Lóuþræll

Lóuþræll

Lóuþræll (Calidris alpina)

Lóuþræll í Eyrarbakkafjöru.

Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Einkenni margra vaðfugla eru langur goggur, langir fætur og langur háls. Þeir eru dýraætur sem éta alls konar hryggleysingja og langur goggurinn er hentugur til að grafa eftir æti í leirum, tjarnarbotnum og jarðvegi. Vaðfuglar helga sér óðul og verpa pörin stök. Ungarnir eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið strax og þeir eru orðnir þurrir. Hjá flestum vaðfuglum ala báðir foreldrarnir önn fyrir ungunum.  Kynjamunur er lítill hjá vaðfuglum, karlfuglinn er þó oft aðeins skærlitari og ívið minni en kvenfuglinn. Þessu er þó öfugt farið hjá sundhönum (óðinshanar og þórshanar hér á landi). Sjáist hjón saman má oft aðgreina kynin.

Útlit og atferli

Lóuþrællinn er smávaxinn vaðfugl, einkennisfugl í mýrum og hálfdeigjum. Á sumrin er hann gulbrúnn og svartflikróttur að ofan en ljósari að neðan með stóran, svartan blett eða svuntu neðarlega á bringunni og aftur á kvið. Á flugi má sjá mjó hvít vængbelti. Gumpur er hvítur með dökkri rák í miðju og stél grátt, einnig með svartri miðrák. Á veturna missir hann svörtu svuntuna. Ungfugl er svuntulaus, með áberandi rákótta bringu. Goggurinn er fremur langur, svartleitur og örlítið niðursveigður. Fæturnir eru einnig svartir og augun dökk.

Lóuþræll í Friðlandinu í Flóa.

Syngjandi lóuþræll við Heiðarhöfn á Langanesi.

Lóuþræll sýnir vald sitt í Eyrarbakkafjöru.

Lóuþrællinn flýgur hratt. Í hópum á flugi bregður til skiptis fyrir ljósum kviðnum og brúnu bakinu. Hann stendur fremur hokinn. Er félagslyndur utan varpstöðva. Sést oft í fylgd með lóum á vorin og dregur af því nafn sitt, ásamt því að bera svipaðan fjaðurham og lóan. Þaðan fær hann nafn sitt. Hann gefur frá sér langdregið vell á varpstöðvum og stutt og hvellt, bírrandi nefhljóð.

Lífshættir

Lóuþrællinn er dýraæta, tekur skordýr, m.a. mýrlirfur, smá skeldýr, snigla og burstaorma. Leitar ætis í hópum utan varpstöðva, oftast í fjörum.

Verpur í margs konar mýrlendi, forblautu jafnt sem hálfdeigu, en einnig í þurrara graslendi og móum og þéttasta varpið er talið vera á Suðurlandsundirlendinu. Hreiðrið er dæld í gróður, fóðrað með sinu, venjulega vel falið. Eggin eru fjögur, útungun tekur um þrjár vikur og ungarnir verða fleygir á öðrum þremur. Utan varptíma er hann oft í stórum hópum á leirum og söndum með öðrum vaðfuglum, en sést einnig í votlendi inn til landsins.

FlóaLóuþrælshreiður í Friðlandinu í Flóa.

Lítið er lunga í lóuþrælsunga … Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Lóuþræll með unga barmar sér og reynir að afvegaleiða ljósmyndarann. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útbreiðsla og stofnstærð

Lóuþræll er farfugl. Vetrarstöðvar íslenskra fugla eru aðallega í Vestur-Afríku, en hluti þeirra dvelur á vestanverðum Pýreneaskaga á veturna. Grænlenskir lóuþrælar fara hér um vor og haust, sumir þeirra eru ljósari en þeir íslensku. Örfáir fuglar sjást stundum í fjörum á Suðvesturlandi á veturna. Lóuþræll verpur allt í kringum Norður-Íshafið og suður til Englands og Póllands.

Ungur lóuþræll í Eyrarbakkafjöru.

Lóuþrælar í vetrarbúningi á Eyrarbakka.

Hópur af lóuþrælum í Andakíl.Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Þjóðtrú, sagnir og kvæði

Lítið er um lóuþrælinn í þjóðtrúnni, það helsta tengist sambandi hans við lóuna, eins og nafnið bendir til. Hann á meðal annars að aðstoða hana í makavali.

Kveðskapur

Nafnlaus vísa

Gamli vinur, Gísli sæll,
gott er frá að heyra,
í lofti kvakar lóuþræll
ljúft við kalið eyra.

Eftir Högna Egilsson.

Lóuljóð

Við kveðum um lóunnar ljóðin
en látum þær syngja óðinn
þó mishátt sé gengið og gróðinn
er gatan í sömu átt.
Kvöldhúmið stígur hljóðan dans
hörpuna blærinn slær
þær ferðast í líki freistarans
þó feti nær vaknar þú litli lóuþræll
og leitar í hverjum mó
en tilvera þín er tjörn í lágum skó
þær gefa þér allt sem þær eiga
oftast nær fleira en þær mega.
Já lóan er fim þessi fleyga
þó flugið sé stundum lágt.

Eftir Guðmund Árna Valgeirsson.

Heiðlóan syngjandi frá okkur flaug

Heiðlóan syngjandi frá okkur flaug
með fegurstan sönginn og bestan.
Í Kinninni er farið að taka í taug
tittlingasöngur að vestan.

Eftir Baldur Baldvinsson á Ófeigsstöðum.

Kristján frá Djúpalæl svararði:

Barst til okkar angurvæl austan úr ríki klaka.
Ofurlítinn lóuþræl langaði til að kvaka.

.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sandlóa

Sandlóa

Sandlóa (Charadrius hiaticula)

Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Þó einkenni margra þeirra sé langur goggur, háls og langir fætur, eru nokkrir með stutta fætur og gogg, þar á meðal fuglar sem tilheyra lóuættinni, sem hér á landi eru sandlóa og heiðlóa. Þeir sækja meira í þurrlendi heldur en margir vaðfuglar með lengri gogg. Vaðfuglar helga sér óðul og verpa pörin stök. Ungarnir eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið strax og þeir eru orðnir þurrir. Hjá flestum vaðfuglum ala báðir foreldrarnir önn fyrir ungunum.

Útlit og atferli

Sandlóa er með minnstu vaðfuglum hér, álíka stór og sendlingur og lóuþræll, og er hálsstutt og fremur kubbslega vaxin. Hún er grábrún að ofan en hvít að neðan, á sumrin með hvítan kraga um hálsinn og svart belti þar fyrir neðan, einnig svarta grímu um augu en er hvít á enni. Karlinn er ögn litsterkari en kerlan. Sandlóa hefur hvít vængbelti sem sjást vel á flugi. Stél og gumpur eru dökk með hvítum jöðrum. Ungfugl og fullorðin sandlóa í vetrarbúningi eru litdaufari, ungfuglar eru með ljósum fjaðrajöðrum að ofan („hreistraðir“), bæði með grábrúna grímu og bringubelti.

Rauðgulur goggurinn er stuttur og svartur í oddinn, alsvartur á ungfugli. Fætur eru einnig rauðgulir en augun dökk. Röddin er hljómþýð, söngurinn endurtekið vell.

Sandlóuhjón í í Eyrarbakkafjöru, karlinn nær.

Sandlóukarlar í erjum í Eyrarbakkafjöru.

Sandlóuerjur í Eyrarbakkafjöru. Þær eru að slást um besta fæðusvæðið.

Lífshættir

Þessi litli fugl er fjörlegur og kvikur. Hann er vænglangur og flýgur yfirleitt hratt og lágt og með reglulegu vængjablaki. Sé reynt að nálgast hreiður eða unga sandlóunnar, barmar hún sér og þykist vera vængbrotin, til að draga að sér athyglina og lokka óvininn burt. Fremur félagslyndur utan varptíma.

Sandlóa tínir skordýr, krabbadýr, orma og lindýr af jörðinni eða úr fjörum, t.d. þangflugulirfur, doppur, mýlirfur og marflær. Við fæðunám er hún mjög kvik, hleypur um og skimar eftir æti, stoppar, hremmir bráðina og er svo rokin af stað aftur.

Sandlóa heldur sig einkum á sendnu landi og í möl, bæði við sjó og á melum og áreyrum inn til landsins. Hreiðrið er dæld í möl eða sand, óhulið, fóðrað með smásteinum og skeljabrotum. Eggin eru venjulega fjögur eins og hjá flestum vaðfuglum. Útungunartíminn er um 24 dagar og ungarnir eru álíka lengi að verða fleygir. Utan varptíma dvelur sandlóan á leirum og í sandfjörum.

Sandlóa á hreiðri á Stokkseyri.

Sandlóuhreiður á Stokkseyri.

Sandlóa barmar sér við hreiður í Breiðavík.

Sandlóuungi í Kollafirði á Ströndum.

Ung sandlóa í Eyrarbakkafjöru.

Útbreiðsla og stofnstærð

Sandlóa er alger farfugl. Hún verpur dreift um land allt, en er algengust við sjávarsíðuna. Hún er einn útbreiddasti fugl landsins, en er alls staðar fremur strjál. Stórir hópar fugla sem verpa á Grænlandi fara hér um vor og haust. Vetrarstöðvar eru með ströndum fram á Bretlandseyjum, í Vestur og Suðvestur-Evrópu (Frakklandi og Pýreneaskaga) og Vestur-Afríku, frá Marokkó suður til Gambíu. Sandlóan verpur auk þess í N-Evrópu og Síberíu, allt austur að Beringssundi og NA-Kanada. Talið er að um 20-30% af heimsstofni sandlóu verpi hér á landi og er hún því íslensk ábyrgðartegund.

Kveðskapur

Sandló lipur fótafim,
fyrirglepur eggjavörgum.
Hleypur tifur harða rim,
Hennar svipur þekkt er mörgum.

Eftir Þorstein Díómedesson.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Tildra

Tildra

Tildra (Arenaria interpres)

Tildra í Eyrarbakkafjöru. Karlfugl í sumarskrúða. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Tildra er vaðfugl, en vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Þeir eru dýraætur, sem éta alls konar hryggleysingja. Kynjamunur er lítill hjá vaðfuglum, karlfuglinn er þó oft aðeins skærlitari og ívið minni en kvenfuglinn.

Tildra í Eyrarbakkafjöru. Kvenfugl í sumarskrúða. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Tildra í Eyrarbakkafjöru. Karlfugl í sumarskrúða. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útlit og atferli

Tildran er fremur lítill, sterkbyggður fjörufugl, skrautlegur og kvikur. Í sumarfiðri er tildra rauðbrún að ofan, með svartar rákir á höfði og bringu og hvít að neðan. Höfuðið er hvítt og kollurinn rákóttur. Á veturna er hún öll grárri og litdaufari og það sama gildir um ungfugla, sem virðast hreistraðir á baki. Hvít bak- og vængbelti eru áberandi á flugi. Kynjamunur er sýnilegur á varptíma, karlfuglinn er með ljósari koll, skærlitari á baki og svörtu rákirnar skýrt afmarkaðri en á kvenfugli.

Goggur er svartur, stuttur og oddhvass. Fætur eru gulrauðir og stuttir, augun dökk.

Tildran dregur nafn sitt á mörgum tungumálum af því háttalagi að velta við steinum og þangi í fjörunni í leit að æti. Enska heitið er turnstone og danska heitið stenvender. Hún er félagslynd, en er sjaldan í stærri hópum en frá nokkrum tugum fugla upp í fáein hundruð.

Gefur frá sér hvellt og klingjandi skvaldur, sem minnir á bjölluhljóm.

Ung tildra síðsumars.

Tildra í vetrarfiðri.

Lífshættir

Tildran veltir við steinum og rótar í þangi í fjörunni, þykkur og sterklegur goggurinn hentar vel til slíks. Hún tínir skordýr, t.d. þangflugulirfur, auk þess smá krabbadýr og lindýr eins og kræklinga og sæsnigla. Stundum sækir hún í brauð þar sem fuglum er gefið. Erlendis þekkist að tildrur leggist á hræ.

Tildran heldur sig helst í klettafjörum og á opnum ströndum með miklum þanghrönnum, einnig á leirum. Á vorin sést hún oft inn til landsins, bæði á túnum og við vötn og tjarnir og er þá að tína mý, sem er að klekjast.

Varp tildru hefur aldrei verið staðfest hér á landi. Það vekur nokkra furðu, því hún verpur bæði vestan og austanmegin við okkur og dvelur hér allt árið. Tildrur með varpatferli hafa stundum sést hér á vorin og höfundur þessa pistils sá eitt sinn nýfleyga tildruunga í Kringilsárrana síðsumars. Engin sönnun er þó fyrir varpi enn sem komið er. Hún verpur annars bæði með ströndum fram og á túndrum.

Tildra rótar í þanghrönn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Tildrur í Eyrarbakkafjöru ybba gogg yfir æti.

Tildra, karlfugl, flýgur upp undan öldunni við Eyrarbakka.

Útbreiðsla og stofnstærð

Tildra er fargestur eða umferðarfarfugl hér á landi. Varpfuglar á Grænlandi og NA-Kanada hafa hér viðdvöl vor og haust á leið sinni milli varpstöðvanna og vetrarstöðva í V-Evrópu suður til V-Afríku. Talið er að þessi stofn telji rúmlega 100.000 fugla, jafnvel hátt í 200.000, en stofninn er í vexti.

Tildrur sjást um allt land, stærstu hóparnir við Faxaflóa og Breiðafjörð, á Vestfjörðum, við Skjálfanda og á Sléttu. Um 1000‒2000 tildrur dvelja allan veturinn í fjörum SV-lands og slæðingur af geldfugli er hér allt sumarið. Varpútbreiðsla tildru er með ströndum allra Norðurlandanna nema Íslands og Færeyja, svo og meðfram Norður-Íshafinu allt í kringum heimskautið.

Tildrur í flóðsetri við Eyrarbakka að vorlagi, ásamt nokkrum öðrum fargestum úr hópi vaðfugla, á leið til varpstöðvanna norðan og vestan við okkur: stakur rauðbrystingur, fjórar sanderlur og tíu lóuþrælar. Lóuþrællinn er reyndar bæði fargestur og íslenskur varpfugl.

Tildra í sumarskrúða.

Þjóðtrú og sagnir

Það er lítið að finna um tildru í íslenskri þjóðtrú, en væntanlega hefur svipuð trú fylgt henni og mörgum öðrum umferðarfuglum og farfuglum, áður en fólk gerði sér grein fyrir eðli farflugsins. Allt í einu skjóta upp kollinum stórir hópar af tildrum, sem hverfa svo jafnaharðan eftir fáeinar vikur. Hvaðan komu fuglarnir og hvað verður um þá? Lögðust þeir í dvala? Dveljast þeir í sjónum og verða að hrúðurkörlum? Slíkt var hald manna áður fyrr um helsingja ‒ að þeir tækju á sig mynd hrúðurkarlstegundarinnar helsingjanefs (Lepas anatifera), milli þess sem þeir sáust hér vor og haust.

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.

Fjölmóður

Fjölmóður

Fjölmóður eða sendlingur (Calidris maritima)

Sendlingur í vetrarskrúða. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson

Sendlingur í vetrarskrúða.

Sendlingur, sem Jón lærði Guðmundsson kallar fjölmóð, er af snípuætt og ættkvíslinni Calidris, en henni tilheyra m.a. lóuþræll, rauðbrystingur og sanderla, auk þess títur sem flækjast hingað. Dæmi um títur sem sjást hér nokkuð reglulega eru spóatíta, veimiltíta, vaðlatíta og rákatíta.

Útlit og atferli

Sendlingur er lágfættur og kubbslegur, með stuttan háls og fremur stuttan gogg. Hann er dekkstur litlu vaðfuglanna og líka einn af þeim minnstu, litlu stærri en sandlóa og lóuþræll. Á sumrin er hann grá- og brúnflikróttur að ofan, á höfði og bringu, en hvítur á kviði. Á flugi sjást mjó, ljós vængbelti og svört miðrák í hvítum gumpi. Á vetrum er sendlingur allur grárri. Litur ungfugla á haustin er mitt á milli litar sumar- og vetrarfiðurs fullorðinna. Dökkur, lítið eitt niðursveigður goggur er gulur við rætur. Fætur eru gulleitir. Ljósir hringir eru um dökkbrún augun.

Sendlingur í sumarskrúða. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sendlingur í sumarskrúða.

 

Sendlingur í sumarskrúða.

Sendlingur í sumarskrúða.

Sendlingur flýgur lágt og beint og syndir auðveldlega. Á varpstöðvunum er hann oftast lítið áberandi og laumulegur, nema kannski helst þegar tilhugalífið stendur sem hæst á vorin. Þá stunda karlarnir söngflug af mikilli elju, jafnframt sem þeir lyfta öðrum vængnum til að sýna sig fyrir dömunum. Karlarnir sjá um uppeldi unganna, á varptíma reyna þeir að afvegaleiða óvelkomna gesti með því að hlaupa um úfnir eða þykjast vera vængbrotnir. Taki maður sendlingsunga í lófa sér, eiga karlarnir það jafnvel til að setjast á ungana í lófanum.

Hin einkennandi vænglyfta karlsendlings í tilhugalífinu.

Hin einkennandi vænglyfta karlsendlings í tilhugalífinu. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sendlingur er félagslyndur utan varpstöðvanna og oft í stórum hópum. Hópar á flugi sýna til skiptis dökkt bak og ljósan kvið. Sendlingurinn er dagfarsprúður fugl, með gott lundarfar og spakur og flýgur oft ekki upp fyrr en komið er alveg að honum. Oft má sjá hann sitja á bátum og bryggjum á veturna. Sendlingur gefur frá sér stutt og lágt tíst og á varpstöðvum dillandi vell.

Lífshættir

Fæðan á varptíma er skordýr, köngulær og aðrir hryggleysingjar. Þangdoppur, smágerðar samlokur, burstaormar, krabbadýr og þangflugulirfur eru aðalfæðan í fjörum.

Hópur sendlinga í fjöru í Sandgerði.

Hópur sendlinga í fjöru í Sandgerði. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sendlingur að vetri í fjöru.

Sendlingur að vetri í fjöru. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sendlingur verpur aðallega til fjalla en einnig á annesjum og hrjóstrum á láglendi. Kjörlendið er margs konar; berangur, mosabreiður, lyngmóar og melar, venjulega nærri vatni. Hreiðrið er grunn laut á berangri, oft upp við steina eða grasþúfu, lítilfjörlega fóðrað að innan. Eftir klak yfirgefur kerlan fjölskylduna, en karlinn sér um uppeldi unganna. Utan varptíma er sendlingurinn helst í grýttum fjörum og á leirum.

Send.ingur á hreiðri við Veiðivötn.

Sendlingur á hreiðri við Veiðivötn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Nýklakinn sendlingsungi. Við Skálasnagabjarg, Snæfellsnesi.

Nýklakinn sendlingsungi. Við Skálasnagabjarg, Snæfellsnesi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Urptin er fjögur egg, eins og hjá flestum vaðfuglum. Varptíminn er frá miðjum maí og síðustu ungar verða fleygir um miðjan ágúst. Álegan tekur um þrjár vikur og ungarnir verða fleygir á svipuðum tíma.

Fullvaxinn og fleygur sendlingsungi. Í Flatey á Skjálfanda.

Fullvaxinn og fleygur sendlingsungi. Í Flatey á Skjálfanda. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Útbreiðsla og ferðir

Sendlingur er allalgengur en fremur strjáll varpfugl. Hann er algengasti vaðfuglinn hérlendis á veturna og sá eini sem sést reglulega á Norður- og Austurlandi. Sendlingar frá norðlægari slóðum, kanadísku heimskautaeyjunum og ef til vill Grænlandi, koma hér við vor og haust á leið sinni milli varpstöðvanna og vetrarstöðva á Bretlandseyjum og V-Evrópu og einhverjir hafa hér vetrardvöl. Sendlingur er hánorrænn fugl, varpstöðvarnar eru við Atlantshafshluta N-Íshafsins, á Grænlandi og eyjum við Norður-Íshafið, svo og á Norðurlöndum.

Íslendingar bera mikla ábyrgð á þessari tegund vegna þess að áætlað hefur verið að hér séu 30-40% af sendlingum heimsins, en talið er að íslenski varpstofninn sé um 30.000 pör. Þar sem sendlingar eru norrænir fuglar þá má búast við að hlýnandi loftslag sé slæmt fyrir þá.

Sednlingar á flóðsetri í Reykjavíkurhöfn.

Sendlingar á flóðsetri í Reykjavíkurhöfn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sendlingahópur á flugi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Sendlingahópur á flugi. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Þjóðtrú og sagnir

Íslensk þjóðtrú á ekki margt um sendlinginn. Jón Guðmundsson lærði segir þetta í riti sínu Íslands aðskiljanlegar náttúrur: „Fjölmóðurinn, eður selningurinn. Sumir halda sitthvorn, en eins stærð, lit og eðli hafa þeir; halda sig við ystu fjörur á veturna, en verpur við fremstu fjalla jökla á sumarið; hann er fugla meinlausastur, en óttast þó of margt. Einnig það, þegar fjörur eru, að sjórinn muni mega svo um síðir allur upp þorna… Eru því fullir og kátir um flæðurnar”.

Önnur skemmtileg nöfn, fyrir utan fjölmóð og selning, eru fjallafæla, fjörumús, heiðalæpa, heiðarotta og flóðsvala.

Sendlingar við Reykjavíkurhöfn.

Sendlingar við Reykjavíkurhöfn. Ljósmynd: Jóhann Óli Hilmarsson.

Kveðskapur

Tíðara Sörli en sendlingur á leiru
sinastælta bar í gljúfrum leggi,
glumruðu Skúla skeifurnar um eyrum,
skóf af klettunum í hófahreggi.

Úr Skúlaskeiði eftir Grím Thomsen.

Fimir krabbafætur
fyrstir vildu sparka
spor í sand,
en sendlingurinn saumaði
sólskinið, með flónni,
fast við land.

Úr Vordegi á Eyrarbakka eftir Friðrik Erlingsson.

Þúsund ár, hefur skarfurinn þurrkað sinn væng
Og þvaðrað við Sendling og Tjald sem í þaranum tifa
Selurinn blundað á sinni votu sæng
Í sólskini þegar öllum finnst gaman að lifa.

Úr Kolbeinshaus eftir Þórhall Gauta Bárðarson.

 

Texti og myndir eftir Jóhann Óla Hilmarsson.