Tvísetið hjá Bergsveini í Perlunni

Tvísetið hjá Bergsveini í Perlunni

Tvísetið hjá Bergsveini í Perlunni

Margir urðu frá að hverfa í Perlunni sunnudaginn 14. mars þegar Bergsveinn Birgisson flutti fyrirlestur á vegum Náttúruminjasafnsins um Geirmund heljarskinn og kenningar fræðimanna um hlut rostungsveiða í landnámi Íslands. Vegna sóttvarna er aðeins pláss fyrir 70-80 manns í Stjörnuveri Perlunnar hverju sinni og flutti Bergsveinn fyrirlestur sinn tvívegis, kl. 14 eins og auglýst var og aftur kl. 15.

Vegna sóttvarna var að jafnaði aðeins setið í öðru hvoru sæti í Stjörnuverinu. Hér flytur Bergsveinn fyrirlestur sinn fyrir seinni hópinn sem hafði beðið í rúman klukkutíma!

Sýning Náttúruminjasafnsins um Rostunginn var opnuð fyrir réttu ári, en lokað degi síðar vegna samkomutakmarkana í kjölfar Covid-19. Greinilegt er nú þegar sýningin er opin á nýjan leik, að áhugi á umfjöllunarefni hennar er mikill. Væntanlega vegur bók Bergsveins Leitin að svarta víkingnum þar þungt, en einnig ný rannsókn á beinaleifum rostunga við Ísland, sem staðfestir að hér lifði í árhundruð séríslenskur rostungastofn sem dó út á landnámsöld. Sú staðreynd gefur kenningum um að fyrstu landnámsmennirnir hafi í raun verið hér í veri, eða á rostungavertíð, byr undir báða vængi.  

Hilmar J. Malmquist kynnir starfsemi Náttúruminjasafnsins fyrir gestum

Sýningin Rostungurinn  er opin alla daga kl. 10-18 á 2. hæð Perlunnar. Þar er sagt frá líffræði rostunga, viðkomu þeirra  og vexti og samfélagi rostunga en þeir eru hópdýr. Þá er sagt frá heimsóknum flækingsdýra úr norðri og áðurnefndri rannsókn. Ennfremur er fjallað um rostungsafurðirnar sem menn voru að sækjast eftir en það var einkum húðin og lýsið, en einnig kjöt og loks skögultennurnar sem voru konungsgersemi. Á sýningunni má m.a. sjá lengstu rostungstönn sem fundist hefur hér á landi og eftirmynd Lewis-taflmannanna sem margir telja að hafi verið skornir í rostungstönn á Íslandi. Sýningin Vatnið í náttúru Íslands er einnig opin 10-18 alla daga.

Skógarsnípa

Skógarsnípa

Skógarsnípa (Scolopax rusticola)


Skógarsnípan er eins og ofvaxinn hrossagaukur, hún er skyld honum og svipuð að lit, en er stærri (3x þyngri) og þreknari með breiða vængi. Fjaðurhamurinn er brúnleitur og felulitur, ætlaður til að dyljast í laufi skógarbotna. Bakið er ryðrautt með gráum flekkjum, litamynstur svipar til hrossagauks, hún er þétt þverrákótt að neðan, með breiðum svörtum þverrákum aftan á höfði og hálsi. Ungfuglar eru svipaðir.

Goggur skógarsnípu er gildvaxinn, brúnleitur eða bleiklitur, með dekkri brodd. Fætur eru blágráir eða grábrúnir. Augu eru stór og sitja aftarlega á hnöttóttu höfðinu, lithimna dökkbrún. Sjónsvið hennar er mög vítt og hún sér því bæði framfyrir sig og aftur.

Söngflug skógarsnípu er sérstakt, hún flýgur í hringi yfir trjátoppum með sérkennilegum ískrandi hljóðum kvölds og morgna. Hún er áberandi gildvaxinn á flugi, virðist hálslaus, goggur veit niður. Hefur þá verið líkt við fljúgandi sláturkepp. Skógarsnípa er rökkurfugl, sem dylst á daginn í þéttum gróðri, lætur sig falla fljótt til jarðar aftur, eftir að hafa verið fæld upp.

Á söngflugi gefur karlfuglinn frá sér rámt og marrandi, þrítekið rýt, sem endar á háu tísti. Þessum söng hefur verið lýst sem hljóði í ryðguðum hjólbörum. Tístið heyrist venjulega betur.

Skógarsnípukarl á rökkurflugi í Langadal.

Skógarsnípa í Ölfusi.

Lífshættir

Skógarsnípa verpur í skóglendi með ríkulegum undirgróðri, einkum þar sem völ er á einhverju votlendi. Eggin eru oftast fjögur, útungunin tekur um 3 vikur og ungarnir verða fleygir á 15-20 dögum, nokkru áður en þeir ná fullum vexti. Lítið er vitað um varphætti skógarsnípunnar hér á landi. Ýmislegt bendir til að hún geti orpið tvisvar á sumri, líkt og hrossagaukurinn. Vetursetufuglar finnast í opnum skurðum, dýjaveitum og á jarðhitasvæðum, oftast þar sem einhver trjágróður vex.

Útbreiðsla og stofnstærð

Hefur nýlega fengið stöðuna reglulegur varpfugl, þó að margt bendi til að skógarsnípa hafi orpið hér síðan um 1970. En vegna hins felugjarna háttalags, hefur verið erfitt að sannreyna varp og aðeins örfá hreiður fundist eða ungar sést. Fyrsta staðfesta varpið er frá 2004, en upplýsingar um óstaðfesta hreiður- eða ungafundi ná mun lengra aftur.

Syngjandi karlfuglar á vor- og sumarkvöldum eru besta sönnun fyrir varpi skógarsnípu. Karlarnir hafa sést víða um land, bæði í ræktuðum skógi og birkikjarri, en skortur á athugunum valda gloppum í sumum landshlutum. Stofninn er talinn vera fáeinir tugir para. Ekki er vitað hvort varpfuglarnir séu farfuglar eða hvort vetursetufuglarnir sem hér sjást séu staðfuglar. Vetursetufuglar sjást víða um land. Skógarsnípa er algengur varpfugl í skógum Evrópu austur eftir Asíu, alla leið til Japan, sérstaklega þar sem votlendi er að finna. Hún er víðast farfugl, t.d. í Skandinavíu, en er þó staðfugl á Bretlandseyjum og í Vestur-Evrópu. Hér hefur ekki myndast nein þjóðtrú um skógarsnípuna, en í nágrannalöndunum fylgir henni margvísleg þjóðtrú, tengd veðri, göldrum og fleiru.

Skógarsnípa í Ölfusi.

Skógarsnípa og „litli frændi“, hrossagaukur saman í opnum læk í Ölfusi.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Þeistareykir

Þeistareykir

Þeistareykir. Ljósm. Helgi Arnar Alfreðsson.

Þeistareykir

Þeistareykir eru eyðijörð á Reykjaheiði norðan Mývatns en þar er einnig samnefnt eldstöðvakerfi sem liggur frá Mývatnssveit og norður í Öxarfjörð. Kerfið er um 70–80 km langt og allt að 15 km breitt, það tilheyrir Norðurgosbeltinu og er nyrsta eldstöðvakerfi Íslands. Megineldstöð Þeistareykja er vanþróuð og fer lítið fyrir henni, helstu ummerki hennar eru kísilríkt berg og háhitasvæði. Á svæðinu er 90 MW jarðvarmavirkjun sem var gangsett 2017.

Þeistareykir eru merktir með rauðum punkti á kortið (kortagrunnur frá Landmælingum Íslands).

Loftmynd af Þeistareykjasvæðinu. Hásléttan er flatlend en í suðri má sjá móbergsstapa og austan við hann er Þeistareykjabunga og toppgígurinn Stóra-Víti. (Loftmynd frá Loftmyndir ehf.)

Þeistareykir eru háhitasvæði og þar má sjá mikil ummerki jarðhita á yfirborði svæðisins. Ljósm. Jón Ingi Cæsarsson.

Þeistareykjakerfið er á hásléttu 300–400 m h.y.s., flátlent og slétt með hraunskildum og móbergsstöpum inn á milli sem sumir ná upp í 800 m h.y.s. Jarðskjálftavirkni er þó nokkur á svæðinu en Tjörnesþverbrotabeltið tengist Norðurgosbeltinu í gegnum Þeistareyki. Gjár og misgengi eru því algeng á sprungusveim eldstöðvakerfisins.

Eftir að Þeistareykjarsvæðið varð íslaust við lok síðasta jökulskeiðs jókst eldvirkni mjög í eldstöðvakerfinu. Þessi aukning varð fyrir um 15.000–10.000 árum síðan og hefur hún verið tengd við þrýstilétti sem átti sér stað þegar jöklar hörfuðu af svæðinu.

 

Eldvirkni hefur verið lítil í eldstöðvakerfi Þeistareykja frá því snemma á nútíma, þ.e. síðustu 10.000 ár, en síðast gaus í kerfinu fyrir um 2.400 árum. Hins vegar nær gossaga Þeistareykja yfir um 200.000 ár. Á nútíma hafa eldgos í Þeistareykjum einkennst af dyngjugosum, sem eru alla jafna risastór flæðigos þar sem kvikan kemur upp um eitt gosop og sprengivirkni er minniháttar. Dyngjugosin komu upp um megingosop eldstöðvakerfisins og mynduðu umfangsmikla hraunskildi, eða dyngjur. Eldri hraunskildirnir eru frá 12.000–15.000 árum síðan, þeir urðu til í tiltölulega litlum dyngjugosum og eru úr píkríti.  Fyrir 10.000–12.000 árum mynduðust stærri hraunskildir sem ná allt að 30 km3 í rúmmáli og eru þeir úr ólivínbasalti.

Fyrir um 11.000–12.000 árum myndaðist dyngjan Þeistareykjarbunga í stærsta þekkta gosinu úr eldstöðvakerfi Þeistareykja. Eldgosið átti upptök sín í Stóra-Víti sem er toppgígur Þeistareykjarbungu. Rúmmál dyngjunnar er um 30 km3 og rann hraunið 25 km frá upptökunum.

Jarðvarmavirkjunin á Þeistareykjum er staðsett við rætur Bæjarfjalls. Ljósm. Jón Ingi Cæsarsson.

Þeistareykjahraun er að mestu nokkuð slétt helluhraun með uppbrotnum rishólum og niðurföllum á víð og dreif. Hraunbunga rís hægra megin á myndinni. Ljósm. Daníel Freyr Jónsson. 

Undir sléttu helluhrauni Þeistareykjahrauns leynast hraunhellar sem vegna virkjunarframkvæmda og vegalagningar eru allt í einu komnir í alfaraleið. Þekktur var svonefndur Togarahellir sem fannst á sjöunda áratug síðustu aldar og uppúr aldamótum fundust einir tíu hellar til viðbótar. Á árinu 2016 fundust svo enn þrír hellar og voru tveir þeirra ósnortnir og heillegir, ríkulega skreyttir glerungi, dropsteinum og hraunstráum. Meginrásir hellanna eru nokkur hundruð metra langar og tengjast hugsanlega, en unnið er að könnun þeirra og kortlagningu og búist er við að fleiri hellar finnist á svipuðum slóðum. Umhverfisstofnun lokaði öllum opum að þessum hellum haustið 2020, en áður hafði öll almenn umferð um hella á Þeistareykjum verið bönnuð, nema um Togarahelli. Hraunhellar eru fágætar jarðminjar á heimsvísu og hafa mikið verndargildi sökum sérstöðu og fágætis. Allir dropsteinar og sérhvert hraunstrá í hellum landsins voru friðlýst sem náttúruvætti 1974 og hraunhellar njóta sérstakrar verndar skv. náttúruverndarlögum.  

Dropsteinar í helli í Þeistareykjahrauni. Ljósm. Daníel Freyr Jónsson. 

Ítarefni

Bolani, F.L., Tibaldi, A., Pasquaré Mariotto, F., Saviano, D., Meloni, A. & Sajovitz, P. 2019. Geometry, oblique kinematics and extensional strain variation along a diverging plate boundary: The example of the northern Theistareykir Fissure Swarm, NE Iceland. Tectonophysics 756. 57–72.

Daníel Freyr Jónsson & Guðni Gunnarsson. 2020. Hraunhellar í Þeistareykjahrauni. Náttúrufræðingurinn 90(4–5). 296–302.

Maclennan, J., Jull, M., McKenzie, D., Slater, L. & Grönvold, K. 2002. The link between volcanism and deglaciation in Iceland. Geochemistry, Geophysics, Geosystems 3(11). 1–25.

Karl Grönvold & Kristján Sæmundsson. 2019. Þeistareykir. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 3. febrúar 2021 af http://islenskeldfjoll.is/?volcano=TEY.

Kristján Sæmundsson & Freysteinn Sigmundsson. 2013. Norðurgosbelti. Bls. 319–357 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Sigríður Magnúsdóttir & Bryndís Brandsdóttir. 2011. Tectonics of the Theistareykir fissure swarm. Jökull 61. 65–79.

 

 

Sunnudagsleiðsögn í Safnahúsinu

Sunnudagsleiðsögn í Safnahúsinu

Sunnudagsleiðsögn í Safnahúsinu

Sunnudaginn 14. febrúar klukkan 14 mun Skúli Skúlason, prófessor við Náttúruminjasafn Íslands og Háskólann á Hólum ganga með gestum um sýninguna Sjónarhorn í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Leiðsögn Skúla mun beinast að sérstöðu íslenskrar náttúru, með hvaða hætti hún birtist í myndheimi, og á hvern hátt viðhorf okkar til náttúrunnar og umgengni mótast af sýn okkar og hugmyndaheimi.
Leiðsögnin er ókeypis og allir velkomnir!

Sýningin Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim var opnuð 18. apríl 2015 og er grunnsýning á íslenskri list og sjónrænum menningararfi þjóðarinnar. Í sjö álmum hússins eru jafn mörg sjónarhorn sem tengja saman ólík listaverk og áhugaverða muni, þvert á efni og tímabil. Sýningin er sam­starfs­verk­efni sex stofnana: Þjóðminjasafnsins, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Þjóðskjalasafns Íslands, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum  um sjón­ræn­an menn­ing­ar­arf og skartar margvíslegum gripum úr safnkosti þeirra; forngripum, listaverkum, skjölum, handritum og náttúrugripum. Sýningarstjóri er Markús Þór Andrésson.

Þetta var fyrsta sýningin sem Náttúruminjasafnið tók þátt í eftir stofnun 2007. Þar setti safnið m.a. upp kjörgripasýningu um uppstoppaða geirfuglinn sem keyptur var til landsins 1971 og tímabundna sýningu sem nefndist Aldauði tegundar í samvinnu við Ólöfu Nordal, myndlistarmann. Þar sagði frá síðustu geirfuglunum og sýndar voru ljósmyndir af leifum þeirra sem varðveittar eru í Kaupmannahöfn.

Safnahúsið til Listasafnsins

Ákveðið hefur  verið að Listasafn Íslands taki nú við Safnahúsinu við Hverfisgötu en Þjóðminjasafnið hefur veitt húsinu forstöðu frá 2013. Því fer hver að verða síðastur til að njóta sýningarinnar Sjónarhorn  – ferðlag um íslenskan myndheim – sem verður opin til 1. apríl n.k. Listasafn íslands mun opna nýja grunnsýningu í húsinu í sumar.

Basalt

Basalt

Basalt

Vissir þú að langstærstur hluti gosbergs á Íslandi er basalt? 

Basalt er algengasta hraunið í kringum okkur og myndast oftast í flæðigosum. Basísk kvika er heit og kísilsnauð, sem þýðir að kvikan er mjög fljótandi og því geta basalthraun runnið langt frá upptökum, jafnvel yfir hundrað kílómetra leið. Þjórsárhraun er til að mynda um 130 km langt, lengsta hraun sem runnið hefur á Íslandi eftir ísöld og mögulega á jörðinni. 

Basalt er samt sem áður ekki alltaf eins. Það fer eftir efnasamsetningu hvaða kristallar myndast í basaltinu en oftar en ekki er basalt með svokölluðum dílum sem eru stórir kristallar sem við getum séð með berum augum. Af þeim eru hvítir plagíóklaskristallar og grænir ólivínkristallar algengastir. 

Næst þegar þið gangið um hraun, skulið þið endilega skoða hvort þið sjáið kristalla í hraunmola. 

Basaltmyndun: Stuðlabergið í Reynisfjöru.

Dílabasalt með grænum ólivínkristöllum sem sjást með berum augum.