Samtök ferðaþjónustunnar á villigötum

Samtök ferðaþjónustunnar á villigötum

Samtök ferðaþjónustunnar á villigötum

„Það er sérlega miður að Samtök ferðaþjónustunnar, sem samanstanda af fjölda fyrirtækja sem reiða sig á náttúru Íslands og íslenska menningu, leggi stein í götu starfsemi höfuðsafns þjóðarinnar á sviði náttúrufræða líkt og gert er með kvörtuninni til Samkeppniseftirlitsins,“ segir Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður NMSÍ.

„Ábyrgð samtakanna er mikil þar sem þau eru í forsvari fyrir marga einkaaðila, en með kvörtuninni hafa þau gengið of langt og í raun sagt safnageiranum á Íslandi stríð á hendur. Það er miður, því ekkert bendir til annars en að nóg sé til skiptanna og ástæðulaust að láta þekkingar- eða skilningsskort á faglegri og samfélagslegri ábyrgð Náttúruminjasafnsins birgja sér sýn.“

 

Hilmar J. Malmquist kynnir starfsemi Náttúruminjasafnsins fyrir gestum

SAF og PN leggja fram kvörtun

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) ásamt Perlu Norðursins hf. (PN), rekstraraðila Perlunnar, lögðu fram kvörtun til Samkeppniseftirlitsins í janúar þar sem farið er fram á að Samkeppniseftirlitið rannsaki á grundvelli samkeppnislaga fyrirhugaða starfsemi Náttúruminjasafnsins í nýjum höfuðstöðvum safnsins, Náttúruhúsi í Nesi, á Seltjarnarnesi. SAF og PN telja að sýning Náttúruminjasafnsins, sem mun snúast um hafið og líffræðilega fjölbreytni, beinist gegn sýningu PN í Perlunni og að Náttúruminjasafnið, sem opinber stofnun og rekin fyrir almannafé, muni skekkja samkeppnisstöðu á markaði, einkaaðilum í óhag. SAF og PN líta svo á að ríkisframlag til sýningarhalds á vegum Náttúruminjasafnsins feli í sér „ólögmæta ríkisaðstoð“ og að skilja beri fjárhagslegan rekstur sýningar frá öðrum rekstrarþáttum í starfseminni.

En kvörtun SAF og PN beinist ekki einvörðungu að Náttúruminjasafninu heldur er nánast allur opinberi safnageirinn í landinu undir, þ.e. að farið er fram á að Samkeppniseftirlitið rannsaki „þau söfn og þær sýningar sem reknar eru af opinberum aðilum og eru í beinni samkeppni við einkaaðila.

 

Fjölmargar rangfærslur í furðulegri kvörtun

Hilmar segir röksemdafærslu SAF og PN furðulega, eigi sér enga stoð í lögum og að kvörtunin sé uppfull af rangfærslum og uppspuna um starfsemi Náttúruminjasafnsins og fyrirætlanir. Nánar má lesa um þetta í svari Náttúruminjasafnsins við kvörtuninni (sjá tengil hér fyrir neðan).

„Náttúruminjasafnið er eitt þriggja höfuðsafna á Íslandi sem rekið er af hinu opinbera fyrir almannafé og ekki í hagnaðarskyni og gegnir lögbundnum hlutverkum og skyldum á sviði söfnunar, skráningar, varðveislu, rannsókna og miðlunar. Meginmarkmiðið er að tryggja almenningi aðgengi að náttúru- og menningararfi landsins og vernda hann. Náttúruminjasafnið telst til grunnstoða samfélagsins á sviði menningar, mennta og vísinda. Einkaaðilar á borð við PN lúta ekki með lögboðnum hætti framangreindum leikreglum sem Náttúru­minjasafnið verður að starfa eftir, heldur er meginmarkmið þeirra að hámarka arð sinn.“  

 

