“Mikill er máttur safna”

“Mikill er máttur safna”

„Mikill er máttur safna“

Í tilefni af Alþjóðlega safnadeginum 18. maí fjallar Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður Náttúruminjasafnsins um söfn og safnastarf.
Hér má sjá kynningarmyndband Náttúruminjasafnsins sem gert var í tilefni af tilnefningu til evrópsku safnaverðlaunanna.  

Alþjóðlegi safnadagurinn er haldinn hátíðlegur 18. maí ár hvert að frumkvæði Alþjóðaráðs safna (International Council of Museums, ICOM). Í ár er safnadagurinn haldinn undir yfirskriftinni „Mikill er máttur safna“ (e. The Power of Museums).

Megintilgangur safnadagsins er að vekja athygli á menningar- og samfélagslegu mikilvægi safna og starfsemi þeirra. Máttur safna felst einkum í faglegri starfsemi þeirra á sviði gagnaöflunar, varðveislu, rannsóknum og opnu, lýðræðislegu aðgengi að menningar- og náttúruarfinum með miðlun á þekkingu á honum til samfélagsins. Viðfangsefni safna tekur til fortíðar, nútíðar og framtíðar og hlutverk safna felst þ.a.l. í að tengja og byggja brýr milli tímaskeiða, stuðla að samfellu, styrkja rætur og búa í haginn fyrir komandi tíma og kynslóðir – að treysta og efla grundvöllinn fyrir sjálfbært, farsælt og hamingjuríkt líf.

Askja í Dyngjufjöllum í Ódáðahrauni er merkt með rauðum punkti á kortið.
Náttúruvísindi og tækni – Hvert er erindi þeirra og áhrif í samfélaginu?
Askja í Dyngjufjöllum. Öskjuvatn fyllir yngstu öskjuna og má sjá móta fyrir hinum eldri. Suðurbotnar eru merktir með gulum punkti. (Gervitunglamynd frá NASA).
Um 300 gestir sátu ráðstefnuna, fylgdust með kynningu á starfsemi 60 tilnefndra safna. Hér má sjá fulltrúa Náttúruminjasafnsins í salnum.

Leiðarljós safnsins

Náttúruminjasafn Íslands hefur framangreind atriði að leiðarljósi í starfsemi sinni. Máttur safnsins, líkt og allra safna, byggir á starfsfólkinu, mannauðnum. Sýningahald, jafnt gerð þess, uppsetning og rekstur, er ein birtingarmynd af vinnu og afrakstri starfsfólksins. Vatnið í náttúru Íslands, sýning Náttúruminjasafnsins í Perlunni er ljómandi gott dæmi um mátt safnsins. Þar hefur tekist afar vel til. Aðsókn hefur verið með miklum ágætum þrátt fyrir áhrif COVID-19, og verið á bilinu 50 þúsund til nær 200 þúsund á ári, með flesta gesti árið 2019, á fyrsta heila starfsárinu fyrir COVID-19. Langflestir gestir eru erlendir ferðamenn en sérlega ánægjulegt er að sjá hve vel fjölskyldur með ung börn sækja sýninguna, einkum á sérstaka viðburði um helgar sem tileinkaðir eru fjölskyldufólki og safnkennarar og sérfræðingar safnsins sjá um. Þá er afar gaman að segja frá því að grunnskólar nýta sér mjög vel þjónustu safnkennaranna enda er vel vandað til móttöku barnanna og boðið upp á fjölbreytta fræðslu og verkefni.

 

Horft í suður yfir Öskjuvatn.
Tilnefning Náttúruminjasafnsins til EMYA22 var staðfest með sérstöku heiðursskjali. Hér má sjá þau Álfheiði Ingadóttur og Hilmar J. Malmquist sem tóku við skjalinu.

Mikill heiður og viðurkenning

Sýningin Vatnið í Náttúru Íslands hefur hlotið verðlaun og tilnefningar fyrir jafnt einstök sýningaratriði sem sýninguna í heild, starfsemi safnsins og framtíðarsýn þess. Hér má nefna hin eftirsóttu, alþjóðlegu Best of the Best-Red Dot hönnunarverðlaun sem safnið hlaut árið 2019 ásamt margmiðlunarfyrirtækinu Gagarín fyrir þrjár gagnvirkar margmiðlunarstöðvar í sýningunni og árið 2020 þegar Vatnið í náttúru Íslands var tilnefnt til Íslensku safnaverðlauna.
Stærsta viðurkenningin verður þó að teljast tilnefning Náttúruminjasafns Íslands til Evrópsku safnaverðlaunanna 2022 (EMYA22). Tilnefningin byggði jafnt á sýningu safnsins í Perlunni, Vatnið í náttúru Íslands, á grunnstarfsemi safnsins á sviði rannsókna og miðlunar almennt og á framtíðarsýn og áformum um nýjar höfuðstöðvar á Seltjarnarnesi, Náttúruhúsinu í Nesi, sem væntanlega verða opnaðar eftir 2–3 ár. Það var mikill heiður og viðurkenning fyrir Náttúruminjasafnið að komast í úrslit og vera á meðal 60 annarra safna af margvíslegu tagi í þessari stærstu keppni meðal safna, en söfn af hvaðeina tagi munu vera hátt á fjórða tug þúsunda í Evrópu.

Tilnefning Náttúruminjasafns Íslands til Evrópsku safnaverðlaunanna er sú fjórða meðal íslenskra safna. Síldarminjasafnið á Siglufirði vann Evrópuverðlaun safna 2004 sem besta nýja iðnaðarsafn álfunnar; Þjóðminjasafn Íslands hlaut sérstaka viðurkenningu 2006 fyrir endurnýjaða grunnsýningu safnsins og á árinu 2008 var Minjasafn Reykjavíkur tilnefnt fyrir Landnámssýninguna Reykjavík 871±2 í Aðalstræti.

 

Brotsár eftir berghlaup í Suðurbotnum í júlí 2014.
Þjóðminjasafn Eista í Tartu er byggt í framhaldi af flugbraut á herflugvelli sem Rússar reistu á sínum tíma. Til vinstri á myndinni má sjá leifar af gamla safninu sem var sprengt í loft upp í síðari heimsstyrjöldinni.

EMYA22

Verðlaunahátíð Evrópsku safnaverðlaunanna og ráðstefna fór fram í Þjóðminjasafni Eista í Tartu, Eistlandi, dagana 4.–7. maí s.l.  Um 300 ráðstefnugestir voru mætti til leiks, þar á meðal undirritaður og ritstjóri safnsins Álfheiður Ingadóttir fyrir hönd Náttúruminjasafns Íslands. Þéttskipuð dagskrá hófst kl. 9 hvern dag með erindum frummælenda, örerindum og pallborðsumræðum og lauk með verðlaunaafhendingu og kvöldverði. Náttúruminjasafninu var skipað ásamt fjórum öðrum söfnum í málstofu um náttúruvísindi og samfélagslegt hlutverk í staðbundu og hnattrænu samhengi. Til hliðsjónar voru lagðar fram spurningar um hvernig náttúrusöfn geta stuðlað að vernd náttúru og aukinni meðvitund um umhverfið og hins vegar hvaða leiðir söfn geta farið til að auka aðgengi og þátttöku mismunandi hópa og gesta í sýningum og starfsemi safna.

Jarðlagaopna eftir flóðbylgjuna í Öskjuvatni í júlí 2014.
Forseti Eista, Alar Karis, sem er fyrrverandi þjóðminjavörður í Eistlandi, ávarpaði gesti við verðlaunaafhendinguna.
Sethólar eftir flóðbylgjuna í Öskjuvatni í júlí 2014.
Museum of the Mind – hollenskt safn í Amsterdam og Harlem sem fjallar um geðheilsu manna hlaut aðalverðlaun hátíðarinnar – Safn Evrópu 2022.

Þríþætt erindi Náttúruminjasafnsins

Í erindi mínu kynnti ég stuttlega gerð, eðli og inntak sýningarinnar Vatnið í náttúru Íslands og lagði áherslu einkum á þrennt. Í fyrsta lagi á margvísleg náttúrufræðileg sérkenni vatnsauðlindarinnar á Íslandi og vistfræðileg tengsl bæði á staðbundna og hnattræna vísu, sem og að vatnsauðlindin væri ekki eins og hver önnur verslunarvara eða gæði sem hægt væri að fara óvarlega með. Í annan stað lagði ég áherslu á mikilvægi safnkennara og sérfræðinga varðandi fræðslu og þjónustu við skólakerfið, auk þess að beita nýstárlegri margmiðlunartækni við miðlunina, sér í lagi gagnvart ungum gestum sem iðulega eru nýjungagjarnir og fúsir og fljótir að læra og beita nýjustu tækni. Í þriðja lagi lagði ég áherslu á mikilvægi vísindalegrar þekkingar og rannsókna sem grundvöll að vandaðri og áhugaverðri frásögn og miðlun. Hér tæpti ég á helstu rannsóknum Náttúruminjasafnsins og samstarfsaðila sem eru aðallega á sviði líffræðilegrar fjölbreytni, fornlíffræði og náttúrusögu og náttúruspeki.

Líffræðileg fjölbreytni er lykilstef í starfsemi Náttúruminjasafnsins. Hilmar J. Malmquist kynnir safnið á ráðstefnu Evrópskra safna.

Varðandi líffræðilega fjölbreytni hvatti ég ráðstefnugesti sérstaklega til að huga vel að skilgreiningu hugtaksins, s.s. að tengja það ekki einvörðungu við fjölda tegunda heldur líta ekki síður til tengsla og víxlverkana milli lífvera, ólífrænna þátta og umhverfisins. Þá minnti ég á brýningu António Guterres aðalritara SÞ í skýrslunni „Semjum frið við náttúruna“ (e. „Making peace with nature“) sem kom út í febrúar 2021 þess efnis að mannkyn verði að taka líffræðilega fjölbreytni sömu tökum og koma málefninu á sama stall og gert hefur verið varðandi loftslagsmálin, ella blasi við hrun líf- og efnahagskerfa og fótunum verði kippt undan tilvist mannsins.

Máttur safna er sannarlega mikill svo framarlega sem þeim er búinn umgjörð til að starfa faglega og í þágu almennings og samfélagsins í heild. Þannig tryggjum við menningar- og náttúruarfinn og aðgengi að honum á besta hátt og þar með grundvöllinn að tilveru okkar og farsælli framtíð.

 

Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður

Þórshani

Þórshani

Þórshani (Phalaropus fulicarius)

Þórshani er sundhani, líkt og óðinshani og amerískur frændi þeirra, freyshani.

Þórshani er dálítið stærri en óðinshani. Sumarbúningur hans er rauðbrúnn að neðan en með áberandi ljósum og dökkum röndum að ofan. Kvenfugl er með svartan koll, goggrót og kverk og hvítan vanga, karlfugl er litdaufari, með rákóttan koll og oft með ljósa bletti á bringu og kviði. Vængbelti eru hvít. Á veturna er þórshani ljósblágrár að ofan en ljós að neðan, með dökka augnrák. Ungfugl er svipaður en dekkri á kolli, hnakka, baki og síðum. Goggur er gulur, nema dökkur fremst, og gildari en goggur óðinshana; hann dökknar á veturna. Fætur eru gráleitir með gulum sundblöðkum, augu dökk.

Þórshani sést oftast á sundi, hann er hraðfleygur þegar hann hefur sig á loft. Þórshani liggur hátt í vatninu og skoppar á vatnsborðinu. Hann er gæfur, eins og óðinshani.

