Frábær árangur hjá sumarstarfsmönnum

Frábær árangur hjá sumarstarfsmönnum

Í sumar tók Náttúruminjasafn Íslands þátt í átaksverkefni Vinnumálastofnunar um sumarstörf fyrir námsmenn, 18 ára og eldri. Safnið auglýsti eftir námsmönnum á háskólastigi til starfa og voru sjö nemendur ráðnir til tveggja mánaða. Verkefnin voru ólík og tengdust vinnu við rannsóknir, skráningu muna og grafíska hönnun. Vinnan fór fram úti um land meðal annars á Breiðdalsvík. Vinnan við þessi verkefni gekk fádæma vel og vilja starfsmenn Náttúruminjasafnsins og umsjónarmenn verkefna þakka einstaklega góða samvinnu við nemendur og sömuleiðis Vinnumálastofnun sem skipulagði átakið.
Flokkun og skráning steinasafns á Breiðdalsvík

Verkefnið á Breiðdalsvík á sér nokkurra ára aðdraganda en Náttúruminjasafni Íslands hefur boðist að taka við og eignast eitt merkasta og stærsta steinasafn landsins, steinasafn Björns Björgvinssonar frá Höskuldsstaðaseli í Breiðdal. 

Safnkosturinn samanstendur af 10 til 15 þúsund eintökum steinda og holufyllinga og er að grunni til þrjú steinasöfn sem Björn eignaðist, steinasöfn Reynis Reimarssonar, Kjartans Herbjörnssonar og Svavars Guðmundssonar.

Safnkosturinn var aðeins skráður að hluta og var því mikill fengur að fá jarðfræðingana Irmu Gná Jóngeirsdóttur og Madison Lin MacKenzie til að vinna að fullnaðarskráningu og myndatöku á safnkostinum í sumar. Umsjón með vinnunni fyrir hönd safnsins hafði Þóra Björg Andrésdóttir, jarðfræðingur.

Vinnan fólst í að skrá á stafrænt form og ljósmynda þann hluta safnkostsins sem þegar var skráður og einnig óskráð eintök. Skráðu þær Irma og Madison hvorki meira né minna en 4000 færslur í sumar ásamt því að pakka safnkostinum á viðunandi hátt og voru afköst þeirra og útsjónarsemi til fyrirmyndar. Meðal þeirra steinda sem þær skráðu í miklum fjölda eru jaspis, ópall, kalsedón, agat, onyx, bergkristall, sitrín, ametýst, kalsít, silfurberg, aragonít, flúorít, barrýt, skólesít, mesolít, mordenít, stílbít, heulandít, thomsonít, apófyllít, iilvaít og pýrít. Jarðfræðingarnir höfðu vinnuaðstöðu við skráninguna á Breiðdalsvík en greining, myndataka og pökkun sýnanna fór fram í Höskuldsstaðaseli í Breiðdal. Stefnt er að að sýna þetta merka steinasafn á Breiðdalsvík og þegar er hafin vinna við að finna þar viðeigandi húsnæði til sýningahalds og fræðslu um jarðfræði Austurlands og einkum hina fornu megineldstöð í Breiðdal, sem var virk fyrir um 8–10 milljónum ára.
Stafræn vísindamiðlun til almennings

Elsa Rakel Ólafsdóttir, mastersnemi í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum við Háskóla Íslands, starfaði sem grafískur hönnuður fyrir Náttúruminjasafnið í sumar. Starfssvið hennar var víðfeðmt en fólst einkum í aðstoð við korta- og myndvinnslu í tengslum við væntanlega ævisögu Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings sem Sigrún Helgadóttir ritar.  Sigurður Þórarinsson var einn fremsti jarðfræðingur Íslendinga, þekktur á alþjóðavettvangi og var fátt í íslenskri náttúru honum óviðkomandi. Sérsvið hans var þó eldfjallafræði og lagði hann í raun grunninn að gjóskulagafræði, þar sem gjóskulög eldstöðva eins og Heklu eru notuð til að aldursgreina bæði fornminjar sem og jarðfræðilega atburði í jarðsögunni. Mörg korta Sigurðar sýna þessi fræði í einkar greinargóðu ljósi og eitt af verkefnum Elsu Rakelar var einmitt að hreinvinna þau fyrir ævisögu hans, en starfsmenn safnsins nutu jafnframt góðs af þekkingu hennar á sviði markaðsmála og nýtingu samfélagsmiðla.  

Líffræðileg fjölbreytni á Íslandi

Styrkár Þóroddsson líffræðingur vann við verkefni um eðli líffræðilegrar fjölbreytni á Íslandi þar sem sérstök áhersla er lögð á fjölbreytileika innan tegundar. Vinna Styrkárs snérist um að fara kerfisbundið yfir útgefið efni um rannsóknir á hryggdýrum, með sérstakri áherslu á vaðfugla, heimskautaref, hagamýs og háhyrninga. Hann tók saman upplýsingar um breytileika í svipgerð (útliti, atferli og lífssögu) og stofngerð; sem og þá vistfræðilegu þætti sem tengjast þróun og viðhaldi breytileikans. Verkefnið er hluti af stærra verkefni Náttúruminjasafnsins um líffræðilega fjölbreytni á Íslandi sem stýrt er af dr. Skúla Skúlasyni. Verkefnið er samstarfsverkefni Náttúruminjasafnsins og m.a. Háskólans á Hólum, Háskóla Íslands og Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Hrafnamál / Hrafnaþing / Guð launar fyrir hrafninn

Þessi fyrirsögn endurspeglar fjölbreytni og margræðni hrafnsins í náttúru og menningu. Verkefnið felst í því að stefna saman náttúrufræðilegri og menningarlegri þekkingu á hrafninum í skapandi samræðu þannig að leggja megi grunn að nýrri og fjölþættri hugmynd sem gæti orðið fyrsti vísir að fjölfræðilegri fróðleiksnámu fyrir skólastarf á öllum stigum og innblástur fyrir hvers konar skapandi vinnu með hrafninn sem marghliða lífveru: sýningar, texta, myndbönd og kvikmyndir, tónlist, margmiðlun. 

Tveir nemendur, Katrín Vinter Reynisdóttir í MA-námi í ritlist og Rebecca Thompson í MA-námi í líffræði, voru ráðnir í verkefnið en það er unnið í umsjón Viðars Hreinssonar, bókmenntafræðings. Verkefni sumarsins fólst í því að skiptast á hugmyndum og byrja að safna sem fjölbreyttustum fróðleik um hrafninn sem smátt og smátt birtist á vef safnsins. Þá er stefnt að því að hefja á næstu misserum fjölfræðilegt og alþjóðlegt rannsóknarverkefni um það sem hrafnar hafa kennt mönnum í mismunandi menningarheimum.

Náttúrur og fornar frásagnir

Þetta verkefni er kjölfesta í starfi umsjónarmanns, Viðars Hreinssonar, bókmenntafræðings, við að byggja upp umhverfishugvísindi innan Náttúruminjasafnsins. Einn nemandi, Jon Wright, doktorsnemi í norrænni textafræði og BA nemi í íslensku fyrir erlenda stúdenta, starfaði við verkefnið í sumar. Verkefnið „Náttúrur og fornar frásagnir“ er styrkt af stærra verkefni sem kallast Ritmenning íslenskra miðalda (RÍM:https://snorrastofa.is/snorrastofa/rannsoknir-og-fraedi/rim-verkefnid/) og nær yfir íslenskar frásagnarbókmenntir fram til siðaskipta. Staðhættir og landfræði eru þar snar þáttur sem getur endurspeglað náttúruþekkingu sem er gerólík nútímanum. Því þarf meðal annars að reyna að átta sig á hugsanlegum tengslum bókmenntastarfsemi miðalda við þessa þætti og verkefni Jons fólst í því að taka saman gagnasafn um ritunarstaði handrita allt til siðaskipta. Jon er þjálfaður handritafræðingur (rithandarfræðingur) og skilaði afburðagóðri skrá sem getur haft víðtæk not fyrir ofangreint verkefni sem og fyrir marga aðra fræðimenn sem starfa á þessum vettvangi, að tengja landið og staðhætti við bókmenninguna.

Stelkur

Stelkur

Stelkur (Tringa totanus)


Vaðfuglar tilheyra allir sama ættbálki, strandfuglum (Charadriiformes), ásamt máfum og svartfuglum. Einkenni margra vaðfugla eru langur goggur, langir fætur og langur háls. Þeir eru dýraætur sem eta alls konar hryggleysingja og langur goggurinn er hentugur til að grafa eftir æti í leirum, tjarnarbotnum og jarðvegi. Vaðfuglar helga sér óðul og verpa pörin stök, en stundum er hægt að tala um að þeir verpi í dreifðum byggðum. Þetta getur átt við stelkinn þar sem hann verpur þéttast. Ungar eru bráðgerir og yfirgefa hreiðrið strax og þeir eru orðnir þurrir. Hjá flestum vaðfuglum ala báðir foreldrarnir önn fyrir ungunum. Kynjamunur er lítill hjá vaðfuglum.

Stelkur í Friðlandinu í Flóa.

Stelkur á flugi á Stokkseyri.

.

Nýfleygur stelksungi í Eyrarbakkafjöru.

.

Stelkur í vetrarbúningi í Hafnarfirði.

Ungur stelkur í vatnsnálarpolli við Eyrarbakka.

Útlit og atferli

Stelkurinn er meðalstór, hávær vaðfugl. Á sumrin er hann grábrúnflikróttur að ofan og ljósari að neðan, minnst flikróttur á kviði. Hvítur gumpur og vængbelti eru áberandi á flugi, stélið er þverrákótt. Hann er grárri að ofan og jafnlitari á veturna. Ungfugl er brúnleitur að ofan, með gula fætur.

Goggur er rauður með svartan brodd. Augun eru brún og augnhringur ljósgrænn. Fætur eru skærlitir, gulrauðir, standa aftur fyrir stél á flugi.

Á varpstöðvum er stelkurinn áberandi og tyllir sér gjarnan á staura með stél- og höfuðrykkjum og hefur hátt, ef honum finnst utanaðkomandi nálgast hreiður eða unga um of. Flýgur þá með stuttum, rykkjóttum vængjatökum. Flýgur annars hratt og beint. Er félagslyndur utan varptíma.

Hljóð stelksins eru breytileg, endurtekin stef, hræðsluhljóð og kallhljóð margvísleg.

Lífshættir

Fæðan er skordýr, ormar og áttfætlur til landsins; í fjörum marflær, smáskeljar, kuðungar, mýlirfur og þangflugulirfur. 

Stelkurinn heldur sig í graslendi og votlendi á sumrin en í fjörum á fartíma og á veturna. Hann gerir sér hreiður í graslendi eða mýrum, oft í óræktarlandi í þéttbýli, í túnjöðrum eða við bæi. Hreiðrið er vel falið í þúfnakolli eða sinu. Eggin eru fjögur og klekjast þau á 24 dögum. Ungar verða fleygir á 25–35 dögum.

Stelkshjón á góðri stund á Stokkseyri.

Stelkur á flugi á Stokkseyri.

Útbreiðsla og stofnstærð

Stelkurinn er að mestu farfugl. Flestir íslenskir stelkar fara af landi brott á haustin og hafa vetursetu á Bretlandseyjum og víðar í Vestur-Evrópu en 1.000–2.000 fuglar hafa vetrardvöl í fjörum á Suðvesturlandi og fáeinum öðrum lífríkum fjörum. Um 19% af öllum stelkum í heimi verpa hér á landi og er varpstofninn talinn vera um 75.000 pör.

Þjóðtrú og sagnir

Mjög lítið finnst í þjóðtrúnni um stelkinn. Ættkvíslarheitið, Tringa, merkir þann sem býr við ströndina. Á norrænum málum er hann ýmist kenndur við rauða eða háa fætur og gæti íslenska heitið og svipuð heiti allt eins táknað „háfætta fuglinn sem gengur sperringslega“.

 

Að skálabrekku

Hér stend ég aftur á brekkunnar brún og horfi
á blálygnt djúpið með himinhvolf sitt og fjöll. 
En jaðraki, stelkur og hrossagaukur hamast
við hljómleika sína í nánd við iðgrænan völl. 

Úr kvæðinu Að Skálabrekku eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson

 

 

 

Myndir og texti eftir Jóhann Óla Hilmarsson

Hrútaber

Hrútaber

Hrútaber

Vissir þú að hrútaber eru af rósaætt? Blómin eru hvít en berin fallega rauð. Hrútaber vaxa á láglendi á Íslandi og myndar plantan oft langar jarðlægar renglur sem kallaðar hafa verið skollareipi eða tröllareipi. Berin eru gómsæt í hlaup og passa vel með villibráð. 
Kantarella

Kantarella

Kantarella

Vissir þú að kantarella vex í þyrpingum í skógarrjóðrum innan um birki og lynggróður? Kantarella er eftirsóttur matsveppur víða um heim en hann er ekki algengur hér á landi. Kantarella er rifsveppur sem þekkist á því að neðan á hattinum eru rif eða ávalir hryggir en ekki eiginlegar fanir. 

