by Snæbjörn Guðmundson | 1.06.2016 | Fugl mánaðarins
Stuttnefja (Uria lomvia)
Stuttnefja.
Útlit og atferli
Stuttnefjan er fremur stór svartfugl sem svipar mjög til langvíu. Á sumrin er hún svört að ofan en hvít að neðan, síður eru hvítar án ráka. Hvítir jaðrar armflugfjaðra mynda ljósa rák á aðfelldum væng. Á veturna teygist hvítur litur bringunnar upp á kverk. Goggur er svartur, oddhvass með hvítri rönd á jaðri efra skolts, röndin helst á veturna. Grunnlitur fóta er svartur og augu svört. Gefur frá skvaldrandi hljóð, rofið af rámu gargi um varptímann.
Svipar í mörgu til álku og langvíu. Höfuðlag er þó annað, stuttnefja er auk þess hálslengri og stélstyttri en álka. Hún flýgur með kýttan háls. Á erfitt um gang, situr á ristinni. Auðgreindust frá langvíu á hvítum síðum, dekkri lit að ofan, styttri og þykkari goggi með hvítri goggrönd, brattara enni og kantaðri kolli, á veturna á svörtum vöngum. Höfuðlag er annað en á álku, auk þess er stuttnefja hálslengri og stélstyttri. Hún flýgur með kýttan háls og er fimur kafari. Er afar félagslynd.
Stuttnefja til vinstri og langvía (Urea aalge) til hægri.
Stuttnefja í vetrarbúningi við Þorlákshöfn. Ljósmynd: Óli Jóhann Hilmarsson.
Lífshættir
Stuttnefja kafar eftir fæðunni og knýr sig áfram með vængjunum neðansjávar líkt og aðrir svartfuglar. Aðalfæðan er loðna, en hún tekur einnig síli, síld, annan smáfisk, ljósátu og marflær.
Stuttnefja verpur í stórum byggðum í fuglabjörgum. Hún verpur aðeins einu eggi og er því orpið á berar syllur, hreiðurgerð er engin. Stuttnefja verpur á mjórri syllum en langvía og stundum í stökum pörum. Er á sjó utan varptíma og er meiri úthafsfugl en langvía. Ungi yfirgefur varpsyllu löngu áður en hann er fleygur, um þriggja vikna gamall, um miðjan júlí. Þá kastar hann sér fram af varpsyllunni, veifandi vængstubbunum og reynir að elta annað foreldrið út á sjó. Stundum eru þeir óheppnir, lenda í urðum undir björgunum eða í tófukjafti, ef þeir ná ekki til sjávar. Björgin tæmast venjulega síðla júlímánaðar.
Stuttnefjur á sundi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Útbreiðsla og ferðir
Mjög stór hluti íslenska stofnsins verpur í stóru vestfirsku björgunum, Látra-, Hælavíkur- og Hornbjargi. Stuttnefju fækkaði um 44% á árunum milli 1983 og 2008 og er hún nú á válista. Fækkunin er sums staðar enn meiri. Í Skoruvíkurbjargi á Langanesi fækkaði henni um 82% á árunum 1986-2014. Stuttnefjan er hér á suðurmörkum útbreiðslu sinnar og er fækkun hennar rakin til hlýnunar sjávar og gróðurhúsaáhrifa; veiðar Grænlendinga eru taldar hafa slæm áhrif á minnkandi stofninn. Örlög hennar verða kannski þau sömu og haftyrðilsins.
Vetrarstöðvar íslenskra fugla eru norður af landinu, undan NA-landi. Það eru þó að einhverju leiti fuglar frá Bjarnarey og Svalbarða, sem þar hafa vetursetu. Eitthvað af íslenskum fuglum er út af Scorebysundi á Austur-Grænlandi. Aðalvetrarstöðvarnar eru þó líklega við Suðuvestur- og Suður-Grænland og teygja þær stöðvar sig á átt að Reykjanesskaga í NA og Nýfundnaland í SV. Þessar upplýsingar hafa fengist á allrasíðustu árum með notkun gagnarita; það er agnarlítið tæki, sem fest er á fót fuglsins. Frekari rannsóknir eiga væntanlega eftir að leiða enn frekar í ljós ferðir stuttnefjunnar.
Stuttnefjur í bjargi.
Friðun stuttnefju við Grænland
Snemma í mars sendi Fuglavernd eftirfarandi áskorun til grænlenskra stjórnvalda um friðun stuttnefju, en íslenskir fuglar eru mikið veiddir við strendur landsins:
Fuglavernd skorar á Grænlensk stjórnvöld að hlífa stuttnefjunni. Það hefur vakið athygli umheimsins að grænlenska landsstjórnin hefur heykst á að friða stuttnefjuna, þrátt fyrir að fjöldi aðvörunarbjalla hafi hringt undanfarin ár um að hún stæði á barmi útrýmingar. Fuglavernd ásamt fuglaverndarsamtökum í Danmörku, Noregi, Bandaríkjunum og Alþjóðasamtökum BirdLife International hafa skorað á grænlensku landsstjórnina að stöðva alla veiði á stuttnefju. Það stefnir í að veiðar útrými tegundinni sem varpfugli í Grænlandi á fáum árum en gríðarlegt veiðiálag er á fugla við Vesturströnd Grænlands. Stuttnefjum sem verpa hér við land hefur fækkað mikið á síðustu árum og er talsvert af þeim drepið á vetrarstöðvum vestur af Suður-Grænlandi. Þar eru bæði mikilvægar varpstöðvar grænlenskra stuttnefja og vetrarstöðvar íslenskra. Fuglaverndarsamtökin skora á landsstjórnina að nýta náttúruauðlindir á sjálfbæran hátt.
Þjóðtrú og sagnir
Lítið er að finna um stuttnefjuna sjálfa í íslenskri þjóðtrú, en hún er tekin með öðrum svartfuglum. Þeir eiga að vita fyrir óveður og fljúga að landi 2-3 dögum á undan norðanstormum. Svartfuglarnir áttu líka að vita fyrir góðan afla.
Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.
by Snæbjörn Guðmundson | 4.05.2016 | Fugl mánaðarins
Óðinshani (Phalaropus lobatus)
Óðinshani, kvenfugl. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Útlit og atferli
Óðinshani er með allra síðustu farfuglunum sem birtist hér á norðurhjara. Hann er smávaxinn og fínlegur fugl á stærð við lóuþræl. Óðinshaninn er gráleitur að ofan, fremur dökkur á sumrin en ljósari á vetrum og ljós að neðan. Í sumarbúningi hefur hann breiðan, rauðgulan kraga um hálsinn og hvítan blett í kverkinni. Höfuð, afturháls og bringa eru annars grá. Bakið er dökkt með gulleitum langrákum. Litur kvenfuglsins er skærari en karlfuglsins. Hann er hvítur að neðan og með ljós vængbelti, gumpurinn er hvítur með svartri miðrönd sem nær út á grátt stélið. Síðsumars og á veturna er fuglinn ljósblágrár að ofan en hvítur að neðan, með dökka augnrák. Ungfugl er svipaður en dekkri á kolli, hnakka og afturhálsi; á baki svipaður og fullorðinn fugl í sumarbúningi. Svartur goggurinn er grannur og fíngerður og augun dökk. Fætur eru dökkgráir með sundblöðkum.
Óðinshani í vetrarbúningi.
Óðinshaninn flýgur hratt og flöktir mikið. Oftast sést hann á sundi. Hann liggur hátt í vatninu og skoppar á vatnsborðinu. Óðinshani er spakur fugl og félagslyndur utan varptíma.
Óðinshanahjón á góðri stundu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Í tilhugalífinu á kvenfuglinn frumkvæðið og það er karlfuglinn sem sér um álegu og ungauppeldi, en kerlan lætur sig hverfa strax eftir varpið og getur stundum verið í tygjum við fleiri en einn karl (fjölveri). Dömurnar safnast saman í hópa og frílista sig meðan karlarnir streða við uppeldið. Þessi femínismi er líka við lýði hjá hinum sundhönunum: þórshana og freyshana.
Nýklakinn óðinshanaungi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Femínismi í framkvæmd: Þrjár dömur elta einn herra. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Lífshættir
Óðinshani hringsnýst á sundi og þyrlar upp fæðu, dýfir gogginum ótt og títt í vatnið og tínir upp smádýr eins og rykmý, brunnklukkur, smákrabbadýr, tínir einnig rykmý af tjarnarbökkum og landi. Úti á sjó etur hann svif.
