Steypireyðurin fer norður

Greint var frá því í fjölmiðlum í gær, bæði á netmiðli RÚV og Vísis, að fyrir lægi niðurstaða af hálfu Illuga Gunnarssonar mennta- og menningarmálaráðherra um að beinagrind steypireyðarinnar sem rak á land við Skaga sumarið 2010 verði flutt norður á Húsavík og höfð til sýnis í Hvalasafninu þar.

Ákvörðunin um að flytja beinagrind steypireyðarinnar norður, sem og að umsjón með beinagrindinni og lán gripsins skuli alfarið vera á hendi Náttúrufræðistofnunar Íslands en ekki Náttúruminjasafns Íslands, veldur vonbrigðum og stríðir gegn hagsmunum Náttúruminjasafnsins.

Í umsögn Náttúruminjasafnsins er lagst gegn áformum um flutning, varðveislu og sýningu beinagrindarinnar í Hvalasafninu. Afstaðan er studd faglegum rökum sem lúta að heildarhagsmunum í samfélagslegu samhengi, m.a. er varðar upplýsinga- og kennslugildi þessa merka og fágæta náttúrugrips sem steypireyðurin er, kostnaði við verkefnið og meðferð opinbers fjár og ástand beinagrindarinnar, en brýn þörf er á forvörslu hennar hið fyrsta. Þá er ráðherra hvattur til að bíða hið minnsta með ákvörðun um flutning í ljósi þess að Perlan í Öskjuhlíð, sem hentar vel til sýningar á steypireyðinni, stendur Náttúruminjasafninu til boða af hálfu Reykjavíkurborgar sem framtíðarhúsnæði undir sýningastarfsemi.

Meginrök Náttúruminjasafns Íslands gegn áformum um flutning, varðveislu og sýningu beinagrindar steypireyðarinnar fyrir norðan eru eftirfarandi:

  • Það hillir undir framtíðarhúsnæði Náttúruminjasafnsins hvað varðar sýningahald. Perlan í Öskjuhlíð stendur Náttúruminjasafninu til boða. Reykjavíkurborg er mjög áfram um verkefnið og fjárfestingasjóðurinn Landsbréf ITF I sýnir verkefninu áhuga. Í minnisblaði ríkisstjórnar Íslands (málsnr.: UMH11100114, dags. 25.10.2011) er tekið fram að hugsanleg uppsetning og varðveisla beinagrindar steypireyðarinnar í Hvalasafninu á Húsavík sé þeim skilyrðum bundin að gripurinn verði afhentur Náttúruminjasafni Íslands þegar safnið verði komið í framtíðarhúsnæði. Þetta skilyrði var áréttað af mennta- og menningarmálaráðherra, Illuga Gunnarssyni, í svörum hans við fyrirspurn á Alþingi 3. nóvember 2014 (144. löggjafarþing – 26. fundur. 223. mál. – Þskj. 252.).
  • Nauðsyn á forvörslu og styrkingu beina.
    Í áætlunum um flutning beinagrindarinnar er ekki gert ráð fyrir vinnu við forvörslu og styrkingu beina, en hér er um verulega kostnaðarsaman þátt að ræða. Að mati Náttúrminjasafnsins er brýnt að ráðast sem allra fyrst í að forverja beinin og styrkja þau í því skyni að varðveita sem best og koma í veg fyrir skemmdir á þeim. Óháð sýningarhaldi og flutningum er ekki forsvaranlegt að bíða lengur með þennan verkþátt.
  • Afsteypa af beinagrindinni.
    Ekki er fjallað um þann verkþátt sem snýr að afsteypu beinagrindarinnar, en ákvörðun um flutning norður er því skilyrði háð að frumeintak beinagrindarinnar fer til Náttúruminjasafnsins þegar leyst hefur verið úr húsnæðisvanda þess m.t.t. sýningahalds. Afsteypa af beinagrindinni yrði þá eftir hjá Hvalasafninu. Afsteypan er mjög kostnaðarsöm og að mati Náttúruminjasafnsins er ekki forsvaranlegt annað en að gera strax grein fyrir þessum þætti. Með hliðsjón af varðveislu og verndun beinanna er skynsamlegast að taka afsteypu af beinagrindinni áður en og ef hún verður flutt norður í land.
  • Ófullnægjandi kostnaðaráætlun.
    Í kostnaðaráætlun, sem hljóðar upp á 7,0 m.kr., þar af 1,5 m.kr. vegna aksturs með beinagrindina, er ekki gerð grein fyrir vinnu við uppröðun beina og frágang á sýningarstað. Að mati Náttúruminjasafnsins má ætla að viðbótarkostnaður vegna þessa sé 4-6 m.kr. (um 4 mannmánuðir). Sem fyrr segir er heldur ekki reiknað með kostnaði við forvörslu og styrkingu beina, en hann er mjög mikill. Þá er ekki gerð grein fyrir kostnaði við flutning á beinagrindinni til baka til Náttúruminjasafnsins.
  • Metnaður, virðing og orðstír.
    Að mati Náttúruminjasafnsins endurspegla hugmyndir um að raða ósamsettum beinum steypireyðarinnar á gólf í litlu rými í Hvalasafninu fyrst og fremst að hönnun sýningarinnar er gerð af vanefnum og að húsnæðið er óhentugt undir náttúrugrip af þessu tagi. Uppsetningin er að mati Náttúruminjasafnsins hvorki metnaðarfull né samboðin þeirri virðingu sem ber að auðsýna stærsta dýri jarðar. Í þessu sambandi má minna á metnaðarfull verkefni sem eru á döfinni hjá Náttúrufræðisafninu í London og Náttúrufræðisafni Danmerkur í Kaupmannahöfn um upphengingu steypireyðarbeinagrinda í háreistum salarkynnum, líkt og að hefur verið stefnt með steypireyðina í Perlunni á vegum Náttúruminjasafns Íslands
  • Samvinna við Náttúruminjasafn Íslands.
    Í umsögn Náttúruminjasafnsins er minnt á nauðsyn samvinnu milli Náttúruminjasafnsins og Hvalasafnsins varðandi steypireyðina og sýningarmál almennt, enda heyra málefni Hvalasafnsins undir starfsemi Náttúruminjasafns Íslands skv. Náttúruminjasafnslögum og safnalögum. Varðandi samvinnu bendir Náttúruminjasafnið á að ef til flutnings kemur á beinagrind steypireyðarinnar til Hvalasafnsins á Húsavík, þá er það verkefni Náttúruminjasafns Íslands að gera þar að lútandi varðveislusamning um gripinn við Hvalasafnið (sbr. svar mennta og menningarmálaráðherra við fyrirspurn á Alþingi 3. nóvember 2014, 144. löggjafarþing – 26. fundur. 223. mál. – Þskj. 252.).

Umsögn Náttúruminjasafnsins í heild má lesa í þessu skjali hér: Umsögn NMSÍ_09.07.2015_MMR15010812.

Samstarf við Félagsvísindasvið Háskóla Íslands

Í júní síðastliðnum var undirritað samkomulag um samstarf milli Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands og Náttúruminjasafnsins. Markmið samkomulagsins er að stuðla að samstarfi stofnananna og efla rannsóknir og fræðslu á sviði náttúrufræða og safnamála.

Daði Már Kristófersson forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands og Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands undirrita samstarfssamkomulag 8. júní 2015.

Daði Már Kristófersson forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands (t.v.) og Hilmar J. Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands undirrita samstarfssamkomulag 8. júní 2015.

Félagsvísindasvið er stærsta fræðasvið Háskólans og býður upp á fjölda námsleiða í sex deildum. Í Félags- og mannvísindadeild, sem er ein stærsta deild Háskólans, er m.a. boðið upp á nám í safnafræðum.

Samstarf samkvæmt samkomulaginu er þegar hafið. Um er að ræða verkefni til MA-gráðu í safnafræðum og snýst um úttekt á stöðu náttúruminjavörslu í landinu og fýsileika þess að koma á fót samræmdu skráningakerfi á landsvísu fyrir náttúrumuni. Ekkert slíkt miðlægt, rafrænt skráningakerfi er til staðar á sviði náttúruminja í landinu, ólíkt því sem gildir um þjóð- og aðrar menningarsögulegar minjar sem Sarpur sinnir. Það er námsmaðurinn Finney Rakel Árnadóttir sem fæst við verkefnið, búsett á Ísafirði, en nýtir m.a. aðstöðu í Loftskeytastöðinni í borgarferðum. Umsjónarmaður verkefnisins af hálfu Háskólans er prófessor Sigurjón Baldur Hafsteinsson.

Hér má lesa um samstarfssamkomulag Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands og Náttúruminjasafns Íslands: Samkomulag NMSI & Felagsvisindasvids_08.06.15.

Lundi

Lundi

Lundi16_ivHeimaslóð

Meðan öldur á Eiðinu brotna
og unir fugl í klettaskor.
Mun ég leita í Eyjarnar eins og fyrr
í æsku minnar spor.

Þar sem lundinn er ljúfastur fugla,
þar sem lifði Siggi Bonn
og Binni hann sótti í sjávardjúp
sextíuþúsund tonn.

Meðan lífþorstinn leitar á hjörtun
meðan leiftrar augans glóð.
Þó á höfðanum þjóti ein 13 stig
ég þrái Heimaslóð.

Ási í Bæ.

Útlit og atferli

Lundi (Fratercula arctica) er einn af minni svartfuglunum og jafnframt sá algengasti. Hann er fremur höfuðstór og kubbslegur. Fullorðinn lundi í sumarbúningi er svartur að ofan og hvítur að neðan með svartan koll og svartan kraga um háls. Höfuðhliðar (vangar) eru gráar, undirvængir svartir og goggur í skærum litum. Á veturna eru vangar dekkri og goggur litdaufari og minni. Ungfugl er svipaður en goggur mjórri og svæðið framan augna dekkra. Hann nefnist kofa eða pysja.

Lundi243v

Litskrúðugur, hliðflatur goggurinn er helsta einkenni lunda, jafnvel á vetrum, þegar litirnir fölna og nefplöturnar falla burt. Á varptímanum er goggurinn gulur, blár og rauður, þríhyrndur og afar áberandi. Í goggvikum eru gulir húðsepar. Fætur eru rauðgulir. Augu eru gulbrún með rauðan augnhring, umhverfis þau hornplötur og dökk rák aftur frá þeim. Hægt er að aldursgreina lunda á goggnum fyrstu fimm árin.

Lundi290v

Lundinn flýgur beint með hröðum vængjatökum, venjulega lágt yfir haffleti. Hann stendur uppréttur og á auðvelt með gang. Lundi er samanreknari en stærri svartfuglar, höfuðlag er annað og engar vængrákir. Afar félagslyndur og með flókið samskiptakerfi, hann tjáir sig með alls kyns fettum og brettum, höfuðrykkjum, göngulagi, fluglagi, vængjablaki og gapi, svo nokkuð sé nefnt.

Lundi122v

Ungur lundi, pysja.

 

Lífshættir

Lundinn kafar eftir æti og syndir kafsund með vængjunum. Getur kafað niður á 60 m dýpi og verið í 1,5 mín. í kafi. Raðar fiskunum í gogginn, ber oftast 6-20 fiska í ferð. Aðalfæðan er síli (sandsíli, marsíli og trönusíli), loðna er einnig mikilvæg, tekur einnig seiði ýmissa fiska, svo og sænál, ljósátu o.fl.

Lundi109ev

Hann heldur sig á grunnsævi á sumrin. Verpur í byggðum í grösugum eyjum, höfðum og brekkum ofan við bjargbrúnir eða í urðum undir þeim. Grefur sér holu í svörð eða verpur undir steinum og í glufum. Hreiðurkiminn innst í holunni, sem getur verið krókótt og með mörgum opum, er fóðraður með þurrum gróðri.

Heimkynni og ferðir

Þegar liðið er á varptímann fara ungfuglar að flakka á milli og heimsækja vörpin. Langstærstur hluti lundastofnsins verpur hér á landi og eru stærstu byggðirnar í Vestmannaeyjum og á Breiðafirði. Talið er að hér verpi um þrjár milljónir para og stofninn síðsumars telji um 10 milljónir fugla. Annars verpa lundar víða umhverfis Norður-Atlantshafið, frá Maine-fylki í Bandaríkjunum og Bretagne-skaga í Frakklandi um Bretlandseyjar, Færeyjar og Noreg norður til Svalbarða.

Lundi 321

Verðmætasti fuglinn okkar?

Þessi skrýtni og skemmtilegi fugl, sem stundum er kallaður prófastur vegna hvíta og svarta búningsins og sperringslegra tilburða, er afar vinsæll meðal ferðamanna. Jafnvel svo, að hingað eru gerðir út leiðangrar eingöngu til að ljósmynda og skoða lunda. Minjagripir í líki eða með mynd af lunda, eru áberandi í minjagripaverslunum. Á sumrin er siglt daglega með ferðamenn umhverfis Lundey og Akurey á Kollafirði, til að skoða lunda. Aðstöðu til lundaskoðunar hefur verið komið upp í Hafnarhólma á Borgarfirði eystri og lundarnir á Bjargtöngum eru þekktir fyrir spekt. Hann er vinsæll hjá sívaxandi hópi þátttakenda í hvalaskoðunarferðum. Lundinn er væntanlega orðinn verðmætasti fugl landsins, hefur velt þaulsetnum æðarfuglinum af þeim stalli. Hér er um auðlind að ræða, sem ber að umgangast með virðingu, eins og reyndar á við um náttúruna í heild sinni. Það fer fyrir brjóstið á mörgum ferðamönnum, að lundi sé veiddur og á hann erfitt með að skilja þennan „barbarisma“ okkar, við erum jú ekki á flæðiskeri stödd þegar kemur að framboði á mat.

 

Hallar undan fæti

Árið 2005 fór að verða vart við ætisskort hjá lundum á sunnan og vestanverðu landinu. Þetta átti reyndar við allan þann fjölda sjófugla, sem byggir afkomu sína á sandsíli, eins og kríu, langvíu, ritu og sílamáf. Nýliðun sandsílis hefur meira og minna brugðist síðan þá og sér ekki fram á að það rétti úr kútnum í bráð. Eftir því sem lengra líður milli góðra árganga verður erfiðara fyrir sílið að ná sér á strik. Það þarf að koma til góð nýliðun i nokkur ár til að stofninn braggist. Ekkert bendir til að það sé að gerast nú. Þessi óáran er ríkjandi um sunnanvert landið, um línu dregna frá Arnarfirði í Stöðvarfjörð eða þar um bil. Norðan línunnar gengur varp sjófugla mun betur, bæði er meira af sandsíli og svo eru fleiri fæðutegundir fyrir fuglana að gæða sér á. Engin lundaveiði hefur verið í Eyjum í nokkur ár og þær raddir gerast á háværari sem vilja friða lundann um land allt, sem og sjófugla almennt, meðan stofninn er í þessari niðursveiflu.

Lundi 328

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

 

Smyrill

Smyrill

Smyrill 17

Sungu með mér svanur, örn,
smyrill, kría, haukur.
Keldusvín og krummabörn,
kjói og hrossagaukur.

Þjóðvísa

 

 

Útlit og lífshættir

Íslensk fuglafána er fátæk af ránfuglum. Aðeins þrír eiginlegir ránfuglar verpa hér, ein arnartegund og tvær fálkategundir. Smyrillinn er algengasti íslenski ránfuglinn, líkur fálka en miklu minni. Karlfuglinn er blágrár að ofan, með dekkri vængbrodda og dökkan stélsenda, ryðrauður að neðan og á hnakka, svartrákóttur á bringu og kviði, með ljósbrúna kverk og skálmar. Hann er minni en kvenfuglinn, eins og tíðkast hjá ránfuglum. Kvenfugl og ungfugl á fyrsta vetri eru dökkbrún að ofan, sterkrákótt að neðan en grunnliturinn er hvítur eða mógulur. Stélið er dökkbrúnt með mógulum rákum. Bæði kyn eru með óljósa skeggrák. Goggurinn er krókboginn, grár með gulri vaxhúð, fætur eru gulir, dauflitari á ungfugli en fullorðnum. Augu eru dökkbrún.

Smyrill 28

Smyrillinn er lipur og harðfylginn veiðifugl sem flýgur hratt yfir móa og grundir og þreytir oft bráð sína með því að elta hana. Vængjatökin eru hröð og flugið létt, hann svífur sjaldan og hnitar lítið. Ýmist sjást fuglarnir stakir eða í pörum. Síðsumars, þegar ungarnir eru nýfleygir og farnir að takast á við lífið uppá eigin spýtur, halda systkin stundum hópinn og æfa sig í að veiða saman. Þá leika þeir sér að bráðinni, fljúga með hana í loft upp, sleppa og æfa sig í að hremma hana á leið til jarðar. Smyrlar eru mest áberandi á þessum árstíma, síðsumars og á haustin.

Smyrill 30

Lífshættir

Fæðan er aðallega fuglar af ýmsum stærðum, frá þúfutittlingum og uppí dúfur, en þó aðallega smáfuglar, bæði fullorðnir og ungar. Fuglana slær hann oftast á flugi. Tekur einnig hagamýs.

Smyrill hreiður

Smyrillinn verpur á láglendi í klettum, svo sem giljum, gjáveggjum og gígum, stundum líka í bröttum brekkum. Hreiðurgerð er engin, heldur krafsar hann grunna hreiðurskál á gróna syllu eða klettabrún og notar stundum gömul hrafnshreiður. Hann verpur í hentugu búsvæði um land allt, þó ekki á hálendinu. Á veturna er smyrillinn helst við þéttbýli. Meirihluti stofnsins hefur vetursetu á Bretlandseyjum og í V-Evrópu, fáeinir fuglar hafa vetursetu hér og sjást víða um land. Íslenski stofninn er talinn vera 1000-1200 pör. Varpheimkynni smyrils eru um norðanverða N-Evrópu og N-Ameríku.

Smyrill 11

Þjóðtrú og sagnir

Íslensk þjóðtrú geymir ekki margt um smyrilinn. „Smyrillinn er rétt smámynd af fálka, svo er hann líkur honum að öllu útliti, grimmd, hörku og snarpleika. Hann er líka kallaðaur dvergfálki. Mikilsvert þótti töfra og galdramönnum að ná í smyrla til ýmissa töfragagna [tunga smyrils átti að hjálpa mönnum að skilja fuglamál]“. Íslenskar þjóðsögur og –sagnir IV, Sigfús Sigfússon.

Um tilurð heitis fuglsins eru ýmsar langsóttar kenningar, en það þekkist einnig í færeysku, sbr. skipafélagð Smyril-line, sem rekur Norrænu. Gamalt heiti á smyrli er litli skratti.

Smyrill 37

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

 

Krían

Krían

Fuglinn í fjörunniKría 72
hann heitir kría,
svo skal og kveða
og barninu mínu bía.

Fuglinn í fjörunni, þjóðvísa.

 

Útlit og atferli

Kría (Sterna paradisaea) er eini íslenski fulltrúi þernuættarinnar. Hún er spengilegur og tígulegur fugl, nokkru minni en hettumáfur og mun mjóslegnari og rennilegri. Á sumrin er kría með svarta hettu frá goggrótum og aftur á hnakka. Að öðru leyti er hún blágrá, nema hvít rák er undir kollhettunni og hún er hvít á stéli með svartyddar handflugfjaðrir. Stélið er djúpklofið og vængir langir og hvassyddir. Ungfugl (nýfleygur ungi) er með hvítt enni og bringu, brún- og gráflikrótt bak og yfirvængi, lítið eitt klofið eða sýlt stél. Ársgamlir fuglar (og í vetrarbúningi) eru hvítir á enni, bringu og kviði, frambrún vængja er dökk og jaðarfjaðrir stélsins styttri. Oddhvass goggur og fætur eru hárauðir á fullorðnum fugli, á ársgömlum er hvort tveggja svart og á ungfugli er goggur bleikur en dökknar þegar líður á haustið og fætur eru bleikir. Augu eru alltaf svört.

Krían er afbragðs flugfugl, hún andæfir yfir vatni og steypir sér síðan eldsnöggt niður eftir síli. Hún er þekkt fyrir öflugan lofthernað í varplandi sínu og ver ekki aðeins eigin afkvæmi fyrir ræningjum, heldur njóta aðrir fuglar einnig góðs af að verpa í nágrenni hennar. Krían er mjög félagslynd og á sífelldu iði.

Kria42a

Lífshættir

Sandsíli er aðalfæða kríunnar við sjávarsíðuna, en hornsíli inn til landsins. Hún stingur sér eftir fiskinum á flugi. Fangar einnig seyði hrognkelsis og marhnúts, tekur skordýr, smá krabbadýr og burstaorma.

Kría 75

Kría 53

Krían verpur í margs konar kjörlendi, bæði grónu og gróðursnauðu. Stærstu byggðirnar eru á láglendum strandsvæðum og eyjum. Dæmi um stór vörp fyrr og nú eru Reykjanes, Hjörsey, Rif, Hrísey, Núpskatla, Jökulsárlón og Vík. Kría finnst einnig inn til landsins við ár og vötn, jafnvel á miðhálendinu eða við tjarnir í þéttbýli. Hreiðrið er oftast lítilfjörleg dæld, stundum fóðrað með smásteinum og gróðri. Það sem einkennir samdrátt fuglanna á varpstöðvunum er sílisburður karlsins. Hann þarf að sýna og sanna fyrir frúnni að hann sé góður skaffari með því að færa henni síli.

Kria25a

Ferðalangurinn

Varpheimkynnin kríunnar eru allt í kringum Norðurheimskautið, norður til Svalbarða og Grænlands og í Evrópu ná þau suður til Bretlandseyja og Hollands. Krían er langförulust allra fugla, vetrarstöðvarnar eru í S-Atlantshafi (við S-Afríku) og S-Íshafi við Suðurskautslandið og allt austur til Ástralíu. Á haustin fara þær annaðhvort suður með Vestur-Evrópu og Vestur-Afríku suður til Suður-Íshafsins eða þær fljúga yfir Atlantshafið sunnan miðbaugs og halda síðan suður með austurströnd S-Ameríku uns þær koma í S-Íshafið. Á vorin fljúga þær í stóru essi (S) norður eftir Atlantshafinu. Krían fylgir því ætisríkum hafsvæðum á farfluginu og nýtir jafnfram staðvinda til að létta undir með langfluginu. Hún velur sér líka lífrík hafsvæði á veturna og vill helst verpa í nánd við gjöful fiskimið.

Á farfluginu fljúga þær á 45–60 km hraða á klukkustund í 6–7 tíma daglega og fara þannig um 300 km á hverjum degi. Allt ferðalagið aðra leiðina tekur því um einn og hálfan mánuð, hreint ótrúlegt afrek fyrir fugl sem ekki vegur nema rúm 100 g.

Farflug kríunnar er eitt af undrum veraldar. Enginn annar fugl leggur að baki eins langt farflug. Reiknað hefur verið út að elstu fuglar fljúgi sem svarar þrisvar sinnum til tunglsins á ævinni, bara í farflugi. Á varp- og vetrarstöðvum er krían á sífelldu iði, svo heildarflugvegalengdin er talsvert meiri.

Kría 62

 Hrakfarir kríunnar

Árið 2005 fór að verða vart við ætisskort hjá kríum á sunnan og vestanverðu landinu. Þetta átti reyndar við allan þann fjölda sjófugla, sem byggir afkomu sína á sandsíli, eins og lunda, langvíu, ritu og sílamáf. Nýliðun sandsílis hefur meira og minna brugðist síðan þá og sér ekki fram á að það rétti úr kútnum í bráð. Eftir því sem lengra líður milli góðra árganga verður erfiðara fyrir sílið að rétta úr kútnum. Það þarf að koma til góð nýliðun i nokkur ár til að nái sér á strik. Ekkert bendir til að það sé að gerast nú. Þessi óáran er ríkjandi um sunnanvert landið, um línu dregna frá Arnarfirði í Stöðvarfjörð eða þar um bil. Norðan línunnar gengur varp sjófugla mun betur, bæði er meira af sandsíli og svo eru fleiri fæðutegundir fyrir fuglana að gæða sér á.

Kria59a

 

Þjóðtrú og nafnið

Þjóðtrú fylgir komutíma kríuannar, ein þeirra sagði hana birtast á krossmessu á vori og hverfa á krossmessu á hausti. Jafnframt fylgir þjóðtrú því að krían er aldrei kyrr.

Hún var áður nefnd þerna. Það nafn hefur nú færst á ættina og aðrar tegundir hennar. Kríunafnið er hljóðlíking eða hljóðnefni, krían segir nafnið sitt kríí-a.
Kría loksins kom úr hnattferð sinni,
flogið hafði um hálfa jörð,
hérna fann svo þennan fjörð.

Skúli Pálsson.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.