by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 13.09.2019 | Fréttir
Hópur vísindamanna frá Íslandi, Danmörku og Hollandi hefur í fyrsta skipti staðfest með erfðarannsóknum og aldursgreiningum á beinaleifum rostunga að á Íslandi lifði sérstakur íslenskur rostungsstofn sem varð útdauður um landnám fyrir um 1100 árum.
Vísindagrein með þessum niðurstöðum birtist í dag í Molecular Biology and Evolution.
Fjórir íslenskir vísindamenn eru meðal höfunda greinarinnar: Snæbjörn Pálsson stofnlíffræðingur, Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur, Ævar Petersen, dýrafræðingur og Hilmar J. Malmquist. Greinin nefnist: Disappearance of Icelandic walruses coincided with Norse settlement.
Var ásókn í rostunga kveikjan að landnámi Íslands?
„Staðfest er að hér var sérstakur íslenskur stofn og að hann leið undir lok skömmu um eða upp úr landnáminu, líklega fyrst og fremst af völdum ofveiða,“ segir Hilmar J. Malmquist líffræðingur og forstöðumaður Náttúruminjasafnsins, einn höfunda greinarinnar. „Þessar niðurstöður renna stoðum undir kenningar Bergsveins Birgissonar, Bjarna F. Einarssonar og fleiri, um að ásókn í rostunga og fleiri sjávardýr kunni að hafa verið aðaldrifkrafturinn að baki landnámi Íslands og að landnám hafi hafist fyrr en almennt hefur verið talið.“

Beinaleifar rostunga finnast aðallega á Suðvesturlandi, Vesturlandi og Vestfjörðum. Einn algengasti fundarstaðurinn er á Snæfellsnesi þar sem þessi mynd er tekin. Rostungshausinn á myndinni reyndist vera um 1300 ára gamall og nær 12 kg. Ljósmynd: H.J. Malmquist.
Niðurstaðan er fengin með DNA-rannsókn á hvatberum úr 34 tönnum, beinum og hauskúpum rostunga, fundnum á Íslandi, aðallega á Vesturlandi og Vestfjörðum. Þeir reyndust óskyldir stofnum núlifandi rostunga í N-Atlantshafi. Ekki er að efa að þessi niðurstaða kyndir undir kenningar um að upphaflega hafi landnám Íslands tengst veiðum á rostungum – að landið hafi verið e.k. útstöð eða verstöð til veiðanna jafnvel í langan tíma áður en menn settust hér endanlega að. Útdauði íslenska rostungsstofnsins gæti þannig verið elsta dæmið um útdauða af völdum ofveiði, en tennur, húðir og lýsi rostunga voru verðmæt verslunarvara á Víkingaöld.
230 fundarstaðir

Rostungshaus úr fjöru á Ytri-Görðum, Snæfellsnesi. Sýni nr. W-27. Fundinn í ágúst 2015. Aldur (ár): 1313 ± 27 (C-14 leiðrétt, BP=1950). Heildarþyngd ca. 12 kg, þar af lengri skögultönn 1,7 kg og 57 cm og sú syttri 1,5 kg og 53 cm. Ljósmynd: Vigfús Birgisson.
Beinin úr 34 einstaklingum koma frá 230 fundarstöðum á landinu og reyndust 800–9000 ára gömul. Staðfest er að íslenski rostungurinn hafi verið hér við land frá því um 7000 f.kr. og fram til um 1200, þegar landið var fullsetið. „Safnkostur sem hefur að geyma merkar náttúruminjar felur jafnan í sér áhugaverð tækifæri til rannsókna og með nútímatækni má varpa nýju ljósi á náttúruna og samspil manns og náttúru,“ segir Hilmar.
„Í þessu tilfelli er um að ræða 800 til 9000 ára gamlar beinaleifar rostunga sem fundist hafa hér á landi, sýni úr alls 34 rostungum, auk upplýsinga um 230 fundarstaði beinaleifa, aðallega á Vesturlandi og Vestfjörðum. Í rannsókninni er einnig stuðst við upplýsingar um rostunga í fornritum, í Konungsskuggsjá, Landnámu og Íslendingasögum.“
Hér má nálgast fréttatilkynningu um rannsóknina á íslensku og ensku.

