. Gæsin safnar kviðfitu sem orku fyrir varpið, en hún etur lítið meðan á varpi og álegu stendur. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Grágæsarhreiður með sjö eggjum. Einn ungi er byrjaður að brjóta á einu egginu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Grágæs með unga í friðlandinu í Vatnsmýri, Reykjavík. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Grágæsahjón með unga. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Flugfjaðrir í vexti (líka nefndar blóðfjaðrir) eru mjög blóðríkar og blæðir úr þeim ef fuglarnir verða fyrir einhverju hnjaski. Því er talað um að fuglarnir séu í sárum eða særist á þessum tíma. Fullorðnu fuglarnir verða oft fleygir að nýju um svipað leyti og ungarnir verða fleygir.

Grágæsir eru utan varptíma gjarnan í ræktuðu landi, t.d. túnum, ökrum og kartöflugörðum (etur smælki sem orðið hefur eftir), en einnig í votlendi. Náttar sig á tjörnum, vötnum og stórám.

Útbreiðsla og ferðir

Grágæs og heiðagæs skipta með sér landinu. Heiðagæsin er á hálendi og grágæs á láglendi, þótt heiðagæsin hafi á síðari árum seilst nokkuð inn á yfirráðasvæði grágæsarinnar og verpa þær nú alveg niður undir sjávarmál.

Grágæs hefur vetursetu á Bretlandseyjum, aðallega í Skotlandi, en minna á N-Írlandi og N-Englandi. Íslenskir fuglar hafa fundist á meginlandinu, bæði í Noregi og Hollandi. Á síðustu árum hefur veturseta aukist mjög hérlendis, einkum á Suðurlandi og tengist væntanlega aukinni kornrækt og hlýnandi veðráttu. Staðfuglarnir geta skipt þúsundum (7100 fundust í vetrartalningum Náttúrufræðistofnunnar snemma í janúar 2017). Fram til þessa voru nokkur hundruð fuglar viðloðandi Reykjavíkurtjörn á veturna, þeir fuglar sáust víða á Innnesjum og Suðurnesjum. Farfuglarnir koma snemma. Meðalkomutími fyrstu fugla 2002-2012 var 14. mars. Þær fara líka seint, í október-nóvember.

Varpheimkynnin eru víða í N- og Mið-Evrópu og austur um Asíu. Íslenski varpstofninn er á milli 20.000 og 30.000 pör. Fuglarnir eru taldir á haustin á vetrarstöðvunum og var hann 95.400 fuglar haustið 2015. Hann hefur verið nokkuð stöðugur undanfarin hálfan annan áratug, sveiflast á bilinu 80.000-110.000 fuglar. Grágæs hefur löngum verið nýtt hér á landi, egg, fugl sem og dúnn.

Grágæsahópur á flugi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Grágæsahópur undir Eyjafjöllum að hausti. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Þjóðtrú og fleira

Ekki er mikið um grágæs í íslenskri þjóðtrú. Þær eiga þó að vita óveður í rassinn á sér. Hvæs þeirra á vera skaðlegt, þeim sem fyrir verður.

Elstu lög þjóðveldisaldar voru kennd við grágæs, lagaskráin og lögskýringarritið Grágás. Hún var undanfari Járnsíðu og síðan Jónsbókar.

Ljáðu mér vængi

„Grágæsa móðir!
ljáðu mér vængi“,
svo ég geti svifið
suður yfir höf.
Bliknuð hallast blóm í gröf,
byrgja ljósið skugga tröf;
ein ég hlýt að eiga töf
eftir á köldum ströndum,
ein ég stend á auðum sumarströndum.
Langt í burt ég líða vil,
ljá mér samfylgd þína!
Enga vængi á ég til
utan löngun mína,
utan þrá og æskulöngun mína.
Lof mér við þitt létta fley
lítið far að binda;
brimhvít höf ég óttast ei
eða stóra vinda.
Okkar bíður blómleg ey
bak við sund og tinda,
bak við sæ og silfurhvíta tinda.
Eftir mér hún ekki beið, –
yst við drangann háa
sá ég hvar hún leið og leið
langt í geiminn bláa,
langt í geiminn vegalausa, bláa.

Eftir Huldu (Unni Benediktsdóttur Bjarklind).

Flýg ég heim í föðurtún

Gæsin, gæsin gráa,
gef mér vænginn fráa,
beint í loftið bláa.
Flýg eg heim í föðurtún,
finn þar allt í blóma,
og svanasöng óma.
Þar spretta laukar,
þar gala gaukar.
Þar situr lítið barn,
lítil snót, hún leikur að gullepli.

Eftir Margréti Jónsdóttur.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

 

Fýll

Fýll

Fýll (Fulmarus glacialis)

Fýll er af ættbálki pípunasa eða stormfugla (Procellariiformes) og ætt fýlinga (Procellariidae). Einkenni pípunasaættbálksins er að nasirnar eru í pípum ofan á goggnum. Honum tilheyra m.a. albatrosar, skrofur, sæsvölur og drúðar. Auk fýls verpa skrofa, stormsvala og sjósvala hér á landi og gráskrofa og hettuskrofa eru sumargestir úr Suðurhöfum.

Útlit og atferli

Fýllinn er stór sjófugl sem minnir á máf, þéttvaxinn og hálsdigur með langa og mjóa vængi. Hann er hvítleitur á höfði, hálsi og að neðan. Grár að ofan og á yfirvængjum, með dökka vængbrodda. Síður, gumpur og stél eru grá, undirvængir gráir með dökkum jöðrum. Kynin eru eins og ungfugl er eins og fullorðinn. Fuglar af norræna litarafbrigðinu, sótarar, smiðir eða kolapiltar, eru allir dökkgráir en ýmis millistig þekkjast. Goggurinn er stuttur og gildur, gráleitur að ofan en gulleitur að neðan, krókboginn með nasirnar í pípum ofan á goggmæni. Þetta einkenni gefur ættbálki fýlsins nafn. Fætur eru grábleikir og augu áberandi dökk og stór.

Dökkur (norrænn) fýll í Heimaey. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Fýllinn flýgur á stífum vængjum. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Auðgreindur frá máfum á einkennandi fluglagi, tekur fáein vængjatök og lætur sig svo svífa á stífum vængjunum. Léttur á sundi en á oft erfitt með að hefja sig á loft, sérstaklega í logni. Nær ófær til gangs, bröltir um á ristunum.

Fýllinn er venjulega þögull, en hann gefur frá sér rámt gagg á varpstöðvum.

Lífshættir

Fæðan er smáfiskur, einkum loðna og sandsíli, einnig krabbadýr, smokkfiskur og önnur sjávardýr. Úrgangur frá fiskiskipum er mikilvæg fæða, etur einnig úrgang frá fiskvinnslu-stöðvum. Etur oftast á yfirborði, en á það til að taka grunnar dýfur.

Fýllinn er úthafsfugl, sem sést þó meira og oftar í byggðum sínum en flestir aðrir sjó-fuglar utan varptíma. Þó þeir hverfi að mestu frá landinu á haustin og haldi sig á hafi úti fjarri landi, heimsækja þeir oft vörpin í mildu veðri og eru sestir upp í janúar – febrúar. Fýll verpur í byggðum í klettum og björgum við sjó eða inn til landsins, stundum ofan á klettaeyjum eða dröngum. Hreiðrið er grunn dæld, oft fóðrað með steinvölum eða þurrum gróðri, og er því valinn staður á syllu, í skúta eða grasbrekku. Fuglinn verður seint kynþroska eða ekki fyrr en hann nálgast 10 ára aldurinn.

Fýllinn verpur einu eggi snemma í maí. Útungunar- og ungatíminn er langur, á fjórða mánuð og verða ungarnir ekki fleygir fyrr en í lok ágúst – byrjun september. Fýlar eru einkvænisfuglar og parast ævilangt. Þó er um 5% skilnaðartíðni á ári og skilja þeir fremur ef illa gengur, t.d. ef varp misferst. Þeir parast þá aftur og líka ef makinn fellur frá. Fýllinn er langlífur fugl og getur náð sextugsaldri. Þeir þurfa því ekki að koma nema örfáum ungum á legg til að viðhalda stofninum.

Fýll í Mánáreyjum messar yfir maka sínum. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Fýll á hreiðri.

Fýlshreiður í Akurey. Fuglinn verpur á bera jörðina. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Dúnklæddur fýlsungi í Mánáreyjum. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Kvenkyns fýll var merktur á hreiðri á Orkneyjum 1951 og náði fuglinn sextugsaldri og var þá enn frjór. Fýllinn var myndaður með skoskum fuglafræðingi þegar hann var merktur og svo aftur 40 árum síðar. Fuglafræðingurinn hafði vissulega látið á sjá á þessum tíma, meðan fýllinn leit jafn vel út og fyrr. Elsti íslenski fýllinn var kominn vel á fimmtugsaldur, þegar hann lenti í netum og var allur.

Útbreiðsla og ferðir

Fýll hefur breiðst mjög út á undanförnum áratugum og öldum og er talið að það stafi af mikilli fæðu sem fylgdi auknum hvalveiðum og síðar vaxandi fiskveiðum í Norður-Atlantshafi. Á fyrri hluta 17. aldar er aðeins vitað til að fýll hafi orpið í Kolbeinsey og Grímsey hér við land. Upp úr 1750 færir hann sig suður á bóginn og tekur að verpa í Vestmannaeyjum og Eldey. Í Vestmannaeyjum fjölgaði fuglinum ört og byrjuðu menn þar fljótt að nýta hann til matar. Á 19. öld tekur fýll heima í Mýrdal og síðan breiðist hann út um allt land. Stærstu vörpin eru í sjávarbjörgum, en upp úr 1950 fara fýlar að sækja meira inn til landsins. Um 50 km flug er í þau vörp sem eru fjærst sjó, í Markarfljóts-gljúfrum (fuglarnir fljúga með fljótinu, en ekki yfir jökulinn) og við Þingvallavatn. Varpið í Ásbyrgi er og vel þekkt. Hvergi í heiminum verpa fýlar jafn fjarri sjó. Þrátt fyrir þessa miklu fjölgun á 20. öld, hefur honum þó fækkað undanfarið eða um 30% á síðasta aldarfjórðungi. Stofninn nú er rúmlega milljón pör og er stærstan hluta að finna í 35 vörpum, þar sem 10.000 til 100.000 pör verpa.

Það er því algerlega úr lausu lofti gripið að fýllinn þurfi að sjá sjó til að hefja sig til flugs. Þessi saga gæti verið til komin af því hversu erfitt þeir eiga með að ná sér á flug af sléttlendi, sérstaklega ungarnir síðsumars, þegar þeir hafa brotlent og eina lífsbjörg þeirra er að ná að vatnsfalli, til að fleyta sér til sjávar.

Fýlar verpa nú víða í gljúfrum og giljum inn til landsins. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Fýlar hverfa að mestu frá landinu síðsumars og á haustin og halda sig í norðanverðu Atlantshafi, en heimsækja þó oft vörpin í mildu veðri á veturna og eru sestir upp snemma. Fuglar sem fengu dægurrita í vörpum við Skjálfandaflóa, flökkuðu víða. Fyrst eftir að þeir yfirgáfu landið, fóru einhverjir í Barentshafið og alla leið austur til Novaja Zemlja, en aðrir voru austan við Svalbarða. Flestir voru á hafsvæðinu milli Grænlands og Nýfundalands eða við SV-Grænland. Frá nóvember til janúar fóru þeir að safnast saman við NA-vert landið, þó enn héldu þeir sig eitthvað á þekktum sjófuglaslóðum við sunnanvert Grænland, á svæði sem stundum er nefnt Heljargjá. Á tímabilinu febrúar til apríl voru þeir eingöngu á heimaslóðum. Vestmannaeyskur fýll flakkaði einnig mikið, hann fór m.a. upp með austurströnd Grænlands og var að þvælast austur undir Svalbarða, en var og á slóðum norðanfýla við sunnanvert Grænland.

Fýllinn er útbreiddur varpfugl við strendur N-Atlantshafs og nyrst við Kyrrahaf. Hér á landi verpur um sjötti hluti heimsstofnsins.

Fýll að lenda á Skjálfandaflóa. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Fýll hefur sig til flugs. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Fýlamergð við Eiðið, Heimaey. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Þjóðtrú og sagnir

Fýllinn ber nafn sitt af fúlu lýsinu, sem hann spýr
á óboðna gesti. Fræðiheiti hans, Fulmarus, og enska heitið Fulmar, er komið úr forníslensku og merkir fúli máfurinn (fúlmár). Sjómenn kalla fýlinn gjarnan múkka, það er tengt danska heitinu mallemuk.

Lítið er um fýl í íslenskri þjóðtrú, þó sjómenn tengi hegðun hans eitthvað við veðrabrigði. Stormfugl er heiti hans á ýmsum erlendum tungum.

Kveðskapur

Söknuður

Það er haustlegt.

Ég er ófleygur
múkki

horfi af blásnum
mel
yfir vaxandi ána,

horfi á eftir þér
til hafs.

Eftir Matthías Jóhannessen.

 

Þrammar, svá sem svimmi
sílafullr, til hvílu
fúrskerðandi fjarðar,
fúlmǫ́r á trǫð bǫ́ru,
áðr an orfa stríðir
ófríðr þorir skríða,
hann esa hlaðs við Gunni
hvílubráðr, und váðir.

Eftir Hallfreður vandræðaskáld.

 

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.