by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 22.09.2016 | Fréttir
Sunnudaginn 25. september klukkan 14 mun Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, ganga með gestum um sýninguna Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Í leiðsögninni verður áhersla lögð á hinn sjónræna þátt náttúru í menningu landsins og spáð einkum í þá muni á sýningunni sem eru á vegum Náttúruminjasafnsins og systurstofnunarinnar, Náttúrufræðistofnunar Íslands.
Í leiðsögninni verður geirfuglinum gerð sérstök skil en í sumar var opnuð sérsýning um hann sem ber heitið Geirfugl †Pinguinus impennis. Aldauði tegundar – síðustu sýnin, og er þar á ferð samstarfsverkefni Náttúruminjasafns Íslands og Ólafar Nordal myndlistarmanns í samvinnu við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Náttúrufræðistofnun Íslands.

Augu síðustu geirfuglanna tveggja sem drepnir voru í Eldey 18944. Ljósm. Ólöf Nordal.

Geirfuglinn – eign íslensku þjóðarinnar, sem keyptur var fyrir söfnunarfé 1971, er til sýnis í Safnahúsinu.
Á sérsýningunni gefur m.a. að líta geirfuglinn sem þjóðin eignaðist árið 1971, uppdrátt af Geirfuglaskeri frá því um 1770, og ný verk eftir Ólöfu Nordal: ljósmyndaröð af innyflum síðustu geirfuglanna tveggja sem drepnir voru í Eldey árið 1844 og myndskeið sem sýnir fuglaveiðar fyrir um hálfri öld í Vestmannaeyjum.
Höfum við lært af fyrri mistökum?
Sérsýningunni um geirfuglinn er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi ábyrgrar og siðlegrar umgengni við undur og auðlindir náttúrunnar. Útrýming geirfuglsins er svartur blettur í sögu mannkyns og þar eiga Íslendingar sinn þátt. Hafa verður í huga að vitneskja og þekking á náttúru og umhverfi var takmarkaðri þá en nú. Samt sem áður eiga núlifandi ættingjar geirfuglsins, haftyrðill, stuttnefja og fleiri svartfuglar, í vök að verjast vegna veiða, búsvæðaröskunar og loftslagshlýnunar. Sú staða vekur upp spurningar um hvað við höfum lært af fyrri mistökum.
Sýningin Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim – er grunnsýning á íslenskri list og sjónrænum menningararfi, og var opnuð í Safnahúsinu 18. apríl 2015. Þetta er fyrsta sýningin sem Náttúruminjasafn Íslands tekur þátt í frá stofnun 2007 en auk Náttúruminjasafnsins standa fimm aðrar menningarstofnanir að sýningunni: Þjóðminjasafn Íslands, Listasafn Íslands, Þjóðskjalasafn, Landsbókasafn – Háskólabókasafn og Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum. Grunnsýningin stendur yfir í fimm ártil ársins 2020. Sérsýningin um geirfuflinn var opnuð 16. júní s.l. og stendur í eitt ár.
Leiðsögnin er ókeypis og allir eru velkomnir!
Hér má sjá efni um sýninguna í Safnahúsinu á vef Náttúruminjasafnsins.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 12.09.2016 | Fréttir

Tengingin milli lista og raunvísinda er viðfangsefni sýningarinnar RÍKI – flóra, fána, fabúla. Uppstilling eftir Olgu Bergmann. Ljósmynd: Listasafn Reykjavíkur.
Í Hafnarhúsinu stendur nú yfir sýningin RÍKI – flóra, fána, fabúla sem veitir áhorfendum innsýn í listsköpun ólíkra listamanna með verkum frá síðustu árum og áratugum, glænýjum verkum sem og öðrum eldri úr safneign Listasafns Reykjavíkur. Á sýningunni eru verk 50 listamanna.

Hvernig leitar samtímalist fanga í ríki náttúrunnar? Selurinn eftir Bryndísar Snæbjörnsdóttur og Mark Wilson. Ljósmynd: Listasafn Reykjavíkur.
Lokadagur á sunnudag – málþing og leiðsögn
Sýningunni lýkur n.k. sunnudag, 18. september en þann dag kl. 13 standa Listasafn Reykjavíkur og Náttúruminjasafn Íslands að umræðufundií tengslum við sýninguna. Listamenn sem eiga verk á sýningunni deila hugleiðingum sínum um hlutverk og möguleika myndlistar þegar kemur að áhuga og ábyrgð mannsins á lífríki jarðar. Fulltrúar safnanna taka þátt í fundinum og velta upp spurningum um samlegð lista og raunvísinda. Að samræðum loknum er gestum boðið upp á leiðsögn sýningarstjóra um sýninguna en þetta er eins og fyrr segir síðasti sýningardagur.
Þátttakendur:
Anna Fríða Jónsdóttir, myndlistarmaður
Dr. Hilmar J. Malmquist, líffræðingur og forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands
Markús Þór Andrésson, sýningarstjóri og verkefnisstjóri dagskrár í Listasafni Reykjavíkur
Olga Soffía Bergmann, myndlistarmaður
Unndór Egill Jónsson, myndlistarmaður
Aðgöngumiði á safnið gildir. Frítt fyrir handhafa Menningarkorts Reykjavíkur.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 11.07.2016 | Fréttir
Út er komið 1.-2. hefti 86. árgangs Náttúrufræðingsins, félagsrits Hins íslenska náttúrufræðifélags og tímarit Náttúruminjasafns Íslands. Í heftinu, sem er 72 bls., eru að venju spennandi greinar um náttúru landsins og fjölbreyttar rannsóknir á hinum ýmsu þáttum hennar.

Forsíða nýja heftisins.
Forsíðugreinin er að þessu sinni um rannsókn sem gerð var í Stykkishólmi á ólíkum aðferðum til að hefta útbreiðslu lúpínu. Greinin nefnist Áhrif sláttar og eitrunar á lúpínubreiður og gróðurfar, en eitrun og árlegum slætti var beitt á lúpínubreiður í tilraunareitum á fimm ára tímabili, 2011–2015. Höfundar eru Kristín Svavarsdóttir, Menja von Schmalensee, Ása L. Aradóttir, Anne Bau og Róbert A. Stefánsson.
Ólafs Arnalds ritar leiðara sem hann nefnir: Sauðfjárbeit og íslensk vistkerfi: Afneitun vanda. Telur Ólafur að nýgerður samningur um sauðfjárrækt sýni glögglega að sjónarmið náttúruverndar séu gerð hornreka í stjórnsýslunni þegar kemur að beitarnýtingu á Íslandi.
Aðrir höfundar greina eru: Lilja Karlsdóttir, Margrét Hallsdóttir, Ægir Þór Þórsson, Kesera Anamthawat-Jónsson, Ævar Petersen, Lars Hedenas, Kristín Jónsdóttir, Skarphéðinn G. Þórisson, Haraldur R. Ingvason, Finnur Ingimarsson og Stefán Már Stefánsson, Haraldur Ólafsson og Jónína Sigríður Þorláksdóttir.
Ritstjóri Náttúrufræðingsins er Álfheiður Ingadóttir.
Hér má sjá efnisyfirlit heftisins.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 14.06.2016 | Fréttir
Fimmtudaginn 16. júní verður opnuð sérsýning um geirfuglinn í Safnahúsinu við Hverfisgötu en í sérsýningarrými hússins skiptast á sýningar á vegum þeirra sex stofnana sem standa að sýningunni Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim.
Sýningin er samstarfsverkefni Náttúruminjasafns Íslands og Ólafar Nordal myndlistarmanns í samvinnu við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn og Náttúrufræðistofnun Íslands og nefnist:
Geirfugl † Pinguinus impennis Aldauði tegundar – Síðustu sýnin
Geirfugl er útdauð tegund en talið er að síðustu tveir geirfuglarnir á Jörðu hafi verið drepnir í Eldey undan Reykjanesi í júní árið 1844. Fuglarnir voru sendir til Háskólans í Kaupmannahöfn og þar eru líffæri og innyfli fuglanna enn varðveitt í 11 glerkrukkum í Náttúrufræðisafni Danmerkur. Ekki er vitað með vissu hvar hamir fuglanna eru niður komnir.