Myndina tók Jóhann Óli Hilmarsson 2015. Hún sýnir rostungskýr í látri á Svalbarða.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 1.09.2019 | Fugl mánaðarins
Urtöndin telst til andfuglaættbálksins ásamt svönum og gæsum, þessir fuglar tilheyra síðan allir sömu ættinni, andaætt. Karlfuglinn er ávallt stærri en kvenfuglinn hjá andfuglum, og hjá öndum er hann yfirleitt mun skrautlegri. Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Íslenskum öndum er skipt í buslendur, kafendur og fiskiendur.
Urtandarhjón að vetrarlagi í Fossvogsdal.
Urtandarhjón að vetrarlagi í Fossvogsdal.
Útlit og atferli
Urtönd er minnsta öndin sem verpur hér og raunar minnsta önd Evrópu. Hún er afar snör í snúningum og stygg. Í fjarska virðist steggurinn vera dökkgrár með dökkt höfuð. Hann er dökkrauðbrúnn á höfði og hálsi, með græna, ljósbrydda geira frá augum og aftur á hnakka. Bringan er gulleit með dökkum doppum, búkur að öðru leyti grár að undanskildum svörtum gumpi og undirgumpi, með rjómagulum flekkjum á hliðum. Svartar og hvítar axlafjaðrirnar mynda áberandi rákir á hliðum þegar vængir eru aðfelldir. Í felubúningi á fellitíma er steggur eins og kolla, en dekkri og jafnlitari að ofan. Kollan er gulbrúnflikrótt, eins og dvergvaxin stokkandarkolla, með dökkan koll og augnrák. Bæði kyn eru með hvítan kvið og dökkgræna vængspegla með áberandi hvítum framjaðri. Goggurinn er blágrár, kollan er oft með gult á skoltröndum. Fætur eru gráir með dekkri fitjum, augu brún. Steggur gefur frá sér lágt og flautandi hljóð, garg kollu er hvellt og hrjúft.
Urtandar- og stokkandarkollur í Fossvogsdal. Hinn mikli Stærðarmunurinn er sláandi.
Urtandarhjón að vetrarlagi í Fossvogsdal.
Þessi litli, kviki og hraðfleygi fugl er hálfgerður náttfugl og mest á ferli í ljósaskiptunum og á nóttunni. Oft sjást urtendur fljúga lágt í þéttum, litlum hópum og svipar þá til vaðfugla. Urtöndin hefur sig bratt til flugs, er lítil og þéttvaxin með hnöttótt höfuð, stuttan háls og mjóa vængi. Hún er félagslynd utan varptíma en afar stygg og felugjörn.
Lífshættir
Fæðuval og fæðuhættir er svipaðir og hjá öðrum buslöndum. Urtöndin etur fræ og græna plöntuhluta, einnig ber og á varptíma er próteinrík dýrafæða uppistaðan. Á sumrin er kjörlendi urtandar vot svæði á láglendi, t.d. grunnar tjarnir, skurðir, kílar, lygnar lindár, blautar mýrar og flóar. Hreiðrið er svipað og hjá öðrum buslöndum, venjulega vel falið í gróðri. Eggin eru 8–11, álegan tekur 21–23 daga og ungarnir verða fleygir á 25–30 dögum. Urtöndin heldur sig á veturna bæði á grunnum vogum eða víkum á sjó og á ferskvatni inn til landsins þar sem ekki leggur.
Urtandarhreiður í Flatey á Breiðafirði.
Urtandarkolla með unga í Flatey á Breiðafirði.
Útbreiðsla, ferðir og stofnstærð
Urtönd er að mestu farfugl. Hún er láglendisfugl en finnst einnig í gróðurvinjum á hálendinu. Hefur aðallega vetursetu á Bretlandseyjum, einkum Írlandi, en fer einnig víðar um V-Evrópu. Yfir 1000 fuglar eru staðfuglar og dvelja aðallega á Suður- og Suðvesturlandi yfir veturinn. Varpheimkynni eru víða í Evrópu og Asíu.
Skyldar tegundir – murtönd
Murtönd (Anas carolinensis) er amerísk frænka urtandarinnar. Hún var lengi talin undirtegund urtandar, en var í kringum aldamótin síðustu gerð að sértegund. Munurinn er enda lítill, murtönd er með hvíta skellu eða þverrönd fremst á síðunni, meðan urtöndin er með langrák ofan við síðuna á aðfelldum væng. Kollan verður ekki greind frá urtönd. Murtandarsteggir sjást venjulega með urtöndum.
Urtandahópur í friðlandinu í Vatnsmýrinni í Reykjavík.
Murtandarsteggur á Seltjarnarnesi.
Þjóðtrú og sagnir
Lítið er um urtöndina í íslenskri þjóðtrú, eins og raunin er um endur almennt. Endur voru helst taldar veðurvitar og voru þær jafnvel kallaðar spáfuglar vindanna. Sömuleiðis virðast skáld ekki hafa haft áhuga á að yrkja um þessa kviku önd, hinn tregafulli söngur villiandarinnar kveður ekki upp úr með tegundina.
Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 16.08.2019 | Fréttir

Berghlaupið í Öskju 2014, sandauðnir á Íslandi og sjófuglatalningar með dróna eru meðal áhugaverðs efnis í 1.–2. hefti 89. árgangs Náttúrufræðingsins sem kominn er út.
Flóðbylgjan sem fylgdi berghlaupinu í Öskju, 21. júlí 2014 náði 20–40 m hæð og er talin hafa borist yfir vatnið á einungis 1–2 mínútum. Hlaupið var eitt hið mesta sem orðið hefur á Íslandi á sögulegum tíma, um 20 milljónir rúmmetra. Það er jafnframt fyrsta berghlaup af þessari stærðargráðu sem rannsakað hefur verið ítarlega með nákvæmum mælingum og líkanagerð með samanburði gagna fyrir og eftir hlaupið. Mikið hefur verið ritað um hlaupið í erlend vísindarit en hér birtist í fyrsta sinn á íslensku yfirlit yfir rannsóknirnar ásamt fjölda ljósmynda og skýringarmynda.
Sandauðnir þekja rúmlega 20.000 km2landsins og hafa verið kallaðar „eyðimerkur Íslands“. Þær hafa víðtæk áhrif á vistkerfi landsins vegna áfoks sem frá þeim kemur. Um áratugaskeið hefur verið reynt að hefta áfok og framrás sandsins sem getur borist langar leiðir frá upprunastað og myndað „sandleiðir“ sem eru tugir kílómetra á lengd. Hér er fjallað um sanda og fok en síðar á árinu birtist grein um stærstu uppsprettur uppfoks á landinu og áfok.

Drottning Norður-Atlantshafsins hefur súlan verið kölluð. Ljósm. Sindri Óskarsson.
Hvað eru súlurnar í Eldey margar?
Drónar njóta vaxandi vinsælda, m.a. til rannsókna. Hér segir frá því hvernig nýta má dróna við talningar í sjófuglabyggðum og birtar niðurstöður talningar á súlu, ritu, fýl og selum sem héldu til á Eldey í júní 2017.

Errol Fuller er sjálfmenntaður fuglafræðingur og listmálari, en einnig ástríðufullur safnari. Ljósm. Gísli Pálsson.
Tvö geirfuglsegg í skúffunni
Rithöfundurinn og málarinn Errol Fuller sem er þekktur fyrir bók sína Geirfuglinn, er ástríðufullur safnari. Á heimili hans eru hundruð náttúrugripa frá öllum heimshornum, þar á meðal tvö geirfuglsegg! Í greininni Furðukames Fullerssegir frá heimsókn til Fullers og birtar ljósmyndir af óvenjulegu safni hans.
Af öðru efni í ritinu má nefna grein um vatnaþörunginn lækjagörn, leiðara um loftslagsvandann og aðgerðir íslenskra stjórnvalda, skýrslu stjórnar Hins íslenska náttúrufræðifélags og reikninga fyrir árið 2018 og umfjöllun um nýtt stórvirki í bókaútgáfu á Íslandi, ritið Flóra Íslands, eftir Hörð Kristinsson, Þóru Ellen Þórhallsdóttur og Jón Baldur Hlíðberg.
Þetta er 1.–2. hefti 89. árgangs Náttúrufræðingsins sem hóf göngu sína 1931 og er félagsrit Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Heftið er 72 bls. að stærð. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir líffræðingur. Að jafnaði eru gefin út fjögur hefti á ári. Félagsgjald og innifalin áskrift kostar 5.800 kr. og er veittur afsláttur fyrir stúdenta og hjón.
Efnisyfirlit 1.–2. heftis Náttúrufræðingsins 89. árgangs.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 14.08.2019 | Fréttir
Margmiðlunarfyrirtækið Gagarín hlýtur í ár hin eftirsóttu alþjóðlegu Red Dot hönnunarverðlaun fyrir hönnun og framleiðslu á þremur gagnvirkum atriðum á sýningu Náttúruminjasafns Íslands, Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni.
Verðlaunin heita „Best of the best“ í flokknum „viðmótshönnun og notendaupplifun“ og eru veitt fyrir þrjár gagnvirkar margmiðlunarstöðvar sem Gagarín hannaði fyrir sýninguna.
Margmiðlunarstöðvarnar eru ólíkar og veita einstaka upplifun og sýn inn í þessa mikilvægu auðlind, vatnið, sem er undirstaða alls lífs á jörðinni.
Atriðin sem hlutu verðlaun eru:
- Fossar – Myndrænn hljóðskúlptúr þar sem 773 fossanöfn á Íslandi steypast niður í háum fossi.
- Rennslismælar – Gagnvirk stöð sem sýnir rauntímarennsli í 18 mismunandi ám á Íslandi sem Veðurstofa Íslands vaktar.
- Vistrýnir – Gagnvirk stöð þar sem gestir geta kannað lífríki í níu ólíkum gerðum votlendis á Íslandi.
Yfirhönnuður sýningarinnar er Þórunn S. Þorgrímsdóttir og voru margmiðlunaratriðin unnin í samstarfi við hana og starfsfólk Náttúruminjasafnsins. Sýningin var opnuð í Perlunni 1. desember 2018.
Eins og nafnið ber með sér fjallar sýningin um gerð og eðli vatnsauðlindarinnar, hlutverk vatns við mótun lands og uppbyggingu og fjölbreytileikann í vatnalífríkinu. Ein af forsendunum við gerð sýningarinnar var að beita nýjustu tækni í miðlun svo að gestir gætu á gagnvirkan og eftirminnilegan hátt fræðst og upplifað fjölbreytileika vatnsins. Það er því sérstaklega ánægjulegt að Gagarín og Náttúruminjasafnið fái þessi verðlaun sem eru ein þau virtustu á sviði hönnunar og nýsköpunar.
Verðlaunin verða afhent í Berlín 1. nóvember næstkomandi.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 8.08.2019 | Fugl mánaðarins
Flórgoði
(Podiceps auritus)
Útlit og atferli
Flórgoði er eini goðinn sem verpur á Íslandi. Hann minnir á smávaxna önd, en er þó líkari brúsum í háttum og útliti; auðþekktur á þríhyrndu höfði, mjóum hálsi sem hann teygir oft, og stuttu stéli. Í sumarbúningi virðist hann dökkur í fjarlægð, höfuðið er stórt og svartgljáandi með stórum gulum fjaðrabrúskum aftur frá augum, sem minnka þegar líður á sumarið. Háls og síður eru rauðbrún, bak og afturháls svartleit og kviðurinn hvítur. Yfirvængir eru dökkir með hvítum speglum. Kynin eru sviplík. Á veturna er hann dökkur að ofan en ljós að neðan, með svarta þríhyrnda kollhettu, dökkt bak og dökkkámugan afturháls og síður. Ungfugl er svipaður fullorðnum fugli í vetrarbúningi. Goggurinn er svartur og stuttur, fætur gráir með sundblöðkum á tánum. Hárauð augu sitja framarlega á höfðinu.
Um varptímann gefur hann frá sér sérkennileg hljóð, hvell og ískrandi.
Flórgoðahjón á Vestmannsvatni.
Ungur flórgoði í Mývatnssveit. Vetrarbúningur fullorðinna fugla er svipaður.
Flórgoði á erfitt með að hefja sig til flugs og flýgur sjaldan, en þegar hann er kominn á loft á hann auðvelt með flug, fæturnir skaga aftur fyrir stélið og höfðinu er haldið lágt. Hann er mikill sundfugl og góður kafari en þungur til gangs. Sefdans flórgoðans í tilhugalífinu er mikið sjónarspil. Hann ber ungana gjarnan á bakinu og fæðir þá fyrstu vikurnar. Félagslyndur, en helgar sér óðal í vörpunum. Getur verið árásargjarn, telji hann sér ógnað og jafnvel svo, að hann ræðst á mink, sem nálgast hreiðrið.
Flórgoði hefur sig til flugs með tilhlaupi á Vestmannsvatni.
Flórgoðahjón á góðri stundu við hálfbyggt hreiður á Vestmannsvatni.
Flórgoðar berjast um yfirráðasvæði í Mývatnssveit.
Flórgoði með stóran unga á bakinu í Mývatnssveit.
Lífshættir
Á sumrin er aðalfæða flórgoðans hornsíli, en einnig brunnklukkur, tjarnatítur, krabbadýr, mýlirfur og flugur. Á sjó er fæðan líklega mest smáfiskur og krabbadýr. Flórgoðar eta talsvert eigið fiður og er það talið hjálpa upp á meltinguna. Láta sig stundum síga í vatnið, án þess að taka dýfu.
Flórgoði verpur við gróðursæl vötn og tjarnir, oft í dreifðum byggðum. Hreiðrið er fljótandi pallur, gerður úr rotnandi gróðri og festur við stöngla, oftast í breiðum af ljósastör, fergini eða öðrum vatnagróðri. Eggin eru 3–5, álegan er 22–25 dagar og ungarnir eru allt að tvo mánuði að verða fleygir. Á veturna sjást flórgoðar helst í skjólsælum víkum og vogum á sjó.
Flórgoðahjón dansa sefdans á Vestmannsvatni.
Flórgoði á flothreiðri á Vífilsstaðavatni. Þar hafa birkigreinar verið lagðar út, svo fuglinn eigi auðveldara með að festa fljótandi hreiðrið.
Flórgoðahjón fæða unga sína á hornsíli í Mývatnssveit.
Útbreiðsla og stofnstærð
Flórgoði var áður algengur varpfugl á láglendi í flestum landshlutum nema á Vestfjörðum. Honum fækkaði mikið upp úr 1950, vegna framræslu votlendis og landnáms minks að því að talið er. Góðu heilli er stofninn nú á uppleið aftur og er talinn vera um 1000 pör. Flórgoði er tíðastur í Skagafirði, Þingeyjarsýslum og á Héraði. Nærri helmingur stofnsins er í Mývatnssveit. Meirihlutinn hefur vetursetu á sjó í Norðvestur-Evrópu, kringum Bretlandseyjar og við Frakklandsstrendur; nokkrir tugir halda sig í Hvalfirði og víðar á Suðvesturlandi, svo og í Berufirði og víðar á Suðausturlandi, á veturna. Verpur í Skotlandi, Skandinavíu og síðan austur um Asíu og austanverða N-Ameríku.
Þjóðtrú og kvæði
Íslensk þjóðtrú hefur sneitt hjá flórgoðanum og sömuleiðis skáld, sem hafa ort um fugla. En gamalt heiti á honum er sefönd, áður fyrr hélt fólk hann vera önd.
Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson.