Eyjafjallajökull

Eyjafjallajökull

Eyjafjallajökull. Ljósm. Hugi Ólafsson

Eyjafjallajökull

Eyjafjallajökull er einn af minni jöklum Íslands. Hann er við suðurströndina, rétt vestan Mýrdalsjökuls. Undir jöklinum er eldkeila sem nær hæst 1.651 m yfir sjávarmál og efst í henni er askja sem er um 2,5 km í þvermál. Eldstöðvakerfi Eyjafjallajökuls er hluti af Austurgosbeltinu. Í eldstöðvakerfinu er megineldstöð sem er um 25 km löng og 15 km breið, en enginn sprungusveimur. Gígjökull er skriðjökull sem skríður til norðurs frá toppgíg Eyjafjallajökuls og er sýnilegur á leið inn í Þórsmörk.

Eyjafjallajökull er merktur með rauðum punkti á kortið.

Loftmynd af Eyjafjallajökli og svæðinu í kring. Efst í jöklinum sést hvar askjan er staðsett. (Loftmyndir ehf., 2019)

Elsta berg eldstöðvakerfis Eyjafjallajökuls er um 800.000 ára gamalt. Eldgos í kerfinu koma upp um toppgíg fjallsins eða á sprungum í fjallshlíðum. Sprengigos úr Eyjafjallajökli eru ísúr til súr en flæðigosin geta verið basísk, ísúr eða súr, en þau eru þó oft lítil. Vitað er um fjögur gos úr kerfi Eyjafjallajökuls á sögulegum tíma; um 920 varð gos á sprungu sem olli jökulhlaupi, 1612 eða 1613 varð minniháttar sprengigos, 1821–1823 varð lítið sprengigos í toppgígnum og síðast gaus Eyjafjallajökull árið 2010.

Eldgosið 2010 byrjaði með flæðigosi á Fimmvörðuhálsi 20. mars sem stóð til 12. apríl. Tveimur dögum síðar hófst sprengigos í toppgíg Eyjafjallajökuls. Í kjölfar þess urðu nokkur jökulhlaup fyrstu dagana. Gosmökkurinn náði yfir 7 km hæð og varð mikið öskufall í nágrenni jökulsins. Gígjökulslón stíflaðist við öskufallið og bújarðir í nágreni Eyjafjallajökuls fóru nánast á kaf í ösku. Askan úr gosinu var mjög fíngerð, en þegar sprengivirknin og öskufallið var sem mest var mjög sterk norðanátt sem flutti öskuna suður og suðaustur, og náði askan alla leið til meginlands Evrópu. Þetta hafði mikil áhrif á flugsamgöngur í álfunni, sem lögðust því sem næst algjörlega af í fimm daga meðan gosið stóð sem hæst.

Gosstrókurinn á Fimmvörðuhálsi vakti mikla athygli og blasti við þeim fjölmörgu sem lögðu leið sína upp að gosinu. Ljósm. Gunnar Baldursson.

Sprengigosinu lauk 23. maí 2010. Eftir það féll engin aska, en sjá mátti smávægilega gosvirkni nokkra daga í júní. Þó svo að áhrif gossins hafi verið mikil telst gosið sjálft aðeins meðalstórt þegar litið er til magns gosefna. Í gosinu myndaðist um 0,27 km3 af gjósku og 0,023 km3 af hrauni. Til samanburðar er Holuhraun 1,4 km3 að rúmmáli.

Rauðglóandi hraunflæðið á Fimmvörðuhálsi. Ljósm. Gunnar Baldursson.

Gosmökkurinn úr Eyjafjallajökli 2010 olli miklu öskufalli. Ljósm. Þorvaldur Þórðarson.

Eyjafjallajökull tignarlegur að sumarlagi. Ljósm. Hugi Ólafsson.

Ítarefni

Freysteinn Sigmundsson, Sigrún Hreinsdóttir, Hooper, A., Þóra Árnadóttir, Pedersen, R., Roberts, M.J., Níels Óskarsson, Auriac, A., Decriem, J., Páll Einarsson o.fl. 2010. Intrusion triggering of the 2010 Eyjafjallajökull explosive eruption. Nature 468. 426–432.

Magnús T. Guðmundsson & Ármann Höskuldsson. 2019. Eyjafjallajökull. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 7. janúar 2021 af http://www.islenskeldfjoll.is/?volcano=EYJ#.

Guðrún Larsen, Freysteinn Sigmundsson & Dugmore, A. 2013. Eyjafjallajökull. Bls. 291–297 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Guðrún Larsen, Magnús Tumi Guðmundsson, Freysteinn Sigmundsson, Ármann Höskuldsson, Steinunn Sigríður Jakobsdóttir, Björn Oddsson, Eyjólfur Magnússon, Þórdís Högnadóttir, Þorvaldur Þórðarson & Halldór Björnsson. 2013. Eldur í Eyjafjallajökli 2010. Bls. 299–311 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Petersen, G.N., Halldór Björnsson & Þórður Arason. 2012. The impact of the atmosphere on the Eyjafjallajökull 2010 eruption plume. Journal of Geophysical Research 117. 1–14.

Móberg

Móberg

Móberg

Vissir þú​ að á Íslandi hefur móberg aðallega myndast við eldgos undir jökli, en við þær aðstæður kemst vatn að allt að 1200°C heitri kvikunni og tætir hana. Þá myndast hrúga af vatnsblandaðri lausri ösku sem límist saman og ummyndast fljótlega í móberg við 80-150°C. Mikið af móberginu sem finnst á yfirborði á Íslandi myndaðist á síðasta jökulskeiði og er því fremur algengt hér á landi, en sjaldgæft annars staðar. 

Vatnabobbar

Vatnabobbar

Vatnabobbar

Vissir þú​ að litur vatnabobba (Radix balthica) fer eftir því hvar þeir búa?

Vatnabobbar eru mjög algengir bæði hér á landi og í Evrópu, Asíu og Afríku. Þeir verða um 10–20 mm á hæð. Skel þeirra, kuðungurinn, er oftast gulhvít eða ljósbrún en tekur lit af umhverfinu sem snigillinn er í. Lögun kuðungsins er mismunandi, strýtan mishá og munnurinn misvíður. Vatnabobbar hafa aðlagast fjölbreyttu búsvæði, allt frá smápollum til jarðhitasvæða. Þetta hefur gert flokkunarfræði erfiða og hafa dýrin gengið undir mörgum fræðiheitum. Vatnabobbar eru lungnasniglar (Pulmonata) sem hafa þróað með sér vísi að lungum í stað tálkna, ólíkt flestum sjávarsniglum. Eins og flestir sniglar nota vatnabobbar skráptungu til að skrapa þörunga og aðra lífræna fæðu af yfirborði steina. Sjálfir eru þeir mikilvæg fæða fiska og fugla í og við ferskvatn.
 
📸: © Wim van Egmond
Fjölbreytt efni í nýjum Náttúrufræðingi

Fjölbreytt efni í nýjum Náttúrufræðingi

 Út er komið 4.–5. hefti Náttúrufræðingsins, 90. árgangs. 
Í heftinu er m.a. fjallað um gróður sem vex í miðjum Vatnajökli á skerjum sem komið hafa undan jöklinum vegna hlýnunar á undanförnum áratugum. Sagt er frá tveimur berghlaupum á Heimaey; Herjólfshaug og Mykitaksgrjóti. Áfram er fjallað um ferðir yfir Vatnajökul til forna og  sagt frá rannsóknum á viðhorfi ferðamanna til óspilltrar náttúru og víðerna. Í heftinu er einnig greint frá ummerkjum jarðskjálftanna á Reykjanesskaga í haust, samspili stara við hross og einstökum hraunhellum í Þeistareykjahrauni.

Nýja heftið er 88 bls. að stærð. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir.

Hér má sjá efnisyfirlit heftisins. 

 

Hálfdán Björnsson á Kvískerjum var frá upphafi lykilmaður við rannsóknir í skerjunum. Hér er hann að huga að skordýrum í Bræðraskeri 1985 eða 1988. Ljósm. Kristbjörn Egilsson.

Gróðurframvinda á miðjum Vatnajökli

Á árinu 1944 varð vart við nýtt jökulsker í Breiðamerkurjökli og gáfu Kvískerjabræður því nafnið Kárasker eftir Kára Sölmundarsyni þegar þeir heimsóttu það fyrstir manna 1957. Bræðasker, svo nefnt til heiðurs Kvískerjabræðrum, kom upp úr jöklinum 1961 og hefur gróðurframvinda í báðum skerjum verið rannsökuð frá árinu 1965. Athygli vekur að æðplöntur einkenna fyrstu stig framvindunnar, en mosar og fléttur  koma síðar. Höfundar eru: Bjarni D. Sigurðsson, Starri Heiðmarsson, †Hálfdán Björnsson og Eyþór Einarsson.

Forn berghlaup í Herjólfsdal

 

Herjólfsdalur á Heimaey í Vestmannaeyjum varð til þegar gjóska og hraun fylltu lítinn vog í eldsumbrotum fyrir um 6 þúsund árum. Eftir að hraunið rann urðu tvær meiriháttar skriður eða berghlaup í dalnum og hafa þau verið nefnd Mykitaksgrjót og Herjólfshaugur. Gjóskulög benda til að Mykitakshlaupið, sem er um 500.000 rúmmetrar að stærð hafi orðið nokkru fyrir landnám eða á árabilinu 700–750 e.Kr., en fátt er hægt að fullyrða um Herjólfshaug þar sem hann hvarf  vegna efnistöku og umsvifa í dalnum. Höfundar eru Árni Hjartarson og Jón Kristinn Helgason. 

Dalfjall og Blátindur í Herjólfsdal.

Ferðir yfir Vatnajökul til forna

Hjörleifur Guttormsson hefur ritað þrjár greinar fyrir Náttúrufræðinginn um ferðir yfir Vatnajökul til forna. Hér birtist 2. greinin sem nefnist Vatnajökull og grennd í tímans rás – Samskiptin yfir jökul í árdaga og þar eru raktar helstu heimildir um ferðir frá Fljótsdalshéraði og úr Norðurlandi yfir jökulinn og í grennd hans til sjóróðra og getið sagna um samskipti vermanna við heimafólk í Suðursveit. Sérstaklega er fjallað um tengsl Skriðuklausturs við Borgarhöfn og Hálsahöfn á 16. öld, og Skaftafells og Möðrudals yfir jökul fyrr á öldum.

Uppdráttur Sigurðar Þórarinssonar frá 1974 af fornum leiðum yfir Vatnajökul.

Hálendið í hugum Íslendinga

Rannveig Ólafsdóttir og Anna Dóra Sæþórsdóttir skrifa síðari grein gína um Hugmyndir og viðhorf Íslendinga til víðerna. Spurningakönnun var send á úrtak landsmanna og valdi hver þátttakandi milli mynda sem hann taldi passa best og síst við hugmynd sína um víðerni. Niðurstöður sýna að ummerki um mannvist í hvaða mynd sem er, fyrir utan fornminjar, draga úr víðernisupplifun Íslendinga. Í hugum þeirra felst gildi víðernis einkum í tækifæri til að upplifa kyrrð og ró á svæðum með fábrotna og einfalda innviði.

Dæmi um myndaspjald sem notað var við rannsóknina – hér má sjá myndir þar sem engin sýnileg mannvirki eru í landslaginu. 

Ummerki um jarðskjálfta á Reykjanesskaga

Mikil skjálftavirkni hófst á Reykjanesskaga í lok árs 2019 og hélst hún mest allt árið 2020. Esther Hlíðar Jensen segir frá og birtir myndir af ummerkjum skjálftans 20. október s.l. sem var Mw5,6. Skjálftans varð vart á höfuðborgarsvæðinu þar sem m.a. hrundi úr hillum stórmarkaða.

Nýjar og gamlar sprungur á bjargbrún Krýsuvíkurbjargs.
Ljósm. Dagur Jónsson 

 Hellarnir eru fagurlega skrýddir.
Ljósm. Hellarannsóknafélag Íslands.

Hraunhellar í Þeistareykjahrauni

Daníel Freyr Jónsson og Guðni Gunnarsson segja frá hraunhellum í Þeistareykjahrauni sem eru einstaklega ríkir af af dropsteinum, hraunstráum og öðru viðkvæmu hellaskrauti. Félagsmenn Hellarannsóknafélags Íslands fundu hellana 2016 og vinna að kortlagningu þeirra og könnun. Umhverfisstofnun lokaði tveimur hellum s.l. haust og bannaði umferð um aðra hella í hrauninu nokkru fyrr.

Samskipti stara og hesta

Starar eru félagslyndir fuglar og safnast í hópa undir kvöld með miklum tilþrifum. Hrefna Sigurjónsdóttir greinir frá athugun sinni á þeirri hegðun stara að sækjast eftir því að vera nálægt hrossum, en þeir sjást iðulega sitja á baki þeirra eða í fæðuleit í grasinu mjög nálægt höfði og fótum. Hún taldi allt að 15 fugla á baki sama hestsins og komst m.a. að þeirri niðurstöðu að þeir velja sér reiðskjóta eftir lit hestsins.

 

 

 

Starahópur á hestbaki í Leirvogstungu. Ljósm. Berglind Njálsdóttir.
Auk framangreinds er í 4.–5. hefti Náttúrufræðingsins grein um hálfrar aldar afmæli Náttúruverndarsamtaka Austurlands, NAUST, kortlagningu spendýra í Evrópu og leiðari sem  ritstjóri skrifar um árið 2020.
Gosberg

Gosberg

Gosberg

Gosberg er samheiti yfir allt berg sem myndast í eldgosum. Það er gjarnan flokkað eftir efnasamsetningu og þá fyrst og fremst litið til kísilsmagns (SiO2). Kísilhlutfall í íslensku bergi er á bilinu 45–75% af þunga bergsins, og er flokkað sem basískt (4552% kísill), ísúrt (5263% kísill) og súrt (yfir 63% kísill). Einnig er gosberg flokkað eftir hlutfalli annarra efna og steindasamsetningu. Mismunandi berg kemur upp í ólíkum eldstöðvumen þó getur berg verið breytilegt í sömu eldstöðinni. Þannig breytist til dæmis kvika, sem staldrar við í kvikuhólfum á leið sinni til yfirborðs, verður kísilríkari og súrari og er þá sagt að hún þróist. 

Kísilmagnið hefur mikil áhrif á eiginleika kvikunnar. Kísill myndar kísilgrindur sem tengjast saman og því verður kvikan seigari eftir því sem hlutfall kísils er meira, auk þess sem kísilrík kvika er yfirleitt kaldari en kísilsnauð kvika 

Ljósmynd Þóra Björg Andrésdóttir.