Náttúrufræðingurinn er kominn út

Náttúrufræðingurinn er kominn út

Nýr Náttúrufræðingur kominn út

Út er komið 2.-3. hefti Náttúrufræðingsins, 90. árgangs. Í heftinu er m.a. fjallað um nýlegar rannsóknir og kenningar á viðhofum ferðamanna til óspilltrar náttúru og víðerna en einnig um ferðir yfir Vatnajökul til forna. Þá er fjallað um friðrildi og tunglfisk en forsíðugreinin er um búsvæði og vernd vaðfugla á Íslandi. Nýja heftið er 80 bls. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir.

Vaðfuglalandið Ísland

Tómas Grétar Gunnarsson skrifar um Búsvæði og vernd íslenskra vaðfugla. Ísland er einstakt vaðfuglaland en þeir eiga margir í vök að verjast vegna hnignandi búsvæða. Skýringarinnar er að leita í hlýnandi loftslagi en einnig í breyttum búskaparháttum og aukinni skógrækt. Nokkrir vaðfuglar, t.d. heiðlóa og hrossagaukur, eru svokallaðar ábyrgðartegundir á Íslandi, sem þýðir að hátt hlutfall Evrópustofns tegundarinnar verpir hér eða fer um landið í miklum mæli á fartíma. Í greininni tekur Tómas Grétar saman niðurstöðu rannsókna á búsvæðum vaðfugla á Íslandi og setur fram tillögur um vernd þeirra, sem byggjast á núverandi þekkingu á búsvæðavali fuglanna.

Ferðir yfir Vatnajökul til forna

Umferð um óbyggðir virðist hafa verið almennari á fyrstu öldum eftir landnám en síðar varð, bæði til Alþingis og til verstöðva landshluta á milli. Þar á meðal voru ferðir yfir Vatnajökul, en kólandi veðurfar 1300–1900, framgangur skriðjökla ásamt vaxandi beyg af útilegumönnum varð til þess að slíkar ferðir lögðust af og dró þá fljótt úr þekkingu manna á hálendinu. Hjörleifur Guttormsson hefur ritað þrjár greinar fyrir Náttúrufræðinginn um ferðir yfir Vatnajökul til forna. Sú fyrsta nefnist Vatnajökull og grennd í tímans rás – minni jökull í grænna umhverfi.

Daniel Bruun ríður hér úr Maríutungum upp á Brúarjökul 3. ágúst 1901 í fylgd Elíasar Jónssonar á Aðalbóli. Teikning Daniel Bruun.

Ferðamennska um víðerni og óbyggðir

Ferðamennska á mannöld – Jarðsambönd ferðafólks við virkjanir nefnist grein eftir Edward H. Huijbens og fjallar um samband ferðafólks við virkjanir og víðerni. Edward greinir frá könnun meðal ferðafólks á Hengilssvæðinu sumarið 2017 og fjallar um þá þversögn að þrátt fyrir að gestir verði varir við ýmis ummerki mannvistar og virkjanaframkvæmda upplifa þeir svæðið sem víðerni og ósnortna náttúru.

Rannveig Ólafsdóttir og Anna Dóra Sæþórsdóttir skrifa um merkingu hugtakanna víðerni, óbyggðir og miðhálendi í fyrri grein sinni um Hálendið í hugum Íslendinga. Þær beina sjónum að uppruna þessara hugtaka og greina frá niðurstöðum spurningakönnunar sem gerð var meðal Íslendinga á afstöðu til þeirra. Niðurstöðurnar sýna að Íslndingar eru mun umburðarlyndari gagnvart mannvirkjum á víðernum en á miðhálendinu og í óbyggðum.

Á fjöllum. Ljósm. Anna Dóra Sæþórsdóttir.

Tunglfiskur, 32 cm langur. Ljósm. Jónbjörn Pálsson.

Tunglfiskar við Ísland

Ólafur S. Ástþórsson og Jónbjörn Pálsson hafa tekið saman gögn um fund tunglfiska við Ísland. Greinin nefnist Tunglfiskur (Mola mola) á Íslandsmiðum í ljósi veðurfarsbreytinga.

Tunglfiskar geta orðið yfir þrír metrar á lengd og tvö tonn að þyngd. Tunglfiskurinn lifir í hitabeltinu og í tempruðum hafsvæðum, en skráð hafa verið 32 tilfelli þar sem þennan sérkennilega fisk hefur rekið á fjörur, hann sést eða veiðst við Ísland allt frá 1845. Komunum fjölgaði verulega í upphafi 21. aldar og sérstaklega árið 2012 þegar 7 tilfelli voru skráð. Rímar það við hækkandi yfirborðshita í Norður-Atlantshafi en flesta tunglfiskana hefur rekið á fjörur á suður- og vesturströndinni þar sem aðflæði hlýs Atlantshafssjávar er mest.

Nokkrir  fiskar yfir 2 metrar á lengd hafa fundist við Ísland, t.a.m. rak einn á land 1. ágúst 2012 sem var 202 cm á lengd.

Rauðvínssólgin fiðrildi

Næturfiðrildi virðast sólgin í rauðvín ef marka má tilraun Björns Hjaltasonar, sem safnaði auðveldlega 8 tegundum þeirra á bönd sem legið höfðu í rauðvíni. Markmiðið var að ljósmynda fiðrildin og greina til tegunda. Grein Björns nefnist Fiðrildi næturinnar fönguð og í henni má fræðast betur um veiðiaðferðina.

Auk framangreinds er í 2.–3. hefti Náttúrufræðingsins skýrsla stjórnar og reikningar Hins íslenska náttúrufræðifélags fyrir árið 2019, ritdómur um bók Helga Hallgrímssonar, Vallarstjörnur, einkennisplöntur Austurlands og leiðari sem ritstjóri skrifar í tilefni af 90. árgangi Náttúrufræðingsins.

Aðmíráll sem settist á rauðvínsband í september 2019. Ljósm. Björn Hjaltason.
Mars eða Venus?

Mars eða Venus?

Mars eða Venus?

 

Þessa dagana sjást reikistjörnurnar Venus og Mars á himinhvolfinu en þó ekki samtímis. 

Mars er núna óvenju nálægt jörðinni, og skín rauðbjartur á austurhimninum á kvöldin. Rauði bjarminn stafar af yfirborði plánetunnar sem er rauðleitt af völdum járnríks yfirborðsjarðvegs. En vissir þú að á Mars er stærsta eldfjall sólkerfisins? Það er hið risavaxna Ólympusfjall, sem er þrisvar sinnum hærra en Everest og jafnstórt og Ísland að flatarmáli. 

Venus, tvíburasystir Jarðar, sést hins vegar núna sem morgunstjarna. Það gerist á tæplega tveggja ára fresti og sést Venus þá hátt á austurhimni við sólarupprás. Venus er svipuð að stærð og Jörðin en yfirborðið er afar heitt og ólífvænlegt. 

Við mælum með Stjörnufræðivefnum sem geymir ítarlegan og skemmtilegan fróðleik um sólkerfið. 

Ljósmynd: Þorfinnur Sigurgeirsson. 

Hrygning urriðans í Öxará

Hrygning urriðans í Öxará

Hrygning urriðans í Öxará

Þingvellir skarta einstakri náttúrufegurð á haustin. Hluti af tilbrigðum þeirrar fegurðar er urriðinn sem þá gengur til hrygningar í Öxará úr Þingvallavatni. Fjöldi urriðanna er slíkur að árbotninn virðist hreinlega kvikur.

 

Stór hrygningarstofn

Árlegar rannsóknir á göngum urriðans á riðin í Öxará hafa sýnt að stofn urriðans sem hrygnir þar hefur vaxið gríðarlega frá síðustu aldamótum, eða frá því að vera innan við eitthundrað fiskar í það að vera á þriðja þúsund fiskar. Það er því ekki að undra að líflegt sé um að litast þegar allur sá fjöldi kemur saman á hrygningarstöðvunum sem spanna aðeins tæplega eins kílómetra langan kafla; frá flúðunum neðan Drekkingarhyls og niður undir árósinn. Urriðinn í Öxará er stærsti stofn Þingvallaurriða en urriðastofninn í Ölfusvatnsá, sem rennur í sunnanvert Þingvallavatn, er einnig orðinn burðugur þótt mun minni sé.

Hundruð urriða (svartir flekkir í vatninu) á efsta hluta hrygningarsvæðisins í Öxará.

Hrygning urriðans nær hámarki í október. Fyrstu hrygningarfiskarnir birtast ýmist í ágúst eða september og þeir síðustu kveðja riðstöðvarnar ýmist í desember eða janúar. Á þeim tíma verða mikil umskipti í hitafari árinnar. Í upphafi blómstra ástir urriðans í blíðum árstraumi en ástarvakt síðhrygnandi urriða er hinsvegar kalsöm, ekki síst þegar áin umvafin ís silast áfram rétt ofan frostmarks.

Líf stórurriðans

Þingvallaurriðar eru svokallaðir stórurriðar og bera það nafn með réttu líkt og breiðfylking hrygningarurriðans í Öxará vitnar um. Helstu sérkenni stórurriðans eru annarsvegar þau að þeir ná mikilli stærð áður en þeir verða kynþroska og hinsvegar þau hversu gamlir þeir verða. Gnægð murtunnar, sem er smæsta bleikjugerðin í Þingvallavatni, stendur undir þessum mikla vexti hjá þingvallaurriðanum sem skilar sér í íturvöxnum urriðum í hundruða og þúsunda tali. Öflugur skrokkur stóruurriðanna gerir þeim kleift að skila miklu magni af hrognum og sviljum til hrygningarinnar, en nýtist auk þess á tvennan hátt öðru fremur þegar upp í Öxará er komið. Hjá hængunum kemur líkamsstærðin nefnilega við sögu þegar þeir berjast um hrygnurnar og hjá hrygnunum þegar þær grafa holur fyrir hrogn sín.

Hrygna á hrygningarholu og stórvaxinn hængur.

Hængarnir

Þegar fleiri en einn hængur eru um hverja hrygnu þá er það einatt stærsti hængurinn sem skipar sér næst hrygnunni og holu hennar. Vonbiðlar eru þó skammt undan, þeir meta kosti sína í stöðunni með því að gera atlögu að hængnum sem næstur er hrygnunni. Þá reynir sannarlega á stærð, krafta, skráp og tennur, því ekkert er til sparað þegar þeir synda bítandi hver í annan til að sannreyna styrkleika sinn. Á milli þessara áfloga meta hængarnir gjarnan styrk hvors annars án átaka og það atferli má sjá af árbakkanum líkt og slagsmálin sjálf. Þó fátíðir séu, þá finnast einnig á hverju hausti örfáir mjög smáir urriðahængar sem hafa náð snemmbærum kynþroska. Þeir eru ekki hæfir í slagsmál í þessum þungavigtarflokki og fara því aðrar leiðir til að ná sínu fram.

Urriðahængur ræðst að keppinaut sínum með hvoftinn upp á gátt.

Hrygnurnar

Hrygnurnar velja sér hrygningarsvæði í heppilegum straumi. Þær grafa holur í árbotninn með því leggjast á hliðina og lemja sporðstirtlunni og sporðblöðkunni síendurtekið í botninn. Í hvert skipti fer nokkuð af fíngerðasta botnsetinu upp í strauminn sem flytur það í burtu og eftir situr grófara set. Hængur eða hængar bíða átekta og athuga reglulega hvort hrygnan er tilleiðanleg í hrygningu með því að synda upp að hlið hennar og skjálfa þar örskotsstund. Oftast skilar það engu en inn á milli koma stóru stundirnar þegar samstilltur titrandi ástarbrími hængs og hrygnu skilar samtímis hrognum og sviljum í holuna góðu sem hrygnan grefur síðan yfir.

Íhugul urriðahrygna.

Samsetning hrygningarstofnsins

Þingvallaurriðinn getur orðið allt að 19 ára gamall og þetta langlífi ásamt þeirri hegðun hans að hrygna árum saman yfir æviskeið sitt, gerir það að verkum að á riðunum í Öxará eru samankomnir urriðar af 15 árgöngum eða fleiri þegar best lætur. Mikil fjölbreytni er í þeim hópi, allt frá rígavænum hængum og hrygnum sem eru yfir 10 kíló að þyngd til horaðra gamalla urriða sem hafa hrygnt þar árum saman, og eru þá gjarnan að sækja sinn síðasta ástarfund líkt og holdafarið vitnar um.

Urriðapar.

Tignarlegir urriðarnir í Öxará eru náttúrugersemi. Þeir hafa lifað í Þingvallavatni frá því að síðustu ísöld lauk og eru afkomendur ísaldarurriða sem lifði þá víða um norðurhvel. Það er okkar Íslendinga að sjá til þess eftir fremsta megni að urriðinn syndi áfram um víðáttur vatnakerfis Þingvallavatns um ókomna tíð.

Höfundur texta og neðanvatnsmynda: Jóhannes Sturlaugsson.

Heimildir:

Jóhannes Sturlaugsson. Óbirt gögn frá rannsóknum í Öxará. Laxfiskar.

Ítarefni

Jóhannes Sturlaugsson. Þingvallaurriðinn – Upplýsingar um lífshætti og rannsóknir. Laxfiskar.

Sótt 21.10.2020 af  http://laxfiskar.is/index.php?option=com _content&view=article&id=130&Itemid=145&lang=is

 

 

 

Vestmannaeyjar

Vestmannaeyjar

Horft í suðaustur yfir Víti og Öskjuvatn.

Vestmannaeyjar. Ljósm. Hlynur Bergvin Gunnarsson.

Vestmannaeyjar

Vestmannaeyjar er eyjaklasi suður af Íslandi og tilheyrir samnefndu eldstöðvakerfi. Í klasanum eru um 15 eyjar og 30 sker. Eldstöðvakerfið er 30–35 km langt og 20–25 km breitt, um 10–30 km úti fyrir suðurströnd landsins. Kerfið tilheyrir Austurgosbeltinu þar sem það teygir sig til suðurs og út í sjó. Í eldstöðvakerfi Vestmannaeyja er hvorki fullmótuð megineldstöð né sprungusveimur. Talið er að eldvirkni hafi byrjað á þessum slóðum fyrir 70–120 þúsund árum og hafa allmiklar rannsóknir farið fram á eldstöðvakerfi Vestmannaeyja og hafsbotninum í kring.

Vestmannaeyjar eru merktar með rauðum punkti á kortið.

Vestmannaeyjar. Lega eyjaklasans sést vel úr lofti, en hann liggur í sömu stefnu og Austurgosbeltið gerir uppi á landi, SV_NA. (Sentinel-2 gervitunglamynd frá COPERNICUS EU).

Surtseyjargosið 1963–1967 tilheyrir eldstöðvakerfi Vestmannaeyja og er það þekkt sem fyrsta gos sinnar tegundar sem vísindamenn gátu fylgst með. Gosið varð sýnilegt 14. nóvember 1963 á 128 m dýpi. Vegna þess að gosið var á sjávarbotni fylgdi því mikil sprengivirkni þegar heit kvikan komst í snertingu við kaldan sjóinn. Þessi gerð af eldgosi kallast tætigos eða Surtseysk eldgos (e. Surtseyan eruption), kennt við Surtsey og eldvirknina sem fylgdi þegar eyjan myndaðist. Sprengivirkninni lauk 4. apríl 1964 og höfðu þá tveir gígar myndast. Þá náði eyjan hæst 174 m yfir sjávarmál og hafði náð þeirri stærð að áhrif sjávar hömluðu ekki lengur gosvirkninni. Þá hófst kvikustrókavirkni og flæðigos og við það hlóðst upp hraundyngja fram til 17. maí 1965. Síðasti fasi gossins tók við 19. ágúst 1966 með flæðigosi sem lauk 5. júní 1967.

Á tímum Surtseyjargosins hafði flekakenningin ekki náð almennri viðurkenningu, en síðar kom í ljós að gosið renndi stoðum undir kenninguna þar sem Surtsey markar enda gosbeltis sem sækir til suðurs. Einnig jók eldgosið skilning á myndun móbergs og sannaði í reynd stapakenninguna sem Guðmundur Kjartanson jarðfræðingur setti fram árið 1943. Með gosinu var staðfest að myndun móbergs úr gosgleri er hraðvirkt ferli og að líta má á hana sem hluta af sjálfu eldgosinu.

Kjarnar hafa verið boraðir í Surtsey til að rannsaka móbergið og þá ummyndun sem á sér stað þegar það myndast. Fyrsti borkjarninn var tekinn árið 1979 en 2017 var sett á laggirnar fjölþjóðlegt rannsóknarverkefni í Surtsey í því skyni að taka tvo borkjarna í eyjunni. Með þessari rannsókn var innri bygging eyjarinnar skoðuð sem og þróun jarðhitans. Í Surtsey er einstakt tækifæri til að fylgjast með þróun og ágang sjávarrofs sem og landnámi lífvera. Náttúrufræðistofnun Íslands sér um árlegar rannsóknarferðir í eyjuna, sem er friðuð og engum heimilt að stíga þar á land án sérstaks leyfis Umhverfisstofnunar.

Surtsey séð úr lofti. Ljósm. Jeffrey Hapeman.

Hraunið frá Heimaeyjargosinu eyðilagði um 400 hús þar sem það rann inn í bæinn. Ljósm. Jón Ingi Cæsarsson.

