Þjóðtrú og sagnir
Fátt er um svo sjaldgæfan fugl í íslenskri þjóðtrú. Kunnasti varpstaður þórshana – líklega á heimsvísu – var um tíma á Eyrum, nærri Hraunsárósi. Þangað sóttu fuglaskoðarar og eggjasafnarar víða að til að berja þennan sjaldgæfa fugl augum eða ræna eggjum hans. Hann hvarf að mestu frá Eyrum um eða uppúr 1980. Ísólfur Pálsson frá Stokkseyri, faðir Páls tónskálds og organista, segir svo frá: „Þórshaninn, hinn undurfallegi miðsumarsfugl, sem kemur hingað aðeins til að verpa og er svo horfinn áður en varir, á einnig skilið að kallast hygginn. Spói er að vísu klókur, heiðlóa hyggin og jaðrakan jafnslungið að láta ekki vita um eggin sín, en þórshaninn er þeim öllu snjallari í klókindum. Hann verpur á þröngum stöðum, á vatnafitjum, heiðabörðum nálgægt vötnum, á sjávarbökkum og oft í götubrúnum við alfaravegi, og er þá vanur að liggja kyrr, hversu mikil umferð sem er, og unga þannig út í næði. Fljúgi hann af eggjum, fer hann beint uppí loftið, bregður máske á leik og flýgur svo í sama hasti eitthvað langt burt og sezt á vatn eða sjó. Fari maður svo á eftir honum, situr hann oftast uppi á þurru, er að er komið, og er að kroppa sig, læzt ekki taka eftir neinu, og má ganga mjög nærri honum án þess hann styggist. Kvenfuglinn hagar sér líkt og karlfuglinn. Það þykir merki þerritíðar, ef þórshanar og óðinshanar verpa lágt, sem kallað er. Þeir verpa t.d. stundum niðri í vatnsfarvegum, er lágt er í, og er margreynt, að ekki rignir svo mikið útungunartímann (3 vikur), að það komi að sök, þó að lega hreiðranna sé þannig, að það ekki þurfi nema eins dags regn til þess að flæði yfir það. Verpi þeir aftur á móti hátt í heiðabörðum, þó að vatnslítið sé og þurrkar hafi gegnið, þá mun varla bregðast, að rosi og óþerritíð komi, er að túnaslætti líður. Og oft hefur vaxið svo í vötnum, að flætt hafi upp að hreiðrum þeirra, en ekki lengra.“ (Eimreiðin 1941 (47, 4): 396-401).