by Snæbjörn Guðmundson | 15.04.2015 | Fréttir
Grunnsýning á íslenskri list og sjónrænum menningararfi verður opnuð í Safnahúsinu við Hverfisgötu laugardaginn 18. apríl n.k. Að sýningunni standa sex helstu menningarstofnanir þjóðarinnar á viði safnastarfs; Þjóðminjasafn Íslands, sem er rekstraraðili hússins, Listasafn Íslands, Náttúruminjasafn Íslands, Þjóðskjalasafn Íslands, Landsbókasafn- Háskólabókasafn og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Heiti sýningarinnar er Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim.
Á sýningunni er gestum boðið í leiðangur um sjónrænan menningaarf þjóðarinnar þar sem saman eru komnar margvíslegar gersemar; forngripir, listaverk, skjöl, handrit og náttúrugripir. Þetta er fyrsta sýningin sem Náttúruminjasafn Íslands, höfuðsafn þjóðarinnar á sviði náttúrufræða, tekur þátt í frá stofnun safnsins vorið 2007 og því er um merk tímamót að ræða.

Safnahúsið við Hverfisgötu 15.
Sýningarstjóri er Markús Þór Andrésson. Nálgast má upplýsingar um sýninguna á Facebook-síðu hennar hér. Á opnunardegi sýningarinnar verður jafnframt opnuð heimasíða sýningarinnar.
Grunnsýningunni er ætlað að standa í fimm ár en auk þess verður boðið upp á tímabundnar sérsýningar. Annars vegar er um að ræða sérsýningu í einu herbergi Safnahússins til eins árs, þar sem ákveðnu viðfangsefni tiltekins aðstandenda sýningarinnar verður gerð ítarleg skil. Hins vegar er svokölluð kjörgripasýning, hugsuð til hálfs árs eða svo, sem verður staðsett í stigaherbergi á 2. hæð fyrir miðju húsinu. Þar munu aðstandendur sýningarinnar kynna gersemar sem þykja einstaklega sérstakar og eða fágætar.
Náttúruminjasafn Íslands ríður á vaðið með sýningu á kjörgrip og er það geirfuglinn sem þjóðin eignaðist á uppboði í London 1971 eftir almenna fjársöfnun hér heima. Íslenski geirfuglinn er mikið fágæti og dýrmætur gripur en geirfuglinum var útrýmt af Jörðu um miðja 19. öld. Talið er að síðustu tveir fuglarnir hafi verið drepnir í Eldey í fyrstu viku júni árið 1884. Aðeins eru til um 80 geirfuglar og 75 geirfuglsegg í söfnum erlendis og eru flestir munirnir frá Íslandi. Íslenski geirfuglinn og eitt geirfugslegg eru varðveitt á Náttúrufræðistofnun Íslands.
by Snæbjörn Guðmundson | 7.03.2015 | Fréttir
Náttúruminjasafninu bættist nýverið öflugur liðsmaður í samstarfshópinn sem er Sigrún Helgadóttir líffræðingur og kennari með meiru en hún vinnur nú að ævisöguritun Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings, eins merkasta og þekktasta fræðimanns sem Íslendingar hafa eignast, að ógleymdum vinsældum hans meðal þjóðarinnar fyrir skemmtan og söngvísnasmíð.
Sigrún hóf ritun ævisögu Sigurðar á síðasta ári þegar farið var þess á leit við hana að hún tæki að sér verkið. Á árinu 2014 fékk hún þriggja mánaða laun úr Rithöfundasjóði til verksins og ein mánaðarlaunum til viðbótar frá Hagþenki. Á árinu 2015 hefur Sigrún fengið sex mánaðarlaun til verksins úr Rithöfundasjóði. Framlag Náttúruminjasafns Íslands til verksins felst til að byrja með í endurgjaldslausri skrifstofuaðstöðu í Loftskeytastöðinni. Málefnið er Náttúruminjasafninu skylt á margan hátt og nægir að nefna að Sigurður var um tíma formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags og forstöðumaður land- og jarðfræðideildar Náttúrugripasafns Íslands (nú Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruminjasafn Íslands).
(more…)
by Snæbjörn Guðmundson | 3.03.2015 | Fugl mánaðarins
Svanasöngur á heiði
Eg reið um sumaraftan einn
á eyðilegri heiði;
þá styttist leiðin löng og ströng
því ljúfan heyrði eg svanasöng,
já, svanasöng á heiði.
Steingrímur Thorsteinsson
Álft
Álftin (Cygnus cygnus) telst til andfugla (Anseriformes), til þeirra teljast svanir, gæsir og endur, sem reyndar tilheyra sömu ættinni, andaætt (Anatidae).

Álftin er stærsti varpfugl landsins. Hún er eini innlendi svanurinn og auðþekkjanleg frá öðrum íslenskum fuglum á stærð, lit og löngum hálsi. Kynin eru eins í útliti. Fullorðin álft er alhvít en tekur oft á sig ryðrauðan lit úr mýrarauða á höfuð og háls og nær sá litur stundum niður á bringu og kvið. Ungfuglar og fuglar á fyrsta vetri eru gráleitir en lýsast þegar líður á vetur og er að mestu orðinn hvítir að vori. Fætur eru svartir og augu dökk. Á fullorðinni álft er goggur svartur fremst með gulri rót sem nær aftur undir augu og fram undir nasir, ungfugl er með bleikan gogg með svörtum broddi. Flugið er kröftugt með sterklegum, hægum vængjatökum. Álftin teygir hálsinn beint fram á flugi en heldur honum lóðréttum á sundi. Hún hleypur á vatni þegar hún hefur sig til flugs. Félagslynd, venjulega í hópum nema á varptíma en þá verja hjónin óðal. Eins og aðrir andfuglar fella álftir flugfjaðrir síðsumars, eru þá ófleygar um tíma og er þá sagt að þær séu „í sárum“. Fegurð „svanasöngsins“ kann að vera umdeild, en hann minnir á lúðrablástur. Nafnið álft er talið dregið af latneska orðinu albus (hvítur).
Álftin er grasbítur, sem lifir mest á vatnagróðri eins og störum, fergini, mara og nykrum. Fer einnig í tún. Á grunnsævi og í sjávarlónum er marhálmur, lónajurt og grænþörungar aðalfæðan. Hálfkafar oft með afturendann uppí loft til að ná til botns í dýpra vatni.

Álftin heldur sig á vötnum, tjörnum og í votlendi á sumrin og verpur á bökkum, í hólmum eða mýrum. Hreiðrið er stór dyngja úr gróðri sem fuglarnir reyta upp, fóðrað með dúni. Álftir parast til langframa og þær nota oft sama hreiðurstæðið ár eftir ár. Kvenfuglinn ungar út eggjunum meðan karlinn stendur vakt og hjónin sjá saman um að ala önn fyrir ungunum. Ef annar makinn deyr, getur eftirlifandi fugl parað sig aftur og haldið óðalinu. Álftir geta orðið nokkuð gamlar, jafnvel náð þrítugsaldri.
Það þarf kraft til að halda svo þungum fugli á lofti, í raun ætti álftin ekki að geta flogið. Enda er aðalvopn þeirra vængirnir; ef óboðinn gestur nálgast hreiður eða unga, er þeim óspart beitt. Sumir karlfuglar geta verið skæðir, vitni eru að því að álftir hafi flogið uppá bakið á fé og barið það til bana. Einnig hafa álftir drepið hunda, tófur og barið í sundur stafi manna. En dýr gera flest til að vernda afkvæmi sín gegn meintum óvinum.

Kjörsvæði geld-, felli- og farfugla eru lífrík vötn, ár og óshólmar, einnig lygnir vogar og strandlón. Álftin verpur um land allt, geldfugla- og fellihópar eru víða en vetursetufuglarnir sjást aðallega á S- og SV-landi og Mývatni. Flestar álftir fljúga héðan til Bretlandseyja á haustin, aðallega til Írlands. Álftin verpur í N-Evrópu, austur um Rússland og Síberíu, allt að Beringssundi.
Nytjar
Forðum fóru menn í álftaver og náðu sér í álftir í soðið þegar þær voru ófleygar í fjaðrafelli. Hamirnir og þó sértaklega álftafjaðrir voru verslunarvara. Fjaðrirnar voru notaðar sem pennar. Þær mátti tína á þeim slóðum sem álftirnar felldu flugfjaðrir. Álftin hefur verið friðuð frá 1914. Stofninn er ekki stór, hann er nú um 30.000 fuglar og varppörin eru álitin milli 3000 og 4000.
Rómantík og sagnir
Álftin kemur víða fyrir í þjótrúnni. Hún er talin veðurviti, það þykir vita á gott, ef hún flýgur snemma vors til heiða, en ef hún flýgur til sjávar er von á vondum veðrum til landsins. Hún er talin kóngsdóttir í álögum vegna söngsins. Stundum brugðu illir andar sér í álftarlíki. Það er ef til vill undirrót hinnar íslensku þjóðtrúar um hinn hættulega anda eða blástur álftarinnar. Því var trúað hér á landi, að sá, sem álftin blési á, dytti niður steindauður. Þetta tengist gamalli þjóðtrú um andardrátt almennt. „Álftin hefur himneska rödd“, en helvískan anda segir gamalt íslenskt máltæki. Álftir og svanir koma fyrir í fjölmörgum fornum sögnum víða um heim og er sögnin um Ledu drottningu, sem Seifur heimsótti í svanslíki, sennilega þeirra frægust.

Á 19. öldinni hófst mikil svanarómantík hér á landi. Kom hún hvað mest fram í ljóðagerð. Fjölmörg íslensk skáld hafa ort um álftina, flest í rómantískum anda. Steingrímur Thorsteinsson, Einar Benediktsson, Jón Trausti og Halla Eyjólfsdóttir ortu öllum um svani. Með rómantíkinni fer svansheitið að tíðkast í mannanöfnum: Svanur, Svandís, Svanhildur, Svanhvít, Svana.
Hleyptu þeir á fannhvítum hestum yfir grund,
hornin jóa gullroðnu blika við lund,
eins og þegar álftir af ísa grárri spöng,
fljúga suður heiði með fjaðraþyt og söng.
Úr Álfareiðinni e. Heine, þýð. Jónas Hallgrímsson.
Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.
by Snæbjörn Guðmundson | 17.02.2015 | Fréttir
Aðalfundur Hins íslenska náttúrufræðifélags verður haldinn í sal Þjóðminjasafnsins laugardaginn 21. febrúar n.k. og hefst kl. 14. Í tilefni af aðalfundinum og alþjóðlegu ári jarðvegs mun Ólafur Arnalds, prófessor í jarðvegsfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands, flytja hátíðarfyrirlestur er ber nafnið „Því af mold ert þú“.

Ráðgert er að erindi Ólafs verði 30 mín. langt. Aðalfundarstörf Hins íslenska náttúrufræðifélags hefjast kl. 14.45. Gert er ráð fyrir að fundi ljúki upp úr kl. 16.
Útdráttur úr erindi Ólafs, „Því af mold ert þú“:
“Jarðvegur” er einkennilegt hugtak – hvaða “vegur” er þetta? “Vegur lífsins” væri rökrétt ályktun, en líklega á þessi vegur fremur rætur í plógfarinu og víst er að jarðvegsfræði óx upp úr akuryrkjunni. Afar mikilvægt er að festast ekki í því farinu, að skilja ekki moldina (more…)
by Snæbjörn Guðmundson | 6.02.2015 | Fréttir
Náttúruminjasafni Íslands var tilkynnt fyrirvaralaust með bréfi frá Þjóðminjasafni Íslands dags. 24. janúar s.l. að húsaleigusamningi við Náttúruminjasafnið í Loftskeytastöðinni væri sagt upp frá og með 1. febrúar 2015. Í uppsagnarbréfinu er jafnframt greint frá því að forsætisráðuneytið hafi samþykkt þann 13. janúar s.l. að færa yfirráð hússins og umsjón með því frá Þjóðminjasafninu til Háskóla Íslands.
Þessar ákvarðanir koma sér illa fyrir Náttúruminjasafnið og setja starfsemina og það uppbyggingarstarf sem átt hefur sér stað á undanförnu rúmu ári í uppnám. Í húfi er m.a. rannsóknasamstarf við háskólastofnanir. Ekkert samráð hefur verið haft við forstöðumann Náttúruminjasafnsins í þessu máli en málsaðilum kunnugt um brýna þörf Náttúruminjasafnsins á skrifstofuaðstöðunni í Loftskeytastöðinni og áhuga á áframhaldandi veru þar, a.m.k. á meðan stofnunin sinnir ekki sýningahaldi á eigin vegum sem hæfir höfuðsafni.
Í húsaleigusamningnum við Þjóðminjasafnið er ákvæði um 6 mánaða uppsagnarfyrirvara. Taki Háskólinn strax yfir allt húsið verður Náttúruminjasafnið að vera komið úr Loftskeytastöðinni með allt sitt hafurtask fyrir lok júlí n.k. Það er hins vegar óskandi að Náttúruminjasafnið fái áfram inni í Loftskeytastöðinni með skrifstofustarfsemi sína.