Brjóstagras

Brjóstagras

Vissir þú að brjóstagras er ekki gras heldur blómplanta af sóleyjarætt. Margir taka ekki eftir brjóstagrasi vegna þess hve smávaxið það er, en tegundin er algeng um allt land, jafnt á láglendi sem hálendi. Eins og nafnið bendir til var brjóstagras notað til lækninga og var einkum talið gott við brjóstameinum kvenna og júgurbólgu í búfé.
(Mynd Hörður Kristinsson.)

Engjamunablóm

Engjamunablóm

Vissir þú að engjamunablóm er innflutt garðplanta sem náð hefur fótfestu í íslenskri náttúru? Hún vex í rökum jarðvegi meðfram skurðum og lækjum, einnig í mýrlendi. Engjamunablóm líkist gleym-mér-ei, en er hávaxnara, blómin stærri og stönglarnir ekki eins hærðir svo plantan festist síður við föt líkt og gleym-mér-ei.

Bláklukka

Bláklukka

Vissir þú að bláklukka er ein af einkennisplöntum Austurlands? Þar er hún mjög algeng og hefur samfellda útbreiðslu frá Þistilfirði í norðri, suður um og vestur fyrir Skeiðará. Hún er hins vegar sjaldséð í öðrum landshlutum. Bláklukka vex einkum í graslendi, móum, skóglendi og klettum á láglendi, en teygir sig einnig allt upp í 1000 m h.y.s. 

Ljósm. Hörður Kristinsson

Asparglytta

Asparglytta

Vissir þú að þessi litla bjalla, sem nefnist asparglytta, er orðið algengt meindýr á trjágróðri á Íslandi? Asparglytta fannst fyrst á Íslandi 2006 og hefur síðan dreifst víða. Fagurgrænar bjöllurnar safnast saman eftir vetrardala á stofnum og greinum aspa og víðitrjáa. Um leið og brumin opnast byrja bjöllurnar að hakka í sig nýju laufblöðin. Fljótlega fara kvendýrin að verpa og velja þær eldri blöðin til þessa. Þegar eggin klekjast éta lirfurnar laufblöðin sem þær klöktust á. Algengt er að sjá lirfurnar hlið við hlið spænandi í sig blöðin. Asparglyttan nýtir öll blöð plöntunnar og getur því gengið ansi nærri henni.

Kvikuhólf

Kvikuhólf

Vissir þú að hægt er að skoða forn kvikuhólf á Íslandi?  Forn kvikuhólf geta gefið vísbendingar um hegðun kviku. Hér má t.d. sjá að súr kvika – sem er ljós, og basísk kvika – sem er dekkri, blandast illa saman. Mynd frá Hvalsnesi.  

Vetrarsteinbrjótur

Vetrarsteinbrjótur

Vissir þú að vetrarsteinbrjótur, öðru nafni vetrarblóm, blómgast fyrst allra plantna í apríl eða byrjun maí? Blómin eru lítil en áberandi rauðfjólublá. Vetrarsteinbrjótur er mjög harðgerð planta sem vex um allt land og hefur fundist í ríflega 1600 m hæð.