Algengur um land allt, einkum á láglendi, en finnst einnig víða á hálendinu. Uppáhaldsbúsvæði hans eru lífrík votlendi, t.d. gulstararflóð með tjörnum og kílum, og er þéttbýli mikið, t.d. í Mývatnssveit. Hreiðrið er dæld í þúfu, mosa eða sinu, ávallt vel falið. Er utan varptíma einkum við ströndina á sjávarlónum og tjörnum, en stórir hópar sjást einnig á sjó við landið. Hann hefur hér skamma viðdvöl. Úthafsfugl á veturna.
Óðinshani með gagnarita (ljósrita). Ritinn er innan við gramm að þyngd og fuglinn um 40 grömm. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Vetrarstöðvar óðinshana voru hjúpaðar leynd þar til í fyrra, en þá endurheimtist fugl norður í Aðaldal, sem bar agnarlítinn gagnarita eða ljósrita. Hann gat sagt okkur að vetrarstöðvarnar væru útaf ströndum Perú og suðaustur af Galapagos eyjum. Ótrúlegt hvernig þessi litli fugl getur lagt slíkar vegalengdir að baki. Varpheimkynni hans eru víða um norðanvert norðurhvelið.
Þjóðtrú og sagnir
Lítil þjóðtrú virðist fylgja óðinshananum. Tvö önnur nöfn vekja athygli, hann er sums staðar kallaður skrifari vegna þess hvernig hann hringsnýst á pollum og tjörnum og virðist skrifa á vatnsborðið með goggnum. Nafnið torfgrafarálft er ögn langsóttara, þó hann hafi verið algengur á torfgröfum (mógröfum).
Óðinshanahópur á sjó. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Óðinshaninn
Mín vegferð er vanrímað kvæði!
En í vatnsins spegilró
týnast óðar öll mín fræði,
svo ótt sem ég skrifa þó –
og þó – og þó?
Eftir Þorstein Valdimarsson
…
Og litlu neðar, einnig út við Sog,
býr Óðinshani, lítill heimsspekingur,
sem ég þarf helzt að hitta í góðu næði.
II
Hvað er að frétta, heillavinur minn?
—Hér hef ég komið forðum mörgu sinni,
og öll mín fyrstu óðinshanakynni
áttu sér stað við græna bakkann þinn.
Þá bjuggu hérna önnur heiðurshjón,
háttvís og prúð, og það er lítill vafi,
að hjónin voru amma þín og afi.
En hvað þið getið verið lík í sjón.
Já, gott er ungum fugli að festa tryggð
við feðra sinna vík og mega hlýða
bernskunnar söng, sem foss í fjarlægð þrumar.
Og megi gæfan blessa þína byggð
og börnum þínum helga vatnið fríða,
fugl eftir fugl og sumar eftir sumar.
…
Hluti af Þremur ljóðum um lítinn fugl eftir Tómas Guðmundsson.
Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.
by Snæbjörn Guðmundson | 1.04.2016 | Fugl mánaðarins
Heiðlóa, lóa (Pluvialis apricaria)
Heiðlóa, karlfugl í sumarbúningi. Ljósmynd Jóhann Óli Hilmarsson.
Lóan er komin að kveða burt snjóinn,
að kveða burt leiðindin, það getur hún.
Hún hefur sagt mér, að senn komi spóinn,
sólskin í dali og blómstur í tún.
Hún hefir sagt mér til syndanna minna,
ég sofi of mikið og vinni ekki hót.
Hún hefir sagt mér að vakna og vinna
og vonglaður taka nú sumrinu mót.
Eftir Pál Ólafsson.
Vorboðinn
Apríl er mánuður vorboðanna, farfuglanna, sem koma langan veg til að sinna kalli náttúrunnar í hinu bjarta, norræna sumri, sumir halda meira að segja áfram enn lengra í norður með stuttri viðkomu hér á landi. Lóan á sérstakan sess í hugum þjóðarinnar sem vorboði og jafnframt er hinn angurværi söngur hennar eitt af einkennishljóðum íslenska sumarsins.
Útlit og atferli
Heiðlóa, sem jafnan er nefnd lóa, er einkennisfugl íslenskra móa. Hún er meðalstór vaðfugl, töluvert minni en spói, allþéttvaxin og hálsstutt. Vængirnir eru fremur langir. Fullorðin lóa í sumarbúningi er svört að framan og neðan en gul- og dökkflikrótt að ofan. Svarti liturinn nær ofan frá augum aftur fyrir fætur. Á milli hans og gulflikrótta litarins á bakinu er hvít rönd. Hún hverfur á haustin eins og svarti liturinn og lóan verður þá ljósleit að framan og á kviðnum. Ungfuglar eru svipaðir. Vængir eru hvítir að neðan. Goggur er svartur, mun styttri en á flestum öðrum vaðfuglum. Fætur eru dökkgráir og augu dökk.
