Gleði og stolt á Bessastöðum

Gleði og stolt á Bessastöðum

Gleði og stolt á Bessastöðum

„Ég tek við þessum verðlaunum með gleði og stolti og innilegu þakklæti til allra þeirra sem aðstoðuðu mig, enda voru skrif og útgáfa ævisögunnar svo sannarlega ekki einnar konu verk,“ sagði Sigrún Helgadóttir, rithöfundur þegar hún tók við Íslensku bókmenntaverðlaununum í flokki fræðibóka og rita almenns efnis fyrir bók sína: Sigurður Þórarinsson, Mynd af manni I-II, sem Náttúruminjasafn Íslands gefur út.

Sigrún tekur við verðlaununum úr hendi Guðna Th. Jóhannessonar forseta Íslands. 

Sigrún með útgefanda sínum, ráðherra og forsetahjónum. Frá vinstri: Lilja Alfreðsdóttir, Hilmar J. Malmquist, Sigrún, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid. 

Sannkallað stórvirki

Verðlaunaverk Sigrúnar, sem telur um 800 blaðsíður í tveimur bindum, prýddar fjölmörgum ljósmyndum Sigurðar sjálfs, er sannkallað stórvirki. Sigrún vann að ævisögu Sigurðar í sjö ár og hafa bækurnar vakið verðskuldaða athygli og runnið út – en auk tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna hlaut ævisagan tilnefningu til Fjöruverðlaunanna og mikið lof gagnrýnenda. 

Í lokaumsögn dómnefndar segir m.a.: „Í þessari lipru, aðgengilegu og skemmtilegu frásögn er fylgst með þróun íslensks samfélags í átt til nútímans; efnilega föðurlausa sveitadrengnum sem kemst til mennta með hjálp góðra karla og kvenna, næmur, listrænn og skemmtinn, jafnvígur á hug- og raunvísindi en kýs að leggja fyrir sig jarðfræði og verður forystumaður í þeirri grein hér á landi um leið og hann kemst í fremstu röð á heimsvísu.“

Hér má lesa umsögn dómnefndar í heild.

Þakkarræða Sigrúnar vakti verðskuldaða athygli en hún beindi m.a. sjónum að mikilvægi þess að leiðir náttúruvísinda og hugvísinda skiljist ekki.

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra óskar Sigrúnu til hamingju með heiðurinn. Til vinstri er Þórunn Rakel Gylfadóttir, sem hlaut verðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka. 

Fjölfróður vísinda- og listamaður

Í þakkarræðu sinni sagði Sigrún m.a. að Sigurður hefði ekki aðeins verið skemmtilegur raunvísindamaður heldur hafi hann haft yfirgripsmikla þekkingu og áhuga á mörgum sviðum, m.a. á bókmenntum. Hún vitnaði í Sigurð sem sagði eitt sinn: „Ég er þeirrar skoðunar, að fátt sé nútímamenningu hættulegra en það, að leiðir raunvísinda og hugvísinda skiljist um of og hefi einhvern tíma orðað það þannig, að án raunvísinda sé ekki hægt að lifa og án hugvísinda ekki vert að lifa á þessari jörð.“ 

Hér má lesa ræðu Sigrúnar í heild.

Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda. Höfundar fá einnig áritaðan verðlaunagrip, opna bók á granítstöpli með nafni sínu og bókar, en Jón Snorri Sigurðsson gullsmiður hannaði gripinn. 

Auk Sigrúnar hlutu þau Hallgrímur Helgason og Þórunn Rakel Gylfadóttir Íslensku bókmenntaverðlaunin 2021, Hallgrímur í flokki skáldverka fyrir skáldsöguna Sextíu kíló af kjaftshöggum sem JPV útgáfa gefur út og Þórunn Rakel í flokki barna- og ungmennabóka fyrir skáldsöguna Akam, ég og Annika sem Angústúra gefur út.

 Lárus Karl Ingason, ljósmyndari á vegum FÍBÚT tók meðfylgjandi ljósmyndir. 

