Náttúrufræðingurinn kominn út!

Náttúrufræðingurinn kominn út!


Út er komið 1.–2. hefti Náttúrufræðingsins, 91. árgangs. Í heftinu er m.a. sagt frá fari þorsks við Íslandsstrendur og hvaða upplýsingar merkingar í hundrað ár hafa veitt um göngur, atferli og stofngerð íslenska þorsksins. Áfram er fjallað um ferðir yfir Vatnajökul fyrr og nú, sagt frá súlum sem leita á fornar varpslóðir á Hornströndum og lúsflugunni snípuluddu sem leggst á fiðurfé. Loks er fjallað um fuglakóleru sem drap æðarfugl í varpi á Hrauni á Skaga 2018 og 2019, um Gilsárskriðuna í Eyjafirði 2020 og grænþörunginn Ulothrix í ferskvatni á Íslandi.

Heftið er 92 bls. Útgefendur eru Hið íslenska náttúrufræðifélag og Náttúruminjasafn Íslands. Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttir, líffræðingur.

Heimakærir þorskar

Þorskur er mikilvægasta tegund botnfiska á Íslandsmiðum. Mestur varð þorskaflinn 1954, tæp 550 þúsund tonn, en hefur verið um 260 þúsund tonn á síðustu árum. Þorskar eru merktir til að greina far, atferli og stofngerð en fyrsti þorskurinn var merktur hér við land 1904. Endurheimt merki sýna m.a. að eftir hrygningu við suðurströndina leitar þorskur aðallega á fæðusvæði norðvestur og austur af landinu og ennfremur að greina má þorskstofninn í tvær atferlisgerðir, grunnfarsþorska  sem halda sig á minna en 200 m dýpi allt árið, og djúpfarsþorska sem halda sig í hitskilum á fæðutíma. Þorskurinn sýnir tryggð við hrygningarsvæðin og þó egg og lirfur berist með straumum frá Íslandi til Grænlands leitar þorskurinn aftur til Íslands til að hrygna þegar kynþroska er náð. Höfundar greinarinnar eru Ingibjörg G. Jónsdóttir, Jón Sólmundsson, Einar Hjörleifsson, Magnús Thorlacius og Hjalti Karlsson.

Súlur sækja á gömul mið

Súlur verpa nú á níu stöðum við Ísland, aðallega við sunnan- og vestanvert landið. Vitað er um fimm aðra staði þar sem súlur hafa orpið en þau vörp eru nú horfin. Talið er að súlur hafi ekki orpið á Hornströndum í tvær aldir en sumarið 2016 sást súla á hreiðri á Langakambi undir Hælavíkurbjargi. Fylgst hefur verið með tilraunum súlna til varps á þessum fornu varpstöðvum frá 2016 og á hverju ári hefur fundist stakur hreiðurhraukur á sama stað. Við athugun á eldri ljósmyndum kom í ljós að súlur höfðu byggt sér hreiður á Langakambi 2014. Því er ljóst að súlur hafa lengi verið að huga að mögulegu varpi á þessum slóðum. Höfundar eru Ævar Petersen, Christian Gallo og Yann Kolbeinsson.

Súla á hreiðri á Langakambi undir Hælavíkurbjargi 2016. Ljósm: Klaus Kiesewetter. 

Yfir þveran Vatnajökul

Hjörleifur Guttormsson hefur ritað þrjár greinar í Náttúrufræðinginn um ferðir yfir Vatnajökul allt frá því land byggðist og fram undir okkar daga. Þriðja og síðasta greinin nefnist Vatnajökull og grennd í tímans rás – Endurvakin kynni en breytt erindi. Hér er fjallað um ástæður þess að ferðir yfir Vatnajökul lögðust af og að hálendið varð flestum lokuð bók í hátt í tvær aldir. Síðla á 18. öld beindust sjónir manna hins vegar á ný að hálendisleiðum, þar á meðal fram með Vatnajökli norðan- og austanverðum. Sérstaklega er fjallað um Grímsvötn fyrr og síðar, en þau eru að líkindum nafngjafi Vatnajökuls.

