Hrossagaukur

Hrossagaukur

Hrossagaukur (Gallinago gallinago)

Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Einkenni margra vaðfugla eru langur goggur, langir fætur og langur háls. Þeir eru dýraætur sem éta alls konar hryggleysingja og langur goggurinn er hentugur til að grafa eftir æti í leirum, tjarnarbotnum og jarðvegi. Sumir þeirra sækja í þurrlendi og hafa þá fremur stuttan gogg og fætur eins og sandlóa og heiðlóa. Vaðfuglar helga sér óðul og verpa pörin stök. Ungarnir eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið strax og þeir eru orðnir þurrir. Hjá flestum vaðfuglum ala báðir foreldrarnir önn fyrir ungunum og jafnvel fæða þá fyrst í stað (tjaldur og hrossagaukur). Undantekningar eru þó frá þessu.

 

Útlit og atferli

Hrossagaukur, sem einnig er kallaður mýrispýta eða mýrisnípa, er algengur, meðalstór vaðfugl, sem fer gjarnan huldu höfði. Hann er í brúnum og ryðrauðum felulitum, nema kviðurinn er hvítur. Mógular rákir á höfði og eftir endilöngu baki eru einkennandi, auk dökkra koll- og augnráka. Jaðrar stélfjaðranna eru hvítir. Kynin eru eins. Brúnleitur goggurinn er mjög langur og fremur sterklegur, styttri á ungfuglum, en mógulir fæturnir fremur stuttir með löngum tám. Augun eru brún.

Hneggjandi hrossagaukur á Stokkseyri.

Hrossagaukur klórar sér við veginn að Fjalli í Hjaltadal.

Fluglag hrossagauks er rykkjótt og sérkennilegt. Á vorin flýgur hrossagaukur hringflug yfir óðali sínu og „hneggjar“ án afláts. Erfitt er að koma auga á hann á jörðu niðri, því hann er var um sig og felugjarn. Þegar hann fælist, flýgur hann snögglega upp með skrækjum og hverfur á braut með hröðum vængjatökum eða steypir sér snöggt til jarðar. Fremur ófélagslyndur fugl.

Röddin er skerandi ískur heyrist þegar hann flýgur upp og hann syngur oft hjakkandi stef, tjakka, tjakka, tjakk. Kunnuglegast er þó hneggið, sem kveður við þegar vængirnir mynda loftstraum sem leikur um ystu stélfjaðrirnar um leið og hann steypir sér niður á flugi.

 

Lífshættir

Hrossagaukurinn stingur löngum goggnum í votan og mjúkan jarðveg og tínir upp orma og aðra hryggleysingja svo sem lirfur tvívængja, bjöllur og áttfætlur. Hann étur einnig ýmislegt jurtakyns.

Hrossagaukur potar eftir æti í snævi þakta jörð við Lambhaga, Reykjavík.

Hrossagaukshreiður í Friðlandinu í Flóa.

Hann verpur í mýrlendi en einnig á þurrari svæðum á láglendi, t.d. í kjarrlendi og jafnvel uppi á heiðum. Hreiðrið er venjulega vel falið í sinu eða öðrum gróðri, fóðrað með grasi og sinu. Eggin eru fjögur og klekjast á rétt tæpum þremur vikum. Ungarnir eru þrjár vikur að verða fleygir. Foreldrarnir skipta ungahópnum á milli sín og ala hvort um sig upp tvo unga. Utan varptíma (á fartíma) er fuglinn aðallega í votlendi en á veturna í opnum skurðum, dýjaveitum og á jarðhitasvæðum.

Hrossagauksungi í Andakíl.

Hrossagaukur með unga í Mývatnssveit.

Útbreiðsla og stofnstærð

Hrossagaukur er að mestu farfugl. Nokkrir fuglar hafa vetursetu, þeir finnast í flestum landshlutum. Meginvetrarstöðvarnar íslenskra fugla eru í Vestur-Evrópu, mest á Írlandi. Hann verpur víða í Evrópu og Asíu.

 

Þjóðtrú og sagnir

Margs konar þjóðtrú fylgir hrossagauknum. Hann átti ekki að geta hneggjað á vorin, fyrst eftir að hann kæmi til landsins, fyrr en hann fengi merarhildar að eta. Hann er þekktur spáfugl. Hann spáði fyrir um sumarið, hvað væri í vændum, eftir því í hvaða átt fólk heyrði hann fyrst hneggja á vorin:

 

Í austri er unaðsgaukur,
í suðri sælugaukur,
í vestri vesælgaukur,
í norðri námsgaukur.
Uppi er auðsgaukur,
niðri nágaukur.

Önnur vísa er svona:

Heiló syngur sumarið inn,
semur forlög gaukurinn,
áður en vetrar úti er þraut,
aldrei spóinn vellir graut.

Hrossagaukur

Hrossagaukur flýgur
undan fótum þér í blánni

þú hrekkur við
hlustar

er það hjartað í brjósti þér
eða hnegg hans við ský.

Eftir Snorra Hjartarson.

Litrófið

Sumarið kann ég að meta
með seytlandi lækjum af heiðinni niður að sjónum
Ég nefni tónstiga hrossagauksins
sem nær frá himni sirkustjaldsins
niður að gólfi
án afláts klifinn af fuglum
í öllum regnbogans litum
Ymjandi kontrabassi hunangsflugunnar
mælir hæð hinna skærustu tóna
Ég kann að meta fimmundagripin
og fúgur trjágreina og lyngs
sem flétta mér hljóðlátan unað

Fyrsti hluti Litrófsins eftir Hannes Sigfússon.

Dansandi hrossagaukar við Bakkatjörn á Seltjarnarnesi.

Sjaldgæf sjón, hópur hrossagauka á flugi í Holtum.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Um Íslandssléttbak í Kaupmannahöfn og stafræna varðveislu hans

Um Íslandssléttbak í Kaupmannahöfn og stafræna varðveislu hans

Miðvikudaginn 20. mars n.k. verður haldin málstofa í Þjóðminjasafninu undir heitinu Stafrænar lausnir fyrir söfn og setur ‒ MMEx. Hér er á ferð mjög áhugvert tækifæri til að kynna sér það nýjasta sem er að gerast á sviði stafrænna lausna í tengslum við miðlun og varðveislu á menningar- og náttúruminjum.

Náttúruminjasafn Íslands tekur þátt í málstofunni og mun Aleksandr Jakovlev framkvæmdastjóri tæknifyrirtækisins Rigsters í Kaupmannahöfn greina frá verkefni sem lauk nýverið og Rigsters vann fyrir Náttúruminjasafnið – hágæða þrívíddarskönnun á beinagrind Íslandssléttbaks (Eubalaena glacialis). Dagskrá málstofunnar má lesa hér.

 

Íslandssléttbakur (Eubalaena glacialis). Einnig nefndur höddunefur, hafurkitti og sléttbakur (litli- og stóri-sléttbakur segir Jón lærði Guðmundsson). Á dönsku kallast hann nordkaper, enskir kalla hann North Atlantic right whale og þýskir glattwahl.

 

Ekki er til eintak á Íslandi af tegundinni og aðeins örfá söfn erlendis eiga heila beinagrind tegundarinnar. Meginmarkmiðið með skönnunarverkefninu á Íslandssléttbakinum, sem er skilgreindur sem hluti af íslenskum náttúruarfi, er stafræn varðveisla á beinagrind af afar fágætri hvalategund sem áður var algeng við Ísland en er nú í útrýmingarhættu. Öðrum þræði er skönnunin hugsuð til margs konar miðlunar á upplýsingum og fróðleik um tegundina, og jafnvel til að búa til eftirgerð af beinagrindinna með því að fræsa hana út eða prenta í þrívídd að hluta eða öllu leyti.

Skönnun beinagreindarinnar hjá Rigsters var all umfangsmikið verk og til þess beitt vél- og hugbúnaði sem starfsmenn þróuðu sjálfir að verulegu leyti. Hér má fylgjast með framvindu verkefnsins í kjallara Zoologisk Museum og hérna má velta fyrir sér einfaldri útgáfu af samsettri beinagrindinni.

Íslandssléttbakurinn sem Náttúruminjasafnið lét skanna á sér mjög áhugaverða sögu. Hann var veiddur hér við land árið 1891 út af Vestfjörðum og unninn í hvalstöð Victorsfélagsins norska á Höfðaodda við Dýrafjörð. Um haustið var siglt með beinagrindina til Kaupmannahafnar, til umsjónar og vörslu Dýrafræðisafns Danmerkur, Zoologisk Museum. Þar hefur beinagrindin verið í geymslu, fyrst í kjallara í miðborginni þar sem Hafnarháskóli hafði aðsetur, en síðar í kjallara við Universitetsparken í Nørrebro þar sem Zoologisk Museum er nú til staðar. Í aðfangabók Zoologisk Museum dags. 13. september 1891 er fært að beinagrindin sé komin og að hún hafi mælst 13,7 m á lengd, þar af haus 4,2 m og hryggur 9,5 m. Dýrið var með öðrum orðum fullvaxið þegar það var veitt.

Íslandssléttbakur kominn á land í hvalstöð Victorsfélagsins á Höfðaodda (Framnesi) í Dýrafirði. Myndin er tekin 1891, sama ár og hvalurinn sem Náttúruminjasafnið hefur látið skanna. Er þetta sá hvalur? Myndin er fengin úr bók Smára Geirssonar, Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915, sem kom út 2015.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Íslandsslétttbakurinn umræddi í kjallara Zoologisk Museum. Merktur ZMUC-CN2 í aðfangaskrá. Ljósmynd: NMSÍ.

 

Hryggjarsúlur tveggja Íslandssléttbaka (í hillu) í kjallara Zoologisk Museum. Veiddir 1891 og 1904. Ljósmynd: NMSÍ.

Og þeir eru fleiri Íslandssléttbakarnir sem leynast í kjallara Zoologisk Museum. Þar eru tvær beinagrindur til viðbótar af þessari tegund, þar af önnur, sú stærri (11,5 m) af hval sem einnig var veiddur við Ísland, árið 1904 af norskum hvalföngurum. Hin beinagrindin er af ungviði sem drapst við strendur Spánar árið 1854.

Með sanni má segja að Íslandssléttbakarnir tveir sem voru veiddir hér við land séu hluti af náttúruarfi Íslands. Hvalirnir héldu til við Ísland og voru veiddir þar. Margt bendir til að þessi tvö dýr séu meðal þeirra allra síðustu af þessari tegund sem yfir höfuð voru veiddir í Atlantshafi. Tegundin var all algeng í norðanverðu Atlantshafi á öldum áður, bæði við austurströnd Ameríku og vesturströnd Evrópu. Baskar veiddu að líkindum Íslandssléttbaka hér við land undir lok miðalda. Þeim fór hratt fækkandi vegna ofveiði og strax um miðja 19. öld höfðu menn áhyggjur af stórfelldri fækkun tegundarinnar.

Tegundin er afar fáliðuð og er heildarstofninn álitinn vera aðeins 400‒500 dýr, þar af líklega einungis um 100 dýr við vestanverða strönd Evrópu og N-Afríku. Tegundin hefur verið alfriðuð síðan 1930 samkvæmt ákvörðun Alþjóðahvalveiðiráðsins (IWC) og samkvæmt hættuflokkun Alþjóðanáttúruverndarsambandsins (IUCN) telst tegundin vera „Í hættu“ (e. Endangered – EN) og mjög miklar líkur á að hún verði útdauð í náttúrunni í fyrirsjáanlegri framtíð. Vandinn sem steðjar að tegundinni í dag eru einkum ásiglingar, ánetjun og hlýnun sjávar með tilheyrandi breytingum í sjávarlífríkinu, þ.m.t. í fæðu hvalanna.

Málstofan um stafrænu lausnirnar verður í fyrirlestrarsal Þjóðminjasafns Íslands miðvikudaginn 20. mars og hefst kl. 9:00 og stendur til kl. 17:00 og fer fram á ensku. Sætaframboð er takmarkað og skráning bindandi og fer fram á heimasíðu FÍSOS hér. Að málstofunni standa Borgarsögusafn Reykjavíkur, Þjóðminjasafn Íslands og Félag íslenskra safna og safnmanna (FÍSOS) í samstarfi við danska fyrirtækið MMEx. Safnaráð styrkir málstofuna.

Fálkinn

Fálkinn

Fálkinn (Falco rusticolus)

Fullorðinn kvenfálki á Skagaströnd.

Þjóðarfugl og konungsgersemi á 100 ára fullveldisafmæli.

Sýning Náttúruminjasafnsins Vatnið í náttúru Íslands var opnuð 1. desember s.l. í Perlunni á 100 ára fullveldisafmælisdeginum. Þetta er fyrsta stóra sýningin sem höfuðsafn þjóðarinnar í náttúrufræðum stendur sjálft að frá stofnun safnsins árið 2007. Jafnframt er þetta í fyrsta skipti í langri sögu safnsins og forvera þess þar sem sýningaðstæður sæma viðfangsefninu, stórbrotinni náttúru landsins og grundvallarþýðingu fyrir tilvist þjóðarinnar. Það er því við hæfi að gera þjóðarfuglinum, fálkanum, hátt undir höfði. Okkar æðsta orða er kennd við hann, hann var konungsgersemi fyrr á öldum, um tíma í skjaldarmerki Íslands, og nú í merki stjórnmálaflokks og eins öflugasta íþróttafélagsins.

Útlit og atferli fálkans

Fálki eða valur er stór og tígulegur ránfugl, með langa, breiða, odddregna vængi og langt stél, stærsti fugl fálkaættarinnar.

Hann er breytilegur að lit, fullorðinn fálki er venjulega grár eða grábrúnn að ofan með hvítum doppum og rákum, ljósari að neðan, oftast hvítur eða ljósgulleitur með dökkum rákum og dílum. Höfuðið er meira eða minna rákótt, stundum með greinilegum skeggrákum. Stélið er þverrákótt. Karlfugl er venjulega ljósari, en kvenfugl stærri. Ungfugl er dekkri, stundum aldökkur með hreisturmynstri að ofan og rákóttur að neðan.

Goggur er krókboginn, á fullorðnum fálka er hann grár með gulri vaxhúð, fætur eru gulir og augu stór, dökkbrún með gulan augnhring. Ungfugl er með gráan gogg, vaxhúð og fætur.

Fullorðinn kvenfálki í Suður-Þingeyjarsýslu.

Fullorðinn kvenfálki í Suður-Þingeyjarsýslu.

Tígulegur fálki hefur sig til flugs í Suður-Þingeyjarsýslu.

Fálkinn flýgur með hröðum, kraftmiklum vængjatökum og grípur oft til renniflugs, hann er hraðfleygur og mjög fimur á flugi. Á haustin má stundum sjá nokkra ungfálka saman en yfirleitt er fálkinn einn eða hjónin saman.

Fálkinn gefur frá sér hvellt væl á varpstöðvum en gargar reiðilega þegar hann er í árásarhug. Hann er þó oftast þögull.

Lífshættir

Aðalfæða fálkans er rjúpa, sem hann slær með klónum á flugi eða grípur á jörðu niðri. Hann veiðir flestar tegundir fugla, en það fer talsvert eftir veiðilendum, hvaða bráð verður fyrir valinu, allt frá þúfutittlingum og auðnutittlingum, jafnvel hagamúsum, til fullorðinna heiðagæsa.

Fálkinn verpur í klettum, t.d. giljum, gljúfrum, gjáveggjum, stöpum og gígum. Hreiðrið er annað hvort grunn skál á gróinni syllu, en oft gamall hrafnslaupur. Fálkinn byggir ekki hreiður sjálfur og því er hrafninn stundum kallaður byggingameistari fálkans. Urptin er 3–5 egg, hann liggur á í fimm vikur og ungarnir verða fleygir á sjö vikum. Hjónin dvelja á óðalinu árið um kring, ungfuglar ferðast víða innanlands og halda sig við ströndina yfir háveturinn.

Fálkahreiður í hrafnslaup í Suður-Þingeyjarsýslu.

Ungur fálki að snæðingi í útjaðri Reykjavíkur.

Nýfleygur fálkaungi í Suður-Þingeyjarsýslu.

Útbreiðsla og stofnstærð

Fálkinn er staðfugl, talið er að íslenski stofninn telji 300–400 varppör. Heimkynni fálka eru allt umhverfis Norðurheimskautið, venjulega norðan 60°N. Valurinn er eini fálkinn sem er staðfugl á heimskautasvæðum Norðurhjarans. Á Íslandi verpur hann dreift um land allt en er algengastur í Þingeyjarsýslum. Varpstofn fálkans fylgir sveiflum í rjúpnastofninum, en er hnikað þannig að mest er um fálka um þremur árum á eftir hámarki í stofnstærð rjúpu.

Mörg litarafbrigði eru til af fálkanum, frá nær aldökkum fuglum og til nær alhvítra. Dekkstu fálkarnir eru í Skandinavíu og þeir ljósustu á Grænlandi, en íslensku fuglarnir eru þar mitt á milli. Hvítir fuglar sem hér sjást árlega eru kallaðir „hvítfálkar“ eða „Grænlandsvalir“. Fullorðnir hvítfálkar eru alhvítir með dökka vængbrodda og rákir, aðallega að ofan, ungfuglar eru rákóttir. Íslenskir fuglar geta þó verið mjög ljósir, ljósustu karlfuglar eru nær hvítir á höfði og að neðan.

Mjög ljós kvenfálki í Suður-Þingeyjarsýslu.

Fullorðinn kvenfálki í Suður-Þingeyjarsýslu.

Fálkinn var konungsgersemi

Hvenær fálkatamningar hófust í Danmörku er ekki vitað, en skráð er að þegar Hrólfur Kraki Danakonungur, sem uppi var á 6. öld, heimsótti Aðils konung í Uppsölum, bar hvor þeirra fálka á öxlum sér: „Þeir haufdu Hauka sína á oxlom“. Enn eitt fálkaheitið er haukur.

Sagnir herma, að 100 merkur gulls og 60 veiðifálkar væri árlegur skattur sem Hákon Jarl skyldi gjalda Haraldi Blátönn (d. 986), sem hið þráðlausa Bluetooth kerfi er nefnt eftir. Skatturinn var goldinn fyrir þann hluta af Noregi, sem Hákon réði og nefndi Haraldur landið gjarnan „Hauk-ey“ af þessum sökum.

Ísland var hluti af Danmörku 1523–1918. Íslenskir fálkar voru eign Danakonungs frá því um 1600 til 1805. Þúsundir fálka voru fluttir út á þessum rétt rúmu tveimur öldum. Útflutningurinn hætti eftir langt hnignunarskeið. Frá 1731–1793 voru fluttir út um 5000 fálkar, 15–211 fuglar á ári. Hvítur Grænlandsvalur var verðmætastur, en jafnframt sjaldgæfastur. Hann barst með hafís frá Grænlandi og í ísalausum árum brugðust komur hans að mestu. Árið 1771 veiddust hvorki meira né minna en 51 hvítfálki, en að öllu jöfnu voru þeir 4–6 á ári.

Árið 1764 ráðstafaði Danakonungur 210 fálkum til aðalsmanna sem hér segir: Frakkakóngur fékk 50, Þýskalandskeisari 30, Portúgalskóngur 60, landgreifinn af Hessen fékk 20, franski sendiherrann fékk tvo, en kóngur hélt þremur og 45 voru drepnir.

Eftir 1805 var útflutningurinn aðeins brot af því, sem hann hafði verið. Það var þverrandi áhugi á veiðum með fálkum og í kjölfar frönsku byltingarinnar datt botninn meira og minna úr þeim. Stofninn virtist þola þessa tekju nokkuð vel.

Sögu veiða með fálkum má rekja aftur til Mesópótamíu, 2000 árum fyrir Krist. Valurinn hefur ávalt verið afar hátt skrifaður meðal þeirra sem stunda slíkar veiðar, ásamt veiðum á förufálka. Þó margir aðrir fuglar séu nýttir til veiða, eins og gullörn (þekkt í Mongólíu), vákar, haukar, sem og aðrir fálkar, stóð valnum fátt á sporði hvað varðar hraða, snerpu og tígulleika. Þessi veiðiskapur er ávalt kenndur við fálka, eða falconry á ensku.

Íslendingar hafa aldrei stundað veiðar með tömdum fálkum. Aftur á móti eru ólöglegar veiðar á fálkum enn stundaðar hér á landi. Um fjórðungur allra fálka sem finnast dauðir eru áskotnir! Þó var fálkinn alfriðaður árið 1940.

„Drottningin“ horfir yfir ríki sitt í Mývatnssveit.

Fullorðinn fálki á Stokkseyri að vetrarlagi.

Þjóðarfuglinn

Hin íslenska fálkaorða er heiðursviðurkenning veitt einstaklingum, íslenskum og erlendum. Nýjum orðuhöfum er oftast veitt viðurkenningin 1. janúar eða 17. júní. Orðan var stofnuð af Kristjáni X þann 3. júlí 1921 til að sæma þá sem hafa eflt hag og heiður Íslands. Forseti Íslands afhendir orðuna en orðuhafar eru valdir af orðunefnd. Stig fálkaorðunnar eru fimm.

Algengt er að teikningar af einkennisdýri lands séu notaðar í skjaldarmerki. Fyrsta skjaldarmerki Íslands var þorskur. Á dögum sjálfstæðisbaráttunnar var farið að huga að nýju skjaldarmerki og með heimastjórninni fékk Ísland nýtt skjaldarmerki þar sem fálkinn var einkennisdýrið. Og byggir það á hinni miklu sögu fálkaútflutnings frá landinu öldum saman.

Með konungsúrskurði 3. október 1903 var ákveðið að skjaldarmerki Íslands mætti vera hvítur íslenskur fálki. Skyldi fálkinn sitja og snúa til vinstri. Ráðuneyti Íslands í Kaupmannahöfn lét teikna merkið eftir þessari lýsingu. Alberti Íslandsmálaráðherra lagði svo tillöguna fyrir Kristján IX Danakonung, sem samþykkti hana 11. desember 1903. Fálkinn var skjaldarmerki Íslands 1904–1918. Það fer því vart á milli mála, hver sé þjóðarfuglinn, þó sumum líki miður notkun stjórnmálaflokks á tákninu.

Fálkinn er alfriðaður og þarf leyfi Umhverfisstofnunnar til að nálgast hreiður hans. Allar myndir sem eru teknar nærri fálkahreiðrum og fylgja með pistlinum, eru teknar með leyfi.

Ungur fálki rífur í sig bráð á Eyrarbakka.

Ungir fálkar að leik í Suður-Þingeyjarsýslu.

Þjóðtrú og sagnir

Margvísleg þjóðtrú fylgir fálkanum. Ef kona borðaði fugl sem fálkinn hafði slegið, fékk barn hennar valbrá. Óðinn og Loki flugu um í valsham. Töframenn fyrri alda notuðu fálkann í galdra sína. Hann var talinn óætur. Alkunn er sagan um að fálkinn sé bróðir rjúpunnar. Þegar hann er að rífa hana í sig, áttar hann sig á því að hann er að eta systur sína, þegar hann kemur að hjarta hennar, þá vælir hann ámátlega.

Kveðskapur

Óhræsið (hluti)

Valur er á veiðum,
vargur í fuglahjörð,
veifar vængjum breiðum,
vofir yfir jörð;
otar augum skjótum
yfir hlíð, og lítur
kind, sem köldum fótum
krafsar snjó og bítur.

Valur í vígahuga
varpar sér á teig,
eins og fiskifluga
fyrst úr löngum sveig
hnitar hringa marga;
hnýfill er að bíta;
nú er bágt til bjarga,
blessuð rjúpan hvíta!

Eftir Jónas Hallgrímsson

Þula

Láttu fljúga valina
Láttu fljúga valina
langt fram á dalina
brattar eru brekkurnar
búa þar í rjúpurnar,
suður um landið sveima þær
að sækja fæðu sína.
Láttu fljúga valina,
valina þína.

Eftir Sigurð J. Jóhannesson (f. 1842) frá Mánaskál.

Valur í vígahug (hluti)

Valurinn á veiðar fór,
vígalegur fugl og stór,
búinn út með krepptar klær,
kænn er hann að nota þær.

Valurinn í vígahug
veiðisólginn lægði flug,
hvessti sjónir, kreppti kló,
knálegt högg til spörva sló.

Eftir Erlu.

 

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

49 umsóknir!

49 umsóknir!

Náttúruminjasafninu bárust alls 49 umsóknir um stöður tveggja safnkennara sem auglýstar voru við safnið í tengslum við sýninguna Vatnið í náttúru Íslands sem opnar 1. desember n.k. í Perlunni. Umsóknarfrestur rann út 15. nóvember s.l. en störfin voru auglýst á Starfatorgi og Tengslatorgi Háskóla Íslands 24. október s.l.

Þetta eru afar ánægjulegar undirtektir og bendir til mikils áhuga á safntengdri náttúrufræði og fræðslu á því sviði.

Vonast er til að ráðningar í stöðurnar liggi fyrir eigi síðar en 15. desember n.k.

Reiknað er með að safnkennararnir hefji stöf í byrjun janúar á næsta ári.

Músarrindill

Músarrindill

Músarrindill (Troglodytes troglodytes)

Músarrindill syngur hástöfum í gróðurhúsi í útjaðri Reykjavíkur.

Músarrindill er af ættbálki spörfugla, langstærsta ættbálki fugla, en honum tilheyra um 60% af tæplega 10.000 fuglategundum jarðar. Hér á landi eru þó ekki nema 12-13 spörfuglategundir sem verpa að staðaldri af um 80 reglulegum varpfuglum. Einangrun landsins, skógleysi og vætusöm veðrátta eru taldar helstu ástæður fyrir þessum rýra hlut spörfugla í íslenskri fuglafánu.

Útlit og atferli

Músarrindill er einn af einkennisfuglum birkiskóganna. Hann er auðþekktur á smæð, hnöttóttu vaxtarlagi, uppsperrtu stéli og þróttmiklum söng sem heyrist allt árið. Hann er rauðbrúnn að ofan en mógrár að neðan með dökkar rákir á vængjum, síðum og undirgumpi og hvíta díla á aðfelldum væng. Hann hefur ljósa brúnarák. Goggur er brúnn, grannur og stuttur, fætur brúnbleikir, augu brún.

Músarrindill flýgur hratt og beint með höfuðið teygt fram og heyrist þytur þegar hann blakar vængjunum ótt og títt. Hann flýgur sjaldan og ekki langt í einu. Þegar hann situr, sveiflar hann uppsperrtu stélinu stöðugt til og frá. Hann er síkvikur en felugjarn og leitar sér ætis, mest skordýra, í þéttum gróðri og grónum urðum. Er venjulega einfari eða í litlum hópum.

Í söng endurtekur hann sífellt fáeina langa og háa tóna og endar í hvellu dillandi hljóði.

Lífshættir

Músarrindillinn lifir á skordýrum, mest bjöllum, lirfum, tvívængjum og fetum og köngulóm, sem hann tínir í lágu þykkni, undir runnum og kjarri, í skurðum og lækjum og á öðrum rökum, dimmum stöðum.  Á vetrum er hann oft í fjörum, þar sem þangflugur og marflær eru aðalfæðan.

Músarrindill verpur dreift í kjarrlendi, skóglendi, grónum hraunum og urðum á láglendi, jafnvel í manngerðum varpkössum í sumarbústaðalöndum. Hreiðrið er kúlulaga og karlfuglinn vefur það úr sinu og rofalýjum undir bökkum, í trjám eða hraunsprungum. Urptin er 6-8 egg og liggur kvenfuglinn á í 16 daga. Ungarnir eru 14-19 daga í hreiðrinu, áður en þeir verða fleygir. Verpur oft tvisvar á sumri. Karlfuglinn tekur ekki þátt í álegunni og getur því haft fleiri en einn kvenfugl í takinu í einu. Á veturna heldur músarrindill sig við opna læki, skurði og í fjörum og stundum í úti- eða gróðurhúsum. Dæmi eru um að fuglar hafi reynt varp um hávetur í upplýstum gróðurhúsum.

Músarrindill við hreiður á Hofi í Öræfum.

Músarrindill ber æti í unga í hreiðri í Grímsnesi.

Músarrindill syngur hástöfum á varpstað í Gunnólfsvík í Finnafirði.

Útbreiðsla og stofnstærð

Íslenski músarrindillinn er staðfugl. Hann er sérstök einlend undirtegund (Troglodytes troglodytes islandicus), stærri og dekkri en frændur hans í Evrópu. Fleiri íslenskar undirtegundir hafa verið skilgreindar, en sennilega kemst músarrindillinn næst því að verða fyrsta einlenda tegundin hér á landi. Varpheimkynni hans eru annars á breiðu belti á norðurhveli jarðar.

Þjóðtrú og sagnir

Músarrindillinn er mikill þjóðsagnafugl. Sagan um keppni fuglanna, hver gæti flogið hæst, hefur bæði verið heimfærð uppá glókoll og músarrindil. Þessi rúmlega 2000 ára gamla saga, um hver ætti að verða konungur fuglanna, snýst um það að sá átti að hreppa titilinn sem hæst gæti flogið. Örninn þótti líklegastur, en músarrindill faldi sig undir stélfjöðrum hans og þegar örninn var orðinn þreyttur og komst ekki hærra, þá skaust rindillinn uppfyrir örninn og gerði tilkall til titilsins. Fyrir þetta uppátæki fékk hann bágt fyrir og þurfti að fara leynt æ síðan.

Músarrindillinn er með stutta og breiða vængi, eins og þessi í Nesjum, A-Skaftafellssýslu.

Í hreiðri músarindils ku vera galdrasteinn í ýmsum litum. Beri menn hann á sér verða þeir ósýnilegir. Taki maður hjarta úr músarrindli, þurrkar það og bindur í klæði og ber í hendi sér, má vita hugsanir annarra. Þvoi maður sér úr volgu blóði músarrindils batnar nætursjónin til muna. Þegar músabróðir kemur til bæja og smýgur inn í hús, veit það á harðviðri.

Vegna laumulegs háttalags og tregðu til að fljúga hefur músarrindillinn verið talinn skyldur músum og fékk af því nafnið músabróðir. Líkt og mýs þá áttu músarrindlar að vera sólgnir í hangikjöt og óðu jafnvel reyk í skorsteinum til að komast í girnileg sauðalæri. Með krossmarki á skorsteinum mátti þó stöðva þá, enda töldu sumir hann óheillafugl.

Músarrindillinn skipaði lengi þann sess, að vera minnsti fugl landsins. Nú hefur glókollurinn velt honum úr sessi, hann er meira en helmingi minni en músarrindill, 6 g á móti 15 g.

Músarrindill í birkiskógi á Þingvöllum að haustlagi.

Kveðskapur

Músarrindill
Þegar aðrir fara og flýja,

finna veröld bjarta og hlýja,
kyrr í sínum heimahögum
harður músarrindill býr.
Hann er öllum öðrum smærri,
eltir þó ei hina stærri,
Undan myrkri og ísalögum
aldrei hann úr dalnum flýr.

Hinir fara og heiminn kanna,
hylla dýrðir stórveldanna,
fyrir páfa og soldán syngja
sólarljóð frá heimskautsbaug,
öðlast frægð af flugi og ljóðum,
frama sig með heldri þjóðum,
lifa vel og efla og yngja
anda sinn í tímans laug.

Víst er gott þar syðra að sitja,
sönglist háa kórar flytja,
þar má njóta náms hjá snjöllum
næturgölum suðurheims.
Is og fannir þar ei þreyta,
þar er sífelld hitaveita.
Ljóma þar i litum öllum
leikhústjöld hins viða geims.

Rindill situr heima hægur,
hirðir ekki að verða frægur.
Hræðum þeim, sem eflir eru,
yrkir hann sin kotungsljóð.
Sé þar litla list að heyra,
láta þau samt vel i eyra.
Ríkust er í raun og veru
röddin hans á bernskuslóð.

Aðrir bera fötin fegri,
frakkastélin merkilegri.
Hann er gráum kufli klæddur,
kvartar ekki um rýran skammt.
Þótt við hret og hörku byggi,
hann er alla stund sá tryggi.
Illa búinn, illa fæddur
unir hann i dalnum samt.

Suður flugu sumargestir,
svo sem lóur, erlur, þrestir.
Þeirra vegna að vetrarlagi
væri byggðin auð og tóm.
Músarrindill ver og varðar
vonir sinnar fósturjarðar,
leggur yfir lund og bæi
lífstrú sína og gleðihljóm.

Eftir Guðmund Inga Kristjánsson (1907-2002).

Músarrindill á fjörusteinum á Akranesi.

Músarrindill
Þú ert engum öðrum háður,
oft og lengi varstu smáður,
samt er enginn eins og þú.
Hríðarbyl og harðan vetur
hefur enginn staðist betur.
Undir steini áttu bú.

Litli fugl með stutta stélið,
stóðstu af þér vetrarélið
inn til dala, út við sjó.
Flúðir aldrei Íslands strendur
út á grænni vonarlendur,
andans kraftur aldrei dó.

Enda veiztu innst í hjarta,
aftur sérðu daga bjarta
skrýða grundir grænum lit.
Vorsins hlýju vindar kalla,
vekja músarrindla alla,
þeirra bíður starf og strit.

Sumir hljótt í holu smjúga,
hátt um loftin aðrir fljúga
enda meira á þeim ber.
Marglitar á mörgum fjaðrir,
mórauðir á litinn aðrir
og heldur lægra hreykja sér.

Mega flestir þrautir þola,
þýðir ekki neitt að vola,
aftur vorar, vinurinn.
Vorrar þjóðar vonarkyndill
vertu – litli músarrindill,
frjálsi, kviki fuglinn minn.

Eftir Guðbjart Össurarson (1954).

 

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson.