Krumminn á skjánum,
kallar hann inn.Hrafn59
Gef mér bita af borði þínu,
bóndi minn!
Bóndi svarar býsna reiður,
burtu farðu, krummi leiður.
Líst mér að þér lítill heiður,
ljótur ertu á tánum,
krumminn á skjánum.

Þjóðvísa.

Útlit og atferli

Hrafninn (Corvus corax) er eini innlendi fulltrúi hröfnungaættarinnar á Íslandi. Hvert mannsbarn þekkir krumma, sem er bæði elskaður og hataður af þjóðinni. Hann er stærstur allra spörfugla, sterklega byggður, með fremur langa og breiða fingraða vængi og fleyglaga stél. Hann er alsvartur, fullorðinn hrafn er með græna eða fjólubláa gljáandi slikju á höfði og að ofan, úfnar fjaðrir á hálsi og fiðraðar skálmar. Ungfugl er móskulegur og án gljáa. Goggurinn er svartur, sver og sterklegur, efri skoltur fiðraður við rót. Fætur og augu eru svört.

Hrafn06at

Flug hrafnsins er þróttmikið, vængjatökin djúp og hann flýgur beint og oft hátt og lætur sig svífa á þöndum vængjum. Lætur sig oft falla með aðfellda vængi og leikur alls kyns fluglistir. Hoppar gjarnan jafnfætis. Hrafnar eru félagslyndir og halda sig í hópum eða pörum. Krunkið er dimmt og rámt, einnig heyrast gómskellur og fleiri hljóð.

Lífshættir

Hrafninn er alæta, etur hræ, úrgang, egg og unga, skordýr og ber, og fangar jafnvel fullorðna fugla. Auðvelt er að hæna hrafna að með matgjöfum og eru þeir sólgnir í flest allt sem fyrir þá er borið, þó helst fitu. Það þarf að gefa þeim á opnum svæðum, þeim er í nöp við gróskumikla húsagarða. „Guð launar fyrir hrafninn“.

Hrafn60a

Lögmál náttúrunnar er að eta eða vera etinn. Hrafninn tekur vissulega egg úr hreiðrum annarra fugla. Hann tímasetur varptíma sinn þannig – í apríl eða níu nóttum fyrir sumarmál samkvæmt þjóðtrúnni – að ungar hans klekjast um það leyti sem flestir fuglar eru á eggjum, þannig að þeir hafi nóg að bíta og brenna meðan þeir eru að vaxa úr grasi. En náttúran hefur gert ráð fyrir afráni sem þessu og það hefur afar sjaldan áhrif á stofnstærð eða afkomu bráðarinnar, þó vissulega sé óskemmtilegt að horfa uppá hrafna ræna eggjum frá öðrum fuglum.

Hrafninn verpur í klettum, giljum og hraunum á láglendi, en er sjaldgæfur ofan 400 m hæðarlínu. Á Suðurlandsundirlendi og víðar, þar sem skortur er á frambærilegum klettum, verpa hrafnar á alls konar mannvirkjum: súrheysturnum, rafmagnsmöstrum, auðum útihúsum o.fl., þeir hafa einnig orpið í trjám víða um land. Hreiðrið er mikill laupur úr alls kyns drasli, gripabeinum, sprekum og gaddavír, fóðrað með ull og fjöðrum. Varpfuglar dvelja nærri óðali sínu allt árið, en geldfuglar flakka um og dvelja í og við þéttbýli og nátta sig í hópum í klettum.

Hrafn49at

Hrafn_hreidur_c

Heimkynni

Hrafninn er staðfugl og einn fárra fugla sem finnast á hálendinu yfir háveturinn.
Varpheimkynni hans eru um mikinn hluta norðurhvels jarðar, en hann er þó orðinn fáséður víða þar sem þéttbýlast er.

Þjóðtrú og sagnir

Hrafninn er einn mesti þjóðsagna- og þjóðtrúarfugl Íslendinga. Hann er og þekktur spádóms- og gáfufugl. Huginn og Muninn voru spádómsfuglar Óðins og Hrafna-Flóki treysti á hrafna til að finna Ísland. Það er sagt að hrafnar haldi hrafnaþing tvisvar á ári, vor og haust, og að þeir semji sín á milli á vorþingum hvort þeir skuli vera óþekkir eða þægir. Það eru hópar geldfugla eða hrafnar á leið á náttstað, sem er kveikjan að sögninni um hrafnaþingin.

Hrafn38a

Um fáa fugla hefur jafnmikið verið ort og krumma. Hrafninn er með alskemmtilegustu og gáfuðustu fuglum, hann er auðtaminn og getur lært orð og setningar, sé rækt lögð við kennsluna. Það er þó ekki mælt með því að fólk taki sér hrafn sem gæludýr, þá er í meira ráðist heldur en flesta óar fyrir, auk þess sem slíkt er ólöglegt.

Hrafn65v

Seint flýgur krummi á kvöldin …

Krummi svaf í kletta gjá, –
kaldri vetrar nóttu á,
verður margt að meini;
verður margt að meini;
fyrr en dagur fagur rann
freðið nefið dregur hann
undan stórum steini.
undan stórum steini.

Allt er frosið úti gor,
ekkert fæst við ströndu mor,
svengd er metti mína;
svengd er metti mína;
ef að húsum heim ég fer,
heimafrakkur bannar mér
seppi´ úr sorpi´ að tína.
seppi´ úr sorpi´ að tína.

Öll er þakin ísi jörð,
ekki séð á holta börð
fleygir fuglar geta;
fleygir fuglar geta;
en þó leiti út um mó,
auða hvergi lítur tó;
hvað á hrafn að éta?
hvað á hrafn að éta?

Sálaður á síðu lá
sauður feitur garði hjá,
fyrrum frár á velli.
fyrrum frár á velli.
‘Krúnk, krúnk! nafnar, komið hér!
krúnk, krúnk! því oss búin er
krás á köldu svelli.
krás á köldu svelli.

Jón Thoroddsen.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.