by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 7.04.2016 | Fréttir
Geirfuglinn – eign íslensku þjóðarinnar – verður kjörgripur sýningarinnar Sjónarhorns í Safnahúsinu til 17. apríl n.k.
Geirfugl á gömlu póstkorti. Talið er að síðustu geirfuglarnir hafi verið drepnir á Íslandi 1844.
Sunnudaginn 10. apríl klukkan 14 mun Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, ganga með gestum um sýninguna Sjónarhorn í Safnahúsinu við Hverfisgötu.
Í leiðsögninni verður áhersla lögð á hinn sjónræna þátt náttúru í menningu landsins og hugmyndir að baki sýningargerðinni ræddar. Þá verður staldrað við og geirfuglinn skoðaður en 17. apríl er síðasti sýningardagur fuglsins í Safnahúsinu en hann er fyrsti kjörgripur sýningarinnar.
Sýningin sem nefnist Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim – er grunnsýning á íslenskri list og sjónrænum menningararfi, og var opnuð í Safnahúsinu 18. apríl 2015. Þetta er fyrsta sýningin sem Náttúruminjasafn Íslands tekur þátt í frá stofnun 2007 en auk Náttúruminjasafnsins standa fimm aðrar menningarstofnanir að sýningunni: Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands, Þjóðskjalasafn, Landsbókasafn – Háskólabókasafn og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum.
Leiðsögnin er ókeypis og allir velkomnir!
Hér má sjá efni um sýninguna í Safnahúsinu á vef Náttúruminjasafnsins.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 2.04.2016 | Fréttir
Lóan er komin að kveða burt snjóinn …
Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.
Apríl er mánuður vorboðanna, farfuglanna, sem koma langan veg til að sinna kalli náttúrunnar í hinu bjarta, norræna sumri, sumir halda meira að segja áfram enn lengra með stuttri viðkomu hér á landi.
Lóan á sérstakan sess í hugum þjóðarinnar sem vorboði og hinn angurværi söngur hennar er ett af einkennishljóðum íslenska sumarins.
Lóan er fugl mánaðarins að þessu sinni.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 1.04.2016 | Fréttir
Hinn 1. apríl 2016 birtist eftirfarandi ekkifrétt á vef Náttúruminjasafnsins:
Í dag kl. 15 koma fulltrúar Þingvallaþjóðgarðs færandi hendi til Náttúruminjasafnsins. Þeir munu þá afhenda safninu brot úr norðurljósum sem féllu til jarðar í þjóðgarðinum. Brotið er það eina sem vitað er um á landinu og ljóst að hér er stórmerkilegur fundur á ferð, náttúrugripur sem kallar á að strax verði reist nýtt hús yfir Náttúruminjasafnið enda munu ferðamenn og landsmenn sjálfir væntanlega flykkjast til að skoða gripinn.
Landverðir fanga brotið úr norðurljósunum á Hakinu á Þingvöllum.
Áhugasamir eru velkomnir að vera viðstaddir afhendinguna kl. 15 í dag á bílastæðinu aftan við skrifstofur safnsins að Brynjólfsgötu 5. Athugið að Suðurgatan er lokuð fyrir umferð við Brynjólfsgötu og gott að aka aftan við Háskólabíó.
Meira um fundinn: Heimasíða Þjóðgarðsins á Þingvöllum.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 14.03.2016 | Fréttir
Fjallað er um Náttúruminjasafn Íslands í leiðara Fréttablaðsins í dag undir fyrirsögninni: Geirfuglasafn. Þar segir m.a. að staða safnsins hafi árum saman verið „óásættanlega með öllu og í raun okkur öllum sem þjóð til háborinnar skammar. Náttúruminjasafn gæti í reynd verið okkur ómetanlegt við menntun og fræðslu um náttúruna sem er okkur svo mikilvæg og svo kær á tyllidögum…“ Í leiðaranum er m.a. vísað til viðtals sem Fréttablaðið birti 11. mars s.l. við Hilmar J. Malmquist, forstöðumann safnsins.
Tilefni þessarar umfjöllunar Fréttablaðsins er m.a. fyrirhuguð náttúrusýning í Perlunni, en Hilmar segir að safnið sé í stórundarlegri stöðu nú þegar náttúrusýning einkaaðila í Perlunni er fyrirséð. Eins og frá stofnun þess sé safnið án eigin húsnæðis til sýningarhalds, og nú séu einkaaðilar að fara að rækja lögbundnar skyldur höfuðsafns þjóðarinnar. “Náttúruminjasafnið kemur vissulega óbeint að þessari vinnu með faglegri ráðgjöf, en samningur liggur fyrir um slíkt við Perluvini.” Hvað það þýðir í framhaldinu, telur Hilmar ekki ljóst.
“Það eru gríðarleg vonbrigði að ríkisvaldið skuli ekki styðja einhverja aðkomu safnsins að þessu verkefni á þessum tímapunkti”, segir Hilmar enn fremur, en það sé svo sem í takt við áherslur ríkisstjórnarinnar varðandi einkavæðingu samfélagslegrar þjónustu. „Alla vega hefur ráðherra hafnað þeirri leið að ríkið annist þetta, en líka að safnið komi að verkefninu með öðrum. Ráðherra verður að gefa upp hvert hann er að stefna með þetta safn. Ég hef óskað eftir fundum með honum um málefnið en hefur lítið orðið ágengt,“ segir Hilmar.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 11.03.2016 | Fréttir
Rauðviðarhnyðjan er talin 8–10 milljón ára gömul.
Náttúruminjasafni Íslands hefur borist myndarleg gjöf – steingerður trjáhnullungur, um 200 kg þungur, 60 cm hár og nær tveir metrar að ummáli. Gefandinn er Bryndís Þorsteinsdóttir, öldungur á tíræðisaldri, búsett í Reykjavík. Steingervingurinn er með stærri steingerðum trjáleifum sem fundist hafa á Íslandi og bendir flest til að hann sé úr Loðmundarfirði eða Borgarfirði eystra. Ef þetta er tilfellið má leiða að því líkum að steingervingurinn sé 8–10 milljón ára gamall.
Hnullungurinn var um árabil stofustáss á heimili Bryndísar Þorsteinsdóttur og manns hennar Helga H. Árnasonar. Myndin er tekin rétt fyrir 1988 eða 1989.
Það voru börn Bryndísar, Guðrún Helgadóttir jarðfræðingur og Þorsteinn Helgason arkitekt, sem höfðu milligöngu um gjöfina. Steingervinginn eignuðust Bryndís og maður hennar heitinn, Helgi H. Árnason verkfræðingur, árið 1984, þegar systir Helga, Hólmfríður Árnadóttir tannsmiður, færði þeim hann að gjöf. Hólmfríður mun aftur hafa eignast steinninn úr hendi vinar sem talið er að hún hafi kynnst í strætó, leið nr. 5. Nafn vinarins og gefandans er ekki þekkt en sú saga fylgir að hnullungurinn hafi komið frá Austfjörðum, jafnvel að gefandinn hafi með einhverjum hætti tengst Náttúrugripasafninu á Neskaupsstað.
Þeir sem þekkja til uppruna steingervingsins eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við Náttúruminjasafnið.
Leifur Á. Símonarson, steingervingafræðingur og Hilmar J. Malmquist forstöðumaður NMSÍ skoða steininn góða.
Steingervingurinn er með þeim stærri af þessari gerð á Íslandi. Nokkuð víst er að um rótarhnyðju er að ræða. Ekki er vitað með vissu um fundarstað en að mati sérfróðra sem skoðað hafa steingervinginn, þeirra Leifs Á. Símonarsonar prófessors í steingervingafræðum og Hjörleifs Guttormssonar náttúrufræðings, bendir flest til að hann sé frá svæðinu kringum Loðmundarfjörð/Borgarfjörð eystra, eins og fleiri steingervingar álíka að stærð, lit og annarri gerð.
Ef þetta er tilfellið má leiða að því líkum að steingervingurinn sé á bilinu 8–10 milljón ára gamall.
Rauðviðartré í Kaliforníu.
Mjög erfitt er að greina hið steingerða tré til tegundar, en sennilega er um að ræða tegund af ættkvísl rauðviðar (lat. Sequoia), stórvaxinna furutrjáa sem uxu hér á landi fyrir milljónum ára þegar loftslag var mun hlýrra.
Mikill fengur að þessari gjöf og er Bryndísi og aðstandendum hennar færðar bestu þakkir fyrir.
Steingervingurinn er varðveittur í skrifstofuhúsnæði Náttúruminjasafnsins, gömlu Loftskeytastöðinni á Brynjólfsgötu 5, en safnið og systurstofnunin, Náttúrufræðistofnun Íslands, hafa hvorki yfir að ráða sýningarrými né viðunandi geymslustað fyrir grip af þessu tagi.