Stefna Náttúruminjasafnsins 2023-2027

Stefna Náttúruminjasafnsins 2023-2027

Stefna Náttúruminjasafnsins 2023-2027

„Þetta er langþráður áfangi í sögu Náttúruminjasafnsins“, segir Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður safnsins, en stefna Náttúruminjasafns Íslands 2023-2027 hefur verið samþykkt og birt opinberlega. Aðdragandann má rekja til ársbyrjunar 2008 en lokahnykkinn tók starfsfólk safnsins s.l. haust með aðstoð ráðgjafarfyrirtækisins SJÁ ehf. Viðbúið er þó að endurskoða þurfi stefnuskjalið fyrr en ella, enda eru miklar breytingar framundan hjá safninu þegar það flytur í nýjar höfuðstöðvar á Seltjarnarnesi, Náttúruhús í Nesi, á næsta ári eða því þarnæsta. 

„Fjölmargir innan safns og utan hafa komið að stefnumótuninni“ segir Hilmar, sem þakkar kærlega þeim öllum fyrir óeigingjarnt starf og vandað og gagnlegt framlag. „Stefnunni er ætlað að varða leið Náttúruminjasafnsins næstu fimm ár og styðja við metnaðarfulla, skilvirka og áhugaverða starfsemi þessarar stofnunar sem vinnur í almannaþágu. Stefnan er ekki meitluð í stein, heldur á hún að vera stöðugt til skoðunar, löguð að þörfum og kröfum samtímans.“

 

Forsíða Stefnu Náttúruminjasafns Íslands 2023–2027

Stefnu Náttúruminjasafnsins má finna á stefna.nmsi.is en einnig hlaða niður sem pdf-skrá.

Höfuðsafn á sviði náttúrufræða
Náttúruminjasafn Íslands er höfuðsafn á sviði náttúrufræða. Meginhlutverk safnsins er að stuðla að varðveislu náttúruarfs Íslands, afla þekkingar um hann og rannsaka, varpa ljósi á náttúrusögu landsins og náttúruspeki, styrkja safnkost og heimildasöfnun á sínu sviði og gera söfn sín aðgengileg almenningi og fræðimönnum. Safnið er þýðingarmikill hluti af formlegu og óformlegu menntakerfi landsmanna og gegnir mikilvægu samfélagslegu þjónustuhlutverki með sýningarhaldi og annars konar miðlun, útgáfu og þátttöku í samfélagsumræðu.

Gildi Náttúruminjasafnsins eru virðing, fagmennska, samvinna og miðlun 

Náttúruminjasafns Íslands bíða fjölbreytt og mikilvæg verkefni á 21. öld – verkefni sem snúast um rannsóknir, þekkingarmiðlun og fræðslu um náttúru landsins, furður hennar og fegurð, nytjar, ástand, hnattræn tengsl og aðsteðjandi ógnir. Fjaran við Gróttu er gósenland fyrir forvitna krakka þar sem safnkennarar Náttúruminjasafnsins munu leiða leik og starf. Ljósm. Helga Aradóttir.

Framtíðarsýn 

  • Náttúruminjasafn Íslands stefnir að því með starfsemi sinni auka lífsgæði og hamingju með því að efla skilning á þróun og stöðu náttúru Íslands og varpa ljósi á sambúð manna og náttúru í staðbundnu og hnattrænu samhengi.
  • Safnið stefnir að því að vera í fararbroddi í þekkingaröflun og faglegum vinnubrögðum á sviði safntengdra náttúrufræða og miðlunar og vera leiðandi í umræðu um náttúru og náttúruvernd á landsvísu og alþjóðavettvangi. Þá stefnir safnið að því að öðlast sem fyrst stöðu sem viðurkennd háskólastofnun. 
  • Náttúruhús í Nesi verður glæsileg, nútímaleg og eftirsóknarverð þekkingarmiðstöð og félaslegur vettvangur í sífelldri þróun og vexti þar sem áreiðanlegu efni um náttúru Íslands og jarðar er miðlað á lifandi hátt til gesta og gangandi. 

 

Skipulag 

Starfsemi Náttúruminjasafnsins er skipt í fjögur meginsvið auk skrifstofu forstöðumanns: 

1) framkvæmda- og rekstrarsvið, 2) safnasvið (söfnun, skráning, varðveisla), 3) rannsóknasvið og 4) miðlunarsvið.  

 Starfsemi framkvæmda- og rekstrarsviðs gengur þvert á faglegu sviðin þrjú, safnasvið, rannsóknasvið og miðlunarsvið. Starfsemi sviðanna skarast einnig að meira eða minna leyti.

Í stefnuskjalinu er fjallað um stefnu hvers sviðs fyrir sig, markmið og leiðir:  Stefnuna má finna á stefna.nmsi.is, en henni má einnig hlaða niður sem pdf-skrá.

Rostungurinn á Hvammstanga

Rostungurinn á Hvammstanga

Rostungurinn á Hvammstanga

Sérsýning Náttúruminjasafns Íslands um rostunga hefur verið flutt norður á Hvammstanga þar sem hún var opnuð með pomp og prakt á Selasetri Íslands síðastliðinn föstudag. Rostungar eru nú aðeins flækingar við strendur Íslands, sjást hér endrum og eins, og vekja alla jafna mikla athygli.

Nýleg rannsókn, sem Náttúruminjasafn Íslands átti frumkvæði að og vann með fleiri vísindastofnunum, varpar hins vegar nýju ljósi á tilvist rostunga til forna við Ísland. Rannsóknin staðfestir að á Íslandi lifði sérstakur íslenskur rostungsstofn í árþúsundir sem varð útdauður á tímabilinu 800–1200 e.Kr.

Páll L. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Selaseturs Íslands
Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands, og Guðmundur Jóhannesson, stjórnarformaður Selaseturs Íslands

Á sýningunni er þessum merkilegu niðurstöðum gerð skil og fléttað saman við umfjöllun um líffræði rostunga almennt og útbreiðslu í dag, sem og við nytjar af rostungum til forna og hugsanlegum þætti þeirra í landnáminu.

Sýningin var fyrst sett upp í Dropanum, sérsýningarrými Náttúruminjasafnsins í Perlunni, en hún var upphaflega hönnuð með það í huga að verða síðar flutt og sett upp úti á landi. Við á Náttúruminjasafninu þökkum Selasetri Íslands, og sérstaklega Páli L. Sigurðssyni framkvæmdastjóra, fyrir að taka vel á móti sýningunni og okkur. Við getum vart hugsað okkur meira viðeigandi staðsetningu fyrir sýningu um hinn forna íslenska rostungastofn.

Hrafnsönd

Hrafnsönd

Hrafnsönd (Melanitta nigra)

Hrafnsönd er meðalstór kafönd og er steggurinn, karlfuglinn, auðþekktur á litnum. Hann er allur gljásvartur á fiður, nema flugfjaðrir eru gráar og eru handflugfjaðrirnar ljósastar. Ársgamall steggur er svartflikróttur á bringu, síðum og að ofan. Kvenfuglinn, kollan, er dökkmóbrún, með áberandi ljósari vanga og kverk, svartbrúnan koll, hnakka og afturháls og ljósari kvið. Vængir eru svipaðir og á steggnum. Ungfuglar eru líkir kollum, en ljósari.

Goggur er svartur, steggurinn er með gulrauðan blett ofan á efra skolti, sem stundum vottar fyrir á kollunni. Ofan við blettinn hefur steggurinn dálítinn hnúð. Fætur eru dökkir, svo og augu.

Hrafnsönd er sterklega vaxin, fremur stygg, með fleyglaga stél og hnöttótt höfuð. Flug hennar er þróttmikið og flöktandi með hröðum vængjatökum sem mynda flautandi hljóð. Hún er létt á sundi og sperrir þá oft stélið og hálsinn. Hrafnsönd er fimur kafari en léleg til gangs. Félagslynd.

Steggur gefur frá sér þýtt kurr eða flaut, kolla hrjúfari hljóð. Er venjulega hávær á varpstöðvum á vorin og þá oft að næturlagi, annars þögul.

Hrafnsandarhjón í Mývatnssveit.
Hrafnsandarhjón í Mývatnssveit.

Lífshættir

Dýraæta eins og aðrar kafendur, sækir mest í krabbadýr og mýlirfur á ferskvatni, en einnig í grænþörunga. Á sjó lifir hún á marflóm, kræklingi og jafnvel smáfiski.

Verpur við lífauðug vötn og tjarnir. Hreiður er venjulega vel falið í runnum eða öðrum gróðri í mýrlendi, gert úr mosa, laufi og öðrum gróðri, fóðrað með dúni. Eggin eru 7-10, álegan tekur mánuð og ungarnir verða fleygir á um 7 vikum. Er á sjó utan varptíma. Fljótlega eftir að kollan hefur orpið hverfur steggurinn til sjávar og fellir fjaðrir þar.

Hrafnsandarkolla með unga í Mývatnssveit.
Hrafnsandarhreiður í Aðaldal.

Útbreiðsla og stofnstærð

Hrafnsöndin er hvergi algeng nema á Mývatni og nokkrum öðrum þingeyskum vötnum. Stofninn er talinn vera 400-600 pör. Hún er að mestu farfugl og sést víða á sjó á fartíma við austanvert landið. Steggjahópar eru frá miðju sumri og fram á haust við Hvalsnes- og Þvottárskriður, allt að 1500 fuglar. Þar hefur lítill hópur stundum vetursetu og einnig fáeinar á Skjálfanda. Íslenskar hrafnsendur hafa vetursetu á sjó við V-Evrópu og ein hefur fundist á Azóreyjum. Verpur í Evrópu og Asíu. Hrafnsönd er alfriðuð.

Hrafnsandahópur við Starmýrarfjörur í Álftafirði.
Hrafnsandarsteggur sperrir sig við kollu í Mývatnssveit.

Skyldar tegundir

Hrafnsönd telst til svartanda og eru nokkrar aðrar svartendur mistíðir gestir hér á landi. Svartendur eru sjóendur og því sjást þessir gestir oftast á sjó, gjarnan með hrafnsöndum eða æðarfuglum. Frá Ameríku koma krákönd (Melanitta perspicillata), krummönd (Melanitta americana) og kolönd (Melanitta deglandi), meðan frá Evrasíu koma korpönd (Melanitta fusca) og surtönd (Melanitta stejnegeri). Sumir þessara gesta dvelja oft langdvölum á sömu slóðum eða sjást í hinum stóra hrafnsandarhópi við SA-land. Kolöndin á myndinni hefur haldið til í Keflavík og Ytri-Njarðvík síðan 2010 og sést helst á veturna, gjarnan í fylgd æðarfugla.

Kolandarsteggur í Ytri-Njarðvík.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson
Ritstjóraskipti á Náttúrufræðingnum

Ritstjóraskipti á Náttúrufræðingnum

Ritstjóraskipti á Náttúrufræðingnum

Álfheiður og Margrét Rósa með nýjasta hefti Náttúrufræðingsins á milli sín. Ljósm. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari.

Ritstjóri kveður

Þau merku tímamót urðu nú í janúar að Álfheiður Ingadóttir lét af störfum sem ritstjóri Náttúrufræðingsins en því starfi gegndi hún alls í tæp 18 ár, fyrst 1996–2006 þegar Náttúrufræðistofnun Íslands hýsti starfsemi Hins íslenska náttúrufræðifélags og síðar 2014–2021, þegar Náttúruminjasafns Íslands gekk til liðs við félagið um sameiginlega útgáfu tímaritsins. Frá 2014 hefur útgáfa Náttúrufræðingsins verið kostuð til helminga af safninu og félaginu. Þá hefur ritstjórinn ásamt stjórn félagsins og ritstjórn tímaritsins haft aðsetur í húsakynnum Náttúruminjasafnsins.

Álfheiður á miklar þakkir skilið fyrir ötula ritstjórn, ósérhlífni, fagmennsku og smekkvísi við ritstjórn tímaritsins. Nýútkomið tvöfalt 3.–4. hefti í 91. árgangi, það síðasta sem Áflheiður ritstýrði, ber vinnubrögðum Álfheiðar skýrt vitni – tímaritið inniheldur að venju áhugaverðar ritrýndar greinar um fjölbreytta náttúru Íslands, er ríkulega myndskreytt og í hvívetna vandað til máls og frágangs. Við eigum Álfheiði mikið að þakka í menningarlegu tilliti – að stuðla að og standa vörð um einkar vandaða miðlun um náttúru landsins og íslenska tungu sem ætluð er almenningi til fróðleiks og upplýsingar. Enda þótt Álfheiður láti af starfi ritstjóra Náttúrufræðingsins verður hún Náttúruminjasafninu áfram um tíma innan handar um eitt og annað sem viðkemur ritstjórn og útgáfumálum.

Nýr ritstjóri tekur við

Gengið hefur verið frá ráðningu nýs ritstjóra Náttúrufræðingsins en starfið var auglýst laust til umsóknar í nóvember 2021 og rann umsóknarfrestur út 15. desember s.l. Alls bárust sex umsóknir um starfið og var það einróma niðurstaða að ráða Margréti Rósu Jochumsdóttur sem nýjan ritstjóra Náttúrufræðingsins.

Margrét hefur BA gráðu í sagnfræði með landafræði sem aukagrein og meistaragráðu í annars vegar þróunarfræðum og hins vegar hagnýtri ritstjórn og útgáfu. Þá hefur hún víðtæka reynslu í ritstjórn og útgáfu sem og vefumsjón. Margrét mun sjá um prentútgáfu tímaritsins og nýja vefútgáfu tímaritsins, sem áætlað er að opna á aðalfundi félagsins 28. febrúar n.k. Margrét er boðin velkomin til starfa á nýjum vettvangi.

Ársskýrsla NMSÍ 2020

Ársskýrsla NMSÍ 2020

Ársskýrsla Náttúruminjasafnsins 2020   

Út er komin ársskýrsla Náttúruminjasafnsins fyrir árið 2020 – árið sem kórónuveiran skók heiminn og lagði samfélagið ítrekað í dróma. Þrátt fyrir samkomutakmarkanir og sóttvarnir var starfsemi Náttúruminjasafnsins kraftmikil, enda kallaði nýr veruleiki á ný vinnubrögð og fæddi af sér ný verkefni. Skýrslan er eingöngu á rafrænu formi og hana er hægt að nálgast hér og hlaða niður sem pdf skjal fyrir þá sem vilja.