Þeistareykir

Þeistareykir

Þeistareykir. Ljósm. Helgi Arnar Alfreðsson.

Þeistareykir

Þeistareykir eru eyðijörð á Reykjaheiði norðan Mývatns en þar er einnig samnefnt eldstöðvakerfi sem liggur frá Mývatnssveit og norður í Öxarfjörð. Kerfið er um 70–80 km langt og allt að 15 km breitt, það tilheyrir Norðurgosbeltinu og er nyrsta eldstöðvakerfi Íslands. Megineldstöð Þeistareykja er vanþróuð og fer lítið fyrir henni, helstu ummerki hennar eru kísilríkt berg og háhitasvæði. Á svæðinu er 90 MW jarðvarmavirkjun sem var gangsett 2017.

Þeistareykir eru merktir með rauðum punkti á kortið (kortagrunnur frá Landmælingum Íslands).

Loftmynd af Þeistareykjasvæðinu. Hásléttan er flatlend en í suðri má sjá móbergsstapa og austan við hann er Þeistareykjabunga og toppgígurinn Stóra-Víti. (Loftmynd frá Loftmyndir ehf.)

Þeistareykir eru háhitasvæði og þar má sjá mikil ummerki jarðhita á yfirborði svæðisins. Ljósm. Jón Ingi Cæsarsson.

Þeistareykjakerfið er á hásléttu 300–400 m h.y.s., flátlent og slétt með hraunskildum og móbergsstöpum inn á milli sem sumir ná upp í 800 m h.y.s. Jarðskjálftavirkni er þó nokkur á svæðinu en Tjörnesþverbrotabeltið tengist Norðurgosbeltinu í gegnum Þeistareyki. Gjár og misgengi eru því algeng á sprungusveim eldstöðvakerfisins.

Eftir að Þeistareykjarsvæðið varð íslaust við lok síðasta jökulskeiðs jókst eldvirkni mjög í eldstöðvakerfinu. Þessi aukning varð fyrir um 15.000–10.000 árum síðan og hefur hún verið tengd við þrýstilétti sem átti sér stað þegar jöklar hörfuðu af svæðinu.

 

Eldvirkni hefur verið lítil í eldstöðvakerfi Þeistareykja frá því snemma á nútíma, þ.e. síðustu 10.000 ár, en síðast gaus í kerfinu fyrir um 2.400 árum. Hins vegar nær gossaga Þeistareykja yfir um 200.000 ár. Á nútíma hafa eldgos í Þeistareykjum einkennst af dyngjugosum, sem eru alla jafna risastór flæðigos þar sem kvikan kemur upp um eitt gosop og sprengivirkni er minniháttar. Dyngjugosin komu upp um megingosop eldstöðvakerfisins og mynduðu umfangsmikla hraunskildi, eða dyngjur. Eldri hraunskildirnir eru frá 12.000–15.000 árum síðan, þeir urðu til í tiltölulega litlum dyngjugosum og eru úr píkríti.  Fyrir 10.000–12.000 árum mynduðust stærri hraunskildir sem ná allt að 30 km3 í rúmmáli og eru þeir úr ólivínbasalti.

Fyrir um 11.000–12.000 árum myndaðist dyngjan Þeistareykjarbunga í stærsta þekkta gosinu úr eldstöðvakerfi Þeistareykja. Eldgosið átti upptök sín í Stóra-Víti sem er toppgígur Þeistareykjarbungu. Rúmmál dyngjunnar er um 30 km3 og rann hraunið 25 km frá upptökunum.

Jarðvarmavirkjunin á Þeistareykjum er staðsett við rætur Bæjarfjalls. Ljósm. Jón Ingi Cæsarsson.

Þeistareykjahraun er að mestu nokkuð slétt helluhraun með uppbrotnum rishólum og niðurföllum á víð og dreif. Hraunbunga rís hægra megin á myndinni. Ljósm. Daníel Freyr Jónsson. 

Undir sléttu helluhrauni Þeistareykjahrauns leynast hraunhellar sem vegna virkjunarframkvæmda og vegalagningar eru allt í einu komnir í alfaraleið. Þekktur var svonefndur Togarahellir sem fannst á sjöunda áratug síðustu aldar og uppúr aldamótum fundust einir tíu hellar til viðbótar. Á árinu 2016 fundust svo enn þrír hellar og voru tveir þeirra ósnortnir og heillegir, ríkulega skreyttir glerungi, dropsteinum og hraunstráum. Meginrásir hellanna eru nokkur hundruð metra langar og tengjast hugsanlega, en unnið er að könnun þeirra og kortlagningu og búist er við að fleiri hellar finnist á svipuðum slóðum. Umhverfisstofnun lokaði öllum opum að þessum hellum haustið 2020, en áður hafði öll almenn umferð um hella á Þeistareykjum verið bönnuð, nema um Togarahelli. Hraunhellar eru fágætar jarðminjar á heimsvísu og hafa mikið verndargildi sökum sérstöðu og fágætis. Allir dropsteinar og sérhvert hraunstrá í hellum landsins voru friðlýst sem náttúruvætti 1974 og hraunhellar njóta sérstakrar verndar skv. náttúruverndarlögum.  

Dropsteinar í helli í Þeistareykjahrauni. Ljósm. Daníel Freyr Jónsson. 

Ítarefni

Bolani, F.L., Tibaldi, A., Pasquaré Mariotto, F., Saviano, D., Meloni, A. & Sajovitz, P. 2019. Geometry, oblique kinematics and extensional strain variation along a diverging plate boundary: The example of the northern Theistareykir Fissure Swarm, NE Iceland. Tectonophysics 756. 57–72.

Daníel Freyr Jónsson & Guðni Gunnarsson. 2020. Hraunhellar í Þeistareykjahrauni. Náttúrufræðingurinn 90(4–5). 296–302.

Maclennan, J., Jull, M., McKenzie, D., Slater, L. & Grönvold, K. 2002. The link between volcanism and deglaciation in Iceland. Geochemistry, Geophysics, Geosystems 3(11). 1–25.

Karl Grönvold & Kristján Sæmundsson. 2019. Þeistareykir. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 3. febrúar 2021 af http://islenskeldfjoll.is/?volcano=TEY.

Kristján Sæmundsson & Freysteinn Sigmundsson. 2013. Norðurgosbelti. Bls. 319–357 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Sigríður Magnúsdóttir & Bryndís Brandsdóttir. 2011. Tectonics of the Theistareykir fissure swarm. Jökull 61. 65–79.

 

 

Sunnudagsleiðsögn í Safnahúsinu

Sunnudagsleiðsögn í Safnahúsinu

Sunnudagsleiðsögn í Safnahúsinu

Sunnudaginn 14. febrúar klukkan 14 mun Skúli Skúlason, prófessor við Náttúruminjasafn Íslands og Háskólann á Hólum ganga með gestum um sýninguna Sjónarhorn í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Leiðsögn Skúla mun beinast að sérstöðu íslenskrar náttúru, með hvaða hætti hún birtist í myndheimi, og á hvern hátt viðhorf okkar til náttúrunnar og umgengni mótast af sýn okkar og hugmyndaheimi.
Leiðsögnin er ókeypis og allir velkomnir!

Sýningin Sjónarhorn – ferðalag um íslenskan myndheim var opnuð 18. apríl 2015 og er grunnsýning á íslenskri list og sjónrænum menningararfi þjóðarinnar. Í sjö álmum hússins eru jafn mörg sjónarhorn sem tengja saman ólík listaverk og áhugaverða muni, þvert á efni og tímabil. Sýningin er sam­starfs­verk­efni sex stofnana: Þjóðminjasafnsins, Listasafns Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Þjóðskjalasafns Íslands, Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns og Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum  um sjón­ræn­an menn­ing­ar­arf og skartar margvíslegum gripum úr safnkosti þeirra; forngripum, listaverkum, skjölum, handritum og náttúrugripum. Sýningarstjóri er Markús Þór Andrésson.

Þetta var fyrsta sýningin sem Náttúruminjasafnið tók þátt í eftir stofnun 2007. Þar setti safnið m.a. upp kjörgripasýningu um uppstoppaða geirfuglinn sem keyptur var til landsins 1971 og tímabundna sýningu sem nefndist Aldauði tegundar í samvinnu við Ólöfu Nordal, myndlistarmann. Þar sagði frá síðustu geirfuglunum og sýndar voru ljósmyndir af leifum þeirra sem varðveittar eru í Kaupmannahöfn.

Safnahúsið til Listasafnsins

Ákveðið hefur  verið að Listasafn Íslands taki nú við Safnahúsinu við Hverfisgötu en Þjóðminjasafnið hefur veitt húsinu forstöðu frá 2013. Því fer hver að verða síðastur til að njóta sýningarinnar Sjónarhorn  – ferðlag um íslenskan myndheim – sem verður opin til 1. apríl n.k. Listasafn íslands mun opna nýja grunnsýningu í húsinu í sumar.

Basalt

Basalt

Basalt

Vissir þú að langstærstur hluti gosbergs á Íslandi er basalt? 

Basalt er algengasta hraunið í kringum okkur og myndast oftast í flæðigosum. Basísk kvika er heit og kísilsnauð, sem þýðir að kvikan er mjög fljótandi og því geta basalthraun runnið langt frá upptökum, jafnvel yfir hundrað kílómetra leið. Þjórsárhraun er til að mynda um 130 km langt, lengsta hraun sem runnið hefur á Íslandi eftir ísöld og mögulega á jörðinni. 

Basalt er samt sem áður ekki alltaf eins. Það fer eftir efnasamsetningu hvaða kristallar myndast í basaltinu en oftar en ekki er basalt með svokölluðum dílum sem eru stórir kristallar sem við getum séð með berum augum. Af þeim eru hvítir plagíóklaskristallar og grænir ólivínkristallar algengastir. 

Næst þegar þið gangið um hraun, skulið þið endilega skoða hvort þið sjáið kristalla í hraunmola. 

Basaltmyndun: Stuðlabergið í Reynisfjöru.

Dílabasalt með grænum ólivínkristöllum sem sjást með berum augum.

Hálendisþjóðgarður – Einstök náttúra á heimsvísu

Hálendisþjóðgarður – Einstök náttúra á heimsvísu

Hálendisþjóðgarður – Einstök náttúra á heimsvísu

Náttúruminjasafn Íslands styður heils hugar stofnun þjóðgarðs á hálendi Íslands, segir í umsögn safnsins um um frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra sem nú er til umfjöllunar á Alþingi. Stofnun hálendisþjóðgarðs er skynsamleg ráðstöfun að mati safnsins, nauðsynleg í vistfræðilegu ljósi og getur hæglega orðið fjárhagslega arðbær.

Í umsögninni er lögð áhersla á mikilvægi þess að taka frá landsvæði sem státar af einstakri náttúru á heimsvísu og stýra með samræmdum hætti stöðugt vaxandi umferð og álagi á hálendið þannig að náttúran þar fái að þróast og þrífast sem mest á eigin forsendum án alvarlegra inngripa af mannavöldum.

Að mati safsins er stofnun þjóðgarðsins ekki aðeins þjóðþrifamál fyrir íbúa landsins og gesti heldur hafi þjóðgarðurinn einnig skýra, alþjóðlega tilvísun: Náttúran á hálendi Íslands er einstök í hnattrænu samhengi, þar eru ein stærstu óbyggðu víðerni Evrópu og svæðið á fáa ef nokkurn sinn líka hvað varðar andstæður og fjölbreytileika í landslagi og náttúru, með stórkostlegu sjónarspili elds, íss og vatns. Slík gæði fara ört þverrandi á heimsvísu vegna áhrifa mannsins og því mun gildi svæðisins aðeins vaxa með tímanum ef tekst að stýra umgengninni skynsamlega á samræmdan og sjálfbæran hátt.

Lögð er áhersla á að efla verði rannsóknir á náttúru hálendisins og tengja við rannsóknir á sviði fornleifa og mannvistfræða. Safnið telur nauðsynlegt er að stjórn þjóðgarðsins búi yfir faglegri getu á sviði náttúru- og mannvistfræða og æskilegast að þar sitji sérfræðingar á síðastnefndu fræðasviðum. Ekki er gert ráð fyrir því í frumvarpinu en úr því megi bæta með með því að vísa í aðkomu viðeigandi sérfræðistofnana að stjórnun þjóðgarðsins, svo sem Náttúrufræðistofnunar Íslands, Náttúruminjasafns Íslands, Minjastofnunar Íslands og háskóla landsins.

Loks er í umsögninni bent á að skilgreina þurfi afdráttarlaust í frumvarpinu sjálfu að svæði innan marka fyrirhugaðs Hálendisþjóðgarðs skuli tekin frá og skilgreind sem óbyggð víðerni í samræmi við verndarflokk Ib í flokkunarkerfi IUCN. Þetta er nauðsynlegt að mati safnsins til að tryggja að mikilvægustu og verðmætustu svæði þjóðgarðsins fái viðeigandi vernd í samræmi við alþjóðlegt mikilvægi sitt.

Hér má lesa umsögn Náttúruminjasafnsins í heild.

Í Þjórsárverum. Ljósm. Þóra Ellen Þórhallsdóttir.

Toppskarfur

Toppskarfur

Toppskarfur (Phalacrocorax aristotelis)


Skarfar eru stórir dökkir sjófuglar. Hérlendis eru tvær skarfategundir, dílaskarfur og toppskarfur. Þeir eru báðir staðfuglar og er varpútbreiðsla beggja að mestu bundin við Faxaflóa og Breiðafjörð. Skarfar tilheyra ættbálki árfætla (hafa sundfit milli allra fjögurra tánna) eða pelíkanfugla (Pelicaniformes) eins og súlur, freigátufuglar o.fl.

Toppskarfur í varpskrúða á Breiðafirði.

Toppskarfur með tvo stálpaða unga á Breiðafirði.

Toppskarfur í varpskrúða á Breiðafirði.

Toppskarfshjón í varpskrúða á Breiðafirði.

Ungur toppskarfur á flugi í Kolgrafarfirði.

Útlit og atferli

Toppskarfur er nokkru minni og grennri en dílaskarfur. Hálsinn er styttri og grennri og höfuðið minna, en annars getur verið erfitt að greina þessa fugla sundur eftir stærð og vexti nema sjá þá saman. Höfuð toppskarfs er hnöttóttara, enni brattara og goggur áberandi grennri en á dílaskarfi. Í varpbúningi er toppskarfur alsvartur með grænleitri slikju. Hann virðist hreistraður að ofan vegna dökkra fjaðrajaðra. 

Uppsveigður fjaðratoppur á höfði er einkenni fullorðinna fugla frá því í janúar fram á vor, þeir missa hann að mestu í maí. Ungfugl er dökkbrúnn, með ljósan framháls, en ekki ljósleitur á bringu og kviði eins og ungir dílaskarfar. Goggur er dökkgrár, neðri skoltur ljósari, brúnni á ungfugli. Goggvik eru gul, sérstaklega á vorin. Fætur eru dökkgráir, augu gul (ungfugl) eða græn (fullorðinn).

Toppskarfur er djúpsyndur og ber höfuðið hátt á sundi eins og dílaskarfur. Eftir köfun þarf fuglinn að þurrka vængina og situr þá oft og blakar þeim, „messar“ eins og dílaskarfur, en breiðir ekki jafnmikið úr vængjunum. Hann er fremur klaufalegur þegar hann hefur sig á loft, flýgur með hraðari vængjatökum en dílaskarfur og teygir hálsinn og gogginn síður upp en hann, flýgur fremur lágt. Er venjulega félagslyndur.

Toppskarfur gefur oftast frá sér hátt, hrjúft garg á varpstöðvum.

 

 

Toppskarfar í varpskrúða í Kolgrafarfirði.

Toppskarfshreiður á Breiðafirði.

Toppskarfur á hreiðri á Breiðafirði.

Ungur toppskarfur í Hafnarfirði.

Lífshættir

Toppskarfurinn er fiskiæta, hann kafar eftir bráðinni, fangar m.a. sandsíli, síld, marhnút, þorsk, ufsa, kola og sprettfisk. Stingur sér á sundi og kafar með fótunum.

Toppskarfur heldur sig við strendur og sést nær aldrei inn til landsins, andstætt við dílaskarfinn. Verpur í byggðum, er algengastur á lágum eyjum eða hólmum í Breiðafirði og Faxaflóa. Er einnig í lágum klettum, stundum í fuglabjörgum eða í stórgrýtisurðum. Hreiðrið er hraukur úr þangi, fóðrað með fjöðrum og grasi. Urptin er oftast 3 (1–6) egg, álegutíminn er mánuður og ungarnir verða fleygir á um 8 vikum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Toppskarfur er staðfugl, sem sést víða um vestanvert landið á veturna. Hann hefur breiðst út um Strandir á undanförnum árum og er nú farinn að verpa í Papey. Hann verpur við strendur Evrópu, frá Kólaskaga suður í Miðjarðarhaf og til Marokkó. Stofnstærðin hérlendis var um 4.700 varppör (21.300 einstaklingar) 2019, en hún sveiflast nokkuð. Hnignun sandsílastofnsins olli fækkun niður í 3.700 pör. Sandsíli er mikilvægasta fæða flestra sjófugla við Suður- og Vesturland.  En sandsílið er að braggast og skörfunum að fjölga aftur. Langflestir verpa í Breiðafjarðareyjum, en nokkuð varp er við norðanverðan Faxaflóa og smávegis í björgum eins og Krýsuvíkurbergi, við Arnarstapa, í Skálasnagabjargi og Látrabjargi. Toppskarfur er á válista sem tegund í nokkurri hættu (VU), þó eru enn stundaðar veiðar á honum.

Þjóðtrú og sagnir

Lítil þjóðtrú fylgir toppskarfinum, en stundum fylgir sameiginleg trú þeim frændum, díla- og toppskarfi. Skarfar þóttu vísa á fisk og þeir voru líka veðurvitar og réðu menn í veður af flugi þeirra eða hátterni. Talið er að skarfar sjái vel, en heyri illa. Þeir munu vera hræddir við tunglið og sérstaklega þegar það veður í skýjum og þeir dvelja á náttstað. Þá er einn hafður á vakt til að hafa auga með hinu ærslafulla tungli og sjálfsagt öðrum aðsteðjandi hættum í leiðinni.

Og þegar Skarfurinn setur vængina niður
hvísla öldurnar amen
og ungi sleppur undan væng Grágæsarinnar.
Á Vigri brýtur goggur gat á heiminn og
skáldkonan gengur um
með hugann við sprungur
í himninum

Ó! heilsið öllum heima rómi blíðum
um hæð og sund í drottins ást og friði;
kyssi þið, bárur! bát á fiskimiði,
blási þið, vindar! hlýtt á kinnum fríðum.

og stígur
á einn lítinn.

 

Fjaðrir og fiður eftir Bjarneyju Gísladóttur, lokaerindi.

Þúsund ár, hefur skarfurinn þurrkað sinn væng
Og þvaðrað við Sendling og Tjald sem í þaranum tifa
Selurinn blundað á sinni votu sæng
Í sólskini þegar öllum finnst gaman að lifa.

Úr Kolbeinshaus eftir Þórhall Gauta Bárðarson.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson