Þórshani

Þórshani

Þórshani (Phalaropus fulicarius)

Þórshani er sundhani, líkt og óðinshani og amerískur frændi þeirra, freyshani.

Þórshani er dálítið stærri en óðinshani. Sumarbúningur hans er rauðbrúnn að neðan en með áberandi ljósum og dökkum röndum að ofan. Kvenfugl er með svartan koll, goggrót og kverk og hvítan vanga, karlfugl er litdaufari, með rákóttan koll og oft með ljósa bletti á bringu og kviði. Vængbelti eru hvít. Á veturna er þórshani ljósblágrár að ofan en ljós að neðan, með dökka augnrák. Ungfugl er svipaður en dekkri á kolli, hnakka, baki og síðum. Goggur er gulur, nema dökkur fremst, og gildari en goggur óðinshana; hann dökknar á veturna. Fætur eru gráleitir með gulum sundblöðkum, augu dökk.

Þórshani sést oftast á sundi, hann er hraðfleygur þegar hann hefur sig á loft. Þórshani liggur hátt í vatninu og skoppar á vatnsborðinu. Hann er gæfur, eins og óðinshani.

Þórshani er líkur óðinshana í háttum. Í tilhugalífinu á kvenfuglinn frumkvæðið og það er karlfuglinn sem sér um álegu og ungauppeldi, en kerlan lætur sig hverfa strax eftir varpið og getur stundum verið í tygjum við fleiri en einn karl (fjölveri). Dömurnar safnast saman í hópa og frílista sig meðan karlarnir streða við uppeldið. Þessi femínismi er líka við lýði hjá hinum sundhönunum: óðinshana og freyshana.

Röddin er lík rödd óðinshana, en hvellari.

Þórshanahjón, kerlan til hægri.

Þórshanahjón, kerlan til vinstri.

Lífshættir

Notar svipaðar aðferðir við fæðuöflun og óðinshani, hann hringsnýst á sundi og þyrlar upp fæðu, dýfir gogginum ótt og títt í vatnið og tínir upp smádýr eins og rykmý, brunnklukkur, smákrabbadýr, tínir einnig rykmý af tjarnarbökkum og landi.  Úti á sjó etur hann svif. Í fjörum tekur hann þangflugulirfur, doppur og önnur smáskeldýr.

Er meiri sjófugl en óðinshani. Á sumrin heldur hann sig helst við sjávarlón, í fjörum með þanghrönnum og á grónum jökulaurum með tjörnum og lækjum. Hreiðrið er grunn laut, falin í gróðri. Eggin eru fjögur, útungun tekur 18-20 daga og ungar verða fleygir á 16-20 dögum.

Stofnstærð og útbreiðsla

Hér eru aðeins tæplega 300 fuglar í smáum byggðum umhverfis landið. Þórshani er með sjaldgæfustu varpfuglum okkar og er í útrýmingarhættu. Hann er á válista sem tegund í hættu (EN) og er stranglega bannað að nálgast hreiður hans nema með leyfi umhverfisyfirvalda. Þórshani dvelur aðeins 1−2 mánuði á varpstöðvunum. Fuglar sem sjást fram í október eru ef til vill fargestir frá heimskautalöndum. Talið er að vetrarstöðvarnar séu í Atlantshafi, nálægt miðbaug. Þórshani er hánorrænn fugl sem verpur víða við strendur landanna umhverfis Norðurheimskautið en þó hvergi í Evrópu nema á Íslandi, Svalbarða og Novaja Zemlja.

Þórshanakarl á flugi.

Þórshanahjón, karlinn ofar.