Lóa í vetrarbúningi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Heiðlóa í vetrarbúningi baðar sig. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Heiðlóur á flugi. Lóan er hraðfleygur fugl. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Lóan er hraðfleyg og hana ber einnig hratt yfir þegar hún hleypur um á jörðu niðri. Biðilsflug með hægum, djúpum vængjatökum og söng er einkennandi. Sé reynt að nálgast hreiður eða unga lóunnar þykist hún vera vængbrotin til að draga að sér athyglina og lokka óvininn burt. Það er kallað að hún barmi sér. Hún er félagslynd utan varptíma. Þekktustu hljóð lóunnar eru söngurinn á varptímanum, „dírrin-dí“ eða „dýrðin-dýrðin“, sem hún syngur bæði sitjandi og á flugi.
Lóa afvegaleiðir óvin frá hreiði. Það kallast að hún barmi sér. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Lífshættir
Lóan etur skordýr, t.d. bjöllur, áttfætlur, þangflugur, orma, snigla, skeldýr og eins ber á haustin. Hleypur ítrekað stutta spretti í ætisleit og grípur bráðina.
Karllóa með ánamaðk. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Kvenfugl með nýskriðinn unga. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Lóa verpur einkum á þurrum stöðum, t.d. í mólendi af ýmsum toga og grónum hraunum, bæði á láglendi og hálendi. Hreiðrið er opin laut milli þúfna eða á berangri, klætt með stráum. Lóan er utan varptíma aðallega í fjörum, lyngmóum og á túnum. Að áliðnu sumri fara lóurnar að safnast í hópa og búa sig undir brottför til vetrarheimkynnanna í V-Evrópu, aðallega á Írlandi, en einnig í Frakklandi, á Spáni og í Portúgal, þar sem þær dvelja við strendur og árósa. Lóan fer seint og kemur snemma, fyrstu lóurnar sjást venjulega í lok mars, þó aðalkomutíminn sé í apríl. Eitthvað af fuglum sést venjulega í fjörum fram í nóvember. Lóur sjást hér stöku sinnum á veturna. Lóan verpur einnig á Bretlandseyjum, Norðurlöndum og í Rússlandi.
Þjóðtrú og sagnir
Lóan er forspá um veður, hún gerist þögul á undan illviðrum á vorin, en syngur tveimur röddum, ef von er á sól og blíðu. Ef lóur hópa sig í fjörum, er það fyrir votviðri, en leiti þær til fjalla, er kuldi í vændum. Ef margar lóur hópa sig á haustin, er það fyrir hret.
Fólk leitaði lengi skýringa á því, af hverju farfuglarnir hyrfu á haustin og dúkkuðu svo aftur upp á vorin. Því var trúað, að þegar hausthret steðjuðu að, legðust lóurnar í dvala og svæfu allt til vors. Eru til sögur um að þær hafi fundist sofandi í klettagjótum og hellum, en vaknað ef þær voru bornar inn í hús. Sagt er að þær sofi með ungan birkikvist eða víðikvist í nefinu, sumir segja laufblað, og sé þetta tekið úr nefi þeirra, geti þær ekki vaknað aftur.
Heiðlóuhópur að hausti. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Lóan var ekki meðal þeirra fugla sem skapaðir voru í öndverðu. Þegar Kristur var barn, lék hann sér eins og önnur börn, og eitt sinn hafði hann það sér til gamans að búa til fugla úr leir. Þetta var á helgidegi. Þá bar að Sadúsea nokkurn. Hann ávítaði drenginn harðlega fyrir þetta, því að það væri helgidagsbrot og ætlaði síðan að brjóta allar leirmyndirnar. Þá brá Kristur hönd yfir þær og um leið lifnuðu allir fuglarnir.
Heylóarvísa
Snemma lóan litla í
lofti bláu „dírrindí“
undir sólu syngur:
„lofið gæsku gjafarans –
grænar eru sveitir lands,
fagur himinhringur.
Eftir Jónas Hallgrímsson.
Dirrindí
Með krús í hendi ég sat eitt sinn;
þá settist lóa við gluggann minn.
Í hennar augum var háð og spott,
og á hennar nefi var lóuglott
Hún söng dirrindí, dirrindirrindí,
bara dirrindí, dirrindirrindí.
En þó hún syngi bara dirrindí,
fannst mér vera þó nokkuð vit í því.
Úr Dirrindí eftir Jónas Árnason.
Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.
by Snæbjörn Guðmundson | 22.03.2016 | Fréttir
Alþjóðlegur dagur vatnsins er haldinn hátíðlegur 22. mars ár hvert. Í ár býður Íslenska vatnafræðinefndin og Íslenska UNESCO-nefndin til morgunverðarfundar á Veðurstofu Íslands fimmtudaginn 31. mars og hefst fundurinn kl. 08. Þemað að þessu sinni er vatn og vinna og hér er dagskrá morguverðarfundarins. Meira má lesa um vatnadag Sameinuðu þjóðanna á heimasíðu samtakanna.
Öskjuvatn í ágúst 2007. Ljósmynd: Kristján Jónasson.
Ísland er afar vatnsríkt land og þjóðin býr að einstaklega dýrmætri auðlind sem felst í hreinu og heilnæmu neysluvatni, jafnt heitu sem köldu, ótölulegu úrvali fallvatna og fossa og aragrúa stöðuvatna. Afrennsli af landi er með því mesta sem þekkist í Evrópu, um 55 l/s/ferkm, og óvíða á jörðinni er að finna jafn stór lindasvæði og á Íslandi. Um 20% afrennslisins er lindavatn, 60% eru dragár og 20% koma frá jöklum.
Á alþjóðavísu eru lindavötn á yngri móbergsmyndun Íslands mjög athyglisverð. Lindavötn á Íslandi og hraunumhverfi þeirra eiga vart sinn líka í Evrópu hvað varðar umfang og eðlis- og efnaeiginleika, sem grundvallast á berggerðinni, hinu unga, hripleka basalthrauni. Vatnafræðilegir eiginleikar lindavatna einkennast m.a. af hreinleika, steinefnaríku innihaldi og stöðugleika í hitastigi og rennsli.
Mývatn og Þingvallavatn eru bæði af gerð lindavatna og teljast til helstu náttúruperla landsins vegna vatnafræðilegra eiginleika og lífríkisins. Um bæði vötnin gilda sérlög sem ætlað er að vernda vistkerfin á heildstæðan hátt. Um Mývatn gilda lög nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu og um Þingvallavatn lög nr. 85/2005 um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess.
(more…)
by Snæbjörn Guðmundson | 1.03.2016 | Fugl mánaðarins
Sílamáfur (Larus fuscus)
Fullorðinn sílamáfur. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Útliti og atferli
Sílamáfur líkist svartbaki en er allmiklu minni og nettari, enda var hann kallaður litli-svartbakur fyrr á árum. Fullorðinn sílamáfur er dökkgrár á baki og yfirvængjum, með áberandi dekkri vængbrodda, svarta með hvítum doppum. Er að öðru leyti hvítur á fiður. Ungfugl á fyrsta hausti er allur dökkflikróttur, dekkstur stóru máfanna, líkist silfurmáfi en handflugfjaðrir og stórþökur eru dekkri (enginn „spegill“ eins og á silfurmáfi), stélbandið er breiðara og gumpurinn hlutfallslega ljósari en á silfurmáfi. Búningaskipti á öðru og þriðja ári eru svipuð og hjá silfurmáfi og svartbaki, þeir lýsast að neðan og dökkna að ofan og fá fullan búning á fjórða ári. Kynin eru eins útlits, en karlfuglinn er oftast heldur stærri.
Sílamáfur á öðru sumri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Fætur fullorðins sílamáfs eru gulir en ekki bleikir eins og á svartbaki. Goggur er gulur með rauðum bletti, augu ljósgul með rauðum augnhring. Ungfuglar á fyrsta ári eru með dökkbrúnan gogg og bleiklita fætur, á þriðja ári eru fætur ljósgulir.
Búningaskipti máfa, frá því að þeir skrýðast fyrsta ungfuglabúning og uns kynþroska er náð, eru afar flókin og er greining ungra máfa eitt erfiðasta verkefnið sem fuglaskoðarar standa frammi fyrir. Grámáfur er samheiti yfir unga, stóra máfa, en á ekki við neina eina tegund. Máfar skipta að hluta um fjaðurham á fyrsta hausti. Þá fella þeir höfuð- og bolfjaðrir. Eftir það skipta þeir um fjaðrir tvisvar á ári, á haustin (ágúst−október) fella þeir allt fiður, en höfuð- og bolfiður síðla vetrar (febrúar−apríl).