Ólöf Nordal Alca impennis ♀ Island 1844. Spiserør og mave af hunfuglen. 2016. Ljósmynd 60 × 90 cm.

Geirfuglinn sem keyptur var 1971 fyrir söfnunarfé verður sýndur í Safnahúsinu. Mynd af Eldey í baksýn. Ljósm. Erling Ólafsson.
Á sýningunni gefur að líta uppstoppaðan geirfugl sem keyptur var 1971, uppdrátt af Geirfuglaskeri frá því um 1770 sem sýnir veiðar á geirfugli og fleiri svartfuglum, og ný verk eftir Ólöfu Nordal: Ellefu ljósmyndir af líffærum og innyflum síðustu geirfuglanna tveggja eins og þau eru varðveitt í Náttúrufræðisafni Danmerkur, frásögn af drápi síðustu geirfuglanna í Eldey og myndskeið sem sýnir veiðar á fugli í Vestmannaeyjum.
Sérsýningunni um geirfuglinn er ætlað að vekja fólk til umhugsunar um mikilvægi ábyrgrar og siðlegrar umgengni við undur og auðlindir náttúrunnar. Útrýming geirfuglsins er svartur blettur í sögu mannkyns og þar eiga Íslendingar sinn þátt. Hafa verður í huga að vitneskja og þekking á náttúru og umhverfi var takmarkaðri þá en nú. Samt sem áður eiga núlifandi ættingjar geirfuglsins, haftyrðill, stuttnefja og fleiri svartfuglar, í vök að verjast vegna veiða og loftslagshlýnunar. Sú staða vekur upp spurningar um hvað við höfum lært af fyrri mistökum.
Sýningin verður opnuð kl. 15:30 fimmtudaginn, 16. júní, á stofndegi Hins íslenska náttúrufræðifélags (1889) sem stofnað var í þeim tilgangi að koma upp náttúruminjasafni í Reykjavík. Félagið rak m.a. sýningarsal í Safnahúsinu við Hverfisgötu á tímabilinu 1909–1947, en 1947 færði félagið ríkinu safnið að gjöf ásamt byggingarsjóði. Náttúruminjasafn Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands eru afsprengi þessa félagsskapar.
Sýningin stendur í eitt ár.
Um Ólöfu Nordal
Ólöf Nordal býr og starfar í Reykjavík. Hún nam við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og lauk meistaraprófi frá Cranbrook Academy of Art í Michigan og MFA frá höggmyndadeild Yale Háskólans í New Haven, Connecticut.
Í ljósmyndum sínum og skúlptúrum leikur Ólöf sér gjarnan með hugmyndafræði söfnunar, framsetningu á sýnum og það afskræmda sem fellur utan flokkunarkerfa. Verkin eru iðulega sprottin úr heimi þjóðsagna og þjóðtrúar sem Ólöf notar til að rannsaka og skoða þær vísindalegu aðferðir sem beitt er á náttúruna til að viðhalda henni, varðveita hana og skrá.
Ólöf er höfundur ýmissa útilistaverka og minnisvarða á opinberum vettvangi og má þar nefna Geirfuglinn í Skerjafirði, Bríetarbrekku, minnisvarða um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, Vitid ér enn – eda hvat? í Alþingishúsinu, og umhverfislistaverkið Þúfu sem stendur við Reykjavíkurhöfn. Hún hefur hlotið ýmis verðlaun og viðurkenningar, þar með talið úr Höggmyndasjóði Richard Serra frá Listasafni Íslands.
Um Sjónarhorn
Sýningin Sjónarhorn var opnuð í apríl 2015. Sýningin er ferðalag um íslenskan myndheim fyrr og nú, en í sjö álmum Safnahússins við Hverfisgötu eru jafn mörg sjónarhorn sem tengja saman ólík listaverk og áhugaverða muni, þvert á efni og tímabil. Sýningin í Safnahúsinu er samstarfsverkefni Þjóðminjasafns Íslands, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Þjóðskjalasafns Íslands.
Sérsýningarrit í þríbroti á íslensku um geirfuglinn.
Sérsýningarrit í þríbroti á ensku um geirfuglinn.
Handout in English on the Great Auk special exhibition.
by Anna Katrín Guðmundsdóttir | 25.05.2016 | Fréttir
Fréttatilkynning frá Náttúruminjasafni Íslands 25. maí 2016.
Náttúruminjasafn Íslands hefur brugðist hart við fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára en áætlunin er nú til umfjöllunar í fjárlaganefnd Alþingis. Í umsögn safnsins kemur fram að það valdi verulegum vonbrigðum og veki undrun að hvergi í fjármálaáætluninni er vikið að málefnum Náttúruminjasafnsins, hvorki um fjármögnun á sýningaraðstöðu né til almenns rekstrar. Er ríkisstjórnin hvött til þess að grípa tækifærið – nú þegar efnahagslegur uppgangur gerir kleift að ráðast í fjármögnun aðkallandi verkefna – og koma Náttúruminjasafninu á legg, en safnið er skv. lögum eitt þriggja höfuðsafna landsmanna auk Þjóðminjasafns og Listasafns Íslands.
Í umsögninni segir að svo líti út sem ríkisvaldið ætli enn að heykjast á þeirri skyldu sinni að koma fótunum undir þá stofnun sína sem lögum samkvæmt er ætlað miðlægt lykilhlutverk við upplýsingu og menntun um aðskiljanlegar náttúrur Íslands – náttúrusögu, náttúruvernd og nýtingu náttúruauðlinda. Þar er einnig bent á að fjárveitingar til reksturs safnsins hafa frá árinu 2008 numið um 25 milljónum króna á verðlagi hvers árs á sama tíma og allar vísitölur hafa hækkað um 55–70%.
Í umsögninni segir m.a.:
„Það er ekki einasta að beðið hafi verið í tíu ár, frá formlegri stofnun safnsins, eftir því að Náttúruminjasafnið njóti þess stuðnings frá Alþingi sem höfuðsafnið á skilið og þarf nauðsynlega á að halda til standa undir nafni, heldur er biðin orðin hartnær 130 ár, eða síðan 1889 þegar forveri safnsins, Hið íslenska náttúrufræðifélag, var stofnað. Eitt helsta markmið félagsins frá upphafi hefur verið „að koma upp sem fullkomnustu náttúrugripasafni á Íslandi, sem sé eign landsins og geymt í Reykjavík“ eins og segir samþykkt frá 16. júní 1889. Þetta markmið er enn í fullu gildi því ennþá hefur þjóðin ekki eignast viðunandi aðstöðu til sýningahalds um náttúru Íslands sem sæmir höfuðsafni á sviði náttúrufræða. Samkvæmt fjármálaáætluninni virðist stefnt að því að halda því ástandi óbreyttu í a.m.k. fimm ár til viðbótar.“
Umsögnina í heild má lesa hér.
HÍN krefst þess að ríkið standi við samninginn frá 1947
Hið íslenska náttúrufræðifélag hefur sent fjárlaganefnd umsögn um ríkisfjármálaáætlun 2017-2021. Þar segir að Náttúruminjasafnið búi við óviðunandi aðstæður og í árafjöld hafi ríkt algjör óvissa um aðstöðu safnsins til sýningarhalds. Málið sé félaginu skylt: Safnið sé afsprengi félagsins og hafi verið í eigu þess um langt skeið. Það valdi undrun og vonbrigðum að hvergi skuli vikið að safninu né fjárþörf þess í fjármálaáætluninni.
Félagið minnir á að á árinu 1947 voru ríkinu afhentar eignir HÍN, þ.á m. safneignin og álitlegur byggingasjóður í trausti þess að byggt yrði yfir safnið. Ríkið og menntamálaráðuneytið geti ekki skorast undan því að standa við þann samning nema með því að segja honum upp og skila til baka því eða jafnvirði þess sem það fékk í hendur þegar hann var undirritaður. Væntir félagið þess að ríkið standi við skuldbindingar sínar og skorar á fjárlaganefnd að leggja fram tillögur um fjárveitingar sem geri safninu kleift að sinna lögbundnum hlutverkum sínum.
Hér má lesa umsögn HÍN.