Tjaldur

Tjaldur

Tjaldur (Haematopus ostralegus)


Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Einkenni margra vaðfugla eru langur goggur, langir fætur og langur háls. Þeir eru dýraætur sem eta alls konar hryggleysingja. Vaðfuglar helga sér óðal og verpa pörin stök. Hjá flestum vaðfuglum ala báðir foreldrarnir önn fyrir ungunum sem yfirleitt eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið strax og þeir eru orðnir þurrir.

Útlit og atferli

Tjaldurinn er auðgreindur á stærð og lit en hann er í hópi stærstu vaðfugla sem verpa á Íslandi. Hann er svartur um bak, höfuð og háls niður á bringu en hvítur að neðan. Á svörtum vængjunum eru hvít belti mjög áberandi. Stélið er hvítt með svörtum bekk og hvítur fleygur frá því upp á bak. Goggurinn er langur og rauðgulur, fætur bleikrauðir og sterkbyggðir. Augu eru hárauð. Á ungfugli er hvítur blettur á kverk, hann er móskulegri á lit en sá fullorðni og goggurinn er dökkur fremst.

Tjaldur við vatnið Þveit í Nesjum, Hoffellsjökull fjær.

Ungur tjaldur í Sandgerðisfjöru.

Tjaldar við Stokkseyri

Tjaldur er hávaðasamur og félagslyndur fugl. Hann er kröftugur flugfugl en vængjatökin eru ekki djúp. Hann flýgur venjulega fremur lágt. Á vorin stíga tjaldar oft á tíðum sérkennilegan dans með miklum hljóðum, stundum kallaður blístursdans og eru þátttakendur í honum gjarnan þrír fuglar. Þetta er oftast nær staðbundið par og aðkomufugl, gjarnan nágranni og er dansinn óðalsbundinn. Tjaldurinn er einn fárra vaðfugla sem matar unga sína, sem gerir það að verkum að hann getur orpið á stöðum þar sem enga fæðu er að hafa, eins og á húsþökum.

Köll tjalds er hvellt og gjallandi blíbb en annars gefur hann frá sér margvísleg hljóð.

Tjaldar á farflugi taka land í Mýrdal.

Tjaldspar fóðrar unga á ánamaðki á Seltjarnarnesi.

Tjaldur á hreiðri á Stokkseyri.

Tjaldur með unga á húsþaki í Ármúla, Reykjavík.

Tjaldur á Stokkseyri færir ungum sínum ánamaðk.

Lífshættir

Tjaldurinn grefur eftir sandmaðki í fjörunni, tekur krækling og aðra hryggleysingja og beitir löngum, sterklegum goggnum til þess arna. Inn til landsins eru ánamaðkar aðalfæðan. Hann leitar að fæðu með því að pota goggnum ótt og títt í mjúkt undirlagið.

Tjaldur verpur einkum í möl og sandi nálægt sjó en einnig við ár og vötn inn til landsins, stundum í grónu landi og oft í vegköntum, stöku sinnum á húsþökum. Eggin eru oftast þrjú, útungunartíminn er 24–27 dagar og ungarnir verða fleygir á 28–32 dögum. Hreiðrið er grunn dæld í sendinni jörð eða möl, ávallt á berangri, fóðrað innan með þurrum gróðri, smásteinum og skeljabrotum. Tjaldurinn heldur til í fjöru utan varptíma.

 

Útbreiðsla og stofnstærð

Tjaldur er að mestu farfugl. Hann var áður sjaldgæfur á Norður- og Austurlandi en hefur náð þar fótfestu á síðustu áratugum. Landnámið stendur hugsanlega enn yfir, t.d. á Ströndum, en þar fjölgaði fuglum verulega á árunum 1995 til 2007. Varpstofninn er talinn vera 10.000–20.000 pör. Meirihlutinn heldur til Bretlandseyja á haustin en um 5.000–10.000 fuglar eyða vetrinum í fjörum frá Reykjanesskaga og norður í Breiðafjörð, svo og á Suðausturlandi. Heimkynni tjalds eru annars mjög víða við strendur Evrópu og austur um meginland Asíu, austur að Kyrrahafi.