Þórshani er líkur óðinshana í háttum. Í tilhugalífinu á kvenfuglinn frumkvæðið og það er karlfuglinn sem sér um álegu og ungauppeldi, en kerlan lætur sig hverfa strax eftir varpið og getur stundum verið í tygjum við fleiri en einn karl (fjölveri). Dömurnar safnast saman í hópa og frílista sig meðan karlarnir streða við uppeldið. Þessi femínismi er líka við lýði hjá hinum sundhönunum: óðinshana og freyshana.

Röddin er lík rödd óðinshana, en hvellari.

Þórshanahjón, kerlan til hægri.

Þórshanahjón, kerlan til vinstri.

Lífshættir

Notar svipaðar aðferðir við fæðuöflun og óðinshani, hann hringsnýst á sundi og þyrlar upp fæðu, dýfir gogginum ótt og títt í vatnið og tínir upp smádýr eins og rykmý, brunnklukkur, smákrabbadýr, tínir einnig rykmý af tjarnarbökkum og landi.  Úti á sjó etur hann svif. Í fjörum tekur hann þangflugulirfur, doppur og önnur smáskeldýr.

Er meiri sjófugl en óðinshani. Á sumrin heldur hann sig helst við sjávarlón, í fjörum með þanghrönnum og á grónum jökulaurum með tjörnum og lækjum. Hreiðrið er grunn laut, falin í gróðri. Eggin eru fjögur, útungun tekur 18-20 daga og ungar verða fleygir á 16-20 dögum.

Stofnstærð og útbreiðsla

Hér eru aðeins tæplega 300 fuglar í smáum byggðum umhverfis landið. Þórshani er með sjaldgæfustu varpfuglum okkar og er í útrýmingarhættu. Hann er á válista sem tegund í hættu (EN) og er stranglega bannað að nálgast hreiður hans nema með leyfi umhverfisyfirvalda. Þórshani dvelur aðeins 1−2 mánuði á varpstöðvunum. Fuglar sem sjást fram í október eru ef til vill fargestir frá heimskautalöndum. Talið er að vetrarstöðvarnar séu í Atlantshafi, nálægt miðbaug. Þórshani er hánorrænn fugl sem verpur víða við strendur landanna umhverfis Norðurheimskautið en þó hvergi í Evrópu nema á Íslandi, Svalbarða og Novaja Zemlja.

Þórshanakarl á flugi.

Þórshanahjón, karlinn ofar.

Þjóðtrú og sagnir

Fátt er um svo sjaldgæfan fugl í íslenskri þjóðtrú. Kunnasti varpstaður þórshana – líklega á heimsvísu – var um tíma á Eyrum, nærri Hraunsárósi. Þangað sóttu fuglaskoðarar og eggjasafnarar víða að til að berja þennan sjaldgæfa fugl augum eða ræna eggjum hans. Hann hvarf að mestu frá Eyrum um eða uppúr 1980. Ísólfur Pálsson frá Stokkseyri, faðir Páls tónskálds og organista, segir svo frá: „Þórshaninn, hinn undurfallegi miðsumarsfugl, sem kemur hingað aðeins til að verpa og er svo horfinn áður en varir, á einnig skilið að kallast hygginn. Spói er að vísu klókur, heiðlóa hyggin og jaðrakan jafnslungið að láta ekki vita um eggin sín, en þórshaninn er þeim öllu snjallari í klókindum. Hann verpur á þröngum stöðum, á vatnafitjum, heiðabörðum nálgægt vötnum, á sjávarbökkum og oft í götubrúnum við alfaravegi, og er þá vanur að liggja kyrr, hversu mikil umferð sem er, og unga þannig út í næði. Fljúgi hann af eggjum, fer hann beint uppí loftið, bregður máske á leik og flýgur svo í sama hasti eitthvað langt burt og sezt á vatn eða sjó. Fari maður svo á eftir honum, situr hann oftast uppi á þurru, er að er komið, og er að kroppa sig, læzt ekki taka eftir neinu, og má ganga mjög nærri honum án þess hann styggist. Kvenfuglinn hagar sér líkt og karlfuglinn. Það þykir merki þerritíðar, ef þórshanar og óðinshanar verpa lágt, sem kallað er. Þeir verpa t.d. stundum niðri í vatnsfarvegum, er lágt er í, og er margreynt, að ekki rignir svo mikið útungunartímann (3 vikur), að það komi að sök, þó að lega hreiðranna sé þannig, að það ekki þurfi nema eins dags regn til þess að flæði yfir það. Verpi þeir aftur á móti hátt í heiðabörðum, þó að vatnslítið sé og þurrkar hafi gegnið, þá mun varla bregðast, að rosi og óþerritíð komi, er að túnaslætti líður. Og oft hefur vaxið svo í vötnum, að flætt hafi upp að hreiðrum þeirra, en ekki lengra.“ (Eimreiðin 1941 (47, 4): 396-401).

Óðinshana- og þórshanahjón, frá vinstri: óðinshanakerla, óðinshanakarl, þórshanakarl og þórshanakerla.

Þórshanahjón á góðri stundu.

Ungur þórshani á fyrsta hausti.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson
Opnun jöklavefsjár

Opnun jöklavefsjár

Opnun jöklavefsjár

Sunnudaginn 20. mars kl. 14 verður ný íslensk jöklavefsjá islenskirjoklar.is kynnt í stjörnuveri Perlunnar. Viðburðurinn er haldinn á vegum Náttúruminjasafns Íslands og Jöklarannsóknafélags Íslands.

Jöklavefsjáin er samstarfsverkefni Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskólans, Jöklarannsóknafélags Íslands, Landsvirkjunar, Landmælinga Íslands og Náttúrustofu Suðausturlands.

Helgi Björnsson og Oddur Sigurðsson jöklafræðingar opna jöklavefsjána en auk þeirra munu sérfræðingar Veðurstofu Íslands, Jarðvísindastofnunar Háskólans og Landsvirkjunar fjalla um jöklamælingar, sýna ljósmyndir af jöklum og fara yfir virkni vefsjárinnar og gögn sem hún sýnir.

Að kynningum loknum mun Hilmar Malmquist forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands bjóða gestum á sýningu safnsins, Vatnið í náttúru Íslands, og „Vorferð“, sérsýningu um sögu Jöklarannsóknafélags Íslands (JÖRFÍ).

Jöklavefsjáin kemur upplýsingum um jökla og jöklabreytingar á framfæri við almenning og áhugafólk um náttúruvísindi og áhrif loftslagsbreytinga á náttúru landsins. Vefsjáin birtir mælingar og yfirlit um rannsóknir og breytingar á íslenskum jöklum, þar á meðal sporðamælingar og gögn um útbreiðslu og afkomu jöklanna. Einnig eru fjölmargar ljósmyndir frá mismunandi tímum aðgengilegar í vefsjánni. Samanburðarljósmyndir sem teknar eru á sama stað með sama sjónarhorni sýna skýrt breytingarnar sem eru að verða á íslensku jöklunum með sívaxandi hraða. Hægt er að nálgast mæligögn og athuganir sem safnað er með reglubundnum hætti af innlendum stofnunum, fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum. Gagnasafnið verður uppfært jafnharðan og nýjar mælingar eru gerðar.

 

Jöklavefsjáin býður upp á fjölmargar ljósmyndir af jöklum sem sýna vel þær sláandi breytingar sem orðið hafa á jöklum hér á landi á síðustu áratugum. Meðal þeirra eru samanburðarmyndir sem teknar eru á sama stað með sama sjónarhorni eða unnar í tölvu til þess að sýna slíkan samanburð. Myndirnar af Fjallsjökli hér að ofan eru unnar af Kieran Baxter við Háskólann í Dundee og byggja á loftmynd frá Landmælingum Íslands frá 1988 og ljósmynd tekinni úr flygildi árið 2021.

Jón Eyþórsson skoðar klakahöll í Esjufjöllum um páskana 1951 (úr ljósmyndasafni Sigurjóns Rist).

Skrofa

Skrofa

Skrofa (Puffinus puffinus)


Skrofa er meðalstór, rennilegur og grannvaxinn sjófugl. Hún er svört að ofan og hvít að neðan með langa og mjóa vængi og afar flugfim. Hvíti liturinn að neðan er bryddur svörtu og vængbroddar og stéljaðrar eru dökkir. Stélið er stutt. Ungfugl er eins og fullorðinn og kynin eru eins. Skrofa er af fýlingaætt og ættbálki pípunasa, eins og fýll, sæsvölur, albatrosar og fleiri sjófuglar. Goggur er mjór, dökkur, krókboginn í endann með stuttum nasapípum. Fætur eru bleikir með grábláum yrjum, augu dökkbrún.

Skrofur eru oftast í hópum. Þær koma aðeins í byggðirnar að næturlagi en safnast í stóra hópa nærri þeim síðdegis. Skrofan flýgur lágt yfir haffleti og veltir sér á fluginu, svo til að sjá eru hóparnir annaðhvort svartir eða hvítir. Á sundi minnir hún á svartfugl en er léttsyndari. Eltir sjaldan skip. Skrofan er þögul, nema á varpstöðvum heyrast ýmiss konar óp, skrækir og vein. Hægt er að kyngreina fugla á hljóðunum.

Skrofa á flugi á Flóanum, Vestmannaeyjum.

Skrofur á sundi á Flóanum, Vestmannaeyjum.

Skrofur á flugi við Elliðaey, Vestmannaeyjum.

Skrofur að hefja sig til flugs á Flóanum, Vestmannaeyjum. Þær þurfa að hlaupa á vatninu til að ná flugi.

Lífshættir

Skrofur leita ætis í hópum. Skrofan tekur fisk (t.d. sandsíli og síld), átu (krabbadýr) og smokkfisk, kafar grunnt frá yfirborði eða stingur sér úr lítilli hæð.

Skrofan er úthafsfugl sem kemur ekki á land nema til að verpa. Verpur í þéttum byggðum á grasi vöxnum eyjum og höfðum. Gerir sér hreiður í holu sem hún grefur í svörð, oft innan um lunda. Eggið er aðeins eitt og útungunar- og ungatími er langur og skiptast foreldrarnir á: álegan tekur rúmar 7 vikur og unginn er í hreiðri í 10 vikur, aðalflugtími hans er í fyrri hluta september.

Skrofur á flugi á Flóanum, Vestmannaeyjum.

„Vatnsskerinn frá Mön“, skrofa á flugi við Elliðaey.

Útbreiðsla og stofnstærð

Skrofan verpur í Vestmannaeyjum, stærsta varpið er í Heimakletti, en hún er einnig í öðrum grónum eyjum. Þetta eru nyrstu varpstöðvar hennar í heiminum. Skrofunni virðist hafa fækkað vegna fæðuskorts á síðustu árin, eins og flestum öðrum sjófuglum. Sést víða við Suður- og Suðvesturland frá vori fram á haust. Einhver besti staður til að skoða skrofur á meginlandinu er í Garði, oftlega er skrofuhópur skammt norðan við höfnina og svo sjást þær á flugi við Garðsskaga. Skrofan er langlíf eins og aðrir pípunasar, Íslandsmetið á fugl sem höfundur þessa pistils merkti á hreiðri í Ystakletti 10. júní 1991, þá að minnsta kosti 6 ára gömul. Hún er enn að, fannst á hreiðri í klettinum í júní 2021.

Skrofa er á válista sem tegund í nokkurri hættu (VU). Henni virðist hafa fækkað frá því að stofninn var fyrst metinn 1991 og er hann nú talinn vera 3000-5000 pör.

Höfuðstöðvar skrofunnar eru á Bretlandseyjum en hún hefur nýlega numið land vestanhafs á Nýfundnalandi. Verpur auk þess í Færeyjum, lítils háttar á eyjum við Bretagne í Frakklandi, á Azoreyjum, Madeira og Kanaríeyjum. Vetrarstöðvar íslenskra skrofa eru við strendur Suður-Ameríku allt suður til Argentínu og Eldlands. Fuglarnir fljúga hring um Atlantshafið á þessum ferðum sínum. Íslenskar skrofur geta leitað allt til Biskajaflóa eftir æti á varptíma.

Skrofa á flugi við Elliðaey, Vestmannaeyjum.

Skrofur á flugi við Elliðaey, Vestmannaeyjum.

Þjóðtrú og sagnir

Á ensku er skrofan kennd við eyna Mön: Manx Shearwater, sem þýðir „vatnsskerinn frá Mön“. Þar og víðar á varpstöðvum hennar í Evrópu er hún tengd hinu illa og stafar það af hljóðunum, sem hún gefur frá sér í vörpunum að næturlagi, þau geta verið ískyggileg þegar skrofan flýgur framhjá í myrkrinu. Fólk átti erfitt með að heimafæra þau uppá nokkra dauðlega veru. Þýskumælandi sæfarendur hafa gjarnan nefnt tegundina djöflafugl (Teufelsvogel) sökum hljóðanna. Engin þjóðtrú virðist hafa skapast hérlendis, á varpstöðvunum í Eyjum, kannski vegna hinna björtu sumarnótta hér á norðurmörkum útbreiðslu skrofunnar?

Skrofa í Ystakletti, Vestmannaeyjum.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson

Gráþröstur

Gráþröstur

Gráþröstur (Turdus pilaris)


Gráþrösturinn er líkur skógarþresti en töluvert stærri og stéllengri. Hann er grár á höfði og gumpi, rauðbrúnn á baki og vængjum og gulleitur með dökkum dröfnum á bringu og síðum, ljós á kviði. Stélið er langt og svart. Goggurinn er gulur með dökkan brodd, fætur og augu dökk. Gefur frá sér hrjúft, hvellt og endurtekið „tsjakk“. Söngurinn er hröð runa fremur veikra, ískrandi hljóða.

Gráþröstur grípur til renniflugs með aðfelldum vængjum milli þess sem hann blakar þeim á flugi. Er var um sig og styggur, en getur verið yfirgangssamur og frekur gagnvart öðrum fuglum, sérstaklega þröstum, þar sem honum er gefið. Fuglarnir sjást stakir eða í hópum, bæði stórum og litlum.

Gráþröstur í skurði í Ölfusi.

Lífshættir

Fæða gráþrastar er svipuð og hjá skógarþresti. Hér sækja gráþrestir mest í garða þar sem epli, perur og aðrir ávextir standa til boða, sem og feitmeti, einnig eru ber vinsæl meðan þeirra gætir. Þeir sækja einnig í fjörur og taka þangflugur og fleira.

Gráþröstur gerir sér veglegt hreiður í trjám. Eggin eru 5-6, útungunartíminn er 10-13 dagar og ungarnir verða fleygir á 12-15 dögum. Heldur til í skóglendi, görðum, við bæi og í fjörum.

Gráþrastarhreiður í lerki við Löngumýri í Skagafirði.

Gráþröstur grípur síðasta berið á alaskareyninum.

Útbreiðsla og stofnstærð

Gráþröstur er hér algengur haust- og vetrargestur. Hefur orpið af og til frá 1950, bæði norðanlands og sunnan. Nú síðast hafa 2-3 pör orpið á árlega á Akureyri, allavega frá árinu 2014. Stofninn hefur hvorki stækka né breiðist út. Varpheimkynni gráþrastar er á breiðu belti frá Skandinavíu og austur um Evrópu og Asíu.

Hvorki hafa myndast sagnir eða þjóðtrú, né ort hefur verið um svo sjaldgæfan fugl, svo kunnugt sé.

Gráþröstur gæðir sér á epli í Garðabæ.

Gráþröstur þenur sig á Selfossi.

Gráþröstur kúrir í vetrarkulda.

Myndir og texti: Jóhann Óli Hilmarsson