Verðlaunahafar ásamt forsetahjónunum, menningarmálaráðherra og formanni Félags íslenskra bókaútgefanda. Frá vinstri Heiðar Ingi Svansson, Lilja Alfreðsdóttir, Hallgrímur Helgason, Þórunn Rakel Gylfadóttir, Sigrún Helgadóttir, Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid. 

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins sem gefur bók Sigrúnar út, afhenti Guðna Th. Jóhannessyni diska með annars vegar heimildamynd um vísindastörf Sigurðar og hins vegar söngvum Sigurðar sem hljóðritaðir voru á árunum 1982-2012. 

Náttúrufræðingurinn mættur!

Náttúrufræðingurinn mættur!

Náttúrufræðingurinn mættur!   

Út er komið 3.–4. hefti Náttúrufræðingsins, 91. árgangs. Í heftinu er m.a. sagt frá brislingi sem er nýfundinn nytjafiskur við Ísland, mítlum sem húkka sér far með drottningarhumlum og sauðfé sem étur kríuegg og -unga. Forsíðuna prýðir hvít tófa í fjöru, en í heftinu er fyrsta grein af þremur um íslenska melrakkann og fjallar um stofnbreytingar, veiðar og verndun refastofnsins. Loks er gerð grein fyrir lifnaðarháttum og útbreiðslu skötuorms á Íslandi, stærsta íslenska hryggleysingjans sem þrífst í vötnum á hálendinu.

Heftið er 84 bls. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir, líffræðingur.

Refastofninn réttir úr kútnum

Sagt er að uppáhaldsbörn eigi sér mörg nöfn. Sama á við um refinn sem kallast m.a. tófa, melrakki, lágfóta og skolli. Melrakki er elsta heitið, komið úr norsku, en melrakkinn var eina landspendýrið sem fyrir var þegar landnámsmenn komu til Íslands. Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur, hefur ritað þrjár yfirlitsgreinar fyrir Náttúrufræðinginn um íslenska refinn. Í þeirri fyrstu fjallar hún um rannsóknir á íslenska refastofninum, stofnbreytingar, veiðar og verndun. Refir voru réttdræpir og feldur þeirra var verðmætur gjaldmiðill strax á þjóðveldisöld. Þeir voru loks friðaðir með lögum 1994 en veiðar þó áfram stundaðar í skjóli undanþáguákvæða. Á árinu 2015 var talið að stofninn væri stöðugur og teldi um 7 þúsund dýr. Nýjasta stofnmatið sýnir að stofninn hefur rétt úr kútnum og að haustið 2018 hafi hann talið um 8.700 dýr. Tvö litaafbrigði eru af íslenska refnum, hvítt og mórautt. Stór hluti stofnsins lifir á strandsvæðum og eru flestir mórauðir. Umtalsverður hluti stofnsins lifir hins vegar inn til landsins og þar er litarfar nokkuð jafnskipt milli hvítra og mórauðra refa. Ljósmyndina á forsíðu tók Einar Guðmann.

 

Laumufarþegar á humlum

Á vorin og haustin eru humludrottningar (Bombus-tegundir) oft þaktar gulleitum doppum sem í reynd eru lifandi mítlar (Acari). Guðný Rut Pálsdóttir og Karl Skírnisson sníkjudýra-fræðingar hafa rannsakað mítlana, kannað lífsferil þeirra og möguleg áhrif á humlur og bú. Skoðaðar voru 53 drottningar af þremur algengum humlutegundum. Allar báru þær mítla, allt uppí fjórar tegundir hver, en mítlarnir voru af fimm tegundum, og voru þrjár áður óþekktar hér á landi. Mítlarnir festa sig á drottningarnar og taka sér þannig far milli búa. Ein tegundin stundar hreinan nytjastuld í búunum þar sem hún lifir á frjókornum og blómasafa. Hinar tegundirnar fjórar þakka fyrir verðmætt fóður í búunum með því að þrífa, éta myglu og drepa og éta smádýr sem sækja í búið.

Hér má sjá með berum augum ásætumítillinn Parasitellus fucorum á móhumludrottningu (Bombus jonellus). Ljósm. Páll B. Pálsson.

Brislingur (Sprattus sprattus) 15 cm langur og brislingskvarnir. Ljósm: Svanhildur Egilsdóttir og Guðrún Finnbogadóttir.

Brislingur veiðist við Ísland

Með auknu innflæði hlýs sjávar á Íslandsmið frá 1996 hafa nýjar tegundir veiðst við Ísland. Ein þeirra er brislingur (Sprattus sprattus) sem veiddist í fyrsta sinn á Íslandsmiðum 2017 svo vitað sé. Á næstu árum fjölgaði brislingum og í tveimur leiðöngrum 2021 fengust nær 700 brislingar, flestir fyrir Suður- og Vesturlandi, en einnig í Arnarfirði og Ísafjarðardjúpi. Brislingur er smávaxinn uppsjávarfiskur af síldaætt, honum svipar til síldar en er þó hærri um sig miðjan, 11,5–15 cm. Brislingur er mjög algengur við strendur meginlands Evrópu allt suður til Afríku. Hann þykir góður matfiskur, ársaflinn í Eystrasalti og Norðursjó hefur verið 600–700 þúsund tonn og eru Danir stórtækastir.

Staðfest er að brislingur hrygndi við Ísland sumarið 2021 og það kann að auka líkurnar á því að þessi smávaxna fisktegund sé komin til að vera. Jónbjörn Pálsson, fimm starfsmenn Hafrannsóknastofnunar og einn starfsmaður Háskólaseturs Vestfjarða eru höfundar greinarinnar um þennan nýjasta nytjafisk við Íslandsstrendur.

Kind með tvö lömb á kafi í kríuvarpinu í Flatey. Ljósm. Kane Brides.

Kindur sem éta egg og unga!

Kindur eru grasbítar – eða hvað? Sumarið 2019 sást til kinda í Flatey á Breiðafirði sem ýttu kríu (Sterna paradisaea) af hreiðri sínu og átu síðan egg hennar. Sama sumar fundust bæði lifandi og dauðir kríuungar með hluta vængjar eða allan vænginn afstýfðan, svo og dauðir hauslausir ungar. Þetta endurtók sig sumrin 2020 og 2021 og voru ummerkin eins og vængur eða haus hefðu verið rifnir frá búknum. Engar líkur eru á að fuglarnir hafi misst væng eða haus við það að fljúga á rafmagnsvíra eða girðingar enda ungarnir enn ófleygir. Þetta er ekki einsdæmi – a.m.k. fjögur tilvik önnur eru tilgreind um unga- og eggjaát sauðkinda annars staðar á landinu: frá Bárðardal og Suðurlandi, þar sem um var að ræða lóu- og spóaunga, og frá Flatey á Skjálfanda og Mjóafirði þar sem um kríuunga var að ræða.

Höfundar greinarinnar eru Ævar Petersen, Sverrir Thorstensen, Scott Petrek og Kane Brides og segja þeir óljóst hversu víðtæk þessi hegðun er eða af hverju sauðfé gerist kjötætur. Sú skýring hefur verið nefnd að kindurnar vanti steinefni, en það er ekki staðfest.

Lifandi steingervingar

Skötuormur (Lepidurus arcticus) er langstærsti hryggleysingi í ferskvatni á Íslandi, í útliti er hann eins og aftan úr fornöld og má kallast einkennisdýr í vötnum og tjörnum á hálendinu. Þóra Hrafnsdóttir og Þorgerður Þorleifsdóttir, líffræðingar, gerðu sér ferð í ferð í Veiðivötn á Landmannaafrétti sumarið 2019 ásamt hollenska listamanninum og ljósmyndaranum Wim van Egmond. Ferðin var farin á vegum Náttúruminjasafns Íslands í því skyni að taka ljósmyndir og kvikmyndir til fræðslu um þetta vatnadýr sem fáir hafa augum litið. Grein þeirra er e.k. ferðasaga og þar má finna lýsingar á útliti og lífsferli skötuormsins og frábærar ljósmyndir af þessu huldudýri.

Skötuormur (Lepidurus arcticus) á botni Skálanefstjarnar í Veiðivötnum. Ljósm. Wim van Egmond.

Skötuormar eru rándýr og éta allt sem að kjafti kemur, bæði lifandi og dautt, svo sem þörunga, vatnaflær og rykmýslirfur. Þeir eru jafnframt eftirsótt fæða silungs og vatnafugla. Myndin hér að ofan sýnir lóuþræl (Calidris alpina) tína upp í sig skötuorm í Gæsavötnum síðsumars 2017. Ljósm. Þórður Halldórsson.

Huldudýr á heiðum uppi

Þó fáir hafi heyrt um skötuorminn og enn færri séð þetta sérkennilega krabbadýr hefur skötuormur verið þekktur í landinu um aldir. Jón lærði Guðmundsson (1574–1658) nefnir hann trúlega fyrstur í riti sínu um Íslands aðskiljanlegar náttúrur (1640–1644) og kallar hann „vatnslúður“. Útbreiðslan hefur hins vegar verið á huldu þar til nú að Þorleifur Eiríksson, Þorgerður Þorleifsdóttir, Hrefna Sigurjónsdóttir og Hilmar J. Malmquist líffræðingar hafa tekið saman tiltæk gögn um hana frá tímabilinu 1780–2020. Alls voru skráðir 237 fundarstaðir skötuorma og staðfestir rannsóknin að skötuormur er fyrst og fremst hálendisdýr á Íslandi (yfir 90% í 200 m h.y.s., eða meira), og algengastur í tjörnum og grunnum vötnum í um 400 m hæð yfir sjávarmáli eða meira. Dýrið hefur fundist í öllum landshlutum, mest á norðan- og sunnanverðu miðhálendinu en síst á Vesturlandi.

Auk framangreinds er í nýjasta hefti Náttúrufræðingsins leiðari sem Droplaug Ólafsdóttir, formaður ritstjórnar Náttúrufræðingsins og starfsmaður vinnuhóps Norðurskautsráðsins um lífríkisvernd (CAFF) ritar um Að ná settu marki, eftirmæli um Svanhildi Jónsdóttur Svane, fléttufræðing sem lést 1916, og ritdómur um stórvirki Kristjáns Leóssonar og Leós Kristjánssonar, Silfurberg – Íslenski kristallinn sem breytti heiminum, sem út kom að Leó látnum á árinu 2020.

Verkamenn í silfurbergsnámunni við Helgustaði, vopnaðir haka, skóflu og fötu. Ljósm. Þjóðminjasafn Íslands.

Rita

Rita

Rita (Rissa tridactyla)


Ritan er einkennismáfur fuglabjarga og úthafsins. Rita er á stærð við stormmáf, fullorðin fugl er blágrár á baki og yfirvængjum, með alsvarta vængbrodda en að öðru leyti hvítur á fiður. Á veturna eru hnakki og afturháls gráir, svartar kámur eru á hlustarþökum (aftan við augun). Ungfugl og fuglar á fyrsta vetri eru eins og fullorðnir fuglar í vetrarbúningi til höfuðsins en auk þess með svartan hálfkraga á afturhálsi. Bak, axlafjaðrir og smáþökur eru eins og á fullorðnum ritum, ofan á vængjum eru svartir V-laga bekkir, innri handflugfjaðrir og armflugfjaðrir eru hvítar. Svört rák er á stéljaðri, stélið lítið eitt sýlt. Á fyrsta sumri hverfur svarta stélbandið og tveggja ára fuglar eru svipaðir fullorðnum. Goggur er gulur á fullorðinni ritu, svartur á ungfugli. Stuttir fæturnir eru ávallt svartir og augun dökk með rauðum augnhring.

Gefur frá sér skært nefhljóð á varpstöðvum, er annars þögul.

Rituhjón á Svalbarða.

Ritufjöldi við vitann í Grímsey.

Rita baðar sig í ferskvatni á Arnarstapa.

 Ung rita í Grímsey.

Lífshættir

Lifir á sjávarfangi: fiski, aðallega sandsíli og loðnu, smokkfiski, rækju, burstaormum og fiskúrgangi. Tekur fæðuna á yfirborði eða kafar grunnt.

Ritan er mikill sjófugl sem sést oft á hafi úti fjarri landi en sjaldan inn til landsins, nema helst á baðstöðum, henni finnst gott að baða sig í ferskvatni og getur þá farið góðan spöl til að komast í það. Hún er ákaflega létt og lipur á flugi, hringsólar oft kringum fiskibáta og steypir sér eftir æti eins og kría. Afar félagslynd.

Verpur í sjávarhömrum, oft í stórum byggðum með öðrum sjófuglum, einnig í lágum klettaeyjum og skerjum. Hreiðrið er gert úr sinu, gróðurleifum og þangi og límt saman og fest á klettinn með driti og leir. Eggin eru oftast 2 (1-3), útungunartíminn er fjórar vikur og ungarnir verða fleygir á um 6 vikum.

Rituhreiður í Skrúðnum.

Rita með dúnunga í hreiðri á Arnarstapa.

Útbreiðsla og stofnstærð

Ritu fjölgaði mjög á síðustu öld og er hún hvarvetna algeng í fuglabjörgum. Um ¾ hlutar stofnsins byggja 12 stærstu vörpin. Ritustofninn taldi um 580 þúsund pör á árunum 2005−2009. Langstærsta byggðin er í björgunum við Hornvík en einnig eru stór vörp á Langanesi, í Grímsey, Vestmannaeyjum, Krýsuvíkurbergi og Látrabjargi. Ritu hefur þó fækkað í óáran þeirri sem gengið hefur yfir sjófugla á undanförnum árum, í heild um 12% frá fyrri talningu (1983−1985) og þá mest í Langanesbjörgum og Grímsey en fjölgað að sama skapi í Vestmannaeyjum og Krýsuvíkurbergi. Ritan er nú á válista sem fugl í nokkurri hættu (VU).

Ritan er að mestu farfugl, slæðingur hefur vetursetu við ströndina, en meirihlutinn leitar á haf út. Íslenskar ritur hafa vetursetu á hinu lífríka hafasvæði sunnan Grænlands og austan Nýfundnalands og jafnframt hafa merktir fuglar endurheimst í Evrópu frá Kólaskaga við Hvítahaf suður til Gíbraltar. Varpheimkynni eru við strendur á norðurslóðum, bæði við Kyrrahaf og Atlantshaf, þar sem ritan verpur Evrópumegin frá Franz Jósefslandi og Svalbarða suður til Portúgals.

 

Þjóðtrú og sagnir

Ritunni fylgdi hefðbundin trú á að henni fylgdi fiskisæld, eins og títt var um sjófugla. Hún sagði líka til um veður. Ýmis rituörnefni benda til að hún hafi lengi verið nýtt til matar. Fréttabréf á Langanesi og nágrenni (Kelduhverfi – Bakkafjörður) ber nafnið Skeglan = rita.

… Víða var fertugt, sumstaðar áreiðanlega sextugt. Þessi kolsvörtu björg voru einsog fannbarin, svo þraungt sat hvítur fuglinn í næturhúminu. Á syllu sem var ekki stærri en lófi manns bjuggu margar familíur. Þetta er skeglubygð.

Jafnvel um miðnóttina er skeglubygð sjaldan hljóð á þessum tíma árs; að minstakosti ekki leingi í senn. Þó allir virðist vera búnir að lesa bænirnar sínar, þá veit einginn fyr til en einhver hefst uppúr einsmannshljóði í skrækri falsettu einsog hríngt sé eldklukku. Stundum er röddin snögg og sár og einsog ýlfur í hundi sem vaknar við að stigið er á skottið á honum. Stundum einsog þegar hvítvoðúngur fer að hrína felmtsfullur uppúr fastasvefni, vakinn af orðlausum draumi sem kom í hæsta lagi af smávegis óþægindum fyrir hjarta. Skeglubygðin glaðvaknar og tekur undir dálitla stund uns fólkið kemur sér saman um að fara með faðirvorið aftur og bíða næsta vekjara …

Úr Kristnihaldi undir Jökli eftir Halldór Kiljan Laxnes.

Ritubyggð í Skrúðnum.

Rituhjón með fullvaxinn unga í hreiðri í Flatey.

Fullorðin rita á flugi á Arnarstapa.

Rituhópur við baðstað á Langanesi.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Náttúruminjasafn Íslands tilnefnt til Evrópsku safnaverðlaunanna 2022!

Náttúruminjasafn Íslands tilnefnt til Evrópsku safnaverðlaunanna 2022!

Náttúruminjasafn Íslands tilnefnt til Evrópsku safnaverðlaunanna 2022!

Náttúruminjasafnið er komið í úrslit í keppninni um Evrópsku safnaverðlaunin 2022, EMYA-2022!

Þetta er í fjórða sinn sem íslensku safni hlotnast þessi heiður Síldarminjasafnið á Siglufirði vann Evrópuverðlaun safna 2004 sem besta nýja iðnaðarsafn álfunnar; Þjóðminjasafn Íslands hlaut sérstaka viðurkenningu 2006 fyrir endurnýjaða grunnsýningu safnsins og á árinu 2008 var Minjasafn Reykjavíkur tilnefnt fyrir Landnámssýninguna Reykjavík 871±2 í Aðalstræti.

Vatnið í náttúru Íslands er sýning Náttúruminjasafnsins í Perlunni sem var opnuð 1. desember 2018. Ljósm. Vigfús Birgisson.

Í ár keppa 60 evrópsk söfn til úrslita í ýmsum flokkum sem verða kunngjörð í byrjun maí 2022. Evrópuráðið hefur þegar valið eitt safnanna Nano Nagle Place í Cork á Írlandi til verðlauna sem veitt eru safni sem sem leggur sérstaka áherslu á evrópsk sjónarmið og samspil staðbundinnar og evrópskrar sjálfsmyndar.  Það er menningarnefnd þingmannaráðsins (PACE) sem velur safn í þessum flokki en safnið er í 250 ára gömlu klaustri umgirt fallegum görðum. 

 

Sigurvegarar 2022 í öðrum flokkum verða tilkynntir á síðasta degi EMYA2022 hátíðarinnar sem fram fer í Tartu, Eistlandi 4. til 7. maí 2022. Náttúruminjasafnið er tilnefnt fyrir sýningu sína Vatnið í náttúru Íslands í Perlunni en einnig fyrir framtíðarsýn safnsins.

„Allt við þetta mikla ritverk hrífur…“

„Allt við þetta mikla ritverk hrífur…“

„Allt við þetta mikla ritverk hrífur...“

Bók Sigrúnar Helgadóttur, Mynd af manni – ævisaga Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings, sem Náttúruminjasafnið gefur út, hlaut í gær tilnefningu til íslensku bókmenntaverðlaunanna, ein fimm verka sem tilnefnd eru til verðlauna í flokki rita almenns efnis og fræðibóka.

 

Í lofsamlegri umsögn dómnefndar segir: Allt við þetta mikla ritverk hrífur, efnistök við ritun sögu Sigurðar Þórarinssonar og sjálft bókverkið, sem er markvisst og fagurlega myndskreytt. Rannsóknir vítt og breitt um landið, eldgos, jöklar, jarðlög, náttúruvernd, söngtextar og önnur áhugamál vísindamannsins sindra á hverri blaðsíðu.

Við óskum Sigrúnu Helgadóttur innilega til hamingju með þessa verðskulduðu tilnefningu. Mynd af manni er mikið verk – 802 blaðsíður og 700 ljósmyndirnar – í tveimur bindum í fallegri öskju. Bókin kostar 15900 kr. í póstverslun papyr.com og fæst í öllum bestu bókaverslunum landsins!