
Flórgoði
Flórgoði (Podiceps auritus)
Útlit og atferli
Flórgoði er eini goðinn sem verpur á Íslandi. Hann minnir á smávaxna önd, en er þó líkari brúsum í háttum og útliti; auðþekktur á þríhyrndu höfði, mjóum hálsi sem hann teygir oft, og stuttu stéli. Í sumarbúningi virðist hann dökkur í fjarlægð, höfuðið er stórt og svartgljáandi með stórum gulum fjaðrabrúskum aftur frá augum, sem minnka þegar líður á sumarið. Háls og síður eru rauðbrún, bak og afturháls svartleit og kviðurinn hvítur. Yfirvængir eru dökkir með hvítum speglum. Kynin eru sviplík. Á veturna er hann dökkur að ofan en ljós að neðan, með svarta þríhyrnda kollhettu, dökkt bak og dökkkámugan afturháls og síður. Ungfugl er svipaður fullorðnum fugli í vetrarbúningi. Goggurinn er svartur og stuttur, fætur gráir með sundblöðkum á tánum. Hárauð augu sitja framarlega á höfðinu.
Um varptímann gefur hann frá sér sérkennileg hljóð, hvell og ískrandi.

Flórgoðahjón á Vestmannsvatni.

Ungur flórgoði í Mývatnssveit. Vetrarbúningur fullorðinna fugla er svipaður.
Flórgoði á erfitt með að hefja sig til flugs og flýgur sjaldan, en þegar hann er kominn á loft á hann auðvelt með flug, fæturnir skaga aftur fyrir stélið og höfðinu er haldið lágt. Hann er mikill sundfugl og góður kafari en þungur til gangs. Sefdans flórgoðans í tilhugalífinu er mikið sjónarspil. Hann ber ungana gjarnan á bakinu og fæðir þá fyrstu vikurnar. Félagslyndur, en helgar sér óðal í vörpunum. Getur verið árásargjarn, telji hann sér ógnað og jafnvel svo, að hann ræðst á mink, sem nálgast hreiðrið.

Flórgoði hefur sig til flugs með tilhlaupi á Vestmannsvatni.

Flórgoðahjón á góðri stundu við hálfbyggt hreiður á Vestmannsvatni.

Flórgoðar berjast um yfirráðasvæði í Mývatnssveit.

Flórgoði með stóran unga á bakinu í Mývatnssveit.
Lífshættir
Á sumrin er aðalfæða flórgoðans hornsíli, en einnig brunnklukkur, tjarnatítur, krabbadýr, mýlirfur og flugur. Á sjó er fæðan líklega mest smáfiskur og krabbadýr. Flórgoðar eta talsvert eigið fiður og er það talið hjálpa upp á meltinguna. Láta sig stundum síga í vatnið, án þess að taka dýfu.
Flórgoði verpur við gróðursæl vötn og tjarnir, oft í dreifðum byggðum. Hreiðrið er fljótandi pallur, gerður úr rotnandi gróðri og festur við stöngla, oftast í breiðum af ljósastör, fergini eða öðrum vatnagróðri. Eggin eru 3–5, álegan er 22–25 dagar og ungarnir eru allt að tvo mánuði að verða fleygir. Á veturna sjást flórgoðar helst í skjólsælum víkum og vogum á sjó.

Flórgoðahjón dansa sefdans á Vestmannsvatni.

Flórgoði á flothreiðri á Vífilsstaðavatni. Þar hafa birkigreinar verið lagðar út, svo fuglinn eigi auðveldara með að festa fljótandi hreiðrið.

Flórgoðahjón fæða unga sína á hornsíli í Mývatnssveit.
Útbreiðsla og stofnstærð
Flórgoði var áður algengur varpfugl á láglendi í flestum landshlutum nema á Vestfjörðum. Honum fækkaði mikið upp úr 1950, vegna framræslu votlendis og landnáms minks að því að talið er. Góðu heilli er stofninn nú á uppleið aftur og er talinn vera um 1000 pör. Flórgoði er tíðastur í Skagafirði, Þingeyjarsýslum og á Héraði. Nærri helmingur stofnsins er í Mývatnssveit. Meirihlutinn hefur vetursetu á sjó í Norðvestur-Evrópu, kringum Bretlandseyjar og við Frakklandsstrendur; nokkrir tugir halda sig í Hvalfirði og víðar á Suðvesturlandi, svo og í Berufirði og víðar á Suðausturlandi, á veturna. Verpur í Skotlandi, Skandinavíu og síðan austur um Asíu og austanverða N-Ameríku.
Þjóðtrú og kvæði
Íslensk þjóðtrú hefur sneitt hjá flórgoðanum og sömuleiðis skáld, sem hafa ort um fugla. En gamalt heiti á honum er sefönd, áður fyrr hélt fólk hann vera önd.
Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson.

Nýjar þörungategundir á Íslandi
Fyrir skömmu kom út fræðigrein um kransþörunga á Íslandi í tímaritinu Nordic journal of botany. Greinin heitir New finds of charophytes in Iceland with an update on the distribution of the charophyte flora og má nálgast hér. Greint er frá fundi fjögurra nýrra tegunda kransþörunga á Íslandi, auk þess sem birt eru útbreiðslukort fyrir þær átta tegundir kransþörunga sem nú finnast hérlendis.
Kransþörungar (Charophyceae) eru í hópi grænþörunga (Chlorophyta) og ljóstillífa líkt og háplöntur. Þeir eru stærstir allra þörunga í ferskvatni og geta sumar tegundir orðið allt að metri að lengd. Kransþörungar draga nafn sitt af greinakrönsum sem sitja með reglulegu millibili á grönnum stöngli. Þeir eru algengir í tjörnum og stöðuvötnum þar sem þeir vaxa á kafi í vatni og mynda oft stórar breiður á botninum.

Kransþörungurinn tjarnanál (Nitella opaca) myndar iðulega þykkt teppi langra þörungaþráða á botni stöðuvatna. Myndin er tekin í Stíflisdalsvatni í Kjós, sjá má langnykru (Potamogeton praelongus) í bakgrunni. Mynd: Erlendur Bogason, 2018.
Nýju tegundirnar fjórar fundust í viðamikilli rannsókn á tegundasamsetningu og útbreiðslu vatnagróðurs í landinu, sem jafnframt var fyrsta skipulega rannsóknin af því tagi hér á landi. Rannsóknin var liður í lýsingu og kortlagningu vistgerða landsins á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands, en veg og vanda af sýnatöku og úrvinnslu hafði Náttúrufræðistofa Kópavogs. Gróður var kannaður á árunum 2012–2013 í 72 stöðuvötnum og 16 straumvötnum víðs vegar á landinu.
Höfundar greinarinnar eru Þóra Hrafnsdóttir og Hilmar J. Malmquist hjá Náttúruminjasafni Íslands, Finnur Ingimarsson, Haraldur R. Ingvason og Stefán Már Stefánsson hjá Náttúrufræðistofu Kópavogs, Eva G. Þorvaldsdóttir grasafræðingur og Anders Langangen sem er einn helsti sérfræðingur Norðurlanda í kransþörungum.
Myndskeiðið hér að neðan er tekið í Stíflisdalsvatni í Kjós og sýnir breiður af kransþörungnum tjarnanál. Myndataka og köfun: Erlendur Bogason, 2018.

Langvía
Langvía (Uria aalge)


Útlit og atferli
Langvía er algengur og fremur stór svartfugl sem líkist mjög stuttnefju. Á sumrin er langvían brúnsvört að ofan en hvít að neðan. Dökkar kámur og flikrur á síðum eru einkennandi. Hvítir jaðrar armflugfjaðra mynda ljósa rák á aðfelldum væng. Á litarafbrigðinu „hringvíu“ er hvítur hringur kringum augu og hvítur taumur aftur og niður úr honum. Á veturna teygist hvítur litur bringunnar upp eftir kverk, hálshliðum og vöngum, en svört rák gengur aftur frá augum. Goggur er svartur, mjór og oddhvass. Grunnlitur fóta er svartur og augu eru svört.
Svipar í mörgu til álku og stuttnefju. Höfuðlag er þó annað, langvía er auk þess hálslengri og stélstyttri en álka. Hún flýgur með kýttan háls. Á erfitt um gang, situr á ristinni. Auðgreindust frá stuttnefju á kámugum síðum og því að engin hvít rák er á gogghliðum. Er afar félagslynd.
Gefur frá sér hávært, langdregið sarghljóð um varptímann.


Lífshættir
Langvían kafar af yfirborði eins og aðrir svartfuglar, aðalfæðan er síli og loðna, en það fer nokkuð eftir landshlutum hvaða fæða er helst í boði. Étur einnig síld og smákrabbadýr.
Langvía verpur í stórum byggðum í fuglabjörgum eða ofan á stöpum og klettaeyjum. Er annars á sjó, bæði á grunn- og djúpsævi. Verpur á berar syllur, hreiðurgerð er engin. Eggið er aðeins eitt og er álegutíminn 32–33 dagar. Er oft í stórum bælum og breiðum. Ungar yfirgefa byggðina snemma eins og hjá álku og stuttnefju. Þeir verða fleygir á 7–10 vikum. Björgin tæmast síðla júlímánaðar.
Útbreiðsla og stofnstærð
Stór hluti íslenska stofnsins verpur í þremur stærstu fuglabjörgunum, Látrabjargi, Hælavíkurbjargi og Hornbjargi. Merkingar með gagna-(dægur-) ritum undanfarin ár sýna, að fuglar merktir í Látrabjargi hafa vetursetu vestur og suðvestur af landinu, m.a. við Grænlandsstrendur og suður af Grænlandi. Fuglar merktir á Langanesi og við Skjálfanda hafa vetursetu norður og austur af landinu. Heimkynni langvíu eru við norðanvert Atlantshaf og Kyrrahaf, í Atlantshafi verpur hún allt norður til Svalbarða og suður til Portúgals.
Veiðar og vernd
Langvía hefur löngum verið nýtt í íslenskum björgum, bæði fuglar og egg. Langvíum fækkaði um 30% milli talninga 1983–1986 og 2006–2008 eða sem samsvarar um 1,6% á ári. Endurteknar talningar á fjórum stöðum árið 2009 sýndu áframhaldandi fækkun. Athuganir á sniðum í völdum björgum 2009–2017 sýndu enn áframhaldandi fækkun. Langvía er því flokkuð sem tegund í nokkurri hættu á nýlegum válista Náttúrufræðistofnunar (2018). Eggjataka er þó enn stunduð á nokkrum stöðum.


Þjóðtrú og sagnir
Íslensk þjóðtrú segir fátt um langvíuna, en trúin tekur oft svartfuglana og hegðun þeirra saman. Það er helst að hún og þeir tengist veðurútliti, viti fyrir óveður, sérstaklega slæmar norðanáttir. Hún boðar einnig góðan afla, en sjómenn notuðu og nota enn fugla, sem og hvali, til að finna fiskitorfur.
Lítið hefur verið ort um langvíuna gegnum tíðina, en þeim mun meira um bjargsig og bjargnytjar, eins og þessi húsgangur úr Eyjum sýnir, en mynd fylgir með af Háubælum:
Hörð eru sig í Háubæli og hættuleg.
Hábrandinn ei hræðist ég,
en Hellisey er ógurleg


Spennandi þriðjudagar í júlí
Alla þriðjudaga í júlí mun Náttúruminjasafnið standa fyrir viðburðum á sýningu safnsins, Vatnið í Náttúru Íslands í Perlunni. Viðburðirnir standa frá kl. 14 – 16 og er aðgangur ókeypis.
Engir tveir viðburðir verða eins og eru viðfangsefnin bæði úti og inni.
Tilvalið fyrir fjölskyldur til að fræðast og tengjast náttúrunni á óvenjulegan og skemmtilegan hátt.
Dagskráin í júlí er eftirfarandi:
2. júlí – Hvað býr í vatninu?
9. júlí – Ratleikur
16. júlí – Vaxa steinar úr vatni?
23. júlí – Hvað býr í vatninu?
30. júlí – Nærðu áttum?
Hlökkum til að sjá ykkur sem flest!

Hvert er mikilvægi straumvatna fyrir lífríkið, fiska og menn? Árnar eru lífæðar landsins
Þriðjudaginn 4. júní nk. mun Kurt Fausch prófessor emeritus við Department of Fish, Wildlife, and Conservation Biology, Colorado State University halda fyrirlestur með titlinum:
What is essential about rivers for fish, and humans? Lessons on connectivity and connections from four decades.
Kurt er heimsþekktur vísindamaður sem hefur helgað líf sitt rannsóknum og miðlun þekkingar um vistfræði vatnakerfa, með sérstakri áherslu á ár og fiskana í þeim, þ.m.t. laxfiska. Hann er baráttumaður fyrir skynsamlegri umgengni og nýtingu straumvatna og bendir á að árnar eru lífæð mannkyns sem ber að varðveita og umgangast af virðingu. Hann er m.a. höfundur bókarinnar For the Love of Rivers: A Scientist’s Journey, sem kom út 2015.
Hérlendis er mikil umræða um umgengni og verndun vatna og áa og fiskistofna, sem m.a. tengist loftslagsbreytingum, virkjanamálum og fiskeldi. Fyrirlestur Kurts er kærkomið innlegg í þessa umræðu og til þess fallið að auka skilning okkar á mikilvægi rennandi vatns í lífkeðju landsins.
Fyrirlesturinn verður í sal 130 í Öskju Háskóla Íslands, og hefst kl. 12.30
Heimsókn Kurt til Íslands er á vegum Háskólans á Hólum, Hafrannsóknastofnunar, Háskóla Íslands og Náttúruminjasafns Íslands
Allir velkomnir!