Samstarf milli Náttúruminjasafnsins og Stofnunar Árna Magnússonar

Samstarf milli Náttúruminjasafnsins og Stofnunar Árna Magnússonar

Samstarf milli Náttúruminjasafnsins og Stofnunar Árna Magnússonar

Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands og Guðrún Nordal forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum undirrituðu föstudaginn 1. september síðastliðinn rammasamkomulag um samstarf stofnananna á sviði rannsókna og miðlunar. Markmið samkomulagsins er að stuðla að samstarfi og samlegð um rannsóknir og miðlun á náttúru- og menningararfi Íslands og með því móti tryggja varðveislu og aðgengi að arfinum til heilla fyrir land og þjóð. Öðrum þræði er efnt til samstarfsins í því augnamiði að brjóta niður múra milli fræðasviða og skapa deiglu nýsköpunar.

Samkomulagið tekur m.a. til sameiginlegra rannsókna og miðlunar, jafnt með sýningahaldi og útgáfu, og til gagnkvæmra nota starfsmanna á aðstöðu til fræðistarfa. Þá eru í samkomulaginu ákvæði sem snúa að samstarfi um einstök, afmörkuð rannsóknaverkefni, fjármögnun þeirra og miðlun.

Við undirritun rammasamkomulagsins var tækifærið nýtt til að ýta úr vör fyrsta rannsóknaverkefninu sem stofnanirnar eiga samstarf um en það snýst um rannsóknir á tveimur illa förnum hlutum af landakorti af Íslandi sem dregið var á skinn og Viðar Hreinsson sérfræðingur á Náttúruminjasafninu fann hvorn í sínu lagi árið 2015 og 2019 i Kaupmannahöfn og Stokkhólmi. Sterkar líkur eru taldar á að verkið sé eftir Jón Guðmundsson lærða (1574-1658). Í tilefni af fyrirhugaðri rannsókn á landakortshlutunum undirrituðu forstöðumennirnir erindi til Konunglega bókasafns Danmerkur í Kaupmannahöfn og Konunglega bókasafns Svíþjóðar í Stokkhólmi þar sem skinnhlutarnir með landakortinu fundust. Í rannsókninni verður nýjustu myndatækni beitt við skoðun skinnhlutanna og er vonast til að bregða megi skýru ljósi á gerð og eðli landakortshlutanna og staðfesta af hvaða svæðum landsins þeir eru (virðist vera af Norðvesturlandi og austurhluta landsins), sem og að varpa betra ljósi á framlag Jóns lærða til náttúrufræða hér á landi í stærra samhengi.

Við undirritun rammasamkomulags Náttúruminjasafnsins og Árnastofnunar.

Rammasamkomulagið við Stofnun Árna Magnússonar, sem er fyrsta samkomulagið sem undirritað er í Eddu, nýjum húsakynnum Árnastofnunar, er meðal nokkurra slíkra samstarfssamninga sem Náttúruminjasafnið hefur gert við aðrar stofnanir á undanförnum árum. Þar má nefna nýlegan samning við Vatnajökulsþjóðgarð, nýlega samninga við Náttúrufræðistofnun Íslands, systurstofnun Náttúruminjasafnsins, auk samninga við Háskólann á Hólum og Háskóla Íslands.

Nýtt hefti Náttúrufræðingsins komið út

Nýtt hefti Náttúrufræðingsins komið út

Út er komið 1.– 2. hefti Náttúrufræðingsins, 93. árgangs. Í heftinu er m.a. sagt frá landnámi plantna og framvindu í Surtsey síðustu 60 árin, sögu veggjalúsarinnar á Íslandi, bókinni Hvenær kemur sá stóri? Að spá fyrir um jarðskjálfta eftir Ragnar Stefánsson og nýjum rannsóknarniðurstöðum um íslenska melrakkann.

Í blaðinu er einnig ljósmynda- og ljóðasería um Surtsey en í henni eru m.a. myndir frá upphafi Surtseyjargossins eftir Sigurð Þórarinsson og Ævar Jóhannesson.

Forsíðuna prýðir mynd af Surtsey sem tekin var af Sigurði Þórarinssyni í lok nóvember 1963.

Nýtt vefsetur Náttúrufræðingsins hefur nú litið dagsins ljós og þar er hægt að skoða allt efni nýjasta heftisins (á forsíðu) sem og efni fyrri árganga. 

natturufraedingurinn.is

Heftið er 86 bls. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Margrét Rósa Jochumsdóttir, margret@nmsi.is

 

Hvað býr í þjóðgarði?

Hvað býr í þjóðgarði?

Sýningin Hvað býr í þjóðgarði stendur fram á vor 2024 í Dropanum, sérsýningarrými Náttúruminjasafnsins á 2. hæð Perlunnar.

Hvað býr í Þjóðgarði?

Fimmtudaginn 31. ágúst opnaði sýningin Hvað býr í þjóðgarði? í sérsýningarrými Náttúruminjasafns Íslands í Perlunni. Sýningin er samstarfsverkefni Náttúruminjasafnsins og Vatnajökulsþjóðgarðs og er innblásin túlkun á þjóðgarðinum í heild sinni, landslagi hans, sögu og samfélaginu umhverfis garðinn.

Miðpunktur sýningarinnar er umfangsmikill og litskrúðugur skúlptúr sem sýnir á áhrifamikinn og hugvitssamlegan hátt náttúrufyrirbrigði og fjölbreytileg stef þjóðgarðsins, en skúlptúrinn er unninn af hönnuðum og listafólki Studio Irmu. Með sýningunni er gestum þannig veitt áþreifanleg innsýn í ævintýraheim Vatnajökuls og náttúruna umhverfis hann.

Sýningin er farandsýning sem mun standa uppi í Perlunni fram á vor 2024 áður en hún leggur land undir fót. Ætlunin er að sýningin ferðist á milli gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs næstu árin, heimafólki, sem og innlendum og erlendum ferðamönnum til fræðslu og yndisauka.

Hilmar Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands hélt tölu ásamt Ingibjörgu Halldórsdóttur framkvæmdastjóra þjóðgarðsins sem opnaði svo sýninguna í kjölfarið.

Hópurinn á bakvið sýninguna.

Niðurstöður í hönnunarsamkeppni Náttúruminjasafns Íslands

Niðurstöður í hönnunarsamkeppni Náttúruminjasafns Íslands

 

 Niðurstöður í hönnunarsamkeppni Náttúruminjasafns Íslands    

 

Úrslit hafa verið birt í hönnunarsamkeppni Náttúruminjasafns Íslands um grunnsýningu í nýjum höfuðstöðvum safnsins á Seltjarnarnesi, Náttúruhúsi í Nesi. Sigurvegari samkeppninnar er hollenska sýningarfyrirtækið Kossmanndejong. Tíu hönnunarteymi sóttu um þátttökurétt í lokaðri samkeppni þar sem þrjú teymi komust áfram og skiluðu inn framúrskarandi tillögum um hönnun og útlit nýju sýningarinnar. Lokatillögurnar þrjár verða settar upp í anddyri sýningar Náttúruminjasafnsins á 2. hæð í Perlunni á næstunni.

Tillaga að útliti aðalsalar hinnar nýju grunnsýningar í Náttúruhúsi í Nesi, úr vinningstillögu Kossmanndejong.

Úrslit hafa verið birt í hönnunarsamkeppni Náttúruminjasafns Íslands um grunnsýningu í nýjum höfuðstöðvum safnsins á Seltjarnarnesi, Náttúruhúsi í Nesi. Sigurvegari samkeppninnar er hollenska sýningarfyrirtækið Kossmanndejong og óskar Náttúruminjasafnið því innilega til hamingju með fyrsta sætið í keppninni. Jafnframt vill safnið þakka öllum teymunum er þátt tóku fyrir þann mikla áhuga sem safninu hefur verið sýndur en hann birtist í metnaðarfullum tillögum og umsóknum um þátttöku í samkeppninni.

Hönnunarsamkeppnin var í tveimur þrepum þar sem þrjú teymi voru valin í forvali til að vinna að og leggja fram lokatillögur undir nafnleynd að hönnun og uppsetningu grunnsýningarinnar. Alls tóku tíu afar frambærileg hönnunarteymi, fimm innlend og fimm erlend, þátt í forvalinu sem auglýst var á Evrópska efnahagssvæðinu í nóvember 2022. Miðstöð hönnunar og arkitektúrs var ráðgefandi aðili samkeppninnar en Ríkiskaup sáu um framkvæmd hennar. Tvær fimm manna dómnefndir voru skipaðar fyrir sitt hvort þrep keppninnar, með þremur dómnefndarmönnum völdum af Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og tveimur af Náttúruminjasafni Íslands. Af þeim þremur teymum sem valin voru í forvalinu voru tvö íslensk og eitt erlent. Lokatillögur teymanna þriggja þóttu allar framúrskarandi og mjótt var á munum í mati dómnefndar en tillaga Kossmanndejong varð að lokum hlutskörpust. Veggspjöld með tillögunum þremur verða innan tíðar sett upp til sýnis í anddyri sýningar Náttúruminjasafnsins Vatnið í náttúru Íslands á 2. hæð í Perlunni.

Sigurvegari keppninnar, Kossmanndejong, hefur hannað, framleitt og sett upp yfirgripsmiklar og rómaðar sýningar um allan heim. Á meðal þeirra má nefna tvær af níu grunnsýningum Naturalis Biodiversity Center í Leiden í Hollandi, sem hlaut Evrópsku safnaverðlaunin árið 2021. Kossmanndejong hannaði einnig grunnsýningu Sjóminjasafnsins í Reykjavík, Fiskur & fólk – sjósókn í 150 ár sem opnuð var árið 2018.

Geirfuglinn verður til sýnis á nýrri sýningu Náttúruminjasafnsins. Úr vinningstillögu Kossmanndejong.

Hér er um mikilvæg og merk tímamót að ræða í náttúrufræðimiðlun fyrir land og þjóð. Höfuðsafn Íslendinga í náttúrufræðum hefur að endingu á langri vegferð sinni og forverum þess eignast glæsilegt húsnæði og sýningaraðstöðu í faðmi náttúrunnar yst á Seltjarnarnesi. Hin nýja grunnsýning mun hverfast um hafið og lífríki þess, með áherslu á framtíðina, mikilvægi líffræðilegrar fjölbreytni og áhrif loftslagsbreytinga. Sýningin verður nútímaleg, fræðandi og skemmtileg – fléttuð saman með gripum úr ranni náttúrunnar og áhugaverðri gagnvirkri margmiðlun.

Sýningunni er ætlað að höfða til alls almennings en sjónum verður þó sérstaklega beint að yngri kynslóðum. Tveir lykilgripir verða á sýningunni, geirfuglinn margfrægi sem keyptur var á uppboði árið 1971 fyrir samskotafé landsmanna, og fjórtán metra löng beinagrind fullvaxins íslandssléttbaks sem veiddur var út af Vestfjörðum árið 1891, en grindin var flutt til Danmerkur sama ár. Íslandssléttbakurinn var áður fyrr algengur við Íslands strendur en er nú í bráðri útrýmingarhættu. Beinagrindin hefur ekki komið fyrir sjónir almennings áður en Náttúruminjasafn Íslands mun fá hana að láni hjá Náttúrufræðisafni Danmerkur.

Náttúruhús í Nesi, framtíðarhöfuðstöðvar Náttúruminjasafns Íslands á Seltjarnarnesi.
Sumarstörf fyrir námsmenn hjá Náttúruminjasafni Íslands og Háskólanum á Akureyri

Sumarstörf fyrir námsmenn hjá Náttúruminjasafni Íslands og Háskólanum á Akureyri

Sumarstörf fyrir námsmenn hjá Náttúruminjasafni Íslands og Háskólanum á Akureyri

Náttúruminjasafn Íslands og Háskólinn á Akureyri óska eftir sumarstarfsfólki í verkefnið Fjölbreytni örvera á Íslandi í gegnum linsuna. Verkefnið er styrkt af Nýsköpunarsjóði námsmanna og er annars vegar óskað eftir nema í líffræði/líftækni og skyldum greinum og hins vegar nema í ljósmyndun/myndlist og skyldum greinum. Verkefnið gengur út á að setja fram myndefni og fræðslutexta um örverur í umhverfi okkar en markmiðið er að vekja athygli á þessum smáa en mikilvæga heimi örveranna. Verkefninu lýkur svo með ljósmyndasýningu í ágúst sem sett verður upp í húsakynnum Háskólans á Akureyri en sú sýning er hluti af Hátíð líffræðilegrar fjölbreytni sem BIODICE stendur fyrir. Gert er ráð fyrir að nemendur hefji störf eigi síðar en 1. júní. Nemendum verður gefinn kostur á að taka þátt í vettvangsferð í alþjóðlegu sumarnámskeiði í örveruvistfræði Norðurslóða sem fram fer 5.-10. júní.

Starfstöð verkefnisins er á Akureyri, í húsnæði Háskólans á Akureyri og er verkefnið samstarfsverkefni Háskólans á Akureyri, BIODICE og Náttúruminjasafns Íslands.

Umsjónarmenn verkefnisins eru Oddur Þór Vilhelmsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, Ragnhildur Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Náttúruminjasafni Íslands og Helga Aradóttir, safnkennari hjá Náttúruminjasafni Íslands.

Umsóknarfrestur er til og með 25. apríl og skulu umsóknir ásamt ferilskrá sendast á ragnhildur.gudmundsdottir@nmsi.is.