Rita

Rita

Rita (Rissa tridactyla)


Ritan er einkennismáfur fuglabjarga og úthafsins. Rita er á stærð við stormmáf, fullorðin fugl er blágrár á baki og yfirvængjum, með alsvarta vængbrodda en að öðru leyti hvítur á fiður. Á veturna eru hnakki og afturháls gráir, svartar kámur eru á hlustarþökum (aftan við augun). Ungfugl og fuglar á fyrsta vetri eru eins og fullorðnir fuglar í vetrarbúningi til höfuðsins en auk þess með svartan hálfkraga á afturhálsi. Bak, axlafjaðrir og smáþökur eru eins og á fullorðnum ritum, ofan á vængjum eru svartir V-laga bekkir, innri handflugfjaðrir og armflugfjaðrir eru hvítar. Svört rák er á stéljaðri, stélið lítið eitt sýlt. Á fyrsta sumri hverfur svarta stélbandið og tveggja ára fuglar eru svipaðir fullorðnum. Goggur er gulur á fullorðinni ritu, svartur á ungfugli. Stuttir fæturnir eru ávallt svartir og augun dökk með rauðum augnhring.

Gefur frá sér skært nefhljóð á varpstöðvum, er annars þögul.

Rituhjón á Svalbarða.

Ritufjöldi við vitann í Grímsey.

Rita baðar sig í ferskvatni á Arnarstapa.

 Ung rita í Grímsey.

Lífshættir

Lifir á sjávarfangi: fiski, aðallega sandsíli og loðnu, smokkfiski, rækju, burstaormum og fiskúrgangi. Tekur fæðuna á yfirborði eða kafar grunnt.

Ritan er mikill sjófugl sem sést oft á hafi úti fjarri landi en sjaldan inn til landsins, nema helst á baðstöðum, henni finnst gott að baða sig í ferskvatni og getur þá farið góðan spöl til að komast í það. Hún er ákaflega létt og lipur á flugi, hringsólar oft kringum fiskibáta og steypir sér eftir æti eins og kría. Afar félagslynd.

Verpur í sjávarhömrum, oft í stórum byggðum með öðrum sjófuglum, einnig í lágum klettaeyjum og skerjum. Hreiðrið er gert úr sinu, gróðurleifum og þangi og límt saman og fest á klettinn með driti og leir. Eggin eru oftast 2 (1-3), útungunartíminn er fjórar vikur og ungarnir verða fleygir á um 6 vikum.

Rituhreiður í Skrúðnum.

Rita með dúnunga í hreiðri á Arnarstapa.

Útbreiðsla og stofnstærð

Ritu fjölgaði mjög á síðustu öld og er hún hvarvetna algeng í fuglabjörgum. Um ¾ hlutar stofnsins byggja 12 stærstu vörpin. Ritustofninn taldi um 580 þúsund pör á árunum 2005−2009. Langstærsta byggðin er í björgunum við Hornvík en einnig eru stór vörp á Langanesi, í Grímsey, Vestmannaeyjum, Krýsuvíkurbergi og Látrabjargi. Ritu hefur þó fækkað í óáran þeirri sem gengið hefur yfir sjófugla á undanförnum árum, í heild um 12% frá fyrri talningu (1983−1985) og þá mest í Langanesbjörgum og Grímsey en fjölgað að sama skapi í Vestmannaeyjum og Krýsuvíkurbergi. Ritan er nú á válista sem fugl í nokkurri hættu (VU).

Ritan er að mestu farfugl, slæðingur hefur vetursetu við ströndina, en meirihlutinn leitar á haf út. Íslenskar ritur hafa vetursetu á hinu lífríka hafasvæði sunnan Grænlands og austan Nýfundnalands og jafnframt hafa merktir fuglar endurheimst í Evrópu frá Kólaskaga við Hvítahaf suður til Gíbraltar. Varpheimkynni eru við strendur á norðurslóðum, bæði við Kyrrahaf og Atlantshaf, þar sem ritan verpur Evrópumegin frá Franz Jósefslandi og Svalbarða suður til Portúgals.

 

Þjóðtrú og sagnir

Ritunni fylgdi hefðbundin trú á að henni fylgdi fiskisæld, eins og títt var um sjófugla. Hún sagði líka til um veður. Ýmis rituörnefni benda til að hún hafi lengi verið nýtt til matar. Fréttabréf á Langanesi og nágrenni (Kelduhverfi – Bakkafjörður) ber nafnið Skeglan = rita.

… Víða var fertugt, sumstaðar áreiðanlega sextugt. Þessi kolsvörtu björg voru einsog fannbarin, svo þraungt sat hvítur fuglinn í næturhúminu. Á syllu sem var ekki stærri en lófi manns bjuggu margar familíur. Þetta er skeglubygð.

Jafnvel um miðnóttina er skeglubygð sjaldan hljóð á þessum tíma árs; að minstakosti ekki leingi í senn. Þó allir virðist vera búnir að lesa bænirnar sínar, þá veit einginn fyr til en einhver hefst uppúr einsmannshljóði í skrækri falsettu einsog hríngt sé eldklukku. Stundum er röddin snögg og sár og einsog ýlfur í hundi sem vaknar við að stigið er á skottið á honum. Stundum einsog þegar hvítvoðúngur fer að hrína felmtsfullur uppúr fastasvefni, vakinn af orðlausum draumi sem kom í hæsta lagi af smávegis óþægindum fyrir hjarta. Skeglubygðin glaðvaknar og tekur undir dálitla stund uns fólkið kemur sér saman um að fara með faðirvorið aftur og bíða næsta vekjara …

Úr Kristnihaldi undir Jökli eftir Halldór Kiljan Laxnes.

Ritubyggð í Skrúðnum.

Rituhjón með fullvaxinn unga í hreiðri í Flatey.

Fullorðin rita á flugi á Arnarstapa.

Rituhópur við baðstað á Langanesi.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Náttúruminjasafn Íslands tilnefnt til Evrópsku safnaverðlaunanna 2022!

Náttúruminjasafn Íslands tilnefnt til Evrópsku safnaverðlaunanna 2022!

Náttúruminjasafn Íslands tilnefnt til Evrópsku safnaverðlaunanna 2022!

Náttúruminjasafnið er komið í úrslit í keppninni um Evrópsku safnaverðlaunin 2022, EMYA-2022!

Þetta er í fjórða sinn sem íslensku safni hlotnast þessi heiður Síldarminjasafnið á Siglufirði vann Evrópuverðlaun safna 2004 sem besta nýja iðnaðarsafn álfunnar; Þjóðminjasafn Íslands hlaut sérstaka viðurkenningu 2006 fyrir endurnýjaða grunnsýningu safnsins og á árinu 2008 var Minjasafn Reykjavíkur tilnefnt fyrir Landnámssýninguna Reykjavík 871±2 í Aðalstræti.

Vatnið í náttúru Íslands er sýning Náttúruminjasafnsins í Perlunni sem var opnuð 1. desember 2018. Ljósm. Vigfús Birgisson.

Í ár keppa 60 evrópsk söfn til úrslita í ýmsum flokkum sem verða kunngjörð í byrjun maí 2022. Evrópuráðið hefur þegar valið eitt safnanna Nano Nagle Place í Cork á Írlandi til verðlauna sem veitt eru safni sem sem leggur sérstaka áherslu á evrópsk sjónarmið og samspil staðbundinnar og evrópskrar sjálfsmyndar.  Það er menningarnefnd þingmannaráðsins (PACE) sem velur safn í þessum flokki en safnið er í 250 ára gömlu klaustri umgirt fallegum görðum. 

 

Sigurvegarar 2022 í öðrum flokkum verða tilkynntir á síðasta degi EMYA2022 hátíðarinnar sem fram fer í Tartu, Eistlandi 4. til 7. maí 2022. Náttúruminjasafnið er tilnefnt fyrir sýningu sína Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni en einnig fyrir framtíðarsýn safnsins.

„Allt við þetta mikla ritverk hrífur…“

„Allt við þetta mikla ritverk hrífur…“

„Allt við þetta mikla ritverk hrífur...“

Bók Sigrúnar Helgadóttur, Mynd af manni – ævisaga Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings, sem Náttúruminjasafnið gefur út, hlaut í gær tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna, ein fimm verka sem tilnefnd eru til verðlauna í flokki rita almenns efnis og fræðibóka.

 

Í lofsamlegri umsögn dómnefndar segir: Allt við þetta mikla ritverk hrífur, efnistök við ritun sögu Sigurðar Þórarinssonar og sjálft bókverkið, sem er markvisst og fagurlega myndskreytt. Rannsóknir vítt og breitt um landið, eldgos, jöklar, jarðlög, náttúruvernd, söngtextar og önnur áhugamál vísindamannsins sindra á hverri blaðsíðu.

Við óskum Sigrúnu Helgadóttur innilega til hamingju með þessa verðskulduðu tilnefningu. Mynd af manni er mikið verk – 802 blaðsíður og 700 ljósmyndirnar – í tveimur bindum í fallegri öskju. Bókin kostar 15900 kr. í póstverslun papyr.com og fæst í öllum bestu bókaverslunum landsins!

Snæugla

Snæugla

Snæugla (Bubo scandiacus)


Uglur eru sérstakur ættbálkur, þær eru óskyldar ránfuglum. Hér á landi er branduglan algengust; eyruglan er að nema land og breiðast út og verpur orðið reglulega á vissum stöðum. Snæuglan er þeirra sjaldgæfust. Fábreytt nagdýrafána er ástæðan fyrir þessum fáu uglum, en nagdýr er aðalfæða þeirra. 

Útlit og atferli

Afar stór, hvít ugla, með um 1,5 m vænghaf, „minnir á hálslausa álft“. Fullorðinn karlfugl er oftast snjóhvítur með fáeinum, dökkum dílum; kvenfugl og ungfugl með dökkbrúnum flikrum og þverrákum, svo mjög að ungfuglar kunna að virðast dökkir tilsýndar. Andlitið er þó alltaf hvítt. Vængir eru breiðir og rúnnaðir. Miklu stærri og með breiðari vængi en brandugla. Goggur og klær dökkgrá eða brúnsvört, fætur fiðraðir fram á klær. Augu stór og gul.

Snæugla er fremur stygg og fer oftast einförum utan varptíma. Hún er oft á ferli á daginn. Hefur sig til flugs með hægum vængjatökum, flýgur lágt og grípur stundum til renniflugs. Fuglinn er venjulega þögull, en lætur í sér heyra um varptímann.

Snæugla, kvenfugl.

Snæugla, kvenfugl/ungfugl.

Snæugla, karlfugl.

Lífshættir

Hér skortir aðalfæðu snæuglunnar, læmingja, þess vegna verður hún að gera sér að góðu að veiða fugla, aðallega rjúpu, gæsarunga og vaðfugla, einnig endur og eitthvað taka þær hagamýs.

Snæuglan verpur á hólum og öðrum mishæðum á bersvæði, þar sem vel sést yfir, hérlendis gjarnan í úfnum hraunum eða á gilbörmum. Hreiðrið er stór, grunn skál, venjulega eitthvað fóðruð með sinu, mosa og fjöðrum. Notar oft sama hreiðurstaðinn ár eftir ár. Eggin eru 3-7, klaktíminn 4-5 vikur og ungarnir verða fleygir á 6-7 vikum. Uglur byrja strax að liggja á og er útungun því ekki samstillt, eins og hjá flestum fuglum. Venjulega fara þeir ekki að liggja á fyrr en öllum eggjum hefur verið orpið og klekjast eggin því nokkurn vegin samtímis. Ungar í hreiðri geta verið mjög misþroska og bitnar það á yngstu ungunum, ef fæða er af skornum skammti.

Snæugla í ljósaskiptunum.