Þjóðtrú og sagnir

Fátt er um svo sjaldgæfan fugl í íslenskri þjóðtrú. Kunnasti varpstaður þórshana – líklega á heimsvísu – var um tíma á Eyrum, nærri Hraunsárósi. Þangað sóttu fuglaskoðarar og eggjasafnarar víða að til að berja þennan sjaldgæfa fugl augum eða ræna eggjum hans. Hann hvarf að mestu frá Eyrum um eða uppúr 1980. Ísólfur Pálsson frá Stokkseyri, faðir Páls tónskálds og organista, segir svo frá: „Þórshaninn, hinn undurfallegi miðsumarsfugl, sem kemur hingað aðeins til að verpa og er svo horfinn áður en varir, á einnig skilið að kallast hygginn. Spói er að vísu klókur, heiðlóa hyggin og jaðrakan jafnslungið að láta ekki vita um eggin sín, en þórshaninn er þeim öllu snjallari í klókindum. Hann verpur á þröngum stöðum, á vatnafitjum, heiðabörðum nálgægt vötnum, á sjávarbökkum og oft í götubrúnum við alfaravegi, og er þá vanur að liggja kyrr, hversu mikil umferð sem er, og unga þannig út í næði. Fljúgi hann af eggjum, fer hann beint uppí loftið, bregður máske á leik og flýgur svo í sama hasti eitthvað langt burt og sezt á vatn eða sjó. Fari maður svo á eftir honum, situr hann oftast uppi á þurru, er að er komið, og er að kroppa sig, læzt ekki taka eftir neinu, og má ganga mjög nærri honum án þess hann styggist. Kvenfuglinn hagar sér líkt og karlfuglinn. Það þykir merki þerritíðar, ef þórshanar og óðinshanar verpa lágt, sem kallað er. Þeir verpa t.d. stundum niðri í vatnsfarvegum, er lágt er í, og er margreynt, að ekki rignir svo mikið útungunartímann (3 vikur), að það komi að sök, þó að lega hreiðranna sé þannig, að það ekki þurfi nema eins dags regn til þess að flæði yfir það. Verpi þeir aftur á móti hátt í heiðabörðum, þó að vatnslítið sé og þurrkar hafi gegnið, þá mun varla bregðast, að rosi og óþerritíð komi, er að túnaslætti líður. Og oft hefur vaxið svo í vötnum, að flætt hafi upp að hreiðrum þeirra, en ekki lengra.“ (Eimreiðin 1941 (47, 4): 396-401).

Óðinshana- og þórshanahjón, frá vinstri: óðinshanakerla, óðinshanakarl, þórshanakarl og þórshanakerla.

Þórshanahjón á góðri stundu.

Ungur þórshani á fyrsta hausti.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson
Opnun jöklavefsjár

Opnun jöklavefsjár

Opnun jöklavefsjár

Sunnudaginn 20. mars kl. 14 verður ný íslensk jöklavefsjá islenskirjoklar.is kynnt í stjörnuveri Perlunnar. Viðburðurinn er haldinn á vegum Náttúruminjasafns Íslands og Jöklarannsóknafélags Íslands.

Jöklavefsjáin er samstarfsverkefni Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskólans, Jöklarannsóknafélags Íslands, Landsvirkjunar, Landmælinga Íslands og Náttúrustofu Suðausturlands.

Helgi Björnsson og Oddur Sigurðsson jöklafræðingar opna jöklavefsjána en auk þeirra munu sérfræðingar Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskólans og Landsvirkjunar fjalla um jöklamælingar, sýna ljósmyndir af jöklum og fara yfir virkni vefsjárinnar og gögn sem hún sýnir.

Að kynningum loknum mun Hilmar Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands bjóða gestum á sýningu safnsins, Vatnið í náttúru Íslands, og „Vorferð“, sérsýningu um sögu Jöklarannsóknafélags Íslands (JÖRFÍ).

Jöklavefsjáin kemur upplýsingum um jökla og jöklabreytingar á framfæri við almenning og áhugafólk um náttúruvísindi og áhrif loftslagsbreytinga á náttúru landsins. Vefsjáin birtir mælingar og yfirlit um rannsóknir og breytingar á íslenskum jöklum, þar á meðal sporðamælingar og gögn um útbreiðslu og afkomu jöklanna. Einnig eru fjölmargar ljósmyndir frá mismunandi tímum aðgengilegar í vefsjánni. Samanburðarljósmyndir sem teknar eru á sama stað með sama sjónarhorni sýna skýrt breytingarnar sem eru að verða á íslensku jöklunum með sívaxandi hraða. Hægt er að nálgast mæligögn og athuganir sem safnað er með reglubundnum hætti af innlendum stofnunum, fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum. Gagnasafnið verður uppfært jafnharðan og nýjar mælingar eru gerðar.

 

Jöklavefsjáin býður upp á fjölmargar ljósmyndir af jöklum sem sýna vel þær sláandi breytingar sem orðið hafa á jöklum hér á landi á síðustu áratugum. Meðal þeirra eru samanburðarmyndir sem teknar eru á sama stað með sama sjónarhorni eða unnar í tölvu til þess að sýna slíkan samanburð. Myndirnar af Fjallsjökli hér að ofan eru unnar af Kieran Baxter við Háskólann í Dundee og byggja á loftmynd frá Landmælingum Íslands frá 1988 og ljósmynd tekinni úr flygildi árið 2021.

Jón Eyþórsson skoðar klakahöll í Esjufjöllum um páskana 1951 (úr ljósmyndasafni Sigurjóns Rist).

Skrofa

Skrofa

Skrofa (Puffinus puffinus)


Skrofa er meðalstór, rennilegur og grannvaxinn sjófugl. Hún er svört að ofan og hvít að neðan með langa og mjóa vængi og afar flugfim. Hvíti liturinn að neðan er bryddur svörtu og vængbroddar og stéljaðrar eru dökkir. Stélið er stutt. Ungfugl er eins og fullorðinn og kynin eru eins. Skrofa er af fýlingaætt og ættbálki pípunasa, eins og fýll, sæsvölur, albatrosar og fleiri sjófuglar. Goggur er mjór, dökkur, krókboginn í endann með stuttum nasapípum. Fætur eru bleikir með grábláum yrjum, augu dökkbrún.

Skrofur eru oftast í hópum. Þær koma aðeins í byggðirnar að næturlagi en safnast í stóra hópa nærri þeim síðdegis. Skrofan flýgur lágt yfir haffleti og veltir sér á fluginu, svo til að sjá eru hóparnir annaðhvort svartir eða hvítir. Á sundi minnir hún á svartfugl en er léttsyndari. Eltir sjaldan skip. Skrofan er þögul, nema á varpstöðvum heyrast ýmiss konar óp, skrækir og vein. Hægt er að kyngreina fugla á hljóðunum.

Skrofa á flugi á Flóanum, Vestmannaeyjum.

Skrofur á sundi á Flóanum, Vestmannaeyjum.

Skrofur á flugi við Elliðaey, Vestmannaeyjum.

Skrofur að hefja sig til flugs á Flóanum, Vestmannaeyjum. Þær þurfa að hlaupa á vatninu til að ná flugi.

Lífshættir

Skrofur leita ætis í hópum. Skrofan tekur fisk (t.d. sandsíli og síld), átu (krabbadýr) og smokkfisk, kafar grunnt frá yfirborði eða stingur sér úr lítilli hæð.

Skrofan er úthafsfugl sem kemur ekki á land nema til að verpa. Verpur í þéttum byggðum á grasi vöxnum eyjum og höfðum. Gerir sér hreiður í holu sem hún grefur í svörð, oft innan um lunda. Eggið er aðeins eitt og útungunar- og ungatími er langur og skiptast foreldrarnir á: álegan tekur rúmar 7 vikur og unginn er í hreiðri í 10 vikur, aðalflugtími hans er í fyrri hluta september.

Skrofur á flugi á Flóanum, Vestmannaeyjum.

„Vatnsskerinn frá Mön“, skrofa á flugi við Elliðaey.

Útbreiðsla og stofnstærð

Skrofan verpur í Vestmannaeyjum, stærsta varpið er í Heimakletti, en hún er einnig í öðrum grónum eyjum. Þetta eru nyrstu varpstöðvar hennar í heiminum. Skrofunni virðist hafa fækkað vegna fæðuskorts á síðustu árin, eins og flestum öðrum sjófuglum. Sést víða við Suður- og Suðvesturland frá vori fram á haust. Einhver besti staður til að skoða skrofur á meginlandinu er í Garði, oftlega er skrofuhópur skammt norðan við höfnina og svo sjást þær á flugi við Garðsskaga. Skrofan er langlíf eins og aðrir pípunasar, Íslandsmetið á fugl sem höfundur þessa pistils merkti á hreiðri í Ystakletti 10. júní 1991, þá að minnsta kosti 6 ára gömul. Hún er enn að, fannst á hreiðri í klettinum í júní 2021.

Skrofa er á válista sem tegund í nokkurri hættu (VU). Henni virðist hafa fækkað frá því að stofninn var fyrst metinn 1991 og er hann nú talinn vera 3000-5000 pör.

