Vatnabobbar

Vatnabobbar

Vatnabobbar

Vissir þú​ að litur vatnabobba (Radix balthica) fer eftir því hvar þeir búa?

Vatnabobbar eru mjög algengir bæði hér á landi og í Evrópu, Asíu og Afríku. Þeir verða um 10–20 mm á hæð. Skel þeirra, kuðungurinn, er oftast gulhvít eða ljósbrún en tekur lit af umhverfinu sem snigillinn er í. Lögun kuðungsins er mismunandi, strýtan mishá og munnurinn misvíður. Vatnabobbar hafa aðlagast fjölbreyttu búsvæði, allt frá smápollum til jarðhitasvæða. Þetta hefur gert flokkunarfræði erfiða og hafa dýrin gengið undir mörgum fræðiheitum. Vatnabobbar eru lungnasniglar (Pulmonata) sem hafa þróað með sér vísi að lungum í stað tálkna, ólíkt flestum sjávarsniglum. Eins og flestir sniglar nota vatnabobbar skráptungu til að skrapa þörunga og aðra lífræna fæðu af yfirborði steina. Sjálfir eru þeir mikilvæg fæða fiska og fugla í og við ferskvatn.
 
📸: © Wim van Egmond
Fjölbreytt efni í nýjum Náttúrufræðingi

Fjölbreytt efni í nýjum Náttúrufræðingi

 Út er komið 4.–5. hefti Náttúrufræðingsins, 90. árgangs. 
Í heftinu er m.a. fjallað um gróður sem vex í miðjum Vatnajökli á skerjum sem komið hafa undan jöklinum vegna hlýnunar á undanförnum áratugum. Sagt er frá tveimur berghlaupum á Heimaey; Herjólfshaug og Mykitaksgrjóti. Áfram er fjallað um ferðir yfir Vatnajökul til forna og  sagt frá rannsóknum á viðhorfi ferðamanna til óspilltrar náttúru og víðerna. Í heftinu er einnig greint frá ummerkjum jarðskjálftanna á Reykjanesskaga í haust, samspili stara við hross og einstökum hraunhellum í Þeistareykjahrauni.

Nýja heftið er 88 bls. að stærð. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir.

Hér má sjá efnisyfirlit heftisins. 

 

Hálfdán Björnsson á Kvískerjum var frá upphafi lykilmaður við rannsóknir í skerjunum. Hér er hann að huga að skordýrum í Bræðraskeri 1985 eða 1988. Ljósm. Kristbjörn Egilsson.

Gróðurframvinda á miðjum Vatnajökli

Á árinu 1944 varð vart við nýtt jökulsker í Breiðamerkurjökli og gáfu Kvískerjabræður því nafnið Kárasker eftir Kára Sölmundarsyni þegar þeir heimsóttu það fyrstir manna 1957. Bræðasker, svo nefnt til heiðurs Kvískerjabræðrum, kom upp úr jöklinum 1961 og hefur gróðurframvinda í báðum skerjum verið rannsökuð frá árinu 1965. Athygli vekur að æðplöntur einkenna fyrstu stig framvindunnar, en mosar og fléttur  koma síðar. Höfundar eru: Bjarni D. Sigurðsson, Starri Heiðmarsson, †Hálfdán Björnsson og Eyþór Einarsson.

Forn berghlaup í Herjólfsdal

 

Herjólfsdalur á Heimaey í Vestmannaeyjum varð til þegar gjóska og hraun fylltu lítinn vog í eldsumbrotum fyrir um 6 þúsund árum. Eftir að hraunið rann urðu tvær meiriháttar skriður eða berghlaup í dalnum og hafa þau verið nefnd Mykitaksgrjót og Herjólfshaugur. Gjóskulög benda til að Mykitakshlaupið, sem er um 500.000 rúmmetrar að stærð hafi orðið nokkru fyrir landnám eða á árabilinu 700–750 e.Kr., en fátt er hægt að fullyrða um Herjólfshaug þar sem hann hvarf  vegna efnistöku og umsvifa í dalnum. Höfundar eru Árni Hjartarson og Jón Kristinn Helgason. 

Dalfjall og Blátindur í Herjólfsdal.

Ferðir yfir Vatnajökul til forna

Hjörleifur Guttormsson hefur ritað þrjár greinar fyrir Náttúrufræðinginn um ferðir yfir Vatnajökul til forna. Hér birtist 2. greinin sem nefnist Vatnajökull og grennd í tímans rás – Samskiptin yfir jökul í árdaga og þar eru raktar helstu heimildir um ferðir frá Fljótsdalshéraði og úr Norðurlandi yfir jökulinn og í grennd hans til sjóróðra og getið sagna um samskipti vermanna við heimafólk í Suðursveit. Sérstaklega er fjallað um tengsl Skriðuklausturs við Borgarhöfn og Hálsahöfn á 16. öld, og Skaftafells og Möðrudals yfir jökul fyrr á öldum.

Uppdráttur Sigurðar Þórarinssonar frá 1974 af fornum leiðum yfir Vatnajökul.

Hálendið í hugum Íslendinga

Rannveig Ólafsdóttir og Anna Dóra Sæþórsdóttir skrifa síðari grein gína um Hugmyndir og viðhorf Íslendinga til víðerna. Spurningakönnun var send á úrtak landsmanna og valdi hver þátttakandi milli mynda sem hann taldi passa best og síst við hugmynd sína um víðerni. Niðurstöður sýna að ummerki um mannvist í hvaða mynd sem er, fyrir utan fornminjar, draga úr víðernisupplifun Íslendinga. Í hugum þeirra felst gildi víðernis einkum í tækifæri til að upplifa kyrrð og ró á svæðum með fábrotna og einfalda innviði.

Dæmi um myndaspjald sem notað var við rannsóknina – hér má sjá myndir þar sem engin sýnileg mannvirki eru í landslaginu. 

Ummerki um jarðskjálfta á Reykjanesskaga

Mikil skjálftavirkni hófst á Reykjanesskaga í lok árs 2019 og hélst hún mest allt árið 2020. Esther Hlíðar Jensen segir frá og birtir myndir af ummerkjum skjálftans 20. október s.l. sem var Mw5,6. Skjálftans varð vart á höfuðborgarsvæðinu þar sem m.a. hrundi úr hillum stórmarkaða.

Nýjar og gamlar sprungur á bjargbrún Krýsuvíkurbjargs.
Ljósm. Dagur Jónsson 

 Hellarnir eru fagurlega skrýddir.
Ljósm. Hellarannsóknafélag Íslands.

Hraunhellar í Þeistareykjahrauni

Daníel Freyr Jónsson og Guðni Gunnarsson segja frá hraunhellum í Þeistareykjahrauni sem eru einstaklega ríkir af af dropsteinum, hraunstráum og öðru viðkvæmu hellaskrauti. Félagsmenn Hellarannsóknafélags Íslands fundu hellana 2016 og vinna að kortlagningu þeirra og könnun. Umhverfisstofnun lokaði tveimur hellum s.l. haust og bannaði umferð um aðra hella í hrauninu nokkru fyrr.

Samskipti stara og hesta

Starar eru félagslyndir fuglar og safnast í hópa undir kvöld með miklum tilþrifum. Hrefna Sigurjónsdóttir greinir frá athugun sinni á þeirri hegðun stara að sækjast eftir því að vera nálægt hrossum, en þeir sjást iðulega sitja á baki þeirra eða í fæðuleit í grasinu mjög nálægt höfði og fótum. Hún taldi allt að 15 fugla á baki sama hestsins og komst m.a. að þeirri niðurstöðu að þeir velja sér reiðskjóta eftir lit hestsins.

 

 

 

Starahópur á hestbaki í Leirvogstungu. Ljósm. Berglind Njálsdóttir.
Auk framangreinds er í 4.–5. hefti Náttúrufræðingsins grein um hálfrar aldar afmæli Náttúruverndarsamtaka Austurlands, NAUST, kortlagningu spendýra í Evrópu og leiðari sem  ritstjóri skrifar um árið 2020.
Gosberg

Gosberg

Gosberg

Gosberg er samheiti yfir allt berg sem myndast í eldgosum. Það er gjarnan flokkað eftir efnasamsetningu og þá fyrst og fremst litið til kísilsmagns (SiO2). Kísilhlutfall í íslensku bergi er á bilinu 45–75% af þunga bergsins, og er flokkað sem basískt (4552% kísill), ísúrt (5263% kísill) og súrt (yfir 63% kísill). Einnig er gosberg flokkað eftir hlutfalli annarra efna og steindasamsetningu. Mismunandi berg kemur upp í ólíkum eldstöðvumen þó getur berg verið breytilegt í sömu eldstöðinni. Þannig breytist til dæmis kvika, sem staldrar við í kvikuhólfum á leið sinni til yfirborðs, verður kísilríkari og súrari og er þá sagt að hún þróist. 

Kísilmagnið hefur mikil áhrif á eiginleika kvikunnar. Kísill myndar kísilgrindur sem tengjast saman og því verður kvikan seigari eftir því sem hlutfall kísils er meira, auk þess sem kísilrík kvika er yfirleitt kaldari en kísilsnauð kvika 

Ljósmynd Þóra Björg Andrésdóttir. 

Ljósfæri fiska

Ljósfæri fiska

Ljósfæri fiska

 

 

Vissir þú að lirfur flatfiska eru sviflægar og með augun sitt á hvorri hlið eins og hjá öðrum beinfiskum? Við lok lirfustigs fer af stað myndbreyting hjá lirfunni. Annað augað færist yfir á gagnstæða hlið (augnhlið) og um leið skekkist kjafturinn og bein hauskúpunnar sem verða ósamhverf. Magi og görn vindast til. Flatfiskar eru botnfiskar sem liggja og synda á blindu hliðinni, en stærri flatfiskategundir eins og lúða, grálúða og sandhverfa leita upp í sjó og verða fiskætur þegar þær stækka. Augnhliðin er dökk og liturinn gjarnan breytilegur eftir botnlagi og lit botns en blinda hliðin er ljós eða alveg hvít.  

 

©Jón Baldur Hlíðberg, fauna.is

Brandönd

Brandönd

Brandönd (Tadorna tadorna)


Útlit og atferli

Brandöndin er stór og skrautleg önd sem minnir talsvert á gæs og tilheyrir svokölluðum gásöndum. Í fjarska virðist brandönd vera hvít með dökkt höfuð. Höfuðið er svart og hálsinn með grænni slikju, og brúnt belti nær upp á bakið. Dökk rák nær frá bringu eftir endilöngum kviði aftur á gump. Gumpurinn er gulur og stélið dökkt í endann. Axlarfjaðrir eru svartar og hand- og armflugfjaðrir svartleitar með grænum spegli. Að öðru leyti er vængurinn hvítur. Kynin eru mjög lík, steggurinn er þó litríkari en kollan, auk þess sem hann hefur dökkrauðan hnúð við goggrót. Fullorðnir fuglar í fjaðrafelli eru ljósari og litdaufari og minna á ungfugla. Ungfuglar eru mógráir að ofan, hvítleitir á vöngum og framhálsi og án brúna bringubeltisins.

 

 

Brandandarsteggur á flugi á Djúpavogi.

Brandandarhjón á Djúpavogi.

Goggur beggja kynja er rauður, en steggurinn er með rauðan hnúð sem er einkum áberandi á varptíma. Fætur eru bleikrauðir. Ungfuglar eru með grábleikan gogg og fætur. Brandöndin er þögul nema á varptíma, þá heyrist lágstemmt flaut og tíst frá steggnum en kvak og garg frá kollunni.

Brandendur eru léttar á sundi, léttar til gangs og hefja sig snöggt til flugs, án tilhlaups. Áberandi hálslangar á flugi. Minna því mjög á gæsir, auk þess sem kynin sjá saman um uppeldi unga eins og hjá þeim. Liturinn greinir þær þó alltaf frá gæsum.

Brandandarsteggur í biðilsham á Djúpavogi.

Nýfleygir brandandarungar á flugi í Borgarfirði.

Brandandarsteggir takast á í Sandviki við Ölfusá.

Lífshættir

Brandöndin leitar ætis á yfirborði leira, hreyfir hausinn til hliðanna og notar gogginn til að sía úr leðjunni þörunga, snigla, smáskeljar, skordýr og orma. Hálfkafar einnig á grunnu vatni.

Kjörlendi brandandar eru leirur og grunnsævi. Erlendis verpur hún gjarnan í kanínuholum nærri sjó. Hér á landi hafa hreiður fundist í húsum, undir sumarbústöðum, á ruslahaugum, undir gömlum bátum og víðar. Í Breiðafirði ættu lundaholur að gagnast sem varpholur. Hreiðrið er dæmigert andahreiður, fóðrað með dúni. Eggin eru 8–11, hún liggur á í rúmar fjórar vikur og ungarnir verða fleygir á um 7 vikum.

Brandandahópur á flugi í Borgarfirði.

Brandandarhjón með nýklakta unga í Borgarfirði.

Brandandarhreiður í Hamarsfirði.

Brandandarkolla með stálpaða unga á Bakkatjörn, Seltjarnarnesi.

Landnám, útbreiðsla og stofnstærð

Brandöndin er að mestu farfugl. Hún var strjáll flækingur hér á landi þar til árið 1990 er hún varp í fyrsta sinn svo vitað sé, í Eyjafirði. Síðan hefur henni fjölgað jafnt og þétt og verpur nú í flestum landshlutum, þó síst um miðbik Austurlands og Suðurland. Höfuðstöðvar brandandar eru í Borgarfirði. Íslenski stofninn er talinn vera um 300 varppör og verpa 60% í Borgarfirði. Þar sjást síðsumars hundruð brandanda, allt að 1400, að stórum hluta geldfuglar en einnig um 160 varppör með unga. Aðrir mikilvægar varpstöðvar eru í Breiðafirði og á Melrakkasléttu. Íslenskir fuglar eru að stærstum hluta farfuglar, en ekki er vitað hvar þeir halda sig á veturna. Stöku fuglar sjást þó stundum um hávetur. Brandönd verpur með ströndum fram víða í Evrópu og austur um miðbik til Kína.

Núverandi varpútbreiðsla brandandar.

Þjóðtrú og sagnir

Eins og með aðra nýja landnema, hefur engin þjóðtrú orðið til kringum brandöndina.

 

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson