Landsvala

Landsvala (Hirundo rustica)

og bæjasvala (Delichon urbicum)

Í þessum síðasta þætti um fugl mánaðarins verður í annað sinn vikið frá þeirri venju að fjalla aðeins um eina fuglategund. Þær frænkur landsvala og bæjasvala eru líkar um margt, koma oft saman til landsins og því viðeigandi að fjalla um þær saman. Þær eru spörfuglar og tilheyra hinum eiginlegu svölum, eru alls óskildar hinum smávöxnu sjófuglum sjóvölu og stormsvölu, sem fjallað var um saman í september 2017.

Bæjasvala safnar leðju til hreiðurgerðar í Extremadura á Spáni.

Landsvala á vír í Búlgaríu.

Útlit og atferli

Svölurnar eru báðar algengir vor- og sumargestir og koma þær oft samtímis til landsins. Landsvalan eru þó öllu algengari. Þær eru báðar blásvartar og gljáandi að ofan og á efri hluta höfuðs, landsvala er með svart bringuband, rauð á kverk og í framan. Vængir eru langir og stél djúpklofið með löngum stélfjörðum, stélfjaðrir eru styttri á ungfuglum. Kviður og bringa eru ljósgul.

Bæjasvalan en hvít að neðan. Hvítur gumpur og sýlt stél með styttri stélfjöðrum greina hana frá landsvölu.

Raddir svalanna eru ýmis konar tíst og kvak. Þær fljúga hratt og léttilega og taka smádýr á flugi. Þær svífa gjarnan inn á milli fluglota. Svölurnar tylla sér oft á víra, loftnet og þess háttar. Þær eru félagslindar utan varptíma.

Lífshættir

Landsvala gerir sér oftast hreiður inni í útihúsum og á öðrum mannvirkjum, meðan bæjasvalan gerir sér hreiður undir þakskeggjum eða á syllum utan á húsum. Hreiður beggja er gert úr leðju eða leir, sem fuglarnir taka í gogginn á völdum stöðum, leðjan er oft blönduð stráum. Það er síðan fóðrað með fínum stráum, hárum og fiðri. Hreiður landsvölu er opið meðan hreiður bæjasvölu er hálfkúlulaga með opi efst. Urptin er oftast 4-5 egg, það fer nokkuð eftir stærð hreiðra hversu urptin er stór, getur orðið 7 egg hjá landsvölu. Útungunartíminn er tvær vikur og ungarnir verða fleygir á þremur vikum, jafnvel fjórum vikum eða meira hjá bæjasvölu. Tvö vörp yfir sumarið eru þekkt hjá báðum tegundum.

Nýfleygur landsvöluungi í Extremadura á Spáni.

Landsvala á flugi á Stokkseyri.

:Bæjasvala við hreiður í Vík í Mýrdal.

Bæjasvala á flugi í A-Anglíu á Englandi.

Útbreiðsla og varpsaga

Landsvalan hefur orpið hér alloft. Fuglar sýndu nokkrum sinnum varptilburði, fyrst í Hafnarfirði 1820 svo kunnugt sé, þangað til þeir komu fyrst upp ungum í Gaulverjabæ í Flóa 1911. Síðan eru mörg varptilvik þekkt víða um land og jafnvel tvö ár í röð á sama stað. Bæjasvalan hefur orpið sjaldnar, fyrsta kunna varpið er úr Vestmannaeyjum 1959 og önnur varptilvik hafa öll verið á sunnanverðu landinu. En þær frænkur hafa ekki enn náð hér fótfestu og gæti óstöðugt veðurfar átt sinn þátt í því.

Landsvala verpur í Evrópu, Norður-Afríku, Asíu og Norður-Ameríku, vetrarstöðvar evrópskra fugla eru í sunnanverðri Afríku. Bæjasvala verpur um alla Evrópu, Norður-Afríku og austur um Asíu. Vetrarstöðvar evrópskra fugla eru í Afríku sunnan Sahara.

Þetta er síðasti pistillinn um fugl mánaðarins. Fjallað var um helstu fugla íslensku fánunnar, pistlarnir eru nú orðnir rúmlega 90 og hafa verið birtir mánaðarlega í næstum 8 ár. Lesendum eru þökkuð góð viðbrögð við þeim og Náttúruminjasafninu samstarfið.

Bæjasvölupar á góðri stundu í Extremadura á Spáni.

Bæjasvöluvarp í Extremadura á Spáni.

Landsvala á varpstað á Stapa í Nesjum.

Landsvölur á Stokkseyri.

Landsvala á hreiðri í Coto Doñana á Spáni.

Landsvölur í rigningu við Þvottá í Álftafirði.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson
Fjöruspói

Fjöruspói

Fjöruspói (Numenius arquata)

Útlit og atferli

Fjöruspói er líkur spóa en töluvert stærri, goggurinn er lengri og höfuðrákirnar vantar. Gumpur er hvítur eins og á spóa. Ungfuglar þekkjast á styttra goggi og hreinni búningi. Kvenfuglar eru með ívið lengri gogg en karlfuglar. Fluglag og hljóð minna á máfa og hann er venjulega styggari en spói.

Ungur fjöruspói í Garði á Rosmhvalanesi.

Fullorðinn fjöruspói í Óman.

Lífshættir

Fjöruspói verpur í barrskógabeltinu í opnu landi, mýrum og ræktarlandi með ám, einnig við sjávarsíðuna, bæði í votu og fremur þurru landi. Hann verpur 4 eggjum í opið hreiður, útungunin tekur um 4 vikur og ungarnir verða fleygir á 5 vikum. Hér sést fjöruspói aðallega í þangfjörum en einnig á leirum.

Útbreiðsla, landnám og stofnstærð

Vetrargestur og strjáll varpfugl. Fjöruspói er vetrargestur á Rosmhvalanesi og þá aðallega í Sandgerði, í Skarðsfirði í Nesjum og við Höfn, á Eyrum og í Grunnafirði, þó hann sjáist víðar. Þetta eru oft 10-20 fugla hópar, en færri á Eyrum. Varp var fyrst staðfest á Melrakkasléttu árið 1987. Fjöruspói hefur síðan fundist verpandi í Nesjum, á Rosmhvalanesi og fuglar með varpatferli hafa sést við Eyrarbakka, Reykhóla á Barðaströnd og víðar. Hugsanlega tilheyra vetrarhóparnir innlendum varpstofni, sem sennilega verpa í sitthvorum landshlutanum. Tíminn mun leiða það í ljós. Fjöruspói er á válista sem tegund í bráðri hættu (CR). Hann er algengur varpfugl í opnu landi um stóran hluta Norður- og Mið-Evrópu og austur um Asíu. 

Fullorðinn fjöruspói á varpstöðvum á SA-landi.

Fullorðinn fjöruspói á varpstöðvum á SA-landi.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson
Forval fyrir hönnunarsamkeppni um sýningu Náttúruminjasafns Íslands

Forval fyrir hönnunarsamkeppni um sýningu Náttúruminjasafns Íslands

Forval fyrir hönnunarsamkeppni um nýja grunnsýningu Náttúruminjasafns Íslands í Náttúruhúsi í Nesi

Náttúruminjasafn Íslands í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og Ríkiskaup efnir til hönnunarsamkeppni um nýja grunnsýningu fyrir safnið í Náttúruhúsi í Nesi, nýju húsnæði safnsins við Safntröð á Seltjarnarnesi. Samkeppnin er hönnunar- og framkvæmdasamkeppni með forvali.

Ríkiskaup, fyrir hönd Náttúruminjasafns Íslands, óska eftir þátttakendum í forvali vegna hönnunarsamkeppninnar. Forvalsnefnd fer yfir umsóknir sem berast og velur þrjú teymi til þátttöku í samkeppni um hönnun nýrrar grunnsýningar.

Óskað er eftir fjölbreyttum umsóknum frá teymum hönnuða til að koma með áhugaverðar hugmyndir um vandaða og fræðandi sýningu sem byggir á sterkri upplifun gestsins. Öllum er frjáls þátttaka í forvalinu að uppfylltum neðangreindum kröfum. Þrjú teymi sem fá hæstu einkunn forvalsdómnefndar, verður boðið að taka þátt í samkeppninni. Hverju teymi verður greidd 1.500.000 kr. án vsk. fyrir sína tillögu að samkeppni lokinni.

 

Markmið

Markmið samkeppninnar er að kalla fram hugmyndir að sýningu um hafið, þar sem gestir öðlast nýja þekkingu og eykur virðingu og væntumþykju fyrir náttúrunni. Framsetning sýningar skal vera frumleg og fjölbreytt þar sem mismunandi skynfæri eru örvuð, með hæfilegri blöndu af gripum í eigu safnsins og tækni sem byggir á margmiðlun og gagnvirkni. Hluti sýningarinnar skal sýna lifandi dýr/lífverur úr fjöru og hafi.

Gestir eiga að fræðast um hafið og lífríki þess í gegnum fjölbreytta upplifun og þátttöku með snertingu og í gegnum leik. Sýningin skal vera byggð á vísindalegum grunni og fagmennsku. Safnið á að vera lifandi vettvangur almennings, skólafólks og ferðamanna sem sækir það heim aftur og aftur til að njóta, fræðast og upplifa undur og síbreytileika náttúrunnar.

Nánari upplýsingar um forvalið og hönnunarsamkeppnina má finna á vef Hönnunarmiðstöðvar  og á útboðsvef Ríkiskaupa.

Hringdúfa

Hringdúfa

Hringdúfa (Columba palumbus)

Útlit og atferli

Hringdúfa er svipuð bjargdúfu, en stærri, með hvíta bletti á hálshliðum. Hvítur hálfmáni á vængjum er áberandi á flugi. Handflugfjaðrir eru dökkar og dökkt belti á stéli. Er annars gráleit að mestu, en ljósvínrauð að framan. Ungfuglar hafa ekki hálsblettina.

Hún er stærri en bjargdúfa, með hlutfallslega lengra stél og minni haus.

Röddin er dæmigert dúfnahljóð: rhúúú, rhúúú. Vængjasláttur er áberandi þegar fuglinn hefur sig til flugs. Flugið er beint og þróttmikið eins og hjá öðrum dúfum.

Fullorðin hringdúfa á flugi.

Fullorðin hringdúfa.

Lífshættir

Hringdúfa er jurtaæta og nærist helst á jörðu niðri; hún tekur jöfnum höndum græn lauf, sprota, blóm, fræ, ber og rætur. Hringdúfa sækir sérstaklega í kornakra og jafnvel í garða þar sem fuglum er gefið kornmeti. Hún er skógarfugl og verpur bæði í barr- og laufskógum, þó hérlendis haldi hún sig að mestu við greni. Hreiðrið er óvönduð smíð úr kvistum og sprekum, oftast við stofninn í 1,5-2,5 m hæð. Það getur verið erfitt að koma auga á það vegna þess hve vel það fellur að greinum trjánna. Eggin eru tvö, þau klekjast á 16-17 dögum og verða ungarnir fleygir á 28-29 dögum. Varptíminn er teygjanlegur, hringdúfa getur orpið nokkrum sinnum á sumri.

Útbreiðsla og ferðir

Hringdúfa er algengur flækingur að vorlagi og snemmsumars og hefur orpið hér af og til í hálfa öld. Flækist einnig stundum hingað á haustin. Samfara aukinni kornrækt ætti hringdúfan að eiga auðveldara með að koma undir sig fótunum hér, svipað og bjargdúfan.

Fyrsta hringdúfuhreiðrið fannst í Múlakoti í Fljótshlíð 1962. Annað og þriðja hreiðrið voru í klettum í Öræfum 1963-64 og það fjórða í Grasagarðinum í Laugardal 1973. Hreiður og ungar hafa fundist frá Fnjóskadal austur-, suður- og vestur um til Reykjavíkur. Flest varptilvik eru frá Héraði, nágrenni Hafnar í Hornafirði og Tumastöðum í Fljótshlíð. Lítill stofn hefur myndast á Héraði og sennilega víðar, en athuganir skortir.

Varpheimkynni eru samfelld í Evrópu og á blettum í Norður-Afríku og Mið- og Vestur-Asíu. Hún er mjög algeng í nágrannalöndunum og stofnar þar stórir.

Fullorðin hringdúfa á flugi.

Ung hringdúfa.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson
Dvergmáfur

Dvergmáfur

Fullorðinn dvergmáfur á Stokkseyri.

Dvergmáfur (Hydrocoloeus minutus)

Útlit og atferli

Dvergmáfur líkist hettumáfi en er mun minni. Fullorðnir fuglar eru með ljósgráan yfirvæng og svartan undirvæng með hvítum afturjaðri, vængir eru styttri og ávalari en á hettumáfi. Hann er með dökka hettu í sumarbúningi, á veturna með svartan koll og svartar hlustarþökur. Á sumrin bregður fyrir bleikum lit á kviði, sem hverfur á veturna. Ungfuglar eru með svarta bekki á baki og yfirvæng líkt og rita. Fætur eru rauðleitir og goggur dökkur.

Flýgur með hröðum vængjatökum, fluglag er oft reikult og ójafnt og minnir á fluglag kríu. Á fullorðnum fuglum bregður til skiptis fyrir ljósgráum yfirvæng og svörtum undirvæng, þetta einkenni sést oft á löngu færi.

Ársgamall dvergmáfur á Bakkatjörn, Seltjarnarnesi.

Ársgamall dvergmáfur á Bakkatjörn, Seltjarnarnesi.

Lífshættir

Þeir dvergmáfar sem hafa fundist í varpi hér hafa undantekningalaust verið í hettumáfsvörpum í votlendi, mýrum eða jöðrum stöðuvatna og tjarna. Eggin eru 2-3, þau klekjast á þremur vikum og ungarnir verða fleygir á um fjórum vikum. Dvergmáfurinn er dýraæta og veiðir gjarnan á flugi yfir vatni, svipað og þernur.

Útbreiðsla og ferðir

Dvergmáfur er árviss hérlendis og fer honum fjölgandi, er það er í samræmi við útbreiðsluaukningu hans til vesturs á síðustu áratugum, hann verpur nú m.a. í Svíþjóð, Noregi (fyrst 1976), Írlandi og Skotlandi. Hefðbundnar varpstöðvar hans eru annars frá Eystrasalti og gloppótt austur um Evrópu og Asíu allt að Kyrrahafi. Auk þess verpur hann í Hollandi og eitthvað við vötnin miklu og Hudsonflóa í Kanada og víðar í N-Ameríku. Amerísku vörp eru þó stopul og er uppruni fuglanna óviss.

Hérlendis sést hann á öllum tímum árs, einna helst snemma sumars, í maí og júní, í hettumáfsvörpum. Hann hefur sést í öllum landshlutum, oftast þó við Faxaflóa, í Þingeyjarsýslum og á Höfn. Dvergmáfar hafa sést næstum árlega í hettumáfsvörpum á varptíma í Mývatnssveit frá 2003. Par kom upp tveimur ungum 2008 og hreiður fannst 2011. Hann verpur þar sennilega árlega. Síðan hefur varp verið staðfest víðar í Þingeyjarsýslum og á Snæfellsnesi. Utan varptíma sést hann gjarnan við strandvötn eða í fjörum. Það bendir því margt til þess að dvergmáfur fari senn að teljast til fullgildra íslenskra varpfugla.

Fullorðinn dvergmáfur á Stokkseyri.

Fullorðinn og ársgamall dvergmáfur á Stokkseyri.

Ársgamall dvergmáfur á Stokkseyri.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson