Vetrarsteinbrjótur

Vetrarsteinbrjótur

Vetrarsteinbrjótur

Vissir þú að vetrarsteinbrjótur, öðru nafni vetrarblóm, blómgast fyrst allra plantna í apríl eða byrjun maí? Blómin eru lítil en áberandi rauðfjólublá. Vetrarsteinbrjótur er mjög harðgerð planta sem vex um allt land og hefur fundist í ríflega 1600 m hæð.

Náttúruminjasafnið tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna 2020

Náttúruminjasafnið tilnefnt til Íslensku safnaverðlaunanna 2020

Sýning Náttúruminjasafnsins, Vatnið í náttúru Íslands, hefur hlotið tilnefningu til Íslensku safnaverðlaunanna 2020. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, mun afhenda verðlaunin 18. maí n.k. í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Athöfninni verður streymt á samfélagsmiðlum.

Fimm sýningar og/eða verkefni keppa um verðlaunin að þessu sinni og bárust valnefnd 47 ábendingar um 34 verðug verkefni. Það eru Íslandsdeild Alþjóðaráðs safna (ICOM) og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) sem standa saman að Íslensku safnaverðlaununum sem veitt eru annað hvert ár fyrir framúrskarandi starfsemi.

Forvitnileg og fagleg miðlun

Í umsögn segir:

Mat valnefndar er að sýning Náttúruminjasafns Íslands, Vatnið í náttúru Íslands höfði til fjölbreytts hóps gesta á ólíkum aldri þar sem mikilvægri þekkingu á sviði safnsins er miðlað til þeirra á forvitnilegan, faglegan og gagnvirkan hátt. Það er mikilvægt að höfuðsafn á sviði náttúruminja sé sýnilegt almenningi. Grunnsýningin er til fyrirmyndar og íslensku safnastarfi til framdráttar.

Opið á ný í Perlunni

Sýning Náttúruminjasafnsins, Vatnið í náttúru Íslands, var opnuð 1. desember 2018. Sýningar í Perlunni hafa verið lokaðar í samkomubanninu undanfarnar vikur, en nú eru þær aftur opnar alla daga vikunnar frá kl. 12 – 18. Minnt er á tímabundna sýningu safnsins á sama stað um Rostunga, en hún var opnuð rétt áður en samkomubannið skall á.

Aðrir keppendur

Auk Náttúruminjasafnsins hlutu tilnefingu sýningin Austfirskt fullveldi – sjálfbært fullveldi á Egilsstöðum sem þrjú austfirsk söfn standa að; ný grunnsýning Sjóminjasafnsins, Fiskur og fólk – sjósókn í 150 ár; sýningar Listasafns Reykjavíkur, 2019 – ár listar í almannarými og loks Varðveislu- og rannsóknamiðstöð Þjóðminjasafnsins ásamt Handbók um varðveislu safnkosts.

.

Sýningar safnsins í Perlunni opna á ný 4. maí

Sýningar safnsins í Perlunni opna á ný 4. maí

Náttúruminjasafn Íslands mun opna að nýju sýningar sínar VATNIÐ í náttúru Íslands og ROSTUNGAR í Perlunni 4. maí n.k. Til að byrja með verður opnunartími frá 12–18 alla daga vikunnar en mögulegt er að bóka skólaheimsóknir frá kl. 9 á virkum dögum og eru skólahópar boðnir sérstaklega velkomnir.

Viðfangsefni skólahópanna verður með venjubundnum hætti: VATNIÐ sem auðlind, ár og árgerðir, veður og loftslag, myndun og mótun lands, líffræðilegur fjölbreytileiki, þróun lífvera og margbreytileiki votlendis. Hér má fá frekari upplýsingar og bóka skólahópa (linkur)

Við vekjum sérstaka athygli á glænýrri og áhugaverðri sérsýningu safnsins um ROSTUNGA en hún er á sömu hæð og sýningin VATNIÐ í náttúru Íslands.

Nýleg rannsókn, sem Náttúruminjasafn Íslands átti frumkvæði að og vann með fleiri vísindastofnunum, varpar alveg nýju ljósi á tilvist rostunga til forna við Ísland. Rannsóknin staðfestir að á Íslandi lifði séríslenskur rostungsstofn í árþúsundir en hann dó út á landnámsöld, 800–1200 e.Kr.

Á sýningunni er þessum merkilegu niðurstöðum gerð skil og fléttað saman við umfjöllun um líffræði rostunga almennt og útbreiðslu þeirra í dag, sem og við nytjar af rostungum til forna og hugsanlegum þætti þeirra í landnámi Íslands.

 

Hornsíli

Hornsíli

Hornsíli

Vissir þú að hornsíli eru algengustu fiskar í fersku vatni á Íslandi? Þau er nær alls staðar að finna, í tjörnum, ám en líka í sjó. Hornsílin eru aðeins 4–6 sm löng. Bak- og kviðuggar hafa umbreyst í gadda og í stað hreisturs eru hornsíli með brynplötur til varnar. Hornsíli hrygna á vorin og fram á sumar. Þá breyta hængarnir um lit og verða skærrauðir á kviði. Þeir helga sér óðul og gera sér kúlulaga hreiður sem er opið í báða enda. Hængurinn lokkar til sín hrygnur sem hrygna í hreiðrið, hann sprautar sæði yfir eggin og frjógvar þau. Hrygnan kemur ekki nálægt umönnun hrogna eða seiða en hængurinn ver hreiðrið og reynir að laða þangað fleiri hrygnur 

Hrossagaukur

Hrossagaukur

Hrossagaukur

Vissir þú að hrossagaukurinn helgar sér svæði, svokallað óðal, í kringum hreiður sitt? Hann ver óðalið með sérstöku hringflugi og hneggi sem myndast þegar hann steypir sér í loftköstum niður á flugi. Með hröðum stuttum vængjatökum klýfur hann loftstrauminn og leikur á útglenntar stélfjaðrirnar eins og hljóðfæri. Um þessar mundir má heyra þessi skemmtilegu hnegg hrossa-gauks.