Ný sýn á þróun lífs
Skúli Skúlason prófessor við Háskólann á Hólum og sérfræðingur á Náttúruminjasafni Íslands birti nýlega yfirlitsgrein ásamt samstarfsfélögum sínum í tímaritinu Biological Reviews þar sem fjallað er um nýja sýn á þróun lífvera. Greinin ber heitið A way forward with eco evo devo: an extended theory of resource polymorphism with postglacial fishes as model systems og má lesa hér.
Í ágripi greinarinnar kemur fram að meginmarkmið líffræðilegrar þróunarfræði er að skilja og skýra hvernig fjölbreytileiki lífvera (líffræðileg fjölbreytni, e. biodiversity) verður til og hvernig lífverur breytast í tímans rás. Þó þekking á þessu hafi aukist mikið á undanförnum árum er mörgum spurningum enn ósvarað um orsakir breytileika í svipfari lífvera, hvernig hann verður til og á hvaða hátt hann mótast af náttúrulegu vali.
Höfundar hvetja til þess að takast á við viðfangsefnið með því að skoða í samhengi vist-, þróunar- og þroskunarfræðilega þætti (kallað á ensku eco, evo, devo). Þannig er tekið mið af því annars vegar að hið vistfræðilega umhverfi (eco) mótar þroskun svipgerða (devo), samhliða því að leggja grunn að náttúrlegu vali þeirra (eco – evo); og hins vegar að lífverur geta haft mótandi áhrif á umhverfið sem þær þroskast og þróast í (eco – evo og eco – devo feedbacks). Gagnsemi eco – evo – devo nálgunarinnar kemur vel fram þegar hún er tengd við kenningu um þróun fjölbrigðni innan tegunda (e. theory of resource polymorphism) og er þróun ólíkra afbrigða hjá mörgum tegundum ferskvatnsfiska á norðurslóðum, t.d. bleikjuafbrigða í Þingvallavatni, sérstaklega áhugaverð í þessu sambandi. Rannsóknir sýna að þróun þessara afbrigða er hröð og stafar af: 1) fjölbreyttu umhverfi sem veldur rjúfandi vali (þar sem aðskilin afbrigði myndast) innan stofna og tegunda; 2) þroskunarferlum sem eru næmir fyrir áhrifum umhverfis- og erfðaþátta; og 3) eco–evo og eco–devo áhrifum fiskanna á umhverfi sitt sem geta mótað hvernig náttúrlegu vali, sem og sveigjanleika svipgerða, er háttað. Sagt er frá viðeigandi dæmum þessu til stuðning, sett fram líkan um tilurð fjölbrigðni sem samþættir eco – evo – devo nálgun, og bent á mikilvægar rannsóknarspurningar og tilgátur sem þarfnast skoðunar.