Öræfajökull

Öræfajökull

Horft í suðaustur yfir Víti og Öskjuvatn.

Hvannadalshnjúkur. Ljósm. Anna Soffía Óskarsdóttir.

Öræfajökull

Öræfajökull er syðsti hluti Vatnajökuls og undir jökulhettunni er eldkeila sem er jafnframt stærsta eldstöð Íslands. Öræfajökull er einnig önnur stærsta eldkeila Evrópu, en sú stærsta er Etna á Sikiley. Hvannadalshnjúkur (2.110 m), er hæsti tindur Öræfajökuls og jafnframt hæsti tindur landsins. Allmargir skriðjöklar ganga út frá Öræfajökli, þar má nefna Skaftafellsjökul, Svínafellsjökul, Kvíárjökul og Fjallsjökul.
Askja í Dyngjufjöllum í Ódáðahrauni er merkt með rauðum punkti á kortið.

Öræfajökull er merktur með rauðum punkti á kortið (kortagrunnur frá Landmælingum Íslands).

Askja í Dyngjufjöllum. Öskjuvatn fyllir yngstu öskjuna og má sjá móta fyrir hinum eldri. Suðurbotnar eru merktir með gulum punkti. (Gervitunglamynd frá NASA).

Askjan í toppi fjallsins sést vel þegar horft er á jökulinn úr lofti. (Sentinel-2 gervitunglamynd frá COPERNICUS EU).

Horft í suður yfir Öskjuvatn.

Svínafellsjökull er einn af skriðjöklum Öræfajökuls. Ljósm. Anna Soffía Óskarsdóttir.

Megineldstöð Öræfajökuls er um 20 km í þvermál og í toppi hennar er askja, um 4–5 km að þvermáli. Askjan er um 500 m djúp og ísfyllt. Eldstöðvakerfi Öræfajökuls liggur á samnefndu gosbelti, Öræfajökulsbeltinu, sem er, ásamt Esjufjöllum og Snæfelli, fyrir utan megingosbelti landsins. Öræfajökull er eitt af fáum eldstöðvakerfum á landinu sem er megineldstöð án sprungusveims. Aldur Öræfajökuls og berggrunnsins undir honum er ekki nákvæmlega þekktur, elstu berglög frá eldstöðinni eru um 800 þúsund ára gömul, en talið er að fjallið hafi hlaðist upp ofan á nokkurra milljón ára gamalli jarðskorpu.

 

Þó svo að Öræfajökull sé stærsta eldstöð landsins er hann ekki sú virkasta. Á sögulegum tíma hefur einungis gosið tvisvar sinnum í Öræfajökli, á árunum 1362 og 1727. Eldgosið árið 1362 var súrt sprengigos þar sem upp kom um 10 km3 af gjósku og er þetta gos því stærsta sprengigos á sögulegum tíma á Íslandi. Eldgosið er einnig annað stærsta sprengigosið í Evrópu á eftir gosinu í Vesúvíusi á Ítalíu árið 79.

Snemma í gosinu 1362 féllu mikil gjóskuflóð og gusthlaup. Gjóskuflóð verða þegar gosstrókur fellur og loftborin gosefni (gjóska og gös) hlaupa fram með jörðu í miklu magni. Hlaupin geta náð tugi kílómetra frá upptökum þar sem þau fylgja landslagi. Þau geta náð allt að 500 km hraða á klukkustund og htinn verið allt frá 100°C upp í 800°C.

Gusthlaup er annað form gjóskustrauma en þau geta myndast samhliða gjóskuflóðum eða ein og sér. Gusthlaup eru gasríkari og innihalda minna magn af föstum efnum og því er hegðun þeirra ólík gjóskuflóðum. Þau geta ferðast upp hæðir og hóla en ná ekki eins langt frá upptökum og flóðin. Gusthlaup geta þó náð nokkra kílómetra frá upptökum.

Brotsár eftir berghlaup í Suðurbotnum í júlí 2014.

Vesturhlið Öræfajökuls séð frá suðurströndinni.

Magn gosefna úr gosinu 1362 olli því að byggð við rætur Öræfajökuls, sem nefndist Litla-Hérað, lagðist í algjöra eyði. Ekki er vitað nákvæmlega hvenær byggð hófst að nýju á svæðinu og þá undir öðru nafni, Öræfi eða Öræfasveit. Tilgátur hafa komið fram um að allt að 250 til 400 manns hafi farist í gosinu 1362 og er gosið því líklega með mannskæðustu gosum Íslands, ásamt stóru flæðigosunum í Lakagígum og ef til vill í Eldgjá.

Fjallað er um gosið 1362 í Oddverjaannál sem segir: „Eldsuppkoma í Litla-Héraði og eyddi allt héraðið. Höfðu þar áður verið 70 bæir. Lifði engin kvik kind eftir utan ein öldruð kona og kapall.“ Í þessari heimild kemur skýrt fram hve mikil manntjónið og eyðileggingin var því aðeins tvær lifandi verur lifðu af; gömul kona og hryssa.

Þar sem Öræfajökull er megineldstöð undir jökli má reina með að jökulhlaup fylgi eldgosunum. Almannavarnir meta það svo að hætta vegna jökulhlaupa frá Öræfajökli sé mikil á um 340 km2 svæði. Það tæki að lágmarki 35–40 mínútur að rýma svæðið til fulls, en framrásartími hlaupa frá jöklinum er þó mögulega ekki nema um 20–30 mínútur. Vöktun við Öræfajökul hefur verið bætt undanfarin ár, einkum eftir að skjálftavirkni jókst í eldstöðinni 2017, viðbragðsáætlanir liggja fyrir en mestu skiptir að allir fyrirboðar um gos séu greindir rétt svo unnt verði að rýma svæðið áður en gos hæfist í Öræfajökli.
Jarðlagaopna eftir flóðbylgjuna í Öskjuvatni í júlí 2014.

Öræfajökull er talinn með tignarlegri fjöllum landsins. Ljósm. Hugi Ólafsson.

Sethólar eftir flóðbylgjuna í Öskjuvatni í júlí 2014.

Algengt er að ský hylji Öræfajökul og hæstu tindana. Ljósm. Hugi Ólafsson.

Ítarefni

Almannavarnir. 2017. Öræfajökull. Sótt 27. ágúst 2020 af https://www.almannavarnir.is/forsidubox/oraefajokull/?fbclid=IwAR3ipOkQy0uP2nSEfZO6a9YmmItjNAVITdtD3wd5uCvpzs5-5FevVMOiKbQ

Ármann Höskuldsson. 2013. Gjóskustraumar. Bls. 144–146 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Viðlagatrygging Íslands, Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Ármann Höskuldsson. 2019. Öræfajökull. Í: Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson. Íslensk eldfjallavefsjá. VÍ, HÍ og Avd-RLS. Sótt 25. ágúst 2020 af http://www.islenskeldfjoll.is/?volcano=ORA#

Magnús T. Guðmundsson, Guðrún Larsen, Ármann Höskuldsson & Ágúst Gunnar Gylfason. 2008. Volcanic hazards in Iceland. Jökull 58. 251–268.

Magnús T. Guðmundsson, Þorvaldur Þórðarson, Guðrún Larsen, Páll Einarsson, Ármann Höskuldsson & Páll Imsland. 2013. Undir Vatnajökli. Bls. 263–277 í: Náttúruvá á Íslandi: Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Viðlagatrygging Íslands, Háskólaútgáfan, Reykjavík.

Sigurður Þórarinsson. 1958. The Öræfajökull eruption of 1362. Acta Naturalia Islandica II(2). Sótt 25. ágúst 2020 af http://utgafa.ni.is/Acta-Naturalia-Islandica/Acta-Naturalia-Islandica-II-2.pdf

Lerkisveppur

Lerkisveppur

Lerkisveppur

Vissir þú að lerkisveppur fannst fyrst á Hallormsstað árið 1935? Nú vex hann nær alls staðar í ungum lerkiskógum. Lerkisveppurinn er góður matsveppur, hattur hans er ýmist rauðbrúnn eða gulur að lit. Talið er að þetta séu tvö litarafbrigði sem vaxa á sömu svæðunum.

Ljósmynd: Kristín Sigurgeirsdóttir.

Frábær árangur hjá sumarstarfsmönnum

Frábær árangur hjá sumarstarfsmönnum

Í sumar tók Náttúruminjasafn Íslands þátt í átaksverkefni Vinnumálastofnunar um sumarstörf fyrir námsmenn, 18 ára og eldri. Safnið auglýsti eftir námsmönnum á háskólastigi til starfa og voru sjö nemendur ráðnir til tveggja mánaða. Verkefnin voru ólík og tengdust vinnu við rannsóknir, skráningu muna og grafíska hönnun. Vinnan fór fram úti um land meðal annars á Breiðdalsvík. Vinnan við þessi verkefni gekk fádæma vel og vilja starfsmenn Náttúruminjasafnsins og umsjónarmenn verkefna þakka einstaklega góða samvinnu við nemendur og sömuleiðis Vinnumálastofnun sem skipulagði átakið.
Flokkun og skráning steinasafns á Breiðdalsvík

Verkefnið á Breiðdalsvík á sér nokkurra ára aðdraganda en Náttúruminjasafni Íslands hefur boðist að taka við og eignast eitt merkasta og stærsta steinasafn landsins, steinasafn Björns Björgvinssonar frá Höskuldsstaðaseli í Breiðdal. 

Safnkosturinn samanstendur af 10 til 15 þúsund eintökum steinda og holufyllinga og er að grunni til þrjú steinasöfn sem Björn eignaðist, steinasöfn Reynis Reimarssonar, Kjartans Herbjörnssonar og Svavars Guðmundssonar.

Safnkosturinn var aðeins skráður að hluta og var því mikill fengur að fá jarðfræðingana Irmu Gná Jóngeirsdóttur og Madison Lin MacKenzie til að vinna að fullnaðarskráningu og myndatöku á safnkostinum í sumar. Umsjón með vinnunni fyrir hönd safnsins hafði Þóra Björg Andrésdóttir, jarðfræðingur.

Vinnan fólst í að skrá á stafrænt form og ljósmynda þann hluta safnkostsins sem þegar var skráður og einnig óskráð eintök. Skráðu þær Irma og Madison hvorki meira né minna en 4000 færslur í sumar ásamt því að pakka safnkostinum á viðunandi hátt og voru afköst þeirra og útsjónarsemi til fyrirmyndar. Meðal þeirra steinda sem þær skráðu í miklum fjölda eru jaspis, ópall, kalsedón, agat, onyx, bergkristall, sitrín, ametýst, kalsít, silfurberg, aragonít, flúorít, barrýt, skólesít, mesolít, mordenít, stílbít, heulandít, thomsonít, apófyllít, iilvaít og pýrít. Jarðfræðingarnir höfðu vinnuaðstöðu við skráninguna á Breiðdalsvík en greining, myndataka og pökkun sýnanna fór fram í Höskuldsstaðaseli í Breiðdal. Stefnt er að að sýna þetta merka steinasafn á Breiðdalsvík og þegar er hafin vinna við að finna þar viðeigandi húsnæði til sýningahalds og fræðslu um jarðfræði Austurlands og einkum hina fornu megineldstöð í Breiðdal, sem var virk fyrir um 8–10 milljónum ára.
Stafræn vísindamiðlun til almennings

Elsa Rakel Ólafsdóttir, mastersnemi í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum við Háskóla Íslands, starfaði sem grafískur hönnuður fyrir Náttúruminjasafnið í sumar. Starfssvið hennar var víðfeðmt en fólst einkum í aðstoð við korta- og myndvinnslu í tengslum við væntanlega ævisögu Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings sem Sigrún Helgadóttir ritar.  Sigurður Þórarinsson var einn fremsti jarðfræðingur Íslendinga, þekktur á alþjóðavettvangi og var fátt í íslenskri náttúru honum óviðkomandi. Sérsvið hans var þó eldfjallafræði og lagði hann í raun grunninn að gjóskulagafræði, þar sem gjóskulög eldstöðva eins og Heklu eru notuð til að aldursgreina bæði fornminjar sem og jarðfræðilega atburði í jarðsögunni. Mörg korta Sigurðar sýna þessi fræði í einkar greinargóðu ljósi og eitt af verkefnum Elsu Rakelar var einmitt að hreinvinna þau fyrir ævisögu hans, en starfsmenn safnsins nutu jafnframt góðs af þekkingu hennar á sviði markaðsmála og nýtingu samfélagsmiðla.  

Líffræðileg fjölbreytni á Íslandi

Styrkár Þóroddsson líffræðingur vann við verkefni um eðli líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi þar sem sérstök áhersla er lögð á fjölbreytileika innan tegundar. Vinna Styrkárs snérist um að fara kerfisbundið yfir útgefið efni um rannsóknir á hryggdýrum, með sérstakri áherslu á vaðfugla, heimskautaref, hagamýs og háhyrninga. Hann tók saman upplýsingar um breytileika í svipgerð (útliti, atferli og lífssögu) og stofngerð; sem og þá vistfræðilegu þætti sem tengjast þróun og viðhaldi breytileikans. Verkefnið er hluti af stærra verkefni Náttúruminjasafnsins um líffræðilega fjölbreytni á Íslandi sem stýrt er af dr. Skúla Skúlasyni. Verkefnið er samstarfsverkefni Náttúruminjasafnsins og m.a. Háskólans á Hólum, Háskóla Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Hrafnamál / Hrafnaþing / Guð launar fyrir hrafninn

Þessi fyrirsögn endurspeglar fjölbreytni og margræðni hrafnsins í náttúru og menningu. Verkefnið felst í því að stefna saman náttúrufræðilegri og menningarlegri þekkingu á hrafninum í skapandi samræðu þannig að leggja megi grunn að nýrri og fjölþættri hugmynd sem gæti orðið fyrsti vísir að fjölfræðilegri fróðleiksnámu fyrir skólastarf á öllum stigum og innblástur fyrir hvers konar skapandi vinnu með hrafninn sem marghliða lífveru: sýningar, texta, myndbönd og kvikmyndir, tónlist, margmiðlun. 

Tveir nemendur, Katrín Vinter Reynisdóttir í MA-námi í ritlist og Rebecca Thompson í MA-námi í líffræði, voru ráðnir í verkefnið en það er unnið í umsjón Viðars Hreinssonar, bókmenntafræðings. Verkefni sumarsins fólst í því að skiptast á hugmyndum og byrja að safna sem fjölbreyttustum fróðleik um hrafninn sem smátt og smátt birtist á vef safnsins. Þá er stefnt að því að hefja á næstu misserum fjölfræðilegt og alþjóðlegt rannsóknarverkefni um það sem hrafnar hafa kennt mönnum í mismunandi menningarheimum.

Náttúrur og fornar frásagnir

Þetta verkefni er kjölfesta í starfi umsjónarmanns, Viðars Hreinssonar, bókmenntafræðings, við að byggja upp umhverfishugvísindi innan Náttúruminjasafnsins. Einn nemandi, Jon Wright, doktorsnemi í norrænni textafræði og BA nemi í íslensku fyrir erlenda stúdenta, starfaði við verkefnið í sumar. Verkefnið „Náttúrur og fornar frásagnir“ er styrkt af stærra verkefni sem kallast Ritmenning íslenskra miðalda (RÍM:https://snorrastofa.is/snorrastofa/rannsoknir-og-fraedi/rim-verkefnid/) og nær yfir íslenskar frásagnarbókmenntir fram til siðaskipta. Staðhættir og landfræði eru þar snar þáttur sem getur endurspeglað náttúruþekkingu sem er gerólík nútímanum. Því þarf meðal annars að reyna að átta sig á hugsanlegum tengslum bókmenntastarfsemi miðalda við þessa þætti og verkefni Jons fólst í því að taka saman gagnasafn um ritunarstaði handrita allt til siðaskipta. Jon er þjálfaður handritafræðingur (rithandarfræðingur) og skilaði afburðagóðri skrá sem getur haft víðtæk not fyrir ofangreint verkefni sem og fyrir marga aðra fræðimenn sem starfa á þessum vettvangi, að tengja landið og staðhætti við bókmenninguna.

Stelkur

Stelkur

Stelkur (Tringa totanus)


Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Einkenni margra vaðfugla eru langur goggur, langir fætur og langur háls. Þeir eru dýraætur sem eta alls konar hryggleysingja og langur goggurinn er hentugur til að grafa eftir æti í leirum, tjarnarbotnum og jarðvegi. Vaðfuglar helga sér óðul og verpa pörin stök, en stundum er hægt að tala um að þeir verpi í dreifðum byggðum. Þetta getur átt við stelkinn þar sem hann verpur þéttast. Ungar eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið strax og þeir eru orðnir þurrir. Hjá flestum vaðfuglum ala báðir foreldrarnir önn fyrir ungunum. Kynjamunur er lítill hjá vaðfuglum.

Stelkur í Friðlandinu í Flóa.

Stelkur á flugi á Stokkseyri.

.

Nýfleygur stelksungi í Eyrarbakkafjöru.

.

Stelkur í vetrarbúningi í Hafnarfirði.

Ungur stelkur í vatnsnálarpolli við Eyrarbakka.

Útlit og atferli

Stelkurinn er meðalstór, hávær vaðfugl. Á sumrin er hann grábrúnflikróttur að ofan og ljósari að neðan, minnst flikróttur á kviði. Hvítur gumpur og vængbelti eru áberandi á flugi, stélið er þverrákótt. Hann er grárri að ofan og jafnlitari á veturna. Ungfugl er brúnleitur að ofan, með gula fætur.

Goggur er rauður með svartan brodd. Augun eru brún og augnhringur ljósgrænn. Fætur eru skærlitir, gulrauðir, standa aftur fyrir stél á flugi.

Á varpstöðvum er stelkurinn áberandi og tyllir sér gjarnan á staura með stél- og höfuðrykkjum og hefur hátt, ef honum finnst utanaðkomandi nálgast hreiður eða unga um of. Flýgur þá með stuttum, rykkjóttum vængjatökum. Flýgur annars hratt og beint. Er félagslyndur utan varptíma.

Hljóð stelksins eru breytileg, endurtekin stef, hræðsluhljóð og kallhljóð margvísleg.

Lífshættir

Fæðan er skordýr, ormar og áttfætlur til landsins; í fjörum marflær, smáskeljar, kuðungar, mýlirfur og þangflugulirfur. 

Stelkurinn heldur sig í graslendi og votlendi á sumrin en í fjörum á fartíma og á veturna. Hann gerir sér hreiður í graslendi eða mýrum, oft í óræktarlandi í þéttbýli, í túnjöðrum eða við bæi. Hreiðrið er vel falið í þúfnakolli eða sinu. Eggin eru fjögur og klekjast þau á 24 dögum. Ungar verða fleygir á 25–35 dögum.

Stelkshjón á góðri stund á Stokkseyri.

Stelkur á flugi á Stokkseyri.

Útbreiðsla og stofnstærð

Stelkurinn er að mestu farfugl. Flestir íslenskir stelkar fara af landi brott á haustin og hafa vetursetu á Bretlandseyjum og víðar í Vestur-Evrópu en 1.000–2.000 fuglar hafa vetrardvöl í fjörum á Suðvesturlandi og fáeinum öðrum lífríkum fjörum. Um 19% af öllum stelkum í heimi verpa hér á landi og er varpstofninn talinn vera um 75.000 pör.

Þjóðtrú og sagnir

Mjög lítið finnst í þjóðtrúnni um stelkinn. Ættkvíslarheitið, Tringa, merkir þann sem býr við ströndina. Á norrænum málum er hann ýmist kenndur við rauða eða háa fætur og gæti íslenska heitið og svipuð heiti allt eins táknað „háfætta fuglinn sem gengur sperringslega“.

 

Að skálabrekku

Hér stend ég aftur á brekkunnar brún og horfi
á blálygnt djúpið með himinhvolf sitt og fjöll. 
En jaðraki, stelkur og hrossagaukur hamast
við hljómleika sína í nánd við iðgrænan völl. 

Úr kvæðinu Að Skálabrekku eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson

 

 

 

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson

Hrútaber

Hrútaber

Hrútaber

Vissir þú að hrútaber eru af rósaætt? Blómin eru hvít en berin fallega rauð. Hrútaber vaxa á láglendi á Íslandi og myndar plantan oft langar jarðlægar renglur sem kallaðar hafa verið skollareipi eða tröllareipi. Berin eru gómsæt í hlaup og passa vel með villibráð.