Hálendisþjóðgarður – Einstök náttúra á heimsvísu

Hálendisþjóðgarður – Einstök náttúra á heimsvísu

Hálendisþjóðgarður – Einstök náttúra á heimsvísu

Náttúruminjasafn Íslands styður heils hugar stofnun þjóðgarðs á hálendi Íslands, segir í umsögn safnsins um um frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra sem nú er til umfjöllunar á Alþingi. Stofnun hálendisþjóðgarðs er skynsamleg ráðstöfun að mati safnsins, nauðsynleg í vistfræðilegu ljósi og getur hæglega orðið fjárhagslega arðbær.

Í umsögninni er lögð áhersla á mikilvægi þess að taka frá landsvæði sem státar af einstakri náttúru á heimsvísu og stýra með samræmdum hætti stöðugt vaxandi umferð og álagi á hálendið þannig að náttúran þar fái að þróast og þrífast sem mest á eigin forsendum án alvarlegra inngripa af mannavöldum.

Að mati safsins er stofnun þjóðgarðsins ekki aðeins þjóðþrifamál fyrir íbúa landsins og gesti heldur hafi þjóðgarðurinn einnig skýra, alþjóðlega tilvísun: Náttúran á hálendi Íslands er einstök í hnattrænu samhengi, þar eru ein stærstu óbyggðu víðerni Evrópu og svæðið á fáa ef nokkurn sinn líka hvað varðar andstæður og fjölbreytileika í landslagi og náttúru, með stórkostlegu sjónarspili elds, íss og vatns. Slík gæði fara ört þverrandi á heimsvísu vegna áhrifa mannsins og því mun gildi svæðisins aðeins vaxa með tímanum ef tekst að stýra umgengninni skynsamlega á samræmdan og sjálfbæran hátt.

Lögð er áhersla á að efla verði rannsóknir á náttúru hálendisins og tengja við rannsóknir á sviði fornleifa og mannvistfræða. Safnið telur nauðsynlegt er að stjórn þjóðgarðsins búi yfir faglegri getu á sviði náttúru- og mannvistfræða og æskilegast að þar sitji sérfræðingar á síðastnefndu fræðasviðum. Ekki er gert ráð fyrir því í frumvarpinu en úr því megi bæta með með því að vísa í aðkomu viðeigandi sérfræðistofnana að stjórnun þjóðgarðsins, svo sem Náttúrufræðistofnunar Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Minjastofnunar Íslands og háskóla landsins.

Loks er í umsögninni bent á að skilgreina þurfi afdráttarlaust í frumvarpinu sjálfu að svæði innan marka fyrirhugaðs Hálendisþjóðgarðs skuli tekin frá og skilgreind sem óbyggð víðerni í samræmi við verndarflokk Ib í flokkunarkerfi IUCN. Þetta er nauðsynlegt að mati safnsins til að tryggja að mikilvægustu og verðmætustu svæði þjóðgarðsins fái viðeigandi vernd í samræmi við alþjóðlegt mikilvægi sitt.

Hér má lesa umsögn Náttúruminjasafnsins í heild.

Í Þjórsárverum. Ljósm. Þóra Ellen Þórhallsdóttir.

Toppskarfur

Toppskarfur

Toppskarfur (Phalacrocorax aristotelis)


Skarfar eru stórir dökkir sjófuglar. Hérlendis eru tvær skarfategundir, dílaskarfur og toppskarfur. Þeir eru báðir staðfuglar og er varpútbreiðsla beggja að mestu bundin við Faxaflóa og Breiðafjörð. Skarfar tilheyra ættbálki árfætla (hafa sundfit milli allra fjögurra tánna) eða pelíkanfugla (Pelicaniformes) eins og súlur, freigátufuglar o.fl.

Toppskarfur í varpskrúða á Breiðafirði.

Toppskarfur með tvo stálpaða unga á Breiðafirði.

Toppskarfur í varpskrúða á Breiðafirði.

Toppskarfshjón í varpskrúða á Breiðafirði.

Ungur toppskarfur á flugi í Kolgrafarfirði.

Útlit og atferli

Toppskarfur er nokkru minni og grennri en dílaskarfur. Hálsinn er styttri og grennri og höfuðið minna, en annars getur verið erfitt að greina þessa fugla sundur eftir stærð og vexti nema sjá þá saman. Höfuð toppskarfs er hnöttóttara, enni brattara og goggur áberandi grennri en á dílaskarfi. Í varpbúningi er toppskarfur alsvartur með grænleitri slikju. Hann virðist hreistraður að ofan vegna dökkra fjaðrajaðra. 

Uppsveigður fjaðratoppur á höfði er einkenni fullorðinna fugla frá því í janúar fram á vor, þeir missa hann að mestu í maí. Ungfugl er dökkbrúnn, með ljósan framháls, en ekki ljósleitur á bringu og kviði eins og ungir dílaskarfar. Goggur er dökkgrár, neðri skoltur ljósari, brúnni á ungfugli. Goggvik eru gul, sérstaklega á vorin. Fætur eru dökkgráir, augu gul (ungfugl) eða græn (fullorðinn).

Toppskarfur er djúpsyndur og ber höfuðið hátt á sundi eins og dílaskarfur. Eftir köfun þarf fuglinn að þurrka vængina og situr þá oft og blakar þeim, „messar“ eins og dílaskarfur, en breiðir ekki jafnmikið úr vængjunum. Hann er fremur klaufalegur þegar hann hefur sig á loft, flýgur með hraðari vængjatökum en dílaskarfur og teygir hálsinn og gogginn síður upp en hann, flýgur fremur lágt. Er venjulega félagslyndur.

Toppskarfur gefur oftast frá sér hátt, hrjúft garg á varpstöðvum.

 

 

Toppskarfar í varpskrúða í Kolgrafarfirði.

Toppskarfshreiður á Breiðafirði.

Toppskarfur á hreiðri á Breiðafirði.

Ungur toppskarfur í Hafnarfirði.

Lífshættir

Toppskarfurinn er fiskiæta, hann kafar eftir bráðinni, fangar m.a. sandsíli, síld, marhnút, þorsk, ufsa, kola og sprettfisk. Stingur sér á sundi og kafar með fótunum.

Toppskarfur heldur sig við strendur og sést nær aldrei inn til landsins, andstætt við dílaskarfinn. Verpur í byggðum, er algengastur á lágum eyjum eða hólmum í Breiðafirði og Faxaflóa. Er einnig í lágum klettum, stundum í fuglabjörgum eða í stórgrýtisurðum. Hreiðrið er hraukur úr þangi, fóðrað með fjöðrum og grasi. Urptin er oftast 3 (1–6) egg, álegutíminn er mánuður og ungarnir verða fleygir á um 8 vikum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Toppskarfur er staðfugl, sem sést víða um vestanvert landið á veturna. Hann hefur breiðst út um Strandir á undanförnum árum og er nú farinn að verpa í Papey. Hann verpur við strendur Evrópu, frá Kólaskaga suður í Miðjarðarhaf og til Marokkó. Stofnstærðin hérlendis var um 4.700 varppör (21.300 einstaklingar) 2019, en hún sveiflast nokkuð. Hnignun sandsílastofnsins olli fækkun niður í 3.700 pör. Sandsíli er mikilvægasta fæða flestra sjófugla við Suður- og Vesturland.  En sandsílið er að braggast og skörfunum að fjölga aftur. Langflestir verpa í Breiðafjarðareyjum, en nokkuð varp er við norðanverðan Faxaflóa og smávegis í björgum eins og Krýsuvíkurbergi, við Arnarstapa, í Skálasnagabjargi og Látrabjargi. Toppskarfur er á válista sem tegund í nokkurri hættu (VU), þó eru enn stundaðar veiðar á honum.

Þjóðtrú og sagnir

Lítil þjóðtrú fylgir toppskarfinum, en stundum fylgir sameiginleg trú þeim frændum, díla- og toppskarfi. Skarfar þóttu vísa á fisk og þeir voru líka veðurvitar og réðu menn í veður af flugi þeirra eða hátterni. Talið er að skarfar sjái vel, en heyri illa. Þeir munu vera hræddir við tunglið og sérstaklega þegar það veður í skýjum og þeir dvelja á náttstað. Þá er einn hafður á vakt til að hafa auga með hinu ærslafulla tungli og sjálfsagt öðrum aðsteðjandi hættum í leiðinni.

Og þegar Skarfurinn setur vængina niður
hvísla öldurnar amen
og ungi sleppur undan væng Grágæsarinnar.
Á Vigri brýtur goggur gat á heiminn og
skáldkonan gengur um
með hugann við sprungur
í himninum

Ó! heilsið öllum heima rómi blíðum
um hæð og sund í drottins ást og friði;
kyssi þið, bárur! bát á fiskimiði,
blási þið, vindar! hlýtt á kinnum fríðum.

og stígur
á einn lítinn.

 

Fjaðrir og fiður eftir Bjarneyju Gísladóttur, lokaerindi.

Þúsund ár, hefur skarfurinn þurrkað sinn væng
Og þvaðrað við Sendling og Tjald sem í þaranum tifa
Selurinn blundað á sinni votu sæng
Í sólskini þegar öllum finnst gaman að lifa.

Úr Kolbeinshaus eftir Þórhall Gauta Bárðarson.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Barnamosi

Barnamosi

Barnamosi

Vissir þú að á Íslandi finnast tæplega þrjátíu tegundir barnamosa? Heitið er gamalt í málinu og er til komið vegna þess þurrkaður barnamosi dregur í sig margfalda þyngd sína af vökva og var þurr mosinn lagður í vöggur ungabarna. Bleytuburi er algengasti barnamosinn en allar tegundirnar bera íslensk nöfn með endinguna buri sem dregið er af orðinu bur sem þýðir sonur. 

Erlendis vex barnamosi víða í stórum samfelldum breiðum og myndar þykkar mómýrar, t.d. í Finnlandi og Eystrasaltslöndunum. Fyrr á árum var stunduð mótekja úr þessum mýrum til þess að verða sér út um eldsneyti en undanfarna áratugi hefur mórinn verið nýttur sem ræktunarefni í garðyrkju og skógrækt. Þessi mold er ýmist kölluð svarðmold, mómosamold eða sphagnum-mold og hentar til ræktunar því að hún heldur vel vatni og næringarefnum auk þess að vera loftmikil og laus í sér. Á hverju ári er flutt inn til Íslands umtalsvert magn af svarðmold og er hún uppistaðan í þeirri mold sem boðin er til sölu í garðyrkjuverslunum. 

Í Evrópu hefur verið gengið svo hart fram í mótekju að víða eru mómýrar uppurnar eða farnar að láta á sjá. Endurheimt þeirra tekur marga áratugi og af þeim sökum eru nú gerðar auknar kröfur um sjálfbærni við vinnslu á svarðmold sem gæti dregið úr framleiðslu og notkun hennar sem ræktunarefnis í framtíðinni.  

Ljósmyndir Hörður Kristinsson (floraislands.is). 

Eyjafjallajökull

Eyjafjallajökull

Eyjafjallajökull. Ljósm. Hugi Ólafsson

Eyjafjallajökull

Eyjafjallajökull er einn af minni jöklum Íslands. Hann er við suðurströndina, rétt vestan Mýrdalsjökuls. Undir jöklinum er eldkeila sem nær hæst 1.651 m yfir sjávarmál og efst í henni er askja sem er um 2,5 km í þvermál. Eldstöðvakerfi Eyjafjallajökuls er hluti af Austurgosbeltinu. Í eldstöðvakerfinu er megineldstöð sem er um 25 km löng og 15 km breið, en enginn sprungusveimur. Gígjökull er skriðjökull sem skríður til norðurs frá toppgíg Eyjafjallajökuls og er sýnilegur á leið inn í Þórsmörk.

Eyjafjallajökull er merktur með rauðum punkti á kortið.

Loftmynd af Eyjafjallajökli og svæðinu í kring. Efst í jöklinum sést hvar askjan er staðsett. (Loftmyndir ehf., 2019)

Elsta berg eldstöðvakerfis Eyjafjallajökuls er um 800.000 ára gamalt. Eldgos í kerfinu koma upp um toppgíg fjallsins eða á sprungum í fjallshlíðum. Sprengigos úr Eyjafjallajökli eru ísúr til súr en flæðigosin geta verið basísk, ísúr eða súr, en þau eru þó oft lítil. Vitað er um fjögur gos úr kerfi Eyjafjallajökuls á sögulegum tíma; um 920 varð gos á sprungu sem olli jökulhlaupi, 1612 eða 1613 varð minniháttar sprengigos, 1821–1823 varð lítið sprengigos í toppgígnum og síðast gaus Eyjafjallajökull árið 2010.

Eldgosið 2010 byrjaði með flæðigosi á Fimmvörðuhálsi 20. mars sem stóð til 12. apríl. Tveimur dögum síðar hófst sprengigos í toppgíg Eyjafjallajökuls. Í kjölfar þess urðu nokkur jökulhlaup fyrstu dagana. Gosmökkurinn náði yfir 7 km hæð og varð mikið öskufall í nágrenni jökulsins. Gígjökulslón stíflaðist við öskufallið og bújarðir í nágreni Eyjafjallajökuls fóru nánast á kaf í ösku. Askan úr gosinu var mjög fíngerð, en þegar sprengivirknin og öskufallið var sem mest var mjög sterk norðanátt sem flutti öskuna suður og suðaustur, og náði askan alla leið til meginlands Evrópu. Þetta hafði mikil áhrif á flugsamgöngur í álfunni, sem lögðust því sem næst algjörlega af í fimm daga meðan gosið stóð sem hæst.

Gosstrókurinn á Fimmvörðuhálsi vakti mikla athygli og blasti við þeim fjölmörgu sem lögðu leið sína upp að gosinu. Ljósm. Gunnar Baldursson.

Sprengigosinu lauk 23. maí 2010. Eftir það féll engin aska, en sjá mátti smávægilega gosvirkni nokkra daga í júní. Þó svo að áhrif gossins hafi verið mikil telst gosið sjálft aðeins meðalstórt þegar litið er til magns gosefna. Í gosinu myndaðist um 0,27 km3 af gjósku og 0,023 km3 af hrauni. Til samanburðar er Holuhraun 1,4 km3 að rúmmáli.

Rauðglóandi hraunflæðið á Fimmvörðuhálsi. Ljósm. Gunnar Baldursson.

Gosmökkurinn úr Eyjafjallajökli 2010 olli miklu öskufalli. Ljósm. Þorvaldur Þórðarson.

Eyjafjallajökull tignarlegur að sumarlagi. Ljósm. Hugi Ólafsson.

Ítarefni

Freysteinn Sigmundsson, Sigrún Hreinsdóttir, Hooper, A., Þóra Árnadóttir, Pedersen, R., Roberts, M.J., Níels Óskarsson, Auriac, A., Decriem, J., Páll Einarsson o.fl. 2010. Intrusion triggering of the 2010 Eyjafjallajökull explosive eruption. Nature 468. 426–432.

Magnús T. Guðmundsson & Ármann Höskuldsson. 2019. Eyjafjallajökull. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 7. janúar 2021 af http://www.islenskeldfjoll.is/?volcano=EYJ#.

Guðrún Larsen, Freysteinn Sigmundsson & Dugmore, A. 2013. Eyjafjallajökull. Bls. 291–297 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson, Freysteinn Sigmundsson, Ármann Höskuldsson, Steinunn Sigríður Jakobsdóttir, Björn Oddsson, Eyjólfur Magnússon, Þórdís Högnadóttir, Þorvaldur Þórðarson & Halldór Björnsson. 2013. Eldur í Eyjafjallajökli 2010. Bls. 299–311 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Petersen, G.N., Halldór Björnsson & Þórður Arason. 2012. The impact of the atmosphere on the Eyjafjallajökull 2010 eruption plume. Journal of Geophysical Research 117. 1–14.

Móberg

Móberg

Móberg

Vissir þú​ að á Íslandi hefur móberg aðallega myndast við eldgos undir jökli, en við þær aðstæður kemst vatn að allt að 1200°C heitri kvikunni og tætir hana. Þá myndast hrúga af vatnsblandaðri lausri ösku sem límist saman og ummyndast fljótlega í móberg við 80-150°C. Mikið af móberginu sem finnst á yfirborði á Íslandi myndaðist á síðasta jökulskeiði og er því fremur algengt hér á landi, en sjaldgæft annars staðar.