Höfuðstöðvar skrofunnar eru á Bretlandseyjum en hún hefur nýlega numið land vestanhafs á Nýfundnalandi. Verpur auk þess í Færeyjum, lítils háttar á eyjum við Bretagne í Frakklandi, á Azoreyjum, Madeira og Kanaríeyjum. Vetrarstöðvar íslenskra skrofa eru við strendur Suður-Ameríku allt suður til Argentínu og Eldlands. Fuglarnir fljúga hring um Atlantshafið á þessum ferðum sínum. Íslenskar skrofur geta leitað allt til Biskajaflóa eftir æti á varptíma.

Skrofa á flugi við Elliðaey, Vestmannaeyjum.

Skrofur á flugi við Elliðaey, Vestmannaeyjum.

Þjóðtrú og sagnir

Á ensku er skrofan kennd við eyna Mön: Manx Shearwater, sem þýðir „vatnsskerinn frá Mön“. Þar og víðar á varpstöðvum hennar í Evrópu er hún tengd hinu illa og stafar það af hljóðunum, sem hún gefur frá sér í vörpunum að næturlagi, þau geta verið ískyggileg þegar skrofan flýgur framhjá í myrkrinu. Fólk átti erfitt með að heimafæra þau uppá nokkra dauðlega veru. Þýskumælandi sæfarendur hafa gjarnan nefnt tegundina djöflafugl (Teufelsvogel) sökum hljóðanna. Engin þjóðtrú virðist hafa skapast hérlendis, á varpstöðvunum í Eyjum, kannski vegna hinna björtu sumarnótta hér á norðurmörkum útbreiðslu skrofunnar?

Skrofa í Ystakletti, Vestmannaeyjum.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Gráþröstur

Gráþröstur

Gráþröstur (Turdus pilaris)


Gráþrösturinn er líkur skógarþresti en töluvert stærri og stéllengri. Hann er grár á höfði og gumpi, rauðbrúnn á baki og vængjum og gulleitur með dökkum dröfnum á bringu og síðum, ljós á kviði. Stélið er langt og svart. Goggurinn er gulur með dökkan brodd, fætur og augu dökk. Gefur frá sér hrjúft, hvellt og endurtekið „tsjakk“. Söngurinn er hröð runa fremur veikra, ískrandi hljóða.

Gráþröstur grípur til renniflugs með aðfelldum vængjum milli þess sem hann blakar þeim á flugi. Er var um sig og styggur, en getur verið yfirgangssamur og frekur gagnvart öðrum fuglum, sérstaklega þröstum, þar sem honum er gefið. Fuglarnir sjást stakir eða í hópum, bæði stórum og litlum.

Gráþröstur í skurði í Ölfusi.

Lífshættir

Fæða gráþrastar er svipuð og hjá skógarþresti. Hér sækja gráþrestir mest í garða þar sem epli, perur og aðrir ávextir standa til boða, sem og feitmeti, einnig eru ber vinsæl meðan þeirra gætir. Þeir sækja einnig í fjörur og taka þangflugur og fleira.

Gráþröstur gerir sér veglegt hreiður í trjám. Eggin eru 5-6, útungunartíminn er 10-13 dagar og ungarnir verða fleygir á 12-15 dögum. Heldur til í skóglendi, görðum, við bæi og í fjörum.

Gráþrastarhreiður í lerki við Löngumýri í Skagafirði.

Gráþröstur grípur síðasta berið á alaskareyninum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Gráþröstur er hér algengur haust- og vetrargestur. Hefur orpið af og til frá 1950, bæði norðanlands og sunnan. Nú síðast hafa 2-3 pör orpið á árlega á Akureyri, allavega frá árinu 2014. Stofninn hefur hvorki stækka né breiðist út. Varpheimkynni gráþrastar er á breiðu belti frá Skandinavíu og austur um Evrópu og Asíu.

Hvorki hafa myndast sagnir eða þjóðtrú, né ort hefur verið um svo sjaldgæfan fugl, svo kunnugt sé.

Gráþröstur gæðir sér á epli í Garðabæ.

Gráþröstur þenur sig á Selfossi.

Gráþröstur kúrir í vetrarkulda.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Gleði og stolt á Bessastöðum

Gleði og stolt á Bessastöðum

Gleði og stolt á Bessastöðum

„Ég tek við þessum verðlaunum með gleði og stolti og innilegu þakklæti til allra þeirra sem aðstoðuðu mig, enda voru skrif og útgáfa ævisögunnar svo sannarlega ekki einnar konu verk,“ sagði Sigrún Helgadóttir, rithöfundur þegar hún tók við Íslensku bókmenntaverðlaununum í flokki fræðibóka og rita almenns efnis fyrir bók sína: Sigurður Þórarinsson, Mynd af manni I-II, sem Náttúruminjasafn Íslands gefur út.

Sigrún tekur við verðlaununum úr hendi Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands. 

Sigrún með útgefanda sínum, ráðherra og forsetahjónum. Frá vinstri: Lilja Alfreðsdóttir, Hilmar J. Malmquist, Sigrún, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid. 

Sannkallað stórvirki

Verðlaunaverk Sigrúnar, sem telur um 800 blaðsíður í tveimur bindum, prýddar fjölmörgum ljósmyndum Sigurðar sjálfs, er sannkallað stórvirki. Sigrún vann að ævisögu Sigurðar í sjö ár og hafa bækurnar vakið verðskuldaða athygli og runnið út – en auk tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna hlaut ævisagan tilnefningu til Fjöruverðlaunanna og mikið lof gagnrýnenda. 

Í lokaumsögn dómnefndar segir m.a.: „Í þessari lipru, aðgengilegu og skemmtilegu frásögn er fylgst með þróun íslensks samfélags í átt til nútímans; efnilega föðurlausa sveitadrengnum sem kemst til mennta með hjálp góðra karla og kvenna, næmur, listrænn og skemmtinn, jafnvígur á hug- og raunvísindi en kýs að leggja fyrir sig jarðfræði og verður forystumaður í þeirri grein hér á landi um leið og hann kemst í fremstu röð á heimsvísu.“

Hér má lesa umsögn dómnefndar í heild.

Þakkarræða Sigrúnar vakti verðskuldaða athygli en hún beindi m.a. sjónum að mikilvægi þess að leiðir náttúruvísinda og hugvísinda skiljist ekki.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra óskar Sigrúnu til hamingju með heiðurinn. Til vinstri er Þórunn Rakel Gylfadóttir, sem hlaut verðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka. 

Fjölfróður vísinda- og listamaður

Í þakkarræðu sinni sagði Sigrún m.a. að Sigurður hefði ekki aðeins verið skemmtilegur raunvísindamaður heldur hafi hann haft yfirgripsmikla þekkingu og áhuga á mörgum sviðum, m.a. á bókmenntum. Hún vitnaði í Sigurð sem sagði eitt sinn: „Ég er þeirrar skoðunar, að fátt sé nútímamenningu hættulegra en það, að leiðir raunvísinda og hugvísinda skiljist um of og hefi einhvern tíma orðað það þannig, að án raunvísinda sé ekki hægt að lifa og án hugvísinda ekki vert að lifa á þessari jörð.“ 

Hér má lesa ræðu Sigrúnar í heild.

Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda. Höfundar fá einnig áritaðan verðlaunagrip, opna bók á granítstöpli með nafni sínu og bókar, en Jón Snorri Sigurðsson gullsmiður hannaði gripinn. 

Auk Sigrúnar hlutu þau Hallgrímur Helgason og Þórunn Rakel Gylfadóttir Íslensku bókmenntaverðlaunin 2021, Hallgrímur í flokki skáldverka fyrir skáldsöguna Sextíu kíló af kjaftshöggum sem JPV útgáfa gefur út og Þórunn Rakel í flokki barna- og ungmennabóka fyrir skáldsöguna Akam, ég og Annika sem Angústúra gefur út.

 Lárus Karl Ingason, ljósmyndari á vegum FÍBÚT tók meðfylgjandi ljósmyndir. 

Verðlaunahafar ásamt forsetahjónunum, menningarmálaráðherra og formanni Félags íslenskra bókaútgefanda. Frá vinstri Heiðar Ingi Svansson, Lilja Alfreðsdóttir, Hallgrímur Helgason, Þórunn Rakel Gylfadóttir, Sigrún Helgadóttir, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid. 

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins sem gefur bók Sigrúnar út, afhenti Guðna Th. Jóhannessyni diska með annars vegar heimildamynd um vísindastörf Sigurðar og hins vegar söngvum Sigurðar sem hljóðritaðir voru á árunum 1982-2012.