Saman stöndum við, sundruð föllum við

„Það er sérlega miður að SAF, sem samanstendur af fjölda fyrirtækja sem reiða sig á náttúru Íslands og íslenska menningu, leggi stein í götu starfsemi höfuðsafns þjóðarinnar á sviði náttúrufræða líkt og samtökin gera með kvörtuninni,“ segir Hilmar. „Ábyrgð SAF er mikil þar sem þau eru í forsvari fyrir marga einkaaðila. Með kvörtuninni hafa SAF og PN gengið of langt og í raun sagt safnageiranum á Íslandi stríð á hendur. Það er miður því ekkert bendir til annars en að nóg sé til skiptanna og ástæðulaust að láta þekkingar- eða skilningsskort á faglegri og samfélagslegri ábyrgð Náttúruminjasafnsins birgja sér sýn. Mikilvægast er að hlúa að náttúru landsins, vernda líffræðilega og jarðfræðilega fjölbreytni og miðla fróðleik um hana til landsmanna og gesta landsins á vandaðan, áreiðanlegan og fjölbreyttan hátt. Það er höfuðverkefni Náttúruminjasafns Íslands og óskandi að sem flestir aðilar Samtaka ferðaþjónustunnar líti einnig svo á. Saman stöndum við, sundruð föllum við.”

 

Sjá frétt á visir.is

Kvörtun SF og PN 

Svar NMSÍ

Umsögn menningar- og viðskiðtaráðuneytis

Umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytis

Nýr vefur Náttúrufræðingsins

Nýr vefur Náttúrufræðingsins

Það er með sannri ánægju sem við segjum frá því að nýtt vefsetur Náttúrufræðingsins sem hefur verið í bígerð um nokkurt skeið hefur nú litið dagsins ljós. Vefinn er að finna á slóðinni natturufraedingurinn.is og eru útgefendur þeir sömu og standa að útgáfu tímaritsins, Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands.

Vefurinn mun þjóna því hlutverki að birta greinar sem birst hafa í Náttúrufræðingnum sem og annað efni sem tengist náttúrufræði almennt. Markmið og tilgangur vefsins er að vekja athygli á tímaritinu og breikka lesendahópinn með því að gera efnið aðgengilegra svo fleiri fái tækifæri til þess að lesa það. Með því vinnur Náttúrufræðingurinn að því að auka áhuga og þekkingu á náttúrufræðum, umhverfisvísindum og umhverfismálum og hafa þannig áhrif á viðhorf til náttúrunnar og verndunar hennar. Til að þjónusta lesendur framtíðarinnar er nauðsynlegt að þetta efni sé til á rafrænu formi sem stenst kröfur um notendavænleika og auðvelt er að nálgast.

Á vefnum er að finna síðustu þrjá árganga tímaritsins en unnið er að því að setja inn eldra efni. Einnig er hægt að skoða öll tölublöð tímaritsins frá 1. árgangi 1931, á timarit.is. Margrét Rósa Jochumsdóttir, sem tók við starfi ritstjóra Náttúrufræðingsins fyrir ári síðan og er jafnframt vefstjóri vefsetursins, hannaði og setti upp vefinn. Ingi Kristján Sigurmarsson grafískur hönnuður, sem sér um útlit og umbrot Náttúrufræðingsins, sá um að samræma útlit vefsins og prentuðu útgáfu Náttúrufræðingsins. Við erum afskaplega ánægð með árangurinn og ritstjóri þiggur með þökkum allar ábendingar og hugmyndir að efni í tölvupósti á netfangið ritstjori@hin.is.

 

 

Fróðleiksbrunnur Náttúruminjasafns Íslands

Fróðleiksbrunnur Náttúruminjasafns Íslands

Fróðleiksbrunnur Náttúruminjasafnsins

Í byrjun febrúar opnuðum við á Náttúruminjasafni Íslands Fróðleiksbrunninn okkar, nýjan fræðsluvef safnsins á slóðinni frodleiksbrunnur.is. Á Fróðleiksbrunninum má finna hvers kyns fræðslu og leiki tengda náttúrunni fyrir fólk á öllum aldri, sérstaklega yngri kynslóðirnar. Efnið hentar alls staðar, bæði sem námsefni í grunn- og leikskólum, en ekkert síður utan skólans – heima, í sumarbústaðnum eða jafnvel í tjaldútilegunni.

Fróðleiksbrunninum er skipt í nokkra hluta. Fyrst er náttúrufræðsla, safn margs konar fræðslutexta um ýmsa þætti íslenskrar náttúru, einkum tengt vatninu, hafinu og lífríki landsins. Með tíð og tíma munu bætast í þennan pott fleiri fjölbreyttir textar tengdir öðrum þáttum í umhverfi okkar og náttúru, svo sem jarðfræði, veðri og samhengi manns í náttúrunni. Í náttúruleit eru myndir og fróðleikur sem leiða gesti Fróðleiksbrunnsins áfram í könnun sinni og rannsókn á umhverfinu, til dæmis mismunandi vistkerfum, landslagi og náttúrufyrirbærum sem við sjáum allt í kringum okkur.

Náttúruteikningar innihalda teikningar af margs konar dýrum sem lifa í náttúru Íslands, ásamt forvitnilegum fróðleik um hvert þeirra. Náttúrutilraunir samanstanda af áhugaverðum tilraunum sem skemmtilegt er að glíma við og framkvæma heima eða í skólanum og náttúruþrautir innihalda orðaleit, völundarhús og stafarugl sem eru spennandi en gagnleg verkefni til að auka orðaforða og brydda upp á umræðum um náttúruna. Sérstakur hluti fróðleiksbrunnsins inniheldur lengri fræðslutexta sem henta kennurum í kennslu um afmarkaða þætti náttúrunnar og íslensks lífríkis.

Vefurinn og efni hans hefur verið í smíðum síðustu tvö árin og við á safninu erum mjög stolt af honum. Við vonum að allir náttúruvinir og gestir safnsins nýti hann sem allra mest, bæði í leik og starfi. Við þiggjum með þökkum allar ábendingar og hugmyndir tengdar Fróðleiksbrunninum í tölvupósti á kennsla@nmsi.is.

 

 

Stefna Náttúruminjasafnsins 2023-2027

Stefna Náttúruminjasafnsins 2023-2027

Stefna Náttúruminjasafnsins 2023-2027

„Þetta er langþráður áfangi í sögu Náttúruminjasafnsins“, segir Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður safnsins, en stefna Náttúruminjasafns Íslands 2023-2027 hefur verið samþykkt og birt opinberlega. Aðdragandann má rekja til ársbyrjunar 2008 en lokahnykkinn tók starfsfólk safnsins s.l. haust með aðstoð ráðgjafarfyrirtækisins SJÁ ehf. Viðbúið er þó að endurskoða þurfi stefnuskjalið fyrr en ella, enda eru miklar breytingar framundan hjá safninu þegar það flytur í nýjar höfuðstöðvar á Seltjarnarnesi, Náttúruhús í Nesi, á næsta ári eða því þarnæsta. 

„Fjölmargir innan safns og utan hafa komið að stefnumótuninni“ segir Hilmar, sem þakkar kærlega þeim öllum fyrir óeigingjarnt starf og vandað og gagnlegt framlag. „Stefnunni er ætlað að varða leið Náttúruminjasafnsins næstu fimm ár og styðja við metnaðarfulla, skilvirka og áhugaverða starfsemi þessarar stofnunar sem vinnur í almannaþágu. Stefnan er ekki meitluð í stein, heldur á hún að vera stöðugt til skoðunar, löguð að þörfum og kröfum samtímans.“

 

Forsíða Stefnu Náttúruminjasafns Íslands 2023–2027

Stefnu Náttúruminjasafnsins má finna á stefna.nmsi.is en einnig hlaða niður sem pdf-skrá.

Höfuðsafn á sviði náttúrufræða
Náttúruminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði náttúrufræða. Meginhlutverk safnsins er að stuðla að varðveislu náttúruarfs Íslands, afla þekkingar um hann og rannsaka, varpa ljósi á náttúrusögu landsins og náttúruspeki, styrkja safnkost og heimildasöfnun á sínu sviði og gera söfn sín aðgengileg almenningi og fræðimönnum. Safnið er þýðingarmikill hluti af formlegu og óformlegu menntakerfi landsmanna og gegnir mikilvægu samfélagslegu þjónustuhlutverki með sýningarhaldi og annars konar miðlun, útgáfu og þátttöku í samfélagsumræðu.

Gildi Náttúruminjasafnsins eru virðing, fagmennska, samvinna og miðlun 

Náttúruminjasafns Íslands bíða fjölbreytt og mikilvæg verkefni á 21. öld – verkefni sem snúast um rannsóknir, þekkingarmiðlun og fræðslu um náttúru landsins, furður hennar og fegurð, nytjar, ástand, hnattræn tengsl og aðsteðjandi ógnir. Fjaran við Gróttu er gósenland fyrir forvitna krakka þar sem safnkennarar Náttúruminjasafnsins munu leiða leik og starf. Ljósm. Helga Aradóttir.

Framtíðarsýn 

  • Náttúruminjasafn Íslands stefnir að því með starfsemi sinni auka lífsgæði og hamingju með því að efla skilning á þróun og stöðu náttúru Íslands og varpa ljósi á sambúð manna og náttúru í staðbundnu og hnattrænu samhengi.
  • Safnið stefnir að því að vera í fararbroddi í þekkingaröflun og faglegum vinnubrögðum á sviði safntengdra náttúrufræða og miðlunar og vera leiðandi í umræðu um náttúru og náttúruvernd á landsvísu og alþjóðavettvangi. Þá stefnir safnið að því að öðlast sem fyrst stöðu sem viðurkennd háskólastofnun. 
  • Náttúruhús í Nesi verður glæsileg, nútímaleg og eftirsóknarverð þekkingarmiðstöð og félaslegur vettvangur í sífelldri þróun og vexti þar sem áreiðanlegu efni um náttúru Íslands og jarðar er miðlað á lifandi hátt til gesta og gangandi. 

 

Skipulag 

Starfsemi Náttúruminjasafnsins er skipt í fjögur meginsvið auk skrifstofu forstöðumanns: 

1) framkvæmda- og rekstrarsvið, 2) safnasvið (söfnun, skráning, varðveisla), 3) rannsóknasvið og 4) miðlunarsvið.  

 Starfsemi framkvæmda- og rekstrarsviðs gengur þvert á faglegu sviðin þrjú, safnasvið, rannsóknasvið og miðlunarsvið. Starfsemi sviðanna skarast einnig að meira eða minna leyti.

Í stefnuskjalinu er fjallað um stefnu hvers sviðs fyrir sig, markmið og leiðir:  Stefnuna má finna á stefna.nmsi.is, en henni má einnig hlaða niður sem pdf-skrá.

Rostungurinn á Hvammstanga

Rostungurinn á Hvammstanga

Rostungurinn á Hvammstanga

Sérsýning Náttúruminjasafns Íslands um rostunga hefur verið flutt norður á Hvammstanga þar sem hún var opnuð með pomp og prakt á Selasetri Íslands síðastliðinn föstudag. Rostungar eru nú aðeins flækingar við strendur Íslands, sjást hér endrum og eins, og vekja alla jafna mikla athygli.

Nýleg rannsókn, sem Náttúruminjasafn Íslands átti frumkvæði að og vann með fleiri vísindastofnunum, varpar hins vegar nýju ljósi á tilvist rostunga til forna við Ísland. Rannsóknin staðfestir að á Íslandi lifði sérstakur íslenskur rostungsstofn í árþúsundir sem varð útdauður á tímabilinu 800–1200 e.Kr.

Páll L. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Selaseturs Íslands
Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, og Guðmundur Jóhannesson, stjórnarformaður Selaseturs Íslands

Á sýningunni er þessum merkilegu niðurstöðum gerð skil og fléttað saman við umfjöllun um líffræði rostunga almennt og útbreiðslu í dag, sem og við nytjar af rostungum til forna og hugsanlegum þætti þeirra í landnáminu.

Sýningin var fyrst sett upp í Dropanum, sérsýningarrými Náttúruminjasafnsins í Perlunni, en hún var upphaflega hönnuð með það í huga að verða síðar flutt og sett upp úti á landi. Við á Náttúruminjasafninu þökkum Selasetri Íslands, og sérstaklega Páli L. Sigurðssyni framkvæmdastjóra, fyrir að taka vel á móti sýningunni og okkur. Við getum vart hugsað okkur meira viðeigandi staðsetningu fyrir sýningu um hinn forna íslenska rostungastofn.