Forval fyrir hönnunarsamkeppni um sýningu Náttúruminjasafns Íslands

Forval fyrir hönnunarsamkeppni um sýningu Náttúruminjasafns Íslands

Forval fyrir hönnunarsamkeppni um nýja grunnsýningu Náttúruminjasafns Íslands í Náttúruhúsi í Nesi

Náttúruminjasafn Íslands í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og Ríkiskaup efnir til hönnunarsamkeppni um nýja grunnsýningu fyrir safnið í Náttúruhúsi í Nesi, nýju húsnæði safnsins við Safntröð á Seltjarnarnesi. Samkeppnin er hönnunar- og framkvæmdasamkeppni með forvali.

Ríkiskaup, fyrir hönd Náttúruminjasafns Íslands, óska eftir þátttakendum í forvali vegna hönnunarsamkeppninnar. Forvalsnefnd fer yfir umsóknir sem berast og velur þrjú teymi til þátttöku í samkeppni um hönnun nýrrar grunnsýningar.

Óskað er eftir fjölbreyttum umsóknum frá teymum hönnuða til að koma með áhugaverðar hugmyndir um vandaða og fræðandi sýningu sem byggir á sterkri upplifun gestsins. Öllum er frjáls þátttaka í forvalinu að uppfylltum neðangreindum kröfum. Þrjú teymi sem fá hæstu einkunn forvalsdómnefndar, verður boðið að taka þátt í samkeppninni. Hverju teymi verður greidd 1.500.000 kr. án vsk. fyrir sína tillögu að samkeppni lokinni.

 

Markmið

Markmið samkeppninnar er að kalla fram hugmyndir að sýningu um hafið, þar sem gestir öðlast nýja þekkingu og eykur virðingu og væntumþykju fyrir náttúrunni. Framsetning sýningar skal vera frumleg og fjölbreytt þar sem mismunandi skynfæri eru örvuð, með hæfilegri blöndu af gripum í eigu safnsins og tækni sem byggir á margmiðlun og gagnvirkni. Hluti sýningarinnar skal sýna lifandi dýr/lífverur úr fjöru og hafi.

Gestir eiga að fræðast um hafið og lífríki þess í gegnum fjölbreytta upplifun og þátttöku með snertingu og í gegnum leik. Sýningin skal vera byggð á vísindalegum grunni og fagmennsku. Safnið á að vera lifandi vettvangur almennings, skólafólks og ferðamanna sem sækir það heim aftur og aftur til að njóta, fræðast og upplifa undur og síbreytileika náttúrunnar.

Nánari upplýsingar um forvalið og hönnunarsamkeppnina má finna á vef Hönnunarmiðstöðvar  og á útboðsvef Ríkiskaupa.

Hringdúfa

Hringdúfa

Hringdúfa (Columba palumbus)

Útlit og atferli

Hringdúfa er svipuð bjargdúfu, en stærri, með hvíta bletti á hálshliðum. Hvítur hálfmáni á vængjum er áberandi á flugi. Handflugfjaðrir eru dökkar og dökkt belti á stéli. Er annars gráleit að mestu, en ljósvínrauð að framan. Ungfuglar hafa ekki hálsblettina.

Hún er stærri en bjargdúfa, með hlutfallslega lengra stél og minni haus.

Röddin er dæmigert dúfnahljóð: rhúúú, rhúúú. Vængjasláttur er áberandi þegar fuglinn hefur sig til flugs. Flugið er beint og þróttmikið eins og hjá öðrum dúfum.

Fullorðin hringdúfa á flugi.

Fullorðin hringdúfa.

Lífshættir

Hringdúfa er jurtaæta og nærist helst á jörðu niðri; hún tekur jöfnum höndum græn lauf, sprota, blóm, fræ, ber og rætur. Hringdúfa sækir sérstaklega í kornakra og jafnvel í garða þar sem fuglum er gefið kornmeti. Hún er skógarfugl og verpur bæði í barr- og laufskógum, þó hérlendis haldi hún sig að mestu við greni. Hreiðrið er óvönduð smíð úr kvistum og sprekum, oftast við stofninn í 1,5-2,5 m hæð. Það getur verið erfitt að koma auga á það vegna þess hve vel það fellur að greinum trjánna. Eggin eru tvö, þau klekjast á 16-17 dögum og verða ungarnir fleygir á 28-29 dögum. Varptíminn er teygjanlegur, hringdúfa getur orpið nokkrum sinnum á sumri.

Útbreiðsla og ferðir

Hringdúfa er algengur flækingur að vorlagi og snemmsumars og hefur orpið hér af og til í hálfa öld. Flækist einnig stundum hingað á haustin. Samfara aukinni kornrækt ætti hringdúfan að eiga auðveldara með að koma undir sig fótunum hér, svipað og bjargdúfan.

Fyrsta hringdúfuhreiðrið fannst í Múlakoti í Fljótshlíð 1962. Annað og þriðja hreiðrið voru í klettum í Öræfum 1963-64 og það fjórða í Grasagarðinum í Laugardal 1973. Hreiður og ungar hafa fundist frá Fnjóskadal austur-, suður- og vestur um til Reykjavíkur. Flest varptilvik eru frá Héraði, nágrenni Hafnar í Hornafirði og Tumastöðum í Fljótshlíð. Lítill stofn hefur myndast á Héraði og sennilega víðar, en athuganir skortir.

Varpheimkynni eru samfelld í Evrópu og á blettum í Norður-Afríku og Mið- og Vestur-Asíu. Hún er mjög algeng í nágrannalöndunum og stofnar þar stórir.

Fullorðin hringdúfa á flugi.

Ung hringdúfa.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson
Dvergmáfur

Dvergmáfur

Fullorðinn dvergmáfur á Stokkseyri.

Dvergmáfur (Hydrocoloeus minutus)

Útlit og atferli

Dvergmáfur líkist hettumáfi en er mun minni. Fullorðnir fuglar eru með ljósgráan yfirvæng og svartan undirvæng með hvítum afturjaðri, vængir eru styttri og ávalari en á hettumáfi. Hann er með dökka hettu í sumarbúningi, á veturna með svartan koll og svartar hlustarþökur. Á sumrin bregður fyrir bleikum lit á kviði, sem hverfur á veturna. Ungfuglar eru með svarta bekki á baki og yfirvæng líkt og rita. Fætur eru rauðleitir og goggur dökkur.

Flýgur með hröðum vængjatökum, fluglag er oft reikult og ójafnt og minnir á fluglag kríu. Á fullorðnum fuglum bregður til skiptis fyrir ljósgráum yfirvæng og svörtum undirvæng, þetta einkenni sést oft á löngu færi.

Ársgamall dvergmáfur á Bakkatjörn, Seltjarnarnesi.

Ársgamall dvergmáfur á Bakkatjörn, Seltjarnarnesi.

Lífshættir

Þeir dvergmáfar sem hafa fundist í varpi hér hafa undantekningalaust verið í hettumáfsvörpum í votlendi, mýrum eða jöðrum stöðuvatna og tjarna. Eggin eru 2-3, þau klekjast á þremur vikum og ungarnir verða fleygir á um fjórum vikum. Dvergmáfurinn er dýraæta og veiðir gjarnan á flugi yfir vatni, svipað og þernur.

Útbreiðsla og ferðir

Dvergmáfur er árviss hérlendis og fer honum fjölgandi, er það er í samræmi við útbreiðsluaukningu hans til vesturs á síðustu áratugum, hann verpur nú m.a. í Svíþjóð, Noregi (fyrst 1976), Írlandi og Skotlandi. Hefðbundnar varpstöðvar hans eru annars frá Eystrasalti og gloppótt austur um Evrópu og Asíu allt að Kyrrahafi. Auk þess verpur hann í Hollandi og eitthvað við vötnin miklu og Hudsonflóa í Kanada og víðar í N-Ameríku. Amerísku vörp eru þó stopul og er uppruni fuglanna óviss.

Hérlendis sést hann á öllum tímum árs, einna helst snemma sumars, í maí og júní, í hettumáfsvörpum. Hann hefur sést í öllum landshlutum, oftast þó við Faxaflóa, í Þingeyjarsýslum og á Höfn. Dvergmáfar hafa sést næstum árlega í hettumáfsvörpum á varptíma í Mývatnssveit frá 2003. Par kom upp tveimur ungum 2008 og hreiður fannst 2011. Hann verpur þar sennilega árlega. Síðan hefur varp verið staðfest víðar í Þingeyjarsýslum og á Snæfellsnesi. Utan varptíma sést hann gjarnan við strandvötn eða í fjörum. Það bendir því margt til þess að dvergmáfur fari senn að teljast til fullgildra íslenskra varpfugla.

Fullorðinn dvergmáfur á Stokkseyri.

Fullorðinn og ársgamall dvergmáfur á Stokkseyri.

Ársgamall dvergmáfur á Stokkseyri.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson
Barrfinka

Barrfinka

Barrfinkukarl að næra sig á barrfræi.

Barrfinka (Spinus spinus)

Með aukinni skógrækt hefur þeim skógarfuglum fjölgað, sem hafa orpið hér. Fuglaskoðun hefur og aukist og grannt er fylgst með mörgum trjáræktarreitum, þar sem sjaldgæfir fuglar hafa reynt varp. Hin torsótta farleið til og frá landinu, 800 km yfir opið haf, veldur því m.a. að litlir stofnar farfugla eiga erfitt uppdráttar. Það eru vafalaust mikil afföll í hafi af þeim fuglum sem ekki geta sest á sjó til að hvíla sig, eins og spörfuglum og smávöxnum vaðfuglum, enda eru stofnar gamalgróinna íslenskra farfugla í smærri kantinum stórir og sterkir og þola því nokkur afföll. Þeir fuglar sem hafa numið hér land undanfarin hundrað ár eða svo og eru jafnframt farfuglar, eru aðallega sundfuglar og geta sest á sjó. En flestir landnemar eru staðfuglar.

Útlit og atferli

Barrfinka líkist auðnutittlingi, karlfuglinn er skrautlegur, grængulur með svarta kollhettu, gul vængbelti í dökkum vængjum og gula stélreiti, kvenfuglinn er litdaufari en þó með svipað væng- og stélmynstur. Ungfuglar líkjast kvenfugli. Goggur er dökkur eða gráleitur, fætur sömuleiðis.

Barrfinkukarl.

Barrfinkukerla í sólblómafræi á Selfossi.

Lífshættir

Barrfinkan gerir sér hreiður í trjám, það er fínlega ofið og fóðrað, svipað og hjá auðnutittlingi. Eggin eru 3-5, kvenfuglinn klekur þeim á 12-13 dögum og verða ungarnir fleygir á 13-15 dögum. Varptíminn í Evrópu er frá því í mars fram í ágúst og ræðst hann af fæðuframboði. Fæða barrfinku er einkum fræ af barrtrjám, en hún tekur einnig önnur fræ, svo og brum og skordýr. Barrfinkur eiga það til að koma í fóður þar sem fuglum er gefið, einkanlega sólblómafræ.

Útbreiðsla og stofnstærð

Barrfinka var lengi árlegur flækingur sem sást á haustin, frá miðjum september fram eftir október og á vorin, frá apríllokum fram í júní. Barrfinkur urpu í grenilundum á Suðurlandi 1994-1997 og aftur 2001. Haustið 2007 komu óvenjumargar barrfinkur til landsins, lítið bar þó á þeim um veturinn, en sumarið 2008 urpu þær víða um sunnan og austanvert landið. Síðan er vitað um eitt eða örfá varptilvik á hverju ári og er barrfinkan líklega orðinn reglulegur varpfugl hér á landi, einkum í barrskógum og lundum á Suður- og Suðvesturlandi, m.a. í Reykjavík og nágrenni, en hún hefur einnig fundist á Norður- og Austurlandi. Talið er að barrfinkan sé staðfugl hér, en hún er farfugl á norðlægum slóðum og hafa þeir fuglar sem hingað rata vafalaust lent í hrakningum á farflugi. Barrfinkur eiga einnig til að leggjast á flakk, ef lítið er um fæðu, eins og títt er með krossnef og silkitoppu. Annars er barrfinkan varpfugl í barrskógum Evrópu og Austur-Asíu, en eyða er í útbreiðslunni um miðbik síðarnefndu álfunnar.

Barrfinkupar á fóðurstauki, kerlan til vinstri, karlinn til hægri.

Barrfinkukarl á fóðurstauki.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson
Náttúruminjasafnið og verkefnið FishFAR

Náttúruminjasafnið og verkefnið FishFAR

FishFAR

verkefni um áhrif loftslagsbreytinga í litlum vötnum

Náttúruminjasafnið tekur þátt í samstarfsverkefni með Háskólanum á Hólum, Tjóðsavninu í Færeyjum og Háskólanum í Kaupmannahöfn. Verkefnið heitir FishFAR og gengur út á kanna áhrif loftslagsbreytinga á samfélög og vistfræði ferskvatnsfiska í litlum vötnum en sömu vötn voru heimsótt árið 2000 í verkefni sem kallast NORLAKE. Ásamt því að skoða tegundasamsetningu fiska þá verður einnig gerð athugun á umhverfisbreytum, svifdýrasamfélögum og botndýrasamfélögum vatnanna. Með því að bera saman niðurstöður úr þessum tveimur verkefnum má sjá breytingar síðustu 20 ára.

Verkefninu er stýrt af Camille Leblanc, dósent við Háskólann á Hólum og Dr. Agnesi-Katharinu Kreiling við Tjóðsavnið í Færeyjum.

Aðrir þátttakendur í verkefninu eru prófessor Bjarni K. Kristjánsson (Háskólinn á Hólum), Kári Heiðar Árnason (Háskólinn á Hólum), prófessor Kirsten S. Christoffersen (Háskólinn í Kaupmannahöfn), Leivur Janus Hansen (Tjóðsavnið), Dr. Hilmar J. Malmquist (Náttúruminjasafn Íslands) og Dr. Ragnhildur Guðmundsdóttir (Náttúruminjasafn Íslands).

Færeyska sjónvarpið fjallaði um rannsóknina og má sjá fréttina hér: https://kvf.fo/netvarp/sv/2022/08/09/granskingarferd-i-foroyskum-votnum.

Hægt er að fræðast frekar um verkefnið á síðu þess hjá Tjóðsavninu: https://www.tjodsavnid.fo/landdjoradeild/fishfar.

Verkefnið er styrkt af Færeyska rannsóknarsjóðnum, Granskingarráðið https://www.gransking.fo/.

Leiðangursstjórinn Camille Leblanc tekur upp net úr Saksunarvatni.

Urriði úr Toftavatni.