Ársskýrsla NMSÍ 2019

Ársskýrsla NMSÍ 2019

Ársskýrsla Náttúruminjasafnsins 2019

Ársskýrsla Náttúruminjasafnsins fyrir árið 2019 er komin út. Þar má glögglega sjá í myndum og máli þann mikla viðsnúning sem varð í starfsemi safnsins á því herrans ári. Hann má rekja til stóraukinna fjárveitinga 2018 sem gerðu safninu kleift að að opna glæsilega sýningu, hefja öfluga safnkennslu og stórefla rannsóknir. Skýrslan er eingöngu á rafrænu formi og hana er hægt að nálgast hér.

Sífreri

Sífreri

Sífreri

Vissir þú að sífreri (e. permafrost) myndast þar sem frost helst allan ársins hring í yfirborðslagi jarðar, hvort sem það er í jarðvegi, setlögum eða bergiSífreri getur verið allt frá nokkrum cm upp í hundruð metra á þykkt. Á sumrin þiðnar landið ofan frá og er sá hluti kallaður virka lagið. 

Sífreri finnst einkum á heimskauta- og háfjallasvæðum jarðar. Útbreiðsla hans er háð veðurfari en sífrerinn hörfar hratt þegar loftslag hlýnar, líkt og nú er. Við þ verða miklar breytingar í yfirborðslögum jarðarinnar. Fjallshlíðar verða óstöðugar og líkur á skriðuföllum eykst en önnur afleiðing er að við bráðnunina losnar úr sífrerarnum gróðurhúsalofttegundir svo sem koldíoxíð (CO2) og metangas (CH4).  

Fyrri myndin sýnir þversnið í Orravatnsrústir, norðaustan Hofsjökuls. Á myndinni sést vel ískjarni rústarinnar og virka lagið ofan á

Á seinni myndinni er horft yfir norðurhluta Orravatnsrústa á Hofsafrétti, norðan Hofsjökuls. Undir hverri rúst er sífreri

 

Myndin sýnir þversnið í Orravatnsrústir, norðaustan Hofsjökuls. Þarna sést vel ískjarni rústarinnar og virka lagið ofan á

Ljósm. Þórdís Bragadóttir. 

Hér er horft yfir norðurhluta Orravatnsrústa á Hofsafrétti, norðan Hofsjökuls. Undir hverri rúst er sífreri

Ljósm. Þorsteinn Sæmundsson.

Hengill

Hengill

Horft í suðaustur yfir Víti og Öskjuvatn.

Hengill. Ljósm. Hugi Ólafsson.

Hengill

Eldstöðvakerfi Hengils er staðsett á suðvesturhorni Íslands, suður af Þingvallavatni og nokkuð austan við höfuðborgarsvæðið. Kerfið er 5–10 km breitt og 50–60 km langt, það inniheldur sprungusveim og megineldstöðina Hengil. Stór hluti Þingvallavatns liggur í sprungusveim kerfisins og er því landslagi Þingvalla mótað af jarðvirkni Hengils. Eitt stærsta jarðhitasvæði landsins er í Hengli en þar eru tvær jarðvarmavirkjanir, Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun. Eldstöðvakerfið liggur á mótum Vesturgosbeltisins og Suðurlandsbrotabeltisins, sem veldur því að kerfið er nokkuð flókið og einkennist sprungusveimurinn af misgengjum og sprungum.

Hengill er merktur með rauðum punkti á kortið.

Loftmynd af Hengilssvæðinu, á henni sjást vel sprungur og hryggir sem allt liggur í NA-SV. (Loftmynd frá Loftmyndir ehf.)

Hæsti punktur Hengils, sem nær 803 m h.y.s. Ljósm. Anna Soffía Óskarsdóttir.

Megineldstöð Hengilsins samanstendur að mestu af móbergsstöpum og móbergshryggjum sem ná upp í um 300–400 m hæð með hraunaflákum inn á milli. Móbergið hefur hér myndast við eldgos undir jökli þar sem vatn kemst að allt að 1100–1200°C heitri kviku sem tætist í gufusprengingum. Við sprengingarnar hlaðast upp staflar af vatnsblandaðri lausri ösku sem límist saman og breytist hratt í móberg þegar 80-150°C heitt jarðhitavatn leikur um hana. Elsta móbergið sem tilheyrir Hengilskerfinu er talið vera frá næstsíðasta jökulskeiði fyrir um 200.000 árum en mest af gosefnum kerfisins er frá síðasta jökulskeiði sem náði hámarki fyrir um 25.000 árum.

 

Alls hefur gosið níu sinnum í Hengilskerfinu á nútíma (hér um bil síðustu 10.000 ár). Ekkert eldgosanna átti sér stað í sjálfri megineldstöðinni, þó kvikusöfnun eigi sér stað þar, heldur urðu gosin utan við kjarna eldstöðvarinnar, ýmist sem dyngjugos eða sprungugos. Fjögur þessara gosa voru á sprungu og hafa þar af þrjú verið aldursgreind. Þau eru ~10.000, ~5.800 og ~1.900 ára, en aldur fjórða gossins er áætlaður að vera um 8.000 ár. Nesjahraun myndaðist í flæðigosi fyrir ~1.900 árum en í því gosi náði gossprungan ofan í mitt Þingvallavatn og við það varð tætigos í vatninu sem myndaði eyjuna Sandey.

Jarðskjálftahrinur geta átt sér stað á Hengilssvæðinu þar sem eldstöðvakerfið tengist Suðurlandsbrotabeltinu en síðasta hrina var þar 1789. Í þeirri hrinu átti gliðnun sér stað á öllum sprungusveimi Hengils og má áætla að jarðsig meðfram norðurströnd Þingvallavatns hafi náð um 1–2,6 m.

Á Hengilssvæðinu er starfandi rannsóknarverkefni sem kallast Carbfix. Verkefnið gengur út á að draga úr losun koltvíoxíðs út í andrúmsloftið frá Hellisheiðarvirkjun með því að fanga lofttegundina sem kemur upp með jarðhitavökva, leysa hana upp í vatni og dæla blöndunni aftur niður um borholur. Á nokkur hundruð metra dýpi í niðurdælingarholunum berst uppleysta koltvíoxíðið út í basaltberggrunninn. Við það taka kalsít kristallar að vaxa, en þeir innihalda bundið kolefni í formi karbónats (CO3). Fyrsta Carbfix niðurdælingin var framkvæmd 2012 og eftir aðeins tvö ár hafði nánast allt koltvíoxíðið kristallast sem kalsíum karbónat, sem er miklu hraðara ferli en búist hafði verið við. Verkefnið hefur því heppnast vel en myndun holufyllinga í basalti undir náttúrulegum kringumstæðum er langtum hæggengara ferli og talið taka miklu lengri tíma, þúsundir eða jafnvel tugþúsundir ára.

Í kringum Þingvallavatn er mikið af sprungum sem tengjast jarðvirkni eldstöðvakerfi Hengils. Ljósm. Anna Soffía Óskarsdóttir.

Hellisheiðarvirkjun nýtir jarðvarma frá Hengilskerfinu. Ljósm. Kristín Sigurgeirsdóttir.

Hengill í vetrarbúningi. Ljósm. Hugi Ólafsson.

Ítarefni

Árnason, P. Theodorsson, S. Björnsson & Kristján Sæmundsson. 1969. Hengill, a high temperature thermal area in Iceland. Bulletin Volcanologique 33. 245–259.

J. Jónsson. 1975. Nokkrar aldursákvarðanir. Náttúrufræðingurinn 45. 27–30.

Kristján Sæmundsson. 1992. Geology of the Thingvallavatn area. Oikos 64. 40–68.

Kristján Sæmundsson. 2019. Hengill. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 26. nóvember 2020 af http://www.islenskeldfjoll.is/?volcano=HEN#.

Kristján Sæmundsson & Magnús Á. Sigurgeirsson. 2013. Reykjanesskagi. Bls. 379–401 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Sandra Ó. Snæbjörnsdóttir, Sigurður R. Gíslason, Galeczka, I.M. & Oelkers, E.H. 2018. Reaction path modelling of in-situ mineralisation of CO2 at the CarbFix site at Hellisheidi, SW-Iceland. Geochimica et Cosmochimica Acta 220. 348–366.

Flatfiskar

Flatfiskar

Flatfiskar

Vissir þú að lirfur flatfiska eru sviflægar og með augun sitt á hvorri hlið eins og hjá öðrum beinfiskum? Við lok lirfustigs fer af stað myndbreyting hjá lirfunni. Annað augað færist yfir á gagnstæða hlið (augnhlið) og um leið skekkist kjafturinn og bein hauskúpunnar sem verða ósamhverf. Magi og görn vindast til. Flatfiskar eru botnfiskar sem liggja og synda á blindu hliðinni, en stærri flatfiskategundir eins og lúða, grálúða og sandhverfa leita upp í sjó og verða fiskætur þegar þær stækka. Augnhliðin er dökk og liturinn gjarnan breytilegur eftir botnlagi og lit botns en blinda hliðin er ljós eða alveg hvít.  

Sandhverfa. ©Jón Baldur Hlíðberg, fauna.is 

Jaspis

Jaspis

Jaspis

Jaspis er nokkuð algeng síðsteind á Íslandi og finnst einkum sem holu- og sprungufylling í eldra bergi landsins. Jaspis er að mestu úr kísiloxíði (SiO2) en oft eru í steindinni önnur efni, svo sem járn, sem gefa henni litAlgengustu litarafbrigðin eru rauð og gul en græn finnast einnig og jafnvel önnur enn sjaldgæfari. Stundum eru mörg litarafbrigði í sömu steindinni.  

Jaspis er alltaf ógegnsær með fitu- eða glergljáa. Þar sem jaspis er kvarssteind þá er harka hans frekar mikil, eða 7 af 10 stigum og er því hægt að rispa gler með jaspis.