Náttúruminjasafnið eignast stórmerkilegt steinasafn á Breiðdalsvík

Náttúruminjasafnið eignast stórmerkilegt steinasafn á Breiðdalsvík

Náttúruminjasafnið eignast stórmerkilegt steinasafn á Breiðdalsvík

Náttúruminjasafn Íslands undirbýr nú móttöku á einu stærsta og merkasta safni af holufyllingum og bergi í landinu – steinasafni Björns Björgvinssonar frá Höskuldsstaðaseli í Breiðdal. Safnkosturinn, sem er 10 til 15 þúsund eintök, samanstendur að grunni til af þremur steinasöfnum sem Björn eignaðist og forðaði frá glötun eða yrðu seld úr landi – steinasöfnum Reynis Reimarssonar og Kjartans Herbjörnssonar, sem báðir eru úr Breiðdal, og safni Svavars Guðmundssonar. Stærstur hluti steinanna er úr Breiðdal og nærliggjandi sveitum.

Meginmarkmið Náttúruminjasafnsins með móttöku steinasafns Björns er að tryggja heildstæða og faglega varðveislu á þessum merka hluta af náttúruarfi Íslands og nýta safnkostinn í fræðslu- og upplýsingaskyni fyrir almenning og fræðasamfélagið – og öðrum þræði til að styrkja innviði á Austfjörðum í tengslum við ferðaþjónustu.

Frá Höskuldsstaðaseli. Frá vinstri: Ómar Bjarki Smárason, jarðfræðingur, Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður, Madison Lin MacKenzie og Irma Gná Jóngeirsdóttir, jarðfræðingar.

Verkefnið hefur verið í deiglunni í rúm þrjú ár. Frumkvæði að aðkomu Náttúruminjasafnsins að verkefninu og dyggur hvatamaður þess er Ómar Bjarki Smárason jarðfræðingur og eigandi Stapa ehf. – jarðfræðistofu. Ómar Bjarki og Björn Björgvinsson voru frumkvöðlar að stofnun Breiðdalsseturs árið 2008 í gamla kaupfélagshúsinu á Breiðdalsvík, en setrið er tileinkað enska eldfjallafræðingnum dr. Georg P.L. Walker (1926–2005) og málvísindamanninum Stefáni Einarssyni prófessor (1897–1972) sem ættaður var frá Höskuldsstöðum í Breiðdal. Vænst er góðrar samvinnu við Breiðdalssetur og fyrirhugað rannsóknasetur Háskóla Íslands þar um fræðslu og rannsóknir á safnkostinum.

Skriður komst á verkefnið í sumar þegar tveir jarðfræðingar á vegum Náttúruminjasafnsins, Irma Gná Jóngeirsdóttir og Madison Lin MacKenzie, unnu við fullnaðarskráningu og myndatöku á safnkostinum í Höskuldsstaðaseli. Starf jarðfræðinganna var að hluta til styrkt af átaki Vinnumálastofnunar um sumarstörf námsmanna vegna COVID-19 veirufaraldursins. Verkið gekk mjög vel og er ráðgert að ljúka skráningu og frágangi sýna næsta sumar.

Safnkosturinn verður varðveittur og hýstur til frambúðar í Breiðdal. Stefnt er að því að setja upp sýningu á Breiðdalsvík og er nú verið að athuga með húsnæði til sýningahaldsins í samráði við heimamenn.

Jarðfræðingarnir Irma Gná og Madison Lin við skráningarstörf.

Þess má geta að í safnkosti Björns er að finna stóreflis fægða granítsteina eftir Sigurð Guðmundsson, hinn kunna listamann sem er m.a. höfundur Eggjanna á Djúpavogi og Fjöruverksins við Sæbraut í Reykjavík. Sigurður hefur sýnt því mikinn áhuga að koma að uppsetningu hnullunganna á Breiðdalsvík.

Það er mikill fengur að því fyrir opinbera fræðslustofnun á borð við Náttúruminjasafnið og þar með ríkið að eignast safnkost sem þennan, sérstaklega þar sem hann hentar vel til sýningahalds og almenningsfræðslu. Þá er vísindalegt gildi safnkostsins afar mikið vegna óvenju ítarlegrar skráningar á fundarstað eintaka sem nýtist vel til rannsókna. Mörg sjaldgæf eintök hafa jafnframt mikið fágætisgildi og enn önnur eru undurfagrir skrautsteinar með mikið fagurfræðilegt gildi.

Stefnt er að því að opna sýningu um þennan merkilega safnkost Björns Björgvinssonar á Breiðdalsvík ekki síðar en sumarið 2022.

Jöklar

Jöklar

Jöklar

Vissir þú að jöklar móta margbreytilegt landslag þegar þeir hopaÚr lofti má vel sjá fjölbreytta árfarvegi, lón, polla og jökulgarða sem skreyta landið framan við jökulsporðinn. 

Krækilyng

Krækilyng

Krækilyng

Vissir þú að krækilyng er mjög algengt um allt land? Krækilyng er einnig kallað krækiberjalyng en gamalt heiti yfir tegundina er lúsalyng, talið var að lyngið gæti eytt lúsum væri það sett undir sængur. Lengi hefur tíðkast að nýta berin í saft, sultur og til víngerðar. Lyngið var hér áður fyrr notað til litunar.

Krafla

Krafla

Krafla

Megineldstöðin Krafla er staðsett norður af Mývatni og hefur hún mótað landslagið við vatnið og norður af því. Eldstöðvakerfi Kröflu er hluti af Norðurgosbeltinu og er það um 100 km langt. Hæsti tindur kerfisins nær 818 m yfir sjávarmál, kerfið inniheldur sprungusveim og í því miðju er 8-10 km víð askja. Á Kröflusvæðinu er einnig háhitasvæði sem er nýtt af jarðvarmavirkjun sem hóf starfsemi sína árið 1977.

Krafla er merkt með rauðum punkti á kortið.

Horft norðaustur yfir Mývatn í átt að Reykjahlíð og Kröflusvæðinu. Ljósm. Hugi Ólafsson.

.

Víti í Kröflu er gígur sem staðsettur er nálægt hæsta tindi Kröflusvæðisins. Ljósm. Hugi Ólafsson.

Elsta bergið frá megineldstöð Kröflu er um 300.000 ára en askjan myndaðist fyrir um 110.000 árum. Kröflusvæðið hefur verið mjög virkt á nútíma og einkennist gosvirkni þess einkum af eldgosahrinum eða „eldum“ sem hafa staðið yfir um nokkurra ára skeið í einu. Á síðustu 12.000 árum má skipta gosvirkni kerfisins í þrjú gosskeið, fyrsta skeiðinu lauk fyrir 8.000 árum, annað skeiðið var fyrir 8.000-2.800 árum síðan og þriðja skeiðið markar síðustu 2.800 árin. Minnst er vitað um eldvirkni elsta skeiðsins en eftir því sem nær dregur okkur í tíma eru meiri upplýsingar til staðar, til að mynda hafa alls sex eldar orðið á síðasta skeiðinu.
Hverfjall er staðsett austan við Mývatn og er það gjóskugígur sem myndaðist í sprengigosi úr Kröflukerfinu fyrir um 2.800 árum síðan. Við gosið hefur Mývatn líklegast náð þangað sem Hverfjall er núna og komst vatn í snertingu við basaltkviku sem olli gufusprengingum. Vegna gufusprenginga tætist kvikan og verður að gjósku sem hleðst upp í kringum gosopið.

Hverfjall er vinsælt kennileiti fyrir Mývatnssvæðið. Ljósm. Hugi Ólafsson.

Umfangsmesta nútímahraun á Mývatnssvæðinu er Laxárhraun yngra sem á uppruna sinn úr tveimur gígaröðum, Lúdentsborgum og Þrengslaborgum, sem eru staðsettar sunnan við Hverfjall. Hraunið úr gígaröðunum rann fyrir um 2.300 árum síðan og er um 220 km2 að flatarmáli. Þetta hraun rann yfir stóran hluta Mývatnssvæðisins og við það mótaðist Mývatn í núverandi mynd. Það fór niður Laxárdal og Aðaldal og náði út í sjó við Skjálfanda. Við hraunrennslið mynduðust bæði margir gervigígar við Mývatn þegar hraun rann út í og yfir vatnið, sem og Dimmuborgir.

Samtals eru gígaraðirnar Lúdentsborgir og Þrengslaborgir 12 km langar. Ljósm. Gunnar Baldursson.

Ár Atburður
1975-1984 Kröflueldar
1724-1729 Mývatnseldar
Fyrir 1.100 árum Eldar
Fyrir 2.200 árum Eldar
Fyrir 2.500 árum Eldar
Fyrir 2.800 árum Sprengigos (Hverfjall)
Fyrir 5.000 árum Basískt flæðigos og sprengigos
Fyrir 12.000-8.000 árum Dyngjugos og basísk flæðigos

Gígar Þrengslaborgar. Ljósm. Gunnar Baldursson.

Eldsumbrot sem innihalda tvö eða fleiri eldgos og vara í mánuði eða áraraðir kallast eldar. Slík umbrot urðu í Kröflu á árunum 1975-1984 og kallast Kröflueldar. Þessi eldsumbrot voru þau umfangsmestu á Íslandi á síðustu öld. Í Kröflueldum urðu alls níu basísk flæðigos með heildarrúmmál 0,25 km3 og eru ummerki sjáanleg á um 70 km löngu svæði sem nær frá Hverfjalli og út í sjó í Öxarfirði. Á sama tíma og eldsumbrotin voru að hefjast árið 1975 voru framkvæmdir að hefjast á jarðvarmavirkjun á Kröflusvæðinu. Eldarnir ollu því að framkvæmdum seinkaði þar sem mikil virkni var í gangi á því svæði sem núverandi Kröfluvirkjun er staðsett.

Jarðhitasvæðið í Námaskarði tilheyrir Kröflusvæðinu. Ljósm. Hugi Ólafsson.

Ítarefni:

Kristján Sæmundsson. 1991. Jarðfræði Kröflukerfisins. Bls. 25–95 í: Náttúra Mývatns (ritstj. Arnþór Garðarsson & Árni Einarsson). Hið íslenska náttúrufræðifélag, Reykjavík.

Kristján Sæmundsson. 2019. Krafla. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 3.6.2020 af http://www.islenskeldfjoll.is/?volcano=KRA.

Kristján Sæmundsson & Freysteinn Sigmundsson. 2013. Norðurgosbelti. Bls. 319–357 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Ólafur Jónsson. 1946. Frá Kröflu. Náttúrufræðingurinn 16. 152–157.

Páll Einarsson. 1991. Umbrotin við Kröflu 1975-89. Bls. 97–139 í: Náttúra Mývatns (ritstj. Arnþór Garðarsson & Árni Einarsson). Hið íslenska náttúrufræðifélag, Reykjavík.

Páll Imsland. 1989. Um Kröfluelda. Náttúrufræðingurinn 59. 57–58.

Sjávarrof

Sjávarrof

Sjávarrof

Vissir þú að mikið sjávarrof er víða á strandlengju landsins? Á sumum svæðum er rofið svo mikið að það ógnar menningarminjum. Með hækkandi sjávarstöðu má búast við auknu sjávarrofi í framtíðinni.