Reykjaneseldar

Reykjaneseldar

Horft í suðaustur yfir Víti og Öskjuvatn.

Gígaröðin í Eldvörpum. Ljósm. Rafn Sigurbjörnsson/icelandphotogallery.com

Reykjaneseldar

Augu allra beinast um þessar mundir að Reykjanesskaga og margt og mikið hefur verið ritað um gosið í Geldingadölum. Nú beinum við sjónum okkar vestar á skagann að eldstöðvakerfunum tveimur, Reykjanesi og Svartsengi, en þar lauk síðasta gosskeiði á Reykjanesskaga 1240.

Hér verður sérstaklega fjallað um síðustu eldana sem urðu innan Reykjanes- og Svartsengis-kerfanna sem ýmist eru talin eitt kerfi eða tvö. Þess má þó geta að þau sameinast til norðurs þar sem erfitt er að greina sprungureinar kerfanna í sundur.

Eldarnir, sem nefnast gjarnan Reykjaneseldar, stóðu yfir frá árinu 1210–1240. Með eldum er átt við hrinur af eldsumbrotum sem standa yfir í lengri eða skemmri tíma á sama svæðinu. Í Reykjaneseldum urðu nokkur gos úti fyrir Reykjanestá og mynduðu þau gjóskulög á landi. Einnig runnu fjögur hraun úr sprungugosum á landi en þau eru Yngra Stampahraun, Eldborgarhraun yngra, Illahraun og Arnaseturshraun.

Askja í Dyngjufjöllum. Öskjuvatn fyllir yngstu öskjuna og má sjá móta fyrir hinum eldri. Suðurbotnar eru merktir með gulum punkti. (Gervitunglamynd frá NASA).

Loftmynd af eldstöðvakerfi Reykjaness. Á suðvestur endanum er Reykjanesviti og jarðvarmavirkjun. Austast á myndinni má sjá Grindavík og Bláa lónið. Sprungur á svæðinu sjást vel en þær liggja allar í suðvestur-norðaustur. (Loftmyndir ehf.)

Horft í suður yfir Öskjuvatn.

Karlinn sést frá landi úti fyrir Reykjanestá/suðvestur af Reykjanestá. Ljósm. Þorfinnur Sigurgeirsson.

Reykjaneseldar hófust á surtseyísku eldgosi í fjöruborðinu undan Reykjanestá er þar byggðist upp gígur sem nefndur er Vatnsfellsgígur. Talið er að eldsumbrotin hafi stöðvast í einhvern tíma en nokkrum mánuðum síðar hófust þau að nýju utar, þar sem Karlinn stendur nú, en hann mun vera hluti gígbarms síðara gossins. Um 500 m voru á milli gíganna en nú þegar brimið hefur unnið á þeim um aldir sjást einungis ummerki eftir þá. Karlsgígur hefur verið mun stærri en Vatnsfellsgígur en hægt er að sjá ummerki um að gosefni úr honum hafi lagst yfir Vatnsfellsgíginn.

Ummerki eru um gígaröð sem liggur um 4 km inn eftir skaganum í stefnu SV-NA og nefnist hraunið úr henni Yngra Stampahraun. Stærstu gígarnir eru tveir og nefnast Stampar og er gígaröðin öll kennd við þá. Gígarnir eru að mestu klepragígar sem byggst hafa upp af hraunslettum frá kvikustrókum. Hraunið frá gígaröðinni rann upp að Karlsgíg og Vatnsfellsgíg sem staðfestir að hraunið rann eftir að þeir mynduðust.

Finna má fjögur gjóskulög sem tengjast Reykjaneseldum en heimildir geta að minnsta kosti sex gosa úti fyrir ströndum Reykjaness á þessum tíma. Árið 1226 myndaðist svonefnt miðaldalag, sem er svart, sendið gjóskulag (R-9) sem notað hefur verið til aldursgreininga hrauna á svæðinu. Annálar greina frá „sandsumri“ það ár og einnig sandvetrinum mikla veturinn á eftir.

Nærmynd af brotsárinu eftir berghlaupið í Suðurbotnum í júlí 2014.

Ströndin við Reykjanesvita er vinsæll viðkomustaður og má þar meðal annars finna dranga og bólstraberg. Ljósm. Kristín Sigurgeirsdóttir.

Ofan á Yngra Stampahrauni má finna miðaldalagið og er því talið að Stampagígaröðin hafi verið virk á fyrri hluta eldanna. Gossprungurnar, sem mynduðu Eldvarpahraun yngra, Illahraun og Arnaseturshraun, hafa verið virkar eftir að miðaldalagið myndaðist þar sem öll hraunin liggja ofan á því gjóskulagi.

Eldvarpahraun yngra rann úr samnefndri gígaröð sem er um 8–10 km löng og nær næstum því til sjávar þó engin gos séu þekkt í sjó frá sama tíma á þessu svæði. Gossprungan sjálf er mjög löng en gígaröðin er fremur slitrótt. Hraun úr syðsta enda sprungunnar rann í sjó fram. Marga formfagra gíga er að finna í Eldvörpum og um hluta þeirra liggur skemmtileg gönguleið. Ekki er síðra að horfa á gígana úr lofti.

Illahraun myndaðist úr stuttri samsíða sprungu austan við Eldvörp. Á norðurjaðri hraunsins er nú Bláa lónið. Illahraun er frekar torfært uppbrotið helluhraun. Gígaröðin er einungis um 200 m að lengd og á henni má finna nokkra gíga, einn gígurinn er stærri en hinir og er sá gígur tvöfaldur.

Úr 500 m langri gossprungu við Gígahæð rann Arnaseturshraun. Stuttu austar má finna 700 m langa sprungu sem virðist einungis hafa verið virk í stuttan tíma.

Við Bláa lónið er Illahraun áberandi úfið og grófgert. Ljósm. Þorfinnur Sigurgeirsson.

Ítarefni

Kristján Sæmundsson & Magnús Á. Sigurgeirsson. 2013. Reykjanesskagi. Bls. 379–401 íNáttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Kristján Sæmundsson, Magnús Á. Sigurgeirsson & Guðmundur Ómar Friðleifsson. 2020. Geology and structure of the Reykjanes volcanic system, Iceland. Journal of Volcanology and Geothermal Research 391. 1–13.

Magnús Á. Sigurgeirsson. 1995. Yngra-Stampagosið á Reykjanesi. Náttúrufræðingurinn 64(3). 211–230.

Magnús Á. Sigurgeirsson & Sigmundur Einarsson. 2019. Reykjanes og Svartsengi. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 2. mars 2021 af http://islenskeldfjoll.is/?volcano=REY#

Sveinn P. Jakobsson, Jón Jónsson & Shido, F. 1978. Petrology of the Western Reykjanes Peninsula, Iceland. Journal of Petrology 19(4). 669–705.

Maríuerla

Maríuerla

Maríuerla (Motacilla alba)


Útlit og atferli

Maríuerlan er lítill og kvikur spörfugl með langt stél sem hún veifar í sífellu. Fullorðin maríuerla er grá á baki og gumpi; kollur, kverk og bringa eru svört, enni og vangar hvít. Bringan er hvít, sem og ytri stélfjaðrir, vængir og miðhluti stéls dökk. Karlfugl er dekkri en kvenfugl. Ungfugl er móbrúnn á höfði með svartan díl á bringu.

Goggur er grannur, stuttur og svartur, fætur svartir og augu dökk. Maríuerla er af erluætt eins og þúfutittlingur.

Flug maríuerlunnar er bylgjótt. Sitjandi sveiflar hún löngu stélinu upp og niður í sífellu og kinkar kolli. Hún veiðir flugur á flugi eða á jörðu niðri, hleypur hratt. Maríuerlur eru venjulega stakar eða í litlum hópum.

Gefur frá sér fjörlegt og hvellt hljóð, síendurtekið.

Maríuerla fóðrar fullvaxinn unga í Suðurnesi á Seltjarnarnesi.

Maríuerluhreiður með nýklöktum ungum á Fljótshólum í Flóa.

Lífshættir

Maríuerlan er dýraæta, tekur einkum fiðrildi, bjöllur og tvívængjur. Hún veiðir bæði fljúgandi dýr og tínir þau upp af jörðinni, með kvikum hreyfingum og stuttum sprettum. Þekkt er það atferli maríuerlu að tína dauð skordýr af grillum og stuðurum bíla. Verpur á sveitabæjum, í þéttbýli, klettum við sjó, við vötn og ár og víðar á láglendi. Hreiðrið er karfa í holu eða gjótu, hlöðnum vegg, á sperru eða undir þakskeggi, í varpkassa, undir brú eða jafnvel í grenitré. Urptin er 5-6 egg, álegan tekur 13 daga og verða ungarnir fleygir á um tveimur vikum. Utan varptíma er hún oft í fjörum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Maríuerlan er alger farfugl. Stofnstærðin er talin vera 20.000-40.000 varppör og hún er ekki á válista. Hún flýgur til Vestur-Afríku á haustin. Varpheimkynni hennar eru um mestalla Evrópu og Asíu.

Maríuerla ber æti í unga við Jökulsá á Breiðamerkursandi.

Maríuerla í vetrarbúningi á Eyrarbakka.

Þjóðtrú og sagnir

Maríuerlan skipar stóran sess í hugum landsmanna og fylgir henni ýmiss konar þjóðtrú. Meðal annars sagði hún til um vorkomu og var vísir á skipakomur á vorin, því hún átti að koma siglandi yfir hafið. Hún spáði fyrir um dvöl manna. Maríuerla átti ekki að geta orpið fyrr en hún setti hár af hreinni mey í hreiðrið. Margir líkamshlutar hennar nýttust í galdra eða annað kukl. Í maga hennar er gæfusteinn. Í heiðni var hún kennd við gyðjuna Frigg, friggjarerla eða -elda. Mörg skáld hafa mært maríuerluna í ljóðum.

Ég bið að heilsa!

Bragurinn fer að batna nú hjá bræðrum erlu,
þeir dansa, hvísla, krymta og kvirla,
kæti sínum fóstra byrla.

úr Fuglavísum eftir Eggert Ólafsson

 

Máríuerla

Sendir drottins móðir, Maríá,
mildar gjafir himni sínum frá.
Flaug úr hennar hendi vorsins perla,
heilög dúfa, lítil maríuerla.

Létt á flugi, kvik og fjaðurfín
flýgur hún um auðan geim til þín.
Í veggnum þínum vill hún hreiður búa,
varnarlaus á þína miskunn trúa.

Dável svarta húfan henni fer,
hneigir kolli ákaft fyrir þér.
Strá úr veðurbörðu, bleiku sefi
ber hún eins og friðargrein í nefi.

Grætur drottins móðir hrelld og hljóð,
hendur mannsins flekkar dauðablóð.
Fuglahjörðin, felld af grimmu valdi,
flögrar særð að hennar kyrtilfaldi.

Græðir hún á sinni skýjasæng
særðan fót og lítinn, brotinn væng.
Djúpt í hjarta sorgarundir svíða,
saklaus áður þannig mátti líða.

Sérhvert vor um varpa og bæjarhól
vappar söngvin erla á gráum kjól,
flögrar eins og bæn um geiminn bláa,
bæn fyrir hinum varnarlausa smáa.

Guðfinna Jónsdóttir frá Hömrum

 

 

Maríuerla ber æti í unga að Hofi í Öræfum.

Maríuerla í Mývatnssveit. Maríuerla á fyrsta hausti á Eyrarbakka.

Maríuerla baðar sig á Stokkseyrarbryggju.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Vorperla

Vorperla

Vorperla

Vorperla er ein fárra íslenskra plantna sem blómgast í apríl og á miðju sumri hefur hún myndað þroskuð fræ.
Plantan er smávaxin stundum ekki nema 3 cm á hæð en getur orðið allt að 20 cm. Útbreiðsla hennar er á Norðurlandi og Fljótsdalshéraði en annars staðar á landinu er hún sjaldgæf. Vorperla vex á melkollum en einnig í stígum eftir húsdýr og í vegköntum. Talið er að fræin dreifist með fótum kinda, hrossa og manna því að plantan hefur fellt fræ þegar mest umferð dýra og gangandi vegfarenda er um stíga og vegaslóða.
 
 

Ljósm. Hörður Kristinsson (floraislands.is)

Norðsnjáldri

Norðsnjáldri

Norðsnjáldri í Eyjafirði - fátíður hvalreki

Norðsnjáldri (Mesoplodon bidens) af ætt svínhvala (Ziphidae) fannst rekinn dauður í síðustu viku í svokallaðri Bót við bæinn Höfða II, skammt sunnan við Grenivík í Eyjafirði. Kristinn Ásmundsson bóndi á Höfða II tilkynnti um hvalrekann, sem telst til tíðinda því aðeins er vitað um átta önnur tilvik hér við land síðan Hafrannsóknastofnun hóf skráningu hvalreka með skipulögðum hætti um 1980. Fyrsti staðfesti fundurinn var árið 1992 við bæinn Ós í Breiðdal og síðast árið 2018, þegar tarf rak á land í Höfðavík í Vestmannaeyjum (sjá Fréttablaðið 21. mars 2018).

Dýrið í Eyjafirði var 4,73 m að lengd, líklega fullorðinn tarfur, en stærstir verða norðsnjáldrar 5−5,5 m og allt að 1,5 tonn. Líkt og aðrir tannhvalir lifa norðsnjáldrar mest á bein- og smokkfiski, en almennt er lítið vitað um lífshætti dýranna.

Óvíst er um ævilengd norðsnjáldra, en miðað við aðra svínhvali geta þeir orðið 15−30 ára að jafnaði. Dýrin eru gráleit og dekkri á baki en kviði. Á baki eru oft rispur og rákir, líklega eftir slagsmál. Enda þótt norðsnjáldri tilheyri tannhvölum hefur hann aðeins eitt par af tönnum, líkt og latneska nafn hans gefur til kynna, bidens – tvær tennur. Tennurnar eru á miðjum neðri kjálka, en aðeins í karldýrum því kýrnar eru tannlausar.

 

Norðsnjáldrinn rekinn á fjöru í Bótinni í landi Höfða II, sunnan við Grenivík. Tarfurinn var 4,73 m. Ljósmynd: Stefani Lohman.

Norðsnjáldrar finnast í Norður-Atlantshafi, aðallega djúpt úti og meira í því austanverðu en vestan hafs, með suðurmörk við 30.−40. breiddargráðu nærri New York flóa og Kanaríeyjum og norðurmörk nyrst við Noreg við 70. breiddargráðu. Norðsnjáldrar halda sig mest fjarri landi djúpt á hafi úti og eru auk þess mjög styggir. Um stofnstærð er því ekki vitað, hvorki hér á landi né hjá Alþjóðanáttúruverndar-sambandinu (IUCN) eða Umhverfisstofnun Evrópusambandsins (EEA).

Sérfræðingur á vegum Hafrannsóknastofnunar, Sverrir Daníel Halldórsson, fór á vettvang hvalrekans ásamt útibússtjóra stofnunarinnar á Akureyri, Hlyni Péturssyni, og mældu þeir hvalinn og tóku sýni til nánari rannsókna. Ekki var annað að sjá en að norðsnjáldrinn væri í góðu líkamlegu ástandi, en engar fæðuleifar fundust í maga hans og ekkert plast heldur, sem að undanförnu hefur fundist í töluverðu magni í mögum hvala af svínhvalaætt. Dánarorsök er ókunn.

Hvalshræið var urðað í fjöru þar sem það verður látið rotna. Beinagrindin verður hirt síðar og rannsökuð og einnig má nota hana í sýningahaldi, að sögn Hilmars J. Malmquist forstöðumanns Náttúrminjasafnsins. Á Hvalasafninu á Húsavík er beinagrind norðsnjáldra til sýnis.

Ljósmynd: Stefani Lohman

Norðsnjáldri. Teikning eftir Jón Baldur Hlíðberg.

Gargönd

Gargönd

Gargönd (Mareca strepera)


Útlit og atferli

Gargönd telst til buslanda. Hún er ívið minni og grennri en stokkönd en annars eru kollur þeirra mjög líkar. Steggur líkist kollu meira en hjá öðrum buslöndum. Hann er grár, brúnni á höfði og hálsi, með svartyrjótta bringu, brúnar axlafjaðrir, svartan afturenda og grátt stél. Kviður er hvítur. Í felubúningi verður steggur vart greindur frá kollu. Kollan minnir á stokkandarkollu en er grárri, minni og grennri, með hnöttóttara höfuð, og gogg og vængspegla í öðrum litum. Bæði kyn hafa hvíta spegla með svörtum jöðrum og ryðrauða bletti á vængþökum.

Goggur steggs er dökkgrár en í fjaðrafelli eins og á kollu og stundum vottar fyrir rauðgulum skoltröndum þess utan. Goggur kollu er með rauðgular skoltrendur og dökkan goggmæni. Fætur eru rauðgulir með gráar fitjar og augu dökk. Kolla gargar hátt en steggur er lágvær.

Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir á sumrin, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Andasteggir skipta um bolfiður áður en þeir fella flugfjaðrir og fá þá svonefndan felubúning, sem er oft svipaður búningi kollunnar. Felubúningurinn er því eins konar sumarbúningur þeirra. Steggirnir hópa sig á stöðum þar sem er skjól og næg fæða, til að fella. Þeir skarta síðan skrúðbúningi um haustið, eftir að þeir verða fleygir að nýju.

Atferli er svipað og hjá stokkönd. Gargöndin leitar sér ætis með því að hálfkafa með bakhlutann upp í loft, aðeins með haus og háls undir yfirborði, eða hún tínir æti úr vatnsborði. Steggurinn yfirgefur kolluna meðan hún liggur á og safnast steggirnir í hópa til að fella flugfjaðrir. Gargöndin er hraðfleyg og einnig góður sundfugl, fremur felugjörn og lætur lítið á sér bera. Er í pörum eða smáhópum, venjulega innan um aðrar buslendur.

Gargandarhreiður í Suðurnesi á Seltjarnarnesi.

Gargandarkolla með unga á Reykjavíkurtjörn.

Lífshættir

Gargöndin er aðallega grasbítur, en étur einnig dýrafæðu. Tekur græna plöntuhluta nykra, grænþörunga, o.fl., einnig fræ, en uppistöðufæða unga og ungamæðra er úr dýraríkinu.

Heldur sig einkum í lífríkum starmýrum og við grunnar tjarnir og polla á láglendi. Verpur nærri vatni í þéttum gróðri, undir þúfum, runnum og háu grasi. Hreiðrið er dæld, fóðruð með sinu og dúni. Urptin er 8-12 egg og klekjast þau á 24-26 dögum. Ungarnir eru hreiðurfælnir, yfirgefa hreiðrið þegar þeir eru orðnir þurrir og leita sér ætis uppá eigin spýtur undir verndarvæng móðurinnar. Þeir verða fleygir á 45-50 dögum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Gargöndin er farfugl. Hún er algengust við Mývatn og Laxá, þar sem hún kallast litla-gráönd, en verpur annars strjált á góðum andastöðum um land allt, m.a. við Reykjavíkurtjörn og víðar á innnesjum. Stofninn er áætlaður 400-500 pör. Gargöndin er á válista sem tegund í yfirvofandi hættu (NT) og hún er alfriðuð.

Vetrarstöðvar eru á Bretlandseyjum, aðallega á Írlandi. Fáeinir fuglar halda til á Innnesjum yfir veturinn. Varpheimkynni eru víða á norðurhveli en nyrstu varpstöðvarnar eru hér á landi.

Gargandarpar að næra sig á Bakkatjörn á Seltjarnarnesi.

Gargandarpar við Mývatn.

Þjóðtrú og sagnir

Líkt og um flestar aðrar endur, fjallar íslensk þjóðtrú ekki mikið um gargöndina. Víða eru endur taldar veðurvitar og jafnvel að þær finni á sér eldsumbrot eða jarðhræringar. Þessu tóku menn eftir hjá Mývatnsöndum í Kröflueldum 1975-84.

 

Gargandarpar á Mývatni.

Gargandarsteggur á flugi yfir Bakkatjörn á Seltjarnarnesi.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson