Músarrindill

Músarrindill

Músarrindill (Troglodytes troglodytes)

Músarrindill syngur hástöfum í gróðurhúsi í útjaðri Reykjavíkur.

Músarrindill er af ættbálki spörfugla, langstærsta ættbálki fugla, en honum tilheyra um 60% af tæplega 10.000 fuglategundum jarðar. Hér á landi eru þó ekki nema 12-13 spörfuglategundir sem verpa að staðaldri af um 80 reglulegum varpfuglum. Einangrun landsins, skógleysi og vætusöm veðrátta eru taldar helstu ástæður fyrir þessum rýra hlut spörfugla í íslenskri fuglafánu.

Útlit og atferli

Músarrindill er einn af einkennisfuglum birkiskóganna. Hann er auðþekktur á smæð, hnöttóttu vaxtarlagi, uppsperrtu stéli og þróttmiklum söng sem heyrist allt árið. Hann er rauðbrúnn að ofan en mógrár að neðan með dökkar rákir á vængjum, síðum og undirgumpi og hvíta díla á aðfelldum væng. Hann hefur ljósa brúnarák. Goggur er brúnn, grannur og stuttur, fætur brúnbleikir, augu brún.

Músarrindill flýgur hratt og beint með höfuðið teygt fram og heyrist þytur þegar hann blakar vængjunum ótt og títt. Hann flýgur sjaldan og ekki langt í einu. Þegar hann situr, sveiflar hann uppsperrtu stélinu stöðugt til og frá. Hann er síkvikur en felugjarn og leitar sér ætis, mest skordýra, í þéttum gróðri og grónum urðum. Er venjulega einfari eða í litlum hópum.

Í söng endurtekur hann sífellt fáeina langa og háa tóna og endar í hvellu dillandi hljóði.

Lífshættir

Músarrindillinn lifir á skordýrum, mest bjöllum, lirfum, tvívængjum og fetum og köngulóm, sem hann tínir í lágu þykkni, undir runnum og kjarri, í skurðum og lækjum og á öðrum rökum, dimmum stöðum.  Á vetrum er hann oft í fjörum, þar sem þangflugur og marflær eru aðalfæðan.

Músarrindill verpur dreift í kjarrlendi, skóglendi, grónum hraunum og urðum á láglendi, jafnvel í manngerðum varpkössum í sumarbústaðalöndum. Hreiðrið er kúlulaga og karlfuglinn vefur það úr sinu og rofalýjum undir bökkum, í trjám eða hraunsprungum. Urptin er 6-8 egg og liggur kvenfuglinn á í 16 daga. Ungarnir eru 14-19 daga í hreiðrinu, áður en þeir verða fleygir. Verpur oft tvisvar á sumri. Karlfuglinn tekur ekki þátt í álegunni og getur því haft fleiri en einn kvenfugl í takinu í einu. Á veturna heldur músarrindill sig við opna læki, skurði og í fjörum og stundum í úti- eða gróðurhúsum. Dæmi eru um að fuglar hafi reynt varp um hávetur í upplýstum gróðurhúsum.

Músarrindill við hreiður á Hofi í Öræfum.

Músarrindill ber æti í unga í hreiðri í Grímsnesi.

Músarrindill syngur hástöfum á varpstað í Gunnólfsvík í Finnafirði.

Útbreiðsla og stofnstærð

Íslenski músarrindillinn er staðfugl. Hann er sérstök einlend undirtegund (Troglodytes troglodytes islandicus), stærri og dekkri en frændur hans í Evrópu. Fleiri íslenskar undirtegundir hafa verið skilgreindar, en sennilega kemst músarrindillinn næst því að verða fyrsta einlenda tegundin hér á landi. Varpheimkynni hans eru annars á breiðu belti á norðurhveli jarðar.

Þjóðtrú og sagnir

Músarrindillinn er mikill þjóðsagnafugl. Sagan um keppni fuglanna, hver gæti flogið hæst, hefur bæði verið heimfærð uppá glókoll og músarrindil. Þessi rúmlega 2000 ára gamla saga, um hver ætti að verða konungur fuglanna, snýst um það að sá átti að hreppa titilinn sem hæst gæti flogið. Örninn þótti líklegastur, en músarrindill faldi sig undir stélfjöðrum hans og þegar örninn var orðinn þreyttur og komst ekki hærra, þá skaust rindillinn uppfyrir örninn og gerði tilkall til titilsins. Fyrir þetta uppátæki fékk hann bágt fyrir og þurfti að fara leynt æ síðan.

Músarrindillinn er með stutta og breiða vængi, eins og þessi í Nesjum, A-Skaftafellssýslu.

Í hreiðri músarindils ku vera galdrasteinn í ýmsum litum. Beri menn hann á sér verða þeir ósýnilegir. Taki maður hjarta úr músarrindli, þurrkar það og bindur í klæði og ber í hendi sér, má vita hugsanir annarra. Þvoi maður sér úr volgu blóði músarrindils batnar nætursjónin til muna. Þegar músabróðir kemur til bæja og smýgur inn í hús, veit það á harðviðri.

Vegna laumulegs háttalags og tregðu til að fljúga hefur músarrindillinn verið talinn skyldur músum og fékk af því nafnið músabróðir. Líkt og mýs þá áttu músarrindlar að vera sólgnir í hangikjöt og óðu jafnvel reyk í skorsteinum til að komast í girnileg sauðalæri. Með krossmarki á skorsteinum mátti þó stöðva þá, enda töldu sumir hann óheillafugl.

Músarrindillinn skipaði lengi þann sess, að vera minnsti fugl landsins. Nú hefur glókollurinn velt honum úr sessi, hann er meira en helmingi minni en músarrindill, 6 g á móti 15 g.

Músarrindill í birkiskógi á Þingvöllum að haustlagi.

Kveðskapur

Músarrindill
Þegar aðrir fara og flýja,

finna veröld bjarta og hlýja,
kyrr í sínum heimahögum
harður músarrindill býr.
Hann er öllum öðrum smærri,
eltir þó ei hina stærri,
Undan myrkri og ísalögum
aldrei hann úr dalnum flýr.

Hinir fara og heiminn kanna,
hylla dýrðir stórveldanna,
fyrir páfa og soldán syngja
sólarljóð frá heimskautsbaug,
öðlast frægð af flugi og ljóðum,
frama sig með heldri þjóðum,
lifa vel og efla og yngja
anda sinn í tímans laug.

Víst er gott þar syðra að sitja,
sönglist háa kórar flytja,
þar má njóta náms hjá snjöllum
næturgölum suðurheims.
Is og fannir þar ei þreyta,
þar er sífelld hitaveita.
Ljóma þar i litum öllum
leikhústjöld hins viða geims.

Rindill situr heima hægur,
hirðir ekki að verða frægur.
Hræðum þeim, sem eflir eru,
yrkir hann sin kotungsljóð.
Sé þar litla list að heyra,
láta þau samt vel i eyra.
Ríkust er í raun og veru
röddin hans á bernskuslóð.

Aðrir bera fötin fegri,
frakkastélin merkilegri.
Hann er gráum kufli klæddur,
kvartar ekki um rýran skammt.
Þótt við hret og hörku byggi,
hann er alla stund sá tryggi.
Illa búinn, illa fæddur
unir hann i dalnum samt.

Suður flugu sumargestir,
svo sem lóur, erlur, þrestir.
Þeirra vegna að vetrarlagi
væri byggðin auð og tóm.
Músarrindill ver og varðar
vonir sinnar fósturjarðar,
leggur yfir lund og bæi
lífstrú sína og gleðihljóm.

Eftir Guðmund Inga Kristjánsson (1907-2002).

Músarrindill á fjörusteinum á Akranesi.

Músarrindill
Þú ert engum öðrum háður,
oft og lengi varstu smáður,
samt er enginn eins og þú.
Hríðarbyl og harðan vetur
hefur enginn staðist betur.
Undir steini áttu bú.

Litli fugl með stutta stélið,
stóðstu af þér vetrarélið
inn til dala, út við sjó.
Flúðir aldrei Íslands strendur
út á grænni vonarlendur,
andans kraftur aldrei dó.

Enda veiztu innst í hjarta,
aftur sérðu daga bjarta
skrýða grundir grænum lit.
Vorsins hlýju vindar kalla,
vekja músarrindla alla,
þeirra bíður starf og strit.

Sumir hljótt í holu smjúga,
hátt um loftin aðrir fljúga
enda meira á þeim ber.
Marglitar á mörgum fjaðrir,
mórauðir á litinn aðrir
og heldur lægra hreykja sér.

Mega flestir þrautir þola,
þýðir ekki neitt að vola,
aftur vorar, vinurinn.
Vorrar þjóðar vonarkyndill
vertu – litli músarrindill,
frjálsi, kviki fuglinn minn.

Eftir Guðbjart Össurarson (1954).

 

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Húsönd

Húsönd

Húsönd (Bucephala islandica)

Húsandarhjón á Boðatjörn í Mývatnssveit.

Húsönd telst til andfuglaættbálksins ásamt svönum og gæsum, og allir tilheyra þeir sömu ættinni, andaætt. Húsönd telst til kafanda. Karlfuglinn er ávallt stærri en kvenfuglinn hjá andfuglum, og hjá öndum er hann yfirleitt mun skrautlegri. Eitt af sérkennum andfugla er að þeir fella fjaðrir síðsumars, þar á meðal flugfjaðrir og verða því ófleygir um tíma. Andasteggir skipta um bolfiður áður en þeir fella flugfjaðrir og fá svonefndan felubúning, sem er oft svipaður búningi kollunnar. Felubúningurinn er því eins konar sumarbúningur þeirra. Þeir skarta síðan skrúðbúningi, eftir að þeir verða fleygir að nýju.

Útlit og atferli

Húsöndin er meðalstór önd með sérkennilegt höfuðlag. Hún er einkennisfugl hinnar fuglaauðugu Mývatnssveitar. Í fjarlægð virðist steggurinn, karlfuglinn, dökkur að ofan en ljós að neðan. Hann er með blágljáandi svart höfuð með úfinn hnakka og bratt enni, hvítur hálfmánalagaður blettur er milli goggs og augna. Hann hefur hvítan háls, bringu, kvið og síður, svart bak og afturenda og röð af hvítum doppum á axlafjöðrum. Vængir eru svartir með hvítum speglum og hvítum miðþökum. Í felubúningi líkist hann kollunni, kvenfuglinum, en er með dekkra höfuð og gogg. Ungfugl er brúnn, blettur við goggrót er ógreinilegur. Kolla er með súkkulaðibrúnt höfuð, hvítan hálshring, dökkgráan búk og hvíta bringu, höfuðlag og vængmynstur svipað og á steggi. Stærðarmunur kynja er meiri en hjá flestum öðrum öndum.

Goggur steggs er stuttur, brattur og blásvartur að lit; svartur á kollu með meira eða minna gult við brodd. Bæði kyn eru með gulrauða fætur með dökkum fitjum og heiðgul augu. Augu ungfugla eru gulbrún. Hljóð húsandar er rámt garg.

Húsandasteggir í erjum yfir Laxá.

Ungir húsandarsteggir á Laxá.

Húsandahópur á Laxá að vetrarlagi.

Hvinur heyrist frá vængjum húsanda á flugi. Steggurinn er ákaflega aðsópsmikill og fjörugur í biðilsleikjum sínum, sem hann iðkar mestallan fyrri helming ársins. Hann helgar sér svæði á vatni og á oft í erjum við kynbræður sína. Er lipur sundfugl og heldur sig oft í talsverðum straumi. Húsöndin er félagslynd utan varptíma.

Lífshættir

Húsönd er dýraæta, kafar eftir botndýrum, fullorðnar húsendur lifa á margs konar krabbadýrum og mýlirfum, en ungar virðast þrífast best á bitmýslirfum.

Kjörlendi húsandar er lífrík stöðuvötn og lindár. Hún verpur í holum og gjótum í klettum og hrauni, stundum í þéttum gróðri, veggjum útihúsa og varpkössum. Hreiðrið er fóðrað með dúni. Felli- og vetrarstöðvar eru í sama kjörlendi, jafnframt á ferskvatni. Venjulega hefst varpið síðari hluta maí. Í köldum vorum seinkar varptímanum. Kollan verpur einu eggi á dag, en byrjar ekki að liggja á fyrr en hún er fullorpin. Urptin er 8-12 egg. Útungunartíminn er um það bil mánuður og sinnir kollan álegunni ein. Ungarnir verða fleygir á um 10 vikum.

Húsandarkolla hugar að hreiðurstæði á skorsteini gamla prestsetursins á Skútustöðum.

Húsandarsteggur gerir sig til fyrir kollu í Mývatnssveit.

Húsandarhjón á góðri stund í Mývatnssveit.

Húsandarkolla með unga við Mývatn.

Húsandarop á hlöðu á Laxárbakka í Mývatnssveit.

Árni heitinn Gíslason á Laxárbakka við hreiðurkassa í hlöðu á bænum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Einu varpstöðvar húsandar í Evrópu eru á Norðausturlandi, aðallega við Mývatn og Laxá, en örfá pör verpa annars staðar, m.a. í Veiðivötnum og stundum við Þingvallavatn og Sog. Hún hefur vetursetu á varpstöðvunum og á íslausum vötnum og ám á Suðurlandi. Stofninn er talinn vera um 2000 fuglar. Kynjahlutfall er mjög skekkt, steggjum í vil og hlutfallslega fáar kollur verpa hverju sinni. Húsöndin er á válista Náttúrufræðistofnunnar Íslands sem tegund í nokkurri hættu (VU). Hún er alfriðuð, en eggjataka er leyfð í Mývatnssveit. Meginvarpstöðvarnar húsandar eru í Klettafjöllum og í norðvesturhluta N-Ameríku, en hún finnst líka í NA-Kanada og varp til skamms tíma í SV-Grænlandi.

Hvinönd

Hvinönd (Buchephala clangula) er náskyld húsönd og fær hún nafn sitt af hvininum, sem heyrist í vængjum hennar og þeirra frænkna, þegar þær fljúga hjá. Á dönsku heitir húsöndin „islandsk hvinand“. Hvinöndin er árviss vetrargestur og er talið að fuglarnir komi frá Skandinavíu. Hún sést oft á ferskvatni með húsöndum og stundum á sjó. Oftast sjást fáeinar allt sumarið á Mývatni. Hvinöndum hefur fækkað hér á síðustu árum. Steggurinn er með kringlóttan blett við goggrót, ekki hálfmánalaga eins og húsönd, og höfuð er grængljáandi og hann er hvítari á hliðum. Kollan er mjög svipuð húsandarkollu, en höfuðlag er annað.

Hvinandarsteggur á Óhappstjörn í Mývatnssveit.

Þjóðtrú og sagnir

Nafn sitt dregur húsönd af því að verpa í húsum. Áður fyrr varp hún í hlöðnum veggjum torfbæja, en eftir að farið var að nota steinsteypu sem aðalbyggingarefni í Mývatnssveit, útbjuggu bændur hreiðurstæði fyrir hana með því að hafa göt á göflum útihúsa og setja upp varpkassa þar fyrir innan. Húsandaregg hafa verið nýtt frá landnámi og virðist sú nýting ekki hafa áhrif á stofnstærð húsandar, heldur skiptir fæða og veðurfar sköpum fyrir afkomuna.

Íslensk þjóðtrú er fátæk af sögnum um húsöndina, eins og um aðrar endur. Oft eru allar endur settar undir sama hatt. Þær hafa verið kallaðar spáfuglar vindanna og eru víða um lönd taldir áreiðanlegir veðurvitar. Það var haft á orði í Kröflueldunum 1975-84, að endur hafi orðið órólegar og fundið á sér þegar ný jarðskjálftahrina eða goshrina var að bresta á.

Kveðskapur


Eyjar og hólmar allir
anga af lífi frjóu,
vaxin hvönnum og viði
vernda sundþolna gesti.
Undir gulstör og grasi
geymir skúföndin hreiður,
hefur við klettinn hrjúfa
húsöndin fundið skúta.
Stendur við strangar flúðir
straumöndin fagurlita,
grávíðir humlagullinn
gætir duggandareggja.

Úr Laxá í Aðaldal eftir Kristbjörgu Freydísi Steingrímsdóttur.

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Haförn

Haförn

Ungur haförn í Ölfusi.

Haförn (Haliaeetus albicilla)

Haförninn er af ættbálki haukfugla (Accipitriformes) og af haukaætt (Accipitridae). Hann er eini fulltrúi ættbálksins hér á landi.

Útlit og atferli

Haförn er stærsti og sjaldgæfasti ránfugl landsins, með yfir 2 m vænghaf, oft nefndur konungur fuglanna. Aðallitur er brúnn. Fullorðinn örn er gulur eða ljósbrúnn á höfði, aftur á bak og niður á bringu en fjaðrajaðrar ljósir á baki og yfirvæng (hann er „hreistraður“). Fleyglaga stélið er hvítt. Ungfugl er allur dekkri, mógul- og rauðbrúnflikróttur að ofan, ljósari að neðan, sérstaklega á bringu. Hann lýsist smám saman með aldrinum, stél á undan höfði, og verður fulltíða sex ára. Kvenfuglinn, assan, er töluvert stærri en karlfuglinn, arinn. Goggurinn er stór, krókboginn og gulur en dökkur á ungfugli. Fætur eru gulir og klærnar dökkar. Augu eru rauðgul á fullorðnum erni, dökkgrá á ungfugli.

Örninn er auðgreindur á stærð og lögun og ferhyrndum vængjunum með ystu handflugfjaðrir vel aðskildar (fingraðar). Svífur gjarnan en er þunglamalegur í flugtaki. Oft má sjá úr mikilli fjarlægð hvar örninn svífur á þöndum vængjum yfir landi eða hafi og leitar að bráð, eða hvar hann situr langtímum saman kyrr á sama útsýnisstaðnum. Venjulega er hann styggur og friðsamur en getur verið ágengur við hreiður. Ernir eru oftast stakir, í pörum eða smáhópum (ungfuglar).

Hljóð arnarins eru hrjúft gelt eða hlakk, assan er dimmraddaðri.

 

Fullorðinn haförn steypir sér.
Fullorðinn örn við Breiðafjörð.
Fullorðinn örn við Breiðafjörð.
Ungur örn við Breiðafjörð. Fuglinn er merktur með númeruðum fóthringjum, svo fylgjast megi með ferðum hans.

Lífshættir

Örninn veiðir sér til matar og er aðalbráðin fýll sem hann tekur á flugi, en æðarfugl tekur hann á sjó og fisk (hrognkelsi, laxfiskar) grípur hann við yfirborð. Lundi og máfar eru einnig teknir. Hann etur gjarnan hræ og rænir stundum æti frá öðrum fuglum.

Kjörlendi hafarnar er strendur með miklu útfiri, einnig fiskauðugar ár og vötn. Hann verpur í hólmum, á klettasyllum, stöpum í bröttum hlíðum eða hraunum. Hreiðrið er stundum allmikill birkilaupur en oftast lauslega samsett dyngja úr þangi, hvannnjólum og grasi. Eggin eru 1-3, en þrír ungar komast sjaldan á legg. Útungunartíminn er 5-6 vikur og ungarnir verða fleygir á 10-11 vikum.

Arnarhjón við Breiðafjörð.
Arnartvíburar í hreiðri við Faxaflóa.
Arnarhjón við hreiður með einum unga.

Útbreiðsla og stofnstærð

Haförninn er staðfugl. Hann var áður dreifður um land allt en höfuðstöðvarnar hafa ávallt verið á Vesturlandi. Þar hélt hann velli þrátt fyrir skefjalausar ofsóknir undir lok 19. aldar. Hann var alfriðaður 1913 en var þrátt fyrir það nærri útdauður um 1960, þá voru aðeins um 20 hjón í stofninum. Árið 1963 var Fuglaverndarfélag Íslands stofnað til verndar erninum. Síðan þá hefur stofninn er rækilega vaktaður í samstarfi Fuglaverndar og Náttúrufræðistofnunnar.

 

Ernir „klóast“ í loftinu. Í Faxaflóa.
Á síðustu áratugum hefur erninum fjölgað hægt en örugglega og var stofninn 75 pör, 200-250 fuglar, árið 2016. Þar af verpa 63% við Breiðafjörð, en afgangurinn við Faxaflóa, á Vestfjörðum og við Húnaflóa. Sennilega á örninn eftir að nema land í öðrum landshlutum að nýju. Hann hefur reynt varp á Suðurlandi á síðustu árum, en ekki komið upp ungum. Þeir leita aftur á gamla varpstaði, sem hafa ekki verið notaðir í áratugi. Á veturna má búast við þeim hvar sem er. Annars staðar verpa hafernir frá Vestur-Grænlandi austur um Evrópu og Asíu að Kyrrahafi.

Ekki má nálgast hreiður arna á varptíma, nema með sérstöku leyfi frá Umhverfisstofnun. Allar hreiðurmyndir sem fylgja pistlinum eru teknar með leyfi stofnunarinnar.

Fullorðinn örn hefur sig til flugs.
Örn á flugi í Breiðafirði að vetrarlagi.
Hrafnar gera at í ungum erni. Í Faxaflóa.
Fullorðinn haförn.

Þjóðtrú og sagnir

Eins og eðlilegt má teljast, fylgja ófár sagnir og mikil þjóðtrú erninum. Það er alþekkt þjóðtrú, að ernir taki börn. En börn urðu minnug af að drekka mjólk gegnum arnarfjöðurstaf. Til að sjá hulda hluti skal maður bera á sér arnarauga eða maka því í kringum augu sér. Ef gull er látið í arnarhreiður, skapast óskasteinn og úr ófrjóu eggi brýst sá mikli ránfugl, sem flugdreki nefnist.

Kveðskapur

Örninn flýgur fugla hæst
Örninn flýgur fugla hæst um forsal vinda.
Hinir það sér láta lynda,
leika, kvaka, fljúga og synda.

Þjóðvísa.

Að vestan

Yst á Hornströndum heitir
Hornbjarg og Kópatjörn.
Þeir vita það fyrir vestan,
þar verpur hvítur örn.

Eftir Theodóru Thoroddsen.


Klógulir ernir yfir veiði hlakka;
því fiskar vaka þar í öllum ám.
Blikar í laufi birkiþrastasveimur
og skógar glymja, skreyttir reynitrjám.

Úr Gunnarshólma eftir Jónas Hallgrímsson.

Haförn

Fagur er fuglinn
er flýgur hér hjá.
Frjálsborinn er hann
og hafið hann á.

Flýgur yfir Esjuna
haförninn sá.
Gyllir í sól
við sjávarrönd.

Ferjumaðurinn.

 

 

Ungur örn í Ölfusi.
Fullvaxinn arnarungi. Í Faxaflóa.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Lóuþræll

Lóuþræll

Lóuþræll (Calidris alpina)

Lóuþræll í Eyrarbakkafjöru.

Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Einkenni margra vaðfugla eru langur goggur, langir fætur og langur háls. Þeir eru dýraætur sem éta alls konar hryggleysingja og langur goggurinn er hentugur til að grafa eftir æti í leirum, tjarnarbotnum og jarðvegi. Vaðfuglar helga sér óðul og verpa pörin stök. Ungarnir eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið strax og þeir eru orðnir þurrir. Hjá flestum vaðfuglum ala báðir foreldrarnir önn fyrir ungunum.  Kynjamunur er lítill hjá vaðfuglum, karlfuglinn er þó oft aðeins skærlitari og ívið minni en kvenfuglinn. Þessu er þó öfugt farið hjá sundhönum (óðinshanar og þórshanar hér á landi). Sjáist hjón saman má oft aðgreina kynin.

Útlit og atferli

Lóuþrællinn er smávaxinn vaðfugl, einkennisfugl í mýrum og hálfdeigjum. Á sumrin er hann gulbrúnn og svartflikróttur að ofan en ljósari að neðan með stóran, svartan blett eða svuntu neðarlega á bringunni og aftur á kvið. Á flugi má sjá mjó hvít vængbelti. Gumpur er hvítur með dökkri rák í miðju og stél grátt, einnig með svartri miðrák. Á veturna missir hann svörtu svuntuna. Ungfugl er svuntulaus, með áberandi rákótta bringu. Goggurinn er fremur langur, svartleitur og örlítið niðursveigður. Fæturnir eru einnig svartir og augun dökk.

Lóuþræll í Friðlandinu í Flóa.

Syngjandi lóuþræll við Heiðarhöfn á Langanesi.

Lóuþræll sýnir vald sitt í Eyrarbakkafjöru.

Lóuþrællinn flýgur hratt. Í hópum á flugi bregður til skiptis fyrir ljósum kviðnum og brúnu bakinu. Hann stendur fremur hokinn. Er félagslyndur utan varpstöðva. Sést oft í fylgd með lóum á vorin og dregur af því nafn sitt, ásamt því að bera svipaðan fjaðurham og lóan. Þaðan fær hann nafn sitt. Hann gefur frá sér langdregið vell á varpstöðvum og stutt og hvellt, bírrandi nefhljóð.

Lífshættir

Lóuþrællinn er dýraæta, tekur skordýr, m.a. mýrlirfur, smá skeldýr, snigla og burstaorma. Leitar ætis í hópum utan varpstöðva, oftast í fjörum.

Verpur í margs konar mýrlendi, forblautu jafnt sem hálfdeigu, en einnig í þurrara graslendi og móum og þéttasta varpið er talið vera á Suðurlandsundirlendinu. Hreiðrið er dæld í gróður, fóðrað með sinu, venjulega vel falið. Eggin eru fjögur, útungun tekur um þrjár vikur og ungarnir verða fleygir á öðrum þremur. Utan varptíma er hann oft í stórum hópum á leirum og söndum með öðrum vaðfuglum, en sést einnig í votlendi inn til landsins.

FlóaLóuþrælshreiður í Friðlandinu í Flóa.

Lítið er lunga í lóuþrælsunga … Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lóuþræll með unga barmar sér og reynir að afvegaleiða ljósmyndarann. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útbreiðsla og stofnstærð

Lóuþræll er farfugl. Vetrarstöðvar íslenskra fugla eru aðallega í Vestur-Afríku, en hluti þeirra dvelur á vestanverðum Pýreneaskaga á veturna. Grænlenskir lóuþrælar fara hér um vor og haust, sumir þeirra eru ljósari en þeir íslensku. Örfáir fuglar sjást stundum í fjörum á Suðvesturlandi á veturna. Lóuþræll verpur allt í kringum Norður-Íshafið og suður til Englands og Póllands.

Ungur lóuþræll í Eyrarbakkafjöru.

Lóuþrælar í vetrarbúningi á Eyrarbakka.

Hópur af lóuþrælum í Andakíl.Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Þjóðtrú, sagnir og kvæði

Lítið er um lóuþrælinn í þjóðtrúnni, það helsta tengist sambandi hans við lóuna, eins og nafnið bendir til. Hann á meðal annars að aðstoða hana í makavali.

Kveðskapur

Nafnlaus vísa

Gamli vinur, Gísli sæll,
gott er frá að heyra,
í lofti kvakar lóuþræll
ljúft við kalið eyra.

Eftir Högna Egilsson.

Lóuljóð

Við kveðum um lóunnar ljóðin
en látum þær syngja óðinn
þó mishátt sé gengið og gróðinn
er gatan í sömu átt.
Kvöldhúmið stígur hljóðan dans
hörpuna blærinn slær
þær ferðast í líki freistarans
þó feti nær vaknar þú litli lóuþræll
og leitar í hverjum mó
en tilvera þín er tjörn í lágum skó
þær gefa þér allt sem þær eiga
oftast nær fleira en þær mega.
Já lóan er fim þessi fleyga
þó flugið sé stundum lágt.

Eftir Guðmund Árna Valgeirsson.

Heiðlóan syngjandi frá okkur flaug

Heiðlóan syngjandi frá okkur flaug
með fegurstan sönginn og bestan.
Í Kinninni er farið að taka í taug
tittlingasöngur að vestan.

Eftir Baldur Baldvinsson á Ófeigsstöðum.

Kristján frá Djúpalæl svararði:

Barst til okkar angurvæl austan úr ríki klaka.
Ofurlítinn lóuþræl langaði til að kvaka.

.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson.

Hettumáfur

Hettumáfur

Hettumáfur (Larus ridibundus)

Hettumáfshjón í varpi á Stokkseyri.

Fullorðinn hettumáfur á flugi í Borgarfirði.

Máfar, kjóar og þernur eru af sama ættbálki og vaðfuglar og svartfuglar og teljast til strandfugla (Charadriiformes). Fuglarnir hafa sundfit, flestir máfar og kjóar eru með sterklegan gogg sem er krókboginn í endann. Þeir eru leiknir flugfuglar. Kynin eru eins útlits, en karlfuglinn er oftast heldur stærri. Máfar, kjóar og þernur verpa yfirleitt í byggðum. Ungar þeirra eru bráðgerir. Máfum er oft skipt í tvo hópa til hægðarauka, stóra máfa (svartbakur, hvítmáfur, sílamáfur o.fl.) og litla (t.d. hettumáfur, rita og stormmáfur).

Hettumáfar kljást. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Hettumáfur í júlí á Stokkseyri, aðeins byrjaður að fella hettuna.

Útlit og atferli

Hettumáfur er algengur votlendisfugl og minnsti máfurinn sem verpur hér á landi að staðaldri. Hann er oftast auðþekktur, ljósari, minni og léttari á flugi en rita og stormmáfur. Í sumarbúningi er fullorðinn fugl ljósgrár á baki og vængjum en annars hvítur að mestu. Dökkbrún hetta nær niður á háls, vængbroddar eru svartir. Hettumáfur er hettulaus í vetrarbúningi, frá ágúst og fram í mars, með svartar kámur aftan augna. Nýfleygir ungar eru brúnflikróttir að ofan en lýsast á haustin. Fugl á fyrsta vetri er hvítur á höfði, hálsi og að neðan, vængir brún- og svartflikróttir að ofan, stéljaðar svartur. Fær fullan búning á öðru hausti. Mjósleginn goggur og fætur eru hárauðir á fullorðnum hettumáfi, en ungfugl er með bleiklita fætur og gogg með dökkum broddi. Augu eru dökk og augnhringur er hvítur.

Hettumáfur er ekki eins mikill sjófugl og rita. Hann sést oft við fæðuleit í fjörum, á leirum og við skólpræsi. Er félagslyndur og fremur spakur. Gefur frá sér hávært garg, sérstaklega um varptímann.

Hettumáfur með hreiðurefni í varpi í tjarnarstör á Stokkseyri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Hettumáfshreiður. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Hettumáfsungi á Stokkseyri.

Hettumáfur með þrjá fullvaxna unga á við Þrísteinaflóð, Stokkseyri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Nýfleygur hettumáfsungi á Akureyri. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Ársgamall hettumáfur í vetrarbúningi við Reykjavíkurtjörn.

Lífshættir

Aðalfæða hettumáfs er úr dýraríkinu, svo sem skordýr, sniglar, ormar og aðrir hryggleysingjar. Hann sækir einnig í smáfisk, ber og úrgang og leitar ætis fljúgandi, syndandi og gangandi. Stundum eltir hann sláttuvélar eða plóga og hremmir smádýr sem koma í ljós í slægjunni eða plógfarinu.

Verpur í byggðum í margs konar kjörlendi á láglendi, bæði blautu og þurru, en er hændastur að votlendi, við strendur, á söndum, í mýrlendi og við vötn og tjarnir girtar ljósastör, stundum í nábýli við kríu. Hreiðrið er dyngja úr þurrum gróðri, getur orðið stórt um sig í votlendi. Eggin eru oftast þrjú, álegan tekur 23-26 daga, og ungarnir verða fleygir á um fimm vikum. Hettumáfur nam hér land á 20. öld. Líkt og krían er hann harðfylginn og ver vörp sín gegn óboðnum gestum og sækjast endur og vaðfuglar eftir því að verpa innan um hettumáfa. Hann er því lykiltegund.

Hettumáfshjón í varpi á Stokkseyri.

Útbreiðsla og stofnstærð

Hettumáfur er að mestu farfugl, þó fáein þúsund hafi hér vetursetu, aðallega á Suðvesturlandi, en í minna mæli á norðanverðu landinu. Hann er útbreiddur um land allt, en stærstu byggðirnar eru á Suðurlandi, við sunnanverðan Faxaflóa og um miðbik Norðurlands. Byggðirnar geta verið óstöðugar og eru dæmi þess að stærstu vörp hafa flutt sig um set, stundum tímabundið. Vetursetufuglar halda til í höfnum og við þéttbýli, en farfuglar fara til Vestur-Evrópu en einnig til SV-Grænlands, Nýfundnalands og víðar um Norður-Ameríku, þar sem hann er nýfarinn að verpa. Er annars varpfugl um mestalla Evrópu og austur um norðanverða Asíu. Varpstofninn hér er talinn vera 25.000-30.000 pör.

Skildar tegundir

Litli frændi hettumáfsins, dvergmáfur, hefur verið að þreifa fyrir sér með landnám hér á síðustu árum, hreiður hans hafa fundist í hettumáfsvörpum á Norðurlandi. Trjámáfur er systurtegund hettumáfs í Norður-Ameríku, og hefur hann einu sinni orpið hérlendis.

Dvergmáfur við Bakkatjörn á Seltjarnarnesi.

Trjámáfur á Rauðasandi.

Þjóðtrú, sagnir og kvæði

Þar sem hettumáfurinn er svo nýr borgari í náttúru Íslands er ekkert um hann að finna í íslenskri þjóðtrú. Enginn virðist hafa fundið sig knúinn til að yrkja um hann. Hettumáfur er stundum nefndur dagblaðskría, en það gerðist ítrekað hér á árum áður, að blöðin birtu mynd af hettumáfi á forsíðu og sögðu að krían væri komin. Blöðin í dag hafa tekið sig á í fuglagreiningu.

 

Texti og myndir: Jóhann Óli Hilmarsson.