Eldfell er gjallgígur á Heimaey, sem er stærsta eyjan í klasanum. Eldfell er rúmlega 200 m hátt og myndaðist í einu eldgosi, Heimaeyjargosinu sem hófst 23. janúar 1973 og lauk rúmum fimm mánuðum seinna, 3. júlí sama ár. Eldgosið kom heimamönnum alveg að óvörum og þurfti að flytja um 5.300 íbúa burt af eyjunni í skyndingu. Eldgosið var dæmigert sprungugos sem olli því að talsvert hraun rann um eyjuna. Um þriðjungur húsa í bænum eyðilagðist, eða um 400 hús, bæði af völdum hrauns og gjóskufalls. Eftir að eldgosið hafði varað í um þrjár vikur hafði gjallgígurinn Eldfell myndast. Þegar eldgosinu lauk hafði myndast um 2,2 km2 af nýju landi við Heimaey.

Lífæð Vestmannaeyja, Friðarhöfninni, stafaði töluverð hætta af hraunrennslinu. Höfnin er mjög mikilvæg fyrir atvinnulíf Eyjamanna sem byggist á útgerð og fiskvinnslu, en einnig fyrir öryggi bæjarbúa. Var gripið til þess ráðs að dæla sjó á hraunið til að hægja á ferð þess og flýta fyrir storknun. Þannig tókst að bjarga um 200 húsum og höfninni sjálfri, sem hefði ella getað lokast. Mikið hreinsunarstarf var unnið eftir að gosi lauk og fluttu flestir íbúanna til baka. Gosminjasýningin Eldheimar var sett upp 40 árum eftir Heimaeyjargosið þar sem þessu óvænta gosi og atburðarrásinni eru gerð skil. Á sýningunni er m.a. hús sem grafið var upp úr gjóskunni sem lagðist yfir stóran hluta bæjarins.

Gígarnir Eldfell og Helgafell rísa tignarlega yfir Vestmannaeyjabæ. Ljósm. Kristín Sigurgeirsdóttir.

Horft til Vestmannaeyja. Ljósm. Hugi Ólafsson.

Ítarefni

Ármann Höskuldsson. 2019. Vestmannaeyjar. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 30.9.2020 af http://islenskeldfjoll.is/?volcano=VES#.

Ármann Höskuldsson, Einar Kjartansson, Árni Þór Vésteinsson, Sigurður Steinþórsson & Oddur Sigurðsson. 2013. Eldstöðvar í sjó. Bls. 403–425 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Eldheimar. Um Eldheima. Sótt 6.10.2020 af http://eldheimar.is/about-museum/.

International Continental Scientific Drilling Program. Surtsey Volcano Drilling Project. Sótt 6.10.2020 af https://www.icdp-online.org/projects/world/europe/surtsey/.

Sveinn P. Jakobsson. 1978. Environmental factors controlling the palagonitization of the Surtsey tephra, Iceland. Bulletin of the Geological Society of Denmark 27. 91–105.

Trausti Einarsson. 1970. Yfirlit yfir jarðsögu Vestmannaeyja. Náttúrufræðingurinn 40. 97–144. Sótt 1.10.2020 af https://timarit.is/page/4270348#page/n0/mode/2up.

Haustlægðir og flækingsfuglar 

Haustlægðir og flækingsfuglar 

Haustlægðir og flækingsfuglar

Haustlægðir sem ganga yfir landið bera stundum með sér flækingsfugla, ýmist frá N-Ameríku eða Evrópu og Síberíu, allt eftir því hvernig vindar blása. Þetta eru nær eingöngu fuglar sem hrakist hafa af farleið sinni milli sumar- og vetrarstöðva. 

Með lægðinni sem gekk yfir landið nú um helgina bárust fléttuskríkja (fyrri myndin) og græningi (seinni myndin), en heimkynni þessara spörfugla eru í N-Ameríku. 

Þessi árstími er gósentíð fuglaskoðara. Þeir fylgjast grannt með veðurspám og rjúka til í leit að flækingsfuglum um leið og lægð er gengin yfir landiðMyndataka er snar þáttur í þessu áhugamáli. Helstu svæðin sem leitað er á eru Suðurnes, undir Eyjafjöllum, Vestmannaeyjar, Suðursveit, Hornafjörður og allt norður í Stöðvarfjörð. 

 

 

Fléttuskríkja. Ljósm. Þorfinnur Sigurgeirsson.

Græningi. Ljósm. Þorfinnur Sigurgeirsson.