93. árg.

92. árg.

Efni 92. árg. 1.–2. hefti Náttúrufræðingsins

Út er komið 1.–2. hefti Náttúrufræðingsins, 92. árgangs. Í heftinu er m.a. sagt frá rannsókn á Hallmundarhrauni í Borgarfirði, fuglum í Flatey sem fundist hafa alþaktir klístri af hunangsdögg í þurrum sumrum, sögu þjóðgarða og sambandinu á milli náttúruverndar og ferðaþjónustu, evrópskum eldmaurum sem fundust í Reykjavík og einum þekktasta hvalskurði Íslandssögunnar sem átti sér stað við bæinn Ánastaði árið 1882. 

Heftið er 74 bls. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Margrét Rósa Jochumsdóttir. 

 

Efni 92. árg. 3.–4. hefti Náttúrufræðingsins

91. árg.

91. árg.

Efni 91. árg. 1.–2. hefti Náttúrufræðingsins

Út er komið 1.–2. hefti Náttúrufræðingsins, 91. árgangs. Í heftinu er m.a. sagt frá fari þorsks við Íslandsstrendur og hvaða upplýsingar merkingar í hundrað ár hafa veitt um göngur, atferli og stofngerð íslenska þorsksins. Áfram er fjallað um ferðir yfir Vatnajökul fyrr og nú, sagt frá súlum sem leita á fornar varpslóðir á Hornströndum og lúsflugunni snípuluddu sem leggst á fiðurfé. Loks er fjallað um fuglakóleru sem drap æðarfugl í varpi á Hrauni á Skaga 2018 og 2019, um Gilsárskriðuna í Eyjafirði 2020 og grænþörunginn Ulothrix í ferskvatni á Íslandi.

Heimakærir þorskar

Þorskur er mikilvægasta tegund botnfiska á Íslandsmiðum. Mestur varð þorskaflinn 1954, tæp 550 þúsund tonn, en hefur verið um 260 þúsund tonn á síðustu árum. Þorskar eru merktir til að greina far, atferli og stofngerð en fyrsti þorskurinn var merktur hér við land 1904. Endurheimt merki sýna m.a. að eftir hrygningu við suðurströndina leitar þorskur aðallega á fæðusvæði norðvestur og austur af landinu og ennfremur að greina má þorskstofninn í tvær atferlisgerðir, grunnfarsþorska  sem halda sig á minna en 200 m dýpi allt árið, og djúpfarsþorska sem halda sig í hitskilum á fæðutíma. Þorskurinn sýnir tryggð við hrygningarsvæðin og þó egg og lirfur berist með straumum frá Íslandi til Grænlands leitar þorskurinn aftur til Íslands til að hrygna þegar kynþroska er náð. Höfundar greinarinnar eru Ingibjörg G. Jónsdóttir, Jón Sólmundsson, Einar Hjörleifsson, Magnús Thorlacius og Hjalti Karlsson.

Súla á hreiðri á Langakambi undir Hælavíkurbjargi 2016. Ljósm: Klaus Kiesewetter.

 

Súlur sækja á gömul mið

Súlur verpa nú á níu stöðum við Ísland, aðallega við sunnan- og vestanvert landið. Vitað er um fimm aðra staði þar sem súlur hafa orpið en þau vörp eru nú horfin. Talið er að súlur hafi ekki orpið á Hornströndum í tvær aldir en sumarið 2016 sást súla á hreiðri á Langakambi undir Hælavíkurbjargi. Fylgst hefur verið með tilraunum súlna til varps á þessum fornu varpstöðvum frá 2016 og á hverju ári hefur fundist stakur hreiðurhraukur á sama stað. Við athugun á eldri ljósmyndum kom í ljós að súlur höfðu byggt sér hreiður á Langakambi 2014. Því er ljóst að súlur hafa lengi verið að huga að mögulegu varpi á þessum slóðum. Höfundar eru Ævar Petersen, Christian Gallo og Yann Kolbeinsson.

Kortið sýnir helstu ferðir útlendinga um og yfir Vatnajökul 1875–1956. Uppdráttur: Guðmundur Ó. Ingvarsson.

Yfir þveran Vatnajökul

Hjörleifur Guttormsson hefur ritað þrjár greinar í Náttúrufræðinginn um ferðir yfir Vatnajökul allt frá því land byggðist og fram undir okkar daga. Þriðja og síðasta greinin nefnist Vatnajökull og grennd í tímans rás – Endurvakin kynni en breytt erindi. Hér er fjallað um ástæður þess að ferðir yfir Vatnajökul lögðust af og að hálendið varð flestum lokuð bók í hátt í tvær aldir. Síðla á 18. öld beindust sjónir manna hins vegar á ný að hálendisleiðum, þar á meðal fram með Vatnajökli norðan- og austanverðum. Sérstaklega er fjallað um Grímsvötn fyrr og síðar, en þau eru að líkindum nafngjafi Vatnajökuls.

Dauðar æðarkollur í varpi á Hrauni á Skaga vorið 2018. Ljósm. Merete Rabelle.

Fuglakólera í æðarvarpi

Fuglakólera leiddi til fjöldadauða í æðarvarpi á Hrauni á Skaga 2018 og 2019 og var það í fyrsta sinn sem veikin greindist hér á landi. Fuglakólera er bakteríusýking – alls óskyld þeirri sem veldur kóleru í mönnum ­– og er sjúkdómurinn einn af þeim skæðustu sem herjar á villta fugla. Oftast drepst allt að 30% fugla í varpi skyndilega án sýnilegra ytri einkenna og hefur pestin valdið dauðsföllum í æðarvörpum í N-Ameríku síðan um 1960 og í Evrópu síðan 1991. Oftast gengur sjúkdómurinn yfir á nokkrum árum.Þekktar mótvægisaðgerðir eru fáar en brýnast er að hindra að sýktir fuglar beri sjúkdóminn víðar. Höfundur greinarinnar er Jón Einar Jónsson.

Snípuludda og farþegar hennar

Fiðurmítlar og naglýs eru algeng sníkjudýr á fuglum. Lífsferill þeirra er einfaldur og tíðast að smitleiðin sé á milli fugla sömu tegundar, en lúsflugur geta líka komið við sögu sem smitferjur. Svavar Ö. Guðmundsson, Karl Skírnisson og Ólafur K. Nielsen leituðu svara við því hvaða sníkjudýr nýta sér lúsflugur til dreifingar milli fugla á Íslandi. Niðurstöðurnar sýna að ein lúsflugutegund, snípuludda, er landlæg hér og er lífsferli hennar lýst. Flugunni var safnað á 13 fuglategundum og á henni fundust þrjár tegundir fiðurmítla. Engin tilvik fundust um að naglýs festu sig við snípuluddu.

Auk framangreinds er í 1.–2. hefti Náttúrufræðingsins sagt frá sífrera í Gilsárskriðunni sem féll í Eyjafirði 6. október 2020 – höfundur er Skafti Brynjólfsson; grænþörungnum ullþræði Ulothrix í ferskvatni á Íslandi – höfundur er Helgi Hallgrímsson; ennfremur leiðara sem Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor ritar um Þjóðargersemi á miðhálendi Íslands, eftirmæli um Jakob Jakobsson, fiskifræðing sem lést í október 2020 og ritdóm um stórvirki Örnólfs Thorlacius, Dýraríkið, sem út kom að honum látnum á síðasta ári. Þá er í heftinu skýrsla stjórnar HÍN fyrir árið 2020 og reikningar félagsins fyrir sama ár.

Heftið er 92 bls. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir, líffræðingur.

Efnisyfirlit 1.–2. heftis Náttúrufræðingsins 91. árgangs.

Efni 91. árg. 3.–4. hefti Náttúrufræðingsins

Út er komið 3.–4. hefti Náttúrufræðingsins, 91. árgangs. Í heftinu er m.a. sagt frá brislingi sem er nýfundinn nytjafiskur við Ísland, mítlum sem húkka sér far með drottningarhumlum og sauðfé sem étur kríuegg og -unga. Forsíðuna prýðir hvít tófa í fjöru, en í heftinu er fyrsta grein af þremur um íslenska melrakkann og fjallar um stofnbreytingar, veiðar og verndun refastofnsins. Loks er gerð grein fyrir lifnaðarháttum og útbreiðslu skötuorms á Íslandi, stærsta íslenska hryggleysingjans sem þrífst í vötnum á hálendinu.

Heftið er 84 bls. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir, líffræðingur.

Refastofninn réttir úr kútnum

Sagt er að uppáhaldsbörn eigi sér mörg nöfn. Sama á við um refinn sem kallast m.a. tófa, melrakki, lágfóta og skolli. Melrakki er elsta heitið, komið úr norsku, en melrakkinn var eina landspendýrið sem fyrir var þegar landnámsmenn komu til Íslands. Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur, hefur ritað þrjár yfirlitsgreinar fyrir Náttúrufræðinginn um íslenska refinn. Í þeirri fyrstu fjallar hún um rannsóknir á íslenska refastofninum, stofnbreytingar, veiðar og verndun. Refir voru réttdræpir og feldur þeirra var verðmætur gjaldmiðill strax á þjóðveldisöld. Þeir voru loks friðaðir með lögum 1994 en veiðar þó áfram stundaðar í skjóli undanþáguákvæða. Á árinu 2015 var talið að stofninn væri stöðugur og teldi um 7 þúsund dýr. Nýjasta stofnmatið sýnir að stofninn hefur rétt úr kútnum og að haustið 2018 hafi hann talið um 8.700 dýr. Tvö litaafbrigði eru af íslenska refnum, hvítt og mórautt. Stór hluti stofnsins lifir á strandsvæðum og eru flestir mórauðir. Umtalsverður hluti stofnsins lifir hins vegar inn til landsins og þar er litarfar nokkuð jafnskipt milli hvítra og mórauðra refa. Ljósmyndina á forsíðu tók Einar Guðmann.

Laumufarþegar á humlum

Á vorin og haustin eru humludrottningar (Bombus-tegundir) oft þaktar gulleitum doppum sem í reynd eru lifandi mítlar (Acari). Guðný Rut Pálsdóttir og Karl Skírnisson sníkjudýra-fræðingar hafa rannsakað mítlana, kannað lífsferil þeirra og möguleg áhrif á humlur og bú. Skoðaðar voru 53 drottningar af þremur algengum humlutegundum. Allar báru þær mítla, allt uppí fjórar tegundir hver, en mítlarnir voru af fimm tegundum, og voru þrjár áður óþekktar hér á landi. Mítlarnir festa sig á drottningarnar og taka sér þannig far milli búa. Ein tegundin stundar hreinan nytjastuld í búunum þar sem hún lifir á frjókornum og blómasafa. Hinar tegundirnar fjórar þakka fyrir verðmætt fóður í búunum með því að þrífa, éta myglu og drepa og éta smádýr sem sækja í búið.

Hér má sjá með berum augum ásætumítillinn Parasitellus fucorum á móhumludrottningu (Bombus jonellus). Ljósm. Páll B. Pálsson.

Brislingur veiðist við Ísland

Brislingur (Sprattus sprattus) 15 cm langur og brislingskvarnir. Ljósm: Svanhildur Egilsdóttir og Guðrún Finnbogadóttir.

Með auknu innflæði hlýs sjávar á Íslandsmið frá 1996 hafa nýjar tegundir veiðst við Ísland. Ein þeirra er brislingur (Sprattus sprattus) sem veiddist í fyrsta sinn á Íslandsmiðum 2017 svo vitað sé. Á næstu árum fjölgaði brislingum og í tveimur leiðöngrum 2021 fengust nær 700 brislingar, flestir fyrir Suður- og Vesturlandi, en einnig í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi. Brislingur er smávaxinn uppsjávarfiskur af síldaætt, honum svipar til síldar en er þó hærri um sig miðjan, 11,5–15 cm. Brislingur er mjög algengur við strendur meginlands Evrópu allt suður til Afríku. Hann þykir góður matfiskur, ársaflinn í Eystrasalti og Norðursjó hefur verið 600–700 þúsund tonn og eru Danir stórtækastir.

Staðfest er að brislingur hrygndi við Ísland sumarið 2021 og það kann að auka líkurnar á því að þessi smávaxna fisktegund sé komin til að vera. Jónbjörn Pálsson, fimm starfsmenn Hafrannsóknastofnunar og einn starfsmaður Háskólaseturs Vestfjarða eru höfundar greinarinnar um þennan nýjasta nytjafisk við Íslandsstrendur.

Kind með tvö lömb á kafi í kríuvarpinu í Flatey. Ljósm. Kane Brides.

Kindur sem éta egg og unga!

Kindur eru grasbítar – eða hvað? Sumarið 2019 sást til kinda í Flatey á Breiðafirði sem ýttu kríu (Sterna paradisaea) af hreiðri sínu og átu síðan egg hennar. Sama sumar fundust bæði lifandi og dauðir kríuungar með hluta vængjar eða allan vænginn afstýfðan, svo og dauðir hauslausir ungar. Þetta endurtók sig sumrin 2020 og 2021 og voru ummerkin eins og vængur eða haus hefðu verið rifnir frá búknum. Engar líkur eru á að fuglarnir hafi misst væng eða haus við það að fljúga á rafmagnsvíra eða girðingar enda ungarnir enn ófleygir. Þetta er ekki einsdæmi – a.m.k. fjögur tilvik önnur eru tilgreind um unga- og eggjaát sauðkinda annars staðar á landinu: frá Bárðardal og Suðurlandi, þar sem um var að ræða lóu- og spóaunga, og frá Flatey á Skjálfanda og Mjóafirði þar sem um kríuunga var að ræða.

Höfundar greinarinnar eru Ævar Petersen, Sverrir Thorstensen, Scott Petrek og Kane Brides og segja þeir óljóst hversu víðtæk þessi hegðun er eða af hverju sauðfé gerist kjötætur. Sú skýring hefur verið nefnd að kindurnar vanti steinefni, en það er ekki staðfest.

Lifandi steingervingar

Hér má sjá með berum augum ásætumítillinn Parasitellus fucorum á móhumludrottningu (Bombus jonellus). Ljósm. Páll B. Pálsson.

Skötuormur (Lepidurus arcticus) er langstærsti hryggleysingi í ferskvatni á Íslandi, í útliti er hann eins og aftan úr fornöld og má kallast einkennisdýr í vötnum og tjörnum á hálendinu. Þóra Hrafnsdóttir og Þorgerður Þorleifsdóttir, líffræðingar, gerðu sér ferð í ferð í Veiðivötn á Landmannaafrétti sumarið 2019 ásamt hollenska listamanninum og ljósmyndaranum Wim van Egmond. Ferðin var farin á vegum Náttúruminjasafns Íslands í því skyni að taka ljósmyndir og kvikmyndir til fræðslu um þetta vatnadýr sem fáir hafa augum litið. Grein þeirra er e.k. ferðasaga og þar má finna lýsingar á útliti og lífsferli skötuormsins og frábærar ljósmyndir af þessu huldudýri.

Huldudýr á heiðum uppi

Skötuormar eru rándýr og éta allt sem að kjafti kemur, bæði lifandi og dautt, svo sem þörunga, vatnaflær og rykmýslirfur. Þeir eru jafnframt eftirsótt fæða silungs og vatnafugla. Myndin hér að ofan sýnir lóuþræl (Calidris alpina) tína upp í sig skötuorm í Gæsavötnum síðsumars 2017. Ljósm. Þórður Halldórsson. (Bombus jonellus). Ljósm. Páll B. Pálsson.

 

Þó fáir hafi heyrt um skötuorminn og enn færri séð þetta sérkennilega krabbadýr hefur skötuormur verið þekktur í landinu um aldir. Jón lærði Guðmundsson (1574–1658) nefnir hann trúlega fyrstur í riti sínu um Íslands aðskiljanlegar náttúrur (1640–1644) og kallar hann „vatnslúður“. Útbreiðslan hefur hins vegar verið á huldu þar til nú að Þorleifur Eiríksson, Þorgerður Þorleifsdóttir, Hrefna Sigurjónsdóttir og Hilmar J. Malmquist líffræðingar hafa tekið saman tiltæk gögn um hana frá tímabilinu 1780–2020. Alls voru skráðir 237 fundarstaðir skötuorma og staðfestir rannsóknin að skötuormur er fyrst og fremst hálendisdýr á Íslandi (yfir 90% í 200 m h.y.s., eða meira), og algengastur í tjörnum og grunnum vötnum í um 400 m hæð yfir sjávarmáli eða meira. Dýrið hefur fundist í öllum landshlutum, mest á norðan- og sunnanverðu miðhálendinu en síst á Vesturlandi.

Auk framangreinds er í nýjasta hefti Náttúrufræðingsins leiðari sem Droplaug Ólafsdóttir, formaður ritstjórnar Náttúrufræðingsins og starfsmaður vinnuhóps Norðurskautsráðsins um lífríkisvernd (CAFF) ritar um Að ná settu marki, eftirmæli um Svanhildi Jónsdóttur Svane, fléttufræðing sem lést 1916, og ritdómur um stórvirki Kristjáns Leóssonar og Leós Kristjánssonar, Silfurberg – Íslenski kristallinn sem breytti heiminum, sem út kom að Leó látnum á árinu 2020.

 

90. árg.

90. árg.

Efni 90. árg. 1. hefti Náttúrufræðingsins

Berghlaupið í Öskju 2014, sandauðnir á Íslandi og sjófuglatalningar með dróna eru meðal áhugaverðs efnis í 1.–2. hefti 89. árgangs Náttúrufræðingsins sem kominn er út.

Berghlaupsurðin í suðausturbrún Öskju. Ljósm. Kristinn I. Pétursson.

Flóðbylgjan sem fylgdi berghlaupinu í Öskju, 21. júlí 2014 náði 20–40 m hæð og er talin hafa borist yfir vatnið á einungis 1–2 mínútum. Hlaupið var eitt hið mesta sem orðið hefur á Íslandi á sögulegum tíma, um 20 milljónir rúmmetra. Það er jafnframt fyrsta berghlaup af þessari stærðargráðu sem rannsakað hefur verið ítarlega með nákvæmum mælingum og líkanagerð með samanburði gagna fyrir og eftir hlaupið. Mikið hefur verið ritað um hlaupið í erlend vísindarit en hér birtist í fyrsta sinn á íslensku yfirlit yfir rannsóknirnar ásamt fjölda ljósmynda og skýringarmynda.

Sandauðnir þekja rúmlega 20.000 km2landsins og hafa verið kallaðar „eyðimerkur Íslands“. Þær hafa víðtæk áhrif á vistkerfi landsins vegna áfoks sem frá þeim kemur. Um áratugaskeið hefur verið reynt að hefta áfok og framrás sandsins sem getur borist langar leiðir frá upprunastað og myndað „sandleiðir“ sem eru tugir kílómetra á lengd. Hér er fjallað um sanda og fok en síðar á árinu birtist grein um stærstu uppsprettur uppfoks á landinu og áfok.

Drottning Norður-Atlantshafsins hefur súlan verið kölluð. Ljósm. Sindri Óskarsson.

Hvað eru súlurnar í Eldey margar?
Drónar njóta vaxandi vinsælda, m.a. til rannsókna. Hér segir frá því hvernig nýta má dróna við talningar í sjófuglabyggðum og birtar niðurstöður talningar á súlu, ritu, fýl og selum sem héldu til á Eldey í júní 2017.

Errol Fuller er sjálfmenntaður fuglafræðingur og listmálari, en einnig ástríðufullur safnari. Ljósm. Gísli Pálsson.

Tvö geirfuglsegg í skúffunni
Rithöfundurinn og málarinn Errol Fuller sem er þekktur fyrir bók sína Geirfuglinn, er ástríðufullur safnari. Á heimili hans eru hundruð náttúrugripa frá öllum heimshornum, þar á meðal tvö geirfuglsegg! Í greininni Furðukames Fullerssegir frá heimsókn til Fullers og birtar ljósmyndir af óvenjulegu safni hans.

Af öðru efni í ritinu má nefna grein um vatnaþörunginn lækjagörn, leiðara um loftslagsvandann og aðgerðir íslenskra stjórnvalda, skýrslu stjórnar Hins íslenska náttúrufræðifélags og reikninga fyrir árið 2018 og umfjöllun um nýtt stórvirki í bókaútgáfu á Íslandi, ritið Flóra Íslands, eftir Hörð Kristinsson, Þóru Ellen Þórhallsdóttur og Jón Baldur Hlíðberg.

Þetta er 1.–2. hefti 89. árgangs Náttúrufræðingsins sem hóf göngu sína 1931 og er félagsrit Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Heftið er 72 bls. að stærð. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir líffræðingur. Að jafnaði eru gefin út fjögur hefti á ári. Félagsgjald og innifalin áskrift kostar 5.800 kr. og er veittur afsláttur fyrir stúdenta og hjón.

Efnisyfirlit 1.–2. heftis Náttúrufræðingsins 89. árgangs.

Efni 90. árg. 2.-3. hefti Náttúrufræðingsins

Hestar í haga, síldin sem hvarf, talningar mófugla, rykmyndun og gervigígar. Allt þetta og meira til er umfjöllunarefni í nýjum Náttúrufræðingi, 3.–4. hefti 89. árgangs sem kominn er út. 


Hestar eru félagslyndar skepnur og mynda mismikil tengsl við aðra og óskylda hesta. Þeir kljást og þeir slást – en af hverju? Hrefna Sigurjónsdóttir og Sandra Granquist hafa tekið saman niðurstöður 15 ára rannsókna á félagshegðun 426 hesta í 20 hópum. Niðurstöður sýna að samsetning hópsins hefur mikil áhrif á það hversu árásargjörn hrossin eru.

 Silfur hafsins.

50 ár eru liðin frá því ofveiði leiddi til hruns í þremur síldarstofnum við landið í lok 7. áratugar síðustu aldar. Sumargotssíldin tók við sér nokkrum árum síðar og norsk-íslenski vorgotssíldarstofninn tók að vaxa tæpum tveimur áratugum eftir hrunið. Íslenski vorgotssíldarstofninn hefur hins vegar enn ekki náð sér á strik. Guðmundur J. Óskarsson greinir frá rannsóknum á stöðu og afdrifum þessa áður mikilvæga stofns á árunum 1962–2016.

Hljóðaklettar og Rauðhólar í Jökulsárgljúfrum hafa til þessa verið taldir leifar af gossprungu frá nútíma. Ásta Rut Hjartardóttir og Páll Einarsson telja ýmislegt benda til þess að svo sé ekki, heldur séu þessar myndanir gervigígar og hraunstrúktúrar sem myndast hafi við samspil vatns og flæðandi hrauns skömmu eftir að ísaldarjökla leysti á svæðinu.

Þröstur minn góði …

Skógarþresti virtist fjölga nokkuð samkvæmt vöktun á mófuglum í Rangárvallasýslu 2011–2018 en þar hafa fuglarnir verið taldir árlega á 63 stöðum. Aðrar breytingar voru óverulegar á þessu tímabili. Tómas Grétar Gunnarsson og Böðvar Þórisson greina frá rannsóknunum en Íslendingar bera sérstaka ábyrgð á nokkrum stofnum mófugla, sem eru einkennisdýr hérlendis og af heimsstofni sem verpur á Íslandi að stórum hluta.

Uppfok frá Dyngjusandi barst í Loðmundarfjörð í ágúst 2012.

Rykmyndun á Íslandi er með því mesta sem þekkist í heiminum og nemur milljónum eða tugmilljónum tonna ár hvert. Rykið mótar öll vistkerfi á Íslandi og leggur til áfokið sem er móðurefni jarðvegs á Íslandi. Rykið hindrar endurkast sólarljóss og getur aukið bráðnun á yfirborði snævar, sem hvort tveggja hraðar loftslagsbreytingum á norðurslóðum. Ólafur ArnaldsPavla Dagsson-Waldhauserová og Sigmundur Helgi Brink fjalla um sandfok, ryk og áfok á Íslandi í síðari grein af tveimur um Sandauðnir, sandfok og ryk á Íslandi.

Af öðru efni í ritinu má nefna ritrýni um tvær bækur. Þær eru: Hvítabirnir á Íslandi eftir Rósu Rut Þórisdóttur og Mosar á Íslandi eftir Ágúst H. Bjarnason. Þá eru birt eftirmæli um Pál Hersteinsson dýrafræðing sem lést fyrir aldur fram á árinu 2011 auk greina Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúrufræðinginn. Félagið er 130 ára á árinu 2019 og tímaritið nírætt 2020 og eru með elstu félagasamtökum og tímaritum á landinu.

Þetta er 3.–4. hefti 89. árgangs Náttúrufræðingsins sem hóf göngu sína 1931 og er félagsrit Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Heftið er 92 bls. að stærð. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir líffræðingur. Að jafnaði eru gefin út fjögur hefti á ári. Félagsgjald og innifalin áskrift kostar 5.800 kr. og er veittur afsláttur fyrir stúdenta og hjón.

Efnisyfirlit 3.–4. heftis Náttúrufræðingsins 89. árgangs.

Efni 90. árg. 3.-4. hefti Náttúrufræðingsins

Hestar í haga, síldin sem hvarf, talningar mófugla, rykmyndun og gervigígar. Allt þetta og meira til er umfjöllunarefni í nýjum Náttúrufræðingi, 3.–4. hefti 89. árgangs sem kominn er út. 


Hestar eru félagslyndar skepnur og mynda mismikil tengsl við aðra og óskylda hesta. Þeir kljást og þeir slást – en af hverju? Hrefna Sigurjónsdóttir og Sandra Granquist hafa tekið saman niðurstöður 15 ára rannsókna á félagshegðun 426 hesta í 20 hópum. Niðurstöður sýna að samsetning hópsins hefur mikil áhrif á það hversu árásargjörn hrossin eru.

 Silfur hafsins.

50 ár eru liðin frá því ofveiði leiddi til hruns í þremur síldarstofnum við landið í lok 7. áratugar síðustu aldar. Sumargotssíldin tók við sér nokkrum árum síðar og norsk-íslenski vorgotssíldarstofninn tók að vaxa tæpum tveimur áratugum eftir hrunið. Íslenski vorgotssíldarstofninn hefur hins vegar enn ekki náð sér á strik. Guðmundur J. Óskarsson greinir frá rannsóknum á stöðu og afdrifum þessa áður mikilvæga stofns á árunum 1962–2016.

Hljóðaklettar og Rauðhólar í Jökulsárgljúfrum hafa til þessa verið taldir leifar af gossprungu frá nútíma. Ásta Rut Hjartardóttir og Páll Einarsson telja ýmislegt benda til þess að svo sé ekki, heldur séu þessar myndanir gervigígar og hraunstrúktúrar sem myndast hafi við samspil vatns og flæðandi hrauns skömmu eftir að ísaldarjökla leysti á svæðinu.

Þröstur minn góði …

Skógarþresti virtist fjölga nokkuð samkvæmt vöktun á mófuglum í Rangárvallasýslu 2011–2018 en þar hafa fuglarnir verið taldir árlega á 63 stöðum. Aðrar breytingar voru óverulegar á þessu tímabili. Tómas Grétar Gunnarsson og Böðvar Þórisson greina frá rannsóknunum en Íslendingar bera sérstaka ábyrgð á nokkrum stofnum mófugla, sem eru einkennisdýr hérlendis og af heimsstofni sem verpur á Íslandi að stórum hluta.

Uppfok frá Dyngjusandi barst í Loðmundarfjörð í ágúst 2012.

Rykmyndun á Íslandi er með því mesta sem þekkist í heiminum og nemur milljónum eða tugmilljónum tonna ár hvert. Rykið mótar öll vistkerfi á Íslandi og leggur til áfokið sem er móðurefni jarðvegs á Íslandi. Rykið hindrar endurkast sólarljóss og getur aukið bráðnun á yfirborði snævar, sem hvort tveggja hraðar loftslagsbreytingum á norðurslóðum. Ólafur ArnaldsPavla Dagsson-Waldhauserová og Sigmundur Helgi Brink fjalla um sandfok, ryk og áfok á Íslandi í síðari grein af tveimur um Sandauðnir, sandfok og ryk á Íslandi.

Af öðru efni í ritinu má nefna ritrýni um tvær bækur. Þær eru: Hvítabirnir á Íslandi eftir Rósu Rut Þórisdóttur og Mosar á Íslandi eftir Ágúst H. Bjarnason. Þá eru birt eftirmæli um Pál Hersteinsson dýrafræðing sem lést fyrir aldur fram á árinu 2011 auk greina Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúrufræðinginn. Félagið er 130 ára á árinu 2019 og tímaritið nírætt 2020 og eru með elstu félagasamtökum og tímaritum á landinu.

Þetta er 3.–4. hefti 89. árgangs Náttúrufræðingsins sem hóf göngu sína 1931 og er félagsrit Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Heftið er 92 bls. að stærð. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir líffræðingur. Að jafnaði eru gefin út fjögur hefti á ári. Félagsgjald og innifalin áskrift kostar 5.800 kr. og er veittur afsláttur fyrir stúdenta og hjón.

Efnisyfirlit 3.–4. heftis Náttúrufræðingsins 89. árgangs.