Sýningar safnsins í Perlunni opna á ný 4. maí
Náttúruminjasafn Íslands mun opna að nýju sýningar sínar VATNIÐ í náttúru Íslands og ROSTUNGAR í Perlunni 4. maí n.k. Til að byrja með verður opnunartími frá 12–18 alla daga vikunnar en mögulegt er að bóka skólaheimsóknir frá kl. 9 á virkum dögum og eru skólahópar boðnir sérstaklega velkomnir.
Viðfangsefni skólahópanna verður með venjubundnum hætti: VATNIÐ sem auðlind, ár og árgerðir, veður og loftslag, myndun og mótun lands, líffræðilegur fjölbreytileiki, þróun lífvera og margbreytileiki votlendis. Hér má fá frekari upplýsingar og bóka skólahópa (linkur)
Við vekjum sérstaka athygli á glænýrri og áhugaverðri sérsýningu safnsins um ROSTUNGA en hún er á sömu hæð og sýningin VATNIÐ í náttúru Íslands.
Nýleg rannsókn, sem Náttúruminjasafn Íslands átti frumkvæði að og vann með fleiri vísindastofnunum, varpar alveg nýju ljósi á tilvist rostunga til forna við Ísland. Rannsóknin staðfestir að á Íslandi lifði séríslenskur rostungsstofn í árþúsundir en hann dó út á landnámsöld, 800–1200 e.Kr.
Á sýningunni er þessum merkilegu niðurstöðum gerð skil og fléttað saman við umfjöllun um líffræði rostunga almennt og útbreiðslu þeirra í dag, sem og við nytjar af rostungum til forna og hugsanlegum þætti þeirra í landnámi Íslands.