Náttúruminjasafnið eignast stórmerkilegt steinasafn á Breiðdalsvík

Náttúruminjasafnið eignast stórmerkilegt steinasafn á Breiðdalsvík

Náttúruminjasafnið eignast stórmerkilegt steinasafn á Breiðdalsvík

Náttúruminjasafn Íslands undirbýr nú móttöku á einu stærsta og merkasta safni af holufyllingum og bergi í landinu – steinasafni Björns Björgvinssonar frá Höskuldsstaðaseli í Breiðdal. Safnkosturinn, sem er 10 til 15 þúsund eintök, samanstendur að grunni til af þremur steinasöfnum sem Björn eignaðist og forðaði frá glötun eða yrðu seld úr landi – steinasöfnum Reynis Reimarssonar og Kjartans Herbjörnssonar, sem báðir eru úr Breiðdal, og safni Svavars Guðmundssonar. Stærstur hluti steinanna er úr Breiðdal og nærliggjandi sveitum.

Meginmarkmið Náttúruminjasafnsins með móttöku steinasafns Björns er að tryggja heildstæða og faglega varðveislu á þessum merka hluta af náttúruarfi Íslands og nýta safnkostinn í fræðslu- og upplýsingaskyni fyrir almenning og fræðasamfélagið – og öðrum þræði til að styrkja innviði á Austfjörðum í tengslum við ferðaþjónustu.

Frá Höskuldsstaðaseli. Frá vinstri: Ómar Bjarki Smárason, jarðfræðingur, Líneik Anna Sævarsdóttir, þingmaður, Madison Lin MacKenzie og Irma Gná Jóngeirsdóttir, jarðfræðingar.

Verkefnið hefur verið í deiglunni í rúm þrjú ár. Frumkvæði að aðkomu Náttúruminjasafnsins að verkefninu og dyggur hvatamaður þess er Ómar Bjarki Smárason jarðfræðingur og eigandi Stapa ehf. – jarðfræðistofu. Ómar Bjarki og Björn Björgvinsson voru frumkvöðlar að stofnun Breiðdalsseturs árið 2008 í gamla kaupfélagshúsinu á Breiðdalsvík, en setrið er tileinkað enska eldfjallafræðingnum dr. Georg P.L. Walker (1926–2005) og málvísindamanninum Stefáni Einarssyni prófessor (1897–1972) sem ættaður var frá Höskuldsstöðum í Breiðdal. Vænst er góðrar samvinnu við Breiðdalssetur og fyrirhugað rannsóknasetur Háskóla Íslands þar um fræðslu og rannsóknir á safnkostinum.

Skriður komst á verkefnið í sumar þegar tveir jarðfræðingar á vegum Náttúruminjasafnsins, Irma Gná Jóngeirsdóttir og Madison Lin MacKenzie, unnu við fullnaðarskráningu og myndatöku á safnkostinum í Höskuldsstaðaseli. Starf jarðfræðinganna var að hluta til styrkt af átaki Vinnumálastofnunar um sumarstörf námsmanna vegna COVID-19 veirufaraldursins. Verkið gekk mjög vel og er ráðgert að ljúka skráningu og frágangi sýna næsta sumar.

Safnkosturinn verður varðveittur og hýstur til frambúðar í Breiðdal. Stefnt er að því að setja upp sýningu á Breiðdalsvík og er nú verið að athuga með húsnæði til sýningahaldsins í samráði við heimamenn.

Jarðfræðingarnir Irma Gná og Madison Lin við skráningarstörf.

Þess má geta að í safnkosti Björns er að finna stóreflis fægða granítsteina eftir Sigurð Guðmundsson, hinn kunna listamann sem er m.a. höfundur Eggjanna á Djúpavogi og Fjöruverksins við Sæbraut í Reykjavík. Sigurður hefur sýnt því mikinn áhuga að koma að uppsetningu hnullunganna á Breiðdalsvík.

Það er mikill fengur að því fyrir opinbera fræðslustofnun á borð við Náttúruminjasafnið og þar með ríkið að eignast safnkost sem þennan, sérstaklega þar sem hann hentar vel til sýningahalds og almenningsfræðslu. Þá er vísindalegt gildi safnkostsins afar mikið vegna óvenju ítarlegrar skráningar á fundarstað eintaka sem nýtist vel til rannsókna. Mörg sjaldgæf eintök hafa jafnframt mikið fágætisgildi og enn önnur eru undurfagrir skrautsteinar með mikið fagurfræðilegt gildi.

Stefnt er að því að opna sýningu um þennan merkilega safnkost Björns Björgvinssonar á Breiðdalsvík ekki síðar en sumarið 2022.