Snæuglukarl á músaveiðum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Snæugla er túndrufugl sem verpur á miðhálendinu og öðrum afskekktum, hálendum landshlutum. Varp var fyrst staðfest 1932, en sagnir um varp eru mun eldri. Nýlegar athuganir benda til að hún verpi eða reyni varp árlega, þó hingað til hafi hún verið talinn óreglulegur varpfugl, og stofnstærðin sé 3-5 pör. Ekki er vitað hvort varpfuglarnir séu staðfuglar, en uglur sjást á öllum tímum árs og má búast við þeim víða, þó helst á miðhálendinu og í jöðrum þess. Snæugla er alfriðuð og er óheimilt að nálgast hreiður hennar nema með leyfi Umhverfisstofnunnar.

Snæugla verpur allt í kringum Norður-Íshafið, m.a. bæði á Austur-Grænlandi og Norður-Skandinavíu. Leitar stundum langt suður fyrir hin eiginlegu heimkynni sín í Íshafslöndunum, sérstaklega í lélegum læmingjaárum. Reglulegar sveiflur eru í læmingjastofninum, sem spanna 3-5 ár. Ef til vill tengist varp hennar hér fæðunni á Grænlandi og niðursveiflu í læmingjastofninum, hún reyni frekar fyrir sér hérlendis þegar stofninn er lítill.

Þjóðtrú og sagnir

Íslensk þjóðtrú geymir lítið um snæugluna. Uglur eru tákn viskunnar og hefur sú trú teygt anga sína inní íslenskar bókmenntir og þjóðtrú.

Snæugla, líklega karlfugl, í hrjóstrugu landi á Miðhálendinu.

Snæugla, kvenfugl.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Sindraskel – nýr landnemi af ætt hnífskelja

Sindraskel – nýr landnemi af ætt hnífskelja

Sindraskel – nýr landnemi af ætt hnífskelja

Á gamlársdag 2020 fundust nokkrar dauðar hnífskeljar (Ensis sp.) í fjöru í Hvalfirði og skömmu síðar fannst lifandi samloka í fjörunni við ósa Hafnarár í mynni Borgarfjarðar. Ljóst er að hér er um nýjan landnema að ræða, en áður höfðu tvö eintök, reyndar annarrar tegundar, fundist dauð í fjöru við Lónsfjörð 1957. Í millitíðinni hefur ekkert til slíkra samloka spurst hér á landi.

Sex tegundir hnífskelja hafa fundist í norðanverðu Atlantshafi. Samlokurnar eru langar og mjóar og skelbrúnirnarhnífbeittar. Þær líkjast helst gamaldags rakhnífum og þaðan er enska heitið „razor clams“ einmitt komið. Hnífskeljar geta orðið 20 cm langar, og þykja hnossgæti.

Með erfðagreiningu hefur nú verið staðfest að nýi landneminn tilheyrir tegundinni Ensis terranovensis, sem nefnd hefur verið sindraskel, en þeirri tegund hefur nýlega verið lýst í fyrsta sinn og hefur hún aðeins fundist við Nýfundnaland til þessa.

Flutningur sjávarlífvera af mannavöldum út fyrir náttúruleg heimkynni sín og inn á ný svæði verður sífellt algengari. Oftast berast þær með kjölvatni skipa, með eldisdýrum eða áfastar skipsskrokkum. Á Líffræðiráðstefnunni sem hófst í gær, 14. október, var sagt frá fundi sindraskeljanna á Íslandi, en rannsókn á þeim er samvinnuverkefni Náttúruminjasafns Íslands, Hafrannsóknastofnunar, kanadísku stofnunarinnar Anishinabek/Ontario Fisheries Resource Centre (A/OFRC), Matís og Náttúrustofu Suðvesturlands.

Höfundarnir, Hilmar J. Malmquist, Karl Gunnarsson, Davíð Gíslason, Sindri Gíslason, Joana Micael og Sæmundur Sveinsson leiða líkur að því  að sindraskeljar hafi borist til Íslands með kjölvatni flutningaskipa frá austurströnd Norður-Ameríku, líklega fyrir 5–10 árum. Nái framandi tegundir að festa sig í sessi á nýjum slóðum geta þær í sumum tilfellum valdið skaða á lífríkinu sem fyrir er. Vöktun sindraskeljar eru því mikilvæg.