Þar sem tjaldi hefur fækkað víða, er hann nú á heimsválista sem tegund í yfirvofandi hættu (NT) og á Evrópuválista sem tegund í nokkurri hættu (VU).

 

Þreyttir tjaldar nýkomnir til landsins í Eyrarbakkafjöru.

Tjaldar á fjörusteini í Hafnarfirði.

Þjóðtrú og sagnir

Íslensk þjóðtrú geymir ekki margt um tjaldinn. Í norskri þjóðtrú er hann vorboði og spáfugl um veðurfar komandi sumars. Jafnframt sagði hann fyrir um hjónabönd og barneignir. Hann er þjóðarfugl Færeyinga og tákn um sjálfstæðisbaráttu þeirra. Þar er hann einnig vorboði og miða bæði Færeyingar og Norðmenn við komudaginn 12. mars. Hann er jafnframt vorboði víða hérlendis, þegar tjaldurinn heyrist fyrst kalla að næturlagi í lok mars er vorið í nánd.

Rauðfættur fuglinn í fjörunni,
hann kann ekki að kreppa sig í körinni,
eingan ber hann ótta fyrir örinni,
ekki heldur tekur hann á tjörunni,
svo snillilega sneiðir hann hjá snörunni.

Í hámálinu hreykir hann sér,
heyrast má þar skvaldur,
svartan kufl á baki ber
blóma dreginn faldur.
Nefið rautt við nasaker
nú er þetta tjaldur.
Þulubörnin þakki mér,
að þessu er ég valdur.,

Fuglinn í fjörunni,
hann heitir tjaldur.
Það er svo gott að verja það,
sem maður er ekki valdur.
Fuglinn í fjörunni.

Fuglinn í fjörunni,
fullur er hann með galdur.
Skjóttu’ hann ekki’ á helgum degi,
því hann heitir tjaldur –
þar sem öðlíngar fram ríða.

– Úr Íslenzkar gátur, skemtanir, vikivakar og þulur. Jón Árnason og Ólafur Davíðsson 1887–1903.

Enginn í eyðidal

Þegar komið er í eyðidal er ekkert.
Aðeins gróður. Gróður upp í háls.

Þegar komið er í eyðidal er ekkert.
Aðeins rústir. Rústir tveggja bæja.

Þegar komið er í eyðidal er ekkert.
Aðeins ein kirkja. Kirkja með krosslausum turni.

Þegar komið er í eyðidal er ekkert.
Aðeins þú. Aðeins þú sjálf
og hundspakur tjaldur við læk.

Þegar komið er í eyðidal er ekkert.
fyrir utan tjaldinn og þig

og tvo menn uppi í kirkjuturni.
Þeir negla kross á kollóttan turninn
og fylla dalinn af höggum.

– Steinunn Sigurðardóttir

Texti og myndir: Jóhann Óli Hilmarsson

Loftskeytastöðin hluti af sýningu

Loftskeytastöðin hluti af sýningu

​Sunnudaginn 10. nóvember kl. 12 opnar einkasýning Önnu Júlíu Friðbjörnsdóttur Ég hef misst sjónar af þér í Safnaðarheimili Neskirkju. Hluti sýningarinnar teygir anga sína yfir til gömlu Loftskeytastöðvarinnar á Brynjólfsgötu, skrifstofuhúsnæði Náttúruminjasafns Íslands, þar sem eitt verkanna er sýnt á þakkanti hússins.

Á sýningunni gerir Anna Júlía samband manns og náttúru að viðfangsefni sínu og sækir efnivið í andstæða póla; annarsvegar í hinn tilbúna, manngerða heim, og hins vegar í náttúrulegt lífríki sjávar. Sýningin ber með sér áríðandi en þögul skilaboð um stöðu sjávarspendýra á válista og vekur til umhugsunar þá firringu eða fjarlægð sem orðið hefur milli manns og náttúru. Verkin byggja á Morse-kóða, sem notaður er í alþjóðlega stöðluð kallmerki, og birtist m.a. í ljósaseríum í gluggum og utanhúss. Þannig seilist sýningin út í almannarýmið og tengir saman tvær opinberar stofnanir í næsta nágrenni við hvor aðra: Safnaðarheimili Neskirkju (miðstöð hins andlega), og Náttúruminjasafn Íslands (varðveislustofnun hins náttúrulega).

Nánar um sýninguna:

Frá örófi alda hefur maðurinn þróað með sér leiðir til að ná áttum, ýmist í landfræðilegum eða andlegum skilningi. Allt frá því  að siglingar yfir úthöf urðu mögulegar hefur siglingafræðin verið einn aðal drifkraftur slíkrar þróunar, og með auknum hreyfanleika og fjarlægðum þróuðust leiðir til fjarskipta, eins og Morse-kóðinn. En hreyfanleiki mannsins og allar þær tækniframfarir sem honum fylgdu fólu einnig í sér myrkari afleiðingar. Andstæðuparið “við og hinir” varð að varanlegu valdatæki nýlenduvæðingarinnar, sem á dramatískan hátt riðlaði jafnvægi ekki eingöngu milli ólíkra hópa fólks heldur einnig milli manns og náttúru.

Síðan Morse-kóðinn var tekinn í notkun á fyrri hluta 19. aldar hefur hann leikið lykilhlutverk í samskiptum varðandi sjávarháska, hernað og annan voða. Kóðinn er eins konar stafróf þar sem bókstafir eru myndaðir með stuttum og löngum einingum og má segja að sé undanfari að því tvíundarkerfi sem forritunarmál tölvunarfræðinnar byggir á í dag. Til að einfalda samskipti við sjó- og loftför enn frekar hefur maðurinn þróað sérstakt kallmerkjakerfi, einskonar tungumál sem nær yfir takmörk allra annarra tungumála. Kerfið er byggt upp af merkjum sem tákna ýmisskonar tæknilegar skipanir eða spurningar, sem gilda í fyrirframgefnum sviðsmyndum. Merkin er hægt að tákna með ólíkum leiðum, s.s. hljóði, ljósi eða reyk. Merkin eru stöðluð og gefin út í Alþjóðlegri handbók merkjasendinga (International Code of Signals), en þekktast þeirra er neyðarmerkið SOS.

Á þessari sýningu gerir Anna Júlía samband manns og náttúru að viðfangsefni sínu, eða öllu heldur sambandsleysi. Efniviðurinn er sóttur í andstæða póla, þar sem manngerðu efni er teflt saman við hinn lífræna heim svo úr verður áhugavert samspil milli ólíkra lífheima og tímabila. Fundið efni, eins og Morse-kóðinn og valin kallmerki mynda efnivið sýningarinnar og eru sett í óvænt samhengi. Í Safnaðarheimili Neskirkju er sérvöldum kallmerkjum varpað fram, skilaboðum sem fylgja nákvæmum reglum í tilbúnu samskiptakerfi. Kallmerkin „EP“ (“Ég hef misst sjónar af þér”) og „FC2“ (“Gefðu upp stöðu þína með sjónrænu merki”) eru tjáð með ljósaseríum í gluggum sýningarrýmisins, og lesast utan frá. Þau má túlka sem ákall mannsins til náttúrunnar, sem svarar til baka með kallmerkjum eins og „QL“ (“Snúið við”) eða „NC“ (“Ég er í hættu og þarfnast tafarlausrar hjálpar”). Köll náttúrunnar eru stöfuð á steintöflur með skeljum, þangi, kóral, eða hvalstönnum, og minna á steingervinga eða forngripi á safni.

Hluti sýningarinnar teygir anga sína til gömlu Loftskeytastöðvarinnar við Brynjólfsgötu, sem í dag hýsir starfsemi Náttúruminjasafns Íslands. Þegar stöðin var tekin í notkun árið 1918 komust á þráðlaus fjarskipti við umheiminn, en loftskeyti voru send og móttekin í Morse-kóða með útvarpsbylgjum. Á þakkanti hússins er verkið „K“ („Með ósk um svar“). Verkið samanstendur af ljósaperum sem stafa tegundaheiti tveggja hvalategunda af válista spendýra: “Eubalaena glacialis” (Íslandssléttbakur) og “Balaenoptera musculus” (Steypireyður).

Sem heild tengir sýningin saman tvær opinberar stofnanir í næsta nágrenni við hvor aðra: Safnaðarheimili Neskirkju (miðstöð hins andlega), og Náttúruminjasafn Íslands (varðveislustofnun hins náttúrulega). Báðar stofnanir ávarpa náttúruna með því að senda köll út í óræðar víddir, ýmist í vísindalegum eða heimspekilegum skilningi.

Í tóni sumra kallmerkjanna má greina eftirsjá og jafnvel ótta. Maðurinn virðist hafa misst sjónar af náttúrunni og biður hana um að gefa sér merki; einhverskonar vegvísi svo hann geti ratað rétta leið, náð áttum á ný. Náttúran svarar með neyðarkalli og varar við óræðri en aðsteðjandi hættu. Þessi varnaðarorð hljóma kunnuglega í orðræðu samtímans, en virðast þó ekki hafa tilskilin áhrif. Sýningin vekur upp áleitnar spurningar um tungumálið og tengsl manns og náttúru. Er tungumálið ef til vill ekki lengur merkingarbært? Þarf ef til vill aðra miðla til að skilaboðin komist í gegn, eða annan miðunarbúnað til að sigla eftir?

 

Eyrugla

Eyrugla

Eyrugla (Asio otus)


Eyruglan er ánægjuleg viðbót við fátæklega íslenska uglufánu. Ástæðan fyrir fáum tegundum af ættbálki ugla (Strigiformes) hér á landi, miðað við grannlöndin, er fábreytt nagdýrafána, en nagdýr eru aðalfæða flestra ugla.

Útlit og atferli

Eyruglan er meðalstór ugla, náskyld og mjög lík branduglu. Hún er auðgreind á löngum fjaðraeyrum sem sjást aðeins þegar fuglinn situr. Eyrun hafa ekkert með heyrn fuglsins að gera. Andlitið er kringlóttara en á branduglu og fjaðrakransar rauðgulir. Augun eru appelsínugul, ekki gul eins og í branduglu. Rákóttir vængbroddar eru neðan á vængjum á eyruglu en þeir eru svartir á branduglu; vængbroddarnir og rákóttur kviður aðgreinir fuglana á flugi. Annars er eyruglan í felulitum og fellur vel inn í umhverfi sitt þegar hún situr á trjágrein.

Eyrugla á flugi á óðali sínu.

Eyrugla á óðali sínu.

Lífshættir

Eyrugla er skógarfugl, hún notar oftast gömul hreiður frá öðrum fuglum eins og skjóum, krákum og hröfnum. Hér á landi verpa uglurnar líklega mest á jörðu niðri, þar sem þær hafa ekki aðgang að hreiðrum fyrrnefndra fugla. Þær hafa einnig orpið í tilbúnar hreiðurkörfur sem settar hafa verið upp fyrir þær. Hvor tveggja er þekkt erlendis. Þá hafa þær líka orpið í gjárveggjum. Eggin eru oftast 4–6 og útungunartími er 25–30 dagar. Ungarnir verða fleygir á um 5 vikum. Karlarnir helga sér óðal í mars og er aðalvarptíminn um mánaðamótin apríl-maí. Aðalfæða eyrugla er hagamýs, en þær taka einnig smáfugla og fuglsunga. Eyruglan er meiri náttfugl en brandugla.

Sameiginlegur hvíldarstaður (e. roost) á veturna er eitt af sérkennum eyruglu, en slíkt tíðkast ekki hjá öðrum uglum sem sofa langoftast stakar. Hér á landi hafa fundist slíkir hvíldarstaðir og voru til dæmis á annan tug eyrugla í einu tré í Grasagarðinum í Laugardal fyrir nokkrum árum. Uglur sofa aðallega á daginn og því er ekki hægt að tala um náttstaði eins og hjá flestum fuglum.

Eyrugla á hvíldarstað í fjárhúsi í Grafningi. Hún hélt þar til allan veturinn.

Eyrugla sem gerði sér hreiður í gjárvegg.

Eyrugla með aðalbráð sína, hagamús.

Landnám

Fram undir síðustu aldamót var eyruglan nær árviss gestur eða hrakningsfugl hér á landi, aðallega að haust- og vetrarlagi, oftast í nóvember og desember og um land allt. Fyrsta varpið var staðfest árið 2003, þegar Morgunblaðið birti mynd á baksíðu af ugluunga sem sagður var brandugla. Glöggir menn sáu strax að fuglinn var með appelsínugul augu en ekki gul og hlaut því að vera eyrugluungi. Myndin var tekin við sumarbústað á Suðurlandi. Að sögn heimafólks hafði uglan líklega orpið þarna í um þrjú ár, en óljósar fregnir höfðu verið um eyrugluvarp á þessum slóðum frá því rétt fyrir aldamótin.

Stopult hefur verið fylgst með landnámi eyruglunnar, en einhver varptilvik hafa þó verið staðfest flest ár. Árið 2011 var gert átak í að kanna varp eyruglu og fundust þá 5 eða 6 pör með unga. Sumarið 2010 fannst ungi í Aðaldal og er það í eina þekkta varpið utan Suður- og Suðvesturlands. Árið 2018 hóf Gunnar Þór Hallgrímsson, fuglafræðingur, rannsókn á íslenskum uglum og eru upplýsingarnar hér að hluta til fengnar frá honum. Vorið 2019 fundust 11 eyrugluóðul og var orpið á 9 þeirra. Öll voru á Suðurlandi nema eitt á Innnesjum. Fremur brösuglega gekk hjá uglunum að koma ungum á legg, væntanlega vegna þurrka, og áttu margir fuglar erfitt með að ná í æti þess vegna. Árið 2018 var einnig afkomubrestur hjá eyruglum og hann þá rakinn til mikilla rigninga um sumarið.

Þó svo að eyruglan sé mun laumulegri en branduglan er auðveldast að staðfesta varp hennar með því að hlusta vel eftir henni á síðkvöldum; síðla vetrar tilkynna karlarnir yfirráð sín yfir óðulum með söng: úhh – úhh – úhh. Hljóðið sem stálpaðir ungar gefa frá sér þegar þeir betla mat er áberandi, sérstaklega þegar foreldrarnir eru nærri. Minnir það afar mikið á lóukvak en er málmkenndara. Þetta kvak þeirra heyrist mest á síðkvöldum eftir miðjan júní.

 

Eyrugluungi. Hann er fullvaxinn, en ekki enn að fullu fiðraður og vantar enn fjaðraeyrun.

Eyrugla er á válista Náttúrufræðistofnunar sem tegund í nokkurri hættu (VU). Tökustaðir ljósmynda eru ekki gefnir upp af verndarástæðum, en þær eru allar teknar á Suðurlandi.

 

Útbreiðsla og stofnstærð

Eyruglan er útbreiddur varpfugl um allt norðurhvel jarðar: um miðbik N-Ameríku, Evrópu og N-Afríku austur um alla Asíu. Hún er staðfugl nema nyrst og líklega eru íslensku eyruglurnar staðfuglar eða að hluta til farfuglar eins og raunin er um branduglu. Þeirri spurningu og fleirum verður væntanlega svarað á næstu árum. Stofninn gæti verið 50–100 fuglar.

Eyrugla á flugi á óðali sínu.

Texti: Jóhann Óli Hilmarsson. Myndir: Jóhann Óli og Alex Máni Guðríðarson.

Sagnalistin vistrýnd í Reykholti

Sagnalistin vistrýnd í Reykholti

Viðar Hreinsson bókmenntafræðingur flytur erindi í Bókhlöðu Snorrstofu í Reykholti n.k.þriðjudag 1. október kl. 20. Fyrirlesturinn nefnist: Náttúrulaus sagnalist eða lifandi gróður og lífrænir ávextir? 

Umhverfishugvísindi og vistrýni er fræðasvið sem vaxið hefur ásmegin samfara vaxandi umhverfisvá. Umhverfisváin kallar á djúpstæðar breytingar á sambúð manna við umhverfið og á svipaðan hátt hafa ofangreind fræðasvið rutt nýjar leiðir í greiningu og túlkun bókmennta.

Viðar sem er sérfræðingur við Náttúruminjasafn Íslands og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar mun í erindi sínu viðra leiðir til að kanna fornsögur sem lífrænar menningarafurðir með stuðningi vistrýni, fornrar náttúrusýnar og nýrrar textafræði.

Kaffiveitingar og almennar umræður. Aðgangur kr. 1000.

 

 

 

 

 

 

Kaffiveitingar og umræður aðgangur kr. 1000.

Beinin heim!

Beinin heim!

 

Dagur íslenskrar náttúru er haldinn hátíðlegur í dag, 16. september, tileinkaður náttúru Íslands og mikilvægi þess að vernda hana og umgangast á skynsamlegan hátt.

Hér má sjá hryggjarliði dýranna í kjallara Dýrafræðisafns Danmerkur í Kaupamannahöfn. Ljósm.: HJM

Fátt hefur mótað íslenska þjóð og menningu í jafn miklum mæli og náttúran. Lífsviðurværi þjóðarinnar er að verulegu leyti undir ríkulegum gjöfum náttúrunnar komið. Fáar þjóðir reiða sig í sama mæli á beina nýtingu auðæfa náttúrunnar – einkum veiðar á villtum fiskistofnum, virkjun vatnsafls og jarðvarma, sauðfjárbeit á afréttum og náttúrutengda ferðaþjónustu. Skynsamleg nýting  náttúruauðlinda hlýtur að grundvallast á langtímasýn, þekkingu og skilningi á náttúrunni, ella er hætt við að illa fari. Menntun og fræðsla eru hér lykilatriði og einn þátturinn snýr að náttúrusögu landsins.

Í kjallara Dýrafræðisafns Danmerkur (Zoologisk Museum) í Kaupmannahöfn leynast tvær beinagrindur íslandssléttbaka (Eubalaena glacialis) sem veiddir voru við Ísland 1891 og 1904. Íslandssléttbakurinn var algengur í norðanverðu Atlantshafi á öldum áður en vegna veiða gekk hratt á stofninn og strax á 18. öld var tegundin orðin fágæt. Íslandssléttbakarnir tveir í Kaupmannahöfn eru líklega meðal síðustu dýra af þessari tegund sem voru veidd. Þrátt fyrir friðun tegundarinnar um og upp úr 1930 eru sléttbakar í útrýmingarhættu í dag og telur stofninn aðeins um 500 dýr hið mesta. Þeir hafast ekki lengur við hér við land en eitt og eitt dýr flækist hingað örsjaldan, líklega frá austurströnd Ameríku þar sem þeir eru flestir. Framtíðarhorfur sléttbakanna eru því miður fremur dökkar, aðallega vegna affalla í kjölfar ásiglinga, ánetjunar og breytinga í sjávarlífríkinu vegna hlýnunar.

Danskir samstarfsmenn Náttúruminjasafns Íslands virða fyrir sér rifbein hvalsins. Ljósm.: HJM

Íslandssléttbakarnir í Kaupmannahöfn eru mikið fágæti. Afar fá söfn eiga heil eintök af beinagrind tegundarinnar og hér á landi er ekki til neitt eintak. Það er miður því íslandssléttbakar eru sannarlega hluti af íslenskum náttúru- og menningararfi. Íslandssléttbakar, sem um tíma gegndu fræðiheitinu Balaena islandica, höfðust við hér við land og voru veiddir einkum af Böskum framan af öldum og síðar Norðmönnum. Jón lærði Guðmundsson (1574–1658) var einna fyrstur manna í Evrópu til að gera náttúru sléttbakanna skil í máli og myndum og nýlegar rannsóknir á fornleifum benda til að sléttbakar hafi verið veiddir og unnir í meira mæli við Ísland en áður hefur verið talið.

Mikill akkur væri í því að fá hingað heim aðra beinagrind íslandssléttbaksins sem hvílt hefur í kjallarageymslu í Kaupmannahöfn í rúm 100 ár. Náttúruminjasafn Íslands hefur bent á að tilkall Íslendinga til þessara merku náttúruminja er sterkt. Langtímalán á gripnum og varðveisla hans á Íslandi gegnir margvíslegum tilgangi, vísindalegum, kennslufræðilegum og menningarsögulegum. Nútímatækni býður auðveldlega upp á að varðveita gripinn og vernda hann samtímis því að hafa hann til sýnis og aðgengilegan fyrir almenning. Kjöraðstæður eru fyrir hendi til þessa verkefnis hér á landi. Beinin heim!

 

Hilmar J. Malmquist

Höfundur er forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands