Ný sýn á þróun lífs

Ný sýn á þróun lífs

Skúli Skúlason prófessor við Háskólann á Hólum og sérfræðingur á Náttúruminjasafni Íslands birti nýlega yfirlitsgrein ásamt samstarfsfélögum sínum í tímaritinu Biological Reviews þar sem fjallað er um nýja sýn á þróun lífvera. Greinin ber heitið A way forward with eco evo devo: an extended theory of resource polymorphism with postglacial fishes as model systems og má lesa hér.

Skúli Skúlason o.fl. 2019

Í ágripi greinarinnar kemur fram að meginmarkmið líffræðilegrar þróunarfræði er að skilja og skýra hvernig fjölbreytileiki lífvera (líffræðileg fjölbreytni, e. biodiversity) verður til og hvernig lífverur breytast í tímans rás. Þó þekking á þessu hafi aukist mikið á undanförnum árum er mörgum spurningum enn ósvarað um orsakir breytileika í svipfari lífvera, hvernig hann verður til og á hvaða hátt hann mótast af náttúrulegu vali.

Höfundar hvetja til þess að takast á við viðfangsefnið með því að skoða í samhengi vist-, þróunar- og þroskunarfræðilega þætti (kallað á ensku eco, evo, devo). Þannig er tekið mið af því annars vegar að hið vistfræðilega umhverfi (eco) mótar þroskun svipgerða (devo), samhliða því að leggja grunn að náttúrlegu vali þeirra (eco – evo); og hins vegar að lífverur geta haft mótandi áhrif á umhverfið sem þær þroskast og þróast í (eco – evo og eco – devo feedbacks). Gagnsemi eco – evo – devo nálgunarinnar kemur vel fram þegar hún er tengd við kenningu um þróun fjölbrigðni innan tegunda (e. theory of resource polymorphism) og er þróun ólíkra afbrigða hjá mörgum tegundum ferskvatnsfiska á norðurslóðum, t.d. bleikjuafbrigða í Þingvallavatni, sérstaklega áhugaverð í þessu sambandi. Rannsóknir sýna að þróun þessara afbrigða er hröð og stafar af: 1) fjölbreyttu umhverfi sem veldur rjúfandi vali (þar sem aðskilin afbrigði myndast) innan stofna og tegunda; 2) þroskunarferlum sem eru næmir fyrir áhrifum umhverfis- og erfðaþátta; og 3) eco–evo og eco–devo áhrifum fiskanna á umhverfi sitt sem geta mótað hvernig náttúrlegu vali, sem og sveigjanleika svipgerða, er háttað. Sagt er frá viðeigandi dæmum þessu til stuðning, sett fram líkan um tilurð fjölbrigðni sem samþættir eco – evo – devo nálgun, og bent á mikilvægar rannsóknarspurningar og tilgátur sem þarfnast skoðunar.

Spói

Spói

Spói (Numenius phaeopus)


 

Útlit og atferli

Spói er stór vaðfugl, háfættur og rennilegur. Hann er grábrúnn með ljósum fjaðrajöðrum að ofan, á bringu og niður á kvið en annars ljós á kviði og neðan á vængjum, með dökkbrúnan koll og augnrák en ljósa brúnarák og kverk. Hvítur gumpur og neðri hluti baks eru áberandi á flugi. Stél er þverrákótt og vængendar dökkir. Ungfugl er svipaður en goggur styttri og beinni.

Langur, grábrúnn goggurinn er boginn niður á við og einkennir fuglinn mjög. Langir fæturnir eru blágráir og augun eru dökk með ljósum augnhring.

Á flugi þekkjast spóar á hröðum vængjatökum. Þeir fljúga oft um í hópum síðla sumars, áður en þeir yfirgefa landið. Spóinn er annars fremur ófélagslyndur. Hann tyllir sér oft á háan stað, t.d. fuglaþúfu, og vellir. Söngur spóans, vellið, er eitt af einkennishljóðum íslenska sumarsins. Að auki gefur hann frá sér ýmis flauthljóð.

 

Spói á fuglaþúfu í Friðlandinu í Flóa.

Spói á flugi á Stokkseyri.

Spói á fuglaþúfu í Friðlandinu í Flóa.

Kjói og spói verpa gjarnan nærri hvor öðrum og eiga í eilífum erjum. Samband þeirra er eins konar ástar/haturssamband. Myndin er tekin á Brunasandi.

Lífshættir

Helsta fæða spóa eru skordýr, köngulær, sniglar, ormar, krabbadýr og ber. Langur goggurinn nýtist vel til að grípa fæðu á yfirborði og til að grafa í mjúkan leir.

Varpkjörlendi spóans er bæði í þurru og blautu landi en þéttleikinn er mestur í hálfdeigjum og þar sem mætast votlendi og þurrlendi. Hann verpur líka í lyngmóum, grónum hraunum, blautum mýrum og hálfgrónum melum og söndum. Urptin er fjögur egg eins og hjá flestum vaðfuglum. Hreiðrið er sinuklædd grunn laut í lágum gróðri, venjulega óhulið. Álegutíminn er fjórar vikur og verða ungarnir fleygir á 5-6 vikum. Er utan varptíma oft í túnum en sést sjaldan í fjörum. Þar má aftur á móti finna stóra bróður spóans, fjöruspóann, sérstaklega á veturna á SV- og SA-landi.

Spóaungi í Mýatnssveit.

Spói í berjamó í Mývatnssveit.

Stóri bróðir spóans, fjöruspói, er stærri og með lengri gogg, en hann vantar höfuðrákirnar, sem einkenna spóann. Hann er vetrargestur og strjáll varpfugl á Íslandi.

Spóar á farflugi við Dyrhólaey.

Útbreiðsla, ferðir og stofnstærð

Spóinn er farfugl. Hann er algengur á láglendi um land allt en strjáll á hálendinu. Vetrarstöðvarnar eru í Vestur-Afríku sunnan Sahara og lítils háttar á Spáni og Portúgal. Nýlegar rannsóknir sýna að spóarnir geta flogið í einum rykk til Vestur-Afríku. Um 40% af spóum heimsins verpa á Íslandi. Við berum því mikla ábyrgð á spóastofninum. Verpur annars víða umhverfis Norður-Íshafið.

Farleiðir fjögurra spóa frá Íslandi til og frá Vestur-Afríku samkvæmt gögnum frá Háskólafélagi Suðurlands. Um haustið flugu spóarnir í einni striklotu til Afríku, um vorið stoppuðu tveir á Írlandi.

Þjóðtrú og sagnir

Ýmis veðurtengd þjóðtrú tengist spóanum. Spóahret er kallað kuldakast sem verður þegar spóinn kemur til landsins og er sagt að hann færi það með sér. Þá eru úti allar vetrarhörkur þegar spóinn langvellir. Þá er úti vetrarþraut þegar spóinn vellir graut. Sumir segja að þegar spóinn velli mikið, sé votviðri í aðsigi. – Merki Fuglaverndar er spói á fuglaþúfu, eitt helsta einkenni íslenska sumarsins.

Kveðskapur

Krumminn í hlíðinni
Krumminn í hlíðinni,
hann var að slá.
Þá kom lóa lipurtá
og fór að raka ljá.
Hann gaf henni hnappa þrjá
og bannaði henni að segja frá.
Svo kom spói spíssnefur
og hann sagði frá
prakkarinn sá!
Þó var ljáin ekki nema
hálft annað puntstrá.

Gömul þula.

Til þess í vor þig finnur frær
hinn varmi vestanblær,
vellandi spóinn hlær.

Úr Fuglavísum eftir Eggert Ólafsson.

 

Létt um móa lækur niðar
Létt um móa lækur niðar
leysir snjóa, úti er þraut
Vellir spói vindur kliðar
vetrarhró er flúið braut

Eftir Hörð Haraldsson.

 

Sá ég spóa
Sá ég spóa suð’r í flóa,
syngur lóa út í móa.
Bí, bí, bí, bí.
Vorið er komið víst á ný.

Heyló syngur sumarið inn
Heyló syngur sumarið inn
semur forlög gaukurinn
áður en vetrar úti er þraut
aldrei spóinn vellir graut.

Þjóðvísur.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Hátíð hafsins hjá Náttúruminjasafninu um helgina

Hátíð hafsins verður haldin nú um helgina 1.-2. júní og fjölmagir áhugaverðir viðburðir í boði um allt land fyrir gesti og gangandi. Náttúruminjasafnið tekur þátt í hátíðarhöldunum og býður upp á tvo viðburði. Á hafnardeginum, laugardaginn 1. júní kl. 13, flytur Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafnsins erindi í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafnsins, sem hann kallar „Af íslandssléttbökum í Kaupmannahöfn: íslenskur náttúruarfur eða danskur menningararfur.“ Á sjómannadeginum sunnudaginn 2. júní, býður Náttúruminjasafnið krökkum og fjölskyldufólki í Perluna til að kynnast forvitnilegum sjávardýrum – lifandi steinbítum, brimbútum, kross- og sogfiskum, Safnkennarar verða til taks og fræða krakkana um dýrin milli kl. 13 og 16. Ókeypis aðgangur verður að þessu tilefni inn á sýningu safnsins, Vatnið í náttúru Íslands, á 2 hæð í Perlunnai milli kl. 13 og 16.

 

Nánar um íslandssléttbakaerindið

Hilmar mun segja frá verkefni sem Náttúruminjasafn Íslands og Náttúrufræðisafn Danmerkur (Statens Naturhistoriske Museum, Zoologisk Museum) vinna að og fjallar um rannsókn á beinagrindum tveggja sléttbaka (Eubalaena glacialis) sem veiddust við Ísland 1891 og 1904 og eru varðveittar í Kaupmannahöfn. Sléttbakar, öðru nafni Íslandssléttbakar voru eitt sinn algengir í norðanverðu Atlantshafi en eru nú í mikilli útrýmingarhættu. Greint verður frá náttúrusögu tegundarinnar, heimildavinnu um hvalina tvo í Kaupmannahöfn, vikið að merku og nýuppgötvuðu framlagi Jóns lærða Guðmundssonar í tengslum við hvalina og sagt frá nýlokinni háskerpu þrívíddarskönnun á annarri beinagrindinni. Þá verður vikið að vinnu Náttúruminjasafnsins við að sannfæra Dani um að afhenda Íslendingum til langs tíma aðra beinagrindina, enda um náttúruarf að ræða sem tilheyrir Íslandi.

Íslandssléttbakur kominn á land á hvalstöð Victorsfélagsins á Höfðaodda (Framnesi) í Dýrafirði. Myndin er tekin 1891, sama ár og annar sléttbakurinn sem er í Kaupmannahöfn var veiddur. Ljósmynd: Ljósmyndasafn Reykjavíkur.

Margæs

Margæs

Margæs (Branta bernicla)


Margæs telst til andfuglaættbálksins ásamt svönum og öndum og tilheyra þessir fuglar allir sömu ættinni, andaætt. Gæsum sem telja má íslenskar er oft skipt í tvo hópa, gráar gæsir og svartar. Karlfuglinn er ávallt stærri en kvenfuglinn hjá andfuglum og hjá öndum er hann yfirleitt mun skrautlegri. Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma.

Útlit og atferli

Margæs er lítil „svört“ gæs, mun minni en helsingi og minnsta gæsin á Íslandi. Hún hefur sótsvart höfuð, háls og bringu, hvítar rákir á hálshliðum og dökkt, brúngrátt bak og vængi. Kviður og síður eru ljósgrá og eru aftanverðar síður rákóttar. Ungfugl er án ráka á hálshliðum og gráleitur á síðum. Goggurinn er stuttur og svartur, sömuleiðis fæturnir og augun dökkbrún.

Margæs flýgur hratt með örum vængjatökum, oftast í óskipulögðum hópum en einnig í oddaflugi. Stuttur háls og smæð eru einkennandi fyrir margæsina sem er lítið eitt stærri en stokkönd. Hún er létt á sundi og hálfkafar gjarnan.

Margæs er venjulega þögul en gefur frá sér kokkennt kvak á flugi. „Hrota“ og „prompa“ eru staðbundin heiti margæsar, byggð á hljóðlíkingum.

Ung margæs á haustfari í Bakkatjörn, Seltjarnarnesi.

Margæsir koma inn til lendingar á Álftanesi, Keilir í baksýn.

Margæsafar að vorlagi við hafnargarðinn á Eyrarbakka.

Margæsahjón á Seltjarnarnesi.

Margæsahópur á Mýrum vestur að haustlagi. Nokkrar rauðhöfðaendur eru í hópnum. Á Mýrum hafa sést allt að 14.000 margæsir í einum hópi.

Lífshættir

Aðalfæða margæsar er marhálmur, grastegund sem vex á grunnsævi, en hún etur einnig maríusvuntu og aðra grænþörunga, sjávarfitjung og sækir jafnframt í tún, aðallega á vorin.

Margæs er meiri sjófugl en aðrar gæsir, sækir á leirur og skjólsæla voga og víkur með ríkulegum marhálmi. Er einnig í túnum og á sjávarlónum.

Útbreiðsla, ferðir og stofnstærð

Margæsir sem verpa á kanadísku Íshafseyjunum eru af hinni svokölluðu kviðljósu undirtegund (B.b. hrota). Þær hafa vetursetu á Írlandi og eru fargestir á Íslandi vor og haust. Á vorin sjást fuglarnir frá Eyrum umhverfis Reykjanesskagann og norður í Breiðafjörð. Þekktasti viðkomustaður margæsa eru túnin við forsetasetrið á Bessastöðum. Þær stoppa hér í allt að tvo mánuði á vorin, í apríl og maí og eru fáir fargestir eða umferðarfarfuglar sem hafa hér jafnlanga viðdvöl. Þær fara héðan um 3000 km leið á varpstöðvar og er algengt að þær fljúgi þá leið í einni lotu á þremur sólarhringum. Leið þeirra liggur yfir Grænlandsjökul í allt að 2400 m h.y.s. Þetta flug er mjög erfitt fyrir margæsirnar, þær eru spikfeitar, hafa safnað orkuforða og eiga því í erfiðleikum með að ná nógu mikilli flughæð til að komast yfir jökulinn. Á haustin, í september og október, er aðalviðkomustaður gæsanna á Mýrum vestur.

Margæsir við Bessastaði.

Farleið margæsa skv. niðurstöðum merkinga með gervihnattasendum (af vef Náttúrufræðistofnunnar).

Margæsir safna hér orku fyrir farflugið og kvenfuglinn orku sem nýtist við varp skömmu eftir komu á varpstöðvar. Aðstæður þar eru kuldalegar og gróður fer ekki að vaxa að ráði fyrr en ungarnir klekjast úr eggjum um mánaðamótin júní-júlí. Staðsetning Íslands og milt loftslag gerir skilyrði til forðasöfnunar fyrir áframhaldandi flug mjög hagstæð og ráða miklu um viðgang stofnsins.

Margæs er hánorræn og útbreidd með ströndum N-Íshafsins. Aðrar undirtegundir eru kviðdökkar og sjást slíkir fuglar stundum í margæsahópum hér á landi. Margæs hefur einu sinni orpið hér svo kunnugt sé, í Bessastaðanesi vorið 2018.

Margæsastofninn hrundi þegar sýking kom upp í marhálmi upp úr 1930. Hann hefur þó náð sér á strik aftur og telur nú um 40.000 fugla að hausti. Hann hefur fjórfaldast frá 1974. Nákvæmlega er fylgst með stofnstærð gæsa og álftar á vetrarstöðvum þeirra á Bretlandseyjum og hérlendis, eftir því sem við á.

Þjóðtrú og sagnir

Lítið er um margæsina í íslenskri þjóðtrú, fremur það sem tengt er gæsum almennt, til dæmis að þær viti á óveður hafi þær vindinn í rassinn á sér. Þá mun hvæs gæsa vera skaðlegt og jafnvel banvænt.

Kviðdökk margæs af Evrópsku undirtegundinni á Álftanesi.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Hrossagaukur

Hrossagaukur

Hrossagaukur (Gallinago gallinago)

Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Einkenni margra vaðfugla eru langur goggur, langir fætur og langur háls. Þeir eru dýraætur sem éta alls konar hryggleysingja og langur goggurinn er hentugur til að grafa eftir æti í leirum, tjarnarbotnum og jarðvegi. Sumir þeirra sækja í þurrlendi og hafa þá fremur stuttan gogg og fætur eins og sandlóa og heiðlóa. Vaðfuglar helga sér óðul og verpa pörin stök. Ungarnir eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið strax og þeir eru orðnir þurrir. Hjá flestum vaðfuglum ala báðir foreldrarnir önn fyrir ungunum og jafnvel fæða þá fyrst í stað (tjaldur og hrossagaukur). Undantekningar eru þó frá þessu.

 

Útlit og atferli

Hrossagaukur, sem einnig er kallaður mýrispýta eða mýrisnípa, er algengur, meðalstór vaðfugl, sem fer gjarnan huldu höfði. Hann er í brúnum og ryðrauðum felulitum, nema kviðurinn er hvítur. Mógular rákir á höfði og eftir endilöngu baki eru einkennandi, auk dökkra koll- og augnráka. Jaðrar stélfjaðranna eru hvítir. Kynin eru eins. Brúnleitur goggurinn er mjög langur og fremur sterklegur, styttri á ungfuglum, en mógulir fæturnir fremur stuttir með löngum tám. Augun eru brún.

Hneggjandi hrossagaukur á Stokkseyri.

Hrossagaukur klórar sér við veginn að Fjalli í Hjaltadal.

Fluglag hrossagauks er rykkjótt og sérkennilegt. Á vorin flýgur hrossagaukur hringflug yfir óðali sínu og „hneggjar“ án afláts. Erfitt er að koma auga á hann á jörðu niðri, því hann er var um sig og felugjarn. Þegar hann fælist, flýgur hann snögglega upp með skrækjum og hverfur á braut með hröðum vængjatökum eða steypir sér snöggt til jarðar. Fremur ófélagslyndur fugl.

Röddin er skerandi ískur heyrist þegar hann flýgur upp og hann syngur oft hjakkandi stef, tjakka, tjakka, tjakk. Kunnuglegast er þó hneggið, sem kveður við þegar vængirnir mynda loftstraum sem leikur um ystu stélfjaðrirnar um leið og hann steypir sér niður á flugi.

 

Lífshættir

Hrossagaukurinn stingur löngum goggnum í votan og mjúkan jarðveg og tínir upp orma og aðra hryggleysingja svo sem lirfur tvívængja, bjöllur og áttfætlur. Hann étur einnig ýmislegt jurtakyns.

Hrossagaukur potar eftir æti í snævi þakta jörð við Lambhaga, Reykjavík.

Hrossagaukshreiður í Friðlandinu í Flóa.

Hann verpur í mýrlendi en einnig á þurrari svæðum á láglendi, t.d. í kjarrlendi og jafnvel uppi á heiðum. Hreiðrið er venjulega vel falið í sinu eða öðrum gróðri, fóðrað með grasi og sinu. Eggin eru fjögur og klekjast á rétt tæpum þremur vikum. Ungarnir eru þrjár vikur að verða fleygir. Foreldrarnir skipta ungahópnum á milli sín og ala hvort um sig upp tvo unga. Utan varptíma (á fartíma) er fuglinn aðallega í votlendi en á veturna í opnum skurðum, dýjaveitum og á jarðhitasvæðum.

Hrossagauksungi í Andakíl.

Hrossagaukur með unga í Mývatnssveit.

Útbreiðsla og stofnstærð

Hrossagaukur er að mestu farfugl. Nokkrir fuglar hafa vetursetu, þeir finnast í flestum landshlutum. Meginvetrarstöðvarnar íslenskra fugla eru í Vestur-Evrópu, mest á Írlandi. Hann verpur víða í Evrópu og Asíu.

 

Þjóðtrú og sagnir

Margs konar þjóðtrú fylgir hrossagauknum. Hann átti ekki að geta hneggjað á vorin, fyrst eftir að hann kæmi til landsins, fyrr en hann fengi merarhildar að eta. Hann er þekktur spáfugl. Hann spáði fyrir um sumarið, hvað væri í vændum, eftir því í hvaða átt fólk heyrði hann fyrst hneggja á vorin:

 

Í austri er unaðsgaukur,
í suðri sælugaukur,
í vestri vesælgaukur,
í norðri námsgaukur.
Uppi er auðsgaukur,
niðri nágaukur.

Önnur vísa er svona:

Heiló syngur sumarið inn,
semur forlög gaukurinn,
áður en vetrar úti er þraut,
aldrei spóinn vellir graut.

Hrossagaukur

Hrossagaukur flýgur
undan fótum þér í blánni

þú hrekkur við
hlustar

er það hjartað í brjósti þér
eða hnegg hans við ský.

Eftir Snorra Hjartarson.

Litrófið

Sumarið kann ég að meta
með seytlandi lækjum af heiðinni niður að sjónum
Ég nefni tónstiga hrossagauksins
sem nær frá himni sirkustjaldsins
niður að gólfi
án afláts klifinn af fuglum
í öllum regnbogans litum
Ymjandi kontrabassi hunangsflugunnar
mælir hæð hinna skærustu tóna
Ég kann að meta fimmundagripin
og fúgur trjágreina og lyngs
sem flétta mér hljóðlátan unað

Fyrsti hluti Litrófsins eftir Hannes Sigfússon.

Dansandi hrossagaukar við Bakkatjörn á Seltjarnarnesi.

Sjaldgæf sjón, hópur hrossagauka á flugi í Holtum.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson