Skúfönd

Skúfönd

Skúfönd (Aythya fuligula)


Útlit og atferli

Skúföndin er fremur lítil og nett önd og er algengasta kaföndin á láglendi. Hún er mjög dökk, steggurinn er með svart, blágljáandi, hnöttótt höfuð með lafandi hnakkaskúf. Síður eru hvítar, svo og kviður, undirvængir og vængbelti, fjaðurhamur annars svartur eða brúnsvartur. Í felubúningi er hann grár á síðum með stuttan skúf, að öðru leyti eins og í skrautbúningi. Á fyrsta vetri eru síður brúnflikróttar. Kollan er dökkbrún að ofan, með ljósflikróttar síður, hvítan kvið og vængbelti. Flestar hafa hvítan blett við goggrót og ljósan undirgump sem dökknar á sumrin. Á þeim vottar fyrir hnakkaskúfi. Ungfuglar eru dekkri en kollurnar. Skúfönd svipar til duggandar en er grennri, með annað höfuðlag, styttri háls og dekkri búning.

Bæði kyn hafa blágráan eða dökkgráan gogg með svartri nögl, fætur eru blágráir með dekkri fitjum. Fullorðnir fuglar eru með heiðgul augu, ungfuglar brún.

Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Andasteggir skipta um bolfiður áður en þeir fella flugfjaðrir og fá þá svonefndan felubúning, sem er oft svipaður búningi kollunnar. Felubúningurinn er því eins konar sumarbúningur þeirra. Þeir skarta síðan skrúðbúningi um haustið, eftir að þeir verða fleygir að nýju.

Skúfönd er félagslynd á öllum árstímum. Hún flýgur hratt með hröðum vængjatökum, er djúpsynd og fimur kafari en þung til flugs og hleypur á vatni í flugtaki eins og aðrar kafendur. Sést sjaldan á landi.

Skúfönd er fremur þögul, steggurinn gefur frá sér þýtt blísturshljóð en kollan urrandi garg.

 

Skúfandarsteggir í felli (felubúningi).

.

Fullorðinn rauðbrystingur í vorbúningi á Patreksfirði.

Skúfandarhópur við Mývatn.

Ungur rauðbrystingur í Eyrarbakkafjöru.

Skúfandarsteggur hefur sig til flugs á Mývatni.

.

Lífshættir

Skúfönd er dýraæta sem kafar til botns eftir smádýrum, t.d. mýlirfum, krabbadýrum, vatnabobbum og ertuskeljum. Þörungar og hornsíli eru í litlum mæli á matseðli skúfandar.

Kjörlendi á sumrin er lífauðug, grunn vötn og tjarnir. Skúfönd verpur oft í dreifðum byggðum, gjarnan innan um hettumáf og kríu. Hreiðrið er vel falið í þéttum gróðri nærri vatni, fóðrað með sinu og dúni. Eggin eru 8–11, stundum verpa fleiri en ein kolla í sama hreiður og geta þau þá orðið mun fleiri, ég hef fundið skúfandarhreiður með 24 eggjum!!! Eggin klekjast á 25 dögum og ungarnir verða fleygir á 45-50 dögum. Heldur sig á vetrum mest á opnu ferskvatni, en einnig á sjó.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Skúfandarhreiður við Reykjavíkurtjörn.

Rauðbrystingahópur í Eyrarbakkafjöru.

Skúfandarkolla með 11 unga á Reykjavíkurtjörn.

Útbreiðsla og stofnstærð

Skúföndin er að mestu farfugl. Hún er láglendisfugl, en sést sjaldan á hálendinu. Hún nam hér land í lok 19. aldar. Skúfönd er nú sennilega algengasta kaföndin að æðarfugli undanskildum og hefur slegið duggöndinni við sem algengasta öndin á Mývatni. Stofninn er talinn vera 10.000–12.000 varppör og verpur rúmlega helmingurinn við Mývatn. Skúfönd er aðallega á Írlandi á vetrum en einnig mikið á Bretlandi og ungfuglar leggja nokkuð leið sína til Vestur-Evrópu suður til Spánar og jafnvel allt til Marokkó, sumir fara jafnvel vestur um haf. Allt að 500–1000 fuglar halda til á Suðvestur- og Suðurlandi og Mývatni á veturna. Varpstöðvar skúfandar eru í Evrópu og Asíu, allt austur að Kyrrahafi.

Þjóðtrú og sagnir

Líkt og um flestar aðrar endur, fjallar íslensk þjóðtrú ekki mikið um skúföndina. Víða eru endur taldar veðurvitar og jafnvel að þær finni á sér eldsumbrot eða jarðhræringar. Þessu tóku menn eftir hjá Mývatnsöndum í Kröflueldum 1975–84.

Skyldar tegundir

Hringönd (Aythya collaris) er árviss flækingur hér á landi og sést oftast með skúföndum og para þær sig stundum. Blendingarnir minna meira á hringönd en skúfönd. Oft er um að ræða steggi sem sjást ár eftir ár á sömu slóðum, oftast á SV- og SA-landi og við Mývatn. Hringönd minnir á skúfönd, steggurinn er með svart bak, ljósgráar síður sem enda í hvítri totu aftan við svarta bringu. Kollur er fiðurmikill, án skúfs og enni bratt. Kollan er með hvítan augnhring og hvíta rák aftur frá auga, minnir annars á skúfandarkollu. Bæði kyn með grátt vængbelti. Goggur beggja er gott einkenni, bæði eru með áberandi ljósan hring innan við svarta nögl, steggurinn jafnframt með annan hring uppvið goggrót. Hringöndin er útbreiddur varpfugl um norðanverða N-Ameríku.

Hópur rauðbrystinga í Flóa.

Hringandarsteggur á Elliðavatni.

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson
Náttúruhús á Nesinu?

Náttúruhús á Nesinu?

Náttúruhús á Nesinu?

Starfshópur sem Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra skipaði, hefur komist að þeirri niðurstöðu að Nes á Seltjarnarnesi sé kjörinn framtíðarstaður fyrir Náttúruminjasafn Íslands m.t.t. nálægðar við hafið, fjölbreyttrar náttúru svæðisins og menningarsögulegs gildis þess. Er hús Lækningaminjasafnsins sem þar stendur hálfbyggt, talið henta að mörgu leyti vel fyrir starfsemi Náttúruminjasafnsins.

 

Miklir möguleikar

„Rísi Náttúruhús á Nesinu sér fyrir endann á langri og strangri baráttu fyrir viðunandi aðstöðu fyrir höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum,“ segir Hilmar J. Malmquist forstöðumaður safnsins. Kjarni nýs Náttúruhúss yrði bygging sem kennd er við Lækningaminjasafnið. Hún er um 1360 m2 að gólffleti, jarðhæð og kjallari, hálfbyggð og því auðvelt að laga hana að þörfum safnsins til næstu ára. Til að svara þörfum safnsins til lengri tíma eru áhugaverðir möguleikar fyrir hendi til að stækka húsið. Þá eru fyrir hendi möguleikar á nýtingu á Nesstofu í samráði við Þjóðminjasafn Íslands og samnýtingu á Ráðagerði og fræðasetrinu í Gróttu í eigu Seltjarnarnesbæjar, sem léttir á framtíðarþörf nýbygginga fyrir Náttúruminjasafnið.

Starfshópurinn mælir með því að samið verði við Seltjarnarnesbæ um að ríkið eignist húsnæði Lækningaminjasafnsins og að það verði fullbyggt í samræmi við þarfir Náttúruminjasafnsins. Aðlögun húsnæðisins að þörfum Náttúruminjasafnsins tæki tiltölulega skamman tíma og yrði hagkvæmara en hönnun og bygging nýs húss. Áætlað er að gera megi húsnæðið tilbúið undir starfsemi Náttúruminjasafnsins og fullgera þar sýningu á um tveimur árum.

 

Áætlaður kostnaður við að ljúka byggingu hússins miðað við núverandi teikningar er 650 m.kr. með -10% til +15% vikmörkum. Viðbótarkostnaður vegna aukningar á sýningarými á aðalhæð og í kjallara er áætlaður um 100 m.kr.

 

Sýningahald

Áætlaður kostnaður við fullgerða sýningu Náttúruminjasafnsins í allt að 500 m2 sýningarými er um 400 m.kr. (0,8 m.kr./m2).  Árlegur rekstrarkostnaður miðað við allt að 18 ársverk, sem sum hver samnýtast starfsemi Náttúruminjasafnsins í Perlunni og á fleiri stöðum, er áætlaður um 300 m.kr. Tekjur af sýningahaldi eru áætlaðar 150–400 m.kr. á ári og helgast aðallega af fjölda erlendra gesta á sýningar safnsins.

Húsin í Nesi: Lækningaminjasafnið, Lyfjafræðisafnið, hvítt hús fyrir miðri mynd, og Nesstofa, sem er hluti af húsasafni Þjóðminjasafns Íslands. Nesstofa var reist sem embættisbústaður fyrsta landlæknsins og er eitt af elstu steinhúsum landsins, byggt á árunum 1761–1767. Ljósmynd: Vigfús Birgisson.

Merkur áfangi

 

„Þetta er vafalítið einn merkasti áfanginn í langri og strangri baráttu fyrir viðunandi aðbúnaði fyrir þetta höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum“ segir Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins. „Ég vænti þess að þetta brýna verkefni, sem snýr að fræðslu í náttúruvísindum, rannsóknum og verndun á náttúruarfi landsins, muni njóta almenns stuðnings og brautargengis á alþingi. Ríkisstjórnin og sér í lagi mennta- og menningarmálaráðherra á hrós skilið fyrir að höggva á ríflega 100 ára gamlan hnút í húsnæðismálum og rekstri safnsins. Það er nú eða aldrei.“

 

Hér má lesa GREINARGERÐ starfshópsins

Nes er ysta jörðin á Seltjarnarnesi og þekkt fyrir fjölbreytt náttúrufar. Horft til vesturs. Gróttuviti til hægri í friðlandinu Gróttu og  friðlandið Bakkatjörn til vinstri. Ljósmynd: Vigfús Birgisson.

FYLGISKJÖL með greinargerðinni:

Fskj. nr. 1. Minnisblað safnstjóra höfuðsafnanna þriggja, afhent mennta- og menningarmálaráðherra, dags. 1. maí 2019.

Fskj. nr 2. Skipunarbréf mennta- og menningarmálaráðherra, dags. 18. september 2019.

Fskj. nr. 3. NÁTTÚRUHÚS. Náttúruminjasafn Íslands – höfuðsafn í náttúrufræðum. – Lýsing á þörfum Náttúruminjasafns Íslands fyrir húsnæði, starfsemi og mannafla með hliðsjón af þingsályktun nr. 70/145. Drög nr. 1, 8. mars 2017. 7 bls.

 

Fskj. nr. 4. Bréf bæjarráðs Seltjarnarness, dags. 12. desember 2019. 

Fskj. nr. 5. Framkvæmdasýsla ríkisins. minnisblað. Lækningaminjasafn Seltjarnarnesi – athugun fyrir Náttúruminjasafn Íslands, dags. 13. desember 2019. 

Fskj. nr. 6. Yrki Arkitektar – V001 Safn//Náttúruhús, dags. 8. nóvember 2019.

 

Naegleria fowleri

Naegleria fowleri

Naegleria fowleri

Þær leynast víða hætturnar. Í gær birtist frétt á ruv.is um að ákveðin tegund amöbu, Naegleria fowleri, hefði fundist í neysluvatni í bænum Lake Jackson í Texas í Bandaríkjunum. Hún getur sýkt menn og valdið lífshættulegum heilaskaða, en þekkt tilfelli eru afar fá og flest við miðbaug. Þessi tegund finnst víða, er hitaþolin og þrífst helst í heitu vatni, jafnt úti í náttúrunni, t.d. í vatnshverum og laugum í Yellowstone þjóðgarðinum og stöðnuðu vatni í grunnum tjörnum, sem og við manngerðar aðstæður, m.a. í hitaveitukerfum og affallsvatni orkuvera. Amaban Naegleria fowleri hefur ekki fundist hér á Íslandi og reyndar engin sem er náskyld henni. Því er óhætt að bregða sér áfram í heitu pottana í sundlaugunum því þar er vatnið blandað klór sem drepur örverur.

Tölvugerð mynd af þremur formum amöbunnar Naegleria fowleri.

Öræfajökull

Öræfajökull

Horft í suðaustur yfir Víti og Öskjuvatn.

Hvannadalshnjúkur. Ljósm. Anna Soffía Óskarsdóttir.

Öræfajökull

Öræfajökull er syðsti hluti Vatnajökuls og undir jökulhettunni er eldkeila sem er jafnframt stærsta eldstöð Íslands. Öræfajökull er einnig önnur stærsta eldkeila Evrópu, en sú stærsta er Etna á Sikiley. Hvannadalshnjúkur (2.110 m), er hæsti tindur Öræfajökuls og jafnframt hæsti tindur landsins. Allmargir skriðjöklar ganga út frá Öræfajökli, þar má nefna Skaftafellsjökul, Svínafellsjökul, Kvíárjökul og Fjallsjökul.
Askja í Dyngjufjöllum í Ódáðahrauni er merkt með rauðum punkti á kortið.

Öræfajökull er merktur með rauðum punkti á kortið (kortagrunnur frá Landmælingum Íslands).

Askja í Dyngjufjöllum. Öskjuvatn fyllir yngstu öskjuna og má sjá móta fyrir hinum eldri. Suðurbotnar eru merktir með gulum punkti. (Gervitunglamynd frá NASA).

Askjan í toppi fjallsins sést vel þegar horft er á jökulinn úr lofti. (Sentinel-2 gervitunglamynd frá COPERNICUS EU).

Horft í suður yfir Öskjuvatn.

Svínafellsjökull er einn af skriðjöklum Öræfajökuls. Ljósm. Anna Soffía Óskarsdóttir.

Megineldstöð Öræfajökuls er um 20 km í þvermál og í toppi hennar er askja, um 4–5 km að þvermáli. Askjan er um 500 m djúp og ísfyllt. Eldstöðvakerfi Öræfajökuls liggur á samnefndu gosbelti, Öræfajökulsbeltinu, sem er, ásamt Esjufjöllum og Snæfelli, fyrir utan megingosbelti landsins. Öræfajökull er eitt af fáum eldstöðvakerfum á landinu sem er megineldstöð án sprungusveims. Aldur Öræfajökuls og berggrunnsins undir honum er ekki nákvæmlega þekktur, elstu berglög frá eldstöðinni eru um 800 þúsund ára gömul, en talið er að fjallið hafi hlaðist upp ofan á nokkurra milljón ára gamalli jarðskorpu.

 

Þó svo að Öræfajökull sé stærsta eldstöð landsins er hann ekki sú virkasta. Á sögulegum tíma hefur einungis gosið tvisvar sinnum í Öræfajökli, á árunum 1362 og 1727. Eldgosið árið 1362 var súrt sprengigos þar sem upp kom um 10 km3 af gjósku og er þetta gos því stærsta sprengigos á sögulegum tíma á Íslandi. Eldgosið er einnig annað stærsta sprengigosið í Evrópu á eftir gosinu í Vesúvíusi á Ítalíu árið 79.

Snemma í gosinu 1362 féllu mikil gjóskuflóð og gusthlaup. Gjóskuflóð verða þegar gosstrókur fellur og loftborin gosefni (gjóska og gös) hlaupa fram með jörðu í miklu magni. Hlaupin geta náð tugi kílómetra frá upptökum þar sem þau fylgja landslagi. Þau geta náð allt að 500 km hraða á klukkustund og htinn verið allt frá 100°C upp í 800°C.

Gusthlaup er annað form gjóskustrauma en þau geta myndast samhliða gjóskuflóðum eða ein og sér. Gusthlaup eru gasríkari og innihalda minna magn af föstum efnum og því er hegðun þeirra ólík gjóskuflóðum. Þau geta ferðast upp hæðir og hóla en ná ekki eins langt frá upptökum og flóðin. Gusthlaup geta þó náð nokkra kílómetra frá upptökum.

Brotsár eftir berghlaup í Suðurbotnum í júlí 2014.

Vesturhlið Öræfajökuls séð frá suðurströndinni.

Magn gosefna úr gosinu 1362 olli því að byggð við rætur Öræfajökuls, sem nefndist Litla-Hérað, lagðist í algjöra eyði. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær byggð hófst að nýju á svæðinu og þá undir öðru nafni, Öræfi eða Öræfasveit. Tilgátur hafa komið fram um að allt að 250 til 400 manns hafi farist í gosinu 1362 og er gosið því líklega með mannskæðustu gosum Íslands, ásamt stóru flæðigosunum í Lakagígum og ef til vill í Eldgjá.

Fjallað er um gosið 1362 í Oddverjaannál sem segir: „Eldsuppkoma í Litla-Héraði og eyddi allt héraðið. Höfðu þar áður verið 70 bæir. Lifði engin kvik kind eftir utan ein öldruð kona og kapall.“ Í þessari heimild kemur skýrt fram hve mikil manntjónið og eyðileggingin var því aðeins tvær lifandi verur lifðu af; gömul kona og hryssa.

Þar sem Öræfajökull er megineldstöð undir jökli má reina með að jökulhlaup fylgi eldgosunum. Almannavarnir meta það svo að hætta vegna jökulhlaupa frá Öræfajökli sé mikil á um 340 km2 svæði. Það tæki að lágmarki 35–40 mínútur að rýma svæðið til fulls, en framrásartími hlaupa frá jöklinum er þó mögulega ekki nema um 20–30 mínútur. Vöktun við Öræfajökul hefur verið bætt undanfarin ár, einkum eftir að skjálftavirkni jókst í eldstöðinni 2017, viðbragðsáætlanir liggja fyrir en mestu skiptir að allir fyrirboðar um gos séu greindir rétt svo unnt verði að rýma svæðið áður en gos hæfist í Öræfajökli.
Jarðlagaopna eftir flóðbylgjuna í Öskjuvatni í júlí 2014.

Öræfajökull er talinn með tignarlegri fjöllum landsins. Ljósm. Hugi Ólafsson.

Sethólar eftir flóðbylgjuna í Öskjuvatni í júlí 2014.

Algengt er að ský hylji Öræfajökul og hæstu tindana. Ljósm. Hugi Ólafsson.

Ítarefni

Almannavarnir. 2017. Öræfajökull. Sótt 27. ágúst 2020 af https://www.almannavarnir.is/forsidubox/oraefajokull/?fbclid=IwAR3ipOkQy0uP2nSEfZO6a9YmmItjNAVITdtD3wd5uCvpzs5-5FevVMOiKbQ

Ármann Höskuldsson. 2013. Gjóskustraumar. Bls. 144–146 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Viðlagatrygging Íslands, Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Ármann Höskuldsson. 2019. Öræfajökull. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 25. ágúst 2020 af http://www.islenskeldfjoll.is/?volcano=ORA#

Magnús T. Guðmundsson, Guðrún Larsen, Ármann Höskuldsson & Ágúst Gunnar Gylfason. 2008. Volcanic hazards in Iceland. Jökull 58. 251–268.

Magnús T. Guðmundsson, Þorvaldur Þórðarson, Guðrún Larsen, Páll Einarsson, Ármann Höskuldsson & Páll Imsland. 2013. Undir Vatnajökli. Bls. 263–277 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Viðlagatrygging Íslands, Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Sigurður Þórarinsson. 1958. The Öræfajökull eruption of 1362. Acta Naturalia Islandica II(2). Sótt 25. ágúst 2020 af http://utgafa.ni.is/Acta-Naturalia-Islandica/Acta-Naturalia-Islandica-II-2.pdf

Lerkisveppur

Lerkisveppur

Lerkisveppur

Vissir þú að lerkisveppur fannst fyrst á Hallormsstað árið 1935? Nú vex hann nær alls staðar í ungum lerkiskógum. Lerkisveppurinn er góður matsveppur, hattur hans er ýmist rauðbrúnn eða gulur að lit. Talið er að þetta séu tvö litarafbrigði sem vaxa á sömu svæðunum.

Ljósmynd: Kristín Sigurgeirsdóttir.