Kortið sýnir helstu ferðir útlendinga um og yfir Vatnajökul 1875–1956. Uppdráttur: Guðmundur Ó. Ingvarsson.

Fuglakólera í æðarvarpi

Fuglakólera leiddi til fjöldadauða í æðarvarpi á Hrauni á Skaga 2018 og 2019 og var það í fyrsta sinn sem veikin greindist hér á landi. Fuglakólera er bakteríusýking – alls óskyld þeirri sem veldur kóleru í mönnum ­– og er sjúkdómurinn einn af þeim skæðustu sem herjar á villta fugla. Oftast drepst allt að 30% fugla í varpi skyndilega án sýnilegra ytri einkenna og hefur pestin valdið dauðsföllum í æðarvörpum í N-Ameríku síðan um 1960 og í Evrópu síðan 1991. Oftast gengur sjúkdómurinn yfir á nokkrum árum.Þekktar mótvægisaðgerðir eru fáar en brýnast er að hindra að sýktir fuglar beri sjúkdóminn víðar. Höfundur greinarinnar er Jón Einar Jónsson.

Dauðar æðarkollur í varpi á Hrauni á Skaga vorið 2018. Ljósm. Merete Rabelle.

Snípuludda og farþegar hennar

Fiðurmítlar og naglýs eru algeng sníkjudýr á fuglum. Lífsferill þeirra er einfaldur og tíðast að smitleiðin sé á milli fugla sömu tegundar, en lúsflugur geta líka komið við sögu sem smitferjur. Svavar Ö. Guðmundsson, Karl Skírnisson og Ólafur K. Nielsen leituðu svara við því hvaða sníkjudýr nýta sér lúsflugur til dreifingar milli fugla á Íslandi. Niðurstöðurnar sýna að ein lúsflugutegund, snípuludda, er landlæg hér og er lífsferli hennar lýst. Flugunni var safnað á 13 fuglategundum og á henni fundust þrjár tegundir fiðurmítla. Engin tilvik fundust um að naglýs festu sig við snípuluddu.

Lúsmýið snípuludda – kvenfluga með nær fullþroska lirfu innvortis. Ljósm. Svavar Ö. Guðmundsson. 

Auk framangreinds er í 1.–2. hefti Náttúrufræðingsins sagt frá sífrera í Gilsárskriðunni sem féll í Eyjafirði 6. október 2020 – höfundur er Skafti Brynjólfsson; grænþörungnum ullþræði Ulothrix í ferskvatni á Íslandi – höfundur er Helgi Hallgrímsson; ennfremur leiðara sem Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor ritar um Þjóðargersemi á miðhálendi Íslands, eftirmæli um Jakob Jakobsson, fiskifræðing sem lést í október 2020 og ritdóm um stórvirki Örnólfs Thorlacius, Dýraríkið, sem út kom að honum látnum á síðasta ári. Þá er í heftinu skýrsla stjórnar HÍN fyrir árið 2020 og reikningar félagsins fyrir sama ár.

Skriðan féll úr um 850 m hæð niður í Gilsá í Eyjafirði um tveggja km leið. Hún var um 150–200 metrar þar sem hún var breiðust og stöðvaðist rétt ofan við bæjarhúsin á Gilsá. Ljósm. Skafti Brynjólfsson. 
Dagur hinna villtu blóma

Dagur hinna villtu blóma

Plöntuleit og greining í Öskjuhlíðinni

Náttúruminjasafn Íslands tekur þátt í samnorrænum viðburði, Degi hinna villtu blóma, sunnudaginn 20. júní frá kl. 14 til 16. Gengið verður um Öskjuhlíðina, leitað að plöntum og þær greindar en einnig brugðið á leik og leitað að nokkrum algengum plöntutegunum. Gestum verður jafnframt boðið að skoða sýningu safnsins, Vatnið í náttúru Íslands.

Þátttaka er ókeypis, mæting í andyri Perlunnar er kl. 14.

Tilgangur dagsins er að stuðla að áhuga almennings á íslensku flórunni. Gróður í Öskjuhlíðinni hefur tekið miklum breytingum á síðustu áratugum. Stór svæði hafa verið tekin undir skógrækt en enn má finna staði sem gefa vísbendingu um fyrra gróðurfar.

 

Skúmur

Skúmur

Skúmur (Stercorarius skua)


Skúmur er af kjóaætt og af ættbálki strandfugla, eins og vaðfuglar, máfar, þernur, svartfuglar o.fl. Þrír nánir ættingjar hans halda sig hér eða sjást reglulega, kjói er varpfugl, fjallkjói er umferðarfugl og sjaldgæfur varpfugl og ískjói er umferðarfugl eða fargestur.

 

Útlit og atferli

Skúmur er einkennisfugl hinna miklu sanda sunnan- og suðaustanlands. Honum svipar til kjóa en er þó mun stærri og þreknari, minnir á stóran, dökkan, hálsstuttan máf. Kvenfugl er sjónarmun stærri en karlfugl. Skúmurinn er dökkbrúnn með ljósbryddum fjöðrum á höfði, hálsi, bringu og baki. Ljósir blettir framarlega á væng eru einkennandi á þöndum vængjum. Vængirnir eru breiðir og snubbóttir, stélið stutt og breitt, miðfjaðrir lítið eitt lengri. Ungfuglar eru dökkbrúnir og jafnlitir. Goggurinn er svartur og sterklegur, krókboginn fremst, fæturnir sterklegir og svartir og augun einnig svört.

Skúmurinn gefur frá sér gargandi kokhljóð eða hrjúft nefhljóð á varpstöðvum.

Skúmurinn er mjög kröftugur flugfugl og ótrúlega fimur þrátt fyrir þyngslalegan vöxt. Hann er árásargjarn við hreiður sitt og hikar ekki við að ráðast að fólki. Eitt af sérkennum skúms er að þegar hann lendir lyftir hann vængjunum og eru hvítu vængblettirnir þá áberandi. Jafnframt eru vænglyftur með opnum goggi merki um árásarhneigð. Skúmur er félagslyndur á varpstöðvum en fer oft einförum utan þeirra.

Skúmapar með unga í Ingólfshöfða.

Skúmshreiður á Skógasandi.

Lífshættir

Sandsíli er líklega aðalfæða skúms, en hann lifir annars á fjölbreyttri fæðu úr dýraríkinu. Hann er þekktur fyrir að leggja aðra sjófugla í einelti, svo sem fýla, svartfugla, máfa og jafnvel súlur, og þvinga þá til að sleppa eða æla æti sínu. Hann drepur einnig aðra fugla sér til matar, bæði fullorðna og unga, og fer einnig í fiskúrgang.

Skúmur verpur aðallega í dreifðum byggðum á sjávarmelum og grónum aurum jökuláa, en stundum í höfðum og eyjum. Hreiðrið er dæld í jörðina, oft án hreiðurefna. Eggin eru tvö, álegan tekur um fjórar vikur og ungarnir verða fleygir á 6–7 vikum.

Ógnandi skúmur í Öræfum.

Skúmurinn í ríki sínu, Öræfajökull fjær.

Útbreiðsla, stofnstærð og staða á válista

Skúmur er farfugl. Um ¾ hlutar stofnsins verpa á Skeiðarársandi, í Öræfum og á Breiðamerkursandi. Slæðingur verpur utan hefðbundinnar útbreiðslu, aðallega á NA-verðu landinu. Engin heildartalning hefur verið gerð á skúmastofninum síðan 1984–1985. Þá var stærð stofnsins metin 5400 pör. En síðan hefur skúmi fækkað mikið í langflestum byggðum og er hann nú á válista sem tegund í bráðri hættu (CR: Critically endangered), sem er efsti hættuflokkur sem lífvera nær, fyrir utan að vera útdauð. Þó eru til menn sem stugga við skúmnum, þar sem hann er að reyna að nema land á nýjum stöðum.

Skúmurinn er úthafsfugl utan varptíma og heldur sig á veturna á Norður-Atlantshafi suður að miðbaug. Utan Íslands verpur hann aðallega á skosku eyjunum, en einnig í Færeyjum, Noregi, Rússlandi og norrænum eyjum eins og Bjarnarey, Svalbarða, Jan Mayen og austur til Novaja Zemlya. Þrjár náskyldar tegundir verpa á suðurhveli jarðar og er talið að norðurhvelsskúmurinn sé upprunninn þar.

Þjóðtrú og sagnir

Lítil þjóðtrú fylgir skúminum. Hann átti að vísa á fisk, eins og gjarnt er um sjófugla, sérstaklega þótti hákarlaveiðimönnum lán af návist skúms.

Séð hef ég köttinn syngja á bók,
selinn spinna hör á rokk,
skötuna elta skinn í brók,.
skúminn prjóna smábandssokk.

Kunn öfugmælasvísa

Fullvaxinn skúmsungi í Ingólfshöfða.

Skúmur ógnar ljósmyndaranum í Öræfum.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Líffræðileg fjölbreytni

Líffræðileg fjölbreytni

Dagur líffræðilegrar fjölbreytni    

Fréttatilkynning frá Náttúruminjasafni Íslands í tilefni af 22. maí,
degi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni.

Náttúruminjasafn Íslands gerðist nýlega þátttakandi í alþjóðlegum samstarfsvettvangi til verndar líffræðilegri fjölbreytni, Global Coalition #UnitedforBiodiversity, og er safnið fyrsta stofnunin á Íslandi sem stígur það skref.

Þverþjóðlegt samstarf rannsókna- og fræðslustofnana um verndun líffræðilegrar fjölbreytni markar ný tímamót í viðbrögðum alþjóðasamfélagsins við þeim alvarlega vanda sem steðjar að mannkyni vegna ósjálfbærrar umgengni okkar við náttúruna. Þótt við séum fá hér á Íslandi getum við lagt margt gott til í öflugu samstarfi á sviði vísinda og fræðslu og með góðum fordæmum í sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, þ.m.t. verndun hennar. Þátttaka Náttúruminjasafnsins í alþjóðlegu átaki til verndar líffræðilegri fjölbreytni verður vonandi til þess að hvetja aðrar stofnanir til dáða þannig að standa megi vörð um búsvæði og lífríki á Íslandi og á hnettinum öllum, segir Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminasafns Íslands.

Meiri ógn steðjar að líffræðilegri fjölbreytni en nokkru sinni á okkar tímum og telja vísindamenn að vegna athafna mannsins sé allt að ein milljón tegunda nú í útrýmingarhættu í heiminum. Þessu til viðbótar er fjölbreytni innan tegunda og þeir ferlar sem stýra og viðhalda líffræðilegri fjölbreytni í hættu vegna eyðingar búsvæða og vistkerfa. Náttúruminjasafn Íslands er stolt af þátttöku í þessu verkefni ásamt ríflega 200 stofnunum og samtökum um allan heim sem hafa skuldbundið sig til að vernda fjölbreytileika lífríkis á jörðinni.

Virginijus Sinkevicius framkvæmdastjóri Evrópusambandsins á sviði umhverfismála ýtti á árinu 2020 úr vör heimsátaki sem nefnist „Samstaða um líffræðilega fjölbreytni“. Var það í aðdraganda CoP 15 fundar Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni sem Kína mun hýsa í október n.k. þar sem áætlanir um vernd líffræðilegrar fjölbreytni á næsta áratug verða samþykktar. Hvatt er til þess að dýragarðar, grasagarðar, rannsóknastofnanir, háskólar, sædýra- og vatnalífsgarðar og söfn taki upp hanskann fyrir náttúruna og skori á leiðtoga og ráðamenn til að setja metnaðarfull markmið sem veita líffræðilegri fjölbreytni raunverulega vernd á hnattræna vísu.

„Grasagarðar heimsins, dýragarðar, almenningsgarðar, söfn, rannsóknastofnanir, sædýra- og vatnalífsgarðar sýna okkur berlega hvað það er sem við þurfum að vernda og koma aftur í samt lag. Við verðum án tafar að grípa til aðgerða á öllum sviðum og stigum, á heimavelli jafnt og á heimsvísu, ella verða þetta einu staðirnir þar sem við getum upplifað náttúruna. Þá væri mannkyn komið í þrot. Það er kominn tími til að við endurtengjum okkur við náttúruna.“  – Virginijus Sinkevičius

Líffræðileg fjölbreytni á Íslandi og einstök vistkerfi

Líffræðileg fjölbreytni og búsvæði á Íslandi eru einstök og helgast það einkum af landfræðilegri legu og einangrun landsins í Norður-Atlantshafi, ungum jarðfræðilegum aldri og mikilli eldvirkni. Vegna þess að aðeins eru liðin um tíu þúsund ár frá síðasta jökulskeiði, býr Ísland yfir ungum búsvæðum og kviku lífríki. Hér eru tiltölulega fáar tegundir ef miðað er við nágrannalöndin, en fjölbreytt búsvæði, einkum í tengslum við eldvirku beltin og ferskvatn. Þessar einstöku aðstæður veita lífverum óvenjuleg tækifæri sem kalla á sérhæfingu og sérstaka aðlögun. Ísland og hafið umhverfis landið er einnig heimkynni stórra stofna fugla, fiska og sjávarspendýra, bæði staðbundinna sem og far- og umferðartegunda, sem treysta á heilbrigða starfsemi vistkerfa í þessum norðlæga heimshluta.

Náttúruminjasafn Íslands og fjölbreytni náttúrunnar

Á Náttúruminjasafni Íslands eru stundaðar rannsóknir og miðlun upplýsinga um líffræðilega fjölbreytni á Íslandi. Lögð er áhersla á að greina, skrásetja, skilja og miðla upplýsingum um ferlana sem skapa og viðhalda líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi og hvernig þessir ferlar valda óvenju mikilli fjölbreytni innan tegunda. Þekkt dæmi um þetta er bleikjan (Salvelinus alpinus) í Þingvallavatni en þar hafa fjögur mjög ólík afbrigði þróast og nýtir hvert afbrigði sér mismunandi fæðu og búsvæði í vatninu. Með því að skrásetja og rannsaka þennan breytileika getum við öðlast skilning á því hvernig nýjar tegundir myndast og hvaða áhrif líffræðilegur breytileiki innan tegundar hefur á starfsemi vistkerfa.

Rannsóknir Náttúruminjasafnsins og samstarfsaðila munu efla og stuðla að alhliða þekkingu á líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi. Náttúruminjasafnið stefnir einnig að því að tryggja að niðurstöðum rannsóknanna verði miðlað og þær gerðar aðgengilegar almenningi, skólakerfinu og þeim sem koma að skipulagningu og stefnumótun um nýtingu náttúrunnar, þ.m.t. verndun.

Með undirritun áskorunar Alþjóða samstöðu um verndun líffræðilegrar fjölbreytni #UnitedforBiodiversity skuldbindur Náttúruminjasafn Íslands sig til að vernda líffræðilega fjölbreytni bæði á Íslandi og hnattrænt. Náttúruminjasafn Íslands skorar á allar stofnanir á Íslandi og um heim allan að taka þátt í þessu brýna verkefni.

Frekari upplýsingar um átakið Global Coalition #UnitedforBiodiversity og hvernig taka má þátt í því er að finna á vefsetrinu:

https://ec.europa.eu/environment/nature/biodiversity/coalition/index_en.htm

 

 

 

Sumarstörf

Sumarstörf

10 sumarstörf í boði á Náttúruminjasafninu

Náttúruminjasafn Íslands auglýsir í samstarfi við Vinnumálastofnun eftir 15 námsmönnum til að sinna fjölbreyttum verkefnum í sumar. Störfin tengjast rannsóknavinnu safnsins og gagnaskráningu. Nokkur starfanna eru úti á landi og sumum má sinna í gegnum netið hvar sem er á landinu svo fremi að gott netsamband sé fyrir hendi.

Námsmenn á háskólastigi með viðeigandi menntun eru hvattir til að sækja um. Umsóknir fara í gegnum vef Vinnumálastofnunar.

 

Hér er skrá yfir verkefnin og störfin á Náttúruminjasafni Íslands sem auglýst eru:

Skráning á steinasafni, Breiðdalsvík.
Störfin felast í flokkun, skráningu og pökkun á steinasafni í eigu Náttúruminjasafns Íslands, ásamt öðrum tilfallandi störfum. Störfin eru á Breiðdalsvík og verður starfsmönnum séð fyrir húsnæði.
2 jarðfræðinemar.

Skráning muna.
Flokkun og skráning safnmuna í geymslu safnsins.
1 nemi í bókasafns- og upplýsingafræði.

Steinagreining. 
Rannsóknarverkefni sem felst í að greina hluta stórs safns steina af erlendum uppruna, sem borist hafa með ís til norðausturhluta Íslands á nútíma. Auk þess að safna saman heimildum og textum tengdum bergsýnunum og mögulegum farleiðum þeirra. Áhugi og þekking á bergfræði og steinagreiningu nauðsynleg.
1 jarðfræðinemi.

Greining svifdýrasýna í ferskvatni.
Verkefnið felst í úrvinnslu, greiningu og grófflokkun á svifdýrasýnum úr ferskvatni sem þegar hefur verið safnað. Áhersla er á krabbadýr, sér í lagi skötuorma. Aðallega er um innivinnu að ræða, en vettvangsferðir koma til greina. Unnið er undir leiðsögn sérfræðinga. Viðfangsefnið gæti hentað sem námsverkefni.
1 líffræðinemi.

Textafræðingur
Verkefnið felst í að aðstoða fræðimenn við Náttúruminjasafnið við ritstjórn texta og fjölbreytta gagnaöflun um umhverfi og náttúru landsins í bókmenntatextum úr heimildum og orðasöfnum.
1 nemi í íslenskum fræðum.

Heimildarýnir
Verkefnið felst í að að skanna og skrifa upp dagbækur og önnur gögn á handritaformi úr Mývatnssveit frá 19. og 20. öld. Upplýsingar um náttúru- og veðurfar, veiði í Mývatni, og landnýtingu og nýtingu annarra náttúruauðlinda verða dregnar saman til birtingar á aðgengilegu formi. Áhersla verður á að skanna og skrifa upp dagbækur sem eru í einkasöfnum, bæði vinnufólks og bænda og sýn þeirra á náttúru svæðisins. Áhersla verður lögð á dagbækur bænda sem aðgang hafa að veiði í vatninu og þeirra sem nær einungis hafa aðgang að beitarlandi.
1 nemi í sagnfræði, staðþekking í Mývatnssveit æskileg.

Hrafnamiðlari
Sumarið 2020 söfnuðu námsmenn fjölbreyttu efni um hrafninn, bæði sem lífveru og sem „menningarfyrirbæri“, þ.e. hvernig hann birtist í þjóðtrú, munnmælum og bókmenntum. Nú þarf að vinna úr þessu efni stutta afmarkaða og myndskreytta texta til birtingar á vef Náttúrminjasafnsins, sem endurspegla fjölbreytt samspil lífverunnar (líffræðilegt) og fuglsins sem birtist í menningunni. Grunnhugmynd að baki þessu verkefni er að flétta saman líffræðilega og menningarlega fjölbreytni. Því byggist verkefnið á samstarfi nema í menningarfræðum og líffræði.
1 nemi í menningartengdum fræðum, Í MA námi eða langt kominn í BA námi.

Orðasafnari
Verkefnið felst í að safna orðum úr íslenskum fornbókmenntum sem tengjast náttúru í víðum skilningi, úr orðstöðulyklum og gagnasöfnum og aðstoða fræðimann við Náttúruminjasafn Íslands við úrvinnslu þessara gagna.
1 nemi íslenskum fræðum, með reynslu af fræðistörfum.

Rýnir á verðmæti fjölbreytni náttúrunnar
Verkefnið felst í að taka þátt í rannsóknum sérfræðinga Náttúruminjasafnsins á fjölbreytni náttúrunnar (t.d. líffræðilegri fjölbreytni), með áherslu á gildi náttúrunnar, og þá sérstaklega hvaða verðmæti hugtakið fjölbreytni felur í sér. Vinna mun felast í að skoða kenningar og greina fræðilega texta um þetta mikilvæga mál og tengja það við þekkingu á fjölbreytni íslenskrar náttúru.
1 nemi í heimspeki /náttúrusiðfræði.