Maríuerla

Maríuerla

Maríuerla (Motacilla alba)


Útlit og atferli

Maríuerlan er lítill og kvikur spörfugl með langt stél sem hún veifar í sífellu. Fullorðin maríuerla er grá á baki og gumpi; kollur, kverk og bringa eru svört, enni og vangar hvít. Bringan er hvít, sem og ytri stélfjaðrir, vængir og miðhluti stéls dökk. Karlfugl er dekkri en kvenfugl. Ungfugl er móbrúnn á höfði með svartan díl á bringu.

Goggur er grannur, stuttur og svartur, fætur svartir og augu dökk. Maríuerla er af erluætt eins og þúfutittlingur.

Flug maríuerlunnar er bylgjótt. Sitjandi sveiflar hún löngu stélinu upp og niður í sífellu og kinkar kolli. Hún veiðir flugur á flugi eða á jörðu niðri, hleypur hratt. Maríuerlur eru venjulega stakar eða í litlum hópum.

Gefur frá sér fjörlegt og hvellt hljóð, síendurtekið.

Maríuerla fóðrar fullvaxinn unga í Suðurnesi á Seltjarnarnesi.

Maríuerluhreiður með nýklöktum ungum á Fljótshólum í Flóa.

Lífshættir

Maríuerlan er dýraæta, tekur einkum fiðrildi, bjöllur og tvívængjur. Hún veiðir bæði fljúgandi dýr og tínir þau upp af jörðinni, með kvikum hreyfingum og stuttum sprettum. Þekkt er það atferli maríuerlu að tína dauð skordýr af grillum og stuðurum bíla. Verpur á sveitabæjum, í þéttbýli, klettum við sjó, við vötn og ár og víðar á láglendi. Hreiðrið er karfa í holu eða gjótu, hlöðnum vegg, á sperru eða undir þakskeggi, í varpkassa, undir brú eða jafnvel í grenitré. Urptin er 5-6 egg, álegan tekur 13 daga og verða ungarnir fleygir á um tveimur vikum. Utan varptíma er hún oft í fjörum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Maríuerlan er alger farfugl. Stofnstærðin er talin vera 20.000-40.000 varppör og hún er ekki á válista. Hún flýgur til Vestur-Afríku á haustin. Varpheimkynni hennar eru um mestalla Evrópu og Asíu.

Maríuerla ber æti í unga við Jökulsá á Breiðamerkursandi.

Maríuerla í vetrarbúningi á Eyrarbakka.

Þjóðtrú og sagnir

Maríuerlan skipar stóran sess í hugum landsmanna og fylgir henni ýmiss konar þjóðtrú. Meðal annars sagði hún til um vorkomu og var vísir á skipakomur á vorin, því hún átti að koma siglandi yfir hafið. Hún spáði fyrir um dvöl manna. Maríuerla átti ekki að geta orpið fyrr en hún setti hár af hreinni mey í hreiðrið. Margir líkamshlutar hennar nýttust í galdra eða annað kukl. Í maga hennar er gæfusteinn. Í heiðni var hún kennd við gyðjuna Frigg, friggjarerla eða -elda. Mörg skáld hafa mært maríuerluna í ljóðum.

Ég bið að heilsa!

Bragurinn fer að batna nú hjá bræðrum erlu,
þeir dansa, hvísla, krymta og kvirla,
kæti sínum fóstra byrla.

úr Fuglavísum eftir Eggert Ólafsson

 

Máríuerla

Sendir drottins móðir, Maríá,
mildar gjafir himni sínum frá.
Flaug úr hennar hendi vorsins perla,
heilög dúfa, lítil maríuerla.

Létt á flugi, kvik og fjaðurfín
flýgur hún um auðan geim til þín.
Í veggnum þínum vill hún hreiður búa,
varnarlaus á þína miskunn trúa.

Dável svarta húfan henni fer,
hneigir kolli ákaft fyrir þér.
Strá úr veðurbörðu, bleiku sefi
ber hún eins og friðargrein í nefi.

Grætur drottins móðir hrelld og hljóð,
hendur mannsins flekkar dauðablóð.
Fuglahjörðin, felld af grimmu valdi,
flögrar særð að hennar kyrtilfaldi.

Græðir hún á sinni skýjasæng
særðan fót og lítinn, brotinn væng.
Djúpt í hjarta sorgarundir svíða,
saklaus áður þannig mátti líða.

Sérhvert vor um varpa og bæjarhól
vappar söngvin erla á gráum kjól,
flögrar eins og bæn um geiminn bláa,
bæn fyrir hinum varnarlausa smáa.

Guðfinna Jónsdóttir frá Hömrum

 

 

Maríuerla ber æti í unga að Hofi í Öræfum.

Maríuerla í Mývatnssveit. Maríuerla á fyrsta hausti á Eyrarbakka.

Maríuerla baðar sig á Stokkseyrarbryggju.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Vorperla

Vorperla

Vorperla

Vorperla er ein fárra íslenskra plantna sem blómgast í apríl og á miðju sumri hefur hún myndað þroskuð fræ.
Plantan er smávaxin stundum ekki nema 3 cm á hæð en getur orðið allt að 20 cm. Útbreiðsla hennar er á Norðurlandi og Fljótsdalshéraði en annars staðar á landinu er hún sjaldgæf. Vorperla vex á melkollum en einnig í stígum eftir húsdýr og í vegköntum. Talið er að fræin dreifist með fótum kinda, hrossa og manna því að plantan hefur fellt fræ þegar mest umferð dýra og gangandi vegfarenda er um stíga og vegaslóða.
 
 

Ljósm. Hörður Kristinsson (floraislands.is)

Norðsnjáldri

Norðsnjáldri

Norðsnjáldri í Eyjafirði - fátíður hvalreki

Norðsnjáldri (Mesoplodon bidens) af ætt svínhvala (Ziphidae) fannst rekinn dauður í síðustu viku í svokallaðri Bót við bæinn Höfða II, skammt sunnan við Grenivík í Eyjafirði. Kristinn Ásmundsson bóndi á Höfða II tilkynnti um hvalrekann, sem telst til tíðinda því aðeins er vitað um átta önnur tilvik hér við land síðan Hafrannsóknastofnun hóf skráningu hvalreka með skipulögðum hætti um 1980. Fyrsti staðfesti fundurinn var árið 1992 við bæinn Ós í Breiðdal og síðast árið 2018, þegar tarf rak á land í Höfðavík í Vestmannaeyjum (sjá Fréttablaðið 21. mars 2018).

Dýrið í Eyjafirði var 4,73 m að lengd, líklega fullorðinn tarfur, en stærstir verða norðsnjáldrar 5−5,5 m og allt að 1,5 tonn. Líkt og aðrir tannhvalir lifa norðsnjáldrar mest á bein- og smokkfiski, en almennt er lítið vitað um lífshætti dýranna.

Óvíst er um ævilengd norðsnjáldra, en miðað við aðra svínhvali geta þeir orðið 15−30 ára að jafnaði. Dýrin eru gráleit og dekkri á baki en kviði. Á baki eru oft rispur og rákir, líklega eftir slagsmál. Enda þótt norðsnjáldri tilheyri tannhvölum hefur hann aðeins eitt par af tönnum, líkt og latneska nafn hans gefur til kynna, bidens – tvær tennur. Tennurnar eru á miðjum neðri kjálka, en aðeins í karldýrum því kýrnar eru tannlausar.

 

Norðsnjáldrinn rekinn á fjöru í Bótinni í landi Höfða II, sunnan við Grenivík. Tarfurinn var 4,73 m. Ljósmynd: Stefani Lohman.

Norðsnjáldrar finnast í Norður-Atlantshafi, aðallega djúpt úti og meira í því austanverðu en vestan hafs, með suðurmörk við 30.−40. breiddargráðu nærri New York flóa og Kanaríeyjum og norðurmörk nyrst við Noreg við 70. breiddargráðu. Norðsnjáldrar halda sig mest fjarri landi djúpt á hafi úti og eru auk þess mjög styggir. Um stofnstærð er því ekki vitað, hvorki hér á landi né hjá Alþjóðanáttúruverndar-sambandinu (IUCN) eða Umhverfisstofnun Evrópusambandsins (EEA).

Sérfræðingur á vegum Hafrannsóknastofnunar, Sverrir Daníel Halldórsson, fór á vettvang hvalrekans ásamt útibússtjóra stofnunarinnar á Akureyri, Hlyni Péturssyni, og mældu þeir hvalinn og tóku sýni til nánari rannsókna. Ekki var annað að sjá en að norðsnjáldrinn væri í góðu líkamlegu ástandi, en engar fæðuleifar fundust í maga hans og ekkert plast heldur, sem að undanförnu hefur fundist í töluverðu magni í mögum hvala af svínhvalaætt. Dánarorsök er ókunn.

Hvalshræið var urðað í fjöru þar sem það verður látið rotna. Beinagrindin verður hirt síðar og rannsökuð og einnig má nota hana í sýningahaldi, að sögn Hilmars J. Malmquist forstöðumanns Náttúrminjasafnsins. Á Hvalasafninu á Húsavík er beinagrind norðsnjáldra til sýnis.

Ljósmynd: Stefani Lohman

Norðsnjáldri. Teikning eftir Jón Baldur Hlíðberg.

Gargönd

Gargönd

Gargönd (Mareca strepera)


Útlit og atferli

Gargönd telst til buslanda. Hún er ívið minni og grennri en stokkönd en annars eru kollur þeirra mjög líkar. Steggur líkist kollu meira en hjá öðrum buslöndum. Hann er grár, brúnni á höfði og hálsi, með svartyrjótta bringu, brúnar axlafjaðrir, svartan afturenda og grátt stél. Kviður er hvítur. Í felubúningi verður steggur vart greindur frá kollu. Kollan minnir á stokkandarkollu en er grárri, minni og grennri, með hnöttóttara höfuð, og gogg og vængspegla í öðrum litum. Bæði kyn hafa hvíta spegla með svörtum jöðrum og ryðrauða bletti á vængþökum.

Goggur steggs er dökkgrár en í fjaðrafelli eins og á kollu og stundum vottar fyrir rauðgulum skoltröndum þess utan. Goggur kollu er með rauðgular skoltrendur og dökkan goggmæni. Fætur eru rauðgulir með gráar fitjar og augu dökk. Kolla gargar hátt en steggur er lágvær.

Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir á sumrin, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Andasteggir skipta um bolfiður áður en þeir fella flugfjaðrir og fá þá svonefndan felubúning, sem er oft svipaður búningi kollunnar. Felubúningurinn er því eins konar sumarbúningur þeirra. Steggirnir hópa sig á stöðum þar sem er skjól og næg fæða, til að fella. Þeir skarta síðan skrúðbúningi um haustið, eftir að þeir verða fleygir að nýju.

Atferli er svipað og hjá stokkönd. Gargöndin leitar sér ætis með því að hálfkafa með bakhlutann upp í loft, aðeins með haus og háls undir yfirborði, eða hún tínir æti úr vatnsborði. Steggurinn yfirgefur kolluna meðan hún liggur á og safnast steggirnir í hópa til að fella flugfjaðrir. Gargöndin er hraðfleyg og einnig góður sundfugl, fremur felugjörn og lætur lítið á sér bera. Er í pörum eða smáhópum, venjulega innan um aðrar buslendur.

Gargandarhreiður í Suðurnesi á Seltjarnarnesi.

Gargandarkolla með unga á Reykjavíkurtjörn.

Lífshættir

Gargöndin er aðallega grasbítur, en étur einnig dýrafæðu. Tekur græna plöntuhluta nykra, grænþörunga, o.fl., einnig fræ, en uppistöðufæða unga og ungamæðra er úr dýraríkinu.

Heldur sig einkum í lífríkum starmýrum og við grunnar tjarnir og polla á láglendi. Verpur nærri vatni í þéttum gróðri, undir þúfum, runnum og háu grasi. Hreiðrið er dæld, fóðruð með sinu og dúni. Urptin er 8-12 egg og klekjast þau á 24-26 dögum. Ungarnir eru hreiðurfælnir, yfirgefa hreiðrið þegar þeir eru orðnir þurrir og leita sér ætis uppá eigin spýtur undir verndarvæng móðurinnar. Þeir verða fleygir á 45-50 dögum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Gargöndin er farfugl. Hún er algengust við Mývatn og Laxá, þar sem hún kallast litla-gráönd, en verpur annars strjált á góðum andastöðum um land allt, m.a. við Reykjavíkurtjörn og víðar á innnesjum. Stofninn er áætlaður 400-500 pör. Gargöndin er á válista sem tegund í yfirvofandi hættu (NT) og hún er alfriðuð.

Vetrarstöðvar eru á Bretlandseyjum, aðallega á Írlandi. Fáeinir fuglar halda til á Innnesjum yfir veturinn. Varpheimkynni eru víða á norðurhveli en nyrstu varpstöðvarnar eru hér á landi.

Gargandarpar að næra sig á Bakkatjörn á Seltjarnarnesi.

Gargandarpar við Mývatn.

Þjóðtrú og sagnir

Líkt og um flestar aðrar endur, fjallar íslensk þjóðtrú ekki mikið um gargöndina. Víða eru endur taldar veðurvitar og jafnvel að þær finni á sér eldsumbrot eða jarðhræringar. Þessu tóku menn eftir hjá Mývatnsöndum í Kröflueldum 1975-84.

 

Gargandarpar á Mývatni.

Gargandarsteggur á flugi yfir Bakkatjörn á Seltjarnarnesi.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Semjum frið við náttúruna

Semjum frið við náttúruna

Semjum frið við náttúruna

Semjum frið við við náttúruna er yfirskrift greinar eftir Skúla Skúlason, prófessor við Háskólann á Hólum og Náttúruminjasafn Íslands og Hilmar J.  Malmquist, forstöðumann Náttúruminjasafns Íslands sem birtist í Fréttablaðinu 25. mars. 

Hér fyrir neðan má lesa greinina.

Í febrúar sendi Um­hverfis­stofnun Sam­einuðu þjóðanna (UsSþ/ UNAP) frá sér tíma­móta­skýrslu sem ber heitið „Semjum frið við náttúruna“ (e. Making Peace with Nature). Þar er dregin upp afar dökk mynd af stöðu mála á jörðinni varðandi mengun, lofts­lags­breytingar og hrun líf­fræði­legrar fjöl­breytni, sem ekki sé hægt að lýsa öðru­vísi en að mann­kynið sé í stríði við náttúruna. Skýrslan bendir einnig skil­merki­lega á hvaða leiðir við höfum til að víkja af þessum vegi eyði­leggingar með mark­mið sjálf bærni að leiðar­ljósi. Mann­kynið geti breytt hegðun sinni í krafti þekkingar og skilnings. Mikil­vægast er að beina um­gengni okkar um náttúruna frá ríkjandi við­leitni til að um­breyta náttúrunni að því að um­breyta sam­bandi okkar við hana. Í þessu felst grunnurinn að því að bjarga náttúrunni og þar með mann­kyni frá bráðum háska.

Ljóst er að við lifum í sam­fé­lagi þar sem gjarnan er litið á manninn sem drottnara yfir náttúrunni og í raun að­skilinn frá henni. Þannig er okkur tamt að upp­hefja vits­muni okkar og beita þeim til að laga um­hverfið að okkar þörfum og hags­munum án mikils til­lits til annarra líf­vera og vist­kerfa. Í að­fara­orðum Inger Ander­son, for­stjóra UsSþ, í framan­greindri skýrslu leggur hún á­herslu á þá við­vörun sem Co­vid19 far­aldurinn er í þessu sam­bandi, en hann má beint og ó­beint rekja til ó­var­kárni í um­gengni við vist­kerfi jarðar. Undir­rót skaðans sem við höfum valdið á líf­fræði­legri fjöl­breytni og þar með vist­kerfum jarðar, er fólgin í hinni sjálf­sköpuðu sér­stöðu mannsins. En hvernig leggjum við grunninn að bráð­nauð­syn­legu og um­breyttu við­horfi til náttúrunnar og þar með bættum lífs­kjörum?

Lykillinn að svarinu liggur í orðum aðal­ritara Sam­einuðu þjóðanna, António Guter­res, í áður­nefndri skýrslu, þar sem hann segir að með því að um­breyta tengslum okkar við náttúruna munum við gera okkur grein fyrir hinu sanna gildi hennar. Hér er af­staða tekin með náttúrunni í heild og gildi hennar lögð til grund­vallar breyttu gildis­mati sem gengur gegn ríkjandi gildis­mati sem þjónar hags­munum mannsins ein­vörðungu og í raun og sann hefur snúist gegn honum. Þetta felur í sér að víkka við­tekna sið­fræði þannig að hún taki til sið­fræði náttúrunnar allrar: Öll mann­leg breytni verður að taka mið af náttúrunni í heild. Þörf þessa verður aug­ljós þegar við hugum að eðli og gerð vist­kerfa jarðar sem við erum ó­rjúfan­legur hluti af. Vist­kerfin endur­spegla nefni­lega þau gildi náttúrunnar sem hér um ræðir. Í krafti fjöl­breytni leggja vist­kerfin og tengsl milli ó­líkra vist­kerfa allt það til sem gerir líf­verum kleift að lifa og dafna. Þar má nefna eðlis- og efna­þætti eins og birtu, hita og vatn, sem og fæðu og bú­svæði. Þessi verð­mæti eru lífs­nauð­syn­leg mann­legri til­veru ekki síður en öðrum líf­verum, en við höfum í æ ríkari mæli misst sjónar á þeim með þeim al­var­legu af­leiðingum sem nú blasa við.

Hinn sið­ferði­legi þáttur snýst þá einkum um að líf­verur, þar með talinn maðurinn, finni taktinn í þeim f lóknu tengslum og sam­skiptum sem eiga sér stað í heil­brigðum vist­kerfum. Þessi taktur felst meðal annars í því að við hugum náið að upp­lifun okkar í náttúrunni og skynjum í víðri merkingu þau undir­stöðu­verð­mæti sem þar er að finna. Með öðrum orðum að við gaum­gæfum betur en við höfum gert til þessa þau gildi sem náttúran felur í sér. Hér hafa heim­spekingar og fræði­menn, eins og Aldo Leopold, Páll Skúla­son og fleiri, bent á mikil­vægi skapandi tengsla og auð­mýktar í lífs­máta og af­stöðu okkar til um­hverfisins. Full á­stæða er til að draga at­hygli les­enda að kenningum af þessu tagi.

Virðing, hóf­semi og skilningur á eðli og gerð vist­kerfa eru frum­for­sendur þess að skipu­leggja skyn­sam­lega um­gengni okkar í náttúrunni til fram­tíðar og í bar­áttunni við að­steðjandi ógnir. Þetta varðar af­stöðu hvers okkar, en stefna stjórn­valda, mennta­stofnana og fyrir­tækja er líka al­gjört grund­vallar­at­riði. Við þurfum að öðlast betri þekkingu og yfir­sýn yfir náttúruna, og stefnu­mótun um um­gengni okkar í henni þarf að vera skyn­sam­leg, skýr og heild­ræn. Þetta á ekki hvað síst við um náttúru Ís­lands, sem er til­tölu­lega lítt snortin og um margt mjög sér­stök, meðal annars hvað varðar upp­sprettu líf­fræði­legrar fjöl­breytni og eðli vist­kerfa. Líf­ríkið hér­lendis endur­speglar að miklu leyti hnatt­stöðu og land­fræði­lega ein­angrun eyjunnar á­samt ungum aldri og mikilli eld­virkni. Við erum þátt­tak­endur í stór­kost­legu gang­verki og fram­vindu, því náttúran er kvik og sí­breyti­leg eins og land­rek og kviku­hreyfingar undan­farið á Reykja­nes­skaga sýna glögg­lega.

Það er vissu­lega um­hverfis­vakning í ís­lensku sam­fé­lagi og viljinn til að breyta til hins betra er mikill. Hér hafa yngri kyn­slóðir gengið fram af krafti með lofs­verðum hætti og góð dæmi um það eru her­ferð Ungra um­hverfis­sinna í lofts­lags­málum og vinna Lands­sam­bands ung­menna­fé­laga að við­brögðum við hruni líf­fræði­legrar fjöl­breytni. Einnig eru mörg verk­efni í gangi bæði á vegum annarra fé­laga­sam­taka, hins opin­bera og ein­stak­linga, í því skyni að bregðast við um­hverfis­vánni. Mikil­vægt er að taka þátt og styðja góð verk­efni. Allar að­gerðir til björgunar, meðal annars þær sem tengjast efna­hags­og fram­leiðslu­kerfum okkar, hvíla á því að náttúru­auð­lindir séu nýttar með sjálf bærum hætti.

Við stöndum frammi fyrir afar stóru við­fangs­efni sem hvorki þolir bið né fálm­kenndar að­gerðir eða töfra­lausnir. Til að leggja grunn að betri fram­tíð er eina leiðin að breyta sam­bandi okkar við náttúruna, taka mál­stað hennar og leggja okkur fram um að skilja hana, virða og sýna henni auð­mýkt – og ein­fald­lega að taka þeim á­skorunum sem skýrsla Um­hverfis­stofnunar Sam­einuðu þjóðanna býður okkur að gera: Semja frið við náttúruna!