Sýningar

Eitt af lögboðnum hlutverkum Náttúruminjasafnsins er að annast kynningu á náttúru landsins með sýningum. Þetta hlutverk getur stofnunin rækt bæði með því að standa að sýningahaldi á eigin vegum og í samstarfi við aðra.

Náttúruminjasafnið stefnir á rekstur grunnsýningar á náttúru landins í Perlunni undir eigin merkjum með aðkomu Reykjavíkurborgar og fjárfesta. Þá tekur Náttúruminjasafnið þátt í samsýningu sex menningarstofnana um íslenska listasögu og sjónrænan menningararf sem opnuð verður næsta haust í Þjóðmenningarhúsinu – Safnahúsinu við Hverfisgötu.

Lögboðið hlutverk Náttúruminjasafnsins á sviði sýningahalds felst einnig í því að veita öðrum náttúruminjasöfnum ráðgjöf og stuðla að samvinnu þeirra, auk þess að vinna að samræmdri safnastefnu á sviði náttúrufræða. Mikil gróska er í safnastarfi almennt á Íslandi og á það einnig við um sýningahald á sviði náttúrufræða. Að líkindum eru 70-80 söfn í landinu sem sinna sýningahaldi á náttúru í einni eða annarri mynd. Undir flipanum Aðrar sýningar gefur að líta yfirlit yfir flesta þá aðila sem hafa náttúru sem meginefni og/eða sem áberandi þátt í sýningahaldi sínu.