Safnkostur

Um safnkostinn

Safnkostur Náttúruminjasafns Íslands er ásamt vísindasöfnum Náttúrufræðistofnunar Íslands undirstaða fræðslu- og sýningarstarfsemi safnsins og rannsókna þess, en lögum samkvæmt er Náttúrufræðistofnun Íslands vísindalegur bakhjarl Náttúruminjasafnsins.

Safnkostur Náttúruminjasafns Íslands mun þegar fram líða stundir einnig byggjast á aðgangi Náttúruminjasafnsins að safneign og gagnagrunnum annarra vísinda- og rannsóknastofnana, jafnt á vegum ríkisins sem annarra, sem sýsla með náttúru landsins.

Safnkostur Náttúruminjasafnsins samanstendur af sýningagripum, vísindasýnum, teikningum og ljósmyndum, og rituðum heimildum, jafnt bókum, tímaritsgreinum og skýrslum, sem lúta með einum eða öðrum hætti að náttúru landsins. Safnkostinum er skipt þrjár megindeildir, þ.e. sýningasafn, vísindasafn og bóka- og ritsafn. Gjafir til Náttúruminjasafnsins mynda umtalsverðan og mikilvægan hluta safnkostsins.

Skráningastarf á vegum Náttúruminjasafnsins er í mótun. Gögn og gripir hafa verið skráð í Excel og Artedian sem byggir á Microsoft Acess-grunni. Til stendur að kanna fýsileika þess að skrá a.m.k. hluta af safnkosti Náttúruminjasafnsins í Sarp.

Ekkert samræmt skráningarkerfi er fyrir hendi í landinu á náttúrufræðilegum munum og gögnum líkt og er til staðar fyrir menningaminjar og skráðar eru í Sarpi. Mjög æskilegt er að koma á fót slíku skráningakerfi fyrir náttúrumuni, bæði í því skyni að fá haldgóða yfirsýn yfir þennan hluta mennningararfs í eigu þjóðarinnar og, ekki síður, að stuðla að betri nýtingu safnkosts með auknu samstarfi og samskiptum.

Sýningasafn

Náttúruminjasafn Íslands hefur á að skipa stóru safni sýningamuna og annara muna sem hafa mikið sýningargildi á sviði náttúrufræða. Umtalsverður hluti þessa safnkosts var til sýnis í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar Íslands á Hlemmi fram á vor 2008, en þá var sýningahald á vegum Náttúrufræðistofnunar lagt niður og öllum mununum komið fyrir í geymslu hjá stofnuninni, fyrst í Súðarvogi en síðan í Garðabæ. Við gildistöku laga nr. 35/2007 um Náttúruminjasafn Íslands var kveðið á um í bráðabirgðaákvæði, að gripir sem tilheyrðu Náttúrufræðistofnun Íslands og höfðu fyrst og fremst sýningargildi, skuli eftir gildistöku laganna vera á forræði Náttúruminjasafns Íslands.

Náttúruminjasafn Íslands mun innan tíðar hafa yfirumsjón með öllum útlánum á gripum sem tilheyra Náttúrufræðistofnun Íslands og ætlaðir eru til sýningahalds. Samningur þar að lútandi er í smíðum.

Nokkrir sýningamunir Náttúruminjasafnsins og Náttúrufræðistofnunar hafa verið til útláns hjá öðrum söfnum um nokkurt skeið. Má þar nefna stóra rauðviðarsneið, fiska, fugla og fleiri dýr á Náttúrufræðistofu Kópavogs og hvalabeinagrindur og hvalalíkneski á Hvalasafninu á Húsavík.

Vísindasafn

Samkvæmt lögum um Náttúruminjasafn Íslands er Náttúrufræðistofnun Íslands vísindalegur bakhjarl Náttúruminjasafnsins og mynda vísindasöfn Náttúrufræðistofnunar grunninn að fræðslu- og sýningarstarfsemi Náttúruminjasafnsins.

Vísindaleg gögn og upplýsingar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands sem lúta að starfsemi Náttúruminjasafnsins er einkum að finna á Vistfræðideild og Safna- og flokunarfræðideild stofnunarinnar, en síðarnefnda deildin er einnig til húsa á Akureyrarsetri Náttúrufræðistofnunar Íslands. Deildirnar tvær skiptast í fjögur svið: GrasafræðisviðDýrafræðisviðJarðfræðisvið og Vistfræðisvið.

Vísindalegur safnkostur í fórum Náttúruminjasafnsins sem starfsfólk stofnunarinnar hefur unnið að og skráð er skipt í þrjú svið: 1) Sögusvið (gagnagrunnar um vísindasýni og sýningagripi Hins íslenska náttúrufræðifélags), 2) Jarðfræðisvið (gagnagrunnar um berg- og steindasýni og steingervinga) og, 3) Líffræðisvið (gagnagrunnar um fiska, fugla, lindýr og aðra hryggleysingja).

Í gagnagrunnum Náttúruminjasafnsin á jarð- og líffræðisviði eru nú (mars 2014) alls um 5000 færslur yfir stök aðföng. Hvert aðfang getur verið annaðhvort stakur gripur (t.d. eitt eintak af dýra- eða steindategund) eða tvö eða fleiri eintök af sömu tegund. Stærstu aðfangaskrárnar taka til lindýra (um 2700 færslur) og fiska (um 1000 færslur). Nærri lætur að heildarfjöldi gripa eða eintaka í fórum Náttúruminjasafnsins sé um 100.000 talsins og helgast það aðallega af miklum eintakafjölda lindýra í gjafasöfnum Jóns Bogasonar og Jóhanns Jóns Þorvaldssonar.

Í aðfangaskrá Náttúruminjasafnsins á sögusviði yfir sýni sem Hið íslenska náttúrufræðifélag færði ríkinu árið 1947 eru um 3670 færslur og taka þær til gripa og annarra aðfanga sem félagið eignaðist á árunum 1889–1947. Aðfangaskráin er unnin upp úr handrituðum frumskrám og prentuðum skýrslum. Á þessu stigi er ekki vitað hve stór hluti safnkostsins hefur rýrnað vegna skemmda og grisjunar í kjölfarið. Brýnt er að yfirfara safnkostinn sem fyrst með hliðsjón af aðfangaskránni.

Stefnt er að því að hafa lýsigagnagrunna á framangreindum þremur sviðum aðgengilega almenningi innan tíðar.

Safnkostur Náttúruminjasafns Íslands mun þegar fram líða stundir einnig byggjast á aðgangi stofnunarinnar að safneign og gagnagrunnum annarra vísinda- og rannsóknastofnana á vegum ríkisins og fleiri aðila sem sýsla með náttúru landsins.

Nær allir sýningamunir Náttúruminjasafns Íslands sem ekki eru til útláns, ásamt flestöllum vísindasýnum, eru hýst hjá Náttúrufræðistofnun Íslands í Garðabæ við bestu fáanleg skilyrði í landinu m.t.t. varðveislu náttúrugripa af hvaða tagi sem er (þurrsýni, votsýni, hamir o.fl.).

Bóka og ritsafn

Bóka- og ritsafn Náttúruminjasafnsins er tvískipt. Annars vegar eru nýleg eintök á sviði safna- og náttúrufræða sem Náttúruminjasafnið hefur keypt á undanförnum árum. Um 100 titlar af þessu tagi eru í fórum safnsins. Hins vegar er allmyndarelgur safnkostur sem aðallega er til kominn sem gjafir handa Náttúruminjasafninu. Bóka- og ritkostur Náttúruminjasafnsins er ekki til útláns en hann má nota í húsakynnum safnsins.

Bóka- og tímaritakostur – gjafir til Náttúruminjasafnsins:

Bóka- og tímaritagjöf Vatnalíffræðideildar Hafnarháskóla. Afhent í apríl 2014. Frumkvæði að gjöfinni átti Pétur M. Jónasson, fyrrv. prófessor og forstöðumaður Vatnalíffræðideildar Hafnarháskóla. Um er að ræða handbækur og tímarit einkum á sviði vatnalíffræði, alls 495 bókatitlar (560 bækur) og 23 tímarit (840 eintök). Flest verkin eru gömul og gefin út á tímabilinu 1850–1950. Elsta bókin er frá 1805 en alls eru 68 bækur frá tímabilinu 1805–1900. Á meðal bókanna eru fágæt og verðmæt verk, auk langra tímaritaraða á sviði vatnalíffræði sem hvergi eru til hér á landi og óvíða annars staðar í Evrópu. Upphaflega veitti Náttúrufræðistofa Kópavogs gjöfinni viðtöku í nóvember 2011 og sá um skráningu safnkostsins í Gegni.

Hýsing Náttúrufræðistofunnar á gjöf Vatnalíffræðideildarinnar var hugsuð til bráðabirgða, m.a. vegna skorts á geymslurými, og gerð í tíð þáverandi forstöðumanns stofunnar, dr. Hilmars J. Malmquists. Hilmar stundaði nám við Vatnalíffræðideild Hafnarháskóla í Hillerød á árunum 1985-92 og sinnti rannsóknum í Þingvallavatni um skeið undir forystu Péturs M. Jónassonar.

Bóka- og tímaritagjöf úr einkasafni Péturs M. Jónassonar. Afhent í apríl 2014. Um 500 bókatitlar og fjögur tímarit um náttúrufræðilegt efni, einkum á sviði vatnalíffræði. Á meðal titla eru fágætir dýrgripir. Gjöfin er á fjórum trébrettum, nær fjögur tonn að þyngd. Skráning á safnkostinum í Gegni stendur fyrir dyrum.

Náttúrufræðingurinn. Allur Náttúrufræðingurinn frá upphafi árið 1931 og til dagsins dag er hýstur hjá Náttúruminjasafninu. Afgreiðsla tímaritins er á vegum Náttúruminjasafnsins og hægt er að kaupa eintök í lausasölu. Sjá nánar um verð og fleira hér á heimasíðu Náttúruminjasafnsins.

Gjafir

Gjafir frá velunnurum Náttúruminjasafnsins mynda mikilvægan hluta safnkosts stofnunarinnar og metur stofnunin slíkt mikils.

Náttúruminjasafnið hefur veitt eftirtöldum gjöfum viðtöku:
Lindýrasafn Jóhanns Jóns Þorvaldssonar (1915-2007). Gefið haustið 2009 af Magnúsi Jóhannssyni. Afhent í maí 2010. Um 800 tegundasýni sem flest innhalda mörg eintök. Frumskráningu í rafrænan gagnagrunn lokið.

Lindýrasafn Jóns Bogasonar (1923-2009). Gefið 2010 af börnum Jóns, þeim Herdísi, Sigurborgu, Boga, Sigurbjörgu og Berglindi. Afhent vorið 2011. Rúmlega 1100 tegundasýni sem hvert um sig samanstendur af einu eintaki eða fleirum. Um helmingur eintakanna er af erlendum toga. Auk þess fylgja vatnslitamyndir og teikningar eftir Jón af eintökum sem hann safnaði. Jafnframt 15 möppur af ljæósrituðum gagnaskám. Meginhluti safnsins var áður gefin Náttúrufræðistofunun Íslands og Náttúrufræðistofu Kópavogs. Frumskráningu í rafrænan gagnagrunn lokið.

Skordýrasan Ragnars Frank Kristjánssonar. Safn skordýra sem Ragnar safnaði í Skaftafelli í tíð sinni sem þjóðgarðsvörður. Gefið af Ragnari árið 2010.

Náttúrufræðingurinn 1931–1982. Afhent í mars 2014. Fyrstu 52. árgangar Náttúrufræðingsins, innbundnir í fallegt skinnband (1.–34. hefti) og laus hefti í skinnöskjum (35.–52. hefti). Gefið af Kristjönu G. Eyþórsdóttur, barnabarni Jóns Eyþórssonar (1895–1968), veðurfræðings, forseta Ferðafélags Íslands og formanns Jöklarannsóknafélags Íslands til margra ára.

Bóka- og tímaritagjöf Vatnalíffræðideildar Hafnarháskóla. Afhent í apríl 2014. Frumkvæði að gjöfinni átti Pétur M. Jónasson, fyrrv. prófessor og forstöðumaður Vatnalíffræðideildar Hafnarháskóla. Um er að ræða handbækur og tímarit einkum á sviði vatnalíffræði, alls 495 bókatitlar (560 bækur) og 23 tímarit (840 eintök). Flest verkin eru gömul og gefin út á tímabilinu 1850–1950. Elsta bókin er frá 1805 en alls eru 68 bækur frá tímabilinu 1805–1900. Á meðal bókanna eru fágæt og verðmæt verk, auk langra tímaritaraða á sviði vatnalíffræði sem hvergi eru til hér á landi og óvíða annars staðar í Evrópu. Upphaflega veitti Náttúrufræðistofa Kópavogs gjöfinni viðtöku í nóvember 2011 og sá um skráningu safnkostsins í Gegni. Hýsing Náttúrufræðistofunnar á gjöfinni var hugsuð til bráðabirgða, m.a. vegna skorts á geymslurými, og gerð í tíð þáverandi forstöðumanns stofunnar, dr. Hilmars J. Malmquists. Hilmar stundaði nám við Vatnalíffræðideild Hafnarháskóla í Hillerød á árunum 1985-92 og sinnti rannsóknum í Þingvallavatni um skeið undir forystu Péturs M. Jónassonar.

Bóka- og tímaritagjöf úr einkasafni Péturs M. Jónassonar. Afhent í apríl 2014. Um 500 bókatitlar og fjögur tímarit um náttúrufræðilegt efni, einkum á sviði vatnalíffræði. Á meðal titla eru fágætir dýrgripir. Gjöfin er á fjórum trébrettum, nær fjögur tonn að þyngd. Skráning á safnkostinum í Gegni stendur fyrir dyrum.

Útlán

Lán á sýningagripum og vísindasýnum í fórum Náttúruminjasafns Íslands eru afgreidd samkvæmt reglum stofnunarinnar.