Fullorðinn sílamáfur. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Vængir sílamáfs eru mjórri og odddregnari en svartbaks og ná lengra aftur fyrir stélið þegar hann fellir þá að búknum. Hann er léttur á sundi. Sílamáfur er félagslyndur og algengur í þéttbýli, hann er spakari en svartbakur. Hann sækir meira í skordýr en aðrir stórir máfar. Röddin er hærri en svartbaks, en dýpri en silfurmáfs.
Lífshættir
Sílamáfur er með fjölbreyttan matseðil, en sandsíli og annar smáfiskur er þar ofarlega á lista. Leitar meira ætis á landi en aðrir stórir máfar, tekur þá m.a. skordýr og orma og fer í berjamó á haustin. Önnur fæða er t.d. hræ, úrgangur, egg og fuglsungar.
Hann verpur í mólendi og graslendi, á áreyrum, holtum, söndum og uppi á fjöllum, oftast við ströndina, en einnig inn til landsins, stundum í félagsskap við svartbak og silfurmáf. Hreiðrið er gert úr mosa, sinu og öðrum gróðri, oft staðsett milli steina eða þúfna.
Varpland sílamáfs. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Sílamáfapar. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Hreiður sílamáfs. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Nýfleygur sílamáfsungi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Varp sílamáfs hefst hérlendis í maí og verpur hann yfirleitt þremur eggjum. Ungarnir eru nokkuð sjálfbjarga þegar þeir klekjast og yfirgefa hreiðrið innan nokkurra daga en halda sig yfirleitt í grennd við það. Þeir verða fleygir á 30-40 dögum. Sílamáfar hefja varp að meðaltali fjögurra ára gamlir en geta orpið þriggja ára.
Heimkynni og ferðir
Sílamáfur er nýr landnemi á Íslandi Talið er að hann hafi fyrst orpið hér á landi á árunum upp úr 1920, en varp við sunnanverðan Faxaflóa hófst upp úr 1950. Nú finnst sílamáfur um allt land og fer honum fjölgandi, sums staðar á kostnað svartbaks að því er virðist. Stærsta varpið er á Miðnesheiði á Rosmhvalanesi, aðallega innan girðingar Keflavíkurflugvallar. Það náði 36.600 pörum árið 2004, en hefur væntanlega minnkað síðan vegna ætisskorts. Afkoma sílamáfs, eins og flestra annarra sjófugla á Suður- og Vesturlandi, hefur verið léleg undanfarinn áratug vegna skorts á sandsíli.
Sílamáfur er eini máfurinn sem er alger farfugl. Hann dvelur við strendur Pýreneaskaga og NV-Afríku á veturna. Heimkynni hans eru annars í V- og N-Evrópu, austur til Síberíu.
Sílamáfur í ætisleit. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Vorboðinn hrjúfi
Sílamáfurinn er venjulega fyrstur farfugla til að koma til landsins og er það oftast nær á góunni, meðalkomutími fyrstu fugla 1998-2013 var 25. febrúar. Hann er því fyrsti fleygi vorboðinn og hefur fengið viðurnefið vorboðinn hrjúfi. Þegar þessi orð voru sett á blað, 25. febrúar 2016, bárust fregnir af fyrsta sílamáfinum frá Helguvík á Suðurnesjum! Þetta sýnir hversu stundvísir og vanafastir fuglar geta verið.
Þjóðtrú og kveðskapur
Sílamáfurinn er svo nýr landnemi, að engin sérstök þjóðtrú hefur myndast um hann, ef undan er skilin sú óbeit sem margir hafa á þessum fallega fugli, vegna nálægðar hans við manninn. Sílamáfar eiga það til að ná í auðfengna fæðu, sem ekki er beint ætluð þeim: kjöt af grillum, brauð á Tjörninni, sorp á víðavangi, hangandi fisk … Hungrið gerir ekki „mannamun“.
Sílamáfur í ölduróti. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Fuglinn í fjörunni
Fuglinn í fjörunni
hann heitir már.
Silkibleik er húfan hans
og gult undir hár.
Er sá fuglinn ekki smár,
bæði digur og fótahár,
á bakinu svartur, á bringunni grár.
Bröltir hann oft í snörunni,
fuglinn í fjörunni.
Theódóra Thoroddsen.
Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.