Skúmur

Skúmur

Skúmur (Stercorarius skua)


Skúmur er af kjóaætt og af ættbálki strandfugla, eins og vaðfuglar, máfar, þernur, svartfuglar o.fl. Þrír nánir ættingjar hans halda sig hér eða sjást reglulega, kjói er varpfugl, fjallkjói er umferðarfugl og sjaldgæfur varpfugl og ískjói er umferðarfugl eða fargestur.

 

Útlit og atferli

Skúmur er einkennisfugl hinna miklu sanda sunnan- og suðaustanlands. Honum svipar til kjóa en er þó mun stærri og þreknari, minnir á stóran, dökkan, hálsstuttan máf. Kvenfugl er sjónarmun stærri en karlfugl. Skúmurinn er dökkbrúnn með ljósbryddum fjöðrum á höfði, hálsi, bringu og baki. Ljósir blettir framarlega á væng eru einkennandi á þöndum vængjum. Vængirnir eru breiðir og snubbóttir, stélið stutt og breitt, miðfjaðrir lítið eitt lengri. Ungfuglar eru dökkbrúnir og jafnlitir. Goggurinn er svartur og sterklegur, krókboginn fremst, fæturnir sterklegir og svartir og augun einnig svört.

Skúmurinn gefur frá sér gargandi kokhljóð eða hrjúft nefhljóð á varpstöðvum.

Skúmurinn er mjög kröftugur flugfugl og ótrúlega fimur þrátt fyrir þyngslalegan vöxt. Hann er árásargjarn við hreiður sitt og hikar ekki við að ráðast að fólki. Eitt af sérkennum skúms er að þegar hann lendir lyftir hann vængjunum og eru hvítu vængblettirnir þá áberandi. Jafnframt eru vænglyftur með opnum goggi merki um árásarhneigð. Skúmur er félagslyndur á varpstöðvum en fer oft einförum utan þeirra.

Skúmapar með unga í Ingólfshöfða.

Skúmshreiður á Skógasandi.

Lífshættir

Sandsíli er líklega aðalfæða skúms, en hann lifir annars á fjölbreyttri fæðu úr dýraríkinu. Hann er þekktur fyrir að leggja aðra sjófugla í einelti, svo sem fýla, svartfugla, máfa og jafnvel súlur, og þvinga þá til að sleppa eða æla æti sínu. Hann drepur einnig aðra fugla sér til matar, bæði fullorðna og unga, og fer einnig í fiskúrgang.

Skúmur verpur aðallega í dreifðum byggðum á sjávarmelum og grónum aurum jökuláa, en stundum í höfðum og eyjum. Hreiðrið er dæld í jörðina, oft án hreiðurefna. Eggin eru tvö, álegan tekur um fjórar vikur og ungarnir verða fleygir á 6–7 vikum.

Ógnandi skúmur í Öræfum.

Skúmurinn í ríki sínu, Öræfajökull fjær.

Útbreiðsla, stofnstærð og staða á válista

Skúmur er farfugl. Um ¾ hlutar stofnsins verpa á Skeiðarársandi, í Öræfum og á Breiðamerkursandi. Slæðingur verpur utan hefðbundinnar útbreiðslu, aðallega á NA-verðu landinu. Engin heildartalning hefur verið gerð á skúmastofninum síðan 1984–1985. Þá var stærð stofnsins metin 5400 pör. En síðan hefur skúmi fækkað mikið í langflestum byggðum og er hann nú á válista sem tegund í bráðri hættu (CR: Critically endangered), sem er efsti hættuflokkur sem lífvera nær, fyrir utan að vera útdauð. Þó eru til menn sem stugga við skúmnum, þar sem hann er að reyna að nema land á nýjum stöðum.

Skúmurinn er úthafsfugl utan varptíma og heldur sig á veturna á Norður-Atlantshafi suður að miðbaug. Utan Íslands verpur hann aðallega á skosku eyjunum, en einnig í Færeyjum, Noregi, Rússlandi og norrænum eyjum eins og Bjarnarey, Svalbarða, Jan Mayen og austur til Novaja Zemlya. Þrjár náskyldar tegundir verpa á suðurhveli jarðar og er talið að norðurhvelsskúmurinn sé upprunninn þar.

Þjóðtrú og sagnir

Lítil þjóðtrú fylgir skúminum. Hann átti að vísa á fisk, eins og gjarnt er um sjófugla, sérstaklega þótti hákarlaveiðimönnum lán af návist skúms.

Séð hef ég köttinn syngja á bók,
selinn spinna hör á rokk,
skötuna elta skinn í brók,.
skúminn prjóna smábandssokk.

Kunn öfugmælasvísa

Fullvaxinn skúmsungi í Ingólfshöfða.

Skúmur ógnar ljósmyndaranum í Öræfum.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Líffræðileg fjölbreytni

Líffræðileg fjölbreytni

Dagur líffræðilegrar fjölbreytni    

Fréttatilkynning frá Náttúruminjasafni Íslands í tilefni af 22. maí,
degi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni.

Náttúruminjasafn Íslands gerðist nýlega þátttakandi í alþjóðlegum samstarfsvettvangi til verndar líffræðilegri fjölbreytni, Global Coalition #UnitedforBiodiversity, og er safnið fyrsta stofnunin á Íslandi sem stígur það skref.

Þverþjóðlegt samstarf rannsókna- og fræðslustofnana um verndun líffræðilegrar fjölbreytni markar ný tímamót í viðbrögðum alþjóðasamfélagsins við þeim alvarlega vanda sem steðjar að mannkyni vegna ósjálfbærrar umgengni okkar við náttúruna. Þótt við séum fá hér á Íslandi getum við lagt margt gott til í öflugu samstarfi á sviði vísinda og fræðslu og með góðum fordæmum í sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, þ.m.t. verndun hennar. Þátttaka Náttúruminjasafnsins í alþjóðlegu átaki til verndar líffræðilegri fjölbreytni verður vonandi til þess að hvetja aðrar stofnanir til dáða þannig að standa megi vörð um búsvæði og lífríki á Íslandi og á hnettinum öllum, segir Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminasafns Íslands.

Meiri ógn steðjar að líffræðilegri fjölbreytni en nokkru sinni á okkar tímum og telja vísindamenn að vegna athafna mannsins sé allt að ein milljón tegunda nú í útrýmingarhættu í heiminum. Þessu til viðbótar er fjölbreytni innan tegunda og þeir ferlar sem stýra og viðhalda líffræðilegri fjölbreytni í hættu vegna eyðingar búsvæða og vistkerfa. Náttúruminjasafn Íslands er stolt af þátttöku í þessu verkefni ásamt ríflega 200 stofnunum og samtökum um allan heim sem hafa skuldbundið sig til að vernda fjölbreytileika lífríkis á jörðinni.

Virginijus Sinkevicius framkvæmdastjóri Evrópusambandsins á sviði umhverfismála ýtti á árinu 2020 úr vör heimsátaki sem nefnist „Samstaða um líffræðilega fjölbreytni“. Var það í aðdraganda CoP 15 fundar Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni sem Kína mun hýsa í október n.k. þar sem áætlanir um vernd líffræðilegrar fjölbreytni á næsta áratug verða samþykktar. Hvatt er til þess að dýragarðar, grasagarðar, rannsóknastofnanir, háskólar, sædýra- og vatnalífsgarðar og söfn taki upp hanskann fyrir náttúruna og skori á leiðtoga og ráðamenn til að setja metnaðarfull markmið sem veita líffræðilegri fjölbreytni raunverulega vernd á hnattræna vísu.

„Grasagarðar heimsins, dýragarðar, almenningsgarðar, söfn, rannsóknastofnanir, sædýra- og vatnalífsgarðar sýna okkur berlega hvað það er sem við þurfum að vernda og koma aftur í samt lag. Við verðum án tafar að grípa til aðgerða á öllum sviðum og stigum, á heimavelli jafnt og á heimsvísu, ella verða þetta einu staðirnir þar sem við getum upplifað náttúruna. Þá væri mannkyn komið í þrot. Það er kominn tími til að við endurtengjum okkur við náttúruna.“  – Virginijus Sinkevičius

Líffræðileg fjölbreytni á Íslandi og einstök vistkerfi

Líffræðileg fjölbreytni og búsvæði á Íslandi eru einstök og helgast það einkum af landfræðilegri legu og einangrun landsins í Norður-Atlantshafi, ungum jarðfræðilegum aldri og mikilli eldvirkni. Vegna þess að aðeins eru liðin um tíu þúsund ár frá síðasta jökulskeiði, býr Ísland yfir ungum búsvæðum og kviku lífríki. Hér eru tiltölulega fáar tegundir ef miðað er við nágrannalöndin, en fjölbreytt búsvæði, einkum í tengslum við eldvirku beltin og ferskvatn. Þessar einstöku aðstæður veita lífverum óvenjuleg tækifæri sem kalla á sérhæfingu og sérstaka aðlögun. Ísland og hafið umhverfis landið er einnig heimkynni stórra stofna fugla, fiska og sjávarspendýra, bæði staðbundinna sem og far- og umferðartegunda, sem treysta á heilbrigða starfsemi vistkerfa í þessum norðlæga heimshluta.

Náttúruminjasafn Íslands og fjölbreytni náttúrunnar

Á Náttúruminjasafni Íslands eru stundaðar rannsóknir og miðlun upplýsinga um líffræðilega fjölbreytni á Íslandi. Lögð er áhersla á að greina, skrásetja, skilja og miðla upplýsingum um ferlana sem skapa og viðhalda líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi og hvernig þessir ferlar valda óvenju mikilli fjölbreytni innan tegunda. Þekkt dæmi um þetta er bleikjan (Salvelinus alpinus) í Þingvallavatni en þar hafa fjögur mjög ólík afbrigði þróast og nýtir hvert afbrigði sér mismunandi fæðu og búsvæði í vatninu. Með því að skrásetja og rannsaka þennan breytileika getum við öðlast skilning á því hvernig nýjar tegundir myndast og hvaða áhrif líffræðilegur breytileiki innan tegundar hefur á starfsemi vistkerfa.

Rannsóknir Náttúruminjasafnsins og samstarfsaðila munu efla og stuðla að alhliða þekkingu á líffræðilegri fjölbreytni á Íslandi. Náttúruminjasafnið stefnir einnig að því að tryggja að niðurstöðum rannsóknanna verði miðlað og þær gerðar aðgengilegar almenningi, skólakerfinu og þeim sem koma að skipulagningu og stefnumótun um nýtingu náttúrunnar, þ.m.t. verndun.

Með undirritun áskorunar Alþjóða samstöðu um verndun líffræðilegrar fjölbreytni #UnitedforBiodiversity skuldbindur Náttúruminjasafn Íslands sig til að vernda líffræðilega fjölbreytni bæði á Íslandi og hnattrænt. Náttúruminjasafn Íslands skorar á allar stofnanir á Íslandi og um heim allan að taka þátt í þessu brýna verkefni.

Frekari upplýsingar um átakið Global Coalition #UnitedforBiodiversity og hvernig taka má þátt í því er að finna á vefsetrinu:

https://ec.europa.eu/environment/nature/biodiversity/coalition/index_en.htm

 

 

 

Sumarstörf

Sumarstörf

10 sumarstörf í boði á Náttúruminjasafninu

Náttúruminjasafn Íslands auglýsir í samstarfi við Vinnumálastofnun eftir 15 námsmönnum til að sinna fjölbreyttum verkefnum í sumar. Störfin tengjast rannsóknavinnu safnsins og gagnaskráningu. Nokkur starfanna eru úti á landi og sumum má sinna í gegnum netið hvar sem er á landinu svo fremi að gott netsamband sé fyrir hendi.

Námsmenn á háskólastigi með viðeigandi menntun eru hvattir til að sækja um. Umsóknir fara í gegnum vef Vinnumálastofnunar.

 

Hér er skrá yfir verkefnin og störfin á Náttúruminjasafni Íslands sem auglýst eru:

Skráning á steinasafni, Breiðdalsvík.
Störfin felast í flokkun, skráningu og pökkun á steinasafni í eigu Náttúruminjasafns Íslands, ásamt öðrum tilfallandi störfum. Störfin eru á Breiðdalsvík og verður starfsmönnum séð fyrir húsnæði.
2 jarðfræðinemar.

Skráning muna.
Flokkun og skráning safnmuna í geymslu safnsins.
1 nemi í bókasafns- og upplýsingafræði.

Steinagreining. 
Rannsóknarverkefni sem felst í að greina hluta stórs safns steina af erlendum uppruna, sem borist hafa með ís til norðausturhluta Íslands á nútíma. Auk þess að safna saman heimildum og textum tengdum bergsýnunum og mögulegum farleiðum þeirra. Áhugi og þekking á bergfræði og steinagreiningu nauðsynleg.
1 jarðfræðinemi.

Greining svifdýrasýna í ferskvatni.
Verkefnið felst í úrvinnslu, greiningu og grófflokkun á svifdýrasýnum úr ferskvatni sem þegar hefur verið safnað. Áhersla er á krabbadýr, sér í lagi skötuorma. Aðallega er um innivinnu að ræða, en vettvangsferðir koma til greina. Unnið er undir leiðsögn sérfræðinga. Viðfangsefnið gæti hentað sem námsverkefni.
1 líffræðinemi.

Textafræðingur
Verkefnið felst í að aðstoða fræðimenn við Náttúruminjasafnið við ritstjórn texta og fjölbreytta gagnaöflun um umhverfi og náttúru landsins í bókmenntatextum úr heimildum og orðasöfnum.
1 nemi í íslenskum fræðum.

Heimildarýnir
Verkefnið felst í að að skanna og skrifa upp dagbækur og önnur gögn á handritaformi úr Mývatnssveit frá 19. og 20. öld. Upplýsingar um náttúru- og veðurfar, veiði í Mývatni, og landnýtingu og nýtingu annarra náttúruauðlinda verða dregnar saman til birtingar á aðgengilegu formi. Áhersla verður á að skanna og skrifa upp dagbækur sem eru í einkasöfnum, bæði vinnufólks og bænda og sýn þeirra á náttúru svæðisins. Áhersla verður lögð á dagbækur bænda sem aðgang hafa að veiði í vatninu og þeirra sem nær einungis hafa aðgang að beitarlandi.
1 nemi í sagnfræði, staðþekking í Mývatnssveit æskileg.

Hrafnamiðlari
Sumarið 2020 söfnuðu námsmenn fjölbreyttu efni um hrafninn, bæði sem lífveru og sem „menningarfyrirbæri“, þ.e. hvernig hann birtist í þjóðtrú, munnmælum og bókmenntum. Nú þarf að vinna úr þessu efni stutta afmarkaða og myndskreytta texta til birtingar á vef Náttúrminjasafnsins, sem endurspegla fjölbreytt samspil lífverunnar (líffræðilegt) og fuglsins sem birtist í menningunni. Grunnhugmynd að baki þessu verkefni er að flétta saman líffræðilega og menningarlega fjölbreytni. Því byggist verkefnið á samstarfi nema í menningarfræðum og líffræði.
1 nemi í menningartengdum fræðum, Í MA námi eða langt kominn í BA námi.

Orðasafnari
Verkefnið felst í að safna orðum úr íslenskum fornbókmenntum sem tengjast náttúru í víðum skilningi, úr orðstöðulyklum og gagnasöfnum og aðstoða fræðimann við Náttúruminjasafn Íslands við úrvinnslu þessara gagna.
1 nemi íslenskum fræðum, með reynslu af fræðistörfum.

Rýnir á verðmæti fjölbreytni náttúrunnar
Verkefnið felst í að taka þátt í rannsóknum sérfræðinga Náttúruminjasafnsins á fjölbreytni náttúrunnar (t.d. líffræðilegri fjölbreytni), með áherslu á gildi náttúrunnar, og þá sérstaklega hvaða verðmæti hugtakið fjölbreytni felur í sér. Vinna mun felast í að skoða kenningar og greina fræðilega texta um þetta mikilvæga mál og tengja það við þekkingu á fjölbreytni íslenskrar náttúru.
1 nemi í heimspeki /náttúrusiðfræði.

 

Eldfjallagös, móða og agnir

Eldfjallagös, móða og agnir

Horft í suðaustur yfir Víti og Öskjuvatn.
24. mars 2021. Geldingadalir.

Eldfjallagös, móða og agnir

Eldfjallavá eða hætta af eldgosum getur verið margs konar, allt eftir tegund og staðsetningu eldgoss. Gasmengun hefur verið til umræðu í tengslum við eldgosið í Geldingadölum, en eldfjallagös valda m.a. hættulegum aðstæðum sem geta orðið við gosstöðvar. Ýmis gös eða lofttegundir eru uppleystar í kvikunni þar sem hún er á miklu dýpi í jarðskorpunni en styrkur lofttegundanna er mismikill og fer eftir efnasamsetningu kvikunnar. Þegar kvikan kemst upp á yfirborðið hefur efnasamsetningin mismunandi áhrif á gaslosun, goshegðun og þær hættur sem skapast vegna eldgossins.

 

Efnasamsetning kviku ræður eiginleikunum

Kvika sem kemur upp í eldgosum er yfirleitt flokkuð eftir efnasamsetningu, einkum kísilsmagni (SiO₂) og henni þá skipt í súra kviku og basíska. Kvika, sem staldrar við í kvikuhólfum á leið sinni til yfirborðs, verður kísilríkari (súrari) og er þá sagt að hún þróist. Kvika með lágt kísilinnihald er hins vegar sögð vera frumstæð.

Kísilmagnið hefur mikil áhrif á eiginleika kvikunnar. Því meiri kísill sem er í kvikunni, þeim mun seigari verður hún og hún er einnig kaldari en kísilsnauð kvika. Ríólít myndast úr kísilríkri kviku og er mjög seigfljótandi. Eldgos þar sem upp kemur kvika af þeirri gerð eru oftast mjög sprengivirk, gasrík og framleiða mikið af gjósku.

 

Askja í Dyngjufjöllum. Öskjuvatn fyllir yngstu öskjuna og má sjá móta fyrir hinum eldri. Suðurbotnar eru merktir með gulum punkti. (Gervitunglamynd frá NASA).

10. apríl 2021: Gas streymir upp um gosop.

Frumstæð kvika, sem myndar basalt, er á hinn bóginn heit og kísilsnauð sem veldur því að kvikan er þunnfljótandi. Því geta basalthraun runnið langt frá upptökum sínum, jafnvel meira en hundrað kílómetra leið. Eldgos þar sem frumstæð kvika kemur upp eru oftast flæðigos eða hraungos nema kvikan komist í snertingu við utanaðkomandi vatn þá verður sprengigos. Í frumstæðri kviku er mun minna af uppleystum eldfjallagösum en í þróaðri eða súrari kviku.

Efna- og gasmengun frá eldstöðvum

Í basaltkviku er mun minna af uppleystum gösum en í súrari kviku eins og ríólíti. Því er yfirleitt mun meiri efna- og gasmengun frá súrum sprengigosum en flæðigosum. Meginástæða loftmengunar frá basískum eldgosum er því ekki gasmagnið í kvikunni, heldur það hversu lengi eldgosið varir og hversu mikið magn kviku kemur upp. Öflugt sprengigos sem stendur stutt yfir getur mengað mun meira en basískt gos sem skilar sambærilegu hraunmagni, þó það basíska standi mun lengur yfir.

Langmest af þeim gösum sem losna út í andrúmsloftið í eldgosum er vatnsgufa (H₂O) og koltvíoxíð (CO₂) en þó er magn vetnis (H₂), kolmónoxíðs (CO) og brennisteinstvíoxíðs (SO₂) einnig mikið. Aðrar gastegundir svo sem flúorsýra (HF), brennisteinsvetni (H₂S), metangas (CH₄) og brennisteinn (S₂) losna einnig, en í mun minna mæli.

Forðast ber lægðir í kring um gosstöðvar.

Þær gastegundir sem almennt valda mestum skaða á lífríki eru koltvíoxíð, flúor og brennisteinstvíoxíð. Gastegundirnar hafa mismikil áhrif á menn en geta valdið sviða í nefi, augum og koki ásamt hósta og öðrum áhrifum á öndunarfæri. Einnig getur brennisteinssýra (H₂SO₄) myndast og valdið súru regni sem getur haft afdrifarík áhrif á lífverur og tært málma. Eðlisþyngri lofttegundir, s.s.  koltvíoxíð og brennisteinstvíoxíð, safnast einnig fyrir í lægðum og skapa súrefnissnautt umhverfi. Því skyldu menn ætíð forðast lægðir í kringum eldsumbrot þar sem súrefnissnautt loft getur valdið köfnun.

Heklugosið sumarið 1970 er dæmi um eldgos sem olli mikilli efnamengun. Þó gjóskufall í því gosi hafi varað stutt var gaslosunin gífurleg. Mikið flúor dreifðist með gjóskunni um norðvestanvert landið og drap þar um 1500 ær og 6000 lömb.

Þó basísk kvika losi minna af gösum þá geta langvarandi gos líkt og Skaftáreldar (1783 –1784) haft gríðarleg áhrif. Eldgosið stóð í átta mánuði og gífurlegt magn kviku kom upp á hinni 27 km löngu gossprungu sem myndaði gígaröðina Lakagíga. Gas losnar ekki einungis frá gígunum sjálfum heldur einnig upp af hraunstraumnum. Töluvert magn af uppleystu gasi losnar frá rennandi hrauni sem gerir gasmengun gífurlega í stórfelldum gosum. Talið er að um 120 milljón tonn af brennisteinstvíoxíði (SO₂) hafi losnað út í andrúmsloftið í Skaftáreldum ásamt miklu magni flúors. Til samanburðar þá stóð eldgosið í Holuhrauni yfir í sex mánuði og losaði á þeim tíma allt að 11,8 milljón tonn af SO₂. Skaftáreldum fylgdi mikil gosmóða sem lagðist yfir landið og drap búfé og gróður og ganga þær hörmungar undir heitinu Móðuharðindi.

Móðan verður til er eldfjallagös hvarfast við andrúmsloftið. Móðan inniheldur mikið magn af brennisteinsefnasamböndum og getur haft mikil heilsufarsleg áhrif ef hún er viðvarandi ásamt því að hafa eyðileggjandi áhrif á gróður og valda uppskerubresti líkt og gerðist í kjölfar Skaftárelda. Móðan veldur stingandi sviða á húð og í augum. Einnig er rétt að benda á mikilvægi þess að bóna bíla þar sem tæring málma veldur ryði. Gosmóða er einnig þekkt frá eldgosum erlendis og nefnist „vog“ á Hawaii sem er stytting úr „volcanic smog“.

24. mars 2021: Gasmóða skyggir sýn yfir gosstöðvar.

En hvernig hafa eldgos svo langvarandi áhrif líkt og Skaftáreldar?

Lofthjúpur jarðar er lagskiptur og þynnist er fjær dregur yfirborði. Honum er skipt í hvolf; næst yfirborði er veðrahvolf sem nær upp í 9–12 km hæð og heiðhvolf þar fyrir ofan.

Skýringamynd sem sýnir hvernig lofttegundir berast frá eldgosi, mynda móðu og draga úr inngeislun sólar.

Það skiptir miklu hvernig gös og agnir dreifast frá eldgosum. Gös í veðrahvolfi hafa líftíma sem er 1–3 vikur. Ef gosstrókur nær miklum hæðum geta gösin borist alla leið upp í heiðhvolfið þar sem líftíminn getur verið allt að 3 ár. Í heiðhvolfinu hvarfast brennisteinn (SO₂) við vatnsgufu og súrefni en við það verður til brennisteinssýra. Sýran hefur þau áhrif að hún eykur endurkast lofthjúpsins og veldur því að geislar sólar endurkastast í meira mæli og minni geislun nær yfirborði. Þetta ferli veldur því að hitastig lækkar á yfirborði jarðar. Þannig er talið að mengun af völdum Skaftárelda hafi valdið lækkun hitastigs á norðurhveli jarðar árin 1783–­1785.

Samantekt:

Þóra Björg Andrésdóttir, jarðfræðingur, og Sigurveig Gunnarsdóttir, jarðfræðingur

Reykjaneseldar

Reykjaneseldar

Horft í suðaustur yfir Víti og Öskjuvatn.

Gígaröðin í Eldvörpum. Ljósm. Rafn Sigurbjörnsson/icelandphotogallery.com

Reykjaneseldar

Augu allra beinast um þessar mundir að Reykjanesskaga og margt og mikið hefur verið ritað um gosið í Geldingadölum. Nú beinum við sjónum okkar vestar á skagann að eldstöðvakerfunum tveimur, Reykjanesi og Svartsengi, en þar lauk síðasta gosskeiði á Reykjanesskaga 1240.

Hér verður sérstaklega fjallað um síðustu eldana sem urðu innan Reykjanes- og Svartsengis-kerfanna sem ýmist eru talin eitt kerfi eða tvö. Þess má þó geta að þau sameinast til norðurs þar sem erfitt er að greina sprungureinar kerfanna í sundur.

Eldarnir, sem nefnast gjarnan Reykjaneseldar, stóðu yfir frá árinu 1210–1240. Með eldum er átt við hrinur af eldsumbrotum sem standa yfir í lengri eða skemmri tíma á sama svæðinu. Í Reykjaneseldum urðu nokkur gos úti fyrir Reykjanestá og mynduðu þau gjóskulög á landi. Einnig runnu fjögur hraun úr sprungugosum á landi en þau eru Yngra Stampahraun, Eldborgarhraun yngra, Illahraun og Arnaseturshraun.

Askja í Dyngjufjöllum. Öskjuvatn fyllir yngstu öskjuna og má sjá móta fyrir hinum eldri. Suðurbotnar eru merktir með gulum punkti. (Gervitunglamynd frá NASA).

Loftmynd af eldstöðvakerfi Reykjaness. Á suðvestur endanum er Reykjanesviti og jarðvarmavirkjun. Austast á myndinni má sjá Grindavík og Bláa lónið. Sprungur á svæðinu sjást vel en þær liggja allar í suðvestur-norðaustur. (Loftmyndir ehf.)

Horft í suður yfir Öskjuvatn.

Karlinn sést frá landi úti fyrir Reykjanestá/suðvestur af Reykjanestá. Ljósm. Þorfinnur Sigurgeirsson.

Reykjaneseldar hófust á surtseyísku eldgosi í fjöruborðinu undan Reykjanestá er þar byggðist upp gígur sem nefndur er Vatnsfellsgígur. Talið er að eldsumbrotin hafi stöðvast í einhvern tíma en nokkrum mánuðum síðar hófust þau að nýju utar, þar sem Karlinn stendur nú, en hann mun vera hluti gígbarms síðara gossins. Um 500 m voru á milli gíganna en nú þegar brimið hefur unnið á þeim um aldir sjást einungis ummerki eftir þá. Karlsgígur hefur verið mun stærri en Vatnsfellsgígur en hægt er að sjá ummerki um að gosefni úr honum hafi lagst yfir Vatnsfellsgíginn.

Ummerki eru um gígaröð sem liggur um 4 km inn eftir skaganum í stefnu SV-NA og nefnist hraunið úr henni Yngra Stampahraun. Stærstu gígarnir eru tveir og nefnast Stampar og er gígaröðin öll kennd við þá. Gígarnir eru að mestu klepragígar sem byggst hafa upp af hraunslettum frá kvikustrókum. Hraunið frá gígaröðinni rann upp að Karlsgíg og Vatnsfellsgíg sem staðfestir að hraunið rann eftir að þeir mynduðust.

Finna má fjögur gjóskulög sem tengjast Reykjaneseldum en heimildir geta að minnsta kosti sex gosa úti fyrir ströndum Reykjaness á þessum tíma. Árið 1226 myndaðist svonefnt miðaldalag, sem er svart, sendið gjóskulag (R-9) sem notað hefur verið til aldursgreininga hrauna á svæðinu. Annálar greina frá „sandsumri“ það ár og einnig sandvetrinum mikla veturinn á eftir.

Nærmynd af brotsárinu eftir berghlaupið í Suðurbotnum í júlí 2014.

Ströndin við Reykjanesvita er vinsæll viðkomustaður og má þar meðal annars finna dranga og bólstraberg. Ljósm. Kristín Sigurgeirsdóttir.

Ofan á Yngra Stampahrauni má finna miðaldalagið og er því talið að Stampagígaröðin hafi verið virk á fyrri hluta eldanna. Gossprungurnar, sem mynduðu Eldvarpahraun yngra, Illahraun og Arnaseturshraun, hafa verið virkar eftir að miðaldalagið myndaðist þar sem öll hraunin liggja ofan á því gjóskulagi.

Eldvarpahraun yngra rann úr samnefndri gígaröð sem er um 8–10 km löng og nær næstum því til sjávar þó engin gos séu þekkt í sjó frá sama tíma á þessu svæði. Gossprungan sjálf er mjög löng en gígaröðin er fremur slitrótt. Hraun úr syðsta enda sprungunnar rann í sjó fram. Marga formfagra gíga er að finna í Eldvörpum og um hluta þeirra liggur skemmtileg gönguleið. Ekki er síðra að horfa á gígana úr lofti.

Illahraun myndaðist úr stuttri samsíða sprungu austan við Eldvörp. Á norðurjaðri hraunsins er nú Bláa lónið. Illahraun er frekar torfært uppbrotið helluhraun. Gígaröðin er einungis um 200 m að lengd og á henni má finna nokkra gíga, einn gígurinn er stærri en hinir og er sá gígur tvöfaldur.

Úr 500 m langri gossprungu við Gígahæð rann Arnaseturshraun. Stuttu austar má finna 700 m langa sprungu sem virðist einungis hafa verið virk í stuttan tíma.

Við Bláa lónið er Illahraun áberandi úfið og grófgert. Ljósm. Þorfinnur Sigurgeirsson.

Ítarefni

Kristján Sæmundsson & Magnús Á. Sigurgeirsson. 2013. Reykjanesskagi. Bls. 379–401 íNáttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Kristján Sæmundsson, Magnús Á. Sigurgeirsson & Guðmundur Ómar Friðleifsson. 2020. Geology and structure of the Reykjanes volcanic system, Iceland. Journal of Volcanology and Geothermal Research 391. 1–13.

Magnús Á. Sigurgeirsson. 1995. Yngra-Stampagosið á Reykjanesi. Náttúrufræðingurinn 64(3). 211–230.

Magnús Á. Sigurgeirsson & Sigmundur Einarsson. 2019. Reykjanes og Svartsengi. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 2. mars 2021 af http://islenskeldfjoll.is/?volcano=REY#

Sveinn P. Jakobsson, Jón Jónsson & Shido, F. 1978. Petrology of the Western Reykjanes Peninsula, Iceland. Journal of Petrology 19(4). 669–705.