Stórmerkilegt steindasafn til Náttúruminjasafns Íslands

Stórmerkilegt steindasafn til Náttúruminjasafns Íslands

Stórmerkilegt steindasafn til Náttúruminjasafns Íslands

Bræðurnir Björn og Baldur Björgvinssynir frá Höskuldsstaðaseli í Breiðdal afhentu Náttúruminjasafni Íslands í dag safnkost sinn af íslensku bergi, steindum og steingervingum til eignar og varðveislu. Hér er um að ræða eitt stærsta og  merkasta safn holufyllinga og bergs í landinu og telur safnkosturinn 10-15 þúsund eintök. Flest eru úr heimabyggð þeirra í Breiðdal og nærliggjandi sveitum á Austurlandi en safnið hefur mikið vísindagildi vegna ítarlegarar skráningar á fundarstað, finnanda og fundardegi. Mörg eintök hafa mikið fágætisgildi og önnur eru undurfagrir skrautsteinar.

Hilmar J. Malmquist og Björn Björgvinsson að undirritun lokinni.

„Þetta er stór dagur í sögu Náttúruminjasafns Íslands,“ sagði Hilmar J. Malmquist forstöðumaður safnsins við afhendinguna í gær. „Safnið mun kappkosta að tryggja heildstæða og faglega varðveislu á þessum merka hluta af náttúruarfi landsins og nýta safnkostinn til fræðslu fyrir almenning og fræðasamfélagið.“

Safnkosturinn er staðsettur á Breiðdalsvík og í Höskuldsstaðaseli í Breiðdal og sagði Hilmar hann verða varðveittan og hýstan til frambúðar í Breiðdal. Ennfremur sagði hann að Náttúruminjasafnið stefni að því að setja upp sýningu á Breiðdalsvík sumarið 2022.

Þetta verkefni hefur verið í undirbúningi í þrjú ár en síðast liðið sumar unnu stúdentar á vegum safnsins að skráningu og ljósmyndun safnkostsins. Stefnt er að því að ljúka því verki sumarið 2021.

Bræðurnir Björn og Baldur ásamt Hilmari. Á skjánum fyrir aftan þá er Smátindafjall milli Berufjarðar og Breiðdals.

Skógarþröstur

Skógarþröstur

Rauðbrystingur á Barðaströnd

Skógarþröstur (Turdus iliacus)

Þessi söngfagri spörfugl er einkennisfugl íslenskra birkiskóga og garða í þéttbýli. Hann er meðalstór af spörfugli að vera, dökkmóbrúnn að ofan, hvítur eða ljósgulur að neðan. Bringa hans er alsett þéttum, dökkum langrákum, kviðurinn er minna rákóttur. Ljós, breið brúnarák og skeggrák, ásamt rauðbrúnum síðum og undirvængþökum, greina hann frá öðrum þröstum. Ungfugl síðsumars eru ljósari með ljósa fjaðrajaðra að ofan. Goggur er fremur sterklegur spörfuglsgoggur, gulleitur með dökkan brodd og mæni. Fætur eru ljósbrúnir og augu dökkbrún.

Um leið og skógarþrösturinn kemur til landsins á vorin byrjar karlinn að syngja og helga sér svæði. Fuglinn er félagslyndur utan varptíma og fer þá um í hópum. Hann hoppar oftast jafnfætis á jörðu niðri. Um varptímann einkennir ómþýður söngur skógarþröstinn og stundum syngur hann angurvært á haustin og veturna. Gefur auk þess frá sér hart og hvellt kallhljóð

Fullorðinn rauðbrystingur í vorbúningi á Patreksfirði.

Syngjandi skógarþröstur í Mývatnssveit.

Ungur rauðbrystingur í Eyrarbakkafjöru.

Skógarþröstur með fullvaxinn unga (t.v.) í Fossvogskirkjugarði.

.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Syngjandi skógarþröstur í Njarðvíkum. Toppurinn er athyglisverður.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Skógarþröstur ýfir sig til að halda á sér hita í vetrarkulda. Árbæjarhverfi í Ölfusi.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Nýkomnir skógarþrestir í vorhreti í Eyrarbakkafjöru.

Lífshættir

Skógarþrösturinn er bæði dýra- og jurtaæta, hann étur skordýr, áttfætlur, orma og bobba á sumrin og fæðir ungana á þeim. Síðsumars leggjast þrestirnir í berjamó og sækja síðan í reyniber og önnur ber í görðum. Fyrir vetrarfuglana er gott að leggja út epli, perur, fitu og kjötsag.

Skógarþröstur verpir í alls konar skóglendi á láglendi. Mesti þéttleikinn er í birkiskógi með ríkulegum undirgróðri, í görðum og ræktuðum skógi. Hreiðrið er karfa, ofin á undirstöðu úr leir, tágum og stönglum, staðsett í tré, gjarnan barrtré í þéttbýli, á jörðu niðri í kjarri, í skurðbökkum og á byggingum. Eggin (urptin) eru 4–6, þau klekjast á 12–13 dögum og ungarnir verða fleygir á 13–14 dögum. Ungarnir yfirgefa oft hreiðrin áður en þeir verða fleygir og mikil hætta er á að þeir lendi í kattarklóm þegar þeir verpa í húsagörðum. Það er enn í eðli unganna að hreiðrið sé á jörðu niðri eins og tíðkast hefur um aldir í íslenska birkikjarrinu. Skógarþrösturinn verpur iðulega tvisvar til þrisvar á sumri. Sést víða á fartíma, t.d. í fjörum og skógum.

Síðan um aldamót hefur frændi hans, svartþrösturinn, numið land og er hann að mestu leyti þéttbýlisfugl. Þeim frændum virðist koma vel saman þó að stundum slái í brýnu, enda eru þrestir einstaklingshyggjufuglar og eiga oft erfitt með að una öðrum fuglum að nýta sama svæði og þeir. Það getur kveðið svo rammt að vörnum skógarþrasta við hreiður, að þeir ráðast á fólk sem hættir sér of nærri og dæmi er um garðeigendur sem hafa ekki vogað sér út á meðan þrösturinn undirokar garðinn.

 

Útbreiðsla og stofnstærð

Skógarþrösturinn verpur á láglendi um land allt, um 99% stofnsins er talinn verpa neðan 300 m hæðarlínunnar. Hann er að mestu farfugl og fer til Vestur-Evrópu á haustin, mest til Bretlands, Írlands, Frakklands og Pýreneaskaga. Nokkur þúsund þreyja hér þorrann og góuna í þéttbýli. Varpheimkynni eru í norðanverðri Evrópu og Asíu. Íslenski skógarþrösturinn er sérstök undirtegund, Turdus iliacus coburni. Stofninn er talinn vera um 165.000 varppör. Hauststofninn er því væntanlega á bilinu 400.000–500.000 fuglar.

Þjóðtrú og sagnir

Skógarþrösturinn er veðurspáfugl. Þegar þrestir koma heim á bæi í góðu veðri, haust eða vor, er von á vondum veðrum. Sumir segja það merki um stórhríð í vændum ef þrestir koma heim að bæjum að haust- eða vorlagi. Talið er að álög meini þrestinum vetrarvist.

Ég bið að heilsa!

Nú andar suðrið sæla vindum þýðum,
á sjónum allar bárur smáar rísa
og flykkjast heim að fögru landi Ísa,
að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.

Ó! heilsið öllum heima rómi blíðum
um hæð og sund í drottins ást og friði;
kyssi þið, bárur! bát á fiskimiði,
blási þið, vindar! hlýtt á kinnum fríðum.

Vorboðinn ljúfi! fuglinn trúr sem fer
með fjaðrabliki háa vegaleysu
í sumardal að kveða kvæðin þín!

Heilsaðu einkum ef að fyrir ber
engil með húfu og rauðan skúf, í peysu;
þröstur minn góður! það er stúlkan mín.

Jónas Hallgrímsson

 

Vorið góða

Vorið góða, grænt og hlýtt,
græðir fjör um dalinn,
allt er nú sem orðið nýtt,
ærnar, kýr og smalinn.

Kveður í runni, kvakar í mó
kvikur þrastasöngur;
eins mig fýsir alltaf þó:
aftur að fara’ í göngur.

Jónas Hallgrímsson

 

Nú haustar að

Einhverja nóttina koma skógarþrestirnir
að tína reyniber af trjánum
áður en þeir leggja í langferðina yfir hafið,
en það eru ekki þeir sem koma með haustið
það gera lítil börn með skólatöskur.

Vilborg Dagbjartsdóttir

 

Þrastarhreiðrið

Ég veit um lítið leyndarmál
Í lágu, fögru tré.
Í gengum ljósgrænt limið þess
ég lítinn bústað sé.

Ég á mér ljúfan, lítinn vin
er ljóð um ástir söng.
Við gluggann minn hann kvað oft kátt
um kvöldin björt og löng.

Með hagleik sá ég húsið reist
og hoppað grein af grein
og stráin fest þar eitt og eitt
en aldrei mistök nein.

Það varð að hafa hraðan á,
í húfi mikið var.
Og bólið þurfti að vanda vel
allt vott um kærleik bar.

Svo komu eggin ofursmá,
þau urðu að lokum sex.
Og móðurástin annast þau
hún eykst og stöðugt vex.

Þótt úti vorið andi svalt
sinn yl hún gefur þeim,
sem kominn er um langa leið
til landsins kalda heim.

Ég gægist út um gluggann minn
það gleður hug og sál
að horfa á grænt og gróið tré
sem geymir leyndarmál.

Margrét Jónsdóttir

Hópur rauðbrystinga í Flóa.

Skógarþrastarhreiður í Laxárdal í S-Þingeyjarsýslu.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Skógarþröstur á hreiðri í birki í Kjarnaskógi.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Skógarþröstur að gefa ungum í Lambhagahverfi í Reykjavík.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Skógarþrestir eigast við í Eyrarbakkafjöru.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Skógarþröstur baðar sig á Húsavík.

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson

Ný sýn á þróun lífs

Ný sýn á þróun lífs

Skúli Skúlason prófessor við Háskólann á Hólum og sérfræðingur á Náttúruminjasafni Íslands birti nýlega yfirlitsgrein ásamt samstarfsfélögum sínum í tímaritinu Biological Reviews þar sem fjallað er um nýja sýn á þróun lífvera. Greinin ber heitið A way forward with eco evo devo: an extended theory of resource polymorphism with postglacial fishes as model systems og má lesa hér.

Skúli Skúlason o.fl. 2019

Í ágripi greinarinnar kemur fram að meginmarkmið líffræðilegrar þróunarfræði er að skilja og skýra hvernig fjölbreytileiki lífvera (líffræðileg fjölbreytni, e. biodiversity) verður til og hvernig lífverur breytast í tímans rás. Þó þekking á þessu hafi aukist mikið á undanförnum árum er mörgum spurningum enn ósvarað um orsakir breytileika í svipfari lífvera, hvernig hann verður til og á hvaða hátt hann mótast af náttúrulegu vali.

Höfundar hvetja til þess að takast á við viðfangsefnið með því að skoða í samhengi vist-, þróunar- og þroskunarfræðilega þætti (kallað á ensku eco, evo, devo). Þannig er tekið mið af því annars vegar að hið vistfræðilega umhverfi (eco) mótar þroskun svipgerða (devo), samhliða því að leggja grunn að náttúrlegu vali þeirra (eco – evo); og hins vegar að lífverur geta haft mótandi áhrif á umhverfið sem þær þroskast og þróast í (eco – evo og eco – devo feedbacks). Gagnsemi eco – evo – devo nálgunarinnar kemur vel fram þegar hún er tengd við kenningu um þróun fjölbrigðni innan tegunda (e. theory of resource polymorphism) og er þróun ólíkra afbrigða hjá mörgum tegundum ferskvatnsfiska á norðurslóðum, t.d. bleikjuafbrigða í Þingvallavatni, sérstaklega áhugaverð í þessu sambandi. Rannsóknir sýna að þróun þessara afbrigða er hröð og stafar af: 1) fjölbreyttu umhverfi sem veldur rjúfandi vali (þar sem aðskilin afbrigði myndast) innan stofna og tegunda; 2) þroskunarferlum sem eru næmir fyrir áhrifum umhverfis- og erfðaþátta; og 3) eco–evo og eco–devo áhrifum fiskanna á umhverfi sitt sem geta mótað hvernig náttúrlegu vali, sem og sveigjanleika svipgerða, er háttað. Sagt er frá viðeigandi dæmum þessu til stuðning, sett fram líkan um tilurð fjölbrigðni sem samþættir eco – evo – devo nálgun, og bent á mikilvægar rannsóknarspurningar og tilgátur sem þarfnast skoðunar.

Spói

Spói

Spói (Numenius phaeopus)


 

Útlit og atferli

Spói er stór vaðfugl, háfættur og rennilegur. Hann er grábrúnn með ljósum fjaðrajöðrum að ofan, á bringu og niður á kvið en annars ljós á kviði og neðan á vængjum, með dökkbrúnan koll og augnrák en ljósa brúnarák og kverk. Hvítur gumpur og neðri hluti baks eru áberandi á flugi. Stél er þverrákótt og vængendar dökkir. Ungfugl er svipaður en goggur styttri og beinni.

Langur, grábrúnn goggurinn er boginn niður á við og einkennir fuglinn mjög. Langir fæturnir eru blágráir og augun eru dökk með ljósum augnhring.

Á flugi þekkjast spóar á hröðum vængjatökum. Þeir fljúga oft um í hópum síðla sumars, áður en þeir yfirgefa landið. Spóinn er annars fremur ófélagslyndur. Hann tyllir sér oft á háan stað, t.d. fuglaþúfu, og vellir. Söngur spóans, vellið, er eitt af einkennishljóðum íslenska sumarsins. Að auki gefur hann frá sér ýmis flauthljóð.

 

Spói á fuglaþúfu í Friðlandinu í Flóa.

Spói á flugi á Stokkseyri.

Spói á fuglaþúfu í Friðlandinu í Flóa.

Kjói og spói verpa gjarnan nærri hvor öðrum og eiga í eilífum erjum. Samband þeirra er eins konar ástar/haturssamband. Myndin er tekin á Brunasandi.

Lífshættir

Helsta fæða spóa eru skordýr, köngulær, sniglar, ormar, krabbadýr og ber. Langur goggurinn nýtist vel til að grípa fæðu á yfirborði og til að grafa í mjúkan leir.

Varpkjörlendi spóans er bæði í þurru og blautu landi en þéttleikinn er mestur í hálfdeigjum og þar sem mætast votlendi og þurrlendi. Hann verpur líka í lyngmóum, grónum hraunum, blautum mýrum og hálfgrónum melum og söndum. Urptin er fjögur egg eins og hjá flestum vaðfuglum. Hreiðrið er sinuklædd grunn laut í lágum gróðri, venjulega óhulið. Álegutíminn er fjórar vikur og verða ungarnir fleygir á 5-6 vikum. Er utan varptíma oft í túnum en sést sjaldan í fjörum. Þar má aftur á móti finna stóra bróður spóans, fjöruspóann, sérstaklega á veturna á SV- og SA-landi.

Spóaungi í Mýatnssveit.

Spói í berjamó í Mývatnssveit.

Stóri bróðir spóans, fjöruspói, er stærri og með lengri gogg, en hann vantar höfuðrákirnar, sem einkenna spóann. Hann er vetrargestur og strjáll varpfugl á Íslandi.

Spóar á farflugi við Dyrhólaey.

Útbreiðsla, ferðir og stofnstærð

Spóinn er farfugl. Hann er algengur á láglendi um land allt en strjáll á hálendinu. Vetrarstöðvarnar eru í Vestur-Afríku sunnan Sahara og lítils háttar á Spáni og Portúgal. Nýlegar rannsóknir sýna að spóarnir geta flogið í einum rykk til Vestur-Afríku. Um 40% af spóum heimsins verpa á Íslandi. Við berum því mikla ábyrgð á spóastofninum. Verpur annars víða umhverfis Norður-Íshafið.

Farleiðir fjögurra spóa frá Íslandi til og frá Vestur-Afríku samkvæmt gögnum frá Háskólafélagi Suðurlands. Um haustið flugu spóarnir í einni striklotu til Afríku, um vorið stoppuðu tveir á Írlandi.

Þjóðtrú og sagnir

Ýmis veðurtengd þjóðtrú tengist spóanum. Spóahret er kallað kuldakast sem verður þegar spóinn kemur til landsins og er sagt að hann færi það með sér. Þá eru úti allar vetrarhörkur þegar spóinn langvellir. Þá er úti vetrarþraut þegar spóinn vellir graut. Sumir segja að þegar spóinn velli mikið, sé votviðri í aðsigi. – Merki Fuglaverndar er spói á fuglaþúfu, eitt helsta einkenni íslenska sumarsins.

Kveðskapur

Krumminn í hlíðinni
Krumminn í hlíðinni,
hann var að slá.
Þá kom lóa lipurtá
og fór að raka ljá.
Hann gaf henni hnappa þrjá
og bannaði henni að segja frá.
Svo kom spói spíssnefur
og hann sagði frá
prakkarinn sá!
Þó var ljáin ekki nema
hálft annað puntstrá.

Gömul þula.

Til þess í vor þig finnur frær
hinn varmi vestanblær,
vellandi spóinn hlær.

Úr Fuglavísum eftir Eggert Ólafsson.

 

Létt um móa lækur niðar
Létt um móa lækur niðar
leysir snjóa, úti er þraut
Vellir spói vindur kliðar
vetrarhró er flúið braut

Eftir Hörð Haraldsson.

 

Sá ég spóa
Sá ég spóa suð’r í flóa,
syngur lóa út í móa.
Bí, bí, bí, bí.
Vorið er komið víst á ný.

Heyló syngur sumarið inn
Heyló syngur sumarið inn
semur forlög gaukurinn
áður en vetrar úti er þraut
aldrei spóinn vellir graut.

Þjóðvísur.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Hátíð hafsins hjá Náttúruminjasafninu um helgina

Hátíð hafsins verður haldin nú um helgina 1.-2. júní og fjölmagir áhugaverðir viðburðir í boði um allt land fyrir gesti og gangandi. Náttúruminjasafnið tekur þátt í hátíðarhöldunum og býður upp á tvo viðburði. Á hafnardeginum, laugardaginn 1. júní kl. 13, flytur Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins erindi í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins, sem hann kallar „Af íslandssléttbökum í Kaupmannahöfn: íslenskur náttúruarfur eða danskur menningararfur.“ Á sjómannadeginum sunnudaginn 2. júní, býður Náttúruminjasafnið krökkum og fjölskyldufólki í Perluna til að kynnast forvitnilegum sjávardýrum – lifandi steinbítum, brimbútum, kross- og sogfiskum, Safnkennarar verða til taks og fræða krakkana um dýrin milli kl. 13 og 16. Ókeypis aðgangur verður að þessu tilefni inn á sýningu safnsins, Vatnið í náttúru Íslands, á 2 hæð í Perlunnai milli kl. 13 og 16.

 

Nánar um íslandssléttbakaerindið

Hilmar mun segja frá verkefni sem Náttúruminjasafn Íslands og Náttúrufræðisafn Danmerkur (Statens Naturhistoriske Museum, Zoologisk Museum) vinna að og fjallar um rannsókn á beinagrindum tveggja sléttbaka (Eubalaena glacialis) sem veiddust við Ísland 1891 og 1904 og eru varðveittar í Kaupmannahöfn. Sléttbakar, öðru nafni Íslandssléttbakar voru eitt sinn algengir í norðanverðu Atlantshafi en eru nú í mikilli útrýmingarhættu. Greint verður frá náttúrusögu tegundarinnar, heimildavinnu um hvalina tvo í Kaupmannahöfn, vikið að merku og nýuppgötvuðu framlagi Jóns lærða Guðmundssonar í tengslum við hvalina og sagt frá nýlokinni háskerpu þrívíddarskönnun á annarri beinagrindinni. Þá verður vikið að vinnu Náttúruminjasafnsins við að sannfæra Dani um að afhenda Íslendingum til langs tíma aðra beinagrindina, enda um náttúruarf að ræða sem tilheyrir Íslandi.

Íslandssléttbakur kominn á land á hvalstöð Victorsfélagsins á Höfðaodda (Framnesi) í Dýrafirði. Myndin er tekin 1891, sama ár og annar sléttbakurinn sem er í Kaupmannahöfn var veiddur. Ljósmynd: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.