Hálendisþjóðgarður – Einstök náttúra á heimsvísu
Hálendisþjóðgarður – Einstök náttúra á heimsvísu
Náttúruminjasafn Íslands styður heils hugar stofnun þjóðgarðs á hálendi Íslands, segir í umsögn safnsins um um frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra sem nú er til umfjöllunar á Alþingi. Stofnun hálendisþjóðgarðs er skynsamleg ráðstöfun að mati safnsins, nauðsynleg í vistfræðilegu ljósi og getur hæglega orðið fjárhagslega arðbær.
Í umsögninni er lögð áhersla á mikilvægi þess að taka frá landsvæði sem státar af einstakri náttúru á heimsvísu og stýra með samræmdum hætti stöðugt vaxandi umferð og álagi á hálendið þannig að náttúran þar fái að þróast og þrífast sem mest á eigin forsendum án alvarlegra inngripa af mannavöldum.
Að mati safsins er stofnun þjóðgarðsins ekki aðeins þjóðþrifamál fyrir íbúa landsins og gesti heldur hafi þjóðgarðurinn einnig skýra, alþjóðlega tilvísun: Náttúran á hálendi Íslands er einstök í hnattrænu samhengi, þar eru ein stærstu óbyggðu víðerni Evrópu og svæðið á fáa ef nokkurn sinn líka hvað varðar andstæður og fjölbreytileika í landslagi og náttúru, með stórkostlegu sjónarspili elds, íss og vatns. Slík gæði fara ört þverrandi á heimsvísu vegna áhrifa mannsins og því mun gildi svæðisins aðeins vaxa með tímanum ef tekst að stýra umgengninni skynsamlega á samræmdan og sjálfbæran hátt.
Lögð er áhersla á að efla verði rannsóknir á náttúru hálendisins og tengja við rannsóknir á sviði fornleifa og mannvistfræða. Safnið telur nauðsynlegt er að stjórn þjóðgarðsins búi yfir faglegri getu á sviði náttúru- og mannvistfræða og æskilegast að þar sitji sérfræðingar á síðastnefndu fræðasviðum. Ekki er gert ráð fyrir því í frumvarpinu en úr því megi bæta með með því að vísa í aðkomu viðeigandi sérfræðistofnana að stjórnun þjóðgarðsins, svo sem Náttúrufræðistofnunar Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Minjastofnunar Íslands og háskóla landsins.
Loks er í umsögninni bent á að skilgreina þurfi afdráttarlaust í frumvarpinu sjálfu að svæði innan marka fyrirhugaðs Hálendisþjóðgarðs skuli tekin frá og skilgreind sem óbyggð víðerni í samræmi við verndarflokk Ib í flokkunarkerfi IUCN. Þetta er nauðsynlegt að mati safnsins til að tryggja að mikilvægustu og verðmætustu svæði þjóðgarðsins fái viðeigandi vernd í samræmi við alþjóðlegt mikilvægi sitt.
Í Þjórsárverum. Ljósm. Þóra Ellen Þórhallsdóttir.